Umhverfisráðuneyti

503/2005

Reglugerð um merkingu matvæla. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um merkingar matvæla sem dreift er til neytenda og atriði viðvíkjandi kynningu og auglýsingu þeirra. Reglugerð þessi gildir einnig um merkingar matvæla sem dreift er til veitingahúsa, heilbrigðisstofnana, mötuneyta og annarra sambærilegra stóreldhúsa. Reglugerðin gildir ekki um merkingar matvæla sem ætluð eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Um einstök matvæli eða matvælaflokka gilda einnig eftir atvikum sérstakar reglugerðir.


2. gr.
Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja að neytendur fái réttar og greinargóðar upplýsingar um þau matvæli sem boðin eru til sölu, auglýst eða kynnt með öðrum hætti.


3. gr.
Skilgreiningar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

1. "Best fyrir"og "Best fyrir lok"merkingar gefa til kynna lágmarksgeymsluþol vöru við þau geymsluskilyrði sem við eiga. Varan getur haldið eiginleikum sínum og verið neysluhæf eftir tilgreint lágmarksgeymsluþol. Óheimilt er að dreifa vörunni eftir tilgreint tímabil.
2. Dreifinger hvers konar flutningur, framboð og afhending, þ.m.t. innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu.
3. Forpökkuð varaervara sem er sett í umbúðir án þess að kaupandinn sé viðstaddur og þegar magn vörunnar sem í umbúðunum er hefur fyrirfram ákvarðað gildi sem ekki er hægt að breyta án þess að opna umbúðirnar eða breyta þeim svo sjáanlegt sé.
4. Framleiðslulota merkir samsafn sölueininga matvæla sem eru framleidd eða er pakkað við nánast sömu skilyrði.
5. Innihaldsefnimerkir hráefni, aukefni og önnur efni, sem notuð eru við framleiðslu matvæla og finnast í lokaafurð, jafnvel þó í breyttri mynd sé. Ef innihaldsefni matvæla er sjálft afurð úr nokkrum innihaldsefnum skulu þau talin innihaldsefni matvælanna sem um er að ræða.
6. Matvæli eru hvers konar vörur sem ætlaðar eru mönnum til neyslu, þar með talið neysluvatn.
7. Merking eru orð, upplýsingar, vörumerki, sérheiti, myndefni eða tákn sem tengjast matvælum og eru sett á umbúðir, skjöl, tilkynningar, merkimiða, hringi eða kraga sem fylgja matvælunum eða vísa til þeirra.
8. Pökkunardagur er sá dagur þegar vörunni er pakkað í þær umbúðir sem henni er dreift í.
9. Síðasti neysludagurmerkir lok þess tímabils sem varan heldur gæðum sínum. Óheimilt er að dreifa vörunni eftir dagsetningu síðasta neysludags.
10. Stóreldhúseru veitingahús, eldhús heilbrigðisstofnana, mötuneyti og önnur sambærileg starfsemi.
11. Umbúðir eru neytendaumbúðir eða þær umbúðir sem vöru er pakkað í til dreifingar til stóreldhúsa. Þær umlykja vöruna að einhverju eða öllu leyti þannig að notkun hennar er háð því að umbúðir séu rofnar.


4. gr.
Ábyrgð framleiðenda/dreifingaraðila.

Óheimilt er að dreifa matvælum sem ekki uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar og sérreglugerða um merkingu, auglýsingu og kynningu. Framleiðandi eða dreifingaraðili vöru er ábyrgur fyrir því að merking hennar, auglýsing eða kynning sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og þeirra sérreglugerða sem við eiga.


5. gr.
Almenn ákvæði.

Merking skal vera greinileg og læsileg og hana má ekki á nokkurn hátt dylja, hylja eða slíta úr samhengi við annað les- eða myndmál. Hún skal vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku, en þó er heimilt að upplýsingar séu gefnar á fleiri en einu tungumáli.

Merking skal ekki vera blekkjandi fyrir kaupanda eða móttakanda, einkum að því er varðar sérkenni matvælanna, nánar tiltekið eðli þeirra, auðkenni, eiginleika, tegund, samsetningu, þyngd, geymsluþol, uppruna, aðferð við gerð eða framleiðslu. Óheimilt er að:

1. eigna matvælum áhrif eða eiginleika sem þau hafa ekki,
2. gefa í skyn að matvæli hafi tiltekin sérkenni, ef öll sambærileg matvæli hafa í raun þessi sérkenni,
3. eigna matvælum þá eiginleika að fyrirbyggja eða vinna á sjúkdómum manna, hafa lækningarmátt eða að vísa til þess háttar eiginleika.

Bönn og takmarkanir, sem um getur í 2. og 3. mgr. gilda einnig um kynningu matvæla, einkum hvað varðar lögun, útlit eða umbúðir, umbúðaefni sem notuð eru, hvernig þeim er komið fyrir og við hvaða aðstæður þau eru höfð til sýnis, svo og auglýsingar.


6. gr.
Merkingar sem skylt er að setja á neytendaumbúðir.

Skylt er að merkja matvæli með eftirfarandi:

1. Vöruheiti, sbr. ákvæði 7. gr.
2. Innihaldslýsing, sbr. ákvæði 8.-13. gr.
3. Magn tiltekinna innihaldsefna eða flokka innihaldsefna sbr. ákvæði 14. gr.
4. Nettóþyngd þegar um er að ræða matvæli í neytendaumbúðum, sbr. ákvæði 15.-18. gr.
5. Geymsluskilyrði, sbr. ákvæði 19. gr.
6. Geymsluþol, sbr. ákvæði 20. - 22. gr.
7. Heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða seljanda með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu. Heimilisfang skal gefið upp sem bær, borg eða hérað en auk þess er heimilt að skrá götuheiti, húsnúmer og/eða símanúmer.
8. Upplýsingar um uppruna eða framleiðsluland ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar réttan uppruna matvælanna.
9. Notkunarleiðbeiningar ef ekki er unnt að nýta matvælin á réttan hátt án slíkra leiðbeininga. sbr. 23. gr.
10. Styrk vínanda miðað við rúmmál í drykkjarvörum sem innihalda meira en 1,2% af vínanda miðað við rúmmál, sbr. ákvæði 24. gr.
11. Framleiðslulota, sbr. 25. – 26. gr.

Í viðauka 6 við reglugerð þessa er kveðið á um viðbótarupplýsingar sem tilgreina skal í merkingum viðkomandi matvæla.

Upplýsingar um vöruheiti, nettóþyngd, geymsluþol og styrk vínanda, þegar við á, skulu vera á sama sjónsviði.

Þegar um er að ræða margnota glerflöskur óafmáanlega merktar sem hafa engan merkimiða, hring eða kraga eða umbúðir þar sem stærsti flöturinn er minni en 10 cm2 að flatarmáli er einungis nauðsynlegt að gefa upp vöruheiti, nettóþyngd og geymsluþol sbr. þó ákvæði 13. gr.


7. gr.
Vöruheiti.

Matvæli skulu bera það vöruheiti sem mælt er fyrir um í þeim reglum sem gilda um viðkomandi vörutegund. Vanti slíkt heiti er notast við hefðbundið heiti eða lýsingu á vörunni eða notkun hennar, sem er nógu nákvæm til að kaupandinn fái rétta hugmynd um eðli vörunnar, og til að unnt sé að greina hana frá öðrum sambærilegum matvælum sem hún gæti verið tekin í misgripum fyrir.

Vörumerki eða glysheiti má ekki koma í stað vöruheitis.

Á kartöfluumbúðum skal tegundarheiti koma skýrt fram.

Í vöruheiti eða í tengslum við það, skulu koma fram upplýsingar um ástand eða hvaða meðhöndlun matvæli hafa fengið, svo sem möluð, frostþurrkuð, hraðfryst, þykkt, reykt, í öllum þeim tilvikum þar sem skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir kaupandanum. Sé um að ræða matvæli sem hafa verið meðhöndluð með jónandi geislun skulu þau bera merkinguna "meðhöndlað með jónandi geislun" eða "geislað".


8. gr.
Innihaldslýsing.

Innihaldslýsing skal birt á eftir orðinu "Innihald" eða "Innihaldslýsing" og skal hún veita greinargóðar upplýsingar um samsetningu vörunnar. Auk þess að vera í samræmi við ákvæði þessarar greinar skal innihaldslýsing vera í samræmi við ákvæði 9.-13. gr. svo og viðauka 1, 2, 4 og 6 við þessa reglugerð.

Öll innihaldsefni skal tilgreina eftir minnkandi magni eins og þau eru notuð við framleiðslu vörunnar.

Þrátt fyrir 2. mgr.:

a) skal tilgreina vatn og rokgjörn efnasambönd, sem notuð eru við framleiðslu, í innihaldslýsingu miðað við þyngd þeirra í lokaafurð. Vatnsinnihald skal þá reiknað með því að draga þyngd annarra innihaldsefna frá heildarþyngd lokaafurðar. Ef vatn reynist undir 5% af nettóþyngd vörunnar er ekki skylt að tilgreina það í innihaldslýsingu,
b) er heimilt að tilgreina innihaldsefni, sem notuð eru þykkt eða þurrkuð og sem vatni er bætt aftur í við framleiðslu, í röð eftir magni eins og það var fyrir þykkingu eða þurrkun,
c) er heimilt, fyrir þykktar eða þurrkaðar vörur, sem ætlast er til að verði þynntar eða leystar upp með vatnsíblöndun, að tilgreina innihald samkvæmt hlutföllum í þynntri eða uppleystri vörunni, að því tilskildu að innihaldslýsingunni fylgi athugasemd á borð við "innihald í þynntri/uppleystri vöru" eða "innihald í vörunni tilbúinni til notkunar",
d) er heimilt fyrir ávaxta-, grænmetis- og sveppablöndur, þar sem ekki er umtalsvert meira af einni tegund en annarri miðað við þyngd, að tilgreina innihald þannig að vikið er frá magnröð, að því tilskildu að innihaldslýsingunni fylgi athugasemd á borð við "breytilegt hlutfall" ásamt upptalningu á þeim ávöxtum, grænmeti og/eða sveppum sem í blöndunni eru. Blandan skal gefin upp í innihaldslýsingu í samræmi við 1. og 2. mgr.,
e) er heimilt, fyrir blöndur af kryddi eða kryddjurtum þar sem ekki er umtalsvert meira af einni tegund en annarri miðað við þyngd, að tilgreina innihald þannig að vikið er frá magnröð, að því tilskildu að innihaldslýsingunni fylgi athugasemd á borð við "breytilegt hlutfall",
f) er heimilt að tilgreina innihaldsefni sem eru innan við 2% af lokaafurð í hvaða röð sem er aftan við þau innihaldsefni sem tilgreind eru eftir minnkandi magni,
g) er heimilt, þegar innihaldsefni er skipt út fyrir annað sambærilegt innihaldsefni við framleiðslu matvæla án þess að það breyti samsetningu, eðli eða skynrænum eiginleikum lokaafurðar og ef efnið er innan við 2% af lokaafurð, að í innihaldslýsingu komi fram "inniheldur......og / eða ... " þegar a.m.k. annað efnanna tveggja er til staðar í lokaafurð. Þetta ákvæði á þó ekki við um aukefni sem skráð eru í viðauka 2.


9. gr.
Innihaldslýsing óþörf.

Innihaldslýsing er óþörf þegar um er að ræða:

a) ferska ávexti og grænmeti, þar með taldar kartöflur, sem hvorki hafa verið flysjaðar, sneiddar né meðhöndlaðar á annan sambærilegan hátt,
b) kolsýrt vatn, þar sem í merkingu kemur fram að það hafi verið kolsýrt,
c) gerjað edik sem er unnið úr einu hráefni, að því tilskildu að engum öðrum innihaldsefnum hafi verið bætt við,
d) ost, smjör, gerjaða mjólk og rjóma, að því tilskildu að engum innihaldsefnum hafi verið bætt í öðrum en mjólkurvörum, ensímum og örverustofnum, sem nauðsynlegir eru vegna framleiðslu, eða salti sem nauðsynlegt er til framleiðslu osta annarra en ferskra eða bræddra osta,
e) vörur úr einu hráefni þar sem vöruheitið er það sama og heitið á hráefninu eða er lýsandi fyrir hráefnið,
f) brennd og óbrennd vín. Sama gildir um drykkjarvörur sem innihalda meira en 1,2% alkóhól. Sjá þó 13. gr.


10. gr.
Hvað telst ekki til innihaldsefna.

Eftirfarandi telst ekki til innihaldsefna:

a) efnisþættir innihaldsefnis sem tímabundið hafa verið skildir frá í framleiðsluferlinu og síðar bætt í aftur en ekki umfram upprunaleg hlutföll,
b) aukefni sem berast í matvæli einungis vegna þess að þau eru efnisþáttur í hráefnum þeirra og gegna engu tæknilegu hlutverki í lokaafurð,
c) efni sem eru notuð sem tæknileg hjálparefni við framleiðslu, og efni sem eru í einhverju magni sem nauðsynlegur leysir eða burðarefni fyrir aukefni og bragðefni,
d) efni sem ekki eru aukefni en eru notuð á sama hátt og í sama tilgangi og tæknileg hjálparefni og eru til staðar í lokaafurð, jafnvel þó í breyttri mynd sé.


11. gr.
Sérheiti innihaldsefna.

Innihaldsefni skulu bera sitt sérheiti í samræmi við það sem lýst er í 7. gr.

Eigi að síður:

a) er heimilt að nota flokksheiti fyrir ákveðin hráefni samkvæmt viðauka 1,
Heitunum "sterkja" og "umbreytt sterkja" skal þó alltaf fylgja ábending um sérstakan uppruna úr jurtaríkinu séu líkur á því að þær innihaldi glúten, sbr. 13. gr.,
b) skulu aukefni, sem heyra undir einhvern flokkanna í viðauka 2, merkt með heiti þess flokks og á eftir skal koma sérheiti eða E-númer. Ef aukefnið heyrir undir fleiri en einn flokk skal tilgreina flokkinn sem best lýsir meginhlutverki efnisins í viðkomandi vöru,
c) skal merkja bragðefni í samræmi við viðauka 2.


12. gr.
Samsett innihaldsefni.

Heimilt er að merkja samsett innihaldsefni undir eigin heiti í innihaldslýsingu, að því tilskildu að jafnframt fylgi með innihaldslýsing efnanna.

Slíka lýsingu þarf þó ekki þegar samsett innihaldsefni eru:

a) skilgreind samkvæmt sérreglugerðum og eru minna en 2% af lokaafurð.
Þessi undantekning gildir ekki um aukefni, sbr. þó ákvæði 10. gr.,
b) blanda af kryddi og/eða kryddjurtum sem inniheldur engin aukefni og er minna en 2% af lokaafurð,
c) undanþegin kröfu um innihaldslýsingu samkvæmt öðrum sérreglugerðum.


13. gr.
Ofnæmis- og óþolsvaldar.

Þrátt fyrir ákvæði 9., 11. og 12. gr. skal merkja með skýrum hætti öll innihaldsefni sem eru á lista 1 yfir ofnæmis- og óþolsvalda í viðauka 4 eða eru upprunnin úr þeim ef þau eru notuð í framleiðslu matvæla og eru enn til staðar í lokaafurð, jafnvel þó í breyttri mynd sé. Þetta á þó ekki við ef heiti innihaldsefnis kemur skýrt fram í heiti vörunnar.

Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. skulu öll efni og efnisþættir sem upprunnin eru úr einhverju þeirra innihaldsefna sem fram koma á lista 1 yfir ofnæmis- og óþolsvalda í viðauka 4 teljast innihaldsefni ef þau eru notuð í framleiðslu matvæla og eru til staðar í lokaafurð, jafnvel þó í breyttri mynd sé. Í innihaldslýsingu skal koma skýrt fram úr hvaða ofnæmis- eða óþolsvaldi af lista 1 í viðauka 4 þau eiga uppruna sinn.

Þrátt fyrir f-lið 9. gr. skal tilgreina í innihaldslýsingu efnin sem eru á lista 1 í viðauka 4 í drykkjarvörum með yfir 1,2% vínanda með orðinu "inniheldur". Þetta á þó ekki við ef heiti innihaldsefnis kemur skýrt fram í heiti vörunnar.


14. gr.
Magnmerkingar.

Ef merking matvæla gefur til kynna magn eða undirstrikar mikilvægi eins eða fleiri innihaldsefna eða ef ákveðin innihaldsefni eru venjulega tengd heiti matvæla eða eru nauðsynleg til að einkenna matvælin og greina þau frá vörum sem þau kunna að vera tekin í misgripum fyrir skal magn þeirra koma fram í tengslum við heiti vörunnar eða í innihaldslýsingu.

Magn innihaldsefna skal gefið upp í prósentum eins og það er notað við framleiðslu vörunnar nema annað sé ákveðið sbr. 8. gr.

Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við um innihaldsefni eða flokka þeirra þegar:

1. Nettóþyngd efnanna er tilgreind samkvæmt ákvæði um vörur í legi sbr. 18. gr.
2. Aðrar sérreglur hafa verið settar um merkingu þeirra eða að sérreglur gera kröfu um að efnið sé í vörunni í tilteknu magni, án þess að sérstök krafa sé gerð um merkingu.
3. Efnin eru notuð í litlu magni sem bragðefni.
4. Efnin koma fram í heiti vörunnar, en hafa ekki áhrif á fæðuval neytenda, þar sem magn þeirra er ekki mikilvægt til að auðkenna vöruna eða aðgreina hana frá sambærilegum vörum.
5. Innihaldsefni eru þannig að d-liður 3. mgr. 8. gr. getur átt við.
6. Innihaldsefni eru sætuefni og merkingin "með sætuefni" eða "með sykri og sætuefni" kemur fram í tengslum við heiti vörunnar sbr. 1. mgr.
7. Um er að ræða íblöndun bætiefna og upplýsingar um næringargildi koma fram á umbúðum, sbr. 10. gr. reglugerðar um merkingu næringargildis matvæla, nr. 586/1993.


15. gr
Nettóþyngd forpakkaðrar vöru.

Nettóþyngd (nettómagn) forpakkaðrar vöru skal tilgreina í rúmtakseiningum þegar um vökva er að ræða, en í þyngdareiningum þegar um aðrar vörur er að ræða. Nota skal einingarnar lítri, sentílítri, millílítri eða kílógramm, gramm, (l, cl, ml, kg, g), þar sem við á.

Nettóþyngd skal vera:

a) nákvæm þyngd eftir vigt: Hver eining af vöru er vigtuð og síðan merkt og verðlögð eftir vigt,
b) meðalþyngd: Þyngd vörunnar má ekki vera minni en 95% af uppgefinni nettóþyngd fyrir vörutegundir sem vega allt að 500 g (ml) og ekki minni en 98% fyrir vörutegundir sem vega 500 g (ml) eða meira. Tölfræðileg frávik einstakra eininga í lotu frá meðalþyngd er heimil. Meðalþyngd lotunnar sjálfrar skal þó ekki vera undir uppgefinni meðalþyngd, sbr. reglugerðir nr. 131/1994, 132/1994 og 133/1994 um forpakkaðar vörur,
c) lágmarksþyngd: Tilgreina skal sérstaklega að um lágmarksþyngd sé að ræða.

Ekki er þó skylt að gefa upp nettóþyngd vöru sem hætt er við að verði fyrir umtalsverðu rúmmáls- eða þyngdartapi og er seld í stykkjatali eða vigtuð að kaupandanum viðstöddum. Fyrir vöru sem er undir 5 g eða 5 ml, aðrar en krydd og kryddjurtir, þarf ekki að gefa upp nettóþyngd.


16. gr.
Nettóþyngd forpakkaðra eininga.

Þegar vara í ytri umbúðum er samsett úr tveim eða fleiri stökum einingum í innri umbúðum, sem innihalda sama magn af sömu vöru, skal tilgreina þyngd með því að gefa upp nettóþyngd innri eininga og heildarfjölda þeirra. Ekki er þó skylt að tilgreina þessar upplýsingar þegar glöggt má sjá og telja fjölda eininga utan frá og svo fremi sem þyngd eininganna sést greinilega utan frá. Þegar innri umbúðir teljast ekki sölueiningar, skal nettóþyngd gefin upp sem heildarþyngd og fjöldi eininga tilgreindur á ytri umbúðum vörunnar.


17. gr.
Nettóþyngd vöru sem seld er í stykkjatali.

Ef um er að ræða matvæli sem venjulega eru seld í stykkjatali þarf ekki að tilgreina nettóþyngd að því tilskildu að einingafjölda megi auðveldlega sjá og telja utan frá eða, ef svo er ekki, að það komi fram á merkingu.


18. gr.
Nettóþyngd vöru í legi.

Þegar matvæli í föstu formi eru boðin til sölu í legi skal auk heildarþyngdar innihalds tilgreina nettóþyngd matvörunnar (þyngd fyrir utan löginn) á umbúðunum. Að því er varðar þetta ákvæði eiga orðin "í legi" við vörur í eftirfarandi legi, að því tilskildu að lögurinn sé einungis viðbót við meginefnin í tilreiðslunni og því ekki afgerandi þáttur í kaupunum: vatn, saltvatn, pækill, sýrulausn, edik, sykurlausnir, ávaxta- eða grænmetissafar sé um ávexti eða grænmeti að ræða.


19. gr.
Geymsluskilyrði.

Geymsluskilyrði skulu merkt á eftirfarandi hátt:

a) kælivörur skal geyma við +4°C eða kaldara og merkja sem "KÆLIVARA". Ef hitastig er tilgreint skal það vera 0-4°C (t.d. "KÆLIVARA, 0-4°C"),
b) frystivörur á að geyma við -18°C eða kaldara og merkja "FRYSTIVARA". Ef hitastig er tilgreint skal það vera -18°C (t.d. "FRYSTIVARA, -18°C"),
c) ekki er skylt að gefa upp geymsluskilyrði fyrir vörur sem geymdar eru við stofuhita (20°C).


20. gr.
Geymsluþol.

Matvæli, að undanskildum þeim sem talin eru upp í 22. gr., skal merkja með "best fyrir" eða "best fyrir lok". Kælivörur sem hafa fimm daga geymsluþol eða skemmra skal þó merkja með "síðasti neysludagur". Allar kælivörur sem hafa þriggja mánaða geymsluþol eða skemmra, skal jafnframt merkja með "pökkunardagur". Orðunum skal fylgja annaðhvort sjálf dagsetningin eða tilvísun í það hvar dagsetningin kemur fram.

Dagsetning skal tilgreind sem dagur, mánuður og ár, en eftirfarandi frávik eru heimil:

a) fyrir matvæli sem geymast þrjá mánuði eða skemur nægir að tilgreina dag og mánuð,
b) fyrir matvæli sem geymast í 18 mánuði eða skemur, þó lengur en 3 mánuði, nægir að tilgreina mánuð og ár,
c) fyrir matvæli sem geymast lengur en 18 mánuði nægir að tilgreina ár.

Óheimilt er að gera breytingu á merkingu geymsluskilyrða og geymsluþols á umbúðum matvæla.

Óheimilt er að dreifa matvælum eftir dagsetningu "síðasta neysludags" eða tímabil "best fyrir" merkingar.


21. gr.
Ákvörðun geymsluþols.

Framleiðandi vöru skal ákvarða og bera ábyrgð á geymsluþolsmerkingu hennar. Við ákvörðun geymsluþols skal tekið tillit til eðlis vörunnar, flutnings-, dreifingar- og geymsluskilyrða. Leiði athuganir í ljós að gæði vörunnar eru ekki í samræmi við merkt geymsluþol, getur viðkomandi heilbrigðisnefnd ákvarðað það geymsluþol sem skal gilda fyrir vöruna. Skulu slíkar ákvarðanir tilkynntar Umhverfisstofnun. Ef ekki er bætt úr, getur hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd stöðvað vinnslu og sölu á vörunni.

Umhverfisstofnun er heimilt að gefa út reglur um geymsluþol fyrir ákveðnar tegundir eða flokka matvæla. Skulu slíkar reglur birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Ef verulega breyttar forsendur hafa áhrif á geymsluþol vegna meðhöndlunar vörunnar, t.d. opnun umbúða, getur stofnunin gert kröfu um að þess sé getið á umbúðum.


22. gr.

Undantekningar frá geymsluþolsmerkingu.

Ekki er skylt að tilgreina lágmarksgeymsluþol fyrir eftirtaldar vörur:

1. Ferska ávexti og grænmeti, þar með taldar kartöflur sem ekki hafa verið flysjaðar, sneiddar eða meðhöndlaðar með öðrum hætti. Undanþága þessi nær ekki til spírandi fræja eða sambærilegra afurða svo sem belgaldinspíra.
2. Vín, líkjöra, freyðivín, kryddvín og sambærilegar afurðir úr ávöxtum öðrum en þrúgum, einnig drykkjarvörur sem flokkast undir tollflokkinn 22.06, skv. alþjóða tollskránni og framleiddar eru úr þrúgum eða þrúgusafa.
3. Drykkjarvörur sem í eru 10% eða meira af vínanda miðað við rúmmál.
4. Gosdrykki, aldinsafa, nektar og áfenga drykki í ílátum sem rúma 5 l eða meira til afgreiðslu til stóreldhúsa.
5. Bökunarvörur sem að öllu jöfnu er neytt innan sólarhrings frá framleiðslu. Rotvarðar bökunarvörur skulu geymsluþolsmerktar.
6. Edik.
7. Matarsalt.
8. Sykur.
9. Sælgæti sem nær einvörðungu er gert úr bragðbættum og/eða lituðum sykri.
10. Tyggigúmmí og hliðstæðar tyggjóvörur.
11. Einstaka einingar af ís, þar sem geymsluþol kemur fram á ytri umbúðum.


23. gr.
Notkunarleiðbeiningar.

Leiðbeiningar um notkun matvæla skal setja fram þannig að þau nýtist á viðeigandi hátt og skulu slíkar leiðbeiningar koma fram þegar það telst nauðsynlegt fyrir rétta meðhöndlun vörunnar.

Á umbúðir alifugla og afurða þeirra skal skrá leiðbeiningar um meðhöndlun og matreiðslu. Skal það gert með merki því sem fram kemur í viðauka 5, og skal merkið að lágmarki vera 3 x 5 cm að stærð. Yfirskrift á merki skal vera í 14 punkta letri og annar texti að lágmarki 9 punktar. Texti í merki skal vera skýr og auðlesinn og þannig að hann sé annaðhvort dökkur á ljósum grunni eða ljóst letur á dökkum grunni.


24. gr.
Styrkur vínanda.

Merkja skal alkóhólstyrk drykkjarvara sem innihalda yfir 1,2% af vínanda miðað við rúmmál. Alkóhólstyrkleiki skal ákvarðaður við 20°C og gefinn upp með einum aukastaf hið mesta og þannig að fram komi "% miðað við rúmmál". Á undan getur staðið orðið "alkóhól" eða styttingin "alk". Leyfileg frávik vegna upplýsinga um magn vínanda eru gefin upp í viðauka 3.


25. gr.
Framleiðslulota.

Merking framleiðslulotu skal koma fram á umbúðum matvæla eða ef því verður ekki við komið, á tilheyrandi viðskiptaskjölum. Á undan henni skal koma bókstafurinn "L" nema þegar hún er skýrt aðgreind frá öðrum upplýsingum á umbúðunum.

Framleiðandi, pökkunaraðili eða dreifingaraðili ákveður í hverju tilviki framleiðslulotur þeirra vara er um ræðir. Einhver þessara aðila ábyrgist hvernig merkingin er ákveðin og sett á.


26. gr.
Undantekningar frá framleiðslulotu.

Ekki er skylda að merkja með framleiðslulotu þær landbúnaðarafurðir sem eru fluttar af bújörðinni, dreift til geymslu-, tilreiðslu- eða pökkunarstöðva, fluttar til framleiðslusamtaka eða sóttar til að koma þeim samstundis í tilreiðslu eða vinnslu.

Ís í stökum einingum, þar sem lotumerking kemur fram á ytri umbúðum, er undanskilinn kröfum um lotumerkingu.

Þegar dagsetning um lágmarksgeymsluþol, "best fyrir" eða "síðasti neysludagur", kemur fram er ekki nauðsynlegt að merkja framleiðslulotu, sbr. 25. gr., að því tilskildu að þessi dagsetning komi skýrt fram með því að tiltaka að minnsta kosti mánaðardag og mánuð í réttri röð (d.m.).


27. gr.
Merkingar matvæla til stóreldhúsa.

Þær merkingar sem krafa er gerð um í 6. gr. og 3. mgr. 1. gr. skulu koma fram á umbúðum matvæla eða viðföstum merkimiða. Merkingar þessar geta þó í eftirfarandi tilvikum komið fram í viðskiptaskjölum sem fylgja þeim matvælum sem þau vísa til eða eru send á undan eða samtímis vörusendingunni:

a) þegar matvæli í neytendaumbúðum eru markaðssett á fyrri stigum, áður en kemur til dreifingar til smásölu;
b) þegar matvæli í umbúðum eru ætluð til að birgja upp stóreldhús vegna tilreiðslu, frekari vinnslu eða smásölu.

Í þessum tilvikum skulu þær merkingar sem gerð er krafa um í 1., 5. og 6. tl. 6. gr. jafnframt koma fram á ytri umbúðum sem vörunni er dreift í.


28. gr.
Lausasala.

Þegar vöru er dreift án umbúða, eða pakkað á sölustað eða sett í umbúðir til beinnar sölu til neytenda, skal seljandi vörunnar geta veitt kaupanda upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í 6. gr. þessarar reglugerðar, sbr. einnig ákvæði 27. gr.

Þegar kartöflur eru seldar í lausri vigt skal merkja með áberandi hætti hvaða tegund er um að ræða.


29. gr.
Rofnar umbúðir.

Ekki er heimilt að rjúfa neytendaumbúðir og selja vöru óinnpakkaða. Þetta á þó ekki við hafi framleiðandi, dreifandi eða pökkunaraðili heimilað seljanda að rjúfa umbúðir. Þegar slíkt er gert er það á ábyrgð viðkomandi framleiðanda, dreifanda eða pökkunaraðila, að óinnpökkuð vara haldi sínum eiginleikum og sé af sömu gæðum og sú vara sem seld er í neytendaumbúðum.


30. gr.
Eftirlit og rannsóknir.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

Umhverfisstofnun skal annast rannsóknir vegna opinbers eftirlits varðandi samsetningu matvæla með tilliti til merkingar, auglýsingar og kynningar þeirra.


31. gr.
Þvingunarúrræði.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt 30. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum, sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.


32. gr.
Viðurlög.

Um viðurlög fer samkvæmt 31. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, sbr. og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.


33. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum um matvæli, nr. 93/1995, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum og til innleiðingar á tilskipunum nr. 87/250/EBE um upplýsingar um alkóhólstyrk miðað við rúmmál í merkingu á áfengum drykkjarvörum til sölu til neytenda, 89/396/EBE um merkingu sem auðkennir framleiðslulotur matvæla, 91/238/EBE um breytingu á tilskipun nr. 89/396/EBE um merkingu sem auðkennir framleiðslulotur matvæla, 94/54/EB um lögbundnar upplýsingar á merkingum tiltekinna matvæla aðrar en þær sem kveðið er á um í tilskipun ráðsins nr. 79/112/EBE um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla til sölu til neytenda sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 42 frá 22. júní 1995, 96/21/EB, um breytingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 94/54/EB um lögbundnar upplýsingar á merkingum tiltekinna matvæla aðrar en þær sem kveðið er á um í tilskipun ráðsins nr. 79/112/EBE um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla til sölu til neytenda sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64 frá 4. október 1997, 2000/13/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107 frá 28. september 2001, 2001/101/EB um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/13 um samræmingu laga aðildarríkjanna um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81 frá 31. desember 2002, 2003/89/EB um breytingu á tilskipun nr. 2000/13/EB vegna innihaldsefna í matvælum sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 124 frá 24. september 2004, 2004/77/EB um breytingu á tilskipun nr. 94/54/EB hvað varðar merkingu á ákveðnum matvælum sem innihalda glycyrrhizinic sýru og ammóníum sölt hennar sem vísað er til í 4. tölul. XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 3. desember 2004 og 2005/26/EB um lista yfir innihaldsefni eða efni sem eru undantekin frá viðauka IIIa við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/13/EB.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Frá sama tíma falla úr gildi 2. og 3. gr. í kafla I, kafli III, kafli V, 2. og 3. ml. 1. mgr. 54. gr., ákvæði til bráðabirgða og viðaukar 1, 2, 3 og X við reglugerð um merkingar, kynningu og auglýsingu matvæla, nr. 588/1993, með síðari breytingum.


Ákvæði til bráðabirgða.
I

Vegna þeirra vara sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og ekki eru í samræmi við ákvæði 12. og 13. gr. er veittur frestur til 1. janúar 2006 til að uppfylla þau. Þetta gildir þó ekki um eftirfarandi innihaldsefni og afurðir úr þeim, sem geta valdið ofnæmi eða óþoli, ef þau finnast í vörunni: Mjólk, fisk, egg, sojabaunir, skeldýr, jarðhnetur, möndlur, hnetur, hafra, bygg, rúg og hveiti. Frestur til að merkja ofnæmis- og óþolsvalda í lista 2, viðauka 4 er til 25. nóvember 2007.

Veittur er 12 mánaða frestur til að uppfylla ákvæði um viðbótarupplýsingar á vörum sem innihalda lakkrís skv. 2. mgr. 6. gr. og viðauka 6. Vörur sem ekki uppfylla ákvæði reglugerðarinnar en eru merktar fyrir 20. maí 2006 má selja á meðan birgðir endast.


Umhverfisráðuneytinu, 17. maí 2005.

F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Sigrún Ágústsdóttir.


VIÐAUKI 1
Flokksheiti innihaldsefna.


Heimilt er að tilgreina eftirfarandi innihaldsefni með flokksheiti í stað sérheita:

Hráefni Flokksheiti
Allar fisktegundir, þar sem fiskurinn er hluti af innihaldi í öðrum matvælum, að því tilskildu að hvorki vöruheiti né merking matvælanna gefi til kynna sérstaka fisktegund. Fiskur.
Hreinsuð fita. "Fita", ásamt annaðhvort orðinu "dýra-" eða "jurta-", eftir því sem við á, eða upplýsingum um nákvæman uppruna
þeirra í dýra- eða jurtaríkinu. Skylt er að nota lýsingarorðið "hert" til að auðkenna
herta fitu ef uppruni hennar í dýra- eða jurtaríkinu er tilgreindur.
Glúkósasýróp eða afvatnað glúkósasýróp. Glúkósasýróp.
Blanda af grænmeti sem vegur ekki meira en 10% af þyngd matvæla. Grænmeti.
Allar tegundir af gúmmí sem notað er við framleiðslu á tyggigúmmí. Gúmmíefni.
Pressað, skrúfupressað eða hreinsað kakósmjör. Kakósmjör.
Beinagrindavöðvar1 spendýra- og fugla sem eru hæfir til manneldis ásamt meðfylgjandi eða tengdum vefjum þar sem heildarmagn fitu og bandvefs fer ekki yfir gildin sem tilgreind eru hér að neðan og þar sem kjötið er innihaldsefni í öðrum matvælum. "Kjötmarningur" er undanskilinn þessari skilgreiningu.
Hámarksmagn fitu og bandvefs2 í innihaldsefnum sem eru tilgreind með heitinu "...kjöt":
1. Spendýr (nema kanínur og svín) og blanda af mismunandi tegundum þar sem stærsti hlutinn er spendýr:
- 25% fita,
- 25% bandvefur.
2. Svín:
- 30% fita,
- 25% bandvefur.
3. Fuglar og kanínur:
- 15% fita,
- 10% bandvefur.
"...kjöt", þar sem heiti3 dýrategundar eða dýrategundanna sem kjötið er upprunnið af kemur fram.
Öll krydd sem vega ekki meira en 2% af
þyngd matvælanna.
Krydd eða kryddblanda.
Allar kryddjurtir eða hlutar þeirra sem vega ekki meira en 2% af þyngd matvælanna. Kryddjurt(ir) eða kryddjurtablanda.
Allar tegundir mjólkurpróteina (kasein, kaseinöt og mysuprótein) og blöndur þeirra. Mjólkurprótein.
Blandað mjöl úr tveim eða fleiri korntegundum. "Mjöl", ásamt þeim korntegundum sem það er gert úr, í röð eftir minnkandi magni.
Allar tegundir bakaðra og muldra kornvara. Mylsna.
Hreinsaðar olíur aðrar en ólífuolía. "Olía", ásamt annaðhvort orðinu "dýra-" eða "jurta-", eftir því sem við á, eða upplýsingum um nákvæman uppruna þeirra í dýra- eða jurtaríkinu. Skylt er að nota lýsingarorðið "hert" til að auðkenna herta olíu.
Allar tegundir af ostum, þar sem ostur eða blanda af ostum er innihald í öðrum matvælum, að því tilskildu að hvorki vöruheiti né merking matvælanna gefi til kynna sérstaka tegund af osti. Ostur.
Sterkjur og umbreyttar sterkjur sem umbreyttar hafa verið með eðlisfræðilegum aðferðum eða lífhvötum. "Sterkja", ásamt tegundarheiti jurtar sem hún er unnin úr ef sterkjan inniheldur glúten.
Allir sykraðir ávextir sem vega ekki meira en 10% af þyngd matvæla. Sykraðir ávextir.
Allar tegundir súkrósa. Sykur.
Allar tegundir vína sem skilgreind eru í reglugerð Evrópusambandsins nr. 1493/1999 um samhæft markaðsskipulag á víni. Vín.
Afvatnaður dextrósi og vetnisdextrósi. Þrúgusykur.

1 Þind og kjálkavöðvar eru hluti af beinagreindarvöðvum en hjarta, tunga, vöðvar í höfði (nema kjálkavöðvar), lappir og rófa/dindill/hali eru undanskilin.
2 Magn bandvefs er reiknað út á grundvelli hlutfallsins á milli kollagenmagns og magn kjötpróteins. Magn kollagens fæst með því að margfalda magn amínósýrunnar hýdroxýprólíns með stuðlinum 8.
3 Þegar um er að ræða merkingar á ensku má í stað þess heitis koma almennt heiti innihaldsefnis sem einkennir dýrategundina sem um er að ræða.


VIÐAUKI 2
Flokksheiti aukefna og merking á bragðefnum.


Flokksheiti aukefna:

Skylt er að tilgreina aukefni með heiti flokksins sem þau heyra undir auk sérheitis þeirra eða númeri. Flokksheiti aukefna eru:

Bindiefni (stabilizer)
Bragðaukandi efni (flavour enhancer)
Bræðslusölt (emulsifying salts)4
Drifefni (gas) (propellent gas)
Festuefni (firming agent)
Froðueyðar (antifoaming agent)
Hleypiefni (gelling agent)
Húðunarefni (glazing agent)
Kekkjavarnarefni (anticaking agent)
Litarefni (color)
Loftskiptar (packaging gas)5
Lyftiefni (raising agent)
Mjölmeðhöndlunarefni (flour treatment agent)
Rakaefni (humectant)
Rotvarnarefni (preservative)
Sýrur (acid)
Sýrustillar (acidity regulator)
Sætuefni (sweetener)
Umbreyttar sterkjur (modified starches)6
Umfangsaukar (bulking agent)
Ýruefni (emulsifier)
Þráavarnarefni (antioxidant)
Þykkingarefni (thickener)

4 Á einungis við um brædda osta og vörur úr bræddum osti.
5 Ekki er skylt að tilgreina flokksheitið, en þegar loftskiptar eru notaðir til að hafa áhrif á geymsluþol, skal merkingin "Loftskiptar umbúðir" eða "Pakkað í loftskiptar umbúðir" koma fram á umbúðum.
6 Ekki er skylt að tilgreina viðurkennt heiti eða E-númer. Ef umbreytt sterkja inniheldur glúten skal tegundarheiti jurtar, sem sterkjan er unnin úr, einnig koma fram í innihaldslýsingu.


Merkingar á bragðefnum:

1. Bragðefni skal annaðhvort merkja með orðinu "bragðefni" eða sérheiti eða lýsingu á því.
2. Einungis er heimilt að nota orðið "náttúruleg" eða önnur orð efnislega sömu merkingar um bragðefni sem hafa að geyma bragðgefandi efni og/eða bragðefnablöndur sem falla undir skilgreiningu á náttúrulegum bragðefnum í reglugerð um bragðefni í matvælum.
3. Feli lýsing bragðefnis í sér skírskotun til uppruna úr plöntu- eða dýraríkinu er einungis heimilt að nota orðið "náttúrulegur" eða önnur orð efnislega sömu merkingar, sé bragðgefandi þátturinn einangraður eingöngu eða næstum því, úr matvælum eða grunnefnum þeim sem um ræðir, með viðeigandi eðlis-, eða örverufræðilegum aðferðum, hefðbundinni vinnslu eða með notkun lífhvata.


VIÐAUKI 3
Leyfileg frávik vegna upplýsinga um magn vínanda í drykkjarvörum.


Alkóhólstyrk skal ætíð gefa upp sem % miðað við rúmmál. Leyfileg frávik, með fyrirvara um þau frávik sem greiningaraðferðin leiðir til, eru 0,3% miðað við rúmmál fyrir drykki aðra en þá sem eru taldir að neðan:

1. 0,5% fyrir bjór með alkóhólstyrk að hámarki 5,5% og drykki í flokki 22.07 B II samkvæmt alþjóðlegu tollskránni, gerða úr þrúgum.
2. 1% fyrir bjór með meiri alkóhólstyrk en 5,5% og drykki í flokki 22.07 B I samkvæmt alþjóðlegu tollskránni, gerða úr þrúgum og skyld vín úr öðrum ávöxtum en þrúgum, einnig drykki úr gerjuðu hunangi (mjöður).
3. 1,5% fyrir drykkjarvörur sem innihalda maukaða ávexti eða jurtahluta (líkjörar, brennd vín o.þ.h.).


VIÐAUKI 4
Ofnæmis- og óþolsvaldar.

Listi 1

Ofnæmis- og óþolsvaldar sem merkja skal með skýrum hætti skv. 13. gr.:

1. Egg og afurðir úr þeim.
2. Fiskur og fiskafurðir.
3. Hnetur, þ.e.
a. möndlur (Amygdalus communis L.),
b. heslihnetur (Corylus avellana),
c. valhnetur (Juglans regia),
d. kasjú hnetur (Anacardium occidentale),
e. pekanhnetur (Carya illinoiesis (Wangenh.) K. Koch),
f. parahnetur (Brasilíuhnetur) (Bertholletia excelsa),
g. pistasíur (hjartaaldin) (Pistacia vera),
h. macadamiahnetur (Macadamia ternifolia) og afurðir þeirra.
4. Jarðhnetur og afurðir úr þeim.
5. Korn sem inniheldur glúten (þ.e. hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, kamut eða afbrigði þessarar tegunda) og kornafurðir.
6. Krabbadýr og afurðir úr þeim.
7. Mjólk og mjólkurafurðir (laktósi meðtalinn).
8. Sellerí og afurðir úr því.
9. Sesamfræ og afurðir úr því.
10. Sinnep og afurðir úr því.
11. Sojabaunir og afurðir úr þeim.
12. Súlphúr díoxíð og súlfíð í meira magni en 10 mg/kg eða 10 mg/l, gefið upp sem SO2.


Listi 2

Efni sem merkja skal skv. ákvæðum 13. gr. frá og með 25. nóvember 2007:


Innihaldsefni
Innihaldsefni sem skylt er að merkja frá og með 25. nóvember 2007
Korn sem inniheldur glúten
· Glúkósasíróp, þ.m.t. dextrósi7 úr hveiti,
· Maltdextrín úr hveiti7,
· Glúkósasíróp úr byggi,
· Korn notað í gerjunarvökva til að eima vínanda úr.
Egg
· Lýsósím (úr eggi) notað í léttvín,
· Albúmín (úr eggi) notað sem felliefni í léttvín og sítra.
Fiskur
· Fiskigelatín notað sem burðarefni fyrir vítamín og bragðefni,
· Fiskigelatín eða fiskilím til nota sem felliefni fyrir bjór, sítra og léttvín.
Sojabaunir
· Fullhreinsuð sojabaunaolía og fita7,
· Náttúrulegt, blandað tókóferól (E306), náttúrulegt D-alfa-tókóferól, náttúrulegt D-alfa-tókóferólasetat, náttúrulegt D-alfa-tókóferólsúksínat úr sojabaunum,
· Fýtósteról úr jurtaolíu og fýtósterólestrar úr sojabaunum,
· Stanólestri úr sojaolíusterólum.
Mjólk
· Mysa notuð í gerjunarvökva til að eima vínanda úr,
· Laktítól,
· Mjólkurafurðir (kasín) til nota sem felliefni fyrir sítra og léttvín.
Hnetur
· Hnetur notaðar í gerjunarvökva til að eima vínanda úr,
· Hnetur (möndlur, valhnetur) notaðar (sem bragðgjafi) í vínanda.
Sellerí
· Olía úr sellerílaufi og sellerífræi,
· Óleóresín úr sellerífræi.
Sinnep
· Sinnepsolía,
· Sinnepsfræsolía,
· Óleóresín úr sinnepsfræi.

7 Ásamt afurðum úr því, að því tilskildu að framleiðsluferli auki ekki á ofnæmisvirkni eins og hún hefur verið metin af Matvælaöryggisstofnun Evrópu fyrir þær vörur sem afurðirnar koma úr.


VIÐAUKI 5
Merki með leiðbeiningum um rétta meðferð og matreiðslu alifugla.
VIÐAUKI 6
Matvæli sem skulu merkt með viðbótarupplýsingum.

Gerð eða flokkur matvæla Merking
Matvæli sem hefur verið pakkað með lofttegundum, sem heimilar eru skv. reglugerð um aukefni í matvælum, nr. 285/2002, með síðari breytingum, til að auka geymsluþol þeirra. "Pakkað í loftskiptar umbúðir" eða "Loftskiptar umbúðir"
Matvæli sem innihalda sætuefni, eitt eða fleiri eins og heimilt er samkvæmt reglugerð um aukefni, nr. 285/2002, með síðari breytingum. "með sætuefni eða -efnum". Þessar upplýsingar skulu fylgja vöruheitinu eins og kveðið er á um í 7. gr. þessarar reglugerðar.
Matvæli sem innihalda sætuefnið aspartam. "Inniheldur fenýlalanín".
Matvæli með meira en 10% af viðbættum sykuralkóhólum. "Mikil neysla getur haft hægðalosandi áhrif"
Sælgæti eða drykkir sem innihalda glýcýrrhizinicsýru eða ammóníumsalt hennar, þar sem efninu eða lakkrísplöntunni Glycyrrhiza glabra hefur verið bætt í vöruna í magninu 100 mg/kg eða 10 mg/l eða meira. "inniheldur lakkrís" skal koma fram strax á eftir innihaldslýsingu, nema að orðið lakkrís komi fram í innihaldslýsingu eða heiti vörunnar. Þegar innihaldslýsing er óþörf skulu upplýsingarnar koma fram nálægt vöruheiti.
Sælgæti sem inniheldur glycyrrhizinicsýru eða ammóníumsalt hennar, þar sem efninu eða lakkrísplöntunni Glycyrrhiza glabra hefur verið bætt í magninu 4 g/kg eða yfir. "inniheldur lakkrís – fólk með háþrýsting ætti að forðast óhóflega neyslu" skal koma fram á eftir innihaldslýsingu. Þegar innihaldslýsing er óþörf skulu upplýsingarnar koma fram nálægt vöruheiti.
Drykkir sem innihalda glycyrrhizinicsýru eða ammóníumsalt hennar þar sem efninu eða lakkrísplöntunni Glycyrrhiza glabra hefur verið bætt í magninu 50 mg/l eða yfir eða í 300 mg/l eða yfir í drykkjum sem innihalda meira en 1,2% alkóhól. "inniheldur lakkrís – fólk með háan blóðþrýsting skal forðast óhóflega neyslu" skal koma fram á eftir innihaldslýsingu. Þegar innihaldslýsing er óþörf skulu upplýsingarnar koma fram nálægt heiti vörunnar.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica