Umhverfisráðuneyti

456/1994

Reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum.

Breytingareglugerðir:

1. gr.

Í reglugerð þessari merkir:

Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu fugla af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun, tekur hún einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.

Veiðar: að handsama eða drepa villta fugla og taka egg þeirra.

Villtir fuglar: allir fuglar aðrir en gæludýr og bústofn. Fugl, sem er handsamaður og hafður á haldi, telst villtur fugl.

Tjón af völdum villtra fugla: fjárhagslegt tjón sem einstaklingar, fyrirtæki eða aðrir verða fyrir, heilsufarslegt tjón fólks eða búfénaðar og tjón á náttúru landsins.

Netlög: hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli landareignar eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.

Landareign: jörð eða annað landsvæði sem er háð beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila, þar með talið sveitarfélag eða ríki.

Fuglabjarg: Varpland bjargfugla í sjávarhömrum. Einkum er átt við svartfugla, en einnig ritu og súlu.

2. gr.

Reglugerð þessi nær til efnahagslögsögu Íslands.

3. gr.

Öllum íslenskum ríkisborgurum, svo og erlendum ríkisborgurum með lögheimili hér á landi, eru fuglaveiðar heimilar í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra, og í efnahagslögsögu Íslands utan netlaga landareigna. Skulu þeir hafa aflað sér leyfis til þess samkvæmt lögum nr. 64/1994 og reglum settum skv. þeim.

Landeigendum einum eru heimilar fuglaveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra á landareign sinni, nema lög mæli öðruvísi fyrir.

Nú er landareign í sameign en er skipt eftir merkjum og afnota- eða eignarskiptingu og á þá hver sameigandi rétt til fuglaveiða á og fyrir sínum landshluta eða afnotasvæði, nema samkomulag hafi orðið um aðra lögmæta skipan.

Nú er landareign í óskiptri sameign og eru þá landeigendum öllum fuglaveiðar jafnheimilar í þeirri landareign í réttu hlutfalli við afnotarétt lands nema samkomulag verði um aðra skipan.

Þar sem stöðuvatn, firðir, vogar eða sund, sem ekki eru 230 m á breidd, skipta landareignum eiga landeigendur veiðirétt út að miðlínu, svo og í ám og lækjum. Í stöðuvötnum, sem eru breiðari en 230 m, eru landeigendum, sem land eiga að vatninu, einum heimilar veiðar í almenningi þess og eru þær öllum jafnheimilar. Sé forn venja til þess að réttur til fuglaveiða í almenningi stöðuvatns fylgi tiltekinni eða tilteknum landareignum skal sú venja gilda eftirleiðis.

4. gr.

Veiðar eru aðeins heimilar í þeim tilgangi að nýta verðmæti í kjöti og öðrum afurðum eða verjast tjóni.

Veiðimanni er skylt að hirða bráð sína. Særi veiðimaður fugl ber honum að elta hann strax uppi og aflífa ef þess er nokkur kostur. Ákvæði þetta gildir einnig þótt særður fugl fari inn á landareign sem veiðimaður hefur ekki leyfi til að veiða á og þá er bráð eign landeiganda.

5. gr.

Við veiðar má eingöngu nota skotvopn sem úr má skjóta fríhendis frá öxl, með þeim undantekningum sem upp eru taldar í liðum 3, 4 og 16. Við fuglaveiðar er óheimilt að nota haglabyssu með hlaupvídd stærri en nr. 12. Við veiðar er m.a. óheimilt að nota:

1. Eitur eða svefnlyf.

2. Sprengiefni, bensín eða önnur efni til þess að svæla með gasi eða reyk.

3. Steina, barefli, eggvopn, skutla, stunguvopn eða áþekka hluti. Þó má nota barefli við hefðbundnar veiðar á fýls-, súlu- og skarfsungum.

4. Net, nema háf til lunda-, álku-, stuttnefju- og langvíuveiða. Fugla, er drepast í netum sem lögð eru til fiskveiða eða kópaveiða, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf. Lifandi fugla skal greiða úr neti og sleppa.

5. Öngla eða önnur tól sem komið er fyrir í æti.

6. Snörur og snörufleka.

7. Fótboga eða gildrur.

8. Rafbúnað sem getur drepið eða rotað.

9. Segulbandstæki og aðra rafknúna hljóðgjafa.

10. Ljósgjafa.

11. Búnað til að lýsa upp skotmörk.

12. Spegla eða annan búnað sem blindar.

13. Búnað til þess að miða í myrkri með rafeindatækjum er stækka eða breyta ímyndinni.

14. Sjálfvirk skotvopn, svo og handhlaðnar fjölskotabyssur (pumpur) og hálfsjálfvirk skotvopn, með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki.

15. Lifandi dýr sem bandingja.

16. Hunda til þess að hlaupa uppi bráð. Hunda má hins vegar nota til að finna bráð og sækja særða eða dauða bráð.

17. Vélknúin farartæki, nema báta á sjó enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 metra.

Umhverfisráðherra getur í samráði við ráðgjafarnefnd um villt dýr veitt tímabundna undanþágu til að nota ofangreindar veiðiaðferðir í vísindaskyni eða ef villtir fuglar valda umtalsverðu tjóni og aðrar aðferðir eru ekki taldar henta.

6. gr.

Veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs, sbr. auglýsingar þar að lútandi.

Mynda- og kvikmyndataka af örnum, fálkum, snæuglum og haftyrðlum við hreiður þeirra er óheimil nema leyfis umhverfisráðuneytisins hafi verið aflað fyrirfram, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar um villt dýr.

Dvöl við hreiður umræddra fugla vegna athugana á lifnaðarháttum þeirra, til upptöku á hljóðum þeirra eða í öðrum þeim tilgangi sem ætla má að geti valdið óæskilegum truflunum, skal vera háð leyfi því sem um ræðir í 2. mgr.

7. gr.

Þar sem talið er að villtir fuglar valdi tjóni einhvern tiltekinn tíma árs eða á svæðum þar sem viðkomandi tegundir eru friðaðar samkvæmt lögum nr. 64/1994 getur umhverfisráðherra, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar um villt dýr, veitt tímabundið leyfi til veiða í því skyni að koma í veg fyrir tjón. Í leyfi skal skrá nafn og kennitölu leyfishafa, gildistíma leyfis svo og mörk þess svæðis sem leyfið nær til og önnur skilyrði. Leyfishafa ber að skila skýrslu til ráðgjafarnefndar um villt dýr sem fyrst að loknum gildistíma leyfis þar sem fram koma upplýsingar um veiðar og mat á árangri.

Haförn, fálki, smyrill, snæugla og brandugla skulu ávallt vera undanskilin ákvæði 1. mgr.

8. gr.

Allir fuglar, þar með taldir þeir sem koma reglulega eða flækjast til landsins, eru friðaðir, nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari. Friðun tekur einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar, nema öðruvísi sé ákveðið í reglugerð þessari.

Friðun er aflétt á eftirtöldum tegundum sem hér segir:

1. Allt árið: Svartbakur, sílamáfur, silfurmáfur, hrafn.

2. Frá 20. ágúst til 15. mars: Grágæs, heiðagæs.

3. Frá 1. september til 15. mars: Fýll, dílaskarfur, toppskarfur, blesgæs, helsingi, stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávella, toppönd, hvítmáfur, hettumáfur, rita.

4. Frá 1. september til 10. maí: Álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi.

5 Heimilt er að veiða kjóa í og við friðlýst æðarvarp á tímabilinu 15. apríl til 14. júlí.

Óheimilt er að þeyta flautur, fljúga flugvélum eða vera með annan hávaða að óþörfu í grennd við fuglabjörg. Ennfremur er óheimilt að hleypa af skoti á landi nær fuglabjörgum en 200 m og á sjó nær en 500 m. Aldrei má skjóta fugl í fuglabjörgum. Óheimilt er að veiða fugla í sárum.

9. gr.

Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, nema brýna nauðsyn beri til. Á sama tíma má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli.

Í varpi kríu, hvítmáfs og hettumáfs skal heimilt að taka egg þessara fugla en þó aldrei eftir 15. júní ár hvert.

Á takmörkuðum svæðum þar sem eggja- eða ungataka súlu, dílaskarfs, toppskarfs, fýls, skúms, hvítmáfs, ritu, álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda telst til hefðbundinna hlunninda, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda, álku, langvíu og stuttnefju í háf telst til hlunninda, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að nytja megi þau hlunnindi eftirleiðis. Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí en ljúki eigi síðar en 15. ágúst.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem andavarp (þar með talið æðarvarp) er mikið skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá eftirtöldum andartegundum: æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Heimilt er og að taka grágæsar- og heiðagæsaregg, en þá skulu eigi færri en tvö egg skilin eftir í hreiðri. Andaregg og heiðagæsaregg, sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.

Telji eigandi veiðiréttar sig hafa heimild til nýtingar hlunninda samkvæmt 3. eða 4. mgr. skal hann afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á rétti sínum. Neiti þessir aðilar að staðfesta heimild veiðiréttarhafa sker umhverfisráðherra úr þeim ágreiningi.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu til þess að handsama villta fugla, svo sem nýklakta æðar- og grágæsarunga, til ræktunar og undaneldis.

Egg þeirra fugla sem tekin eru samkvæmt 2., 3. og 5. mgr. er óheimilt að unga út án sérstakrar undanþágu umhverfisráðherra.

10. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, varðhaldi eða fangelsi, upptöku skotvopna, og sviptingu veiðileyfis, sbr. 19. gr. laga 64/1994. Mál út af slíkum brotum sæta meðferð opinberra mála.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Jafnframt eru úr gildi felldar reglugerðir nr. 97/1968 um mynda- og kvikmyndatöku af örnum, fálkum, snæuglum og haftyrðlum og nr. 345/1994 um afléttun á friðun svartbaks, sílamáfs, silfurmáfs og hrafns. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytið, 17. ágúst 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Lúðvík Bergvinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica