Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1294/2014

Reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda.

1. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í XII. kafla, II. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka, bókun 1 við samn­inginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 214/2014, frá 1. nóvember 2014, öðlast eftirfarandi ESB-gerð gildi hér á landi:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 frá 25. október 2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, um breytingu á reglugerðum Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 1924/2006 og (EB) nr. 1925/2006 og um niður­fell­ingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 87/250/EBE, tilskipun ráðsins 90/496/EBE, tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 1999/10/EB, tilskipun Evrópu­þings­ins og ráðsins 2000/13/EB, tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2002/67/EB og 2008/5/EB og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 608/2004.

2. gr.

Fylgiskjöl.

Ofangreind reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins skv. 1. gr. er birt sem fylgiskjal við reglu­gerð þessa.

3. gr.

Tungumál.

Upplýsingar um matvæli skulu vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku. Heimilt er að upplýsingar séu gefnar á fleiri en einu tungumáli.

Þrátt fyrir 1. mgr. er skylt að nota íslensku við merkingar viðbótarupplýsinga á drykkjar­vörur sem innihalda mikið af koffíni eða matvæli með viðbættu koffíni, sbr. 4. tl. í III. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011.

4. gr.

Nettómagn.

Nettómagn matvæla, skv. 23. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011, skal vera sem hér segir:

 

a)

Nákvæmt magn: Hver eining af vöru er mæld og síðan merkt og verðlögð eftir magni. Krafa um nákvæmni fer eftir kröfum, sem gerðar eru til löggiltra mælitækja til slíkra nota.

 

b)

Meðalmagn: Ef framleiðslulotum er pakkað eftir meðalmagni skal fara eftir ákvæðum reglugerðar nr. 437/2009 um e-merktar forpakkningar, að því er varðar heimilað neikvætt frávik.

 

c)

Lágmarksmagn: Tilgreina skal sérstaklega að um lágmarksmagn sé að ræða með merkingunni "a.m.k." eða "minnst" á undan nettómagni á hinni forpökkuðu vöru.5. gr.

Geymsluskilyrði.

Geymsluskilyrði kæli- og frystivara og merkingar þeirra skulu vera með eftirfarandi hætti:

 

a)

Kælivörur skal geyma við +4°C hitastig eða kaldara og merkja "KÆLIVARA". Ef hitastig er tilgreint skal það vera 0-4°C (t.d. "KÆLIVARA, 0-4°C").

 

b)

Frystivörur skal geyma við -18°C hitastig eða kaldara og merkja "FRYSTIVARA". Ef hitastig er tilgreint skal það vera -18°C (t.d. "FRYSTIVARA, -18°C").Heimilt er að merkja önnur geymsluskilyrði.

6. gr.

Matvæli sem ekki eru forpökkuð.

Þegar matvæli eru seld án þess að vera forpökkuð, skal seljandi vörunnar geta veitt kaupanda upplýsingar um þau atriði sem eru tilgreind í a-b-liðum og d-k-liðum 1. tölul. 9. gr. og 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011. Upplýsingar sem tilgreindar eru í c-lið 1. tölul. 9. gr. reglugerðarinnar, sem seljanda er skylt að veita við markaðssetningu vörunnar, er heimilt að gefa upp á hvaða hátt sem er þ.m.t. munnlega. Ef upplýsingarnar eru gefnar munnlega verður seljandi að gefa það til kynna á sýnilegan hátt að starfsfólk veiti nánari upplýsingar s.s. með merkimiða, á matseðli eða á skilti þar sem neytandi velur matvælin.

7. gr.

Framleiðslulota.

Með framleiðslulotu er átt við samsafn sölueininga matvæla sem eru framleiddar eða þeim pakkað við nánast sömu skilyrði.

Merking framleiðslulotu skal koma fram á umbúðum matvæla eða, ef því verður ekki við komið, á tilheyrandi viðskiptaskjölum. Á undan merkingunni skal koma bókstafurinn "L" nema þegar merkingin er skýrt aðgreind frá öðrum upplýsingum á umbúðunum.

Framleiðandi, pökkunaraðili eða dreifingaraðili, ákveður í hverju tilviki framleiðslulotur þeirra vara er um ræðir. Einhver þessara rekstraraðila ábyrgist hvernig merkingin er ákveðin og sett á.

Ekki er skylt að merkja eftirfarandi vörur með framleiðslulotu:

  1. Landbúnaðarafurðir sem eru fluttar af bújörð og dreift til geymslu-, tilreiðslu- eða pökkunarstöðva, fluttar til framleiðslusamtaka eða sóttar til að koma þeim sam­stundis í tilreiðslu eða vinnslu.
  2. Ís í stökum einingum, þar sem lotumerking kemur fram á ytri umbúðum.
  3. Matvæli sem eru seld lokaneytanda án neytendaumbúða eða þegar matvælum er pakkað að ósk neytanda á sölustað eða þau sett í neytendaumbúðir og seld tafar­laust.
  4. Umbúðir eða ílát sem eru undir 10 sm² að ytra máli.
  5. Vörur þar sem dagsetning um lágmarksgeymsluþol, "best fyrir" eða "síðasti notk­unar­dagur", kemur fram, að því tilskildu að þessi dagsetning komi skýrt fram á merk­ingu vörunnar og þar tiltekið a.m.k. mánaðardagur og mánuður í réttri röð (d.m.).

8. gr.

Uppruni og tegund matvæla.

Á umbúðum eftirfarandi ferskra matjurta skulu vera upplýsingar um upprunaland.

Kartöflur.
Tómatar.
Laukur, skalottlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur (púrra), vorlaukur, graslaukur og aðrar skyldar matjurtir.
Blómkál, grænkál, hnúðkál, hvítkál, kínakál, rauðkál, rósakál, spergilkál (broccoli), kínaspergilkál (brassica oleracea var alboglabra), salatkál (pak choi, brassica rapa var chinensis), mibuna og mizuna (brassica rapa var nipposinica), sinnepskál (must­arður), fóðurmergskál og aðrar skyldar matjurtir.
Salat, höfuðsalat, batavíasalat, íssalat (icebergsalat), lausblaða íssalat (frillice), blað­salat (rapid, lollo rosso, eikarblaðsalat), klettasalat, vorsalat (lambasalat), hrokkin­blaðs­salat, endívusalat, síkoría (cichorium spp.).
Gulrófur, gulrætur, hreðkur, næpur, rauðrófur, sellerírót, hafursrót, radísur og aðrar rætur ætlaðar til matar.
Gúrkur, reitagúrkur.
Belgávextir, með eða án hýðis.
Spergill.
Eggaldinjurtir.
Selja (stilksellerí), önnur en seljurót.
Sveppir og tröfflur.
Aldin Capsicumættarinnar eða Pimentaættarinnar: Paprikur (grænar og litaðar) og eldpipar, og aðrar tegundir af ættkvíslunum ætlaðar til matar.
Spínat, Nýja-Sjálandsspínat, hrímblaðka (garðaspínat), blaðbeðja, garðsúra, skraut­súra, silfurblaðka, spínatblaðka, rauðbeða.
Steinselja, dill, garðablóðberg, basilika, órigan, íssópur, majoram, rósmarín, kórí­ander, fennill, mynta, salvía.
Sykurmaís.
Kúrbítur (courgettes).
Ólífur.
Jarðartískokka (ætiþistill).
Jarðarber.
Rabarbari.

Á kartöfluumbúðum skal tegundarheiti koma skýrt fram. Þegar kartöflur eru seldar í lausri vigt skal upplýsa með áberandi hætti hvaða tegund er um að ræða.

Vörutegundir úr ferskum matjurtum þar sem matjurtum er blandað saman og/eða þær skornar niður skulu merktar á umbúðum með upplýsingum um upprunaland. Þegar um er að ræða vörutegund þar sem ferskar matjurtir hafa uppruna í fleiri en einu landi skal tilgreina nafn hverrar matjurtar og upprunaland hennar á umbúðum. Þó er ekki þörf að merkja umbúðir ferskra matjurta með upplýsingum um upprunaland þegar framleiðandi dreifir framleiðslu sinni milliliðalaust til neytanda.

Þegar ferskum matjurtum er dreift án umbúða eða pakkað af seljanda á sölustað skal seljandi vörunnar veita kaupanda upplýsingar um upprunaland vörunnar með sýnilegum hætti, þar sem varan liggur frammi.

9. gr.

Yfirlýsing vegna D-vítamíns.

Þegar yfirlýsing er gefin um D-vítamín er auk framsetningarsniðsins sem um getur í 2. og 3. mgr. 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 heimilt að tilgreina á sama sjónsviði og næringaryfirlýsingin er, að ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni fyrir fullorðna er 15 µg samkvæmt embætti landlæknis, ásamt því að tilgreina hvað uppgefið magn í næringaryfirlýsingu er sem hundraðshluti af honum.

10. gr.

Lágmarksgeymsluþol.

Þegar matvæli eru komin fram yfir tilgreinda dagsetningu lágmarksgeymsluþols skal seljandi aðgreina þau matvæli með skýrum hætti frá matvælum, sem ekki eru komin fram yfir dagsetningu lágmarksgeymsluþols.

Seljandi ber ábyrgð á því að matvæli, sem seld eru þegar þau eru komin fram yfir dag­setningu lágmarksgeymsluþols, séu neysluhæf.

11. gr.

Eftirlit.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995.

Matvælastofnun er heimilt að annast rannsóknir vegna opinbers eftirlits varðandi sam­setn­ingu matvæla með tilliti til merkingar, auglýsingar og kynningar þeirra.

12. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.

13. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.

14. gr.

Gildistaka og brottfall.

Reglugerðin öðlast þegar gildi, að undanteknum l-lið 1. mgr. 9. gr. reglugerðar Evrópu­þingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 sem gildir frá 13. desember 2016 og B-hluta VI. viðauka, sem gildir frá 1. janúar 2014. Jafnframt falla úr gildi reglugerðir nr. 503/2005 um merkingu matvæla, með síðari breytingum, nr. 410/2009 um merkingu nær­ingar­gildis matvæla, með síðari breytingum, nr. 681/2005 um gildistöku tiltekinnar gerðar Evrópu­sambandsins um merkingu matvæla og innihaldsefna matvæla með við­bættum jurta­sterólum, jurtasterólestrum, jurtastanólum og/eða jurtastanólestrum og nr. 884/2003 um merk­ingu matvæla sem innihalda kínín og matvæla sem innihalda koffín.

Ákvæði til bráðabirgða.

Matvæli sem sett eru á markað eða merkt fyrir 13. maí 2015 og eru merkt í samræmi við þær reglugerðir, sem falla úr gildi skv. 14. gr., og uppfylla ekki kröfur þessarar reglugerðar má setja á markað á meðan birgðir endast.

Matvæli, sem sett eru á markað eða merkt fyrir 13. desember 2016 og uppfylla ekki kröfur l-liðar 1. mgr. 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011, má setja á markað á meðan birgðir endast.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. desember 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Eggert Ólafsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

Reglugerðir sem falla brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica