Utanríkisráðuneyti

448/2014

Reglugerð um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja:

a)

ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem eru settar á grundvelli 41. gr. VII. kafla stofnskrár Sameinuðu þjóðanna,

b)

ákvörðunum framkvæmdanefnda þess um þvingunaraðgerðir og/eða

c)

ákvæðum um þvingunaraðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að framfylgja á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Fríverslunar­samtaka Evrópu um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.



Í þeim gerðum sem vitnað er til í 2. gr. og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar kemur fram um hvaða ályktanir eða ákvarðanir alþjóðastofnana eða ríkjahópa er að ræða, þær þvingunaraðgerðir sem koma eiga til framkvæmda og gegn hverjum þær beinast, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.

Ákvæði reglugerðar nr. 119/2009 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða eiga við um framkvæmd reglugerðar þessarar, eftir því sem við á.

2. gr.

Þvingunaraðgerðir.

Eftirfarandi gerðir Evrópusambandsins um þvingunaraðgerðir skulu öðlast gildi hér á landi með þeirri aðlögun sem getið er um í 3. gr. Gerðirnar, ásamt viðaukum, eru birtar sem fylgiskjöl við reglugerð þessa:

-

Fylgiskjal 1: Sameiginleg afstaða ráðsins 2002/402/SSUÖ frá 27. maí 2002 um þvingunaraðgerðir gegn Usama bin Laden, meðlimum Al-Qaida-samtakanna og talibönum og öðrum einstaklingum, hópum, fyrirtækjum og rekstrareiningum sem þeim tengjast og um niðurfellingu sameiginlegrar afstöðu 96/746/SSUÖ, 1999/727/SSUÖ, 2001/154/SSUÖ og 2001/771/SSUÖ.

-

Fylgiskjal 2: Sameiginleg afstaða ráðsins 2003/140/SSUÖ frá 27. febrúar 2003 um undanþágur frá þvingunaraðgerðum sem koma til framkvæmda með sameiginlegri afstöðu 2002/402/SSUÖ.

-

Fylgiskjal 3: Ákvörðun ráðsins 2011/487/SSUÖ frá 1. ágúst 2011 um breytingu á sameiginlegri afstöðu 2002/402/SSUÖ um þvingunaraðgerðir gegn Usama bin Laden, meðlimum Al-Qaida-samtakanna og talibönum og öðrum einstaklingum, hópum, fyrirtækjum og rekstrareiningum sem þeim tengjast.

-

Fylgiskjal 4: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 881/2002 frá 27. maí 2002 sem leggur á tilteknar, sérstakar þvingunaraðgerðir sem beint er gegn tilteknum einstaklingum og rekstrareiningum sem tengjast Usama bin Laden, Al-Qaida-samtökunum og talibönum og um niðurfellingu reglugerðar ráðsins (EB) nr. 467/2001 um bann við útflutningi á tilteknum vörum og þjónustu til Afganistans, styrkingu flugbannsins og rýmkun heimilda til frystingar fjármuna og annars fjármagns að því er tekur til talibana í Afganistan. I. viðauki er uppfærður miðað við lista nefndar á vegum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna dags. 3. apríl 2014.

-

Fylgiskjal 5: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 561/2003 frá 27. mars 2003 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 881/2002, að því er varðar undanþágur frá frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs, sem leggur á tilteknar, sérstakar þvingunaraðgerðir sem beint er gegn tilteknum einstaklingum og rekstrareiningum sem tengjast Usama bin Laden, Al-Qaida-samtökunum og talibönum.

-

Fylgiskjal 6: Reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1286/2009 frá 22. desember 2009 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 881/2002 sem leggur á tilteknar, sérstakar þving­unar­aðgerðir sem beint er gegn tilteknum einstaklingum og rekstrareiningum sem tengjast Usama bin Laden, Al-Qaida-samtökunum og talibönum.

-

Fylgiskjal 7: Reglugerð ráðsins (ESB) nr. 754/2011 frá 1. ágúst 2011 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 881/2002 sem leggur á tilteknar, sérstakar þvingunaraðgerðir sem beint er gegn tilteknum einstaklingum og rekstrareiningum sem tengjast Usama bin Laden, Al-Qaida-samtökunum og talibönum.

-

Fylgiskjal 8: Reglugerð ráðsins (ESB) nr. 596/2013 frá 24. júní 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 881/2002 sem leggur á tilteknar, sérstakar, takmarkandi ráð­staf­anir sem beint er að tilteknum einstaklingum og aðilum sem tengjast Al-Qaida-samtökunum.

-

Fylgiskjal 9: Sameiginleg afstaða ráðsins 2001/931/SSUÖ frá 27. desember 2001 um beitingu sérstakra ráðstafana í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.

-

Fylgiskjal 10: Ákvörðun ráðsins 2014/72/SSUÖ frá 10. febrúar 2014 sem uppfærir og breytir listanum yfir aðila, hópa og rekstrareiningar sem ákvæði 2., 3. og 4. gr. sameiginlegrar afstöðu ráðsins 2001/931/SSUÖ um beitingu sérstakra ráðstafana í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi taka til og um niðurfellingu ákvörðunar 2013/395/SSUÖ.

-

Fylgiskjal 11: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 2580/2001 frá 27. desember 2001 um sér­stakar þvingunaraðgerðir sem er beint gegn tilteknum aðilum og rekstrar­einingum í því skyni að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi.

-

Fylgiskjal 12: Framkvæmdarreglugerð (ESB) nr. 125/2014 frá 10. febrúar 2014 um framkvæmd 3. mgr. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 2580/2001 um sérstakar þving­unar­aðgerðir sem er beint gegn tilteknum aðilum og rekstrareiningum í því skyni að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi og um niðurfellingu framkvæmdar­reglugerðar (ESB) nr. 714/2013.

-

Fylgiskjal 13: Sameiginleg afstaða ráðsins 2001/930/SSUÖ frá 27. desember 2001 um baráttuna gegn hryðjuverkum.



Viðaukar við framangreindar gerðir eru birtir á frummáli, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um fram­kvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.

Framangreindar gerðir binda einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir án frekari lögfestingar, eftir því sem við getur átt, þ.m.t. ákvæði um viðskiptabann, land­göngu­bann og frystingu fjármuna.

3. gr.

Aðlögun.

Gerðir skv. 2. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:

a)

ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofn­anir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", "ESB", "banda­lagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, ein­staklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á,

b)

ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda,

c)

tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á,

d)

tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005,

e)

tilvísanir í eldri ákvæði um þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins eiga við um eldri íslensk ákvæði, eftir því sem við á,

f)

vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld á Íslandi er: www.utn.is/thvingunaradgerdir.



4. gr.

Tilkynning.

Birting lista yfir aðila, sem nefndir eru í gerðum skv. 2. gr., skal skoðast sem tilkynning til þeirra um að þær þvingunaraðgerðir sem kveðið er á um í gerðunum beinist gegn þeim og er þeim bent á að þeir geti sótt um vissar undanþágur til utanríkisráðuneytisins eða óskað eftir afskráningu af listum, telji þeir sig ranglega skráða.

5. gr.

Frysting fjármuna.

Skylda til að frysta fjármuni og efnahagslegan auð samkvæmt reglugerð þessari á við um:

a)

aðila sem tilgreindur er í listum samkvæmt reglugerð þessari þegar kveðið er á um frystingarskyldu og

b)

aðila sem tilgreindur er á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 (2001), ef réttmætur grundvöllur eða réttmætar ástæður eru til að gruna eða ætla að viðkomandi aðili eða rekstrareining sé hryðjuverkamaður, einhver sem fjármagnar hryðjuverkastarfsemi eða hryðjuverkasamtök.



Áður en ákvörðun er tekin um frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs skv. b-lið 1. mgr. skal utanríkisráðherra eiga samráð við embætti ríkissaksóknara og peningaþvættis­skrifstofu embættis ríkislögreglustjóra. Frystingin fer þannig fram að nafn viðkomandi aðila er birt í reglugerð sem kveður nánar á um frystingarskylduna.

6. gr.

Fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Ákvæði reglugerðar þessarar sem varða fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, skulu ekki skerða réttindi þriðja aðila í góðri trú, sbr. 5. tl. 8. gr. alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi (1999).

7. gr.

Landgöngubann.

Aðilum, sem fjármagna, skipuleggja, stuðla að eða fremja hryðjuverk hérlendis eða erlendis og tilgreindir eru á listum samkvæmt reglugerð þessari, er óheimilt að dvelja hérlendis, koma til landsins eða hafa hér viðkomu, sbr. 2. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1373 (2001).

8. gr.

Undanþágur frá þvingunaraðgerðum.

Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum. Hann getur m.a. heimilað að efndir séu samn­ingar eða að fullnægt sé öðrum réttindum og skyldum sem fara í bága við reglugerð þessa en stofnuðust fyrir gildistöku hennar.

9. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.

10. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 4. og 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi:

a)

Reglugerð um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir varðandi hryðjuverkasamtök (Al-Qaida og talibana) nr. 154/2009, ásamt síðari breytingum, reglugerð nr. 328/2010 og 1. gr. reglugerðar nr. 544/2011.

b)

Reglugerð um alþjóðlegar öryggisaðgerðir varðandi hryðjuverkastarfsemi nr. 122/2009, ásamt síðari breytingu nr. 117/2013.



Utanríkisráðuneytinu, 15. apríl 2014.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Einar Gunnarsson.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica