Menntamálaráðuneyti

50/2002

Reglugerð um útvarpsstarfsemi. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

Reglugerð þessi tekur til útvarps, hljóðvarps eða sjónvarps og er þá átt við hvers konar útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst.

Það telst ekki útvarp í skilningi reglugerðar þessarar ef dreift er útvarpsdagskrá eða útsendingu, sem eingöngu er ætluð þröngum hópi og takmarkast við byggingar eða húsakynni á samfelldri lóð, svo sem einstök íbúðarhús, sjúkrahús, gistihús, skóla og verksmiðjur.

Reglugerð þessi tekur ekki til viðstöðulauss, óstytts og óbreytts endurvarps útvarpsdagskráa erlendra sjónvarpsstöðva.

Reglugerð þessi tekur ekki til dreifingar útvarpsefnis á netinu.


II. KAFLI
Útvarpsréttarnefnd.
2. gr.
Hlutverk.

Útvarpsréttarnefnd veitir útvarpsleyfi, enda séu skilyrði til útgáfu útvarpsleyfis samkvæmt útvarpslögum og reglugerð þessari uppfyllt að mati nefndarinnar.

Útvarpsréttarnefnd fylgist með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt, og hefur að öðru leyti eftirlit með framkvæmd útvarpslaga og reglugerðar þessarar, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu einnig Ríkisútvarpsins. Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með tæknilegum eiginleikum útsendinga. Útvarpsréttarnefnd getur áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti skýrslur sjónvarpsstöðva um útsendingu á evrópsku dagskrárefni og um sýningu efnis sem framleitt er af sjálfstæðum framleiðendum.

Útvarpsréttarnefnd getur krafist upplýsinga úr bókhaldi og reikningum útvarpsstöðvar, ef þess er talin þörf, um hvort laga- eða reglugerðarákvæði eða leyfisskilmálar hafi verið brotnir. Skal sérstakur trúnaðarmaður nefndarinnar annast öflun og könnun slíkra gagna í umboði nefndarinnar. Nefndarmenn, starfsmenn og trúnaðarmenn nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem leynt á að fara.

Útvarpsréttarnefnd úrskurðar í kærumálum telji einhverjir að útvarpsstöð hafi ekki haft í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, virt tjáningarfrelsi eða stuðlað að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.

Útvarpsréttarnefnd úrskurðar í ágreiningsmálum telji aðili, einstaklingar, félög eða stofnanir, að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá og þeim hafi verið synjað um rétt til andsvara á viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða á þann hátt sem þeir vilja við una.

Útvarpsréttarnefnd er heimilt að stöðva tímabundið sjónvarpsútsendingar frá ríkjum á hinu evrópska efnahagssvæði teljist skilyrði 5. gr. útvarpslaga vera fyrir hendi. Skal þá útvarpsréttarnefnd hafa áður tilkynnt þeirri sjónvarpsstöð, sem í hlut á, um hina yfirvofandi stöðvun og íslensk stjórnvöld tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, skriflega um meint brot og þær ráðstafanir sem þau hyggjast grípa til ef um verður að ræða endurtekningu á broti.

Útvarpsréttarnefnd úrskurðar um stjórnvaldssektir skv. 30. gr. útvarpslaga fari útvarpsstöð ekki að fyrirmælum 9. og 11. gr. og VI. kafla útvarpslaga um auglýsingar, fjarsölu og kostun. Ef brot telst ekki alvarlegt eða er ekki ítrekað getur útvarpsréttarnefnd látið við það sitja að beita áminningu.

Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar, enda sé um alvarleg og ítrekuð brot á útvarpslögum eða reglugerð þessari að ræða.

Ákvarðanir útvarpsréttarnefndar eru fullnaðarúrlausnir á stjórnsýslusviði og sæta ekki stjórnsýslukæru.


3. gr.
Fundir útvarpsréttarnefndar.

Útvarpsréttarnefnd heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar fundi og stýrir þeim. Skylt er formanni að kveðja til fundar ef tveir nefndarmanna æskja þess.

Fundur í útvarpsréttarnefnd er lögmætur, ef meirihluti nefndarmanna er viðstaddur.

Ákvörðun útvarpsréttarnefndar er því aðeins lögmæt að meirihluti nefndarmanna taki þátt í atkvæðagreiðslu. Um niðurstöður ræður afl atkvæða.

Halda skal gerðabók um fundi útvarpsréttarnefndar. Þar skal greina frá þeim málum sem til meðferðar eru á fundum nefndarinnar, niðurstöðum og úrskurðum útvarpsréttarnefndar svo og öðru því sem máli þykir skipta.

Útvarpsréttarnefnd ræður sér starfsmann eða starfsmenn eftir því sem þarf og fjárveitingar leyfa.

Kostnaður við starfsemi útvarpsréttarnefndar greiðist úr ríkissjóði.


III. KAFLI
Leyfi til reksturs útvarps.
4. gr.
Veiting útvarpsleyfa.

Útvarpsréttarnefnd veitir lögaðilum eða einstaklingum tímabundið leyfi til starfrækslu útvarps, sem á uppruna sinn hér á landi og þar sem einvörðungu er dreift viðstöðulaust óstyttri og óbreyttri heildardagskrá útvarpsstöðvar, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum, sbr. lög um Ríkisútvarpið.

Heimilt er að binda útvarpsleyfi við afmörkuð svæði.

Heimilt er að veita útvarpsleyfi til útsendinga á öðrum tungumálum en íslensku ef sérstaklega stendur á svo sem í þeim tilgangi að sinna þörfum útlendinga sem hér dveljast um lengri eða skemmri tíma.

Leyfi til útvarps verður ekki framselt, leigt eða flutt með nokkrum öðrum hætti til annars aðila.


5. gr.
Gildistími útvarpsleyfa.

Leyfi til hljóðvarps má lengst veita til fimm ára í senn en til sjónvarps lengst til sjö ára í senn. Veita má leyfi til skemmri tíma sé um það sótt.

Upphaf leyfistíma miðast við útgáfudag leyfis. Hafi útvarpsstöð ekki hafið útvarp innan átta mánaða frá dagsetningu leyfis útvarpsréttarnefndar fellur leyfið sjálfkrafa niður. Sé útvarpsrekstri hætt og hann eigi hafinn á ný innan fjögurra mánaða telst útvarpsleyfi sjálfkrafa niður fallið.

Nú er bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta, og fellur þá leyfið þegar í stað úr gildi.


6. gr.
Umsókn um útvarpsleyfi.

Nú óskar einhver að fá leyfi til útvarps og skal hann þá senda umsókn til útvarpsréttarnefndar. Í umsókn skal greina:

1.
Heiti og kennitölu umsækjanda. Ef um lögaðila er að ræða hvert sé rekstrarform og hvernig eignaraðild er fyrir komið.
2.
Hvort óskað sé leyfis til hljóðvarps, sjónvarps eða hvors tveggja.
3.
Hvort sótt sé um leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku og af hvaða ástæðum.
4.
Hvort sótt sé um útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað.
5.
Hvort útvarpa eigi um þráð eða þráðlaust.
6.
Hvort óskað sé útvarpsleyfis á afmörkuðu svæði.
7.
Hvert verði heimili og varnarþing útvarpsstöðvar.
8.
Hvernig útsendingum verði hagað.
9.
Hverjir séu áætlaðir útsendingartímar á sólarhring.
10.
Hver sé fyrirhuguð dagskrárstefna, m.a. hvert sé í megindráttum áætlað hlutfall tónlistar og talaðs máls, svo og hlutur fræðslu-, menningar-, frétta- og skemmtiefnis í dagskrá.
11.
Hvernig áætlað sé að afla tekna til útvarpsrekstrar.
12.
Hvort leyfa hafi verið aflað frá rétthöfum efnis.
13.
Hvenær útvarp eigi að hefjast ef leyfi fæst.
14.
Hvert verði auðkenni eða kallmerki viðkomandi útvarpsstöðvar.
15.
Til hve langs tíma leyfis sé óskað.


7. gr.
Meðferð umsókna.

Útvarpsréttarnefnd skal, áður en afstaða er tekin til umsóknar um leyfi til útvarps, leita umsagnar Póst- og fjarskiptastofnunar. Að fenginni þeirri umsögn ákveður útvarpsréttarnefnd hvort leyfi til útvarps skuli veitt. Ákvarðanir nefndarinnar þar að lútandi eru endanlegar á stjórnsýslustigi.


8. gr.
Skilmálar útvarpsleyfis.

Nú er leyfi til útvarps veitt og skal þá m.a. tekið fram í skilmálum leyfisins hver sé handhafi útvarpsleyfis, hvort um sé að ræða leyfi til hljóðvarps eða sjónvarps, hvort útvarpað verði um þráð eða þráðlaust, við hvaða svæði og útsendingartíma leyfi afmarkist, hversu lengi leyfi gildi og hvert vera skuli auðkenni eða kallmerki útvarpsstöðvar. Þá skal ennfremur koma fram hvort heimilt sé að útvarpa á öðrum tungumálum en íslensku. Þá skal koma fram í leyfisskilmálum hvort útvarpsleyfi sé veitt á grundvelli yfirlýsts tilgangs umsækjanda að beita sér fyrir tilteknum málstað.

Rekstri, bókhaldi og fjárreiðum útvarpsstöðvar skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjárreiðum útvarpsleyfishafa.

Í leyfisskilmálum skal ennfremur tekið fram að leyfið sé að öðru leyti háð ákvæðum útvarpslaga, ákvæðum reglugerðar þessarar og eftir því sem við á ákvæðum annarra reglugerða sem settar verði á grundvelli útvarpslaga.

Útvarpsleyfisgjald er ákveðið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.


9. gr.
Tilkynning um útvarpsstjóra.

Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarsmenn hennar tilkynna útvarpsréttarnefnd hver sé útvarpsstjóri er beri ábyrgð á útvarpsefni. Breyting í þeim efnum skal og tilkynnt útvarpsréttarnefnd.


10. gr.
Breyting á skilmálum útvarpsleyfis.

Nú óskar handhafi útvarpsleyfis að breyting sé gerð á skilmálum leyfisins og skal hann þá sækja um það til útvarpsréttarnefndar.


11. gr.
Endurnýjun útvarpsleyfis.

Óski handhafi útvarpsleyfis eftir endurnýjun leyfis skal hann sækja um það til útvarpsréttarnefndar og skal slík umsókn hafa borist útvarpsréttarnefnd a.m.k. tveimur mánuðum áður en gildandi útvarpsleyfi rennur út. Ef ástæða þykir til getur útvarpsréttarnefnd breytt skilmálum við endurnýjun útvarpsleyfis.


IV. KAFLI
Auglýsingar.
12. gr.

Auglýsing er hvers konar tilkynning sem útvarpað er gegn endurgjaldi eða í eigin þágu útvarpsstöðvar og felur í sér kynningu á vöru eða þjónustu þ.m.t. tilkynningar frá sjónvarpsstöð í tengslum við dagskrárefni hennar sjálfrar og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni.


13. gr.
Auglýsingar og börn.

Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út auglýsingar, sem gætu haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi auglýsingar sem fela í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái.

Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að:

a. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
b. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
c. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks,
d. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.

Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um fjarsöluþætti. Í slíkum þáttum er óleyfilegt að hvetja börn til þess að gera samninga um kaup eða leigu á vöru eða þjónustu.


14. gr.
Birting auglýsinga.

Almennt skulu auglýsingar fluttar saman í heild í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða. Skulu auglýsingatímar sérstaklega auðkenndir sem slíkir með hljóðmerki eða myndskilti og þarf auðkenningin ekki að vera hin sama við upphaf og lok auglýsingatímans. Sama skal gilda um fjarsöluinnskot. Flutningur einstakra auglýsinga eða fjarsöluinnskota milli dagskrárliða er óheimill nema í undantekningartilvikum t.d. ef um er að ræða óvenjulega langar auglýsingar, t.d. 10–15 mínútna langar.


15. gr.
Bann við rofi dagskrárliða.

Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. er heimilt er að rjúfa útsendingu einstakra dagskrárliða ef fullnægt er skilyrðum 16. gr. Þó er ekki heimilt að rjúfa útsendingu eftirgreindra dagskrárliða með auglýsingum eða fjarsöluinnskotum:

1. Guðsþjónustu eða trúarlega dagskrá.
2. Fréttir, þ.e. dagskrárliði þar sem áhorfendum eru fluttar ritstýrðar upplýsingar um nýlega viðburði.
3. Fréttatengda dagskrárliði, þ.e. þættir um málefni líðandi stundar ef þeir eru styttri en 30 mínútur.
4. Dagskrá fyrir börn.

Upplýsingar í veðurlýsingu eða veðurspá, teljast ekki til frétta eða fréttatengds efnis í skilningi þessarar greinar.


16. gr.
Rof dagskrárliða.

Ef um er að ræða dagskrárliði samkvæmt a- til c-lið er heimilt að rjúfa útsendingu dagskrárliðarins með auglýsingum eða fjarsöluinnskotum sem hér segir, enda leiði rof dagskrárliðarins ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerði rétt rétthafa:

a. Dagskrárliðir sem eru samsettir úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrár eða sambærilegir dagskrárliðir sem eru samsettir af þáttum sem eru hluti af efnislegri heild, en eru aðgreindir af eðlilegum efnis- eða framvinduskilum sem hefðu orðið án auglýsingatímans. Dagskrárliði er að framan greinir er heimilt að rjúfa með útsendingu auglýsinga ef það er gert á milli hinna sjálfstæðu þátta, hléa eða skila í dagskrárliðnum.
b. Leiknar kvikmyndir sem ætlaðar eru til sýninga í kvikmyndahúsum og leiknar kvikmyndir fyrir sjónvarp sem eru lengri en 45 mín er heimilt að rjúfa með auglýsingum eða fjarsöluinnskoti einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið sem hér segir:
Leikin kvikmynd er skemmri en 45 mínútur: Óheimilt að rjúfa með auglýsingum.
Leikin kvikmynd er lengri en 45 mínútur: Heimilt að rjúfa einu sinni.
Leikin kvikmynd er 46-89 mínútur: Heimilt að rjúfa einu sinni.
Leikin kvikmynd er 90-109 mínútur: Heimilt að rjúfa tvisvar sinnum.
Leikin kvikmynd er 110-135 mínútur: Heimilt að rjúfa þrisvar sinnum.
Leikin kvikmynd er 136-180 mínútur: Heimilt að rjúfa fjórum sinnum.
Leikin kvikmynd er 180-225 mínútur: Heimilt að rjúfa fimm sinnum.
Skemmtiþættir og heimildarþættir sem gerðir eru fyrir sjónvarp, og sjónvarpsþáttaraðir falla ekki undir þennan lið eða framangreinda skilgreiningu.
c. Aðrir dagskrárliðir. Það er heimilt að rjúfa aðra dagskrárliði með útsendingu auglýsinga þannig að a.m.k. 20 mínútur líði milli auglýsingahléa í sama dagskrárlið.

17. gr.
Hlutfall auglýsingatíma af heildardagskrá.

Hlutfall auglýsingatíma má ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þetta jafngildir að meðaltali 9 mínútum á klukkustund.
Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin fjarsöluinnskot að undanskildum fjarsöluþáttum. Þetta jafngildir að meðaltali tólf mínútum á klukkustund.
Hlutfall auglýsinga og fjarsöluinnskota innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20% eða tólf mínútur á klukkustund.


18. gr.
Tímalengd auglýsinga.

Heimill útsendingartími sjónvarpsstöðva á auglýsingum í sjónvarpsstöðvum er sem hér segir:

1. Í sjónvarpsdagskrám skal hlutfall auglýsingatíma ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin fjarsöluinnskot, að undanskildum fjarsöluþáttum þ.e. sjónvarpsdagskrám a.m.k. 15 mínútur að lengd, sem eingöngu eru helgaðar fjarkaupum.
2. Hlutfall auglýsinga og fjarsöluinnskota innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20%.

Ákvæði greinar þessarar taka ekki til útsendingar:

a. Tilkynninga frá sjónvarpsstöð í tengslum við dagskrárefni hennar sjálfrar og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni.
b. Tilkynninga um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.

V. KAFLI
Kostun.
19. gr.

Heimilt er útvarpsstöð að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða, þó aldrei frétta eða fréttatengds efnis, þ.e. að afla fémæts framlags lögaðila eða einstaklinga til framleiðslu eða útsendingar dagskrárliða í útvarpi, með það fyrir augum að vekja athygli á nafni þess aðila, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum enda sé gætt eftirfarandi skilyrða:

a. Kostaðar útvarpsdagskrár séu ljóslega auðkenndar sem slíkar með kynningu, nafni og/eða vörumerki kostanda í upphafi og/eða lok dagskrár. Óheimilt er að rjúfa dagskrárlið til kynningar á kostanda. Ef heimilt er að rjúfa dagskrárlið með útsendingu auglýsinga eða fjarsöluinnskota má birta kynningu á kostanda dagskrárliðarins við upphaf og lok auglýsingatímans. Kynning á kostanda má ekki fela í sér frekari kynningu á vöru eða þjónustu kostanda hvorki í texta né tali.
b. Kostandi hafi ekki áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar og kostunin raskar ekki ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar.
c. Efni hins kostaða dagskrárliðar feli ekki í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostanda eða annars aðila, t.d. með því að auglýsa slíka vöru eða þjónustu sérstaklega.
d. Framleiðendum og söluaðilum lyfja er heimilt að kynna nafn eða ímynd fyrirtækis síns með kostun útvarpsdagskrár, enda sé ekki um að ræða kynningu á einstökum lyfjategundum eða læknisfræðilegri meðferð.

VI. KAFLI
Dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum.
20. gr.

Sjónvarpsstöðvar skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. mgr. 7. gr. útvarpslaga, á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Sjónvarpsstöðvar skulu leggja áherslu á að svo stór hluti af verkum sjálfstæðra framleiðenda sem unnt er sé sýndur innan fimm ára frá því að gerð þeirra lauk.

Það telst vera sjálfstæður framleiðandi í merkingu 1. mgr., ef ein sjónvarpstöð á ekki meira en 1/4 hluta í framleiðslufyrirtækinu eða tvær eða fleiri sjónvarpsstöðvar eiga ekki samanlagt meira en helming í fyrirtækinu, enda hafi það ekki á seinustu þremur árum framleitt meira en 9/10 hluta af sjónvarpsefni sínu fyrir sömu sjónvarpsstöð.


VII. KAFLI
Vernd barna.
21. gr.

Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út dagskrárefni, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni eða fyrir kl. 23.

Dagskrárefni, sem ekki er talið við hæfi barna, sbr. 1. mgr., skal jafnframt einungis sýnt á þann hátt að tryggt sé með tæknilegum ráðstöfunum svo sem með læsingu útsendrar dagskrár að börn á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar. Þegar slíkt dagskrárefni er sent út skal fara á undan því munnleg viðvörun eða það auðkennt með sjónrænu merki allan þann tíma sem útsendingin stendur yfir.


22. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 10., 14. og 35. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 610/1989, sbr. reglugerð nr. 28/1991 um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 611/1989 um auglýsingar í útvarpi.


Menntamálaráðuneytinu, 16. janúar 2002.

Björn Bjarnason.
Guðríður Sigurðardóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica