Menntamálaráðuneyti

611/1989

Reglugerð um auglýsingar í útvarpi - Brottfallin

1. gr.

Auglýsingar skulu vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni útvarps, hljóðvarps eða sjónvarps, þannig að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum.

Óheimilt er að birta auglýsingar með þeim hætti að sýna firmamerki eða vörumerki, sem innfellda mynd í útsendri sjónvarpsdagskrá.

 

2. gr.

Auglýsingar sem ætlaðar eru til flutnings í útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

1. Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Heimilt er þó að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar.

2. Auglýsingar skulu ekki brjóta í bága við almennt velsæmi.

3. Auglýsingar mega ekki brjóta í bága við íslensk lög svo sem almenn hegningarlög, útvarpslög, lög um lækningaleyfi, lyfsölulög, áfengislög, lög um tóbaksvarnir, lög um óréttmæta viðskiptahætti, og lög um jafnrétti kynjanna.

4. Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.

5. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu og hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagssamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokka.

6. Í auglýsingum má ekki felast ósanngjarn samanburður við aðra vöru eða þjónustu.

7. Auglýsingar skulu ekki sýna eða lýsa á neinn hátt hættulegu atferli eða atvikum þar sem öryggis er ekki gætt, nema sérstök ástæða sé til í menntunarlegum eða félagslegum tilgangi, svo sem auglýsingar vegna slysavarna eða tóbaksvarna. Varúð skal sérstaklega viðhöfð í auglýsingum sem höfða til barna eða unglinga eða sýna slíka aldursflokka.

8. Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Ekki má í auglýsingum notfæra sér trúgirni og reynsluleysi barna eða vekja hjá þeim þá trú að þeim sé eitt eða annað nauðsynlegt svo sem vegna samanburðar við önnur börn eða vegna útlits.

Auglýsingar sem beint er til barna eða eru líklegar til að hafa áhrif á börn skulu ekki geyma staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað þau geðrænt eða siðferðilega.

9. Auglýsing má ekki vera til þess fallin að vekja ótta.

10. Auglýsing má ekki hvetja til ofbeldis.

11. Hafna ber auglýsingu ef gerð hennar hefur miðast við að hún hefði önnur áhrif á áhorfendur en verða mega þeim ljós.

Þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni er sýnir atburði sem gerast í sömu andrá, skulu auglýsingar sem eru hluti af slíku dagskrárefni undanþegnar ákvæðum 1. tl. 1. mgr. þessarar greinar.

 

3. gr.

Auglýsingatímum skal jafnan hagað þannig að ekki leiði til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi.

 

4. gr.

Gæta skal þess að auglýsingar séu lausar við ótilhlýðilegan áróður eða árásir.

 

5. gr.

Auglýsandi ber fulla ábyrgð á efni auglýsingar. Hann skal bera allan kostnað af gerð auglýsingar og flutningi hennar, þar á meðal greiðslum vegna höfundarréttar eða flytjendaréttar tóna eða talaðs máls og birtingarréttar kyrr- og kvikmynda.

 

6. gr.

Heimilt er að ákveða mismunandi gjald fyrir hina ýmsu auglýsingatíma.

Á allar auglýsingar í útvarpi skal leggjast sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem skal vera 10% og rennur það til Menningarsjóðs útvarpsstöðva.

 

7. gr.

Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins setur nánari reglur um auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Aðrir aðilar sem fengið hafa leyfi til útvarps geta sett nánari reglur um auglýsingar í sínum útvarpsstöðvum.

Reglur sem settar eru samkvæmt 1. og 2. mgr. þessarar greinar mega ekki ganga gegn ákvæðum þessarar reglugerðar. .

 

8. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu lögum samkvæmt.

 

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. og 38. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 og kemur í stað reglugerða nr. 512/1986, nr. 608/1987, nr. 496/1988 og nr. 550/1988. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 22. desember 1989.

 

Svavar Gestsson.

Þórunn J. Hafstein.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica