Samgönguráðuneyti

361/2005

Reglugerð um flugvernd. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að koma á og framkvæma viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir ólöglegar aðgerðir sem beinast gegn almenningsflugi.

Reglugerð þessi innleiðir flugverndaráætlun Íslands eins og við á auk þess sem hún innleiðir reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins eins og nánar greinir í 41. gr. með þeim breytingum sem lúta að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinar nr. 61/2004, merkt fylgiskjal I.


2. gr.
Gildissvið o.fl.

Reglugerð þessi gildir um allt millilandaflug um flugvelli sem jafnframt eru landamærastöðvar á Íslandi.

Samþykkja má innlendar verndarráðstafanir til að veita nægilega vernd aðgreindum flugverndarsvæðum flugvalla, þar sem einungis er um að ræða almannaflug eða þar sem atvinnustarfsemi takmarkast við loftför með minni en 10 tonna hámarksflugtaksþyngd eða færri en 20 sæti.


3. gr.
Orðskýringar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Aðflugsstjórnarþjónusta (Approach control service): Flugstjórnarþjónusta við stjórnað flug í aðflugi og brottflugi.

Aðgreint flugverndarsvæði (Demarcated area): Svæði aðskilið frá öðrum haftasvæðum flugvallarins með stjórnuðum aðgangi.

Almannaflug (General Aviation): Áætlunarflug eða óreglubundið flug sem stendur ekki til boða eða er ekki aðgengilegt almenningi.

Almenningsflug (Civil aviation): Flug í samræmi við reglur sem settar eru af flugmálayfirvöldum og starfrækt undir eftirliti eða stjórn Flugmálastjórnar Íslands sem fer með flugumferðarþjónustu fyrir allt flug annað en herflug. Almenningsflug tekur hvort tveggja til atvinnuflugs og einkaflugs.

Áningarfarþegi (Transit Passenger): Farþegi sem fer frá borði loftfars og heldur áfram ferð sinni með flugi sem hefur sama flugnúmer og það sem hann kom með.

Áningarsalur/svæði (Transit Hall): Salur þar sem áningarfarþegar og aðrir framhaldsfarþegar bíða þess að halda áfram ferð sinni.

Bakgrunnsathugun (Background check): Athugun á því hver einstaklingurinn er og fortíð hans, þ.m.t. hvort hann eigi afbrotaferil að baki sem lið í mati á því hvort óhætt er að heimila honum aðgang að haftasvæði flugverndar án fylgdar.

Bannaður hlutur (Prohibited article): Hlutur sem nota má til að fremja ólöglegt athæfi og sem hvorki hefur verið gerð grein fyrir á viðeigandi hátt né hann meðhöndlaður samkvæmt lögum og reglum. Viðmiðunarskrá yfir bannaða hluti af þvi tagi er að finna í viðauka við reglugerð þessa.

Boðsending (Courier parcels/mail): Skjöl eða pakkar sem fluttir eru undir sömu flutningsskilyrðum og hraðsendingar, eða fluttar sem innritaður farangur eða handfarangur með sendiboða, sem ekki er víst að sé kunnugt um innihald sendingarinnar.

Flugafgreiðsluaðili (Ground handling agent): Aðili sem á grundvelli samnings við flugrekanda annast hvers kyns afgreiðslu og þjónustu við loftför og farþega sem flugrekandi þarfnast á jörðu niðri. Í henni felst m.a. tækni- og flugrekstrarþjónusta við loftför, öll afgreiðsla vegna farþega, póst- og farmflutninga auk þess að afla aðfanga og flugvista fyrir loftför.

Flugskiptafarþegi (Transfer passenger): Farþegi sem skiptir um flugvél á flugvelli og heldur áfram för sinni í flugi með öðru flugi á sama flugvelli eða öðrum flugvelli í sama ríki.

Flugturnsþjónusta (Aerodrome control service): Flugstjórnarþjónusta veitt flugvallarumferð.

Flugvernd (Aviation Security): Sambland af ráðstöfunum og mannlegum og náttúrulegum úrræðum til að vernda almenningsflug gegn ólöglegum aðgerðum.

Flugverndarathugun á loftfari (Aircraft Security Check): Skoðun á loftfarinu innanverðu þar sem farþegar geta haft aðgang og skoðun á lestinni með það fyrir augum að finna bannaða hluti.

Flugverndaráætlun (Aviation Security Programme): Skipulag og reglur samkvæmt því um varúðarráðstafanir, viðbrögð og tækjaviðbúnað sem settar eru fyrir tiltekið svæði, t.d. ríki eða einstaka flugvelli og ætlað er að vernda almenningsflug gegn ólögmætum afskiptum.

Flugverndarfulltrúi (Security Officer): Fulltrúi eftirlitsskylds aðila sem samþykktur er af flugmálayfirvöldum og ábyrgur er fyrir að leiðbeina, innleiða og framfylgja flugverndaráætlun. Flugverndarfulltrúi starfar sem sérstakur trúnaðarmaður flugmálayfirvalda varðandi flugverndarmál.

Flugverndarleit í loftfari (Aircraft Security Search): Nákvæm skoðun á loftfarinu að utan og innan með það fyrir augum að finna bannaða hluti.

Flugverndarstarfsmenn (Security staff): Starfsmenn sem starfa við hvers konar flugverndareftirlit.

Flugvistir, birgðir og aðföng (Air carrier catering, stores and supplies): Neysluvörur eða vörur sem eru til sölu um borð í loftfari.

Fyrirtækispóstur (Company-Mail (Co-mail)): Fyrirtækispóstur flugrekanda sem er fluttur á milli stöðva hans.

Haftasvæði flugverndar (Security Restricted Area): Flugsvæði flugvallar þar sem eftirlit er haft með aðgangi til að tryggja flugvernd í almenningsflugi. Þessi svæði ná að jafnaði m.a. yfir öll brottfararsvæði farþega á mili skimunarstaða og loftfars, hlaðs, flokkunarsvæða farangurs, farangursskála, póststöðva og athafnasvæða fyrir ræstingar og flugvistir.

Hraðpóstur (Express mail): Póstur sem fluttur er með forgangshraða.

Hraðsending (Express parcel): Farmur sem fluttur er með forgangshraða í flugi.

Hugsanlegur ólátafarþegi (Potentially disruptive passengers): Farþegi sem hugsanlega getur sýnt af sér óæskilega hegðun, t. a. m. einstaklingur sem vísað er úr landi, einstaklingur sem ekki er heimil landganga, einstaklingur sem er í lögreglufylgd eða sætir lögregluaðgerðum.

Landgangur (Finger): Yfirbyggður gangur sem liggur út úr flugstöðvarbyggingu til að veita aðgang að flugvélastæðum.

Landgöngubrú (Jetway): Yfirbyggð, færanleg brú sem tengir flugstöðvarbyggingu eða landgang við dyr flugvélar þannig að innangengt er á milli.

Lest (Hold): Sá hluti loftfars sem notaður er undir farm þess, venjulega undir farþegarýminu.

Lestarfarangur (Hold Baggage): Farangur sem er ætlaður til flutnings í lest loftfars.

Póstrekandi: Aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu.

Póstur: Sendingar bréfa og annarra hluta, með eða án áritunar á umbúðir, sem eru afhentar og ætlaðar til afhendingar til póstrekanda. Auk bréfa teljast til póstsendinga bækur, verðskrár, dagblöð, tímarit og bögglar sem innihalda varning hvort sem hann er einhvers virði eða ekki.

Rekstrarvörur (Company Material (Co-mat)): Rekstrarvörur flugrekanda sem eru fluttar um stöðvanet hans.

Samþykki vegna flugverndar (Security Approval): Sérstakt samþykki útgefið af Flugmálastjórn Íslands vegna flugverndar, þar sem staðfest er að fullnægjandi flugverndaraðgerðum sé lýst í viðeigandi flugverndaráætlun.

Skimun (Screening): Beiting tæknilegra aðferða eða annarra aðferða til að bera kennsl á og/eða finna bannaða hluti.

Stöðugar úrtakskannanir (Continuous Random Checks): Kannanir sem eru gerðar af handahófi allan starfstímann.

Viðkvæmasti hluti haftasvæðis flugverndar á flugvelli (Critical part of security restricted areas of airport): Skilgreint og afmarkað svæði innan haftasvæðis flugverndar á flugvelli, t.d. landgangur, landgöngubrú, hreint svæði innan flugstöðvar o.s.frv.

Viðurkenndur umboðsaðili (Regulated Agent): Umboðsmaður, farmmiðlun eða annar aðili sem á viðskipti við farmflytjanda og hefur með höndum flugverndareftirlit sem Flugmálastjórn Íslands viðurkennir eða krefst þegar um er að ræða farm, boðsendingar og hraðsendingar eða póst.

Þekktur sendandi (Known Consignor):

(a) farms; sendandi farms til flutnings með flugi fyrir eigin reikning sem hefur gert viðskiptasamning við viðurkenndan umboðsaðila eða flugrekanda á grundvelli viðmiðana sem eru nánar tilgreindar í þessari reglugerð
(b) pósts; sendandi pósts til flutnings með flugi fyrir eigin reikning sem hefur gert viðskiptasamning við viðurkenndan póstrekanda.


4. gr.
Innlend flugverndaráætlun í almenningsflugi.

Flugmálastjórn Íslands skal sjá um gerð og viðhalda Flugverndaráætlun Íslands til að tryggja framfylgni við ákvæði reglugerðar þessarar. Stofnunin ber ábyrgð á samræmingu og eftirliti með framkvæmd Flugverndaráætlunarinnar. Jafnframt skal stofnunin sjá um gerð og framkvæmd áætlunar um gæðaeftirlit með flugvernd í almenningsflugi. Flugmálastjórn Íslands skal sjá til þess að millilandaflugvellir, flugumferðarþjónusta og flugrekendur sem fljúga til og frá Íslandi geri flugverndaráætlanir fyrir sína starfsemi sem uppfylla kröfur Flugverndaráætlunar Íslands. Þessar áætlanir skulu samþykktar af Flugmálastjórn Íslands og sæta eftirliti stofnunarinnar.

Þá skal stofnunin sjá um að gerð sé innlend þjálfunaráætlun um flugvernd í almenningsflugi. Stofnuninni er heimilt að setja frekari fyrirmæli um verklag einstakra þátta í Flugverndaráætlun í almenningsflugi sem aðeins verður birt viðeigandi aðilum.


5. gr.
Gæðaeftirlit.

Flugmálastjórn Íslands skal innleiða og annast gæðaeftirlit með flugvernd og gera viðeigandi úttektir með aðferðum gæðastjórnunar og samkvæmt bestu starfsvenjum.

Í hverri flugverndaráætlun flugvallar skal kveðið á um að allir millilandaflugvellir sem jafnframt eru landamærastöðvar, skuli teknir út reglulega. Við slíka úttekt skal beita sameiginlegri aðferðafræði og skulu úttektarmenn sem eru hæfir til þess, annast hana og fara eftir sameiginlegum viðurkenndum viðmiðunum.


II. KAFLI
Flugvernd á flugvöllum.
6. gr.
Aðgreind flugverndarsvæði.

Aðgreind flugverndarsvæði skulu tilgreind í flugverndaráætlun flugvallar.

Hvert flug sem hefst frá aðgreindu flugverndarsvæði skal senda upplýsingar þar að lútandi til ákvörðunarstaðar (komuflugvallar) fyrir lendingu.


7. gr.
Viðkvæmasti hluti haftasvæðis flugverndar

Á flugvöllum þar sem fleiri en 40 starfsmenn hafa útgefnar aðgangsheimildir að haftasvæði flugverndar, skal viðkvæmasti hluti haftasvæðisins meðal annars vera:

a. þau svæði flugvallar sem brottfararfarþegar ásamt handfarangri hafa aðgang að, eftir skimun,
b. þau svæði flugvallar við brottför sem lestarfarangur farþega getur farið um eða kann að vera geymdur á, eftir skimun, hafi ekki verið tryggilega frá honum gengið.

Eftirtalin svæði flugvallar skulu talin viðkvæmasti hluti haftasvæðis, í skilningi 1. mgr., ef:

a. brottfararfarþegar ásamt handfarangri, eftir skimun, eru staddir á því svæði,
b. lestarfarangur til brottfarar, eftir skimun, er að fara um svæðið eða er geymdur á svæðinu, hafi ekki verið tryggilega frá honum gengið.

Í skilningi 1. og 2. mgr. skal loftfar, hópferðabifreið, farangurskerra eða annað samgöngutæki eða göngubrú/gangvegur eða landgöngubrú talið hluti flugvallar.

Tryggilega frágenginn farangur samkvæmt þessari grein merkir farangur við brottför sem skimaður hefur verið og er gætt, til að koma í veg fyrir að bannaðir hlutir séu settir í hann.

Á flugvöllum þar sem færri en 40 starfsmenn hafa útgefnar aðgangsheimildir að haftasvæði flugverndar er heimilt að skilgreina viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar sem þau svæði flugstöðvar sem brottfararfarþegar ásamt handfarangri hafa aðgang að, eftir skimun.


8. gr.
Aðgangur í heimildarleysi.

Ef talið er að aðili hafi í heimildarleysi farið inn á viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar eða haftasvæði flugverndar skal framkvæma nákvæma skoðun á svæðunum.


9. gr.
Skimun á starfsfólki og öðru á viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar.

Allt starfsfólk, þ. á m. áhafnir loftfara, ásamt hlutum sem menn bera á sér, skal skimað áður en aðgangur er veittur að viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar, innan flugstöðvar, þar sem innritaðir farþegar og handfarangur þeirra hafa aðgang.

Allt starfsfólk, þ. á m. áhafnir loftfara, ásamt hlutum sem menn bera á sér, skal skimað áður en aðgangur er veittur að viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar, innan flugvallar, þar sem innritaðir farþegar og handfarangur þeirra hafa aðgang.

Allt starfsfólk, þ. á m. áhafnir loftfara, ásamt hlutum sem menn bera á sér, skal skimað áður en aðgangur er veittur að viðkvæmasta hluta haftasvæðis flugverndar, innan flugvallar, þar sem innritaður farangur og lestarfarmur er fluttur um.


III. KAFLI
Samþykki vegna flugverndarráðstafana.
10. gr.
Samþykki vegna flugverndar.

Rekstraraðilar flugvalla með útgefin starfsleyfi af Flugmálastjórn Íslands og flugrekendur með útgefin flugrekendaskírteini af Flugmálastjórn Íslands skulu hafa samþykki vegna flugverndar frá stofnuninni.


11. gr.
Samþykki flugverndaráætlunar rekstraraðila flugumferðarþjónustu.

Rekstraraðilar flugumferðarþjónustu skulu leggja fram flugverndaráætlun sína til samþykktar til Flugmálastjórnar Íslands.

Rekstraraðilar flugumferðarþjónustu skulu undanþegnir skilyrði 1. mgr. ef fyrir hendi er samþykkt flugverndaráætlun rekstraraðila flugvallar með útgefið starfsleyfi af Flugmálastjórn Íslands sem einnig greinir flugverndaráætlun vegna aðflugsstjórnarþjónustu og flugturnsþjónustu.


12. gr.
Samþykki flugverndaráætlunar erlendra flugrekenda.

Flugrekendur með útgefið flugrekendaskírteini frá erlendum ríkjum sem fljúga áætlunarflug milli Íslands og erlendra ríkja skulu leggja fram flugverndaráætlun sína til samþykktar til Flugmálastjórnar Íslands með hæfilegum fyrirfara, áður en flug er hafið.

Flugrekendur með útgefið flugrekendaskírteini frá erlendum ríkjum sem fljúga óreglubundið flug milli Íslands og erlendra ríkja, fleiri en 4 flug yfir tveggja mánaða skeið, skulu einnig leggja fram flugverndaráætlun sína til samþykktar með hæfilegum fyrirvara, fyrir áætlað flug.


13. gr.
Heimildir til að sækja um samþykki.

Eftirtaldir aðilar skulu hafa heimild til að sækja um samþykki vegna flugverndar:

a. umboðsmaður, farmmiðlun eða annar aðili sem á viðskipti við farmflytjanda og öðlast vill stöðu sem "viðurkenndur umboðsaðili",
b. aðilar sem sjá flugrekendum fyrir flugvistum, birgðum og aðföngum (Catering companies),
c. aðilar sem sjá flugrekendum fyrir flugafgreiðslu á jörðu niðri (Ground handling agents),
d. aðilar sem sjá flugrekendum fyrir ræstingarþjónustu um borð í loftförum og sjá flugvöllum fyrir ræstingarþjónustu innan haftasvæðis flugverndar,
e. póstrekendur og fyrirtæki sem annast hraðsendingar og/eða boðsendingar.

Flugrekandi sem hefur samþykki Flugmálastjórnar Íslands vegna flugverndar telst hafa stöðu sem viðurkenndur umboðsaðili.


14. gr.
Umsókn um samþykki.

Umsókn um samþykki skal senda viðkomandi flugmálayfirvaldi með eftirfarandi upplýsingum:

1. opinberu nafni, firmanafni, heimilisfangi og póstfangi umsækjanda, auk símanúmera og tölvupóstfanga,
2. lýsing á rekstri aðila eða viðeigandi deildar eða einingar sem sækir um samþykki,
3. nafni og samskiptaupplýsingum um þann aðila sem tilnefndur er sem flugverndarfulltrúi.


15. gr.
Flugverndar- og þjálfunaráætlun.

Aðilar sem sækja um samþykki vegna flugverndar skulu leggja fram flugverndaráætlun með þjálfunaráætlun sem greinir hvernig viðkomandi aðili uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar. Samþykki vegna flugverndar skv. 12. og 13. gr. tekur einnig til samþykkis flugverndaráætlunar.


16. gr.
Skilyrði samþykkis.

Heimilt er að veita samþykki vegna flugverndar þegar:

a. tilnefndur flugverndarfulltrúi hefur hlotið viðurkennda þjálfun vegna flugverndar,
b. flugverndar- og þjálfunaráætlun aðila hefur verið samþykkt af viðkomandi flugmálayfirvaldi,
c. aðili hefur staðfest skriflega að hann muni framfylgja flugverndar- og þjálfunaráætlun sinni sem hlotið hefur samþykki flugmálayfirvalda, ákvæðum þessarar reglugerðar og öðrum ákvörðunum og fyrirmælum á þessu sviði,
d. engin frávik eða áhættur hafa verið greindar út frá flugverndarlegum sjónarmiðum er snerta starfsemi aðila, hvorki í úttektum né að öðru leyti.

Heimilt er að veita samþykki vegna flugverndar til allt að 5 ára í senn. Um umsóknir um endurnýjun samþykkis fer samkvæmt ákvæði 14. gr. og skulu þær berast eigi síðar en 30 dögum áður en gildandi samþykki fellur niður.


17. gr.
Svipting samþykkis.

Heimilt er að svipta handhafa samþykkis samkvæmt kafla þessum, samþykki vegna flugverndar ef handhafi verður uppvís að brotum gegn ákvæðum laga og reglna og talið er, með hliðsjón af eðli brotsins og atvikum öllum, eða annars framferðis aðila eða starfsmanna hans, varhugavert að samþykkis vegna flugverndar sé neytt. Heimilt skal að svipta handhafa samþykki tímabundið eða að fullu og öllu leyti við ítrekuð brot.

Ákvörðun um sviptingu skal rökstudd og handhafa samþykkis gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun er tekin í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Heimilt skal að svipta samþykki vegna flugverndar tímabundið á meðan meðferð máls stendur.


18. gr.
Flugverndarfulltrúi.

Aðili með samþykki vegna flugverndarráðstafana skal tilnefna flugverndarfulltrúa sem ábyrgur er fyrir að innleiða og framfylgja flugverndaráætlun. Flugverndarfulltrúi skal vera sérstakur trúnaðarmaður flugmálayfirvalda, hvað varðar flugverndarmál.

Tilkynna skal með minnst 10 daga fyrirvara sé ætlunin að skipta um tilnefndan flugverndarfulltrúa og allar breytingar á upplýsingum og samskiptaupplýsingum um hann.

Flugverndarfulltrúi skal hafa undirgengist bakgrunnsathugun samkvæmt reglugerð þessari fyrir tilnefningu.


IV. KAFLI
Aðgangsheimildir.
19. gr.
Almennt um aðgangsheimildir.

Einstaklingum, ökutækjum og vinnuvélum skal einungis heimil ferð um og inn á flugsvæði flugvallar, þ.m.t. haftasvæði, að undanskildum sérstökum starfssvæðum séu slík svæði skilgreind innan flugsvæðis, hafi þeir gildar aðgangsheimildir útgefnar af viðeigandi flugvallaryfirvöldum.

Slíkar heimildir eru:

a. auðkennisspjöld fyrir einstaklinga,
b. leyfisbréf fyrir ökutæki og vinnuvélar.

Undanþegnir skilyrði 1. mgr. eru:

a. flugfarþegar og áhafnir loftfara í flutningaflugi á eðlilegri leið til og frá loftfari enda beri þeir á sér gildar ferðaheimildir sem umráðandi loftfars eða umboðsmaður hans gefur út,
b. gestir á ábyrgð og í umsjá aðila með gilda aðgangsheimild,
c. aðilar sem fljúga til og frá flugvelli í fylgd með eða í umsjón flugafgreiðsluaðila með samþykki vegna flugverndar og/eða rekstraraðila flugvallar.

Undanþágan tekur til komu og brottfarar á flugvellinum og eðlilegra hreyfinga loftfara innan flugsvæðis svo sem við akstur á stæði, í flugskýli eða til verkstæðis.

Heimilt er viðeigandi flugvallaryfirvaldi að kveða á um að áhafnir loftfara í flutningaflugi skuli hafa útgefnar aðgangsheimildir að flugvelli og setja skilyrði um útgáfu og meðferð aðgangsheimilda þar að lútandi.

Aðgangsheimildir skulu gefnar út með tiltekinn gildistíma, að hámarki 5 ár. Takmarka má heimild við tiltekna vikudaga og tilgreindan hluta sólarhrings. Almennt skal heimildin bundin ákveðnu starfi eða starfsemi og er handhafa þá einungis heimilt að nýta heimildina í þeim tilgangi. Láti handhafi af því starfi eða leggi niður þá starfsemi, fellur heimildin úr gildi.

Aðgangsheimild skal skilað þegar gildistími er útrunninn, heimild hefur verið afturkölluð eða handhafi lætur af störfum eða lögð hefur verið niður sú starfsemi sem var tilefni heimildar. Notkun útrunninna heimilda er bönnuð.


20. gr.
Auðkennisspjöld.

Á auðkennisspjaldi skal vera ljósmynd af handhafa, nafn hans, nafn starfsaðila/fyrirtækis, gildistími og áritun um hvaða svæði handhafi hafi aðgang að. Gildistími skal ritaður með áberandi hætti á auðkennisspjaldið.

Umsókn um auðkennisspjald skal vera á þar til gerðu eyðublaði sem liggja skal frammi á skrifstofu viðeigandi flugvallaryfirvalda. Í umsókn skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt 23. gr., til að staðfesta megi bakgrunn viðkomandi. Vinnuveitendur skulu sækja um auðkennisspjöld fyrir starfsmenn sína.

Handhafi auðkennisspjalds skal jafnan bera það þannig að það sé vel sýnilegt við störf.


21. gr.
Þjálfun handhafa aðgangsheimilda.

Handhafar aðgangsheimilda skulu hafa lokið viðeigandi námskeiði/þjálfun í umgengni um flugsvæði. Þeir skulu hafa kynnt sér reglur sem gilda um aðgang að flugvelli áður en aðgangsheimild er gefin út. Þeir skulu undirrita yfirlýsingu þar að lútandi og skuldbinda sig til að hlíta þeim reglum.


22. gr.
Leyfisbréf fyrir ökutæki og vinnuvélar.

Leyfisbréf ökutækja og vinnuvéla skulu gefin út fyrir tiltekið ökutæki eða vinnuvél af viðeigandi flugvallaryfirvaldi. Í leyfisbréfi skal tilgreint skráningarnúmer, nafn eiganda og/eða umráðanda (starfsaðila/fyrirtækis), gildistíma heimildar, áritun um hvaða svæði er heimill aðgangur að og undirritun/stimpill viðeigandi yfirvalds. Gildistími leyfisbréfs skal ritaður með áberandi hætti.

Vinnuveitendur skulu sækja um leyfisbréf fyrir ökutæki og vinnuvélar. Aðilar sem hafa heimild til aksturs innan flugsvæðis (umferðarsvæðis loftfara) skulu hafa lokið viðeigandi námskeiði/þjálfun í akstri um svæðið og í samskiptum við flugturn.

Ökutæki sem þarf að nota á flugsvæði, skal hafa innan flugsvæðis eftir því sem við verður komið.

Ökutæki sem þarf að færa á milli almenningssvæðis og flugsvæðis skulu hafa sérstök leyfisbréf sem festa skal á ökutækið á vel sýnilegum stað. Önnur ökutæki sem þurfa að fá aðgang að flugsvæði skulu áður skoðuð og fá útgefið leyfisbréf til bráðabirgða.

Undanþegin 4. mgr. eru ökutæki og vinnuvélar sem eru í erindum vegna neyðartilvika.


23. gr.
Bakgrunnsathugun.

Athuga skal a.m.k. 5 ár aftur í tímann, frá dagsetningu umsóknar, bakgrunn alls starfsfólks sem þarf að hafa aðgang að haftasvæðum flugverndar til að unnt sé að leggja mat á hvort heimila eigi aðgang án fylgdar. Athugunin skal m.a. felast í skoðun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um sakaferil. Endurtaka skal athugunina með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en á 5 ára fresti. Að auki skal viðeigandi flugvallaryfirvald gera úrtaksathugun á þeim aðilum sem staðist hafa bakgrunnsathugun.

Með bakgrunnsathugun skal kanna og staðfesta:

a) deili á viðkomandi,
b) heimili eða dvalarstað sl. 5 ár,
c) feril viðkomandi undanfarin 5 ár,
d) þá hættu sem kann að stafa af viðkomandi innan haftasvæðis flugverndar, sbr. 24. og 25. gr.

Með umsókn um aðgang að haftasvæði flugverndar skal leggja fram nauðsynleg gögn og upplýsingar skv. 3. mgr. og skriflega heimild viðkomandi fyrir öflun þeirra svo sem frá lögreglu. Heimilt er að óska frekari upplýsinga ef nauðsynlegt þykir.

Hafi viðkomandi verið búsettur erlendis á síðastliðnum 5 árum skal hann leggja fram þau gögn sem óskað er til þess að unnt sé að leggja mat á umsókn vegna hans svo sem sakavottorð eða sambærileg vottorð frá erlendum stjórnvöldum þar sem hann hefur verið búsettur eða dvalið. Nú eru ekki lögð fram gögn sem nægileg teljast til að hægt sé að meta viðkomandi og skal þá hafna umsókn.


24. gr.
Mat á afbrotaferli.

Við ákvörðun um hvort veita beri aðgangsheimild að haftasvæði flugvallar skal sérstaklega athuga brotaferil einstaklings sem sótt er um heimild fyrir. Leggja skal til grundvallar upplýsingar úr sakaskrá og eftir atvikum öðrum skrám lögreglu um viðkomandi.

Hafi einstaklingur verið dæmdur til refsingar skal synja um aðgang að haftasvæði flugverndar, sbr. þó ákvæði 25. gr., enda séu brotin stórfelld og/eða gefa vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi og almannahagsmunum kunni að stafa hætta af.

Við mat á brotaferli umsækjanda skal leggja til grundvallar hvort öryggi flugsamgangna stafi hætta af einstaklingi. Sérstaklega skal meta hugsanlega hættu sem af viðkomandi kann að stafa gagnvart íslenska ríkinu og erlendum ríkjum, öryggi þeirra, flugstarfsemi og öðrum almannahagsmunum.

Ennfremur skal heimilt að taka tillit til eftirfarandi atvika:

a) ef komin er fram kæra á hendur einstaklingi fyrir refsivert brot sem ætla má að varði fangelsisrefsingu,
b) ef einstaklingur er eftirlýstur af lögreglu, gefin hefur verið út handtökuskipun á hendur honum eða lagt á hann farbann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.


25. gr.
Tímafrestir.

Nú hefur einstaklingur lokið afplánun og/eða innt sektargreiðslur af hendi vegna brota samkvæmt 2. mgr. 24. gr. og skal þá heimilt að taka tillit til þess í eftirfarandi tilvikum:

a) þegar 5 ár eru liðin frá lokum afplánunar eða lokum óskilorðsbundinnar fangelsisvistar eða lokum reynslulausnar
b) þegar 3 ár eru liðin frá greiðslu sektar eða lokum óskilorðsbundinnar fangelsisvistar,

enda þyki sýnt að af viðkomandi stafi ekki lengur hætta fyrir íslenska ríkið eða erlend ríki, öryggi þeirra, flugstarfsemi eða almannahagsmuni.


26. gr.
Kæruheimild vegna synjunar umsóknar um aðgang.

Nú er umsókn um aðgang að haftasvæði flugverndar synjað á grundvelli bakgrunnsathugunar vegna flugverndar og má kæra þá ákvörðun í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.


27. gr.
Svipting aðgangsheimilda.

Heimilt er viðeigandi flugvallaryfirvaldi að svipta einstakling aðgangsheimild að flugsvæði, tímabundið eða að fullu, vegna brota gegn lögum og reglum ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans, varhugavert að hann neyti heimildarinnar. Ákvörðun um sviptingu skal rökstudd og starfsmanni gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun er tekin, í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.


V. KAFLI
Farþegar og handfarangur.
28. gr.
Skimun farþega.

Að frátöldum þeim sem eru tilgreindir í 3. mgr. hér á eftir skulu allir brottfararfarþegar skimaðir (þ.e. farþegar sem hefja ferð og flugskiptafarþegar nema þeir sem hafa áður verið skimaðir samkvæmt kröfunum sem er lýst í þessari reglugerð), til að hindra að bannaðir hlutir séu fluttir inn á haftasvæði flugverndar og um borð í loftför. Farþegar skulu skimaðir með eftirfarandi aðferðum:

a) handleit eða
b) skimun í málmleitarhliði. Þegar málmleitarhlið er notað skal einnig samhliða leitað með handleit á slembiúrtaki þeirra farþega sem eru skimaðir. Handleit skal ná til allra farþega sem framkalla viðvörun frá tækinu og einnig skal samhliða leitað á slembiúrtaki þeirra farþega sem framkalla ekki viðvörun frá tækinu og ef:
i) viðvörun fer í gang skal einstaklingurinn skimaður aftur í málmleitarhliðinu eða
ii) handleitað þar sem nota má handvirkt málmleitartæki.

Þegar málmleitarhlið er notað skal það stillt þannig að öruggt sé að smærri málmhlutir finnist.

Flugmálastjórn Íslands getur skipt einstaklingum í flokka þannig að þeir skuli sæta sérstakri skimunarmeðferð eða vera undanþegnir henni. Flugmálastjórn Íslands skal setja sérstök fyrirmæli vegna hugsanlegra ólátafarþega, svo sem einstaklinga sem vísað er úr landi, einstaklinga sem ekki er heimil landganga og einstaklinga sem eru í lögreglufylgd.


29. gr.
Líkamsleit og sérstök meðhöndlun við leit.

Leit skal framkvæmd með svo mikilli tillitssemi sem unnt er og má hún aldrei vera víðtækari en nauðsynlegt er. Sá sem sætir leit getur krafist þess að vitni sé tilkvatt. Líkamsleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni.

Leit á farþegum sem krefjast sérstakrar meðhöndlunar t.d. farþegum með mikil verðmæti, farþegum með gangráð, hreyfihömluðum eða fötluðum farþegum, skal fara fram á svæði sem er úr augsýn annarra farþega. Í slíkum tilvikum skal farþeginn og handfarangur hans skoðaður:

a) með handleit eða gegnumlýsingu á öllum handfarangri,
b) með því að nota handmálmleitartæki eða ef um farþega með gangráð eða fatlaðan farþega er að ræða sem ekki geta sætt venjulegri málmleit skal gerð handleit og
c) af fólki sem hefur hlotið sérstaka þjálfun til slíks.

Strax að lokinni skoðun skal farþeganum fylgt á öruggt áningarsvæði.


30. gr.
Leit hafnað.

Sérhverjum aðila sem neitar að undirgangast leit í samræmi við þessar reglur eða neitar að láta leita í eða skoða handfarangur sinn skal synjað um brottför með loftfari.


31. gr.
Vernd farangurs.

Gera skal ráðstafanir til að koma í veg fyrir að unnt sé að eiga við skimaðan farangur sem meðhöndlaður er af starfsfólki sem ekki hefur verið skimað samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, áður en farangurinn er settur um borð í loftfar. Frestur til að hefja ráðstafanir eftir grein þessari eru samkvæmt bráðabirgðaákvæði I.


32. gr.
Meðferð bannaðra hluta.

Nú hefur fundist bannaður hlutur eða hlutir í fórum farþega í handfarangri eða á farþega sem ekki eru ólögmætir og skal þá farþega gefinn kostur á að:

a) innrita bannaða hluti sem lestarfarangur, enda sé bannaður hlutur eða hlutir heimilaðir til flutnings sem lestarfarangur,
b) geyma í viðeigandi aðstöðu fyrir bannaða hluti til endurkomu farþega eða
c) heimsenda bannaða hluti í pósti.

Framangreindar ráðstafanir skulu gerðar á kostnað farþega.

Um meðferð bannaðra hluta sem lagt er hald á og ekki er ráðstafað í samræmi við 1. mgr. skal farið með sem óskilamuni.


VI. KAFLI
Ræstingarvörur flugrekanda.
33. gr.
Framkvæmd og markmið.

Flugrekandi og ræstingafyrirtæki skulu gera ráðstafanir til að tryggja að engir bannaðir hlutir, sem gætu teflt öryggi loftfarsins í tvísýnu, séu í ræstingavörum sem farið er með um borð.


34. gr.
Flugverndareftirlit með ræstingarvörum flugrekanda.

Fyrirtæki sem sjá flugrekanda fyrir ræstingarþjónustu skulu gera nauðsynlegar flugverndarráðstafanir til að koma í veg fyrir að bannaðir hlutir komist í ræstingavörur sem flytja á um borð.

Gera skal eftirfarandi verndarráðstafanir:

a) tilnefna skal flugverndarfulltrúa sem ber ábyrgð á framkvæmd og eftirliti flugverndar í fyrirtækinu,
b) kanna skal áreiðanleika fólks sem ráðið er til starfa,
c) allir starfsmenn, sem hafa aðgang að haftasvæðum flugverndar, skulu standast bakgrunnsathugun samkvæmt reglugerð þessari og skulu fara að fyrirmælum um flugvernd settum af viðeigandi yfirvöldum,
d) fyrirtækið skal koma í veg fyrir óheimilan aðgang að stöðvum sínum,
e) ef fyrirtækið er staðsett utan flugvallar skulu ræstingavörur fluttar að loftfarinu í læstum eða innsigluðum ökutækjum,
f) meðferð og meðhöndlun ræstingavara skal vera á hendi starfsfólks sem er ráðið og þjálfað til starfa á réttan hátt og
g) ræstingavörur skulu skimaðar áður en þær eru sendar með fyrirtækispósti til annarra ákvörðunarstaða.

Eftir afhendingu skulu ræstingavörur skimaðar af handahófi.

Vörur frá fyrirtæki, sem gerir ekki verndarráðstafanirnar sem er lýst í 1. mgr., skulu ekki teknar um borð í loftfar.


VII. KAFLI
Ræsting innan haftasvæðis flugverndar.
35. gr.
Framkvæmd og markmið.

Rekstraraðili flugvallar og eða flugstöðvar og ræstingafyrirtæki skulu í samráði við viðkomandi flugvallaryfirvald gera ráðstafanir til að tryggja að engir bannaðir hlutir, sem teflt gætu öryggi flugsamgangna í tvísýnu, séu í ræstingavörum og tækjum sem farið er með um haftasvæði flugverndar innan flugstöðvar og flugvallar.


36. gr.
Flugverndareftirlit með ræstingafyrirtækjum innan flugvallar og flugstöðva.

Fyrirtæki sem sjá flugvelli og flugstöð fyrir ræstingaþjónustu innan haftasvæðis flugverndar skulu gera nauðsynlegar flugverndarráðstafanir til að koma í veg fyrir að bannaðir hlutir komist í ræstingavörur eða tæki sem flytja á um haftasvæði flugverndar innan flugstöðvar og flugvallar.

Gera skal eftirfarandi verndarráðstafanir:

a) tilnefna skal flugverndarfulltrúa sem ber ábyrgð á framkvæmd og eftirliti flugverndar í fyrirtækinu,
b) kanna skal áreiðanleika fólks sem ráðið er til starfa,
c) allir starfsmenn, sem hafa aðgang að haftasvæðum flugverndar, skulu standast bakgrunnsathugun samkvæmt reglugerð þessari og skulu fara að fyrirmælum um flugvernd settum af viðeigandi yfirvöldum,
d) fyrirtækið skal koma í veg fyrir óheimilan aðgang að stöðvum sínum,
e) ef fyrirtækið er staðsett utan flugvallar skulu ræstingavörur fluttar að flugvelli og flugstöð í læstum eða innsigluðum ökutækjum og
f) meðferð og meðhöndlun ræstingavara skal vera á hendi starfsfólks sem er ráðið og þjálfað til starfa á réttan hátt.

Eftir komu inn á haftasvæði flugverndar skulu ræstingavörur skimaðar af handahófi,

Fyrirtæki sem starfrækir ræstingaþjónustu innan haftasvæðis flugverndar sem ekki gerir verndarráðstafanirnar sem er lýst í 1. mgr., skal óheimilt að starfrækja ræstingaþjónustu innan haftasvæðis flugverndar innan flugvallarsvæðis og flugstöðvar.


VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
37. gr.
Skrá yfir samþykkta eða viðurkennda aðila vegna flugverndar.

Flugmálastjórn Íslands skal birta á heimasíðu sinni skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa samþykki eða viðurkenningu vegna flugverndar.


38. gr.
Frekari kröfur.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að setja frekari fyrirmæli og verklagsreglur varðandi flugverndarráðstafanir. Stofnuninni er heimilt að ákveða að þau fyrirmæli og verklagsreglur skuli einungis birtar viðeigandi aðilum.


39. gr.
Keflavíkurflugvöllur.

Með vísan til laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl. og samkvæmt 10. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 3 frá 1. febrúar 2004, um Stjórnarráð Íslands, framkvæmir Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli eða sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli eftir atvikum, verkefni og fer með vald er varðar Keflavíkurflugvöll, sem viðkomandi flugmála-, eða flugvallaryfirvöldum eru falin samkvæmt reglugerð þessari.

Þegar stjórnvaldshafar fara með vald eða framkvæma verkefni á Keflavíkurflugvelli er það í umboði og eftir ákvörðun utanríkisráðherra.


40. gr.
Refsingar.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.


41. gr.
Gildistaka og innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1. um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2320/2002 frá 16. desember 2002 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi, merkt fylgiskjal II, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 61/2004 frá 26. apríl 2004, sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal I.
2. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 622/2003 frá 4. apríl 2003 um ráðstafanir til framkvæmdar sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd í almenningsflugi, merkt fylgiskjal IV, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 62/2004 frá 26. apríl 2004, sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal III.
3. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 68/2004 frá 15. janúar 2004 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 622/2003 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi, merkt fylgiskjal VI, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 109/2004 frá 9. júlí 2004, sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal V.
4. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 849/2004 frá 15. janúar 2004 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2320/2002 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi, merkt fylgiskjal VIII, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 155/2004 frá 29. október 2004, sem er meðfylgjandi merkt fylgiskjal VII.

Reglugerðirnar eru birtar sem fylgiskjöl með reglugerð þessari.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 70. gr., 2. mgr. 78. gr. sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.

Skimun starfsfólks og hluta skv. 2. mgr. 9. gr. skal hefjast eigi síðar en 1. janúar 2006 en skv. 3. mgr. 9. gr. eigi síðar en 1. janúar 2009.

Vernd farangurs skv. 31. gr. skal hefjast eigi síðar en 1. júlí 2009.


Samgönguráðuneytinu, 10. mars 2005.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


VIÐAUKI
við reglugerð um flugvernd.

Til skýringar.

Upptalning hér á eftir yfir bannaða hluti er ekki tæmandi. Um er að ræða viðmið varðandi mögulega lögun vopna og hluta sem eru bannaðir eða háðir takmörkunum en leggja ber mat á það hverju sinni hvort unnt er að nota hlut sem vopn.

1. gr.
Almennt.

Bannaðir hlutir sem vísað er til í 2. gr. mega aðeins vera fluttir á haftasvæði flugverndar eða um borð í loftfar af starfsfólki, þar með töldum áhöfnum loftfara, ef það hefur tilskilið leyfi frá þar til bærum yfirvöldum, þar sem slíkir munir teljast nauðsynlegir fyrir starfrækslu flugvallarins eða loftfara eða skyldustarfa um borð.

Bannaða hluti sem vísað er til í viðbætinum má skilja eftir á haftasvæðum flugverndar eða um borð í loftfari ef þeir eru geymdir í öruggu ástandi.

Flugverndarstarfsmönnum er heimilt að synja hvaða starfsmanni sem er aðgang að haftasvæði flugverndar sem hefur undir höndum bannaðan hlut sem veldur þeim áhyggjum.

2. gr.
Bannaðir hlutir.

Farþegar mega ekki flytja með sér eftirtalda hluti inn á haftasvæði flugverndar og í farþegaklefa loftfars en ekki er um tæmandi talningu að ræða:

a) Byssur, skotvopn og vopn.
Sérhver hlutur sem skot getur eða virðist geta hlaupið úr eða sem getur eða virðist geta valdið skaða, þ.m.t.:
öll skotvopn (skammbyssur, rifflar, haglabyssur o.s.frv.),
eftirlíkingar eða stælingar skotvopna,
íhlutir skotvopna (undanskilin eru sjónaukamið og önnur mið),
loftbyssur, -rifflar og -haglabyssur,
merkibyssur,
rásbyssur,
leikjabyssur af öllum gerðum,
kúlubyssur (ball bearing guns),
bolta- og naglabyssur til nota í iðnaði,
krossbogar,
teygjubyssur og slöngvur,
skutul- eða spjótbyssur,
tæki til að aflífa dýr/pinnabyssur,
rafmagnsvopn af öllum gerðum, einnig í byssulíki (taser),
kveikjarar í byssulíki.

b) Oddhvöss eða beitt vopn og hlutir.
Oddhvassir eða beittir hlutir sem geta valdið skaða, þ.m.t.:
axir,
krókar, mannbroddar,
örvar og kastpílur,
skutlar og spjót,
ísaxir og stingar,
skautar,
láshnífar eða fjaðurhnífar, óháð lengd blaðs,
hnífar (úr málmi eða öðru efni sem er nógu stíft til að hægt sé að nota það sem hugsanlegt vopn, einnig hnífar sem eru notaðir við siða- og trúarathafnir), (íslensk yfirvöld leyfa ekki neina oddhvassa eða beitta hnífa, aðeins rúnnaða, bitlausa smjörhnífa)
kjötaxir,
sveðjur,
rakhnífar og rakblöð (undanskilin eru rakblöð í skiptihylkjum),
höggsverð, sverð og korðar,
skurðhnífar,
skæri, með lengra en 6 cm blað,
(íslensk yfirvöld leyfa ekki nein oddhvöss, beitt skæri),
skíða- og göngustafir,
kaststjörnur,
verkfæri iðnaðarmanna sem hugsanlega má nota sem oddhvasst eða beitt vopn, t.d. borvélar, lausir borar, pappahnífar, hnífar til atvinnu, allar sagir, skrúfjárn, kúbein, hamrar, tangir, skiptilyklar/skrúflyklar, blússlampar.

c) Bitlaus áhöld og tól.
Bitlaus áhöld sem geta valdið skaða, þ.m.t.:
hafnaboltakylfur,
kylfur og stafir af öllum gerðum, stífir eða sveigjanlegir,
krikketkylfur,
golfkylfur,
ísknattleikskylfur,
baglar ("Lacrosse"-kylfur),
kajak- og kanóárar,
hjólabretti,
kjuðar fyrir ballskák,veiðistangir,
búnaður fyrir sjálfsvarnaríþróttir, svo sem hnúajárn, rotkylfur og aðrar kylfur, þreskijárn o.s.frv.

d) Sprengiefni og eldfim efni.
Sérhver sprengiefni eða eldfim efni sem eru hættuleg heilsu farþega og áhafnar eða vernd/öryggi loftfars eða eigna, þ.m.t.:
skotfæri,
sprengihettur,
hvellhettur og sprengiþræðir,
sprengiefni og sprengibúnaður,
eftirlíkingar og stælingar sprengiefna og sprengibúnaðar,
jarðsprengjur og aðrar sprengifimar hernaðarbirgðir,
handsprengjur af öllum gerðum,
gas og gaskútar t.d. bútan, própan, kolvetnisgas (acetylene) og súrefni – í stórum umbúðum,
skoteldar, blys af öllum gerðum og annar skotelda- og hvellbúnaður, þ.m.t. samkvæmis- og leikjasprengjur,
eldspýtur, aðrar en venjulegar,
reykhylki og reykdósir,
fljótandi eldsneyti, t.d. bensín, díeselolía, kveikjaralögur, alkóhól og etanól
málning í úðabrúsum,
terpentína og þynnir
áfengir drykkir með meira en 70% vínanda miðað við rúmmál,

e) Íðefni og eiturefni.
Öll íðefni og eiturefni sem eru hættuleg heilsu farþega og áhafnar eða flugvernd/öryggi loftfars eða eigna, þ.m.t.:
sýrur og lútarefni, t.d. vökvafylltar rafhlöður,
tærandi og bleikiefni, t.d. kvikasilfur og klór,
lamandi úðaefni, t.d. úðavopn (Mace), piparúði og táragas,
geislavirk efni, þ.m.t. samsætur (ísótópar) til nota við lækningar og sem verslunarvara, eitur,
smitefni eða hættuleg lífefni, t.d. smitað blóð, bakteríur og veirur,
sjálfsíkveikjandi og eldfim efni,
slökkvitæki.

3. gr.

Heimilt er að undanþiggja farþega ákvæðum 2. gr. svo framarlega sem:

a) viðeigandi yfirvald hafi áður verið upplýst um það og veitt samþykki sitt fyrir því að farþeginn hafi hlutinn eða hlutina með sér, og
b) flugstjóra loftfarsins hafi verið skýrt frá farþeganum og þeim bannaða hlut eða hlutum sem hann hefur með sér.

Þar sem við á skal gengið tryggilega frá bannaða hlutnum.

4. gr.
Listi yfir bannaða hluti.

Skrá yfir hina bönnuðu hluti, sem um getur í 2. gr. og 7. gr. skal vera tiltæk almenningi hjá umboðsmönnum flugfélaga og við innritunarborð.

5. gr.
Aðrar ráðstafanir.

Viðeigandi yfirvaldi er heimilt að banna aðra hluti til viðbótar við þá sem um getur í 2. gr. og 7. gr.

Viðeigandi yfirvald skal gera viðhlítandi ráðstafanir til að upplýsa farþega um þessa hluti áður en þeir hafa lokið innritun lestarfarangurs.

6. gr.

Hluti, sem eru bannaðir skv. 2. gr. eða 5. gr. en ekki skv. 7. gr., má flytja í lestarfarangri svo framarlega sem farþegar hafi ekki aðgang að farangrinum án eftirlits frá því að hann er innritaður og þar til hann er endurheimtur við komu.

Flugverndarstarfsfólki er heimilt að synja farþega um aðgang að haftasvæðum flugverndar og farþegaklefa loftfars hafi hann undir höndum hlut sem ekki fellur undir 2. gr. og telji það hlutinn grunsamlegan.

Flugverndarstarfsfólki er heimilt að synja um flutning á lestarfarangri sem innheldur hlut sem ekki er getið um í 7. gr. en sem það telur grunsamlegan.

7. gr.
Hlutir sem eru bannaðir í lestarfarangri.

Eftirfarandi hluti skal ekki setja í lestarfarangur:
sprengiefni þ.m.t. hvellhettur, sprengiþráður, handsprengjur, jarðsprengjur og aðrar sprengjur,
gös, própan og bútan,
eldfimir vökvar, þ.m.t. bensín og tréspíritus (metanól),
eldfim, föst efni og hvarfgjörn efni, þ.m.t. magnesíum, kveikjarar, skoteldar og blys,
oxandi og lífræn peroxíð, þ.m.t. bleikiefni og efni til viðgerða á yfirbyggingum bifreiða,
eiturefni eða smitefni, þ.m.t. rottueitur og smitað blóð,
geislavirk efni, þ.m.t. samsætur til nota við lækningar og sem verslunarvara,
tærandi efni, þ.m.t. kvikasilfur og rafgeymar farartækja,
íhlutir eldneytiskerfa ökutækja sem hafa innhaldið eldsneyti.

8. gr.

Tilkynna skal þegar í stað til flugvallaryfirvalda, lögreglu eða Ríkislögreglustjóra um hluti ef merki sjást um að þeir innihaldi efnafræðileg eða líffræðileg efni eða grunur vaknar um slíkt og skulu þeir einangraðir frá almennum flugstöðvar- og flugvallarsvæðum.Fylgiskjal I. (pdf-snið)


Fylgiskjal II. (pdf-snið)


Fylgiskjal III. (pdf-snið)


Fylgiskjal IV. (pdf-snið)


Fylgiskjal V. (pdf-snið)


Fylgiskjal VI. (pdf-snið)


Fylgiskjal VII. (pdf-snið)


Fylgiskjal VIII. (pdf-snið)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica