Innanríkisráðuneyti

989/2016

Reglugerð um skipsbúnað.

1. gr.

Innleiðing á tilskipun.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/90/ESB frá 23. júlí 2014, um búnað um borð í skipum og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/98/EB (til­skip­unin), skv. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 163/2016 frá 26. ágúst 2016. Til­skip­unin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52, 22. september 2014, bls. 647-686.

2. gr.

Framkvæmd þessarar reglugerðar.

1. Samgöngustofa annast framkvæmd og eftirlit þessarar reglugerðar að því leyti sem ekki er kveðið öðruvísi á í þessari reglugerð.

2. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu sinnir mati og vöktun tilkynntra aðila.

3. Um tilkynningu samræmismatsaðila og eftirlit með þeim fer eftir lögum nr. 24/2006, um fag­gild­ingu o.fl., með síðari breytingum. Tilkynntir aðilar skulu vaktaðir annað hvert ár.

4. Skilyrði fyrir tilkynningu er að samræmismatsaðili uppfylli þau skilyrði sem mælt er fyrir um í III. viðauka við tilskipunina.

5. Faggildingarsvið Einkaleyfastofu skal einnig hafa eftirlit með að tilkynntir aðilar uppfylli kröfur sem gerðar eru í 20. gr., 1. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar.

3. gr.

Málsmeðferð og viðurlög.

1. Um málsmeðferð, ákvarðanir og réttarúrræði Samgöngustofu fer skv. lögum nr. 47/2003, um eftir­lit með skipum, með síðari breytingum og lögum nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórn­sýslu­stofnun samgöngumála, með síðari breytingum.

2. Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 29. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum.

4. gr.

Gildistaka og lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur brott reglugerð nr. 589/2004, um skipsbúnað, með síðari breytingum.

Innanríkisráðuneytinu, 18. nóvember 2016.

F. h. r.

Sigurbergur Björnsson.

Björn Freyr Björnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica