Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

350/2014

Reglugerð um meðferð varnarefna og notendaleyfi. - Brottfallin

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er annars vegar að tryggja örugga meðferð og notkun á varnarefnum þannig að þau hafi ekki í för með sér hættu gagnvart heilsu manna og dýra eða umhverfinu og hins vegar að tryggja að þeir sem koma að markaðssetningu, með­ferð og notkun varnarefna hafi aflað sér nægilegrar þekkingar á öruggri meðferð og notkun efnanna.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um meðferð á plöntuverndarvörum og útrýmingarefnum. Þá gildir reglugerðin um notendaleyfi, meindýraeyðingu og úðun garða í atvinnuskyni.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka ekki til lyfja, sem greind eru í lyfjaskrá og sér­lyfja­skrá.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Ábyrgðaraðili: Nafngreindur ábyrgðaraðili sem tilnefndur er af þeim sem býður varnar­efni fram á markaði til að hafa umsjón með markaðssetningu þeirra.

Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem býður varnarefni fram á markaði, þ.m.t. heildsalar, smásalar, sölumenn og birgjar.

Illgresiseyðir: Hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til þess að deyða plöntur, draga úr vexti þeirra eða hefta hann.

Markaðssetning: Innflutningur, dreifing og sala varnarefna. Innflutningur inn á tollsvæði Evrópska efnahagssvæðisins (EES) telst markaðssetning.

Meðferð: Hvers konar meðhöndlun, svo sem notkun, framleiðsla, vigtun, blöndun, áfyll­ing, flutningur, geymsla og förgun.

Meindýr: Rottur og mýs annars vegar og skordýr og aðrir hryggleysingjar hins vegar, sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við hýbýli manna, í gripahúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv.

Notendaleyfi: Leyfi sem veitir nafngreindum einstaklingi heimild til að kaupa og nota í atvinnuskyni varnarefni í landbúnaði og garðyrkju eða til útrýmingar dýra.

Plöntulyf: Hvers konar efni og efnasamsetningar, sem ætluð eru til varnar gegn sjúk­dómum eða skemmdum í lifandi plöntum eða plöntuhlutum af völdum sýkla (bakteríur, sveppir, veirur o.s.frv.), skordýra, lindýra eða annarra smádýra. Til plöntu­lyfja teljast þannig t.d. skordýraeyðar (e. insecticide), sveppaeyðar (e. fungicide), mítla­eyðar (e. acaricide) og lindýraeyðar (e. molluscicide).

Plöntuverndarvara: Plöntuvarnarefni, sem inniheldur eitt eða fleiri virk efni eða örverur, aðrar lífverur eða hluta þeirra, sem notað er til þess að hefta vöxt, varna sýkingum eða skemmdum í gróðri af völdum hvers kyns lífvera eða til þess að stýra vexti plantna, svo sem plöntulyf, illgresiseyðar og stýriefni.

Notkun í atvinnuskyni: Notkun varnarefna við atvinnustarfsemi hvort sem er í landbúnaði, garðyrkju eða við útrýmingu dýra

Stýriefni: Efni og efnasamsetningar, sem sérstaklega eru ætluð til þess að stýra vexti nytjaplantna eða hluta þeirra (hraða eða seinka vexti) eða til að draga úr öndun og spírun plantna eða plöntuhluta í geymslu.

Sæfivara (sæfiefni):

sérhvert efni eða blanda, í því formi sem efnið eða blandan er afhent notendum, sem samanstendur af, inniheldur eða myndar eitt eða fleiri virk efni og er ætlað að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá, gera þær skaðlausar, koma í veg fyrir áhrif þeirra eða verjast þeim með öðrum hætti en eingöngu efnislegum eða vélrænum aðferðum,
sérhvert efni eða blanda sem myndast úr efnum eða blöndum sem sjálf falla ekki undir fyrsta undirlið og er ætlað að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá, gera þær skaðlausar, koma í veg fyrir áhrif þeirra eða verjast þeim með öðrum hætti en eingöngu efnislegum eða vélrænum aðferðum.

Umhverfi: Dýr, plöntur og örverur, jarðvegur, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar, menn­ingar­minjar og efnisleg verðmæti.

Úðun garða: Notkun á hvers kyns plöntuverndarvöru svo sem plöntulyfi, illgresiseyði eða stýriefni í atvinnuskyni við úðun garða og útivistarsvæða í einkaeign eða almenningseign, til þess að hefta vöxt, varna sýkingum eða skemmdum í gróðri af völdum hvers kyns lífvera eða til þess að stýra vexti plantna, svo sem plöntulyf, illgresiseyðar og stýriefni.

Útrýmingarefni: Sæfivörur sem falla undir eftirfarandi vöruflokka: nagdýraeitur, fugla­sæfa, lindýraeitur, ormaeitur og vörur til að verjast öðrum hryggleysingjum, fiski­sæfa, skordýraeitur, mítlasæfa og vörur til að verjast öðrum liðdýrum, fæliefni og löð­unar­efni og vörn gegn öðrum hryggdýrum.

Varnarefni: Samheiti fyrir sæfivörur og plöntuverndarvörur.

Viðurkenndur fræðsluaðili: Aðili sem hlotið hefur viðurkenningu mennta- og menn­ingar­mála­ráðherra, eða aðila sem hann felur það verkefni, á grundvelli laga um fram­halds­fræðslu og reglna settra samkvæmt þeim, enda miði starfið sem viður­kenn­ingin nær til að því að uppfylla markmið 2. gr. laga um framhaldsfræðslu.

II. KAFLI

Kaup og móttaka varnarefna, notendaleyfi, ábyrgðaraðilar
fyrir markaðssetningu varnarefna, nám, námsefni og próf.

4. gr.

Almenn ákvæði.

Ávallt skalt gæta varúðar við meðferð varnarefna þannig að ekki valdi tjóni á heilsu eða umhverfi utan þess sem verið er að meðhöndla og skal leitast við að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.

Sé þess kostur skal skipta út varnarefnum, sem eru talin geta haft í för með sér óæskileg áhrif á heilsu manna eða skaðað umhverfið utan þess sem verið er að meðhöndla, fyrir hættuminni varnarefni.

5. gr.

Afhending, kaup og móttaka varnarefna.

Dreifingaraðilar sem selja varnarefni til almennra nota bera ábyrgð á að veita almennar upplýsingar varðandi áhættuna af notkun varnarefna fyrir heilbrigði manna og umhverfið, einkum um hættur, váhrif, rétta geymslu, meðhöndlun, dreifingu og örugga förgun í sam­ræmi við gildandi löggjöf um úrgang, auk áhættuminni valkosta. Handhöfum mark­aðs­leyfa fyrir varnarefni er skylt að veita slíkar upplýsingar sé eftir því leitað.

Til að taka við, kaupa og nota varnarefni sem ætluð eru til notkunar í atvinnuskyni við útrýmingu dýra eða í landbúnaði og garðyrkju þurfa einstaklingar að vera 18 ára eða eldri og framvísa gildu notendaleyfi Umhverfisstofnunar. Kaupandi og viðtakandi skulu fram­vísa skilríkjum og kvitta fyrir móttöku.

Ekki má afhenda varnarefni ef ástæða er til þess að ætla að viðkomandi kynni að fara sjálfum sér að voða eða gæti unnið öðrum tjón með efnunum sökum geðveiki, neyslu vímugjafa, vanþroska, vanstillingar, fákunnáttu o.s.frv.

Varnarefnum sem eingöngu eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að þau séu ekki aðgengileg viðskiptavinum, heldur skulu þau afhent sér­stak­lega.

Birgjar skulu láta öryggisblöð fylgja við afhendingu varnarefna til notkunar í atvinnu­skyni, sbr. 30. gr. efnalaga nr. 61/2013.

6. gr.

Notendaleyfi.

Einstaklingar sem nota varnarefni í atvinnuskyni vegna starfa sinna við eyðingu dýra, í landbúnaði eða í garðyrkju, skulu sækja um notendaleyfi til Umhverfisstofnunar. Þeir sem nota sæfivörur til útrýmingar dýra skulu hafa notendaleyfi fyrir útrýmingarefni og þeir sem nota plöntuverndarvörur í landbúnaði og garðyrkju skulu hafa notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörur.

Skilyrði fyrir veitingu notendaleyfis eru eftirfarandi:

 

a)

Umsækjandi skal hafa lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð varnarefna, þ.e. plöntuverndarvara og sæfivara, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans.

 

b)

Umsækjandi skal hafa yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um notendaleyfi fyrir.

 

c)

Umsækjandi skal vera eldri en 18 ára.



Notendaleyfi skulu gefin út til tiltekins tíma og gilda að hámarki í fimm ár. Heimilt er að endurnýja leyfi til allt að fimm ára í senn að undangenginni skoðun Vinnueftirlits ríkisins á aðstöðu og búnaði umsækjanda.

Notendaleyfi skal gefið út á einstakling og í því skal tilgreina notkunarsvið. Leyfisskírteini eru gefin út af Umhverfisstofnun með mynd af leyfishafa og skal hann ávallt hafa leyfis­skírteinið meðferðis við störf sín sem og við alla meðferð og kaup á þeim vörum sem leyfið nær til.

Skilyrði fyrir endurnýjun notendaleyfis er auk skilyrða í 1. mgr., að umsækjandi hafi sótt sér viðeigandi endurmenntun í a.m.k. einn dag hjá viðurkenndum fræðsluaðila á því tíma­bili sem liðið er frá síðustu útgáfu notendaleyfis.

Umhverfisstofnun birtir á vefsetri sínu skrá yfir þá aðila sem hafa notendaleyfi.

7. gr.

Úttekt á búnaði.

Búnaður sem er notaður við beitingu varnarefna skal háður reglulegu eftirliti Vinnueftirlits ríkisins og uppfylla öryggiskröfur. Standist búnaður ekki skoðun er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að banna notkun hans.

8. gr.

Ábyrgðaraðilar.

Dreifingaraðili sem markaðssetur varnarefni til notkunar í atvinnuskyni skal tilgreina nafngreindan ábyrgðaraðila til tryggja að nægjanleg fagþekking sé innan fyrirtækisins. Slíkur einstaklingur skal vera til taks þegar sala fer fram til að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar að því er varðar notkun varnarefna, áhættu fyrir heilbrigði og umhverfið og öryggisblöð til að hafa stjórn á þeirri áhættu hvað viðvíkur efnunum sem um er að ræða.

Nafngreindur ábyrgðaraðili á vegum þess sem um getur í 1. mgr. skal hafa lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð á eiturefnum og varnarefnum, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Viðkomandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Láti viðkomandi ábyrgðaraðili af störfum hjá hlutaðeigandi verslun eða birgi skal tilkynna til Umhverfisstofnunar um nýjan ábyrgðaraðila sem uppfyllir ákvæði 1. og 2. málsl.

9. gr.

Námsefni um meðferð og notkun varnarefna.

Þeir sem nota varnarefni í atvinnuskyni til eyðingar meindýra eða í landbúnaði og garð­yrkju, sem og ábyrgðaraðilar í markaðssetningu skulu hafa lokið viðeigandi námi hjá viður­kenndum fræðsluaðila. Í því skal felast bæði grunn- og viðbótarþjálfun til að öðlast þekk­ingu og auka við hana, eins og við á. Námskrá námsins skal innihalda þá námsþætti sem fram koma í I., II. og III. viðauka og hafa hlotið vottun mennta- og menn­ingar­mála­ráðherra í samræmi við gæðaviðmið um gerð og uppbyggingu námskráa í fram­halds­fræðslu.

10. gr.

Viðurkenning á námi, námskeið og prófum.

Einstaklingur sem hefur aflað sér sambærilegra réttinda til notkunar og markaðssetningar á varnarefnum í öðru EES-ríki eða öðru ríki sem Ísland hefur samið sérstaklega við þar um, getur fengið þau viðurkennd af Umhverfisstofnun ef þau uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar. Slíkur einstaklingur skal sækja um viðurkenningu á réttindum sínum til Umhverfisstofnunar áður en hann hefur starfsemi hér á landi. Með umsókn skulu fylgja gögn sem staðfesta ríkisfang umsækjanda og staðfest afrit af prófskírteinum á Norður­landa­máli (öðru en finnsku) eða ensku.

III. KAFLI

Meindýraeyðing í atvinnuskyni.

11. gr.

Um meindýraeyðingu.

Sá einn má starfa við meindýraeyðingu í atvinnuskyni sem er handhafi gilds notenda­leyfis fyrir útrýmingarefni. Aðilar sem starfa við meindýraeyðingu skulu hafa gilt starfs­leyfi gefið út af heilbrigðisnefnd skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unar­varnir.

Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. er aðila sem er handhafi notendaleyfis heimilt að starfa við meindýraeyðingu í fyrirtæki sem hefur gilt starfsleyfi þar sem hann er ráðinn sem fastur starfsmaður.

12. gr.

Framkvæmd meindýraeyðingar.

Áður en hafist er handa um útrýmingu meindýra, skal meindýraeyðir kynna sér aðstæður og meta hvort þörf sé á notkun útrýmingarefna eða hvort hægt sé að beita aðgerðum sem ekki byggjast á notkun efna. Ef vafi leikur á hvers kyns meindýr um er að ræða skal leitast við að fá álit viðeigandi sérfræðinga.

Við eyðingu meindýra skal leitast við að nota ekki mikilvirkara efni en þörf krefur. Meindýraeyðum ber að gæta ítrustu varúðar við störf sín og tryggja að útrýmingarefni valdi hvorki tjóni á mönnum, dýrum, öðrum en meindýrum, né berist í matvæli og fóður. Meindýraeyðum ber að fylgja notkunarleiðbeiningum sem fram koma á ílátum útrým­ingar­efna eða kunna að fylgja efninu á annan hátt.

Þar sem meindýraeyðing fer fram skulu settir upp varnaðarmiðar á áberandi stað. Miðarnir skulu festir vandlega og letur þeirra skal vera þess eðlis, að lesmálið sé greinilegt á meðan að fyrirmæli sem þar koma fram gilda. Eftirfarandi skal koma fram á varnaðarmiðum:

  1. Yfirskrift með stóru letri, er segir "Varúð - Meindýraeyðing".
  2. Heiti sæfivörunnar sem notuð er og heiti virkra efna sem hún inniheldur.
  3. Nafn, heimilisfang og sími þess aðila er framkvæmir meindýraeyðinguna.

13. gr.

Skýrsla um útrýmingu meindýra.

Sé meindýraeyðir að vinna við útrýmingu á rottum eða veggjalús ber honum, að útrým­ingu lokinni, að gera skýrslu um verkið og senda til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Þar skal koma fram hver er verkbeiðandi, um hvaða meindýr var að ræða, hver fram­kvæmdi verkið og hvenær, hvaða varnarefni voru notuð til verksins og varúðar­ráðstaf­anir sem gripið var til í því skyni að vernda heilsu manna og dýra, annarra en meindýra, eða umhverfið. Skýrslu skal skila innan þriggja virkra daga ef um er að ræða útrýmingu á veggjalús en innan mánaðar ef um er að ræða útrým­ingu á rottum.

IV. KAFLI

Úðun garða í atvinnuskyni.

14. gr.

Um garðaúðun.

Sá einn má starfa í atvinnuskyni við úðun garða og útivistarsvæða í einkaeign eða almenn­ings­eign, sem er handhafi gilds notendaleyfis fyrir plöntuverndarvörur. Aðilar sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni skulu hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Við úðun garða og útivistarsvæða í einkaeign eða almenningseign er ekki heimilt að nota plöntuverndarvörur sem hafa lengri uppskerufrest en 14 daga.

15. gr.

Tækjabúnaður.

Einungis er heimilt að nota tækjabúnað við úðun garða sem hefur verið skoðaður af Vinnu­eftirliti ríkisins. Handúðadælur og úðadælur sem bornar eru á baki eru þó undan­þegnar ofangreindri skoðun.

16. gr.

Varnaðarmiðar.

Áður en garðaúðun hefst skulu settir upp varnaðarmiðar á áberandi stað við alla inn­ganga að því svæði er úða skal. Miðarnir skulu festir vandlega og letur þeirra skal vera þess eðlis að regn eyðileggi ekki lesmál þeirra á meðan að fyrirmæli sem þar koma fram gilda. Eftirfarandi skal koma fram á varnaðarmiðum:

  1. Yfirskrift með stóru letri, er segir "Varúð - Garðaúðun".
  2. Heiti plöntuverndarvörunnar sem notuð er og heiti virkra efna sem hún inni­heldur.
  3. Hversu lengi garðurinn skuli lokaður allri annarri umferð en bráðnauðsynlegri.
  4. Tímasetning og dagsetning úðunar.
  5. Setningin: "Ekki skal neyta matjurta sem úði hefur borist á fyrr en að lágmarki dögum eftir garðaúðun". * Hér skal tilgreina uppskerufrest þann sem gefinn er upp á umbúðum plöntuverndarvörunnar.
  6. Nafn, heimilisfang og sími þess aðila, er framkvæmir úðunina. Stærð varnaðar­miðans skal vera minnst 14,8 x 10,5 sm. (A6), hvítur eða ljós grunnur með rauðum bókstöfum. Stærð bókstafa skal vera þannig að auðvelt sé að lesa það sem á miðanum stendur.

17. gr.

Framkvæmd garðaúðunar.

Áður en garðaúðun er framkvæmd skal leyfishafi meta þörfina fyrir úðun. Telji hann ekki þörf á úðun eða einungis þörf á úðun einstakra plantna eða á einstökum svæðum, ber honum að upplýsa garðeiganda um það. Ef vafi leikur á um hvers kyns skaðvald er að ræða skal leitast við að fá álit viðeigandi sérfræðinga.

Áður en úðun hefst skal meta hættuna á því hvort úðinn berist annað en honum er ætlað. Tilkynna skal umráðendum aðliggjandi lóða við úðunarstað fyrirfram um fyrirhugaða úðun. Við framkvæmd garðaúðunar skal leitast við að gluggar séu lokaðir, þvottur sé ekki á snúrum og lausir hlutir séu þar sem ekki er hætta að úði berist á þá. Taka skal tillit til nágrannagarða og umferðar fólks um gangstéttir. Leitast skal við að framkvæma úðun þegar veður er nægilega kyrrt til þess að tryggt sé að sem minnstur úði berist út fyrir svæðið sem meðhöndla á, svo sem á matjurtir eða leiktæki barna.

Um blöndun úðunarefnisins skal fara eftir þeim fyrirmælum sem fram koma á leið­bein­ingum umbúða. Óheimilt er að nota sterkari blöndu en þar er mælt fyrir um. Gæta skal þess að blanda ekki meira magn af úðunarefni en þörf er á. Sjá skal til þess að engir óviðkomandi komist í námunda við úðunarbúnaðinn og garðinn meðan á úðun stendur. Að úðun lokinni skal ganga tryggilega frá tækjum og úðunarefnum. Skulu þau geymd í læstu geymsluhúsnæði þegar þau eru ekki í notkun. Ef ekki er unnt að geyma tækja­bún­aðinn innandyra skal ganga þannig frá honum að óviðkomandi geti ekki komist í snertingu við úðunarefni.

V. KAFLI

Um meðferð, varðveislu, flutning, förgun og skráningu á notkun varnarefna.

18. gr.

Hlífðarbúnaður.

Um klæðnað sem notaður er við blöndun, úðun og útlagningu varnarefna í atvinnuskyni, sem og skolun tækja, fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, holl­ustu­hætti og öryggi á vinnustöðum, nánari fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins og öryggis­blöðum eða merkingum fyrir vöruna.

19. gr.

Varðveisla varnarefna.

Varnarefni skal varðveita í umbúðum framleiðenda.

Varnarefni til almennra nota skulu geymd á tryggan hátt og þannig að þau séu aðskilin frá matvælum, dýrafóðri, lyfjum og snyrtivörum og þannig að óviðkomandi nái ekki til þeirra.

Varnarefni sem ætluð eru til notkunar í atvinnuskyni skulu geymd í læstum hirslum eða rými sem skulu greinilega auðkennd með viðeigandi varnaðarorðum eins og "Varúð", "Eitur". Eftir atvikum skal aðgreina efni og efnablöndur í rýmum vegna mögulegrar hættu við blöndun þeirra.

Um varðveislu varnarefna á vinnustöðum og framkvæmd vinnu gilda ennfremur ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Jafnframt gilda ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar um gerð og umbúnað mannvirkja þar sem efni eru geymd.

20. gr.

Flutningur varnarefna.

Um flutning á varnarefnum með skipum og loftförum, svo og í pósti, fer samkvæmt lögum þeim og reglugerðum er við eiga, svo sem reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

21. gr.

Förgun umbúða og losun varnarefna.

Bannað er að endurnota tómar umbúðir varnarefna. Skola skal tómar umbúðir og skol­vatnið notað til þynningar í úðunarblöndu. Tómum umbúðum, óþynntum og þynntum úð­unar­efnum skal fargað í samræmi við upplýsingar á umbúðum, á uppfærðum öryggis­blöðum, og í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Bannað er að hella úðunarvökva, óþynntum eða þynntum í niðurföll, ár, vötn eða sjó.

22. gr.

Skráahald um notkun varnarefna.

Þeir sem nota varnarefni í atvinnuskyni, hvort heldur sem er til meindýraeyðingar eða í landbúnaði og garðyrkju, skulu halda skrár í a.m.k. 3 ár aftur í tímann yfir varnarefni sem þeir nota þar sem fram kemur heiti vöru, notkunartími og -skammtur, svæði og, þegar um er að ræða plöntuverndarvöru, nytjaplanta sem varan var notuð á. Gera skal þessar upplýsingar tiltækar fyrir eftirlitsaðila sé þess óskað.

VI. KAFLI

Lokaákvæði.

23. gr.

Eftirlit.

Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt XI. kafla efnalaga nr. 61/2013. Heil­brigðis­nefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna í starfs­leyfis­skyldri starfsemi sem heyrir undir þau starfsleyfi sem nefndirnar gefa út á grund­velli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 1. mgr. 6. gr. efnalaga.

24. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt XIV. kafla efnalaga nr. 61/2013.

25. gr.

Innleiðing á gerð Evrópubandalagsins.

Reglugerðin er sett til hlutainnleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna.

26. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 12.-16. tl. 1. mgr. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013, 4. gr., 4. gr. a., 5. gr. og 13. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem og 9. gr. og 15. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spen­dýrum.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerð nr. 149/1989 um meindýraeyða, reglur nr. 238/1994 um garðaúðun og reglugerð nr. 50/1984 um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar mein­dýra.

Ákvæði til bráðbirgða.

I.

Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 6. gr. er heimilt að endurnýja notendaleyfi án þess að við­kom­andi hafi aflað sér viðeigandi endurmenntunar, til 1. janúar 2017.

II.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 9. gr. er ekki gerð krafa um að námskrá námsins hafi hlotið vottun mennta- og menningarmálaráðherra í samræmi við gæðaviðmið um gerð og upp­byggingu námskráa í framhaldsfræðslu fyrr en 1. janúar 2016.

III.

Til 1. janúar 2016 gilda eftirfarandi ákvæði um ílát, umbúðir og merkingu þeirra:

Ílát (söluílát) og umbúðir skulu vera svo tryggar sem frekast er auðið. Efni og efna­samsetn­ingar má ekki selja eða flytja innanlands í annars konar ílátum en þeim sem Umhverfis­stofnun hefur samþykkt.

Á ílátum skal standa:

 

a)

heiti efnis eða efnasamsetningar,

 

b)

magn (g, kg, ml, l),

 

c)

heiti virkra efna og styrkur þeirra (hundraðshluti),

 

d)

styrkt hjálparefna (fylliefni o.s.frv.) og heiti þeirra og nánari skilgreining, ef þörf gerist,

 

e)

nafn og heimili framleiðanda,

 

f)

nafn og heimili umboðsmanns eða innflytjanda,

 

g)

framleiðslunúmer, ennfremur fyrningartími, ef einhver er,

 

h)

helstu notkunarreglur,

 

i)

uppskerufrestur, ef einhver er,

 

j)

helstu varúðarreglur,

 

k)

ábendingar um hvað gera skal, ef slys ber að höndum.

Framangreindar upplýsingar skulu ætíð vera á íslensku, ef um er að ræða efni og efna­samsetn­ingar í B- og C-hættuflokkum.

Á söluílátum og umbúðum (þar með taldar ystu umbúðir) skulu alltaf vera flokksmerki (hættuflokkur) og varnaðarmerki (merkimiðar) á íslensku svo sem að neðan greinir. Flokksmerki og varnaðarmerki skulu vera með prentuðu letri. Á varnaðarmerkjum skal vera rautt letur á hvítum eða ljósum grunni.

Flokksmerki X flokks er hvít eða ljós hauskúpa á svörtum grunni, og skulu orðin "sterkt eitur" letruð stórum, hvítum eða ljósum stöfum á grunninn fyrir neðan hauskúpuna. Á varnaðarmerki (sbr. 4. málsgr.) á ílát og umbúðir um efni og efnasamsetningar í X flokki skal letra með stórum stöfum: "Hættuflokkur X. Má ekki flytja eða geyma innan um aðrar vörur:
Varist að snerta umbúðir (ílátin), ef þær eru brotnar eða mengaðar af inni­haldinu."

Flokksmerki A flokks er hvít eða ljós hauskúpa (sams konar og X flokks) á svörtum grunni, og skal orðið "Eitur" letrað með stórum, hvítum eða ljósum stöfum á grunninn fyrir neðan hauskúpuna. Á varnaðarmerki (sbr. 4. málsgr.) á ílát og umbúðir um efni og efnasamsetningar í A flokki skal letra með stórum stöfum: "Hættuflokkur A. Má ekki flytja eða geyma innan um mat og fóðurvörur."

Flokksmerki B flokks eru orðin: "Varúð - Hættulegt", sem letruð eru stórum, hvítum eða ljósum stöfum á svartan grunn. Á varnaðarmerki (sbr. 4. málsgr.) á ílát og umbúðir um efni og efnasamsetningar í B flokki skal letra stórum stöfum: "Hættuflokkur B. Varist að flytja eða geyma innan um mat og fóðurvörur."

Flokksmerki C flokks eru: "Varúð", letrað stórum, hvítum eða ljósum stöfum á svartan grunn. Sérstakt varnaðarmerki er ekki fyrir efni og efnasamsetningar í C flokki.

Flokksmerki og varnaðarmerki skulu vera mismunandi stór eftir stærð íláta og umbúða.

Kveða má nánar á með auglýsingu, hvert hlutfall skuli vera milli stærðar flokksmerkja og varnaðarmerkja og stærðar söluíláta og umbúða.

Nú eru efni og efnasamsetningar sérstaklega hættulegar einni eða fleiri dýrategundum (t.d. fiskum eða fuglum), og skulu þá ílát og umbúðir sérstaklega merktar með tilliti til þess, t.d. "Hættulegt fiskum". Vara skal við hvimleiðum eða sérstökum eiginleikum efna ef þörf gerist.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 28. mars 2014.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica