Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

50/1984

Reglugerð um notkun hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra - Brottfallin

I. KAFLI

Verksvið.

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til plöntulyfja, örgresiefna, stýriefna og útrýmingarefna til nota í landbúnaði og til útrýmingar meindýra.

Plöntulyf eru hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til varnar gegn sjúkdómum eða skemmdum í lifandi plöntum eða plöntuhlutum af völdum sýkla (bakteríur, sveppir, veirur o. s. frv.), skordýra, lindýra eða annarra smádýra. Til plöntulyfja teljast þannig lyf gegn skordýrum (insecticid), sveppalyf (fungicid), mauralyf (acaricid) og lyf gegn lindýrum (molluscicid) o. s. frv.

Örgresiefni (herbicid, "illgresiseyðar") eru hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til þess að deyða plöntur, draga úr vexti þeirra eða hefta hann.

Stýriefni eru efni og efnasamsetningar, sem sérstaklega eru ætluð til þess að stýra vexti nytjaplantna eða hluta þeirra (hraða eða seinka vexti) eða til að draga úr öndun og spírun plantna eða plöntuhluta í geymslu.

Útrýmingarefni eru hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til þess að verja uppskorinn jarðargróður eða aðrar fæðutegundir skemmdum af völdum sýkla (bakteríur, sveppir, veirur o. s. frv.), skordýra, lindýra, nagdýra eða annarra dýra með heitt eða kalt blóð, er neyta uppskorins jarðargróðurs eða annarra fæðutegunda sér til lífs og tímgunar og meindýr teljast. Útrýmingarefni eru ennfremur efni og efnasamsetningar, sem notuð eru til þess að eyða hvers konar meindýrum á víðavangi, í híbýlum manna, peningshúsum, farartækjum, vöruskemmum o. s. frv. Til útrýmingarefna teljast einnig aflífunarefni, en það eru efni, sem sérstaklega eru ætluð til þess að aflífa húsdýr og nytjadýr.

Fara skal með efni þessi sem eiturefni eða hættuleg efni (sbr. 1. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni).

Átt er við framangreind efni, þegar að neðan er rætt um efni og efnasamsetningar án frekari skýrgreiningar.

Efni, sem notuð eru til þess að varna skemmdum í trjáviði svo sem málning og lakk, tjara, bik og fúavarnarefni eru ekki talin útrýmingarefni. Efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til þess að varna óþrifum (lýs, flær o. s. frv.) á húsdýrum og nytjadýrum skulu teljast útrýmingarefni, ef þau eru ekki talin í gildandi lyfjaskrá, sérlyfjaskrá og öðrum hliðstæðum heimildum, sbr. næstu málsgrein.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka ekki til lyfja (mannalyf, dýralyf), sem greind eru í lyfjaskrá, sérlyfjaskrá og öðrum hliðstæðum heimildarritum, enda þótt þau megi einnig nota sem plöntulyf, örgresiefni, stýriefni eða útrýmingarefni, ef þau eru látin úti samkvæmt ákvæðum gildandi lyfjalaga (sbr. reglugerð um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja).

Nú er vafamál, hvort ákvæði reglugerðar þessarar gilda um tiltekin efni eða efnasamsetningar, og sker heilbrigðismálaráðherra þá úr að fenginni umsögn eiturefnanefndar.

II. KAFLI

Framleiðsla, skráning og flokkun efna og efnasamsetninga.

2. gr.

Plöntulyf, örgresiefni, stýriefni og útrýmingarefni mega þeir einir framleiða, er til þess hafa leyfi ráðherra enda mæli Vinnueftirlit ríkisins og eiturefnanefnd með veitingu slíkra leyfa (sbr. 4. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni).

3. gr.

Plöntulyf, örgresiefni, stýriefni eða útrýmingarefni má því einungis flytja til landsins, selja eða nota, að þau hafi hlotið viðurkenningu ráðherra og verið skráð á lista yfir slík efni.

Framleiðandi eða umboðsmaður framleiðanda skal sækja til heilbrigðismálaráðuneytisins um viðurkenningu á þeim efnum, er hann hyggst selja eða flytja til landsins. Eiturefnanefnd gerir tillögur um gerð lista yfir slík efni (sbr. 1. málsgr.), er ráðherra gefur út. Tilgreina skal á listanum hættuflokk hvers efnis og efnasamsetningu (sbr. 1. málsgr. 4. gr.).

Umsækjandi greiðir umsóknargjald með hverri umsókn og síðan árgjald af hverju efni eða efnasamsetningu, er viðurkenningu hlýtur og skráð er á listum yfir slík efni. Fella má niður árgjöld, ef sérstakar ástæður mæla með.

Við mat á umsóknum skal eiturefnanefnd taka mið af notagildi hlutaðeigandi efna og efnasamsetninga við aðstæður hér á landi og leita um það álits ráðunauta Búnaðarfélags Íslands eða eftir atvikum annarra opinberra aðila. Nefndin skal gæta þess að mæla ekki með umsóknum, ef eiturhrif efna eða efnasamsetninga eru óhæfilega mikil miðað við notagildi þeirra. Nefndin getur kveðið á um uppskerufresti (tími frá notkun efna og þar til jarðargróður er skorinn upp) og gert tillögur um hámarksmagn í matvælum (sbr. einnig 15. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni).

Veita má leyfi til innflutnings á takmörkuðu magni efna, sem ekki hafa hlotið viðurkenningu og verið skráð, ef um tilraunastarfsemi er að ræða eða leysa þarf bráð vandræði. Skulu slíkum umsóknum fylgja meðmæli sérfræðinga Búnaðarfélags Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins eða annarra dómbærra manna, og skal ævinlega leita álits eiturefnanefndar.

Ráðherra getur, að fenginni umsögn eiturefnanefndar, fellt úr gildi viðurkenningu tiltekinna efna og efnasamsetninga, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi svo sem upplýsingar um áður óþekkt eiturhrif. Ráðherra skal þá með tilkynningu staðfesta, að efnið hafi verið tekið af listum yfir viðurkennd efni og efnasamsetningar.

4. gr.

Eiturefnanefnd skipar viðurkenndum og skráðum efnum og efnasamsetningum eftir eiturhrifum í 4 hættuflokka: X, A, B og C. Efni í hættuflokkum X og A eru talin eiturefni, en efni í hættuflokkum B og C hættuleg efni (sbr. 6. málsgr. 1. gr.), nema öðruvísi sé ákveðið.

Þeir einir mega kaupa og nota efni í hættuflokki X, er þörf hafa fyrir eiturefni í þeim hættuflokki við störf sín og til þess hafa fengið leyfi. Leyfi eru veitt til 1-3 ára í senn. Leyfi skal fyrst og fremst veita þeim, er hafa til að bera faglega menntun, er eiturefnanefnd metur gilda (próf frá búnaðarskóla, garðyrkjuskóla, skógræktarskóla o. s. frv.). Leyfi til að mega kaupa og nota efni í hættuflokki X gilda einnig um efni í hættuflokki A og skal þess getið á leyfisskírteini. Lögreglustjóri gefur út, að fengnu samþykki eiturefnanefndar, númerað leyfisskírteini (sbr. 9. gr. reglugerðar um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa), er leyfishafi skal ávallt bera á sér við störf sín.

Þeir einir mega kaupa og nota efni í hættuflokki A, er þörf hafa fyrir eiturefni í þeim hættuflokki við störf sín og til þess hafa fengið leyfi og gilda leyfi þessi ekki fyrir efni og efnasamsetningar í hættuflokki X. Leyfi eru veitt til 1-3 ára í senn (sbr. þó 6. málsgr.). Leyfi skal einungis veita þeim, er hafa til að bera þá menntun eða þekkingu, er eiturefnanefnd metur gilda, svo sem sótt viðurkennd námskeið (sbr. 8. málsgr.) Lögreglustjóri gefur út, að fengnu samþykki eiturefnanefndar, númerað leyfisskírteini (sbr. 9. gr. reglugerðar um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa), er leyfishafi skal ávallt bera á sér við störf sín.

Umsóknir um leyfi til þess að kaupa og nota efni í hættuflokkum X og A skal senda hlutaðeigandi lögreglustjóra er sendir þær eiturefnanefnd til umsagnar. Eftir því sem við á hverju sinni, leitar eiturefnanefnd álits um umsækjendur til sérfræðinga Búnaðarfélags Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Skógræktar ríkisins og heilbrigðisnefnda á hverjum stað. Eiturefnanefnd skal senda hlutaðeigandi yfirvaldi umsögn sína innan 2 mánaða.

Lögreglustjóra er heimilt, að fengnum meðmælum eiturefnanefndar, að veita einstaklingum, er ekki hafa gild leyfisskírteini til kaupa á efnum og efnasamsetningum í hættuflokki A leyfi til kaupa á takmörkuðu magni slíkra efna og efnasamsetninga, ef sérstakar ástæður mæla með. Gegn kaupaheimildum þessum má eigi láta úti oftar en einu sinni.

Þeir einir, er hafa leyfi til að kaupa og nota efni og efnasamsetningar í X hættuflokki (sbr. ákvæði 2. málsgr.) mega stunda úðun garða í einkaeign eða almenningseign með efnum og efnasamsetningum í X og A hættuflokkum, sbr. 2. mgr. Skulu þeir sækja um leyfi til þess til Hollustuverndar ríkisins. Hollustuvernd ríkisins leitar umsagnar eiturefnanefndar um umsækjendur, áður en leyfi eru veitt. Leyfi gilda lengst til 5 ára og er nefnd starfsemi óheimil án gildra leyfa. Við veitingu leyfa til garðaúðunar skal þess gætt, að tækjabúnaður og varúðarráðstafanir umsækjenda séu viðhlítandi og þeir séu hæfir til starfsins og hafi hæfu starfsliði á að skipa. Hollustuvernd ríkisins setur nánari reglur um veitingu leyfa þessara, ef þörf gerist.

Eiturefnanefnd eða Hollustuvernd ríkisins (sbr. 6. málsgr.) geta lagt fyrir hlutaðeigandi yfirvald, að numið verði úr gildi leyfi til þess að kaupa og nota efni í hættuflokkum X og A, ef gildar ástæður eru til þess að ætla, að leyfishafar brjóti svo af sér við störf sín, að hætta geti stafað af. Hlutaðeigandi yfirvald getur og, hvenær sem er, numið slíkt leyfi úr gildi, ef fyrrgreindar ástæður mæla með því. Heimilt er í þessum tilvikum að áfrýja til heilbrigðismálaráðherra.

Eiturefnanefnd getur sett að skilyrði fyrir veitingu leyfa til að mega nota efni í X og A hættuflokkum, að hlutaðeigendur hafi áður sótt námskeið til þess að öðlast sérþekkingu í meðferð þeirra efna, er þeir hyggjast fyrst og fremst nota við störf sín.

Sérstök leyfi þarf ekki til þess að kaupa og nota efni og efnasambönd í B og C hættuflokkum.

III. KAFLI

Innflutningur, sala og dreifing.

5. gr.

Innflutning efna og efnasamsetningar í X, A og B hættuflokkum mega þeir einir annast, er greindir eru í 1.-3. og 5. tölulið 1. málsgr. 5. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni. Innflytjendum er óheimilt að selja fyrrgreindan varning, nema þeir hafi til þess sérstakt leyfi heilbrigðismálaráðherra, enda mæli Lyfjaeftirlit ríkisins og eiturefnanefnd með veitingu slíkra leyfa (sbr. 5. tölulið 1. málsgr. laga um eiturefni og hættuleg efni). Lyfjaheildverslanir (sbr. 3. tölulið 1. málsgrein 5. gr. laga, um eiturefni og hættuleg efni) hafa slík leyfi sjálfkrafa, ef um er að ræða efni og efnasamsetningar, sem fyrirtæki þess hafa umboð fyrir. Lyfjabúðum er ennfremur heimilt án sérstaks leyfis að selja útrýmingarefni í B hættuflokki, sbr. einnig ákvæði 4. mgr.

Leyfi til þess að selja efni og efnasamsetningar í X, A og B hættuflokkum eru bundin við:

a) að leyfishafi hafi í fullri dagvinnu ekki færri en einn mann, er hefur sérstaka vöruþekkingu á umræddum efnum, enda skal sá maður (menn) hafa umsjón með sölunni;

b) að efnin séu varðveitt í sérstakri geymslustúku eða herbergi þar sem enginn annar varningur er geymdur;

c) að gólf og veggir geymslustúkunnar séu úr vatnsþéttu efni og þannig aðskilin frá nærliggjandi herbergjum, að þau mengist ekki;

d) að loftræsting sé fullnægjandi að dómi Lyfjaeftirlits ríkisins;

e) að læsa megi geymslustúkunni sérstaklega.

Leyfi til þess að selja efni og efnasamsetningar í hættuflokkum X, A og B gilda til 5 ára í senn. Veita má þó bráðabirgðaleyfi til eins árs, ef gera þarf úrbætur á söluhúsnæði. Nema skal slíkt leyfi úr gildi, ef misbrestur er á, að framangreindum skilyrðum sé fullnægt eða aðrar gildar ástæður mæla með því. Lyfjaeftirlit ríkisins annast eftirlit með sölubúðum leyfishafa í samvinnu við heilbrigðisnefndir á hverjum stað, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 455/ 1975.

Ráðherra getur að fenginni umsögn landlæknis og eiturefnanefndar veitt lyfsölum leyfi til þess að versla með efni og efnasamsetningar í hættuflokkum X, A og B, enda mæli sérstakar ástæður með veitingu slíkra leyfa, t. d. mikil fjarlægð frá viðurkenndri sölubúð. Leyfi þessi gilda til S ára í senn. Þau má takmarka við sölu á tilteknum efnum í X eða A hættuflokkum eða við sölu á efnum og efnasamsetningum í B hættuflokki eingöngu. Ákvæði b- og c-stafliða 2. málsgr. eiga ekki við um lyfjabúðir, sem hafa fengið slík söluleyfi, sbr. og f-staflið 17. gr. reglugerðar um búnað og rekstur lyfjabúða nr. 151/1968.

Flutningsaðili (skipafélög, flugfélög) er ábyrgur fyrir því, að efni og efnasamsetningar valdi hvorki tjóni á mönnum né vörum í vöruskemmum, uns innflytjandi (sbr. 1. málsgr.) sækir varninginn. Ef varningurinn er ekki fluttur úr vöruskemmu beint í geymslustúku seljanda (sbr. 1. og 2. málsgr.), skal innflytjandi geyma hann sérstaklega og þannig, að mönnum eða húsdýrum stafi ekki hætta af. Innflytjandi er bótaskyldur, ef út af þessu er brugðið.

Seljendum ber að varast svo sem frekast er auðið að rjúfa ílát um efni og efnasamsetningar í öllum hættuflokkum með það fyrir augum að vega efnin sundur, blanda eða þynna og umpakka eða umhella í ný, söluhæf ílát (sbr. 2. málsgr. 5. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni). Ef seljandi óskar að rjúfa ílát um varning þennan í fyrrnefndu skyni, skal hann fá til þess samþykki Lyfjaeftirlits ríkisins og láta skrá söluvarninginn, sbr. ákvæði 3. gr. Nú rýfur seljandi slíkar umbúðir með þeim afleiðingum, að tjón hlýst af á mönnum eða dýrum eða matvæli og fóðurvörur mengast af efnunum, og er hann þá ábyrgur fyrir tjóni og bótaskyldur.

Meindýraeyðum, er starfa í opinberri þjónustu (á vegum heilbrigðisnefnda eða hliðstæðra stofnana), er heimilt að rjúfa ílát undir útrýmingarefni, vega þau sundur, blanda eða þynna og umpakka eða umhella í ný ílát til eigin nota eða til endursölu öðrum meindýraeyðum í opinberri þjónustu, enda komi til leyfi eiturefnanefndar og Vinnueftirlits ríkisins (sbr. 4. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni). Um ílát undir efni þessi og efnasamsetningar og merkingar þeirra skulu gilda sömu ákvæði og ella gilda um efni og efnasamsetningar í X, A, B eða C hættuflokkum (eftir því sem við á). Skulu meindýraeyðar, er slík leyfi fá, eða heilbrigðisnefndir í þeirra stað senda eiturefnanefnd skýrslu um framleiðslustarfsemi þessa í lok hvers árs.

Í flutningum innanlands skulu vera viðeigandi flokksmerki og varnaðarmerki á ystu umbúðum (sbr. 7. gr.). Heilbrigðismálaráðherra getur, ef þörf gerist, sett nánari reglur um flutning efna og efnasamsetninga í öllum hættuflokkum (sbr. 18. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni).

IV. KAFLI

Afgreiðsla og afhending.

6. gr.

Seljendum efna og efnasamsetninga í X, A og B hættuflokkum er skylt að færa í þar til gerða sölubók, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið leggur til, í réttri tímaröð, alla sölu slíkra efna. Í bókinni skal tilgreina dagsetningu, heiti efnis eða efnasamsetningar, stærð söluíláta, fjölda söluíláta og selt magn. Ef um er að ræða efni og efnasamsetningar í X eða A hættuflokki, skal jafnframt geta nafns kaupanda, heimilisfangs og nafnnúmers. Afrit bókarinnar skal senda eiturefnanefnd við lok hvers árs til yfirlits. Sömu skyldur hvíla á lyfsölum, er leyfi hafa til sölu á efnum og efnasamsetningum í fyrrgreindum hættuflokkum (sbr. 4. málsgr. 5. gr.). Seljendur skulu ennfremur halda eftir og senda eiturefnanefnd við lok hvers árs leyfi til kaupa á efnum í hættuflokki A, er einungis má láta úti gegn einu sinni (sbr. 5. málsgr. 4. gr.). Lyfjaeftirlit ríkisins skal í lok hvers árs tilkynna eiturefnanefnd um innflutning efna og efnasamsetningar í X, A, B og C hættuflokkum (sbr. 2. málsgr. 4. gr. reglugerðar nr. 455/1975).

Seljandi má eigi afhenda efni og efnasamsetningar í X hættuflokki öðrum en þeim, er nota skal efnin (sbr. 2. málsgr. 4. gr.). Seljanda er þó heimilt, ef sérstaklega stendur á, að afhenda öðrum umræddan varning fyrir hönd notanda (kaupanda) enda hafi notandi með símtali eða á annan viðhlítandi hátt tilkynnt, að varninginn skuli afhenda þeim, er hann tilgreinir. Sá, er veita má varningnum viðtöku fyrir hönd notanda, skal vera 18 ára eða eldri (sbr. 4. málsgr.). Hann skal með skilríkjum sanna seljanda, hver hann er, nema hann sé seljanda svo kunnur, að slíks gerist ekki þörf.

Notandi ber jafnframt ábyrgð á varningnum, hvort sem hann hefur verið afhentur sjálfum honum eða öðrum, er hann hefur tilnefnt í sinn stað.

Efni og efnasambönd í A hættuflokki skal afhenda notanda eða þeim, er hann tilnefnir í sinn stað, enda skal hann vera 18 ára eða eldri. Seljanda er þó heimilt, ef sérstaklega stendur á og önnur ákvæði mæla ekki gegn, að senda kaupanda efni og efnasambönd í A hættuflokki í pósti, enda skal þá gætt fyrirmæla um ílát, umbúðir og merkingu þeirra (sbr. 7. gr.).

Efni og efnasamsetningar í X og A hættuflokkum má einungis selja eða afhenda þeim, sem eru 18 ára eða eldri. Eigi má afhenda efni og efnasamsetningar í þessum hættuflokkum, ef ástæða er til að ætla, að hlutaðeigandi kunni að fara sjálfum sér að voða eða gæti unnið öðrum tjón með efnunum sökum geðveiki, ölvunar, vanþroska, vanstillingar eða fákunnáttu o. s. frv. (sbr. 7. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni).

V. KAFLI

Ílát, umbúðir og merking þeirra.

7. gr.

Ílát (söluílát) og umbúðir skulu vera svo tryggar sem frekast er auðið. Efni og efnasamsetningar má ekki selja eða flytja innanlands í annars konar ílátum en þeim, sem eiturefnanefnd hefur samþykkt (sbr. 3. gr. , sbr. einnig 6. og 7. málsgr. 5. gr. ).

Á ílátum skal standa:

a. heiti efnis eða efnasamsetningar,

b. magn (g, kg, ml, l),

c. heiti virkra efna og styrkt (hundraðshluti),

d. styrkt hjálparefna (fylliefni o. s. frv.) og heiti þeirra og nánari skilgreining, ef þörf gerist,

e. nafn og heimili framleiðanda,

f. nafn og heimili umboðsmanns eða innflytjanda, g. fyrningartími, ef einhver er,

g. helstu notkunarreglur,

h. uppskerufrestur, ef einhver er,

i. helstu varúðarreglur,

j. ábendingar um, hvað gera skal, ef slys ber að höndum.

Framangreindar upplýsingar skulu ætíð vera á íslensku, ef um er að ræða efni og efnasameiningar í B og C hættuflokkum. Ef um er að ræða efni og efnasamsetningar í X og A hættuflokkum, getur eiturefnanefnd leyft, að fyrrnefndar upplýsingar séu á öðru máli en íslensku.

Á söluílátum og umbúðum (þar með taldar ystu umbúðir) skulu alltaf vera flokksmerki (hættuflokkur) og varnaðarmerki (merkimiðar) á íslensku svo sem að neðan greinir. Flokksmerki og varnaðarmerki skulu vera með prentuðu letri. Á varnaðarmerkjum skal vera rautt letur á hvítum eða ljósum grunni.

Flokksmerki X flokks er hvít eða ljós hauskúpa á svörtum grunni, og skulu orðin sterkt eitur letruð stórum, hvítum eða ljósum stöfum á grunninn fyrir neðan hauskúpuna. Á varnaðarmerki (sbr. 4. málsgr.) á ílát og umbúðir um efni og efnasamsetningar í X flokki skal letra með stórum stöfum: Hættuflokkur X. Má ekki flytja eða geyma innan um aðrar vörur: Varist að snerta umbúðir (ílátin), ef þær eru brotnar eða mengaðar af innihaldinu.

Flokksmerki A flokks er hvít eða ljós hauskúpa (sams konar og X flokks) á svörtum grunni, og skal orðið Eitur letrað með stórum, hvítum eða ljósum stöfum á grunninn fyrir neðan hauskúpuna. Á varnaðarmerki (sbr. 4. málsgr.) á ílát og umbúðir um efni og efnasamsetningar í A flokki skal letra með stórum stöfum: Hættuflokkur A. Má ekki flytja eða geyma innan um mat og fóðurvörur.

Flokksmerki B flokks eru orðin: Varúð - Hættulegt, sem letruð eru stórum, hvítum eða ljósum stöfum á svartan grunn. Á varnaðarmerki (sbr. 4. málsgr.) á ílát og umbúðir um efni og efnasamsetningar í B flokki skal letra stórum stöfum: Hættuflokkur B. Varist að flytja eða geyma innan um mat og fóðurvörur.

Flokksmerki C flokks er: Varúð, letrað stórum, hvítum eða ljósum stöfum á svartan grunn. Sérstakt varnaðarmerki er ekki fyrir efni og efnasamsetningar í C flokki.

Flokksmerki og varnaðarmerki skulu vera mismunandi stór eftir stærð íláta og umbúða.

Kveða má nánar á með auglýsingu, hvert hlutfall skuli vera milli stærðar flokksmerkja og varnaðarmerkja og stærðar söluíláta og umbúða.

Í viðauka við reglugerð þessa eru sýndar fyrirmyndir af flokksmerkjum og varnaðarmerkjum, er að framan greinir.

Nú eru efni og efnasamsetningar sérstaklega hættulegar einni eða fleiri dýrategundum (t. d. fiskum eða fuglum), og skulu þá ílát og umbúðir sérstaklega merktar með tilliti til þess, t. d. Hættulegt fiskum. Vara skal við hvimleiðum eða sérstökum eiginleikum efna, ef þörf gerist.

VI. KAFLI

Geymsla efna og förgun tæmdra íláta.

8. gr.

Skylt er öllum þeim, er kaupa mega og nota efni og efnasamsetningar í X og A hættuflokkum, að geyma efnin í læstum skáp eða læstu hólfi í geymsluherbergi, og skal geymslustaður vera greinilega auðkenndur með viðeigandi varnaðarorðum ("varúð", "eitur" o. s. frv.). Vanræksla í þessu efni varðar missi réttinda til þess að mega kaupa og nota efni og efnasamsetningar í hættuflokkum X og A. Skulu heilbrigðisnefndir, hver á sínum stað, hafa eftirlit með geymslum leyfishafa, enda tilkynni eiturefnanefnd hlutaðeigandi heilbrigðisnefndum um nöfn og heimilisfang leyfishafa.

Efni og efnasamsetningar í hættuflokkum B og C skal varðveita fjarri mat og fóðurvöru og þannig, að börn ná ekki til.

Tæmd ílát, önnur en úðabrúsa, skal brenna við mikinn hita, ef þess er nokkur kostur og grafa öskuna í jörð. Ella skal grafa tæmd ílát (götuð, beygluð eða brotin) í jörð (minnst 1/2 m niður) fjarri vötnum eða vatnsbólum eða endursenda þau vel lukt og vel merkt, ef svo er um samið. Bannað er að nota tæmd ílát á ný. Leyfilegt er að farga litlu magni úðavökva með því að dreifa honum á jarðveg á víðavangi og einnig má farga litlu magni efna og efnasamsetningar með því að grafa í jörð (minnst l/2 m niður). Til þessa skal velja staði, sem fjarri eru híbýlum manna, vatni og vatnsbólum og utan ræktaðs lands og beitilands.

Eigi má farga meiri háttar birgðum efna og efnasamsetninga nema með samþykki hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar eða samkvæmt reglum, sem Hollustuvernd ríkisins setur (sbr. 19. og 20. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni).

9. gr.

Um viðurlög við brotum á ákvæðum þessum fer samkvæmt 22. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 14. gr. laga um eiturefni og hættuleg efni og öðlast gildi 1. mars 1984. Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 132/1971 svo og reglugerð nr. 419/ 1976, 106/1977, 259/1981 og 633/1981 um breytingar á þeirri reglugerð.

Ákvæði til bráðabirgða.

Leyfisskírteini, sem gefin hafa verið út samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 132/1971, til þess að mega kaupa og nota efni og efnasamsetningar í X og A hættuflokkum halda gildi sínu, svo sem gildistími þeirra segir til um, enda þótt fyrrnefnd reglugerð hafi verið felld niður.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 23. janúar 1984.

Matthías Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica