Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

585/2007

Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla sölu gistingar á gististöðum, alla sölu og veitingu veitinga í atvinnuskyni á þeim stöðum sem almenningur á aðgang að hvort sem er í mat eða drykk, áfengum eða óáfengum. Einnig gildir reglugerðin um tækifærisleyfi vegna skemmtanahalds, tímabundin áfengisveitingaleyfi og leigu á samkomusölum í atvinnu­skyni.

II. KAFLI

Gististaðir.

2. gr.

Almennt.

Gisting er leiga á húsnæði gististaðar til gesta gegn endurgjaldi sem fellur ekki undir húsaleigulög nr. 36/1994, sbr. 7. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Gististaður er hvert það hús eða húshluti sem hannað er til slíkrar starfsemi svo sem hótel, gistiheimili, gistiskálar, íbúðir eða sumarhús, sem telst ekki íbúð eða íbúðar­herbergi, þar sem dvalið er til skamms tíma, gegn endurgjaldi.

Gistirými er herbergi eða svefnskáli sem tilheyrir gististað og boðið er til gistingar.

Þar sem gerð er krafa um fullbúna snyrtingu er átt við sérstakt snyrtiherbergi með vatns­salerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu, handþurrkum og rusla­fötu með loki.

3. gr.

Búnaður gististaða.

Húsnæði og búnaður gististaða skal fullnægja kröfum laga og reglugerða á sviði holl­ustuhátta, byggingarmála, brunamála og um atvinnuhúsnæði.

Á gististöðum skal gæta fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku. Allur búnaður skal vera hreinn og heill.

Ávallt skal skipta á rúmfatnaði, handklæðum og öðrum hreinlætisbúnaði áður en nýjum viðskiptavini er vísað til gistiherbergis. Ef þvottur er þveginn á staðnum skal það gert við aðstæður sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Rúm skulu vera a.m.k. 2,00 x 0,9 m fyrir einn, en að minnsta kosti 2,00 x 1,4 m fyrir tvo og skal vera sæng og koddi fyrir hvern gest.

Borð og lesljós skal vera við hvert rúm. Í herbergi skal vera góð lýsing og þannig frá gluggum gengið að útiloka megi birtu.

Gestir skulu hafa aðgang að síma.

Ákvæði 3.-6. mgr. gilda ekki um gistiskála.

4. gr.

Skrá yfir gesti.

Á gististað skal haldin skrá yfir næturgesti með upplýsingum um nafn, kennitölu eða fæðingardag, heimilisfang og þjóðerni. Skráin skal varðveitt í að minnsta kosti 12 mánuði.

Þá skulu erlendir næturgestir fylla út eyðublað eigin hendi, undirrita það og sýna um leið gild persónuskilríki til staðfestingar. Undanskildir þessu eru makar og ólögráða börn í fylgd viðkomandi og þátttakendur í hópferðum. Útfyllt eyðublöð skulu geymd í að minnsta kosti eitt ár og vera aðgengileg lögreglu þegar þess er óskað.

5. gr

Flokkar gististaða.

Flokkun gististaða tekur mið af því hvort samhliða gistingu séu boðnar veitingar í mat og/eða drykk, áfengar og/eða óáfengar. Gististaðir flokkast nánar með eftirfarandi hætti, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald:

Flokkur I:

Heimagisting.

Flokkur II:

Gististaður án veitinga.

Flokkur III:

Gististaður með veitingum, þó ekki áfengisveitingum.

Flokkur IV:

Gististaður með minibar.

Flokkur V:

Gististaður með bar og/eða veitingaaðstöðu þar sem áfengi er veitt.

Hver einstök tegund gististaða getur fallið undir fleiri en einn framangreindan flokk gisti­staða, í samræmi við þá starfsemi sem rekstrarleyfi viðkomandi staðar hljóðar um.

6. gr.

Tegundir gististaða.

Gististaðir skiptast í eftirfarandi tegundir eftir búnaði og aðstöðu sem bjóða skal gestum:

 1. Hótel: Gististaður þar sem gestamóttaka er opin allan sólarhringinn og morgun­verður framreiddur. Fullbúin snyrting skal vera með hverju herbergi. Undan­þágu má þó veita fyrir hluta herbergja. Þó skal alltaf vera handlaug í hverju her­bergi og fullbúin snyrting nærliggjandi.
 2. Gistiheimili: Gististaður með takmarkaða þjónustu. Handlaug skal vera í hverju herbergi og salerni nærliggjandi. Jafnframt skulu gestir eiga aðgang að fullbúinni bað­aðstöðu.
 3. Gistiskáli: Svefnpokagisting í herbergjum eða svefnskálum. Hér undir falla fjalla­skálar.
 4. Heimagisting: Gisting á heimili leigusala.
 5. Íbúðir: Íbúðarhúsnæði sérstaklega ætlað til útleigu til gesta og fellur ekki undir húsaleigulög. Hér undir falla starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir þegar slíkt húsnæði er ekki leigt út í tengslum við vinnusamning.
 6. Sumarhús: Gististaður í orlofs- og frístundahúsum sem ætluð er til útleigu til gesta. Orlofshús félagasamtaka eru undanskilin.

7. gr.

Hótel.

Á hóteli skal vera gestamóttaka sem er opin allan sólarhringinn.

Fullbúin snyrting, með baðkeri eða sturtu ásamt salerni og handlaug skal vera með hverju herbergi.

Undanþágu má veita fyrir hluta herbergja, þó ekki fleiri en fjórðung. Handlaug skal þá vera í hverju herbergi og minnst ein snyrting fyrir hverja tíu gesti á gistihæð.

Snyrting skal vera vel loftræst, með spegli og tengli fyrir rakvél, a.m.k. tveimur hand­klæðum fyrir hvern gest þar af einu baðhandklæði, vatnsglasi, sápu og ruslafötu með loki.

Í hverju herbergi skal vera að minnsta kosti einn stóll fyrir hvern gest, aðstaða til bréfaskrifta, fataslá, hillur og herðatré, töskugrind og pappírskarfa.

8. gr.

Gistiheimili.

Á gistiheimili skal vera næturvarsla. Æskilegt er að gestamóttaka sé opin allan sólarhringinn og morgunverður framreiddur.

Handlaug skal vera í hverju herbergi og a.m.k. eitt salerni fyrir hverja tíu gesti. Jafnframt skulu gestir eiga aðgang að fullkominni baðaðstöðu, sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

Hver gestur skal hafa a.m.k. tvö handklæði auk sápu og vatnsglass.

Í hverju herbergi skal vera a.m.k. einn stóll fyrir hvern gest, aðstaða til bréfaskrifta, pappírskarfa, spegill og tengill fyrir rakvél. Ennfremur fataskápur með hillu og tösku­grind.

9. gr.

Gistiskáli.

Í gistiskálum skulu vera svefndýnur. Gisting getur verið ýmist í herbergjum eða svefn­sölum og með eða án rúmfata.

Gestir skulu hafa aðgang að viðunandi salerni og hreinlætisaðstöðu, sem samþykkt hefur verið af viðkomandi heilbrigðisnefnd.

10. gr.

Heimagisting.

Heimagisting er gisting á einkaheimili leigusala og skal ávallt í það minnsta einn af heimilismönnum búa á heimilinu og gegna hlutverki næturvarðar. Þegar um er að ræða sveitagistingu er nægjanlegt að heimilismaður hafi fasta búsetu á jörðinni.

Ekki skulu fleiri en tíu gestir vera um hverja snyrtingu. Snyrting skal vera vel loftræst og sé hún notuð jafnt af gestum og heimilisfólki skulu þar aðeins vera hreinlætistæki með tilheyrandi nauðsynjum ásamt ruslafötu með loki. Skulu gestir hafa þar forgang.

Í hverju gistiherbergi skal vera aðstaða til að hengja upp föt, pappírskarfa, nægilegur fjöldi handklæða, sápa og vatnsglas.

Ef leigð eru út fleiri en átta herbergi eða sextán rúm á einkaheimili telst staður gisti­heimili.

III. KAFLI

Veitingastaðir.

11. gr.

Almennt.

Veitingastaðir eru staðir þar sem framreiddur er matur og/eða drykkur til viðskiptavina í atvinnuskyni, hvort sem er til neyslu á staðnum eða ekki og skal sú starfsemi vera meginstarfsemi staðarins. Til veitingastaða teljast jafnframt staðir þar sem fram fer reglubundið skemmtanahald og útleiga samkomusala í atvinnuskyni.

Á veitingastöðum skal liggja frammi og vera aðgengileg gestum skrá um verð á þeim veitingum í mat og drykk sem á boðstólum eru.

Við mælingu áfengisskammta skal nota löggilt mælitæki.

12. gr.

Dvöl ungmenna á veitingastöðum.

Ungmennum yngri en 18 ára er óheimilt að dvelja á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga eftir kl. 22 á kvöldin. Þó er þeim það heimilt ef þau eru í fylgd með eftirtöldum einstaklingum, eldri en 18 ára:

 1. Foreldrum eða öðrum forráðamönnum, svo sem stjúpforeldrum eða fóstur­foreldrum.
 2. Móður- og/eða föðurforeldrum. Sama gildir um foreldra stjúpforeldris eða fósturforeldris.
 3. Maka.

Fari skóladansleikir eða aðrar skemmtanir og uppákomur á vegum skóla, íþróttafélaga, æskulýðsfélaga og annarra viðurkenndra félaga ungmenna fram á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga er ungmennum yngri en 18 ára þó heimil þar dvöl eftir kl. 22 að kvöldi fram til loka viðkomandi viðburðar enda fari engar áfengisveitingar þar fram á sama tíma.

13. gr.

Búnaður veitingastaða.

Húsnæði og búnaður veitingastaða skal fullnægja kröfum heilbrigðis- og bygg­ingar­reglugerða, brunamálareglugerðar og reglna um húsnæði vinnustaða.

Viðskiptavinir veitingastaða skulu eiga greiðan aðgang að snyrtingu. Starfsfólk veit­ingastaða skal hafa aðgang að sérstakri snyrtingu.

Yfirmaður í eldhúsi veitingastaðar skal búa yfir fullnægjandi menntun og þekkingu í með­ferð matvæla, hreinlæti og verkstjórn.

14. gr.

Flokkun veitingastaða.

Flokkun veitingastaða miðast við þá starfsemi sem þar fer fram, þörf á eftirliti og áhrif sem staður kann að hafa á umhverfi, svo sem vegna afgreiðslutíma, hávaða og áfengisveitinga. Veitingastaðir flokkast nánar með eftirfarandi hætti, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald:

Flokkur I:

Staðir án áfengisveitinga.

Flokkur II:

Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23 og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu.

Flokkur III:

Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.

Hver einstök tegund veitingastaða getur fallið undir fleiri en einn framangreindan flokk veitingastaða, í samræmi við þá starfsemi sem rekstrarleyfi viðkomandi staðar hljóðar um.

15. gr.

Tegundir veitingastaða.

Veitingastaðir skiptast í eftirtaldar tegundir eftir starfsemi og þjónustu sem bjóða skal viðskiptavinum:

 1. Veitingahús: Veitingastaður með fjölbreyttar veitingar í mat og drykk og fulla þjónustu. Í veitingahúsi skal vera starfandi maður með fullnægjandi þekkingu í framreiðslu.
 2. Skemmtistaður: Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi, fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk og fullkomna þjónustu. Hér undir falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslu­tíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat.
 3. Veitingastofa og greiðasala: Veitingastaðir með fábreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Á slíkum stöðum er takmarkaðri þjónusta og/eða gestir afgreiða sig sjálfir að hluta eða öllu leyti. Hér undir falla t.d. mötuneyti og skyndibitastaðir og einnig söluskálar með aðstöðu til neyslu veitinga.
 4. Veisluþjónusta og veitingaverslun: Staðir þar sem fram fer sala veitinga sem ekki er til neyslu á staðnum enda er slík sala meginstarfsemi staðarins.
 5. Kaffihús: Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat og/eða drykk þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar. Hér undir falla t.d. bakarí sem hafa aðstöðu til neyslu veitinga á staðnum.
 6. Krá: Veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat, þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma.
 7. Samkomusalir: Staðir sem eru sérstaklega útbúnir og ætlaðir til hvers kyns samkomuhalds og til þess leigðir út í atvinnuskyni til einstaklinga og/eða fyrir­tækja, hvort sem er með eða án veitinga í mat og/eða drykk. Félagsheimili, íþrótta­salir, flugskýli, vöruskemmur og önnur húsakynni sem að jafnaði eru ekki ætluð til samkomuhalds í atvinnuskyni geta fallið hér undir ef útleiga til skemmtana­halds fer oftar fram en tólf sinnum á ári.

16. gr.

Veitingar um borð í skipum.

Heimilt er að veita leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi í skipulögðum hópferðum innan landhelgi og í hópferðum sem farnar eru af sérstöku tilefni. Skal slíkt rekstrarleyfi veitt af leyfisveitanda þar sem heimahöfn skipsins er að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands. Skilyrði slíks leyfis er að viðkomandi skip hafi leyfi Siglingastofnunar Íslands til flutnings farþega í atvinnuskyni en að öðru leyti gilda almennar reglur um rekstrarleyfi skv. ákvæðum laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerðar þessarar.

17. gr.

Dyravarsla.

Að jafnaði skulu vera að lágmarki tveir dyraverðir á veitingastöðum í flokki III ef um er að ræða skemmtistaði eða samkomusali en halda skal hverju sinni uppi fullnægjandi dyravörslu og eftirliti að mati lögreglustjóra. Lögreglustjóri getur gert frekari kröfur um fjölda dyravarða allt eftir umfangi skemmtunar hverju sinni, stærð staðar og/eða fjölda gesta.

18. gr.

Hæfi dyravarða.

Enginn getur gegnt dyravörslu nema þeir sem lögreglustjóri samþykkir.

Dyraverðir skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:

 

a)

Vera að minnsta kosti 20 ára

 

b)

Hafa ekki gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot. Leggja skal fram saka­vottorð því til staðfestu. Erlendir ríkisborgarar skulu leggja fram saka­vottorð frá sínu heimalandi.Lögreglustjóri metur að öðru leyti hverjir teljist hæfir til að gegna dyravörslu.

Ríkislögreglustjóra er heimilt að kveða á um að enginn skuli gegna dyravörslu nema hann hafi lokið viðurkenndu námskeiði fyrir dyraverði. Ríkislögreglustjóri getur sett nánari reglur um efni slíkra námskeiða og kveðið nánar á um hæfisskilyrði dyravarða.

19. gr.

Hlutverk dyravarða.

Hlutverk dyravarða er m.a. að hafa eftirlit með að farið sé að reglum um afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða og slit skemmtunar, leyfðan gestafjölda, aldur gesta og meðferð áfengis. Skulu þeir og aðrir eftirlitsmenn halda uppi röð og reglu á skemmtun og er þeim í því skyni heimilt að vísa þeim af skemmtun sem brjóta gegn settum reglum og/eða eru valdir að óspektum. Dyravörðum er heimilt að kveðja sér til aðstoðar við störf sín hvern þann sem þeir óska.

IV. KAFLI

Leyfisveitingar.

20. gr.

Útgáfa leyfa.

Sýslumenn gefa út rekstrarleyfi, tækifærisleyfi og tímabundin áfengisveitingaleyfi hver í sínu umdæmi að undanskildum sýslumanninum í Reykjavík en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefur út leyfi í umdæmi hans.

Rekstrarleyfi verður ekki gefið út nema fyrir liggi starfsleyfi heilbrigðisnefndar. Liggi slíkt starfsleyfi ekki fyrir getur umsækjandi sótt um það samhliða umsókn um rekstrarleyfi og skal þá leyfisveitandi framsenda umsókn til heilbrigðisnefndar, enda fylgi henni nauð­synleg gögn.

21. gr.

Umsókn um leyfi.

Umsókn skal send leyfisveitanda í því umdæmi sem starfsemi eða skemmtun er fyrirhuguð. Umsókn vegna sölu veitinga um borð í skipi skal send leyfisveitanda í umdæmi heimahafnar skips.

Heimilt er að leggja umsókn fram í öðru stjórnsýsluumdæmi en þá skal hún framsend leyfisveitanda í réttu umdæmi.

Umsókn skal vera á sérstöku eyðublaði, sem nálgast má á heimasíðu leyfisveitanda eða starfsstöð hans. Heimilt er að skila umsókn rafrænt og jafnframt heimila leyfisveitanda að afla nauðsynlegra gagna sem fylgja þurfa umsókn rafrænt eftir því sem slíkt er mögu­legt.

Gjald fyrir leyfisbréf, sem innheimt er samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, skal greitt þegar umsókn er lögð inn.

A. Rekstrarleyfi.

22. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi.

Sé umsækjandi lögaðili skulu eftirtalin gögn fylgja umsókn um rekstrarleyfi eða þeirra aflað rafrænt eftir því sem við verður komið:

 

a)

Starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

 

b)

Búsetuvottorð.

 

c)

Vottorð um búsforræði fyrirtækis og forsvarsmanns þess.

 

d)

Staðfesting skattstjóra á virðisaukaskattsnúmeri.

 

e)

Sakavottorð forsvarsmanns.

 

f)

Vottorð frá lífeyrissjóði um skuldastöðu fyrirtækis og forsvarsmanns þess.

 

g)

Vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu fyrirtækis og forsvarsmanns þess.

 

h)

Nákvæm teikning af húsnæði. Ef um blandaða notkun húsnæðis er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þess þar sem fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fer­metrum.

 

i)

Ef um er að ræða útiveitingaleyfi, teikning þar sem fram kemur stærð úti­svæðis og fjöldi borða.

 

j)

Ljósrit af tilkynningu fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri.Sé umsækjandi einstaklingur skulu eftirtalin gögn fylgja umsókn um rekstrarleyfi eða þeirra aflað rafrænt eftir því sem við verður komið:

 

a)

Starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

 

b)

Búsetuvottorð.

 

c)

Vottorð um búsforræði.

 

d)

Staðfesting skattstjóra á virðisaukaskattsnúmeri.

 

e)

Sakavottorð.

 

f)

Vottorð frá lífeyrissjóði um skuldastöðu.

 

g)

Vottorð ríkissjóðs um skuldastöðu.

 

h)

Nákvæm teikning af húsnæði. Ef um blandaða notkun húsnæðis er að ræða skal fylgja staðfest afrit af aðaluppdrætti þess þar sem fram kemur afmörkun þess rýmis sem ætlað er fyrir reksturinn og skal tilgreina stærð þess í fer­metrum.

 

i)

Ef um er að ræða útiveitingaleyfi, teikning þar sem fram kemur stærð úti­svæðis og fjöldi borða.

 

j)

Ljósrit af tilkynningu fyrri leyfishafa um að hann hafi hætt rekstri.23. gr.

Umsagnir.

Leyfisveitandi skal senda umsókn ásamt fullnægjandi gögnum til umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lög­reglu.

Umsagnir framangreindra aðila eru bindandi og skulu að jafnaði veittar eigi síðar en 45 dögum frá móttöku erindis leyfisveitanda þar að lútandi. Berist umsagnir ekki innan þess frests sem leyfisveitandi tilgreinir er leyfisveitanda heimilt að gefa út leyfi.

Framlengja má frest samkvæmt 2. mgr. ef gera þarf breytingar á húsnæði og ennfremur ef viðkomandi húsnæði er ekki tilbúið til endanlegrar úttektar eða ef aðrar málefnalegar ástæður búa að baki. Leyfisveitanda skal þá tilkynnt um slíkar ástæður. Í umsögn skal koma skýrt fram hvort umsagnaraðili samþykkir útgáfu leyfis eða leggst gegn því.

Séu einhverjir þeir annmarkar á umsókn þannig að ekki verði unnt að mæla með leyfisveitingu skal umsagnaraðili tilkynna umsækjanda um annmarkann og veita honum frest til að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Telji umsagnaraðili einhverja annmarka vera á umsókn en þó ekki slíka að ástæða sé til að hafna leyfisveitingu skal þess getið í umsögn og umsækjanda veittur frestur til að gera úrbætur. Slíkur frestur hefur ekki áhrif á útgáfu rekstrarleyfis eða gildistíma þess og ber umsagnaraðila að ganga eftir því við umsækjanda að nauðsynlegar úrbætur séu gerðar innan frestsins en að öðrum kosti tilkynna leyfisveitanda um það sem er ábótavant.

Umsagnaraðilar samkvæmt 1. mgr. skulu leitast við að hafa samráð sín á milli.

24. gr.

Efni umsagna.

Í umsögnum umsagnaraðila skal eftirfarandi a.m.k. koma fram, en ekki er um tæmandi talningu að ræða.

Sveitarstjórn skal veita umsögn um fyrirhugaðan afgreiðslutíma staðar, þ.e. á hvaða tíma heimilt er að hafa hann opinn. Einnig staðfestir sveitarstjórn að staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélags kveður á um.

Heilbrigðisnefnd skal meta grenndaráhrif starfseminnar, s.s. hljóðvist. Einnig skal heilbrigðisnefnd gæta þess að sú starfsemi sem sótt er um vegna sé í samræmi við þegar útgefið starfsleyfi og starfsemi og staður séu rétt skilgreind eftir flokkun og tegund viðkomandi staðar skv. lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð þessari.

Slökkvilið skal veita umsögn um brunavarnir þess staðar þar sem fyrirhuguð starfsemi fer fram og einnig leyfilegan fjölda gesta.

Vinnueftirlit skal veita umsögn um aðstæður starfsmanna á þeim stað þar sem starfsemin er fyrirhuguð.

Lögregla veitir umsögn um nauðsyn á dyravörslu og sérstakri löggæslu.

25. gr.

Umfang leyfis.

Rekstrarleyfi samkvæmt reglugerð þessari skal gefið út á nafn umsækjanda og heimilar það eingöngu rekstur í þeim flokki, af þeirri tegund og því húsnæði sem þar er tilgreint og eftir atvikum á þeim árstíma sem tilgreindur er í leyfinu.

Afgreiðslutími veitingastaðar fer eftir því sem segir í rekstrarleyfi en rýming staðar skal hafa farið fram eigi síðar en einni klukkustund eftir að heimilum afgreiðslutíma lýkur.

26. gr.

Breytingar er varða rekstrarleyfi.

Leyfishafi skal tilkynna leyfisveitanda þegar í stað um fyrirhugaðar breytingar sem varða hina leyfisskyldu starfsemi.

Ákvörðun um að halda skóladansleik eða skipulagða skemmtun fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára á veitingastað sem leyfi hefur til sölu áfengra veitinga telst ávallt breyting á skilmálum rekstrarleyfis og skal sækja um slíka breytingu eigi síðar en viku fyrir hinn fyrirhugaða dansleik eða skemmtun. Fer um slíka umsókn sem um tækifærisleyfi væri að ræða og gilda um hana sömu skilyrði.

Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á þeirri skemmtun sem fram fer á veitingastað hans.

Ríkislögreglustjóri getur sett reglur um nánari skilyrði sem uppfylla þarf vegna skóla­dansleikja.

B. Tækifærisleyfi.

27. gr.

Almennt um tækifærisleyfi.

Sækja þarf um tækifærisleyfi fyrir skemmtun eða einstökum atburði sem fram fer á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi. Einnig þarf leyfi fyrir tímabundnum áfengisveitingum.

Leyfi til skemmtunar eða atburða sem ekki er ætlað er að standa lengur en í sólarhring skal sækja um með viku fyrirvara.

Leyfi til skemmtunar eða atburðar sem ætlað er að standa lengur en sólarhring skal sækja um með minnst 30 daga fyrirvara. Sé skemmtun eða atburður sérstaklega umfangsmikil, s.s. gert ráð fyrir u.þ.b. 3.000 manns og kalli á mikinn undirbúning skal sækja um leyfi með minnst þriggja mánaða fyrirvara.

28. gr.

Umsókn um tækifærisleyfi.

Í umsókn um tækifærisleyfi skal gerð grein fyrir hvers konar samkomu sótt er um leyfi fyrir, þ.e. skóladansleik, tónleikahald, dansleik, útihátíð o.þ.h.

Þá skal jafnframt gera grein fyrir eftirfarandi:

 1. Staðsetningu skemmtunar eða atburðar.
 2. Áætluðum fjölda gesta.
 3. Lengd skemmtunar eða atburðar.
 4. Aldursdreifingu gesta sem líklegt er að sæki skemmtunina eða atburðinn.
 5. Dagskrá skemmtunar eða atburðar ef hún liggur fyrir.

29. gr.

Umsagnir.

Leyfisveitandi skal leita umsagnar lögreglustjóra, heilbrigðisnefndar og slökkviliðs í því umdæmi sem skemmtun er fyrirhuguð. Þá getur leyfisveitandi leitað umsagna annarra umsagnaraðila sem getið er í 22. gr. ef þörf er talin á.

30. gr.

Umsögn lögreglustjóra.

Leyfisveitandi getur eftir umsögn lögreglustjóra bundið tækifærisleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á staðnum. Skulu þeir einkum halda uppi röð og reglu við staðinn og í næsta nágrenni hans, þ. á m. hafa eftirlit með og greiða fyrir umferð að og frá staðnum. Lögreglumenn skulu að jafnaði því aðeins fara inn á staðinn að þeir séu kvaddir þangað af forstöðumanni skemmtunarinnar eða atburðarins eða dyravörðum eða þeim þyki að öðru leyti ástæða til þess vegna eftirlits.

Þegar um er að ræða útisamkomur skulu lögreglumenn þó annast löggæslu á samkomusvæðinu.

Lögregla ákveður þörf og fyrirkomulag á löggæslu á eða við skemmtun eða atburði hverju sinni.

31. gr.

Löggæslukostnaður.

Kostnaður vegna löggæslu á skemmtun eða atburði greiðist úr ríkissjóði af viðkomandi lögreglustjóra.

Sá sem stendur fyrir skemmtun eða atburði skal endurgreiða lögreglustjóra þann kostnað er leiðir af aukinni löggæslu vegna þess, umfram það sem eðlilegt má telja. Við mat á því hvað megi teljast eðlilegt ber lögreglustjóra að taka mið af reynslu fyrri ára vegna sambærilegra skemmtana eða atburða, þeim fjölda sem búist er við að sæki skemmtun eða atburð, viðbúnaði leyfishafa vegna skemmtunar eða atburðar, hvort áfengi er leyft á skemmtun eða atburði og staðsetningu, það er hvort skemmtun eða atburður er haldinn í þéttbýli eða í dreifbýli.

Skal við það miðað að hverju sinni séu að jafnaði tiltækir tveir lögreglumenn við almenn löggæslustörf, í nágrenni skemmtistaðar eða þar sem atburður fer fram, sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Í þeim tilvikum sem gestum er heimill aðgangur að skemmtun eða atburði eftir kl. 23.30 skal sá sem fyrir skemmtun eða atburði stendur endurgreiða allan löggæslukostnað. Ríkissjóður skal þó bera ferðakostnað lögreglumanna. Að jafnaði skal eigi endurkrefja kostnað vegna löggæslu lengur en sem nemur einni klukkustund eftir að skemmtun eða atburði lýkur. Kostnaður vegna löggæslu getur náð til eftirfarandi út­gjalda:

 1. Launa lögreglumanna að teknu tilliti til launatengdra gjalda,
 2. dagpeninga lögreglumanna á meðan á löggæslu stendur,
 3. kostnaðar sem fellur til vegna aksturs um skemmtanasvæði,
 4. kostnaðar vegna uppsetningar nauðsynlegs tækjabúnaðar, svo sem fjarskiptakerfa eða síma- og tölvubúnaðar, og
 5. kostnaðar vegna uppsetningar nauðsynlegrar vinnuaðstöðu fyrir lögreglu, svo sem skúra eða annarra vistarvera.

Við ákvörðun um löggæslukostnað ber að hafa samráð við umsækjanda og gæta meðal­hófs þannig að aðilum sé ekki íþyngt með kostnaði umfram það sem eðlilegt getur talist. Gæta skal samræmis við ákvörðun löggæslukostnaðar innan lögregluumdæmis þannig að sambærileg mál hljóti sambærilega meðferð. Þá skal einnig gæta samræmis þannig að um sambærilegar skemmtanir og atburði gildi sömu reglur.

Kveða skal nánar á um gjaldtöku samkvæmt þessari grein í gjaldskrá sem dóms­mála­ráðherra setur.

32. gr.

Útihátíðir.

Útihátíð er samkoma sem haldin er utanhúss vegna hátíðahalda eða skemmtana fyrir almenning.

Tækifærisleyfi fyrir útihátíð verður ekki gefið út nema fyrir liggi starfsleyfi heilbrigðisnefndar, sbr. 33. gr. reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002.

Á útihátíðum og öðrum útisamkomum þar sem fólk gistir á tjaldsvæðum og ætla má að gestafjöldi verði yfir 1500 skal leyfisveitandi setja a.m.k. eftirfarandi skilyrði fyrir leyfi:

 1. Að sérstök móttaka verði á svæðinu fyrir aðhlynningu þolenda kynferðisbrota eða að þeim verði tryggð aðstoð sérstaks fagfólks með þekkingu og reynslu af mót­töku þolenda kynferðisbrota á næsta sjúkrahúsi eða heilsugæslu.
 2. Að mótshaldari sæki daglega samráðsfundi með yfirmönnum lögreglu, fulltrúum frá heilsugæslu og gæsluliðum.
 3. Að bílastæði fyrir samkomugesti verði afmörkuð og girt af.
 4. Að nægileg gæsla sé á tjaldsvæðum og mótssvæði.
 5. Að mótshaldari tryggi nægjanlega lýsingu á myrkum svæðum, t.d. á bílastæðum, við salerni, tjaldsvæði, matartjöld og við lögreglu- og heilsugæslumiðstöð.

Þá getur leyfisveitandi sett önnur nauðsynleg skilyrði fyrir leyfi byggð á málefnalegum rökum. Að öðru leyti gilda um leyfin ákvæði um tækifærisleyfi almennt.

33. gr.

Skrá.

Ríkislögreglustjóri heldur miðlæga skrá yfir veitt rekstrarleyfi og tækifærisleyfi. Í skránni skulu vera ítarlegar upplýsingar um starfsemina, nafn leyfishafa, nafn staðar, hvar starfsemi er rekin, til hvaða flokks hún telst og gildistíma leyfis. Skráin skal birt á heima­síðu ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri skal jafnframt halda skrá yfir þá sem sviptir hafa verið rekstrarleyfum.

Leyfisveitendur, hver í sínu umdæmi, bera ábyrgð á að skrá upplýsingar í skrár skv. 1. og 2. mgr.

34. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu samkvæmt 22. og 23. gr. laga um veit­ingastaði, gististaði og skemmtanahald.

35. gr.

Gildistaka og brottfall.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmt­anahald nr. 85/2007 og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði nr. 92/1989, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Jafnframt falla úr gildi reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum, nr. 587/1987, með síðari breytingum og reglugerð um veitinga- og gististaði, nr. 288/1987.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 29. júní 2007.

Björn Bjarnason.

Ragna Árnadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica