Landbúnaðarráðuneyti

301/1995

Reglugerð um eftirlit með sáðvöru.

Breytingareglugerðir:

I. KAFLI 

 Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Í reglugerð þessari er kveðið á um skilyrði fyrir framleiðslu, innflutningi og sölu sáðvöru af þeim tegundum sem eru taldar upp í 1. viðauka með reglugerð þessari og notuð eru sem sáðvara.

2. gr.

 Skilgreiningar.

Merking orða er í reglugerð þessari sem hér segir:

Sáðvara: Allt nytjajurtafræ sem er ætlað til garðræktar, túnræktar, grasflatagerðar, grænfóðurræktar, kornræktar, landgræðslu, iðnaðar eða til frekari fræræktar og er undir opinberu gæðaeftirliti.

Sáðkorn: Sáðvara eftirtalinna korntegunda: Hafrar (Avena sativa), bygg (Hordeum vulgare), rúgur (Secale cereale), hveiti (Triticum aestivum), rúghveiti (X Triticosecale).

Stofn: Viðurkenndur hópur plantna innan plöntutegundar sem er mælanlega frábrugðinn öðrum hópum sömu tegundar og sem heldur sérkennum sínum við fjölgun með fræjum. Skrá yfir viðurkennda stofna á alþjóðamarkaði er gefin út af OECD.

Framleiðslueining: Tiltekið magn sáðvöru af sama stofni og sem er áþekkt hvað uppruna og gæði varðar. Framleiðslueiningarnar eru gæðaprófaðar sem ein heild: hvað varðar smágerðar frætegundir (þar sem fræin eru minni en hveitifræ) eins og flest grasfræ o.fl., má þyngdin ekki fara meira en 5% yfir 10 tonn og hvað varðar stórgerðar frætegundir (þar sem fræin eru jafnstór eða stærri en hveitifræ), eins og bygg, hafrar, rúgur, ertur, flækjur, baunir o. fl., má þyngdin ekki fara meira en 5% yfir 25 tonn. Allar framleiðslueiningar skulu merktar með eigin númeri.

Rekstrareining: Með rekstrareiningu er átt við allt land sem nýtt er til ræktunar sáðvöru. Rekstrareining getur náð yfir fleiri en eitt jarðar- og notkunarnúmer og leiguland.

Ræktunarjörð fyrir grundvallarfræ (í sáðkorni eingöngu): Með ræktunarjörð fyrir grundvallarfræ er átt við jarðir sem eru sérstaklega viðurkenndar af aðfangaeftirlitinu til að rækta grundvallarfræ í sáðkorni.

Plöntuskoðun: Opinbert eftirlit með ræktunarsvæðum meðan á vaxtartímabilum stendur.

Samanburðarræktun: Ræktun á stofnum á vegum aðfangaeftirlitsins til að kanna, á vaxtartímanum, hreinleika og einsleitni stofna og smitsjúkdóma sem berast með fræjum.

Leiguhreinsun: Þurrkun, hreinsun, bæsun eða önnur meðhöndlun sáðkorns í atvinnuskyni.

Eftirlit rannsóknastofu: Gæðaprófanir með framleiðslueiningum fullhreinsaðra sáðvara sem fram fer á vegum aðfangaeftirlitsins.

Framleiðsla: Ræktun, hreinsun, pökkun, merking o.s.frv.

Sala: Sala í verslun, á markaði, uppboði eða sölutilboð í fjölmiðlum, gegnum áskrift, verðlista eða á annan viðurkenndan hátt.

Sölutímabil: Tímabilið frá 1. október til 30. september ári eftir ræktun.

Flokkur: Sáðvara sem er flokkuð eftir skilgreindum kröfum með tilliti til fjölgunar og gæða. Í þessari reglugerð er sáðvörum skipt í flokka F, P, B og C, auk D í sáðkorni, St í garðyrkjufræi og L fyrir landgræðslufræ. Í undantekningartilvikum og í tengslum við innflutning má einnig nota EB-flokkinn, "sölufræ". Sáðvara sem er viðurkennd samkvæmt einhverjum þessara flokka telst flokkað.

Ættliður: Ræktunarár sáðvöru í viðkomandi flokki. Ættliðarmerkingin er táknuð í þessari reglugerð með tölu (fjölda ræktunarára) aftan við flokksmerkinguna.

Kynbótafræ (flokkur F): Sáðvara sem stofneigandi eða umboðsmaður hans notar til viðhalds á stofni eða til ræktunar á grundvallarfræi eða stofnfræi.

Grundvallarfræ (flokkur P): Sáðvara sem er notuð til framleiðslu á stofnfræi og er á ábyrgð stofneiganda og uppfyllir kröfur sem gerðar eru til grundvallarfræs.

Stofnfræ (flokkur B): Sáðvara sem notuð er til frekari fræframleiðslu og er undir opinberu eftirliti. Stofnfræ er ræktað frá grundvallarfræi sem stofneigandi eða umboðsmaður hans leggur til, eða frá kynbótafræi sem fullnægir kröfunum sem eru gerðar til grundvallarfræs og er ræktað með samþykki stofneiganda. Stofnfræ verður að uppfylla gæðakröfur sem eru gerðar til flokksins stofnfræ.

Vottað fræ - (flokkur C): Sáðvara sem:
a. sáð er til með grundvallarfræi ef stofneigandi krefst þess eða er ræktað frá stofnfræi eða vottuðu fræi af fyrsta ættlið (C1) og uppfyllir gæðakröfurnar sem eru gerðar til flokksins vottað fræ;
b. ætlað er til sölu sem sáðvara til almennra neytenda eða til framleiðslu á vottuðu fræi af öðrum ættlið (C2), stöðluðu garðyrkjufræi (St) eða sáðkorni í flokki D.

Vottað sáðkorn - 1. ættliður af byggi, höfrum og hveiti (flokkur C1): Sáðkorn sem sáð er til með stofnfræi eða með grundvallarfræi og uppfyllir gæðakröfurnar sem eru gerðar til flokksins vottað sáðkorn - 1. ættliður.

Vottað sáðkorn - 2. ættliður af byggi, höfrum og hveiti (flokkur C2): Sáðkorn sem sáð er til með vottuðu sáðkorni af 1. ættlið, með stofnfræi eða grundvallarfræi og uppfyllir gæðakröfurnar sem eru gerðar til flokksins vottað sáðkorn - 2. ættliður.

Vottað sáðkorn af 2. ættlið er ekki hægt að nota til frekari ræktunar á sáðkorni sem sætir opinberu eftirliti.

Vottað sáðkorn af rúgi (C): Sáðkorn sem sáð er til með stofnfræi eða grundvallarfræi og uppfyllir gæðakröfurnar sem eru gerðar til flokksins vottað sáðkorn. Vottað sáðkorn af rúgi er ekki hægt að nota til frekari ræktunar á sáðkorni sem sætir opinberu eftirliti.

Sáðkorn af byggi, höfrum og hveiti (flokkur D): Sáðkorn sem sáð er til með vottuðu sáðkorni af 1. ættlið, með stofnfræi eða grundvallarfræi og uppfyllir gæðakröfurnar sem eru gerðar til flokks D. Sáðkorn af flokki D er ekki hægt að nota til frekari ræktunar á sáðkorni sem sætir opinberu eftirliti.

Sáðkorn af rúgi (flokkur D): Sáðkorn sem sáð er til með stofnfræi eða grundvallarfræi og uppfyllir gæðakröfurnar sem eru gerðar til flokks D. Sáðkorn af flokki D er ekki hægt að nota til frekari ræktunar á sáðkorni sem sætir opinberu eftirliti.

Staðlað fræ (flokkur St): Garðyrkjufræ sem er einkum ræktað með plöntuframleiðslu í huga. Staðlað fræ verður að uppfylla gæðakröfur sem eru gerðar til flokksins staðlað fræ.

Landgræðslufræ (flokkur L): Fræ sem er safnað eða ræktað á Íslandi og er ætlað til landgræðslu. Landgræðslufræ verður að uppfylla gæðakröfur sem eru gerðar til flokksins landgræðlsufræ.

Sérpakkningar (gildir ekki um garðyrkjufræ eða sáðkorn):
a. A-pakkning:
Pakkning með fræblöndum sem ekki eru ætlaðar til landbúnaðarnota, til dæmis sáðvara í grasflatir, að nettóþyngd í mesta lagi 2 kg.
b. B-pakkning:
Pakkning með vottuðu fræi af hreinum tegundum eða fræblöndum, að nettóþyngd í mesta lagi 10 kg.
c. C-pakkning:
Pakkning með stofnfræi eða grundvallarfræi að nettóþyngd í mesta lagi 50 kg.
d. D-pakkning:
Pakkning með vottuðu fræi af hreinum tegundum eða fræblöndum, að nettóþyngd í mesta lagi 25 kg.

Þyngdarmörkin sem eru gefin upp gilda um hreint fræ. Þyngd kornaðra varnarefna, húðunarefna eða annarra fastra aukefna er ekki reiknuð með.

Smápakkningar (gildir eingöngu um garðyrkjufræ): Pakkningar með vottuðu garðyrkjufræi eða stöðluðu garðyrkjufræi sem mega ekki hafa meiri nettóþyngd en hér greinir:

Tegundir

Hámarksþyngd nettó

Ertur, baunir, flækjur og tegundir með samsvarandi fræstærð

5 kg

Laukar, blaðlaukar, rófur, kál, spánskur pipar (paprika), síkoría, vatnsmelónur, agúrkur, gulrætur, salat, tómatar, hreðkur, spínat og tegundir með tilsvarandi fræstærð

500 g

Aðrar tegundir

100 g

Þyngdarmörkin sem eru gefin upp gilda um hreint fræ. Þyngd kornaðra varnarefna, húðunarefna eða annarra fastra aukefna er ekki reiknuð með.

Skammtapakkningar (gildir eingöngu um garðyrkjufræ):
Pakkningar með flokkuðu garðyrkjufræi sem mega ekki hafa meiri nettóþyngd en hér greinir:

Tegundir

Hámarksþyngd nettó

Stórgert fræ eins og ertur, baunir, flækjur o.fl.

100 g

Aðrar tegundir

30 g

Þyngdarmörkin sem eru gefin upp gilda um hreint fræ. Þyngd kornaðra varnarefna, húðunarefna eða annarra fastra aukefna er ekki reiknuð með. Óheimilt er að selja bæsaðar sáðvörur í skammtapakkningum.

3. gr. 

 Sáðvörulisti.

Sáðvöru má einungis rækta undir opinberu eftirliti og viðurkenna til sölu á Íslandi ef hún er af stofni sem er tilgreindur á sáðvörulista. Þó er hægt að viðurkenna garðyrkjufræ sem er ætlað til útflutnings til lands á EES-svæðinu, enda sé leyfilegt að nota umræddan stofn í innflutningslandinu.

4. gr. 

 Sáðvöruverslanir.

Einungis sáðvöruverslunum sem aðfangaeftirlitið viðurkennir skv. 7. viðauka er heimilt að flytja inn, flytja út, kaupa, hreinsa, blanda, pakka og selja sáðvöru. Ákvæði þetta gildir þó ekki um verslanir (smásöluverslanir) sem einvörðungu kaupa og selja áfram sáðvöru sem er í tilbúnum pakkningum frá viðurkenndri sáðvöruverslun.

5. gr. 

 Söluskilyrði.

Einungis er heimilt að selja sáðvöru sem uppfyllir kröfur þessarar reglugerðar. Sáðvara af þeim tegundum sem eru tilgreindar í 1. viðauka um viðurkenndar tegundir má selja samkvæmt þeim gæðakröfum og flokkum sem tilgreindir eru í 2. viðauka. Heimilt er að selja fræ af tegundinni Poa annua sem sáðvöru til neytenda að því tilskildu að það sé ósvikið miðað við tegund og merkt í samræmi við EES-reglur um sölufræ.

1. mgr. greinarinnar gildir ekki um:
a. Sáðvöru sem er seld til lands utan EES-svæðisins;
b. Sáðvöru sem er seld í vísindalegum tilgangi eða með kynbætur í huga;
c. Kynbótafræ sem eru seld til fjölgunar á ábyrgð stofneigenda;
d. Garðyrkjufræ sem eru ræktuð á Íslandi og seld sem sáðvara til viðurkenndrar sáðvöruverslunar fyrir hreinsun.

II. KAFLI 

 Eftirlit með ræktuninni.

6. gr. 

 Samningur.

Einungis má stunda frærækt undir opinberu eftirliti hafi skriflegur samningur verið gerður á milli viðurkenndrar sáðvöruverslunar og framleiðanda (8. viðauki). Hvað varðar garðyrkjufræ er einungis heimilt að stunda fræræktun sem er undir opinberu eftirliti á stofnum sem eru viðurkenndir fyrir slíka ræktun, sbr. 3. gr. Heimilt er að viðurkenna garðyrkjufræ sem er ætlað til útflutnings ef stofninn er viðurkenndur í innflutningslandinu. Ræktunin skal fara fram í samræmi við settar ræktunarreglur, sbr. 8. viðauka.

7. gr. 

 Tilkynning um ræktun.

Viðurkenndar sáðvöruverslanir skulu senda skriflega tilkynningu til aðfangaeftirlitsins um svæði þar sem plöntuskoðun á að fara fram og um framleiðslueiningar sem á að nota við samanburðarræktun (8. viðauki).

8. gr. 

 Plöntuskoðun og samanburðarræktun.

Aðfangaeftirlitið sér til þess að á vaxtartímabilum fari fram skoðun á fræökrum sem hafa verið tilkynntir til plöntuskoðunar og setur upp samanburðarræktun úr þeim framleiðslueiningum sem eru notaðar við ræktunina til að fylgjast með því að einingarnar uppfylli skilyrði fyrir viðurkenningu (8. viðauki). Sérmenntað starfsfólk skal annast skoðunina.

Aðfangaeftirlitið getur eftir því sem með þarf haft eftirlit með plöntustofnum af grundvallarfræi og stofnfræi.

Aðfangaeftirlitinu er heimilt að skoða rekstrareiningu, rými og húsnæði sem er notað til geymslu og meðhöndlunar á sáðvöru sem er undir opinberu eftirliti.

9. gr. 

 Fyrirframflokkun.

Þegar plöntuskoðunin og samanburðarræktunin hefur farið fram tilkynnir aðfangaeftirlitið skriflega um niðurstöðurnar. Hafi kröfurnar verið uppfylltar er veitt bráðabirgðaleyfi til ræktunar á akrinum í þeim flokki sem um ræðir. Ef ekki er unnt að veita slíkt leyfi er gefin út skrifleg tilkynning um ástæðuna/ástæðurnar fyrir synjuninni (8. viðauki).

III. KAFLI 

 Gæðaeftirlit og merkingar.

10. gr.

Gæðakröfur.

Sáðvara af viðurkenndum stofni telst því aðeins söluhæft á Íslandi að hún uppfylli gæðakröfur í 2. viðauka.

Aðfangaeftirlitið getur heimilað sölu úr flokkunum grundvallarfræ og stofnfræ enda þótt kröfum um spírunarhæfni sé ekki fullnægt, að því tilskildu að nota eigi fræið til frekari fjölgunar og seljandi gefi réttar upplýsingar um spírunarhæfni við sölu.

Heimila má sölu á garðyrkjufræi, án þess að ræktunareftirlit hafi farið fram, sem stöðluðu fræi (St) ef það fullnægir kröfum um einsleitni og hreinleika og uppfyllir gæðakröfur 2. viðauka. Sýni niðurstöður eftirlitsins að framleiðslueiningin uppfyllir ekki gæðakröfurnar í 2. viðauka má ekki selja hana á EES-svæðinu.

11. gr. 

 Sýnataka og greining.

Aðfangaeftirlitið skal taka sýni úr framleiðslueiningunum til eftirlits á rannsóknarstofu og samanburðarræktunar. Að ræktunartímanum loknum gefur aðfangaeftirlitið út samantekt um niðurstöður ræktunar sem fer fram undir opinberu eftirliti.

Kaupandi sáðvöru, sem er framleidd undir opinberu eftirliti, á rétt á upplýsingum frá sáðvöruversluninni eða aðfangaeftirlitinu um niðurstöður eftirlits með viðkomandi framleiðslueiningu.

12. gr. 

 Merkingar.

Við sölu skal hver pakkning, að frátöldum smápakkningum A, B, C og D og smápakkningum og skammtapakkningum, merkt með opinberum hætti samkvæmt A- og B-hluta í I. þætti 3. viðauka.

>Pakkningar með fræi af eftirfarandi tegundum skal merkja með hliðsjón af d-lið IV. hluta 3. viðauka: berjum, ávöxtum, skrúgarðaplöntum, kryddplöntum, lækningajurtum og skrautjurtum.

Aðfangaeftirlitið sér til þess að pakkningarnar séu merktar. Við opinbera merkingu má nota límmiða, áfestan merkimiða eða skrifa beint á umbúðirnar.

13. gr.

Vörulýsingar.

Allar pakkningar skulu vera með vörulýsingu sem uppfyllir kröfu C-hluta I. þáttar eða II. þáttar í 3. viðauka. Sé vörulýsingin ekki á íslensku skal íslensk þýðing fylgja með við sölu.

14. gr. 

 Ógilding.

Sýni niðurstöður eftirlitsins sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. að framleiðslueiningin uppfylli ekki gæðakröfur 2. viðauka skal aðfangaeftirlitið sjá til þess að merkingin verði fjarlægð. Hægt er að heimila útflutning á sáðkorni að því tilskildu að það uppfylli gæðakröfurnar í 2. kafla 2. viðauka. Aðfangaeftirlitið skal sjá til þess að sett verði ný merking á eininguna.

15. gr. 

 Sérmerkingar.

Pakkningar sem eru viðurkenndar samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skulu merktar með orðunum "Sáðvara til útflutnings".

Kröfurnar sem eru settar fram í 12. gr. gilda ekki um pakkningar sem eru seldar samkvæmt undantekningarreglunum í 2. mgr. 5. gr. Pakkningar með sáðvörunni sem eru seldar með vísindalegar athuganir eða kynbætur í huga skulu bera sérstakar merkingar sem uppfylla kröfur a-liðar IV. þáttar í 3. viðauka.

Pakkningar með kynbótafræi sem á að nota sem sáðvöru til ræktunar á grundvallarfræi skulu bera merkingar sem uppfylla kröfu b-liðar IV. þáttar í 3. viðauka.

Pakkningar með grundvallarfræi og stofnfræi sem er viðurkennt samkvæmt 2. mgr. 10. gr. skulu merktar í samræmi við kröfurnar í 12. gr. og skal þeim jafnframt fylgja vörulýsing þar sem rétt spírunarhæfni er tilgreind.

16. gr. 

 Innsigli.

Við sölu skal hver pakkning vera innsigluð. aðfangaeftirlitið skal sjá til þess að innsiglið sé traust. Innsiglið skal vera þannig gert að það eyðileggist þegar pakkningin er opnuð.

17. gr. 

 Sölutímabil.

Flokkaða framleiðslueiningu má einungis selja á sölutímabili sáðvörunnar. Flokkun framleiðslueiningar eða hluta hennar getur dregist fram yfir sölutímabilið, enda uppfylli framleiðslueiningin áfram kröfu um spírunarhæfni. Aðfangaeftirlitið skal annast sýnatöku til að rannsaka spírunarhæfni að nýju auk þess að annast nauðsynlegar viðbótarmerkingar.

>Aðfangaeftirlitið getur tekið sýni og sett viðbótarmerkingu með það í huga að framlengja sölutímabilið áður en útgefið sölutímabil sem innsiglað er á rennur út, enda telji aðfangaeftirlitið það forsvaranlegt með tilliti til þess að unnt sé að treysta því að eftirlitsniðurstaðan haldi áfram að endurspegla gæði framleiðslueiningar á þeim tíma sem sala fer fram.

IV. KAFLI 

 Sérákvæði.

18. gr. 

 Fræblöndur.

Blanda má saman flokkuðum framleiðslueiningum gras- og smárafræs af mismunandi tegundum og stofnum og selja sem "fræblöndur".

>Blanda má flokkuðu sáðkorni af mismunandi afbrigðum sömu tegundar saman og selja sem sáðkornsblöndu. Aðfangaeftirlitið setur nánari reglur um framleiðslu sáðkornsblanda.

19. gr. 

 Framleiðslueiningar og pakkningar.

Framleiðslueiningum sáðvöru í flokkunum grundvallarfræ, staðlað fræ, stofnfræ og vottað fræ með opinberum merkingum og innsigli má skipta niður og selja þær sem smápakkningar, skammtapakningar eða sérpakkningar af gerðunum A, B, C og D skv. II. hluta 3. viðauka án opinberra merkinga og innsiglis.

>Þegar fyrirframflokkun sáðkorns er lokið (sbr. 9. gr.) getur sáðvöruverslunin blandað saman framleiðslueiningum úr sama flokki.

Smápakkningar og skammtapakkningar skulu merktar samkvæmt kröfum þáttar A eða C í II. hluta eða d-lið í IV. hluta 3. viðauka. Verslunin skal sjá um að innsigla smápakkningar og skammtapakkningar, sbr. 16. gr. Smápakkningar má selja til loka greiningartímabilsins. Skammtapakkningar má selja til loka næsta tímabils á eftir greiningartímabilinu.

Sérpakkningar A, B, C og D skulu bera vörulýsingu á íslensku eða vera með prentaðar eða stimplaðar áritanir utan á umbúðunum. Vörulýsingin skal uppfylla kröfur II. kafla 3. viðauka. Ef um gagnsæjar umbúðir er að ræða má leggja vörulýsinguna inn í pakkninguna.

Verslunin skal sjá um að innsigla pakkninguna í samræmi við 16. gr. Pakkningu C skal einungis selja með frekari frærækt í huga. Pakkning D skal einungis boðin til sölu á Íslandi. Pakkningar með sáðvöru má selja til loka næsta tímabils á eftir greiningartímabilinu.

Framlengja má sölu framleiðslueininga sáðvöru eða hluta þeirra með nýju sölutímabili eins og tilgreint er í 17. gr. og í þessari málsgrein. Þetta er háð því skilyrði að tekin séu dæmigerð sýni úr framleiðslueiningunni og að ný spírunarmæling sýni að framleiðslueiningin uppfylli áfram kröfur um spírunarhæfni. Framleiðslueiningarnar verður að merkja að nýju til að tilgreina upplýsingar um nýtt spírunarhlutfall og breyttan sölutíma.

Verslanir sem sjá um að vigta og selja smápakkningar, skammtapakkningar eða sérpakkningar skulu upplýsa aðfangaeftirlitið um pakkningar, umfang og framleiðslunúmer framleiðslueininganna sem eru notaðar.

Aðfangaeftirlitið getur sett nánari reglur um hvaða upplýsingar ber að gefa um framleiðslueiningarnar.

20. gr. 

 Bæsuð sáðvara.

Einungis má selja bæsaða sáðvöru að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
a. Efnið sem er notað við bæsunina verður að vera viðurkennt af aðfangaeftirlitinu til bæsunar á sáðvöru í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um plöntuvarnarefni.
b. Efninu skal dreift jafnt um framleiðslueininguna.
c. Í opinberu merkingunni eða vörulýsingunni skulu koma fram upplýsingar um bæsunina, sbr. I. og II. þátt í 3. viðauka.
d. Merkja skal pakkningarnar í samræmi við reglur um bæsun sem aðfangaeftirlitið hefur viðurkennt fyrir bæsunarefnið.
e. Bæsaða sáðvöru má einungis selja í innsigluðum pakkningum.

21. gr. 

 OECD-kerfið.

Sáðvöru má votta og merkja eftir þeim reglum sem OECD hefur sett um vottun sáðvöru sem er selt á alþjóðamarkaði, enda sé um að ræða stofna sem eru á sáðvörulista í landi sem er bundið af þessum reglum, auk þess sem framleiðslueiningin verður að uppfylla kröfur sem OECD hefur mælt fyrir um.

Við vottun samkvæmt reglunum sem um getur í fyrstu málsgrein skal aðfangaeftirlitið gefa út vottorð og sjá til þess að framleiðslueiningin sé merkt í samræmi við ákvæði 4. viðauka.

V. KAFLI 

Innflutningsákvæði.

22. gr. 

Innflutningur á sáðvöru.

Heimilt er að flytja inn sáðvöru ef:
a. um er að ræða stofn sem er tilgreindur á sáðvörulista eða í sameiginlegri EB-skrá yfir stofna, enda fái kaupandi upplýsingar um að vetrarþol viðkomandi sáðvöru sé óþekkt hér á landi;
b. framleiðslueiningin er flokkuð sem grundvallarfræ, stofnfræ eða vottuð sáðvara af yfirvaldi í landi á EES-svæðinu, eða í þriðja landi þar sem tekin hefur verið ákvörðun um að nota flokkun sambærilega þeirri íslensku og þar sem skilyrði fyrir slíkri flokkun eru uppfyllt. Poa annua má flytja inn sem sölufræ, sbr. 5. gr.;
c. framleiðslueiningin uppfyllir kröfur 20. gr.;
d. framleiðslueiningar með sáðkorni, fóðurmergkáli, næpum, rófum, repju, hreðku, fóðurfaxi, hávingli, tágavingli og rýgresi innihalda ekki flughafra (sbr. 6. gr. og 2. viðauka);
e. Í sáðkorni skal liggja fyrir opinber yfirlýsing frá útflutningslandinu til staðfestingar á að framleiðslueiningin hafi verið ræktuð á rekstrareiningu þar sem flughafrar hafa ekki fundist á ræktunarárinu eða á næstliðnum árum og að tekið hafi verið sýni úr framleiðslueiningunni, 1 kg á hver 10 tonn, sem inniheldur ekki flughafra.

Innflutningur á sáðvöru í framleiðslueiningum, að sérpakkningum meðtöldum, skal skráður fyrirfram samkvæmt ákveðnu kerfi hjá aðfangaeftirlitinu.

Aðfangaeftirlitið getur heimilað innflutning á framleiðslueiningu með sáðvöru sem uppfyllir ekki kröfurnar í a- til c-lið, að því tilskildu að:
a. framleiðslueiningin sé flutt inn með fjölgun í huga og uppskeran ætluð til útflutnings; eða
b. framleiðslueiningin sé flutt inn með hreinsun og lokameðhöndlun fyrir útflutning í huga; eða
c. framleiðslueiningin sé ræktuð sem kynbótaefni á ábyrgð og undir eftirliti stofneigandans og flutt inn með frekari fjölgun í huga á ábyrgð íslensks umboðsmanns stofneigandans; eða
d. nota eigi framleiðslueininguna í vísindalegum tilgangi eða til kynbóta.

VI. KAFLI 

 Ýmis ákvæði.

23. gr. 

 Eftirlit.

Aðfangaeftirlitið skal hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt. Aðfangaeftirlitinu er heimilt að taka sýnishorn af allri sáðvöru sem reglugerðin gildir um.

24. gr.

Undanþágur.

Landbúnaðarráðherra getur að höfðu samráði við aðfangaeftirlitið veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar reglugerðar ef sérstakar aðstæður mæla með því.

25. gr. 

 Sáðvöru- og áburðarnefnd.

Til aðstoðar aðfangaeftirlitinu skipar landbúnaðarráðherra sáðvöru- og áburðarnefnd til fjögurra ára og skal nefndin vera ráðgefandi um framkvæmd eftirlits samkvæmt reglugerð þessari. Um skipun nefndarinnar og hlutverk fer samkvæmt ákvæðum 2. gr. laga nr. 22/1994.

26. gr. 

 Þóknun.

Til að standa straum af kostnaði við rekstur aðfangaeftirlitsins samkvæmt reglugerð þessari skal innheimta eftirlitsgjald sem skal vera 2,0% af innflutningsverði (cif.) sáðvöru, sem innheimt skal við tollafgreiðslu vörunnar og 2,0% af söluverði (án vsk.) innlendrar fóðurvöru, sem innheimt skal tvisvar á ári samkvæmt söluskýrslum framleiðenda, sem aðfangaeftirlitið sendir þeim að kostnaðarlausu. Gjalddagar eftirlitsgjalds skulu vera 1. mars og 1. október ár hvert. Sé gjaldið ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal reikna mánaðarlega dráttarvexti af því sem gjaldfallið er og eru dráttarvextir hinir sömu og hjá innlánsstofnunum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands. Eftirlitsgjald má taka fjárnámi.

>Standi framleiðandi ekki skil á upplýsingum sem nauðsynlegar eru til álagningar eftirlitsgjalds eða gögn um gjaldskylda vöru eru ófullnægjandi að mati aðfangaeftirlitsins er heimilt að áætla gjaldið og innheimta það samkvæmt þeirri áætlun. Aðfangaeftirlitið skal skriflega tilkynna greiðanda gjaldsins um áætlunina. Telji greiðandi áætlunina ranga, getur hann innan 20 daga frá og með póstsendingardegi tilkynningarinnar um áætlun gjaldsins, krafist þess skriflega að aðfangaeftirlitið taki áætlunina til endurskoðunar. Skal sú krafa rökstudd með söluskrám eða öðrum nauðsynlegum gögnum. Aðfangaeftirlitið skal innan eins mánaðar frá lokum þessa frests gera greiðanda skriflega grein fyrir afgreiðslu á kröfu hans. Heimilt er greiðanda að skjóta lokaafgreiðslu aðfangaeftirlitsins til landbúnaðarráðherra og skal skrifleg og rökstudd beiðni þar um hafa borist ráðherra innan 30 daga frá póstlagningu bréfs aðfangaeftirlitsins. Beiðni um endurskoðun á áætlun gjaldsins eða deila um gjaldskyldu frestar ekki eindaga eftirlitsgjaldsins, né leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu þess. Ef gjaldið er lækkað samkvæmt afgreiðslu aðfangaeftirlits eða úrskurði ráðherra skal endurgreiðsla þegar fara fram.

27. gr. 

 Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða viðurlögum samkvæmt 9. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

28. gr. 

 Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 22 29. mars 1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felldur II. kafli reglugerðar nr. 256 27. apríl 1981.

Landbúnaðarráðuneytið, 12. maí 1995.

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.

Viðauki:

Sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica