Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

53/2003

Reglugerð um útlendinga. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi.

Um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu gilda ákvæði XII. kafla reglugerðarinnar. Önnur ákvæði reglugerðarinnar gilda einnig um þá eftir því sem við á.

Íslenskir ríkisborgarar geta einnig borið skyldur samkvæmt reglugerðinni.

Íslensk skip í siglingum erlendis falla ekki undir gildissvið reglugerðarinnar.


2. gr.
Tilgangur.

Reglugerð þessi veitir heimild til að hafa eftirlit með komu fólks til landsins og för þess úr landi og með dvöl útlendinga hér á landi í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.

Með reglugerðinni er kveðið á um réttarstöðu útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, dveljast hér eða sækja um leyfi samkvæmt útlendingalögum og reglugerð þessari.


II. KAFLI
Vegabréfaeftirlit.
3. gr.
Skylda til að gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið við komu og brottför.

Hver sá sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða, ef það reynist ómögulegt, við næsta lögregluyfirvald. Hver sá sem fer af landi brott skal við brottför gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða, ef það reynist ómögulegt, við næsta lögregluyfirvald.

Við för yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er útlendingi skylt, ef þess er óskað, að veita eftirlitsmönnum vegabréfa þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að framfylgja virku eftirliti.

Skylda skv. 1. mgr. gildir ekki um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, nema ákveðið sé að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum í samræmi við 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins.


4. gr.
Landamærastöðvar.

Þegar farið er um ytri landamæri Schengen-svæðisins skal komið til landsins og farið frá því á stöðum og afgreiðslutíma sem um getur í viðauka 1. För yfir innri landamæri Schengen-svæðisins er heimil utan viðurkenndra landamærastöðva. Þetta gildir þó ekki ef ákveðið er að taka upp tímabundið eftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins í samræmi við 2. mgr. 2. gr. Schengen-samningsins.

Með för skipa yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er átt við alla umferð skipa til og frá landinu. Þetta gildir þó ekki um:

a. íslensk fiskiskip sem hvorki hafa haft viðkomu í erlendri höfn né lagst að skipi á hafi úti og áhöfn eða farþegar ekki komið eða farið þar frá borði,
b. farþegaferjur í reglubundnum siglingum með síðasta viðkomustað innan Schengen-svæðisins,
c. skemmtiferðaskip með síðasta viðkomustað innan Schengen-svæðisins.

Með för loftfara yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins er átt við alla flugumferð til og frá landinu inn á eða af yfirráðasvæði ríkis sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu.

Þegar sérstaklega stendur á má með leyfi hlutaðeigandi lögreglustjóra fara um ytri landamæri utan landamærastöðva og afgreiðslutíma þeirra.


5. gr.
Sérreglur um komu og brottför skipa.

Stjórnandi skips á leið til landsins yfir ytri landamæri skal tilkynna Landhelgisgæslunni um komu a.m.k. 24 klst. áður en siglt er inn í íslenska landhelgi. Samtímis skal tilkynna áætlaða brottför. Staðfestingu á brottför úr höfn skal tilkynna Landhelgisgæslunni a.m.k. 6 klst. fyrir brottför.

Í tilkynningu skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um skip í þessari röð:

a. nafn,
b. einkennisstafir,
c. radíókallmerki,
d. þjóðerni,
e. tegund,
f. dagsetning,
g. tími,
h. staðsetning,
i. síðasti viðkomustaður (staður og ríki),
j. fyrsti áætlunarstaður á Íslandi,
k. áætlaður komutími,
l. aðrar viðkomuhafnir á Íslandi,
m. brottfararhöfn á Íslandi,
n. áætlaður brottfarartími,
o. næsti ákvörðunarstaður (staður og ríki),
p. umboðsmaður.

Með tilkynningu skal fylgja skrá yfir áhöfn og farþega skips í samræmi við ákvæði 109. gr.

Tafarlaust ber að tilkynna lögreglu um laumufarþega í skipi og áður en komið er til hafnar ef unnt er.

Senda má Landhelgisgæslunni skrá yfir áhöfn og farþega skips fyrir milligöngu skipafélags eða miðlara en skipstjóri ber ábyrgð á að skránni sé skilað. Allar fyrirhugaðar breytingar á skipan áhafnar ber tafarlaust að tilkynna Landhelgisgæslunni.

Með heimild hlutaðeigandi lögregustjóra má víkja frá ákvæðum þessarar greinar um tilkynningarskyldu.

Landhelgisgæslan tekur við tilkynningum og skrám yfir áhafnir og farþega skv. 109. gr. á rafrænu formi. Senda skal upplýsingar á tölvupóstfang Landhelgisgæslunnar eða Immarsat C númer hennar. Sending upplýsinga með símbréfi eða upplestri um talstöð er einungis heimil þegar fáir eru um borð og ekki er unnt að senda gögn rafrænt.

Landhelgisgæslan skal staðfesta móttöku upplýsinga skv. 109. gr. Landhelgisgæslan skal framsenda upplýsingarnar til ríkislögreglustjóra sem staðfestir móttöku þeirra.

Að lokinni athugun í Schengen-upplýsingakerfinu skal ríkislögreglustjóri senda niðurstöður hennar til hlutaðeigandi lögreglustjóra.

Dómsmálaráðherra setur nánari verklagsreglur um samstarf Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra um persónueftirlit í höfnum.


6. gr.
Sérreglur um komu og brottför loftfara.

Stjórnandi loftfars sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda skal samkvæmt beiðni lögreglu láta henni í té skrá yfir farþega og áhöfn í samræmi við ákvæði 108. gr. Lögreglan getur í samráði við önnur yfirvöld ákveðið að stjórnandi loftfars afhendi þeim yfirvöldum skrána.

Lögreglan getur enn fremur í sérstökum tilvikum krafist þess að skráin verði send fyrir komu loftfarsins samkvæmt nánari ákvörðun ríkislögreglustjóra.


7. gr.
Eftirlitsstaður og eftirlitsaðilar.

Komu- og brottfarareftirlit skal fara fram á landamærastöðvum sem tilgreindar eru í viðauka 1, sbr. 1. mgr. 4. gr. Víkja má frá þessu ef lögreglustjóri ákveður að beita heimild skv. 4. mgr. 4. gr. eða þegar ákveðið er að framkvæma komueftirlit með erlendum áhafnarmeðlimum eða farþegum skips áður en það kemur til hafnar, sbr. 5. mgr. 30. gr.

Lögreglan ber ábyrgð á vegabréfaeftirliti.


8. gr.
Framkvæmd vegabréfaeftirlits.

Við komu skal ganga úr skugga um að útlendingur hafi gilt vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Einnig ber að athuga hvort þeir útlendingar sem eru áritunarskyldir hafi gilda vegabréfsáritun til Íslands. Jafnframt skal ganga úr skugga um, með frekari rannsókn ef þörf krefur, að ekki séu ástæður til að vísa útlendingi frá landi í samræmi við 18. gr. útlendingalaga.

Við brottför skal ganga úr skugga um að útlendingur hafi gilt vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Útlendingar, aðrir en ríkisborgarar ríkja sem taka þátt í Schengen-samstarfinu, skulu einnig sæta eftirliti sem miðar að því að verjast ógn við þjóðaröryggi og allsherjarreglu samningsaðilanna, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. Schengen-samningsins.


9. gr.
Heimild til afritunar ferðaskilríkja.

Lögreglunni er heimilt að afrita ferðaskilríki og ferðagögn útlendings ef það er talið nauðsynlegt til að tryggja varðveislu upplýsinga sem þau hafa að geyma um hver útlendingurinn er og um ferðatilhögun hans og heimild til landgöngu.


10. gr.
Eftirlit flytjenda með ferðaskilríkjum.

Stjórnendur skipa eða loftfara skulu ganga úr skugga um að farþegar þeirra hafi gild ferðaskilríki.

Áður en farþegi stígur um borð skal kanna hvort hann hafi vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki og hvort þeir farþegar sem eru áritunarskyldir hafi gilda vegabréfsáritun til landsins.

Skylda skv. 1. og 2. mgr. á ekki við um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins, en gengið skal þó úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera.

Skipstjórar og flugstjórar skulu við komu til íslenskrar hafnar eða flugvallar frá ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu sjá um að farþegar yfirgefi ekki skip eða loftfar fyrr en vegabréfaskoðun getur farið fram.


III. KAFLI
Vegabréf.
11. gr.
Vegabréfaskylda.

Útlendingur, sem kemur til landsins eða fer þaðan, skal hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Kennivottorð sem talin eru upp í viðauka 2 eru viðurkennd sem ferðaskilríki við komu til landsins eða brottför þaðan. Ef útlendingur afhendir lögreglu eða öðru stjórnvaldi hér á landi vegabréf sitt eða annað kennivottorð skal hann fá í hendur kvittun lögreglu eða stjórnvalds fyrir móttöku skilríkisins.

Vegabréfaskyldan nær ekki til danskra, finnskra, norskra og sænskra ríkisborgara sem koma hingað til lands beint frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð eða fara beint þangað héðan.

Útlendingur, eldri en 18 ára, sem ekki er norrænn ríkisborgari, skal ávallt við dvöl hér á landi bera vegabréf, annað kennivottorð eða kvittun stjórnvalds fyrir móttöku ferðaskilríkis, sbr. 1. mgr., eða skilríki gefið út til hans af íslenskum stjórnvöldum, svo sem dvalarleyfisskírteini.


12. gr.
Skilyrði fyrir því að vegabréf teljist gilt ferðaskilríki.

Vegabréf skal gefið út af þar til bæru yfirvaldi í því ríki sem handhafinn er ríkisborgari og vera gilt til ferðar hingað til lands. Það skal enn fremur vera gilt til ferðar til baka til útgáfuríkisins eða þriðja ríkis.

Vegabréfið skal gefið út á nafn eins einstaklings, sbr. þó ákvæði 13. og 14. gr.

Í vegabréf skal skráð fullt nafn vegabréfshafa, kyn, fæðingardagur, fæðingarstaður og ríkisfang hans, svo og til hvaða tíma vegabréfið gildir. Vegabréfið skal bera sýnishorn undirskriftar vegabréfshafa.

Í vegabréf skal fest nýleg og góð ljósmynd af vegabréfshafa. Í vegabréfi skal vera embættisstimpill eða innsigli þess yfirvalds sem gefur það út. Í meginmáli þess mega ekki vera leiðréttingar, nema gerðar séu af þar til bæru yfirvaldi.

Vegabréf skal vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku, ensku, frönsku, ítölsku, spænsku eða þýsku eða hafa að geyma þýðingu á eitthvert þessara mála.

Gildistími vegabréfs skal vera a.m.k. þrír mánuðir fram yfir áætlaða dvöl hér á landi.


13. gr.
Sameiginlegt vegabréf hjóna og undanþága frá vegabréfaskyldu fyrir börn.

Heimilt er hjónum, hvort sem þau ferðast saman eða hvort í sínu lagi, að nota vegabréf, sem gefið hefur verið út handa þeim sameiginlega. Í vegabréfinu skal vera lýsing á hjónunum, myndir af þeim og sýnishorn af undirritun beggja. Vegabréfið skal að öðru leyti vera eins og vegabréf einstaklinga.

Útlent barn, yngra en 18 ára, sem ferðast með nánum ættingja eða forsjármanni, má koma til landsins og fara þaðan án þess að hafa eigið vegabréf ef nafn þess, kyn og aldur er skráð í vegabréf ættingjans eða forráðamannsins.


14. gr.
Sameiginlegt vegabréf (hópferðavegabréf).

Heimila má útlendingum, sem koma hingað til lands í hópferð og ætla einungis að dveljast hér í stuttan tíma, að nota vegabréf, sem gefið hefur verið út handa þeim sameiginlega. Hópferðavegabréf skal gefið út af þar til bæru yfirvaldi, stimplað með embættisstimpli þess eða innsigli og vera gilt til ferðar til Íslands. Í því mega eingöngu vera nöfn ríkisborgara í ríki þar sem það er gefið út. Hópferðavegabréf skal vera gilt til ferðar hópsins til baka til útgáfuríkisins.

Hópferðavegabréf skal gefið út fyrir a.m.k. fimm manns, en mest fimmtíu manns. Í vegabréfinu skal kveðið á um gildistíma þess og tilgreint fullt nafn hvers þátttakanda í hópferðinni, fæðingardagur, fæðingarstaður, ríkisfang og lögheimili. Hver þátttakandi skal auk þess hafa kennivottorð, útgefið af yfirvaldi í heimalandi. Fararstjóri skal hafa venjulegt vegabréf, en nafn hans, svo og númer og útgáfudagur vegabréfsins, skal skráð á hið sameiginlega vegabréf.

Hópferðavegabréf skal gefið út í þremur eintökum. Skal eitt þeirra afhent eftirlitsmanni vegabréfa við komu til Íslands og annað við brottför.

Ef sameiginlegt vegabréf er gefið út í samræmi við Evrópusamning um ferðalög æskufólks á sameiginlegum vegabréfum frá 16. desember 1961 má í sameiginlega vegabréfinu, auk þeirra sem eru ríkisborgarar í útgáfuríkinu, skrá ríkisfangslausa og flóttamenn yngri en 21 árs sem dvelja löglega í útgáfuríkinu.


15. gr.
Heimild til að undanþiggja útlending vegabréfaskyldu.

Útlendingastofnun getur, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða önnur viðurkennd skilríki.


IV. KAFLI
Vegabréfsáritanir.
16. gr.
Skylda til að hafa vegabréfsáritun við komu til landsins.

Útlendingur þarf að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins með þeim undantekningum sem greinir í 17. gr. Vegabréfsáritun gefin út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu gildir til komu og dvalar hér á landi þann tíma sem tilgreindur er í árituninni.


17. gr.
Undanþága frá skyldu til að hafa vegabréfsáritun.

Útlendingur sem hefur gilt vegabréf, gefið út af ríki sem greinir í I. hluta 3. viðauka, er undanþeginn skyldu til að hafa vegabréfsáritun. Sama gildir um handhafa ferðaskilríkis sem greinir í II. hluta 3. viðauka.

Útlendingur, sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu, er undanþeginn áritunarskyldu. Sama gildir um útlending sem hefur bráðabirgðadvalarleyfi gefið út af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann auk þess ferðaskilríki gefið út af sama ríki.


18. gr.
Vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu.

Samræmda vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu má gefa út til dvalar í allt að þrjá mánuði. Hún getur verið tvenns konar:

a. Vegabréfsáritun sem gildir fyrir eina komu eða fleiri inn á svæðið, en hvorki samfelldur né samanlagður dvalartími heimsókna má vera lengri en þrír mánuðir á hálfs árs tímabili miðað við þann dag sem fyrst var komið inn á svæðið. Vegabréfsáritun fyrir hóp, sbr. 14. gr., má gefa út til dvalar allt að 30 dögum.
b. Vegabréfsáritun vegna gegnumferðar sem veitir handhafa heimild til að fara einu sinni eða tvisvar, eða oftar í undantekningartilvikum, um yfirráðasvæði samningsaðilanna yfir á yfirráðasvæði þriðja ríkis, enda taki gegnumferðin að hámarki fimm daga.


19. gr.
Skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar sem gildir á öllu Schengen-svæðinu.

Sækja má um vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu á grundvelli eftirfarandi aðstæðna:

a. Vegna fjölskylduheimsóknar, ferðamannaheimsóknar, viðskiptaheimsóknar eða annarrar heimsóknar þegar ekki er krafist dvalarleyfis. Áritun samkvæmt þessum lið skal að jafnaði veita fyrir eina komu til landsins. Í undantekningartilfellum má veita áritun sem gildir í eitt ár til fleiri en einnar komu til landsins. Áritun samkvæmt þessum lið heimilar för innan Schengen-svæðisins nema annað sé tekið fram í árituninni sjálfri.
b. Vegna ferðar um flugvöll. Áritun til farar um flugvöll skal að jafnaði veita fyrir eina eða tvær ferðir. Í undantekningartilfellum má veita áritun fyrir fleiri ferðir. Áritun samkvæmt þessum lið heimilar ferð um flugvöll en ekki för innan Schengen-svæðisins.
c. Vegna langtímadvalar á Íslandi á grundvelli dvalar- og/eða atvinnuleyfis sem liggur fyrir þegar áritun er veitt. Áritun samkvæmt þessum lið skal veita fyrir eina komu og heimilar hún för innan Schengen-svæðisins nema annað sé tekið fram í árituninni sjálfri.

Vegabréfsáritun samkvæmt þessari grein má aðeins gefa út til útlendings sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

a. Viðkomandi verður að hafa gilt vegabréf eða annað gilt kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki við komu til Íslands og annarra Schengen-ríkja og við brottför og gildir a.m.k. þrjá mánuði fram yfir þann tíma sem vegabréfsáritunin, sem sótt er um, tekur til.
b. Viðkomandi verður að hafa heimild til að ferðast til baka til heimalandsins eða annars ríkis sem gildir a.m.k. þrjá mánuði fram yfir gildistíma áritunarinnar.
c. Viðkomandi verður að hafa nægileg fjárráð sér til framfærslu meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur og til að greiða fyrir ferð til baka til heimalandsins eða annars lands þar sem honum hefur verið tryggður aðgangur, eða vera í aðstöðu til að sjá fyrir sér á löglegan hátt.
d. Ekki má liggja fyrir ástæða til frávísunar eða brottvísunar skv. 18. eða 20. gr. útlendingalaga.
e. Viðkomandi fullnægir skilyrðum um vegabréfsáritun samkvæmt Schengen-samningnum.

Útlendingastofnun getur í sérstökum tilvikum heimilað undanþágu frá skilyrðum a- og b-liðar um gildistíma ferðaskilríkis og heimildar til að ferðast aftur til heimaríkis eða annars ríkis.

Að uppfylltum skilyrðum 1.-3. mgr. skal að jafnaði veita vegabréfsáritun nema ástæður sem varða utanríkisstefnu eða almannaöryggi mæli gegn því eða ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar viðkomandi hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem viðkomandi hefur veitt. Þegar vegabréfsáritun er veitt skal handhafa hennar gerð grein fyrir því að dvelji hann lengur en áritunin segir til um geti það haft í för með sér brottvísun og endurkomubann í samræmi við 20. gr. útlendingalaga. Handhafi áritunar má ekki stunda atvinnu á Íslandi nema hann hafi fengið útgefið atvinnuleyfi hérlendis.


20. gr.
Vegabréfsáritun sem gildir eingöngu fyrir Ísland.

Gefa má út vegabréfsáritun fyrir útlending sem ekki uppfyllir skilyrði 19. gr. ef það er talið nauðsynlegt af mannúðarástæðum eða vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga. Slík vegabréfsáritun skal takmörkuð við komu og dvöl á Íslandi þann tíma sem tilgreindur er í árituninni. Skal öðrum þátttökuríkjum Schengen-samstarfsins tilkynnt um þetta.


21. gr.
Vegabréfsáritun til að fara um flugvöll.

Ríkisborgari í ríki sem talið er upp í I. hluta viðauka 4 skal hafa gilda íslenska vegabréfsáritun til að fara um flugvöll þegar hann fer um íslenska flughöfn við millilendingu eða til að skipta um loftfar. Hann er þó undanþeginn áritunarskyldu ef hann hefur dvalarleyfi sem greinir í II. hluta viðauka 4 og hefur heimild til endurkomu til dvalarríkisins sem er gild í a.m.k. þrjá mánuði eftir för hans um íslenska flughöfn.


22. gr.
Umsókn um vegabréfsáritun.

Umsækjandi um vegabréfsáritun skal sjálfur leggja fram umsókn sína á sérstöku eyðublaði. Umsókninni skal fylgja ljósmynd af umsækjanda og skal hann rita undir umsóknina eigin hendi.

Sækja má um vegabréfsáritun til Íslands hjá erlendum sendistofnunum sem tilgreindar eru í viðauka 5.

Þegar umsókn um vegabréfsáritun er lögð fram hjá íslenskum yfirvöldum skal greiða gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þegar umsókn er lögð fram hjá erlendri sendistofnun fer gjaldtaka eftir reglum viðkomandi ríkis.


23. gr.
Málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritun.

Stjórnvald sem annast afgreiðslu umsóknar um vegabréfsáritun, sbr. 24. gr., skal ganga úr skugga um að hún sé rétt útfyllt og að nauðsynleg gögn fylgi.

Stjórnvaldið skal sjá til þess að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin og afla í því skyni allra þeirra upplýsinga um umsækjanda sem taldar eru nauðsynlegar. Leggja má fyrir umsækjanda að koma til viðtals í tengslum við afgreiðslu umsóknarinnar.

Ef þörf krefur skal umsækjandi leggja fram gögn til staðfestingar á tilgangi dvalar og aðstæðum meðan á dvölinni stendur og önnur gögn sem nauðsynleg þykja til að unnt sé að ganga úr skugga um að hann uppfylli skilyrði 19. gr.


24. gr.
Útgáfa vegabréfsáritunar.

Ef ekki er annað tekið fram tekur Útlendingastofnun ákvörðun um umsókn um vegabréfsáritun.

Sendistofnunum þeim sem taldar eru upp í viðauka 5 er heimilt að verða við umsókn um vegabréfsáritun.

Útlendingastofnun er þó einni heimilt að taka ákvörðun um umsókn um vegabréfsáritun í eftirtöldum tilvikum:

a. ef umsækjandi er flóttamaður, ríkisfangslaus eða ef óvíst er um ríkisfang hans,
b. ef sendistofnun skv. 2. mgr. er í vafa um hvort verða eigi við tiltekinni umsókn,
c. ef um er að ræða tilvik þar sem skylt er, áður en vegabréfsáritun er gefin út, að hafa samráð fyrir fram við miðlæg yfirvöld þess ríkis sem ábyrgð ber á árituninni.

Útlendingastofnun er einni heimilt að verða við umsókn útlendings sem hefur verið brottvísað frá Íslandi eða öðru norrænu ríki eða er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði synjað um komu.

Vegabréfsáritun sem gildir eingöngu fyrir Ísland verður einungis veitt af Útlendingastofnun.

Vegabréfsáritun skal sett í vegabréf umsækjanda eða annað viðurkennt kennivottorð eða skráð í sérstöku skjali.


25. gr.
Framlenging á gildistíma vegabréfsáritunar.

Heimilt er að framlengja gildistíma vegabréfsáritunar um allt að þrjá mánuði vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Framlengd áritun gildir einungis fyrir Ísland. Það er skilyrði að ástæður sem liggja til grundvallar umsókn um framlengingu hafi ekki legið fyrir þegar áritunin var gefin út og að tilgangur dvalarinnar hafi ekki breyst. Einnig er það skilyrði fyrir framlengingu vegabréfsáritunar að skilyrði 19. gr.séu uppfyllt.


26. gr.
Afturköllun vegabréfsáritunar.

Útlendingastofnun getur afturkallað vegabréfsáritun eða stytt gildistíma hennar ef forsendur fyrir útgáfu áritunar voru ekki réttmætar eða reynast ekki lengur vera fyrir hendi.

Ákvörðun um afturköllun eða styttingu gildistíma áritunar tekur gildi við stimplun eða áritun lögreglu eða Útlendingastofnunar í vegabréf útlendingsins, viðurkennt kennivottorð eða skjal sem áritunin hefur verið sett í eða þegar áritunarhafa berst tilkynning Útlendingastofnunar um ákvörðunina.


27. gr.
Útgáfa vegabréfsáritunar á landamærum.

Útlendingastofnun getur heimilað útgáfu vegabréfsáritunar til áritunarskylds útlendings sem gefur sig fram við vegabréfaeftirlit án gildrar áritunar ef hann uppfyllir skilyrði 19. gr. og brýnar og ófyrirséðar ástæður mæla með því.


V. KAFLI
Áhafnir skipa og loftfara.
28. gr.
Eftirlit með landgöngu og afskráningu útlendinga úr áhöfn skips í íslenskri höfn.

Ef útlendingur sem skráður er í áhöfn íslensks eða erlends skips vill fara úr skipsrúmi meðan skipið liggur í íslenskri höfn skal skipstjóri skipsins tilkynna það viðkomandi lögreglustjóra sem ákveður hvort veitt skuli heimild til afskráningar og útlendingnum heimiluð landganga.

Umboðsskrifstofa skips skal umsvifalaust tilkynna lögreglustjóra ef óskað er heimildar til afskráningar útlendings úr áhöfn í íslenskri höfn.

Skilyrði fyrir því að heimild til að afskrá útlending úr áhöfn verði veitt eru:

a. útlendingurinn hafi gilt vegabréf, sjóferðabók eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki,
b. áritunarskyldur útlendingur hafi gilda vegabréfsáritun eða sérstakt samþykki Útlendingastofnunar,
c. ekki liggi fyrir ástæða til frávísunar skv. d-, i- eða j-lið 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga.

Útlendingur sem ætlar til áfangastaðar utan Íslands þarf að auki að hafa vegabréfsáritun eða sérstakt leyfi til að ferðast um þau ríki sem hann hyggst fara um til að komast á áfangastað og eftir atvikum leyfi til að ferðast til þess ríkis sem er áfangastaður hans.

Þótt skilyrði 3. mgr. séu ekki uppfyllt getur lögreglustjóri veitt útlendingi heimild til landgöngu, framvísi hann sjóferðabók eða vegabréfi, í eftirtöldum tilvikum:

a. ef fyrir liggur að hann verði skráður í áhöfn skips sem þegar liggur í höfn eða er að koma til hafnar á Schengen-svæðinu,
b. þegar leyfi til landgöngu er þörf af óviðráðanlegum ytri aðstæðum.

Miða skal við að dvölin verði ekki lengri en sem nemur þeim tíma sem eðlilegur má teljast ef bíða þarf eftir hentugri ferð frá landinu. Ef útlendingurinn hyggst dveljast lengur hér á landi skal leita heimildar Útlendingastofnunar.

Þegar útlendingur hefur fengið heimild til afskráningar úr áhöfn skal frá því greint í vegabréfi hans eða sjóferðabók eða tilgreint í sérstöku skjali að landganga sé heimil að því tilskildu að útlendingurinn fari af landi brott innan tiltekins tíma eða með tilteknu skipi eða loftfari.

Stjórnanda skips er skylt að taka aftur um borð útlendinga úr áhöfn sem neitað hefur verið um heimild til afskráningar úr áhöfn eða heimild til landgöngu eða á annan hátt að koma viðkomandi úr landi samkvæmt nánari ákvörðun lögreglu.

Þegar þess er talin þörf skal lögreglan krefjast tryggingar af hálfu eigenda skipsins, leigjanda, skipsstjórnanda eða umboðsmanni þess vegna þeirra útgjalda sem viðkomandi ber ábyrgð á skv. 4. mgr., sbr. 2. mgr., 56. gr. útlendingalaga þegar útlendur sjómaður yfirgefur skipsrúm án heimildar lögreglu. Einnig er hægt að setja það sem skilyrði fyrir því að slík heimild verði veitt að trygging verði lögð fram.

Ekki skal krefjast tryggingar vegna norræns ríkisborgara nema til þess liggi sérstakar ástæður.

Dómsmálaráðuneytið getur ákveðið að fallið skuli frá kröfu um tryggingu og látið hjá líða að kalla menn til ábyrgðar ef það telst sanngjarnt.


29. gr.
Laumufarþegar.

Ákvæði 28. gr. gilda eftir því sem við á um útlenda laumufarþega á íslensku eða erlendu skipi sem óskar eftir að fara í land eða fer í land í íslenskri höfn.

Af mannúðarástæðum eða vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga má heimila landgöngu þótt skilyrði 3. mgr. 28. gr. séu ekki uppfyllt. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort slík heimild skuli veitt.


30. gr.
Eftirlit með erlendum skipverjum.

Útlendingur í áhöfn skips, íslensks eða erlends, sem kemur til íslenskrar hafnar, má, án sérstaks leyfis, dvelja á komustaðnum meðan skip er þar, þó eigi lengur en þrjá mánuði.

Ef útlendingur úr áhöfn skips hyggst ferðast til annars staðar á landinu eða til annars Schengen-ríkis, meðan skipið liggur í íslenskri höfn, skal vegabréfaeftirlit fara fram með venjulegum hætti. Sama gildir ef samanlagður tími sem skipið liggur í íslenskri höfn og annarri höfn á Schengen-svæðinu fer yfir þrjá mánuði. Við þær aðstæður er krafist dvalarleyfis, sbr. VII. kafla, til að dveljast áfram hér á landi.

Lögreglustjóri getur bannað áhöfn eða einstökum meðlimum áhafnar að yfirgefa skip, ef það er nauðsynlegt vegna almannareglu eða öryggissjónarmiða eða af öðrum sérstökum ástæðum.

Lögreglan getur eftir þörfum tekið upp eftirlit með kennivottorðum útlendra manna í áhöfn skips eða gert úrtakskönnun.

Heimilt skal í sérstökum tilvikum að framkvæma komueftirlit áður en skip kemur til hafnar.


31. gr.
Eftirlit með útlendingum í áhöfn loftfars sem hingað kemur.

Ákvæði þessa kafla gilda einnig um stjórnendur og áhafnarmeðlimi loftfara, eftir því sem við á.


VI. KAFLI
Dvöl án dvalarleyfis.
32. gr.
Dvöl án dvalarleyfis.

Útlendingur, sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu, má ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en þrjá mánuði frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi.

Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu má ekki fara yfir þrjá mánuði á sex mánaða tímabili. Dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu, sbr. 17. gr. og viðauka 3, reiknast frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknast dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Skylda má útlending með dvalarleyfi í öðru Schengen-ríki til að leggja fram ferðagögn sem staðfesta hvenær hann kom til landsins.

Hafi útlendingurinn dvalarleyfi í öðru norrænu ríki og sé hann ríkisborgari ríkis sem undanþegið er áritunarskyldu við komu til landsins, sbr. viðauka 3, reiknast dvalartíminn frá því að hann kom til landsins. Skal þá einungis taka mið af dvöl í landinu á síðustu sex mánuðum þegar dvalartími er reiknaður, sbr. 2. og 4. mgr. 5. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins.

Dönskum, finnskum, norskum og sænskum ríkisborgurum er heimilt að dveljast hér á landi án dvalarleyfis.

Útlendingur sem fæddur er íslenskur ríkisborgari þarf ekki sérstakt dvalarleyfi ef hann hefur haft fasta búsetu hér á landi samfellt í eitt ár.

Útlendingur sem á íslenskt foreldri þarf ekki sérstakt dvalarleyfi ef hann hefur haft fasta búsetu hér á landi samfellt í tvö ár, enda hafi hið íslenska foreldri haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.

Útlendingur sem á íslenskan maka og hefur búið með honum hér á landi samfellt um þriggja ára skeið eftir hjúskaparstofnun eða staðfestingu samvistar þarf ekki sérstakt dvalarleyfi.


VII. KAFLI
Dvalarleyfi.
33. gr.
Hverjir þurfa dvalarleyfi.

Útlendingur, sem hyggst ráða sig í vinnu fyrir endurgjald eða án þess, eða stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi, þarf að hafa atvinnuleyfi og dvalarleyfi, nema það sé sérstaklega undanskilið í lögum um atvinnuréttindi útlendinga og útlendingalögum.

Útlendingur, sem hyggst dveljast hér lengur en honum er heimilt skv. 1. mgr. 8. gr. útlendingalaga, sbr. 1.-3. mgr. 32. gr. reglugerðarinnar, þarf að hafa dvalarleyfi.


34. gr.
Almenn skilyrði dvalarleyfis.

Veita má útlendingi dvalarleyfi að fenginni umsókn og að uppfylltum skilyrðum laga ef jafnframt er fullnægt skilyrðum samkvæmt þessum kafla.

Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi skal hafa náð 18 ára aldri. Útlendingur yngri en 18 ára getur að jafnaði einungis fengið dvalarleyfi í tengslum við dvalarleyfi foreldris eða forsjármanns.

Ekki er heimilt að gefa út dvalarleyfi ef fyrir liggja ástæður sem varða almannaöryggi eða ef stefna stjórnvalda í utanríkis- eða innflytjendamálum mælir gegn því.

Tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skal vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um.


35. gr.
Flokkar dvalarleyfa.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um útgáfu dvalarleyfa sem skiptast í eftirfarandi flokka:

a. dvalarleyfi án atvinnuþátttöku,
b. dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku sem er grundvöllur búsetuleyfis,
c. dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku með takmörkunum,
d. óendurnýjanlegt dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku,
e. dvalarleyfi fyrir aðstandendur skv. 13. gr. útlendingalaga,
f. dvalarleyfi vegna námsdvalar,
g. dvalarleyfi vegna vistráðningar,
h. dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga,
i. bráðabirgðadvalarleyfi skv. 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga,
j. dvalarleyfi til EES- eða EFTA-útlendings,
k. búsetuleyfi skv. 15. gr. útlendingalaga.


36. gr.
Dvalarleyfi sem geta skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi.

Dvalarleyfi til útlendings sem fellur undir reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-útlendings) eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA-útlendings), sbr. XII. kafla, og dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga mynda heimild til útgáfu búsetuleyfis, sbr. þó 2. og 3. mgr. 12. gr. útlendingalaga.

Dvalarleyfi fyrir aðstandendur skv. 13. gr. útlendingalaga mynda heimild til útgáfu búsetuleyfis með sama hætti og það dvalarleyfi sem viðkomandi umsækjandi leiðir rétt sinn af.

Dvalarleyfi til umsækjanda sem er barn foreldris sem var íslenskur ríkisborgari við fæðingu umsækjanda myndar heimild til útgáfu búsetuleyfis.

Dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku skv. b-lið 35. gr. reglugerðarinnar myndar heimild til útgáfu búsetuleyfis. Slíkt dvalarleyfi má gefa út eftir eins árs samfellda dvöl umsækjanda hér á landi samkvæmt dvalarleyfi skv. c-lið 35. gr. Það er og skilyrði útgáfu dvalarleyfis skv. b-lið 35. gr. að umsækjandi hafi stundað atvinnu að staðaldri á dvalarleyfistímanum og að hann hafi ekki notið fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frá skilyrði um að umsækjandi hafi ekki notið slíkrar aðstoðar er þó heimilt að víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Enn fremur er það skilyrði útgáfu dvalarleyfis skv. b-lið 35. gr. að skilyrði séu fyrir hendi til að framlengja atvinnuleyfi umsækjanda og sótt hafi verið um framlengingu þess.

Dvalarleyfi sem geta skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi eru í skilningi reglugerðarinnar án takmarkana.


37. gr.
Dvalarleyfi sem ekki geta skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi.

Dvalarleyfi án atvinnuþátttöku, óendurnýjanlegt dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku, takmarkað dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku, dvalarleyfi vegna námsdvalar eða vistráðningar og bráðabirgðadvalarleyfi mynda ekki heimild til útgáfu búsetuleyfis.


38. gr.
Útgáfa dvalarleyfis.

Dvalarleyfi, sem veitt er í fyrsta sinn, skal hafa verið gefið út áður en komið er til landsins.

Frá þessu má víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er:

a. maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum,
b. barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára.

Útlendingastofnun getur enn fremur ákveðið að víkja frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Þegar Útlendingastofnun hefur gefið út dvalarleyfi skal dvalarleyfisskírteini sent til lögreglustjóra í því umdæmi þar sem leyfishafi hefur lögheimili og skal leyfishafi gefa sig þar fram til að fá skírteini sitt afhent.


39. gr.
Málsmeðferð við afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um útgáfu dvalarleyfis.

Sækja skal um dvalarleyfi á sérstöku eyðublaði. Umsókninni skal fylgja ljósmynd af umsækjanda og skal hann rita undir umsóknina eigin hendi. Umsækjandi skal leggja fram þau gögn sem talin eru nauðsynleg við afgreiðslu umsóknarinnar, svo sem sakavottorð, fæðingarvottorð, heilbrigðisvottorð, hjúskaparvottorð, gögn um framfærslu, tryggingaskírteini eða vottorð um sjúkratryggingu, vottorð um húsnæði og gögn um forsjá barns.

Þegar Útlendingastofnun tekur við umsókn um dvalarleyfi skal gengið úr skugga um að hún sé rétt útfyllt og að nauðsynleg gögn fylgi. Útlendingastofnun skal sjá til þess að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Leggja má fyrir umsækjanda eða umboðsmann hans að koma til viðtals í tengslum við afgreiðslu umsóknarinnar.

Umsækjandi skal sanna á sér deili með því að leggja fram vegabréf eða annað viðurkennt kennivottorð sem gefið er út af þar til bærum yfirvöldum. Ef þörf krefur má einnig leggja fyrir hann að framvísa gögnum til staðfestingar öðrum upplýsingum sem hann gefur, sbr. 64. gr. Það skal skráð með hvaða hætti umsækjandi hefur sannað á sér deili.

Þegar dvalarleyfi er veitt áður en útlendingur kemur til landsins skal honum kynnt skylda til að gefa sig fram við Útlendingastofnun eða embætti sýslumanns utan Reykjavíkur innan viku frá komu.


40. gr.
Gildistími dvalarleyfis.

Dvalarleyfi sem veitt er í fyrsta sinn skal að jafnaði gefið út til eins árs. Heimilt er að gefa leyfið út til skemmri tíma, eða allt að tveimur árum, ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum.

Ferðaskilríki útlendings skal að jafnaði gilda að minnsta kosti í þrjá mánuði umfram þann tíma er dvalarleyfið gildir.

Í dvalarleyfinu skal tiltekinn síðasti heimili komudagur í samræmi við grundvöll leyfisins. Síðasti heimili komudagur skal ekki vera síðar en þremur mánuðum eftir að ákvörðun um veitingu leyfisins var tekin, nema sérstakar ástæður liggi til þess. Upphaf dvalar á grundvelli leyfis sem veitt er í fyrsta sinn miðast við útgáfudag dvalarleyfisskírteinis.


41. gr.
Endurnýjun dvalarleyfis.

Endurnýja má dvalarleyfi útlendings, að fenginni umsókn, ef fullnægt er skilyrðum 11. gr. útlendingalaga og reglugerðar þessarar. Útlendingastofnun annast endurnýjun dvalarleyfa.

Endurnýjað dvalarleyfi skal að jafnaði gefið út til eins árs en heimilt er að gefa leyfið út fyrir annað tímabil ef rétt þykir vegna tilgangs dvalarinnar eða af öðrum ástæðum. Endurnýjað dvalarleyfi skal þó ekki gefið út til lengri tíma en tveggja ára.

Heimila má útlendingi, sem sækir um endurnýjun dvalarleyfis, áframhaldandi dvöl með sömu skilyrðum þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina. Ef hann leggur umsókn fram a.m.k. mánuði áður en leyfið fellur úr gildi er skylt að veita slíka heimild.


42. gr.
Trygg framfærsla.

Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi skal sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Lágmarksframfærsla skal miðuð við útgefinn framfærslustuðul félagsþjónustu sveitarfélags á hverjum stað og á því tímamarki sem umsókn ásamt fullnægjandi fylgigögnum er lögð fram.

Framfærsla telst trygg ef útlendingurinn:

a. fær launatekjur eða greiðslur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi sem nægja til framfærslu hans,
b. fær fastar reglulegar greiðslur sem nægja til framfærslu hans,
c. hefur nægilegt eigið fé til framfærslu meðan á dvölinni stendur; eigið fé viðkomandi þarf að vera í gjaldmiðli sem skráður er hjá Seðlabanka Íslands,
d. fær námslán eða námsstyrk sem nægir til framfærslu hans, í gjaldmiðli sem skráður er hjá Seðlabanka Íslands.

Framfærsla getur stuðst við fleiri en einn lið 2. mgr. og telst þá trygg ef útlendingurinn sýnir fram á að samanlögð fjárráð hans nægi til framfærslunnar.

Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags veita ekki rétt til dvalarleyfis.


43. gr.
Sjúkratrygging.

Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi skal sýna fram á að hann sé sjúkratryggður með því að leggja fram tryggingarskírteini um sjúkratryggingu að lágmarki 2.000.000 kr. frá vátryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi.

Útlendingi sem kemur frá ríki sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert tvíhliða samning við um sjúkratryggingar er heimilt að leggja framvottorð eða önnur gögn um sjúkratryggingu í tryggingastofnun eða sjúkrasamlagi sem Tryggingastofnun ríkisins metur gild í stað tryggingarskírteinis skv. 1. mgr.

Um EES- og EFTA-útlendinga gilda sérreglur, sbr. XII. kafla.


44. gr.
Tryggt húsnæði.

Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í sex mánuði eða lengur skal sýna fram á að hann hafi tryggt húsnæði þann tíma sem dvalarleyfisumsókn hans tekur til, sbr. 2. gr. laga um lögheimili.

Húsnæði skal fullnægja ákvæðum heilbrigðisreglugerðar um íbúðarhúsnæði.

Umsækjandi skal leggja fram þinglýstan leigusamning eða þinglýstan kaupsamning, afsal eða önnur gögn til sönnunar á heimild til búsetu í viðkomandi húsnæði.


45. gr.
Veiting dvalarleyfis skv. 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga.

Útlendingi sem nýtur verndar gegn ofsóknum skv. 45. gr. útlendingalaga, en verður ekki veitt hæli skv. 46. gr. laganna, sbr. 44. gr. þeirra, er heimilt að veita dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laganna.

Ef útlendingur hefur fengið synjun á umsókn sinni um hæli hér á landi og fellur ekki heldur undir 1. mgr. þessarar greinar skal stjórnvaldið sem ákvörðun tók í málinu að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort beita skuli ákvæðum 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga.

Í öðrum tilvikum má veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið.


46. gr.
Veiting bráðabirgðadvalarleyfis skv. 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga.

Útlendingastofnun getur, að beiðni útlendings sem sótt hefur um hæli, veitt honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina. Það er skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðadvalarleyfis samkvæmt þessari grein:

a. að tekin hafi verið hælisskýrsla af umsækjanda,
b. að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er og
c. að ekki liggi fyrir aðstæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda eða beiðni um að annað ríki taki við honum á ný.

Synji Útlendingastofnun umsókn hælisumsækjanda gildir bráðabirgðaleyfi sem honum hefur verið veitt skv. 1. mgr. áfram ef synjunin er kærð til æðra stjórnvalds og kæran frestar framkvæmd ákvörðunar um að hælisumsækjandinn skuli yfirgefa landið, sbr. 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga. Útlendingastofnun getur, að beiðni hælisumsækjanda sem kært hefur synjun um hæli og hefur ekki þegar fengið bráðabirgðadvalarleyfi skv. 1. mgr., veitt honum slíkt leyfi að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. ef kæran frestar framkvæmd ákvörðunar um að viðkomandi skuli yfirgefa landið, sbr. 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga. Leyfi samkvæmt þessari málsgrein gildir meðan kæran er til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi.

Útlendingastofnun getur að beiðni útlendings sem hefur fengið endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi, sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, veitt honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda.

Ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru, og viðeigandi ákvæði V. kafla útlendingalaga, gilda ekki um ákvörðun um bráðabirgðadvalarleyfi.

Bráðabirgðadvalarleyfi má gefa út til eins árs í senn að hámarki. Það myndar ekki grundvöll fyrir útgáfu búsetuleyfis.


47. gr.
Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.

Nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara, sem búsettur er hér á landi, eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi geta samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í c-lið 1. mgr. 11. gr. útlendingalaga, auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. laganna.

Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru:

a. Maki, báðir aðilar skulu hafa náð 18 ára aldri. Ef sá sem aðstandandinn leiðir heimild sína af er giftur fleiri en einum aðila er einungis heimilt að veita fyrsta maka dvalarleyfi.
b. Samvistarmaki, báðir aðilar skulu hafa náð 18 ára aldri.
c. Sambúðarmaki, báðir aðilar skulu hafa náð 18 ára aldri og geta sýnt fram á að hafa búið saman í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti í að minnsta kosti tvö ár og hyggjast búa áfram saman. Eingöngu skal veitt dvalarleyfi til eins sambúðarmaka og er skilyrði útgáfu leyfis að hvorugur aðilanna sé í hjúskap eða staðfestri samvist.
d. Barn ef báðir foreldrar hafa eða munu fá gilt dvalarleyfi sem getur myndað grunn fyrir búsetuleyfi eða hafa búsetuleyfi hérlendis.
e. Barn þegar annað foreldri hefur gilt dvalarleyfi hér á landi sem getur myndað grunn fyrir búsetuleyfi eða er með búsetuleyfi. Það foreldri sem býr hér þarf að fara með forsjá barnsins. Ef forsjá er í höndum beggja foreldra skal liggja fyrir vottfest samþykki þess foreldris sem búsett er erlendis.
f. Ættmenni viðkomandi eða maka hans að feðgatali og á þeirra framfæri.

Barn er einstaklingur undir 18 ára aldri án maka eða sambúðarmaka. Til staðfestingar á aldri, ólögræði og hjúskaparstöðu umsækjanda þurfa öll gögn og nauðsynleg fylgigögn að hafa borist Útlendingastofnun fyrir 18 ára afmælisdag umsækjanda. Forsjármenn skulu sækja um fyrir hönd ólögráða einstaklinga.


VIII. KAFLI
Búsetuleyfi.
48. gr.
Búsetuleyfi.

Veita má útlendingi, sem dvalist hefur hér á landi samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og fullnægir skilyrðum 50. gr. um íslenskukunnáttu, búsetuleyfi samkvæmt umsókn ef ekki liggja fyrir ástæður sem valdið geta því að honum verði vísað úr landi, sbr. 1. mgr. 20. gr. útlendingalaga. Forsenda fyrir útgáfu búsetuleyfis er að skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfisins séu enn fyrir hendi.


49. gr.
Samfelld dvöl.

Krafan um samfellda dvöl útlendings hér á landi telst uppfyllt þegar hann hefur ekki dvalist lengur en samtals níu mánuði erlendis á síðustu þremur árum.
Dvalartími skv. 48. gr. reiknast frá þeim degi þegar útlendingur fær útgefið dvalarleyfi án takmarkana. Fyrir útlending sem veitt er hæli á grundvelli 46. gr. útlendingalaga miðast upphaf dvalartíma við það tímamark er umsókn var lögð fram.


50. gr.
Námskeið í íslensku.

Umsækjandi um búsetuleyfi skal hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, að lágmarki samtals 150 stundir. Umsækjandi skal leggja fram vottorð til staðfestingar á þátttöku í slíku námskeiði og um ástundun sína, en tímasókn umsækjanda skal vera að lágmarki 85%. Vottorð um þátttöku í námskeiði skal gefið út af námskeiðshaldara sem dómsmálaráðuneytið samþykkir.

Heimilt er að víkja frá ákvæðum 1. mgr. um þátttöku í námskeiði ef umsækjandi hefur náð viðhlítandi þekkingu í íslensku og leggur fram vottorð því til staðfestingar að hann hafi staðist próf í íslensku fyrir útlendinga. Vottorðið skal gefið út af þeim sem dómsmálaráðuneytið hefur samið við um að halda próf í íslensku fyrir útlendinga sem hyggjast sækja um búsetuleyfi. Enn fremur er heimilt að víkja frá skilyrði um þátttöku í námskeiði ef umsækjandi er eldri en 65 ára og hefur búið hér á landi í a.m.k. tíu ár og ef umsækjanda er af líkamlegum eða andlegum ástæðum ekki unnt að taka þátt í slíku námskeiði, enda sé slíkt staðfest af lækni.

Þeim sem heldur námskeið eða próf skv. 1. og 2. mgr. er heimilt að krefja umsækjanda um gjald vegna námskeiðs, prófs og útgáfu vottorðs.


51. gr.
Gildistími og efni búsetuleyfis.

Búsetuleyfi felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar og gildir frá útgáfudegi þess. Útlendingi sem hefur búsetuleyfi má aðeins vísa frá landi eða úr landi í þeim tilvikum sem greinir í 2. mgr. 21. gr. útlendingalaga.


52. gr.
Umsókn um búsetuleyfi.

Umsókn um búsetuleyfi skal lögð fram hjá Útlendingastofnun á sérstöku eyðublaði.

Með umsókn skal leggja fram viðeigandi fylgigögn, svo sem staðfest afrit af skattframtölum síðustu þriggja ára, launaseðla síðustu þriggja mánaða, sakavottorð, staðfestingu á heimilisfangi síðustu þrjú ár, vottorð sveitarfélags um framfærslustyrk og vegabréf sem umsækjandi hefur notað síðastliðin þrjú ár, auk vottorðs um námskeið eða kunnáttu í íslensku, sbr. 50. gr.


53. gr.
Stjórnvald.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um búsetuleyfi. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. útlendingalaga gilda um umsóknir um búsetuleyfi eftir því sem við á.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um niðurfellingu búsetuleyfis og um umsókn útlendings um að dvelja lengur en 18 mánuði erlendis án þess að búsetuleyfið falli úr gildi, sbr. 54. gr.


54. gr.
Niðurfelling búsetuleyfis.

Búsetuleyfi fellur niður þegar leyfishafi hefur verið búsettur eða dvalist í raun erlendis samfellt lengur en 18 mánuði.

Búseta eða dvöl í raun erlendis er talin vera samfelld þrátt fyrir að útlendingur hafi dvalist einu sinni eða oftar um styttri tíma á Íslandi. Enn fremur telst búseta eða dvöl erlendis í raun utan Íslands vera samfelld þegar útlendingur hefur á fjórum árum dvalist lengur erlendis en 18 mánuði samtals.

Útlendingastofnun getur heimilað samkvæmt umsókn að búsetuleyfi haldi gildi sínu þrátt fyrir að útlendingur dveljist utan Íslands lengur en 18 mánuði samfellt þegar útlendingur:

a. þarf að gangast undir herskyldu eða aðra skylda þjónustu í heimalandi sínu,
b. þarf að dveljast erlendis vegna vinnu eða menntunar sinnar eða maka, þegar ljóst er að viðkomandi ætlar að setjast hér að aftur eftir dvölina erlendis,
c. þarf að dveljast erlendis ásamt maka, sambúðarmaka eða samvistarmaka, móður eða föður sem gegnir launuðu starfi á vegum íslenska ríkisins eða sem er starfsmaður alþjóðlegrar stofnunar.

Við mat á því hvort orðið verði við umsókn skv. 3. mgr. skal litið til þess hversu langan tíma útlendingur hefur áður dvalist á Íslandi og hvert markmið hans er með dvöl erlendis. Umsókn skal lögð fram með góðum fyrirvara áður en 18 mánaða tímamarkinu er náð.


IX. KAFLI
Frávísun og brottvísun.
55. gr.
Frávísun frá landi.

Heimilt er að vísa útlendingi frá landi ef skilyrði 18. gr., sbr. 19. gr., eða 21. gr. útlendingalaga eru uppfyllt og ákvörðunin brýtur ekki í bága við ákvæði 45. gr. laganna.

Útlendingi undir 20 ára aldri sem hefur fasta búsetu í einhverju hinna Norðurlandanna og kemur hingað í stutta hópferð í fylgd fullorðins einstaklings skal ekki vísað frá landi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga þótt hann hafi ekki gilt vegabréf eða annað viðurkennt ferðaskilríki.

Útlendingi, sem hyggst fara um íslenskt yfirráðasvæði og hefur dvalarleyfi eða vegabréfsáritun fyrir ferð til baka, sem Schengen-ríki hefur gefið út, skal ekki vísað frá landi á grundvelli 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, nema honum hafi áður verið vísað hér úr landi og endurkomubann sé enn í gildi.

Útlendingi, sem hyggst fara um íslenskt yfirráðasvæði á leið til Schengen-ríkis sem veitt hefur honum vegabréfsáritun til lengri dvalar en þriggja mánaða, skal ekki vísað frá landi á grundvelli a-, c- eða d-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga þótt hann hafi ekki vegabréfsáritun til að koma til Íslands og hafi ekki sýnt fram á nægileg fjárráð eða ekki gefið fullnægjandi skýringar á tilgangi dvalar hér á landi.

Útlendingastofnun getur gefið út leiðbeiningarreglur um það hvað teljist nægileg fjárráð til dvalar hér á landi í skilningi d-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga.


56. gr.
Frávísun hælisumsækjanda.

Þegar skilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaganna eru uppfyllt, sbr. 19. gr. þeirra, skal vísa útlendingi sem hefur fengið synjun um hælisumsókn, sbr. 46. gr. laganna, og ekki verður veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laganna frá landi á þeim grundvelli ef líklegt er að ákvörðunin geti komið til framkvæmda áður en dvalartími útlendingsins hér á landi nær sex mánuðum.

Annars skal vísa útlendingi sem svo er ástatt um er greinir í 1. mgr. frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaganna, sbr. 19. gr. þeirra, ef líklegt er að ákvörðunin geti komið til framkvæmda áður en dvalartími útlendingsins hér á landi nær þremur mánuðum. Útlendingur sem sótt hefur um hæli telst hafa áform um að dveljast á landinu í meira en þrjá mánuði, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna.


57. gr.
Brottvísun.

Heimilt er að vísa útlendingi úr landi þegar skilyrðum 20. eða 21. gr. útlendingalaga er fullnægt og ákvörðunin brýtur ekki í bága við 45. gr. sömu laga.

Ákvörðun um brottvísun skal tekin af Útlendingastofnun, sbr. 1. mgr. 22. gr. útlendingalaga.

Útgefin dvalar-, atvinnu- og búsetuleyfi falla úr gildi þegar endanleg ákvörðun um brottvísun liggur fyrir.

Brottvísun kemur í veg fyrir endurkomu til landsins, sbr. 3. mgr. 20. gr. útlendingalaga.

Tilkynna skal útlendingi sem hefur verið vísað úr landi um endurkomubannið og að brot gegn því sé refsivert skv. a-lið 1. mgr. 57. gr. útlendingalaga.

Þegar brottvísun og endurkomubann felur í sér skráningu í Schengen-upplýsingakerfið skal útlendingnum gerð grein fyrir að endurkomubannið gildi á landsvæðum allra Schengen-ríkjanna, nema því aðeins að einstakt ríki heimili sérstaklega komu til viðkomandi lands.

Mæli sérstakar ástæður með því er heimilt að veita útlendingi, samkvæmt umsókn, heimild til endurkomu áður en endurkomubanni lýkur, þó að jafnaði ekki fyrr en tvö ár eru liðin frá brottför.

Endurkomubann hefst þann dag sem útlendingur er færður úr landi eða útlendingur fer af sjálfsdáðum af landi brott.

Lögreglan birtir útlendingi ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Henni ber að leiðbeina útlendingi um réttarstöðu hans, sbr. 25. gr. útlendingalaga, og að hann eigi rétt á að túlkur sé kallaður til, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.


X. KAFLI
Miðlun upplýsinga úr landi.
58. gr.
Grunnupplýsingar.

Þegar sendar eru upplýsingar í samræmi við 26. gr. útlendingalaga má skýra frá fullu nafni útlendings, fæðingardegi og ríkisfangi hans.


59. gr.
Miðlun upplýsinga í tengslum við útgáfu vegabréfsáritunar
sem gildir eingöngu fyrir Ísland.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um útgáfu vegabréfsáritunar sem gildir eingöngu fyrir Ísland, sbr. 20. gr., má auk þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 58. gr. veita upplýsingar um:

a. hvar og hvenær áritunin var gefin út og
b. ástæður fyrir útgáfu áritunarinnar.


60. gr.
Miðlun upplýsinga vegna afturköllunar vegabréfsáritunar.

Þegar Schengen-ríkjum er tilkynnt um afturköllun eða styttingu gildistíma vegabréfsáritunar, sbr. 26. gr., má auk þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 58. gr. veita upplýsingar um:

a. tegund ferðaskilríkis og númer þess,
b. númer áritunarmiðans,
c. flokk vegabréfsáritunar,
d. hvar og hvenær áritunin var gefin út og
e. hvenær og hvers vegna áritunin var afturkölluð eða gildistíminn styttur.


61. gr.
Miðlun upplýsinga vegna samráðs við veitingu vegabréfsáritunar.

Þegar Schengen-ríki hefur óskað eftir samráði áður en vegabréfsáritun er gefin út má auk þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 58. gr. veita upplýsingar um:

a. stjórnvald sem tók við umsókninni eða hefur umsóknina til afgreiðslu,
b. fyrra ríkisfang,
c. tegund og númer ferðaskilríkis sem lagt var fram, ásamt útgáfudegi og gildistíma þess,
d. fyrirhugaðan dvalartíma og tilgang dvalarinnar,
e. fyrirhugaðan ferðadag,
f. heimilisfang umsækjanda, atvinnu hans og vinnuveitanda,
g. upplýsingar frá öðru Schengen-ríki, einkum um fyrri umsóknir eða dvöl á Schengen-svæðinu,
h. hvar umsækjandinn hyggst koma inn á Schengen-svæðið og
i. aðrar upplýsingar sem þýðingu hafa svo sem um maka og börn sem ferðast með umsækjanda, um áritun sem áður hefur verið gefin út til umsækjanda eða umsóknir um vegabréfsáritanir sem tengjast sama ákvörðunarstað.


62. gr.
Miðlun upplýsinga vegna dvalarleyfisumsóknar útlendings
sem skráður er í Schengen-upplýsingakerfið.

Við samráð sem skylt er að hafa á grundvelli 25. gr. Schengen-samningsins þegar tekin er til afgreiðslu dvalarleyfisumsókn frá útlendingi sem skráður er í Schengen-upplýsingakerfið eða þegar útlendingur sem hefur gilt dvalarleyfi útgefið af Schengen-ríki er skráður í Schengen-upplýsingakerfið má auk þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 58. gr. veita upplýsingar um:

a. grundvöll skráningarinnar í Schengen-upplýsingakerfið,
b. stjórnvald sem ákvörðun tók um skráninguna,
c. dagsetningu ákvörðunar,
d. dagsetningu birtingar ákvörðunar,
e. hvenær ákvörðunin kom til framkvæmda,
f. gildistíma ákvörðunar,
g. ástæðu þess að útlendingurinn er talinn óæskilegur á yfirráðasvæði skráningarlandsins.


63. gr.
Miðlun upplýsinga vegna meðferðar hælisumsóknar.

Við meðferð hælisumsóknar má á grundvelli 26. gr. útlendingalaga, auk upplýsinga sem tilgreindar eru í 58. gr., veita upplýsingar um:

a. fyrra nafn ef við á, gælunafn eða dulnefni, fæðingarstað og fyrra ríkisfang,
b. persónu- og ferðaskilríki,
c. aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sýna fram á hver umsækjandi er, þar með talin fingraför í samræmi við reglur um Eurodac, sbr. 68. gr.,
d. dvalarstaði og ferðaleiðir,
e. dvalarleyfi og vegabréfsáritanir sem aðildarríki Dyflinnarsamningsins hefur gefið út,
f. hvar hælisumsókn var lögð fram,
g. hvenær fyrri umsókn var lögð fram, ef um það er að ræða, hvenær núverandi umsókn var lögð fram, á hvaða stigi málsmeðferðin er og hvaða ákvörðun hefur verið tekin ef því er að skipta,
h. á hverju hælisumsækjandinn byggir umsókn sína og
i. rök fyrir þeim ákvörðunum sem kunna að hafa verið teknar varðandi umsækjandann.

Einungis má miðla þeim upplýsingum sem tilgreindar eru í 1. mgr. ef það er nauðsynlegt til að hægt sé að ákvarða hvaða ríki beri að fjalla um hælisumsóknina, til að unnt sé að fjalla um hælisumsóknina eða til að uppfylla aðrar skuldbindingar, t.d. samkvæmt Dyflinnarsamningnum og reglum um Eurodac. Það er skilyrði fyrir miðlun upplýsinga skv. h- og i-lið 1. mgr. að hælisumsækjandinn hafi samþykkt hana.


XI. KAFLI
Rannsóknarúrræði.
64. gr.
Deili á útlendingi.

Við komu útlendings til landsins og þar til vitneskja um rétt deili á honum er fengin er honum skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er. Í þessu skyni má leggja fyrir útlending að:

a. veita upplýsingar um atriði sem varða hann sjálfan, svo sem um nafn, ríkisfang, fæðingardag, fæðingarstað, heimilisfang eða dvalarstað í heimalandi, hjúskaparstöðu, fjölskylduhagi, persónuskilríki og ferðaleið til Íslands,
b. leggja fram ferðaskilríki eða sambærileg gögn sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum til staðfestingar á því hver útlendingurinn er; enn fremur má gera útlendingi, sem ekki hefur slík gögn undir höndum, skylt að afla þeirra; einnig má leggja fyrir hann að veita atbeina sinn til að slík skilríki verði gefin út, með því m.a. að gefa sig fram við sendistofnun hlutaðeigandi ríkis og veita þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að fá útgefin ferðaskilríki,
c. leggja fram önnur þau gögn sem sýnt geta fram á hver útlendingurinn er; leggja má fyrir útlendinginn að afla slíkra gagna ef hann hefur þau ekki undir höndum eða veita atbeina sinn til þess að þeirra verði aflað,
d. leggja fram farmiða, farangurskvittanir og þess háttar gögn,
e. taka þátt í tungumálaprófi og
f. veita rithandarsýnishorn til samanburðarrannsókna.

Ekki má skylda útlending sem sækir um hæli til að hafa samband við yfirvöld í heimaríki sínu eða til að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er á annan þann hátt sem brýtur í bága við þörf hans fyrir vernd. Þetta gildir þó ekki um hælisumsækjanda sem hefur fengið synjun á umsókn sinni um hæli með skyldu til að yfirgefa landið eða hælisumsækjanda sem hefur verið veitt dvalarleyfi á öðrum grundvelli en þeim að hann sé verndar þurfi.

Komi í ljós að vafi leikur á um rétt deili á skráðum útlendingi hér á landi er honum skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er. Beita má ákvæðum 1. mgr. í slíkum tilvikum, en áður skal upplýsa útlendinginn um ástæður þess að efast sé um rétt deili á honum og veita honum tækifæri til að tjá afstöðu sína til þeirra.

Þegar beitt er ákvæði 1. mgr. skal viðkomandi útlendingi gerð grein fyrir skyldu sinni samkvæmt því og enn fremur skal hann upplýstur um viðurlög við því að sinna ekki þessari skyldu sinni, eða veita rangar eða villandi upplýsingar, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 57. gr. útlendingalaga.


65. gr.
Heimild til töku ljósmynda og fingrafara.

Umsókn um dvalarleyfi eða vegabréfsáritun skal fylgja ljósmynd af umsækjanda, sbr. 22. og 39. gr.

Taka skal ljósmynd og fingraför af útlendingi sem:

a. ekki getur eða vill færa sönnur á hver hann er eða ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn hafi gefið rangar upplýsingar um hver hann sé,
b. sækir um hæli hér á landi,
c. er eldri en 18 ára og sækir um að fá að dveljast hér á landi sem aðstandandi útlendings sem sótt hefur um hæli á Íslandi,
d. hefur verið vísað hér úr landi,
f. hefur dvalist hér ólöglega.

Að auki má taka ljósmynd og fingraför af útlendingi sem:

a. hefur verið synjað um leyfi samkvæmt útlendingalögum,
b. hefur verið vísað frá landinu,
c. ætla má að dveljist hér ólöglega.

Óheimilt er þó að taka ljósmynd eða fingraför af útlendingi skv. a-lið 3. mgr. ef ástæður synjunar leyfis eru einungis þær að framfærsla hans, sjúkratrygging og húsnæði er ekki tryggt, sbr. 42.- 44. gr. og a-lið 1. mgr. 11. gr. útlendingalaga. Enn fremur er óheimilt að taka ljósmynd og fingraför af útlendingi skv. b-lið 3. mgr. þessarar greinar ef ástæða frávísunar er einungis sú að útlendingur geti eigi sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. laganna.

Lögregla skal, þegar fingraför eru tekin skv. 2. og 3. mgr., veita upplýsingar um hver ber ábyrgð á skráningu fingrafaranna, tilganginn með töku þeirra og um meðferð, vörslu og eyðingu fingrafaraupplýsinganna, sbr. 66. og 67. gr.

Um töku og meðferð fingrafara samkvæmt samningi milli Íslands, Noregs og Evrópubandalagsins frá 19. janúar 2001 um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja samningsins fer skv. 68. gr.


66. gr.
Fingrafaraskrá.

Fingraför sem tekin eru samkvæmt 2. og 3. mgr. 65. gr. skulu varðveitt í sérstakri skrá í fingrafaraskrá ríkislögreglustjóra. Vísa skal til heimildar um töku fingrafara og fingraförin merkt með sérstöku tilvísunarnúmeri. Þegar fingraför eru færð í skrána skal leitað í henni til að kanna hvort útlendingurinn er þegar skráður undir sama nafni eða öðru nafni. Einnig skal leitað í almennri fingrafaraskrá til að kanna hvort útlendingurinn er eftirlýstur hér á landi eða í öðru ríki.

Ef ástæða er til að ætla að útlendingurinn hafi dvalist í öðru ríki en heimaríki áður en hann kom til Íslands má senda fingraför hans til yfirvalda í því ríki til samanburðarrannsóknar.

Fingraför sem yfirvöld útlendingamála í öðru ríki senda hingað má nota til leitar í fingrafaraskrám. Veita má upplýsingar úr þeim á grundvelli samninga um upplýsingaskipti við önnur ríki eða í öðrum tilvikum ef þess þykir þörf. Sama gildir um fingraför af útlendingum sem eru eftirlýstir fyrir alvarleg afbrot sem hingað eru send frá Interpol eða beint frá lögregluyfirvöldum í öðru ríki.

Heimilt er að leita í fingrafaraskrá útlendinga í tengslum við rannsókn afbrota sem framin hafa verið á Íslandi.


67. gr.
Eyðing fingrafara úr skránni.

Fingraförum útlendings skal eytt úr skránni þegar honum hefur verið veitt hæli eða dvalarleyfi sem myndað getur heimild til útgáfu búsetuleyfis. Þetta gildir þó ekki ef enn leikur vafi á því hver útlendingurinn er. Skal þá eyða fingraförunum þegar skráð hafa verið rétt deili á útlendingnum eða þegar honum hefur verið veitt búsetuleyfi.

Fingraförum útlendings sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn um hæli eða dvalarleyfi, eða sem er vísað frá eða úr landi, skal eytt þegar tíu ár eru liðin frá því ákvörðunin var tekin. Þetta gildir þó ekki ef ákvörðun skv. 1. málsl. hefur verið tekin vegna öryggis ríkisins.

Útlendingastofnun skal tilkynna ríkislögreglustjóra hvenær fingraförum skuli eytt skv. 1. mgr. og um upphaf frests skv. 2. mgr. Fingraförum sem ekki hefur verið eytt skal eyða þegar tíu ár eru liðin frá síðustu skráningu.


68. gr.
Sérákvæði um Eurodac.

Í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Íslands, Noregs og Evrópubandalagsins um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja samningsins má taka fingraför af útlendingi, 14 ára eða eldri, sem:

a. sækir um hæli hér á landi,
b. er handtekinn í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins og er ekki vísað frá,
c. dvelur ólöglega hér á landi.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um sendingu fingrafaraupplýsinga úr landi á grundvelli Eurodac-reglna. Lögregla annast töku fingrafaranna og sendir þau alþjóðadeild ríkislögreglustjóra ásamt nauðsynlegum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um grundvöll þess að fingraförin voru tekin. Ríkislögreglustjóri annast samskipti við miðlægan gagnagrunn Eurodac.

Lögregla skal, þegar fingraför eru tekin til færslu í Eurodac-kerfið, veita hælisumsækjanda eða útlendingi sem handtekinn er í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri og er ekki vísað frá upplýsingar um:

a. hver ber ábyrgð á skráningunni,
b. tilganginn með vinnslu upplýsinganna í Eurodac-kerfinu,
c. hvert upplýsingunum er miðlað,
d. að skylda er að taka fingraför hans og
e. rétt hans til að fá aðgang að og leiðréttingu á upplýsingum sem varða hann.

Útlendingi, sem dvelur ólöglega hér á landi og fingraför hafa verið tekin af til sendingar til Eurodac, skal veita upplýsingar skv. a-, b-, c- og e-lið 3. mgr. eigi síðar en þegar upplýsingar um hann eru sendar í miðlægan gagnagrunn Eurodac. Þessi skylda á þó ekki við ef í ljós kemur að ekki er unnt að veita honum þessar upplýsingar.

Ríkislögreglustjóra ber að senda fingraför ásamt nauðsynlegum upplýsingum um útlending til miðlægs gagnagrunns Eurodac og fyrirspurnir vegna þeirra eftir beiðni Útlendingastofnunar og veita henni upplýsingar um niðurstöðu leitar í Eurodac-gagnagrunninum.

Ríkislögreglustjóra ber að senda miðeiningu Eurodac tilmæli um að læsa upplýsingum um umsækjanda um hæli sem hefur verið skráður samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra ef sá maður er viðurkenndur flóttamaður og hefur fengið að koma sem flóttamaður inn í aðildarríki. Ríkislögreglustjóra ber að senda Eurodac upplýsingar, sem honum kunna að berast áður en tíu ár eru liðin frá skráningu, um að hælisumsækjandi, sem skráður er samkvæmt upplýsingum frá Íslandi, hafi fengið ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna.

Ríkislögreglustjóri skal, ef hann hefur sent Eurodac upplýsingar til skráningar um þann sem handtekinn hefur verið í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri, tilkynna Eurodac ef hann verður þess var áður en tvö ár eru liðin frá skráningu að útlendingurinn:

a. hefur fengið dvalarleyfi,
b. er farinn af yfirráðasvæði aðildarríkjanna eða
c. hefur fengið ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna.

Ríkislögreglustjóri getur sett verklagsreglur um meðferð fingrafaraupplýsinga og samskipti lögreglu, Útlendingastofnunar og alþjóðaskrifstofu ríkislögreglustjóra vegna Eurodac-gagnagrunnsins.


XII. KAFLI
Dvöl útlendinga sem falla undir EES-samninginn
eða stofnsamning EFTA hér á landi.
69. gr.
Dvalarleyfi fyrir útlendinga sem falla undir EES-samninginn
eða stofnsamning EFTA.

Útlendingi, sem fellur undir reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-útlendingi) eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA-útlendingi), þó ekki útlendingi sem greinir í 2. mgr., er heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast eða starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu til landsins, eða allt að sex mánuðum ef hann er í atvinnuleit. Dvöl í öðru norrænu landi skal ekki draga frá dvalartímanum.

Útlendingur, sem hvorki er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis né aðstandandi slíks borgara, sbr. 73. gr., sem kemur hingað til lands til að veita þjónustu og er ráðinn hjá aðila sem veitir þjónustu, er hluti af almennum vinnumarkaði EES- eða EFTA-ríkis og hefur óbundið atvinnuleyfi þar, má koma til landsins án sérstaks leyfis í allt að 90 starfsdaga á almanaksári.

EES- eða EFTA-útlendingi, sem dvelst eða starfar hér á landi lengur en greinir í 1. mgr., er skylt að hafa dvalarleyfi. Þetta á þó ekki við um útlending sem starfar hér en hverfur að jafnaði til heimilis í öðru EES- eða EFTA-ríki a.m.k. einu sinni í viku.

EES- eða EFTA-útlendingur, sem er undanþeginn dvalarleyfi skv. 3. mgr. skal innan tveggja vikna frá því að hann hóf starf tilkynna það Útlendingastofnun.


70. gr.
Skilyrði dvalarleyfis.

EES- eða EFTA-útlendingur sem fellur undir 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga, þó ekki útlendingur sem greinir í 2. mgr. 69. gr. reglugerðarinnar, á rétt á dvalarleyfi samkvæmt umsókn þess efnis ef hann framvísar þeim ferðaskilríkjum sem hann komst inn í landið með og gögnum sem sýna að hann uppfylli frekari skilyrði skv. 71. gr. reglugerðarinnar. Heimilt er þó að synja um dvalarleyfi ef þær aðstæður eru fyrir hendi sem geta veitt tilefni til að meina útlendingnum komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum lagaákvæðum.


71. gr.
Frekari skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga er að umsækjandi leggi fram staðfestingu frá vinnuveitanda um ráðningu eða atvinnuvottorð um starf.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. b-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga er að umsækjandi ætli að:

a. Stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi í landinu. Leggja skal fram gögn sem sýna fram á að umsækjandi muni stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi í landinu, svo sem upplýsingar um virðisaukaskattsnúmer. Það er skilyrði að stefnt skuli að varanlegri starfsemi.
b. Veita þjónustu í landinu. Veita skal upplýsingar um hve lengi ætlunin er að veita þjónustuna. Það er skilyrði að megintilgangur dvalarinnar sé að veita þjónustu, að þjónustan skuli látin í té í því skyni að afla tekna og að ákveðin tímamörk séu á hve lengi þjónustan verði látin í té.
c. Njóta þjónustu í landinu. Veita skal upplýsingar um hve lengi ætlunin er að njóta þjónustunnar. Það er skilyrði að megintilgangur dvalarinnar sé að njóta þjónustu, að umsækjandinn eigi að greiða fyrir hana og að ákveðin tímamörk séu á því hve lengi þjónustunnar verði notið.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. c-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga er að umsækjanda sé tryggð framfærsla með föstum reglulegum greiðslum sem svara a.m.k. til framfærslustuðuls félagsþjónustu sveitarfélags á hverjum stað, eigi samsvarandi eigið fé eða sýni fram á að honum sé tryggð framfærsla með öðrum sambærilegum hætti og að hann njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann mundi njóta eftir íslenskum lögum.

Skilyrði fyrir dvalarleyfi skv. d-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga er að umsækjandinn leggi fram gögn um að hann hafi verið innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun og að markmið dvalarinnar sé að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun. Umsækjanda skal vera tryggð framfærsla þann tíma sem umsóknin nær til sem færa skal sönnur á með yfirlýsingu eða með öðrum sambærilegum hætti. Það er og skilyrði að hann njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann mundi njóta eftir íslenskum lögum.


72. gr.
Skilyrði dvalarleyfis fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-útlendings.

Aðstandanda útlendings, sem hefur eða öðlast dvalarleyfi skv. 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga, skal, eftir umsókn þess efnis, veitt dvalarleyfi ef hann framvísar því ferðaskilríki sem hann komst inn í landið með, nema fyrir hendi séu aðstæður sem geta veitt tilefni til að synja umsækjandanum um komu til landsins, dvöl eða vinnu samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Leggja skal fram vottorð frá viðkomandi stjórnvaldi í heimaríki eða því ríki þar sem hann bjó síðast til staðfestingar á fjölskyldutengslunum.

Hvað varðar aðstandanda útlendings skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga er það, auk skilyrðis skv. 1. mgr., skilyrði að útlendingurinn hafi yfir að ráða húsnæði. Hvað varðar aðstandanda útlendings skv. b- og c-lið 1. mgr. 36. gr. laganna er það, auk skilyrðis skv. 1. mgr., skilyrði að framfærsla hans sé tryggð og að hann njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann mundi njóta eftir íslenskum lögum.

Að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. og framfærsla er tryggð má einnig veita öðrum aðstandendum en þeim, sem taldir eru í 73. gr. dvalarleyfi ef þeir eru á framfæri útlendingsins eða hafa haldið heimili með honum í heimalandinu og leggja fram gögn því til staðfestingar. Einnig má setja að skilyrði að útlendingurinn hafi yfir að ráða húsnæði og að umsækjandinn njóti sjúkratryggingar sem nær til allra þátta sem hann mundi njóta eftir íslenskum lögum.

Leyfi sem er gefið út í fyrsta skipti til aðstandanda EES- eða EFTA-útlendings, sbr. 73. gr., skal gefið út í samsvarandi tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans.


73. gr.
Hverjir teljast aðstandendur EES- eða EFTA-útlendings.

Þessir teljast til aðstandenda útlendings sem fellur undir 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga:

a. maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki,
b. niðji útlendings, sem hefur eða öðlast dvalarleyfi á grundvelli a- eða b-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, og/eða maka hans, ef niðjinn er yngri en 21 árs eða á þeirra framfæri,
c. niðji útlendings, sem hefur eða öðlast dvalarleyfi á grundvelli c- eða d-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, og/eða maka hans, ef niðjinn er á þeirra framfæri,
d. ættmenni útlendings, sem hefur eða öðlast dvalarleyfi á grundvelli a-, b- eða c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, eða maka hans, að feðgatali, sem er á framfæri þeirra.


74. gr.
Áframhaldandi dvöl að loknu starfi.

Um rétt útlendings sem fellur undir a- og b-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga til áframhaldandi dvalar að loknu starfi, svo og aðstandenda hans, sbr. 37. gr. laganna, fer skv. 75.-84. gr. reglugerðarinnar, sbr. reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70. Ákvæði 75.-84. gr. gilda með hliðstæðum hætti um EFTA-ríkisborgara og aðstandendur þeirra.


75. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 1. gr.

Ákvæði þessarar reglugerðar (þ.e. 75.-82. gr.) gilda um ríkisborgara í EES-ríki sem hafa starfað sem launþegar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, svo og aðstandendur þeirra samkvæmt skilgreiningu 10. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins (sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47 18. maí 1993).


76. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 2. gr.

1. Eftirtaldir hafa rétt til að dveljast til frambúðar á yfirráðasvæði EES-ríkis:

a. Launþegi sem við lok starfsævi sinnar hefur náð eftirlaunaaldri samkvæmt lögum þess aðildarríkis og hefur starfað í því ríki síðastliðna tólf mánuði hið minnsta og verið búsettur þar samfellt í meira en þrjú ár.
b. Launþegi sem hættir starfi vegna þess að hann varð varanlega óvinnufær eftir að hafa verið búsettur í aðildarríki í meira en tvö ár samfellt. Engin skilyrði eru sett um búsetutíma hafi hann orðið óvinnufær vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms og eigi þar með rétt til lífeyris sem stofnun í aðildarríkinu er að hluta til eða að öllu leyti ábyrg fyrir.
c. Launþegi sem eftir þriggja ára samfelldan starfs- og búsetutíma á yfirráðasvæði þess ríkis starfar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, en er búsettur í fyrra ríkinu sem hann hverfur til daglega eða að minnsta kosti einu sinni í viku.

Starfstímabilum sem lokið er á þennan hátt á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, skal talið lokið í búseturíkinu til þess að hlutaðeigandi öðlist þann rétt sem getið er í a- og b-lið.

2. Skilyrði um lengd búsetu og starfstíma sem um getur í a-lið 1. mgr. og skilyrði um lengd búsetu sem um getur í b-lið 1. mgr. gilda ekki ef maki launþega er ríkisborgari í hlutaðeigandi EES-ríki eða hefur misst ríkisborgararétt sinn í því ríki við að giftast launþeganum.


77. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 3. gr.

1. Aðstandendur (sbr. 73. gr.) launþega sem um getur í 1. gr. þessarar reglugerðar (þ.e. 75. gr.) og eru búsettir hjá honum á yfirráðasvæði EES-ríkis eiga rétt á búsetu þar til frambúðar, jafnvel eftir fráfall hans, enda hafi launþeginn öðlast rétt til að dveljast áfram á yfirráðasvæði þess ríkis skv. 2. gr. (þ.e. 76. gr.).

2. Hafi launþegi hins vegar látist á starfsævi sinni og áður en hann öðlaðist rétt til að dveljast áfram á yfirráðasvæði hlutaðeigandi ríkis eiga aðstandendur hans rétt á að dveljast þar til frambúðar með því skilyrði að:

a. launþeginn hafi á dánardægri sínu verið búsettur á yfirráðasvæði aðildarríkisins samfellt í að minnsta kosti tvö ár, eða
b. hann hafi látist af völdum vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms, eða
c. eftirlifandi maki hans sé ríkisborgari í búseturíkinu eða hafi misst ríkisborgararétt í því ríki við að giftast launþeganum.


78. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 4. gr.

1. Votta má samfellda búsetu sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. gr. (þ.e. 76. gr.) og 2. mgr. 3. gr. (þ.e. 77. gr.) með hverjum þeim hætti sem tíðkast í búseturíkinu. Hún skerðist ekki við tímabundna fjarvist sem er skemmri en þrír mánuðir á ári alls né við lengri fjarvist sem er tilkomin vegna skuldbindinga í herþjónustu.

2. Tímabil þegar launþegi er atvinnulaus gegn vilja sínum, sem skráð er skilvíslega hjá þar til bærri vinnumiðlun, eða vegna veikinda eða slyss teljast engu að síður til starfstímabila samkvæmt skilningi 1. mgr. 2. gr. (þ.e. 76. gr.).


79. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 5. gr.

1. Sá einstaklingur sem hefur öðlast rétt til að dveljast um kyrrt skv. a- og b-lið 1. mgr. 2. gr. (þ.e. 76. gr.) og 3. gr. (þ.e. 77. gr.) getur nýtt sér slíkan rétt í tvö ár frá þeim tíma sem hann öðlaðist hann. Á því tímabili er honum heimilt að fara frá yfirráðasvæði EES-ríkisins án þess að réttur hans skerðist.

2. Þess er ekki krafist að hlutaðeigandi einstaklingur uppfylli nein formsatriði til að njóta réttarins til að dvelja um kyrrt.


80. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 6. gr.

1. Einstaklingar sem falla undir ákvæði þessarar reglugerðar (þ.e. 75.- 82. gr.) eiga rétt á dvalarleyfi sem skal:

a. gefið út og endurnýjað þeim að kostnaðarlausu eða gegn greiðslu sem má ekki vera hærri en þau gjöld og skattar sem innlendir ríkisborgarar greiða fyrir útgáfu eða endurnýjun kennivottorða,
b. gilda alls staðar á yfirráðasvæði þess EES-ríkis sem gefur það út,
c. gilda í fimm ár hið minnsta og endurnýjað sjálfkrafa.

2. Búseturof, sem varir eigi lengur en sex samfellda mánuði, skal ekki skerða gildi dvalarleyfis.


81. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 7. gr.

Réttur til jafnrar málsmeðferðar sem komið var á með reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68 (sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47 18. maí 1993) gildir einnig um þá einstaklinga sem heyra undir þessa reglugerð (þ.e. 75.-82. gr.).


82. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70, 8. gr.

1. Þessi reglugerð (þ.e. 75.-82. gr.) hefur ekki áhrif á ákvæði laga eða stjórnsýslufyrirmæla EES-ríkjanna sem væru hagstæðari ríkisborgurum annarra EES-ríkja.

2. EES-ríkin skulu auðvelda launþegum, sem yfirgefið hafa yfirráðasvæði þeirra eftir að hafa átt þar fasta búsetu um lengri tíma og starfað þar og vilja koma aftur þegar þeir hafa náð aldri til að láta af störfum eða eru orðnir varanlega óvinnufærir, endurkomu til yfirráðasvæða sinna.


83. gr.
EES-útlendingar sem stundað hafa sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi.

Ákvæði 76.-82. gr. gilda með hliðstæðum hætti um þá sem hafa stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi hér á landi, sbr. b-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga, og aðstandendur þeirra, sbr. 73. gr. reglugerðarinnar. Búseturof sem greinir í 2. mgr. 80. gr. má þó vara lengur en sex samfellda mánuði ef það er vegna skuldbindinga í herþjónustu.


84. gr.
Undanþágur vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.

Heimilt er að víkja frá ákvæðum 75.-83. gr. ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 87. gr.


85. gr.
Efni dvalarleyfis.

Dvalarleyfi veitir rétt til að dveljast og til að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt hvar sem er á landinu nema annað sé tekið fram í leyfinu eða leiði af lögum.

Leyfi skal bera með sér hvaða skilyrði og takmarkanir eru sett með leyfinu.

Dvalarleyfi til EES- eða EFTA-útlendings sem háður er reglum um vegabréfsáritun veitir honum rétt til ótakmarkaðra endurkoma til landsins meðan leyfið er í gildi.


86. gr.
Endurnýjun dvalarleyfis.

Dvalarleyfi skv. 36., 37. og 38. gr. útlendingalaga skal endurnýja samkvæmt umsókn ef skilyrðum er enn fullnægt og skal dvalarleyfi að jafnaði endurnýjað til fimm ára nema ákvæði 2. og 3. mgr. eigi við.

Fyrstu endurnýjun leyfis til umsækjanda sem fellur undir a-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga má gefa út til eins árs ef umsækjandinn er atvinnulaus gegn vilja sínum og hefur verið það samfellt í meira en tólf mánuði. Ef umsækjandi er enn atvinnulaus þegar það leyfi rennur út verður leyfi ekki endurnýjað til launþega.

Ákvæði 3. og 5. mgr. 39. gr. útlendingalaga um efni og gildistíma dvalarleyfis gilda eftir því sem við á við endurnýjun dvalarleyfis.

Gildi endurnýjaðs leyfis telst frá þeim tíma sem fyrra dvalarleyfi rennur út.

Að öðru leyti gilda ákvæði 85. gr.um efni dvalarleyfis eftir því sem við á.


87. gr.
Frávísun og brottvísun með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis.

Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-útlendingi frá landi eða úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis, sbr. c-lið 1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. útlendingalaga.

Frávísun eða brottvísun skv. 1. mgr. er m.a. heimil ef útlendingurinn:

a. er háður fíkniefnum eða öðrum eiturlyfjum og hefur orðið það áður en honum er veitt fyrsta dvalarleyfi, eða
b. er haldinn alvarlegum geðrænum truflunum eða geðrænum truflunum sem einkennast af uppnámi, óráði, ofskynjunum eða hugsanabrenglun, enda hafi slíkt ástand hans hafist áður en honum er veitt fyrsta dvalarleyfi.

Ákvörðun um frávísun eða brottvísun með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis skal eingöngu byggð á framferði hlutaðeigandi útlendings og má því aðeins framkvæma að heimilt sé að grípa til úrræða gagnvart íslenskum ríkisborgara við sambærilegar aðstæður.


XIII. KAFLI
Meðferð máls vegna umsóknar um hæli.
88. gr.
Umsókn um hæli.

Umsókn um hæli skv. 46. gr. útlendingalaga skal vera skrifleg eða munnleg hjá lögreglu. Umsóknin skal skráð á þar til gert eyðublað. Umsækjandi skal afhenda með umsókninni vegabréf eða önnur ferðaskilríki sem hann hefur í fórum sínum. Sama gildir um maka, sambúðarmaka eða samvistarmaka umsækjanda og börn hans sem sækja um leyfi eftir komu til landsins skv. 13. gr. og 3. mgr. 46. gr. laganna.

Sá sem skráir umsóknina skal veita umsækjanda leiðbeiningar um þau réttindi sem kveðið er á um í 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga og kalla til túlk, ef þess gerist þörf, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna. Úr því skal skorið hvort sá maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki og þau börn sem komu með umsækjanda sækja einnig um hæli.


89. gr.
Meðferð hælisumsóknar.

Tekin skal skýrsla af umsækjanda sem sækir um hæli eins fljótt og auðið er. Ef umsækjandi og sá sem tekur viðtal vegna umsóknar um hæli geta ekki rætt saman á fullnægjandi hátt á sameiginlegu tungumáli skal túlkur kallaður til. Sá sem tekur viðtalið skal sjá til þess að upplýst verði um þær aðstæður umsækjanda sem hafa þýðingu fyrir umsókn hans eins og kostur er. Gera skal umsækjanda grein fyrir að þær upplýsingar sem hann gefur verði lagðar til grundvallar við ákvörðun um umsókn hans. Umsækjandi skal inntur eftir því hvort hann samþykki að upplýsinga um hann verði aflað frá öðrum stjórnvöldum, þ.m.t. frá stjórnvöldum í öðrum ríkjum en heimaríki hans, ef þess gerist þörf vegna afgreiðslu málsins.

Að öllu jöfnu skal tekin skýrsla af maka, sambúðarmaka eða samvistarmaka umsækjanda, jafnvel þótt hann sæki ekki um hæli.

Í viðtalinu skal ítarlega grafist fyrir um allar aðstæður þeirra barna sem fylgja umsækjanda, nema honum sé vísað til fyrsta griðlands eða lands sem á aðild að Dyflinnarsamningnum frá 15. júní 1990. Í því augnamiði skal rætt við barnið sjálft nema það sé ótvírætt álitið óþarft eða ef foreldrarnir eru mótfallnir því. Tryggja skal nærveru a.m.k. annars foreldris og eftir atvikum fulltrúa barnaverndaryfirvalda við samtalið. Útlendingastofnun getur sett nánari reglur um framkvæmd þessa.

Hafi umsækjandi undir 18 ára aldri komið til landsins án foreldra eða forsjármanna skal haft samband við barnaverndaryfirvöld í því umdæmi þar sem umsókn er til meðferðar. Fulltrúi barnaverndaryfirvalda skal vera viðstaddur viðtalið og kemur fram sem forsvarsmaður eða fulltrúi umsækjanda. Taka ber viðtalið innan hálfs mánaðar eftir að umsókn var lögð fram, sé þess nokkur kostur.

Áður en viðtal hefst skal umsækjandi hvattur til að segja satt, rétt og ítarlega frá og hann áminntur um að séu rangar upplýsingar veittar eða mikilvægum upplýsingum leynt geti það haft áhrif við ákvörðun um umsókn hans. Einnig skal umsækjanda bent á að refsivert er að veita upplýsingar sem eru í verulegum atriðum rangar eða augljóslega villandi, sbr. b-lið 1. mgr. 57. gr. útlendingalaga.

Þegar fram kemur við fyrstu skýrslutöku lögreglu að aðstæður eru eins og lýst er í 2. málsl. 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga, þ.e. að umsækjandi eigi umsókn til meðferðar í öðru ríki eða að slíkri umsókn hafi verið hafnað þar, eða Útlendingastofnun telur augljóst að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 45. gr. laganna, er heimilt að framkvæma ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið eins fljótt og auðið er. Útlendingastofnun er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa.


90. gr.
Stjórnvald og ákvörðun um umsókn.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hælisumsókn skv. 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna. Verði umsókn samþykkt skal umsækjanda gerð skriflega grein fyrir þeim réttaráhrifum sem fylgja hælisveitingu og að hún sé afturkallanleg, sbr. 47. gr. laganna.

Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga til að öðlast hæli tekur Útlendingastofnun ákvörðun um hvort veita skuli umsækjanda leyfi skv. 2. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 45. gr. reglugerðarinnar.

Verði umsækjanda ekki veitt dvalarleyfi hér á landi tekur Útlendingastofnun ákvörðun um frávísun skv. 56. gr. reglugerðarinnar.


91. gr.
Hælisumsókn skv. 12. gr. útlendingalaga.

Heimilt er að fresta meðferð umsóknar um hæli skv. 12. gr. útlendingalaga í allt að þrjú ár frá þeim tíma sem umsækjandi fékk leyfi í fyrsta sinn, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna.

Þegar meðferð umsóknar um hæli er frestað skal afhenda umsækjanda vegabréf og eftir atvikum önnur ferðagögn sem hann lagði fram með umsókn sinni.

Þegar heimild til að veita sameiginlega vernd fellur niður eða þrjú ár eru liðin frá því að umsækjandi fékk leyfi í fyrsta sinn ber að tilkynna honum að hælisumsókn hans verði aðeins tekin til meðferðar að nýju láti hann í ljós ótvíræðan vilja sinn til þess innan mánaðar frá móttöku tilkynningar.


92. gr.
Skráningarskírteini hælisumsækjanda.

Umsækjandi um hæli og meðlimir í fjölskyldu hans sem kunna að hafa fylgt honum, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 88. gr., skulu eins fljótt og verða má eftir komu til landsins, fá í hendur skráningarskírteini hælisumsækjanda, nema til athugunar sé að taka ákvörðun um frávísun umsækjanda skv. 18. gr. útlendingalaga, sbr. 19. gr. laganna, eða sérstakar ástæður mæli gegn því.

Skráningarskírteinið skal gilda í ákveðinn tíma, allt að hálfu ári.

Skráningarskírteini skal afhenda lögreglu eða Útlendingastofnun þegar umsækjandi fær útgefið dvalarleyfisskírteini, ferðaskírteini fyrir flóttamann eða vegabréf fyrir útlending, honum er gert að fara úr landi eða hann fær af öðrum ástæðum vegabréf heimaríkis síns á ný.

Skráningarskírteinið gildir ekki sem staðfesting þess að uppgefnar persónuupplýsingar séu réttar. Það gildir ekki sem ferðaskilríki.


93. gr.
Málsmeðferð o.fl.

Skráningarskírteinið er gefið út af Útlendingastofnun. Upplýsa skal umsækjanda um þær takmarkanir sem gilda um skírteinið, sbr. 4. mgr. 92. gr.

Útlendingastofnun annast breytingu skráningarskírteina og endurnýjun þeirra.

Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á að sækja um endurnýjun skírteinisins ef umsókn hans um hæli hefur ekki verið afgreidd innan gildistímans.


94. gr.
Dvalarstaður hælisumsækjanda meðan mál hans er til meðferðar.

Meðan mál hælisumsækjanda er til meðferðar skulu hælisumsækjandi og fjölskylda hans dveljast á tiltekinni móttökustöð eftir ákvörðun lögreglu og/eða Útlendingastofnunar. Dómsmálaráðuneytið ákveður hvaða staðir eru móttökustöðvar, í samræmi við samning ráðuneytisins og þess eða þeirra aðila sem ráðuneytið hefur falið umönnun hælisumsækjenda á hverjum tíma. Lögreglu er, í samráði við Útlendingastofnun, heimilt að vista hælisumsækjanda og fjölskyldu hans utan móttökustöðvar, t.d. á gistiheimili, við upphaf rannsóknar ef þurfa þykir.

Ákvörðun um dvalarstað samkvæmt þessari grein er ekki kæranleg.


XIV. KAFLI
Réttaráhrif hælis og afturköllun hælisveitingar.
95. gr.
Réttaráhrif hælis.

Hælisveiting hefur í för með sér að umsækjandi fær stöðu flóttamanns og dvalarleyfi sem getur skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi. Hann hefur þá réttarstöðu sem leiðir af íslenskum lögum og flóttamannasamningnum eða öðrum þjóðréttarsamningum um flóttamenn.

Maki flóttamanns, sambúðarmaki eða samvistarmaki og börn eiga rétt til hælis að undangenginni umsókn á grundvelli 13. gr. og 3. mgr. 46. gr. útlendingalaga.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 36. gr. reglugerðarinnar eiga við um dvalarleyfi flóttamanns og fjölskyldu hans. Leyfið skal endurnýjað í samræmi við þær forsendur sem liggja því til grundvallar, séu þær enn fyrir hendi.


96. gr.
Afturköllun hælisveitingar.

Heimilt er að afturkalla hælisveitingu þegar flóttamaður fellur ekki lengur undir flóttamannahugtakið skv. 44. gr. útlendingalaga eða ef það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum, sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna.

Þegar metið er hvort afturkalla eigi hælisveitingu ber að tilkynna flóttamanni um það fyrir fram, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga. Í tilkynningu skal koma fram hvers vegna til greina kemur að afturkalla hælisveitinguna og flóttamanni skal veittur frestur til að tjá sig um málið.

Ákvörðun um afturköllun skal tekin af Útlendingastofnun, sbr. 2. mgr. 47. gr. útlendingalaga. Um leið skal metið hvort veita eigi flóttamanni leyfi til áframhaldandi dvalar án hælis. Einkum skal þar lögð áhersla á tengslin við landið.


XV. KAFLI
Ferðaskírteini fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga.
97. gr.
Skilyrði fyrir útgáfu ferðaskírteinis.

Flóttamanni sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu skal að fenginni umsókn veita ferðaskírteini fyrir flóttamenn til ferða erlendis enda mæli sérstakar ástæður því ekki í mót.

Heimilt er að synja um útgáfu ferðaskírteinis þegar:

a. þær aðstæður eru fyrir hendi sem leiða mundu til þess að íslenskum ríkisborgara yrði ekki veitt vegabréf skv. 5. gr. laga um vegabréf,
b. þær aðstæður eru fyrir hendi að foreldrar fara saman með forsjá barns og annað þeirra hyggst fara með barnið úr landi án samþykkis hins, sbr 2. mgr. 39. gr. barnalaga,
c. þær aðstæður eru fyrir hendi sem lýst er í F-lið 1. gr. flóttamannasamningsins,
d. útlendingurinn hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu,
e. vafi leikur á um hver útlendingurinn er eða
f. ástæður sem varða öryggi ríkisins eða stefnu stjórnvalda í utanríkismálum mæla gegn því.

Nú hefur flóttamaður ferðaskírteini gefið út af öðru ríki og skal hann þá því aðeins fá skírteini gefið út að honum hafi verið veitt hér hæli eða búsetuleyfi.


98. gr.
Gildissvið ferðaskírteinis.

Ferðaskírteini fyrir flóttamann gildir fyrir einn einstakling.

Ferðaskírteinið skal að jafnaði hafa sama gildistíma og dvalarleyfið en skal þó ekki gilda lengur en í tvö ár.

Ferðaskírteinið gildir fyrir endurkomu til Íslands á gildistíma þess.

Ferðaskírteinið skal vera gilt til ferða til allra ríkja nema til heimalands eða upprunalands flóttamanns.

Þegar þær aðstæður eru fyrir hendi sem greinir í 2. mgr. 97. gr. eða þegar sérstakar ástæður mæla með því er heimilt að ákvarða ferðaskírteini skemmri gildistíma en segir í 2. mgr. Einnig er heimilt að takmarka gildissvið ferðaskírteinis við einstakar ferðir og gera undanþágur um gildi þess gagnvart öðrum ríkjum en heimalandi eða upprunalandi flóttamanns.


99. gr.
Endurnýjun ferðaskírteinis.

Ferðaskírteini má endurnýja samkvæmt umsókn með þeim skilyrðum sem leiðir af 97. gr. nema til standi að beita ákvæði 100. gr. um afturköllun. Enn fremur er heimilt að synja um endurnýjun ferðaskírteinis þegar handhafi þess hefur glatað því án þess að gera trúverðuga grein fyrir afdrifum þess.

Ákvæði 98. gr. gilda um endurnýjað ferðaskírteini.


100. gr.
Afturköllun ferðaskírteinis.

Ferðaskírteini skal afturkalla þegar:

a. handhafa þess er vísað frá landi á grundvelli i- eða j-liðar 1. mgr. 18. gr. eða a-liðar 2. mgr. 21. gr. útlendingalaga,
b. handhafa þess er vísað úr landi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 20. gr. eða a-liðar 2. mgr. 21. gr. útlendingalaga,
c. handhafi þess útvegar sér ferðaskilríki heimaríkis, sbr. 3. mgr. 48. gr. útlendingalaga,
d. handhafi þess missir réttarstöðu sína sem flóttamaður við það að fá íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt annars ríkis, eða missir hana á annan hátt, sbr. 2. mgr. 47. gr. útlendingalaga,
e. handhafa þess er samkvæmt lögum bannað að yfirgefa Ísland,
f. brottför frá Íslandi mundi fara í bága við dóm eða úrskurð.

Heimilt er að afturkalla ferðaskírteini m.a. þegar:

a. þær aðstæður eru fyrir hendi sem um getur í a-, b- eða e-lið 2. mgr. 97. gr.,
b. útliti eða efni þess hefur verið breytt á ólögmætan hátt,
c. það hefur skemmst eða er ónothæft af öðrum ástæðum,
d. ljósmynd eða upplýsingar í því svara ekki lengur til auðkenna handhafa,
e. það finnst í vörslu óviðkomandi aðila,
f. handhafi þess hefur ekki lengur leyfi til dvalar á Íslandi.

Lögreglan eða starfsmenn utanríkisþjónustunnar geta afturkallað ferðaskírteini til bráðabirgða en skulu senda Útlendingastofnun málið til ákvörðunar.

Þegar ferðaskírteini er afturkallað skv. e- eða f-lið 1. mgr. eða a- til e-lið 2. mgr. skráir Útlendingastofnun ákvörðun um afturköllun í vegabréfaskrá.


101. gr.
Skilyrði fyrir útgáfu vegabréfs fyrir útlending.

Útlendingur sem hefur eða fær dvalarleyfi hér á grundvelli umsóknar um hæli, en án þess að vera veitt hæli, getur fengið vegabréf fyrir útlending til ferða erlendis ef hann getur ekki fengið útgefin ferðaskilríki í heimaríki sínu. Veita má nánustu aðstandendum útlendingsins, sem hafa eða fá dvalarleyfi hér, sams konar vegabréf, að fenginni umsókn, ef þeir afhenda vegabréf sitt eða ferðaskilríki sem þeir hafa í fórum sínum.

Í öðrum tilvikum má, að fenginni umsókn, veita útlendingi sem ekki getur fengið útgefin ferðaskilríki í heimaríki sínu eða öðru ríki og hefur eða fær dvalarleyfi hér á landi vegabréf fyrir útlending. Þá má og gefa út vegabréf fyrir útlending ef sérstakar ástæður mæla með því.

Synja má um útgáfu vegabréfs fyrir útlending ef þær aðstæður eru fyrir hendi sem greinir í 2. mgr. 97. gr.


102. gr.
Gildissvið vegabréfs fyrir útlending.

Vegabréf fyrir útlending gildir fyrir einn einstakling.

Vegabréf fyrir útlending skal gefið út til ákveðins tíma sem Útlendingastofnun ákveður í hverju tilviki. Vegabréfið skal að jafnaði hafa sama gildistíma og dvalarleyfi útlendingsins en skal þó ekki gilda lengur en í tvö ár.

Vegabréf fyrir útlending gildir fyrir endurkomu til Íslands á gildistíma þess.

Vegabréf fyrir útlending skal vera gilt til ferða til allra ríkja nema til heimaríkis eða upprunaríkis útlendings. Þegar ríkar sanngirnisástæður mæla með er þó heimilt að láta vegabréf fyrir útlending gilda fyrir för til heimaríkis hans.

Þegar þær aðstæður eru fyrir hendi sem greinir í 2. mgr. 97. gr. eða þegar sérstakar ástæður mæla með því er heimilt að ákvarða vegabréfi til útlendings skemmri gildistíma en segir í 2. mgr. Einnig er heimilt að takmarka gildissvið vegabréfs fyrir útlending við einstakar ferðir eða við komu til landsins frá tilteknum löndum eða ákveða að það gildi ekki til endurkomu til Íslands. Einnig má gera undanþágu um gildi þess gagnvart öðrum ríkjum en heimaríki útlendingsins.


103. gr.
Endurnýjun vegabréfs fyrir útlending.

Vegabréf fyrir útlending má endurnýja að fenginni umsókn með þeim skilyrðum sem leiðir af 101. gr. nema til standi að beita ákvæðum 104. gr., sbr. 100. gr., um afturköllun. Enn fremur er heimilt að synja um endurnýjun vegabréfs ef handhafi þess hefur glatað því án þess að gera trúverðuga grein fyrir afdrifum þess, sbr. 2. mgr. 106. gr.


104. gr.
Afturköllun vegabréfs fyrir útlending.

Um afturköllun vegabréfs fyrir útlending gilda ákvæði 100. gr.


105. gr.
Málsmeðferð.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um útgáfu ferðaskírteinis fyrir flóttamann og vegabréfs fyrir útlending. Sækja skal um slík skilríki á sérstöku eyðublaði. Umsókninni skal fylgja ljósmynd af umsækjanda og skal hann rita undir umsóknina eigin hendi.

Áður en ferðaskírteini eða vegabréf fyrir útlendinga er gefið út til umsækjanda undir 18 ára aldri verður að liggja fyrir skriflegt samþykki þeirra sem fara með forsjá barnsins.

Með umsókn skal afhenda vegabréf eða annað ferðaskilríki sem umsækjandi hefur í fórum sínum. Ef nauðsyn krefur má leggja fyrir umsækjanda að afhenda skilríki sem hann hefur eða getur útvegað og eftir atvikum gögn um stöðu umsækjanda sem flóttamanns.

Við afhendingu á ferðaskírteini eða vegabréfi fyrir útlending skal upplýsa útlending um að ferðaskírteinið eða vegabréfið verði afturkallað fái hann útgefin ferðaskilríki í heimalandi sínu.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um endurnýjun ferðaskírteinis fyrir flóttamann eða vegabréfs fyrir útlending. Þegar nýtt ferðaskírteini eða vegabréf fyrir útlending er gefið út skal innkalla það eldra.

Hafi ferðaskírteini fyrir flóttamann eða vegabréf fyrir útlending glatast tekur Útlendingastofnun ákvörðun um útgáfu nýs ferðaskírteinis eða vegabréfs fyrir útlendinginn.

Sendiskrifstofa Íslands erlendis, sem hefur heimild til að gefa út vegabréf til íslenskra ríkisborgara, getur framlengt gildistíma ferðaskírteinis eða vegabréfs fyrir útlending um allt að sex mánuði þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, að fenginni heimild Útlendingastofnunar og að því tilskildu að handhafi þess hafi dvalarleyfi á Íslandi þann tíma. Senda skal tilkynningu um framlengingu til Útlendingastofnunar og skal hún skráð í vegabréfaskrá.


106. gr.
Skylda til að tilkynna um glatað ferðaskírteini eða vegabréf fyrir útlending.

Handhafi ferðaskírteinis fyrir flóttamann eða vegabréfs fyrir útlending skal gæta skilríkisins þannig að ekki sé hætta á að það glatist eða komist í hendur óviðkomandi aðila.

Tilkynna skal lögreglu, Útlendingastofnun eða sendifulltrúum Íslands erlendis þegar í stað ef ferðaskírteini eða vegabréf fyrir útlending týnist eða glatast á annan hátt og skal þá gera sérstaka grein fyrir afdrifum þess.


XVI. KAFLI
Tilkynningarskylda um útlendinga.
107. gr.
Tilkynningarskylda gististaða.

Hver sá sem rekur gististað, heldur tjaldstæði eða lætur í té hvers konar gistiaðstöðu gegn gjaldi skal halda skrá yfir þá útlendinga sem þar gista. Skráin skal færð á þar til gerð eyðublöð samkvæmt nánari ákvörðun ríkislögreglustjóra. Lögregla skal hvenær sem er hafa aðgang að upplýsingum úr skránni.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í skrá skv. 1. mgr.:

a. fullt nafn útlendings og fullt nafn maka og barna sem ferðast með honum,
b. fæðingardagur útlendings, maka og barna sem ferðast með honum,
c. ríkisfang,
d. fast heimilisfang,
e. komudagur,
f. tegund og númer ferðaskilríkis.

Útlendingur skal fylla eyðublaðið út eigin hendi, rita undir það nafn sitt og sýna um leið gilt kennivottorð til staðfestingar. Maki og ólögráða börn þurfa ekki að fylla út eigin hendi eða undirrita eyðublaðið né heldur þátttakendur í hópferð. Þátttakendur í hópferð má færa sameiginlega á skrá sem fararstjóri undirritar.

Eftir að skrá skv. 1. mgr. hefur verið fyllt út skal geyma hana í tvö ár.


108. gr.
Tilkynningarskylda stjórnanda loftfars.

Stjórnandi loftfars sem kemur frá útlöndum eða fer til útlanda, skal samkvæmt beiðni lögreglu láta henni í té skrá yfir farþega og áhöfn, sbr. 6. gr. Ríkislögreglustjóri setur nánari reglur um innihald slíkra skráa.


109. gr.
Tilkynningarskylda stjórnanda skips.

Með tilkynningu stjórnanda skips sem siglir yfir mörk landhelginnar á leið til eða frá íslenskri höfn yfir ytri landamæri, sbr. 5. gr., skal fylgja skrá yfir áhöfn og farþega skips. Í skránni skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar um áhöfn og farþega í þessari röð:

a. þjóðerni,
b. kenninafn,
c. eiginnafn,
d. fæðingardagur,
e. kyn,
f. númer vegabréfs eða sjóferðabókar,
g. staða áhafnarmeðlims.


110. gr.
Tilkynningarskylda um útlending sem kemur til starfa hér á landi.

Sá sem fær útlending í þjónustu sína, sendir útlending á sínum vegum hingað til starfa eða ræður útlending til starfa hér á landi skal tilkynna það Útlendingastofnun áður en vinnan hefst. Tilkynna skal um nafn útlendings, fæðingardag, heimilisfang og ríkisfang, um starfið sem hann er ráðinn til að gegna eða þá þjónustu sem honum er ætlað að veita hér á landi og um hve lengi áætlað er að hann muni dveljast hér á landi.

Komi útlendingur til starfa hér á landi á vegum erlends fyrirtækis sem tekið hefur að sér verkefni fyrir fyrirtæki hér á landi skal hið innlenda fyrirtæki tilkynna Útlendingastofnun um það fyrir fram og tilgreina nafn hins erlenda vinnuveitanda. Útlendingastofnun skal á grundvelli slíkrar tilkynningar sjá til þess að hinu erlenda fyrirtæki verði gert viðvart um tilkynningarskyldu sína skv. 1. mgr.

Tilkynningarskylda skv. 1. og 2. mgr. gildir ekki um útlendinga sem eru norrænir ríkisborgarar eða útlendinga sem fengið hafa búsetuleyfi hér á landi.

Samráðsnefnd Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar skv. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga skal setja verklagsreglur um meðferð tilkynninga sem Útlendingastofnun berast skv. 1. og 2. mgr.


111. gr.
Tilkynningarskylda atvinnumiðlunar.

Ráðningarskrifstofur, svæðisvinnumiðlanir og aðrar atvinnumiðlanir skulu tilkynna Útlendingastofnun um útlending sem leitar aðstoðar þeirra við atvinnuleit og/eða er miðlað í störf á þeirra vegum. Tilkynning skal innihalda upplýsingar um nafn, kennitölu eða fæðingardag, heimilisfang og ríkisfang útlendings og um þá vinnu sem leitað er eftir eða miðlað.


112. gr.
Tilkynningarskylda þjóðskrár.

Þjóðskráin skal tilkynna Útlendingastofnun um útlendinga sem eru þar skráðir eða teknir af skrá. Í tilkynningu skal koma fram hvernig skráningu útlendings er háttað.


113. gr.
Tilkynningarskylda menntastofnana.

Menntastofnanir skulu samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun í té skrá um erlenda námsmenn. Í skránni skal koma fram nafn útlendings, fæðingardagur, heimilisfang og ríkisfang.


114. gr.
Tilkynningarskylda annarra stjórnvalda.

Stjórnvöld skulu samkvæmt beiðni láta Útlendingastofnun eða lögreglu í té upplýsingar um nafn útlendings og heimili til nota í máli samkvæmt útlendingalögum þrátt fyrir reglur um þagnarskyldu í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlögum.

Sé nafn útlendings fært á sakaskrá hér á landi ber sakaskrá ríkisins að gera Útlendingastofnun aðvart um það.


XVII. KAFLI
Refsiákvæði, gildistaka o.fl.
115. gr.
Refsing.

Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu skv. 57. gr. útlendingalaga.


116. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 58. gr., sbr. 3.-8. gr., 11. gr., 15. gr., 18. gr., 26. gr., 29. gr., 35.-38. gr., 40. gr., 46. gr., 53.-55. gr., laga um útlendinga nr. 96 15. maí 2002, og til innleiðingar á tilskipun 64/221/EBE, reglugerða EBE nr. 1612/68 og 312/76, tilskipun 68/360/EBE, reglugerð EBE nr. 1251/70 og tilskipun 72/194/EBE, sem vísað er til í 1.-5. tölul. V. viðauka við EES-samninginn, tilskipunum 73/148/EBE, 75/34/EBE, 75/35/EBE, 90/364/EBE, 90/365/EBE og 93/96/EBE, sem vísað er til í 3.-8. tölul. VIII. viðauka við EES-samninginn, og reglugerð ráðsins (EB) nr. 2725/2000, sbr. samning frá 19. janúar 2001 milli Evrópubandalagsins og Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi, öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma falla úr gildi:

1) Reglugerð um eftirlit með útlendingum nr. 148 3. september 1965, með síðari breytingum.
2) Reglugerð um dvöl útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, hér á landi nr. 674 20. desember 1995, með síðari breytingum.
3) Reglugerð um landamærastöðvar og tilkynningarskyldu flytjanda nr. 223 14. mars 2001, með síðari breytingu.
4) VIII. kafli reglugerðar um íslensk vegabréf, nr. 624 27. september 1999.
5) Auglýsing um viðurkenningu erlendra kennivottorða og undanþágu til að hafa vegabréfsáritun nr. 234 23. mars 2001, með síðari breytingu.

EBE-gerðirnar sem vísað er til eru birtar í sérritinu EES-gerðir S32 og S35, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, og í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 135-136, sbr. EES-viðbæti, 17. hefti 1994.

Ákvæði til bráðabirgða.

Dvalarleyfi sem gefið hefur verið út á grundvelli laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, heldur gildi sínu við gildistöku reglugerðarinnar. Leyfi sem gefið er út til tiltekins tíma gildir í samræmi við upphaflegan gildistíma. Um endurnýjun tímabundins leyfis fer samkvæmt reglugerðinni og útlendingalögum.

Óbundið dvalar- og atvinnuleyfi, sem gefið hefur verið út samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum, er dvalarleyfi án takmarkana samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 5. mgr. 36. gr. Handhafi slíks leyfis fær búsetuleyfi samkvæmt umsókn þar um að uppfylltum skilyrðum VIII. kafla reglugerðarinnar, sbr. 15. gr. útlendingalaga.

Útlendingastofnun metur með hvaða hætti önnur dvalarleyfi, sem gefin hafa verið út í tíð eldri laga, samsvara dvalarleyfi án takmarkana samkvæmt reglugerðinni, sbr. 5. mgr. 36. gr.

Þeir útlendingar sem fyrir gildistöku reglugerðarinnar hafa mátt dveljast hér á landi án dvalarleyfis á grundvelli 25. gr. reglugerðar um eftirlit með útlendingum nr. 148/1965, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 514/1989, þurfa ekki sérstakt dvalarleyfi meðan þeir hafa hér búsetu.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. janúar 2003.

Sólveig Pétursdóttir.
Stefán Eiríksson.



VIÐAUKI 1
Landamærastöðvar á Íslandi.

Flugvellir á eftirtöldum stöðum eru landamærastöðvar:

Akureyri,
Egilsstaðir,
Höfn,
Keflavík,
Reykjavík.

Hafnir á eftirtöldum stöðum eru landamærastöðvar:

Akranes,
Akureyri,
Bolungarvík,
Fáskrúðsfjörður,
Fjarðabyggð,
Grindavík,
Grundarfjörður,
Grundartangi,
Hafnarfjörður,
Höfn,
Húsavík,
Ísafjörður,
Kópavogur,
Litlisandur,
Patreksfjörður,
Raufarhöfn,
Reykjanesbær,
Reykjavík,
Sandgerði,
Sauðárkrókur,
Seyðisfjörður,
Siglufjörður,
Skagaströnd,
Vestmannaeyjar,
Vopnafjörður,
Þorlákshöfn,
Þórshöfn.

Afgreiðslutími á Keflavíkurflugvelli er allan sólarhringinn en á öðrum landamærastöðvum fer afgreiðslutími eftir beiðni.


VIÐAUKI 2
Kennivottorð sem viðurkennd eru sem ferðaskilríki
í stað vegabréfs við komu til Íslands og brottför.

Eftirtalin erlend kennivottorð eru viðurkennd sem ferðaskilríki í stað vegabréfs við komu til landsins og brottför:

1. Ferðaskilríki fyrir flóttamenn sem gefið er út í samræmi við samning um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951. Ferðaskilríkið verður að vera gilt til ferðar til baka til útgáfuríkisins.
2. Skilríki sem gefið er út af þar til bæru yfirvaldi til þess, sem er ríkisfangslaus, eða er ríkisborgari í öðru landi en því, sem gefið hefur út skjalið, enda uppfylli það að öðru leyti skilyrði sem sett eru í III. kafla reglugerðarinnar.
3. Eftirtalin kennivottorð sem gefin eru út til ríkisborgara hlutaðeigandi lands:
Austurríki: Personalausweis.
Belgía: Carte d'Identité (Identiteitskaart, Personal-ausweis, Identity card).
Frakkland: Carte Nationale d'Identité.
Grikkland: Deltio Taytotitas.
Holland: Identiteitskaart A og B (Toeristenkaart), útgefin fyrir 1. janúar 1995.
Europese identiteitskaart (European Identity Card, Carte d'Identité Europeenne), útgefin eftir 31. desember 1994.
Ítalía: Carta d'Identità. Í reitnum "Cittadinanza" á bls. 2 skal standa "Italiana". Skilríki fyrir börn gildir þó eingöngu þegar barnið er í fylgd með forsjármanni.
Liechtenstein: Identitätskarte (Carte d'Identité, Carta d'Identità).
Lúxemborg: Carte d'Identité (Identitätskarte, Identity Card).
Titre d'Identité et de Voyage (Kinderausweis).
Portúgal: Bilhete de Identidade de Cidadao Nacional.
Spánn: Documento Nacional de Identidad.
Sviss: Carte d'Identité Citoyen Suisse (Identitätskarte Schweizerbürger, Carta d'Identità Cittadino Svizzero, Carta d'Identitad Burgais Svizzer).
Identitätskarte (Carte d'Identité, Carta d'Identità, Carta d'Identitad, Identity Card), útgefin eftir 30. júní 1994.
Þýskaland: Personalausweis.
Kinderausweis.
Behelfsmässiger Personalausweis.
Reiseausweis als Passersatz. Ef ferðaskilríkið er án ljósmyndar af handhafa er áskilið að útrunnu vegabréfi eða "Personalausweis" verði jafnframt framvísað.
4. Sjóferðabók (seaman's book, seafarer's identity document) sem gefin er út í ríki sem getið er um í viðauka 6 og er í samræmi við ILO-samning um persónuskilríki sjómanna nr. 108 frá 1958 ásamt skjölum sem sýna fram á skráningu í eða úr skipsrúmi, í íslenskri eða erlendri höfn.
5. Áhafnarskírteini fyrir flugáhafnir sem gefin eru út af þar til bæru yfirvaldi í aðildarríki að Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) ef handhafar þess sýna fram á að þeir séu skráðir í áhöfn loftfars sem er á Íslandi.
6. NATO "Travel Order – Ordre de Mission OTAN" (fyrir starfsmenn NATO sem hafa stöðu hermanna), enda hafi handhafi herkennivottorð og sérstök eða sameiginleg ferðafyrirmæli NATO.
7. "Leave order" NATO, enda hafi handhafi herkennivottorð og gilda ferðaheimild til Íslands. Skilríkið veitir heimild til dvalar á Íslandi í allt að þrjá mánuði.
8. Ferðabréf (laissez-passer) Sameinuðu þjóðanna fyrir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, sérstofnana Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar ef handhafi er á ferðalagi í þágu framangreindra stofnana og hann framvísar jafnframt ferðabréfi, yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eða þeirrar stofnunar sem þeir starfa hjá, um að þeir séu að reka erindi Sameinuðu þjóðanna eða viðkomandi stofnunar.
9. Gild ferðabréf (Ausweis, Laissez-passer, Lascia-passare) sem gefin eru út af Evrópusambandinu.



VIÐAUKI 3
Undanþága frá skyldu til að hafa vegabréfsáritun við komu til Íslands.

I. Ríkisborgarar eftirtalinna ríkja eru undanþegnir skyldu til að hafa vegabréfsáritun við komu til landsins.

Andorra
Argentína
Austurríki
Ástralía
Bandaríki Norður-Ameríku
Belgía
Bólivía
Brasilía
Brúnei
Búlgaría
Chile
Danmörk
Eistland
Ekvador
El Salvador
Finnland
Frakkland
Grikkland
Gvatemala
Holland
Hondúras
Hong Kong1)
Írland
Ísrael
Ítalía
Japan
Kanada
Kostaríka
Króatía
Kýpur
Lettland
Liechtenstein
Litháen
Lúxemborg
Makaó1)
Malasía
Malta
Mexíkó, nema handhafar diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa
Mónakó
Níkaragva
Noregur
Nýja-Sjáland
Panama
Paragvæ
Páfagarður
Portúgal
Pólland
Rúmenía
San Marínó
Singapúr
Slóvakía
Slóvenía
Spánn
Stóra-Bretland, þ.m.t.: Bermúda, Turks- og Caicos-eyjar, Cayman-eyjar, Anguilla, Montserrat, Bresku Jómfrúreyjar, St. Helena, Falklandseyjar og Gíbraltar
Suður-Kórea
Sviss
Svíþjóð
Tékkland
Ungverjaland
Úrúgvæ
Venesúela
Þýskaland

1) Sérstjórnarsvæði, handhafar vegabréfa sem gefin eru út af yfirvöldum sérstjórnarsvæðisins.

II. Eftirtaldir, handhafar gildra ferðaskilríkja, eru undanþegnir áritunarskyldu við komu til landsins:

1. Handhafar ferðaskilríkja fyrir flóttamenn, sbr. 1. tölul. viðauka 2, ef ferðaskilríkin eru gefin út af Belgíu, Kýpur, Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Liechtenstein, Lúxemborg, Möltu, Noregi, Portúgal, Sviss, Spáni, Stóra-Bretlandi, Svíþjóð, Tékklandi eða Þýskalandi og handhafi þess býr löglega í því ríki sem gaf skilríkið út.
2. Handhafar áhafnaskírteina flugáhafna, sbr. 5. tölul. viðauka 2.
3. Handhafar NATO "Travel Order – Ordre de Mission OTAN" (fyrir starfsmenn NATO sem hafa stöðu hermanna), sbr. 6. tölul. viðauka 2.
4. Handhafar "Leave order" NATO, sbr. 7. tölul. viðauka 2.
5. Handhafar ferðabréfa (laissez-passer) Sameinuðu þjóðanna fyrir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, sérstofnana Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sbr. 8. tölul. viðauka 2.
6. Handhafar ferðavegabréfa sem gefin eru út af Evrópusambandinu, sbr. 9. tölul. viðauka 2.
7. Handhafar diplómatavegabréfa, opinberra vegabréfa og þjónustuvegabréfa frá Tyrklandi og handhafar diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa frá Pakistan og Suður-Afríku.
8. Handhafar danskra, finnskra, norskra eða sænskra útlendingavegabréfa ef í vegabréfinu er heimild til endurkomu til þess ríkis sem gaf það út.
9. Ríkisfangslausir og flóttamenn yngri en 21 árs sem eru skráðir í hópvegabréf sem gefið er út í samræmi við Evrópusamning um ferðalög æskufólks á sameiginlegum vegabréfum frá 16. desember 1961 og dveljast löglega í útgáfuríkinu.
10. Lið Bandaríkjanna samkvæmt varnarsamningi, starfsmenn eða skyldulið, sem eru handhafar flutningsheimildar (movement order) eða flutningssamnings (transport agreement).
11. Handhafar gildra og viðurkenndra dvalarleyfa sem gefin eru út af íslenskum yfirvöldum eða yfirvöldum í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
12. Handhafar gildra persónuskilríkja sjómanna sem gefin eru út af yfirvöldum í ríki sem er aðili að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 108, sbr. viðauka 6.



VIÐAUKI 4
Skylda til að hafa vegabréfsáritun til að fara um flugvöll.

I. Ríkisborgarar eftirtalinna ríkja skulu í gegnumferð um íslenska flughöfn, með eða án þess að skipta um flugvél, vera með gilda íslenska vegabréfsáritun til gegnumferðar um flughöfn, nema þeir séu handhafar dvalarleyfis sem getið er í II. hluta þessa viðauka, sbr. 21. gr. reglugerðarinnar:

Afganistan
Bangladess
Kongó (alþýðulýðveldi)
Erítrea
Eþíópía
Gana
Írak
Íran
Nígería
Pakistan
Sómalía
Srí Lanka

II.
a. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem talin eru í I. hluta þessa viðauka og eru handhafar dvalarleyfa sem gefin eru út í Schengen-ríki eða eftirtalinna dvalarleyfa, sem gefin eru út í Bretlandi, Írlandi eða Liectenstein, eru undanþegnir skyldu til að hafa vegabréfsáritun til gegnumferðar um flughöfn, sbr. 21. gr. reglugerðarinnar:

Bretland: "Leave to remain in the United Kingdom for an indefinite period"
"Certificate of entitlement to the right of abode"
Írland: "Residence Permit" ásamt "re-entry visa"
Liechtenstein: "Livret pour étranger B"
"Livret pour étranger C"

b. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem talin eru í I. hluta þessa viðauka og eru handhafar eftirtalinna dvalarleyfa, sem gefin eru út í eftirtöldum ríkjum og viðkomandi hefur heimild til endurkomu til dvalarríkisins, eru undanþegnir skyldu til að hafa vegabréfsáritun til gegnumferðar um flughöfn, sbr. 21. gr. reglugerðarinnar:

Andorra: "Tarjeta provisional de estancia y de trabajo"
"Tarjeta de estancia y de trabajo"
"Tarjeta de estancia"
"Tarjeta temporal de residencia"
"Tarjeta ordinaria de residencia"
"Tarjeta privilegiada de residencia"
"Autorización de residencia"
"Autorización temporal de residencia y de trabajo"
"Autorización ordinaria de residencia y de trabajo"
"Autorización privilegiada de residencia y de trabajo"
Bandaríkin: "Form I-551 permanent resident card"
"Form I-551 Alien registration receipt card (til 2-10 ára)"
"Form I-551 Alien registration receipt card (ótímabundið)"
"Form I-327 Re-entry document"
"Resident alien card"
"Permit to re-enter"
"Valid temporary residence stamp in a valid passport"
Japan: "Re-entry permit to Japan"
Kanada: "Returning Resident Permit"
Mónakó: "Carte de séjour de résident temporaire de Monaco"
"Carte de séjour de résident ordinaire de Monaco"
"Carte de séjour de résident privilégié"
"Carte de séjour de conjoint de ressortissant monégasque"
San Marínó: "Permesso di soggiorno ordinario (validitá illimitata)"
"Permesso di soggiorno continuativo speciale (validitá illimitata)"
"Carta d'identitá de San Marino (validitá illimitata)"
Sviss: "Livret pour étranger B"
"Livret pour étranger C"



VIÐAUKI 5
Ríki og staðir þar sem sækja má um vegabréfsáritun til Íslands.

Í sendistofnunum Danmerkur og Noregs má fá útgefnar D-áritanir, þ.e. áritanir til lengri dvalar en þriggja mánaða. Í öðrum sendistofnunum sem fara með fyrirsvar fyrir Íslands hönd er ekki unnt að fá vegabréfsáritun til lengri dvalar en þriggja mánaða.

Ríki Borg Sendistofnun
Albanía Tírana Sendiráð Danmerkur
Alsír Algeirsborg Sendiráð Danmerkur
Angóla Lúanda Sendiráð Noregs
Argentína Búenos Aíres Sendiráð Noregs
Armenía Jerevan Sendiráð Frakklands
Aserbaídsjan Bakú Sendiráð Noregs
Austur-Kongó Kinshasa Sendiráð Svíþjóðar
Ástralía Sydney Sendiráð Danmerkur
Ástralía Canberra Ræðisskrifstofa Noregs
Bahamaeyjar Nassá Sendiráð Hollands
Bandaríkin Washington Sendiráð Danmerkur
Bandaríkin New York Ræðisskrifstofa Danmerkur
Bandaríkin Minneappolis Ræðisskrifstofa Noregs
Bangladess Dakka Sendiráð Danmerkur
Barein Manama Sendiráð Þýskalands
Benín Cotonou Sendiráð Danmerkur
Bosnía og Hersegóvína Sarajevó Sendiráð Danmerkur
Botsvana Gaborone Sendiráð Svíþjóðar
Bólivía La Paz Sendiráð Danmerkur
Brasilía Brasilía Sendiráð Danmerkur
Brasilía Sao Paulo Ræðisskrifstofa Danmerkur
Brasilía Rio de Janeiro Ræðisskrifstofa Noregs
Bretland London Sendiráð Danmerkur
Bretland Edinborg-Glasgow Ræðisskrifstofa Noregs
Búlgaría Sofía Sendiráð Danmerkur
Búrkína Fasó Ouagadougou Sendiráð Danmerkur
Bútan Thimphu Sendiráð Danmerkur
Chile Santiago Sendiráð Danmerkur
Dóminíska lýðveldið Santo Domingo Sendiráð Frakklands
Egyptaland Kaíró Sendiráð Danmerkur
Eistland Tallin Sendiráð Danmerkur
Erítrea Asmara Sendiráð Hollands
Eþíópía Addis Ababa Sendiráð Finnlands
Filippseyjar Maníla Sendiráð Noregs
Fídjieyjar Suva Sendiráð Frakklands
Fílabeinsströndin Abidjan Sendiráð Svíþjóðar
Gana Akkra Sendiráð Danmerkur
Georgía Tíblisi Sendiráð Frakklands
Gvatemala Gvatemala Sendiráð Svíþjóðar
Hvíta-Rússland Minsk Sendiráð Frakklands
Indland Nýja-Delí Sendiráð Danmerkur
Indland Kalkútta Ræðisskrifstofa Ítalíu
Indónesía Djakarta Sendiráð Danmerkur
Íran Teheran Sendiráð Danmerkur
Írland Dublin Sendiráð Danmerkur
Ísrael Tel Avív Sendiráð Danmerkur
Jamaíka Kingston Sendiráð Hollands
Japan Tókýó Sendiráð Danmerkur
Jórdanía Amman Sendiráð Noregs
Júgóslavía Belgrad Sendiráð Danmerkur
Kambódía Phnom Penh Sendiráð Frakklands
Kanada Ottawa Sendiráð Danmerkur
Kanada Toronto Ræðisskrifstofa Finnlands
Kasakstan Almaty Sendiráð Hollands
Katar Doha Sendiráð Frakklands
Kenía Naíróbí Sendiráð Danmerkur
Kína Guangzhou Ræðisskrifstofa Danmerkur
Kína Shanghai Ræðisskrifstofa Danmerkur
Kína Hong Kong Ræðisskrifstofa Danmerkur
Kína Peking Sendiráð Danmerkur
Kostaríka San José Sendiráð Frakklands
Kólumbía Bógóta Sendiráð Svíþjóðar
Króatía Zagreb Sendiráð Noregs
Kúba Havana Sendiráð Svíþjóðar
Kúveit Kúveit Sendiráð Finnlands
Kýpur Nikósía Sendiráð Þýskalands
Laos Vientiane Sendiráð Svíþjóðar
Lettland Ríga Sendiráð Danmerkur
Litháen Vilníus Sendiráð Danmerkur
Líbanon Beirút Sendiráð Finnlands
Líbía Tripoli Sendiráð Finnlands
Madagaskar Antananarivo Sendiráð Frakklands
Madagaskar Diego-Suarez Ræðisskrifstofa Frakklands
Madagaskar Tamatave Ræðisskrifstofa Frakklands
Madagaskar Majunga Ræðisskrifstofa Frakklands
Makedónía Skopje Sendiráð Frakklands
Malasía Kúala Lúmpúr Sendiráð Danmerkur
Malaví Líongve Sendiráð Noregs
Marokkó Rabat Sendiráð Svíþjóðar
Máritíus Port Louis Sendiráð Frakklands
Mexíkó Mexíkó Sendiráð Danmerkur
Mjanmar/Burma Rangoon Sendiráð Þýskalands
Mongólía Úlan Bator Sendiráð Þýskalands
Mósambík Mapútó Sendiráð Danmerkur
Namibía Windhoek Sendiráð Finnlands
Nepal Katmandú Sendiráð Danmerkur
Nígería Lagos Sendiráð Noregs
Níkaragva Managva Sendiráð Danmerkur
Norður-Kórea Pjongjang Sendiráð Svíþjóðar
Pakistan Islamabad Sendiráð Danmerkur
Papúa Port Moresby Sendiráð Frakklands
Perú Líma Sendiráð Finnlands
Pólland Varsjá Sendiráð Danmerkur
Rúmenía Búkarest Sendiráð Danmerkur
Rússland Moskva Sendiráð Danmerkur
Rússland St. Pétursborg Ræðisskrifstofa Danmerkur
Rússland Múrmansk Ræðisskrifstofa Finnlands
Sambía Lusaka Sendiráð Danmerkur
Sameinuðu arabísku furstadæmin Abu Dhabi Sendiráð Noregs
Sádi-Arabía Riyadh Sendiráð Danmerkur
Senegal Dakar Sendiráð Svíþjóðar
Singapúr Singapúr Sendiráð Danmerkur
Slóvenía Ljúblíana Sendiráð Svíþjóðar
Srí Lanka Kólombó Sendiráð Noregs
Suður-Afríka Pretoría Sendiráð Danmerkur
Suður-Kórea Seúl Sendiráð Danmerkur
Sviss Bern Sendiráð Danmerkur
Sýrland Damaskus Sendiráð Danmerkur
Taíland Bangkok Sendiráð Danmerkur
Tansanía Dar es Salaam Sendiráð Danmerkur
Tékkland Prag Sendiráð Danmerkur
Trínidad og Tóbagó Port-of-Spain Sendiráð Hollands
Túnis Túnis Sendiráð Finnlands
Tyrkland Ankara Sendiráð Danmerkur
Ungverjaland Búdapest Sendiráð Danmerkur
Úganda Kampala Sendiráð Danmerkur
Úkraína Kíev Sendiráð Noregs
Úsbekistan Taskent Sendiráð Frakklands
Venesúela Karakas Sendiráð Noregs
Víetnam Hanoí Sendiráð Danmerkur
Zimbabwe Harare Sendiráð Noregs




VIÐAUKI 6
Ríki sem eru aðilar að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)
nr. 108 um persónuskilríki sjómanna.
Alsír
Angóla
Atígva og Barbúda
Aserbaídsjan
Barbadoseyjar
Belís
Brasilía
Bretland
Búlgaría
Danmörk
Djíbútí
Dóminíka
Eistland
Finnland
Fídjieyjar
Frakkland
Gana
Gínea-Bissá
Grenada
Grikkland
Gvatemala
Gvæjana
Hondúras
Hvíta-Rússland
Írak
Íran
Írland
Ísland
Ítalía
Kamerún
Kanada
Kirgisistan
Kúba
Lettland
Litháen
Líbería
Lúxemborg
Malta
Marokkó
Máritíus
Mexíkó
Moldóva
Noregur
Panama
Portúgal
Pólland
Rúmenía
Rússland
Salómonseyjar
Sankti Lúsía
Sankti Vinsent og Grenadíneyjar
Seychelleseyjar
Spánn
Srí Lanka
Svíþjóð
Tadsjikistan
Tansanía
Tékkland
Túnis
Úkraína
Úrúgvæ

Þetta vefsvæði byggir á Eplica