Samgönguráðuneyti

836/2009

Reglugerð um breytingu á reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 ásamt síðari breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

2. gr. orðist svo:

Reglugerð þessi skal gilda um eftirfarandi eftirlitsskylda aðila:

 1. millilandaflugvelli sem jafnframt eru landamærastöðvar á Íslandi;
 2. flugrekendur, þar með talin flugfélög, sem veita þjónustu á flugvöllum sem vísað er til í 1. tölulið; og
 3. aðila sem beita flugverndarráðstöfunum og starfa á athafnasvæði sem staðsett er inni á eða utan við flugvelli og selja vöru og/eða þjónustu til eða í gegnum flugvelli sem vísað er til í 1. tölulið.

Samþykkja má innlendar verndarráðstafanir til að veita nægilega vernd aðgreindum flug­verndarsvæðum flugvalla, þar sem einungis er um að ræða almannaflug eða þar sem atvinnu­starfsemi takmarkast við loftför með minna en 10 tonna hámarksflugtaksþyngd eða færri en 20 sæti.

2. gr.

4. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Eftirlitsstjórnvald.

Flugmálastjórn Íslands er tilnefnt eftirlitsstjórnvald samkvæmt reglugerð þessari. Flug­mála­stjórn Íslands annast tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglu­gerðar­innar, nema annað sé tekið fram.

Flugmálastjórn Íslands skal sjá um gerð og að viðhalda Flugverndaráætlun Íslands til að tryggja framfylgni við ákvæði reglugerðar þessarar. Stofnunin ber ábyrgð á samræmingu og eftirliti með framkvæmd áætlunarinnar. Jafnframt skal stofnunin sjá um gerð og framkvæmd áætlunar um gæðaeftirlit með flugvernd í almenningsflugi.

Flugmálastjórn Íslands skal sjá til þess að eftirlitsskyldir aðilar sbr. 1. mgr. 2. gr. geri flugverndaráætlanir fyrir sína starfsemi sem uppfylla kröfur Flugverndaráætlunar Íslands og lýsa m.a. skipulagi flugverndarmála, ábyrgð á framkvæmd, verklagi og sérstökum flugverndaraðgerðum. Þessar áætlanir skulu samþykktar af Flugmálastjórn Íslands og sæta eftirliti stofnunarinnar.

Flugmálastjórn Íslands skal sjá um að gerð sé innlend þjálfunaráætlun um flugvernd í almenningsflugi. Stofnuninni er heimilt að setja frekari fyrirmæli um verklag einstakra þátta í Flugverndaráætlun í almenningsflugi sem aðeins verður birt viðeigandi aðilum.

Flugmálastjórn Íslands skal innleiða og annast gæðaeftirlit með flugvernd og gera viðeigandi úttektir á flugverndarráðstöfunum með aðferðum gæðastjórnunar og sam­kvæmt bestu starfsvenjum.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að fela sjálfstæðum vottunaraðilum að hafa eftirlit með framkvæmd afmarkaðra þátta flugverndar hér á landi.

3. gr.

5. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Úttekt Eftirlitsstofnunar EFTA.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur heimild til að framkvæma úttektir á flugverndareftirliti í sam­vinnu við Flugmálastjórn Íslands á íslenskum millilandaflugvöllum og hjá flug­rek­endum og aðilum sem beita flugverndarráðstöfunum, í þeim tilgangi að fylgjast með beitingu reglna um flugvernd á Íslandi, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Úttekt Eftirlitsstofnunar EFTA felst í rannsókn á fyrirliggjandi gæðaeftirliti og ráðstöfunum, verklagsreglum og skipulagi á sviði flugverndar.

4. gr.

13. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Skylda til umsóknar um samþykki.

Eftirtöldum aðilum er skylt að sækja um samþykki vegna flugverndar sé þess krafist af hálfu Flugmálastjórnar Íslands:

 1. umboðsmaður, farmmiðlun eða annar aðili sem á viðskipti við farmflytjanda og öðlast vill stöðu sem viðurkenndur umboðsaðili,
 2. aðilar sem sjá flugrekendum fyrir flugvistum, birgðum, aðföngum og annarri þjónustu,
 3. aðilar sem sjá flugrekendum fyrir flugafgreiðslu á jörðu niðri,
 4. aðilar sem sjá flugrekendum fyrir ræstingarþjónustu um borð í loftförum og sjá flugvöllum fyrir ræstingarþjónustu innan haftasvæðis flugverndar,
 5. póstrekendur og fyrirtæki sem annast hraðsendingar og/eða boðsendingar.

Flugrekandi sem hefur samþykki Flugmálastjórnar Íslands vegna flugverndar telst hafa stöðu sem viðurkenndur umboðsaðili.

5. gr.

Í stað orðanna "viðkomandi flugmálayfirvaldi" í 1. mgr. 14. gr. skulu koma orðin: Flug­málastjórn Íslands.

6. gr.

Eftirfarandi töluliðir í 1. mgr. 16. gr. orðist svo:

 1. flugverndar- og þjálfunaráætlun aðila hefur verið samþykkt,
 2. aðili hefur staðfest skriflega að hann muni framfylgja samþykktri flugverndar- og þjálfunaráætlun sinni, ákvæðum þessarar reglugerðar og öðrum ákvörðunum og fyrirmælum á þessu sviði,

7. gr.

Í stað orðsins "flugmálayfirvalda" í 2. málslið 1. mgr. 18. gr. komi orðin: Flug­mála­stjórnar Íslands.

8. gr.

3. mgr. 23. gr. orðist svo:

Með umsókn um aðgang að haftasvæði skal leggja fram nauðsynleg gögn og upplýsingar til að tryggja að fullnægjandi bakgrunnsathugun geti farið fram og skriflega heimild viðkomandi fyrir öflun þeirra svo sem frá lögreglu. Heimilt er að óska frekari upplýsinga ef nauðsynlegt þykir.

9. gr.

26. gr. orðist svo:

Nú er umsókn um aðgang að haftasvæði flugverndar synjað á grundvelli bak­grunns­athugunar vegna flugverndar og má þá kæra þá ákvörðun til ráðherra sam­göngu­mála í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

10. gr.

Í stað orðsins "yfirvöldum" í 1. málslið 1. mgr. 1. gr. í viðauka við reglugerðina komi orðið: flugvallaryfirvöldum.

11. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirfarandi reglugerðir fram­kvæmda­stjórnarinnar og Evrópuþingsins og ráðsins með þeim breytingum og við­bótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

 1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi og um niðurfellingu á reglu­gerð (EB) nr. 2320/2002, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 37, dags. 9. júlí 2009, bls. 264-276, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 69/2009 frá 29. maí 2009.
 2. Reglugerð framkvæmdastjórnar (EB) nr. 820/2008 frá 8. ágúst 2008 um ráð­stafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 37, dags. 9. júlí 2009, bls. 249-263, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 67/2009 frá 29. maí 2009.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 70. gr. og 70. gr. d, sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Á sama tíma falla úr gildi fylgiskjöl III-VI og IX-XXI við reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 ásamt síðari breytingum.

Samgönguráðuneytinu, 23. september 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica