Menntamálaráðuneyti

28/1991

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útvarp samkvæmt tímabundnu leyfi nr. 610/1989. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breytingu á reglugerð um útvarp samkvæmt tímabundnum

leyfum nr. 610/1989.

1. gr.

6. gr. orðist svo:

Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og taka þátt í því að treysta grundvöll íslenskrar tungu. Skal stefnt að því að hlutfall innlends efnis aukist á ári hverju frá því sem er við setningu þessarar reglugerðar uns a.m.k. helmingur alls efnis stöðvanna er íslenskt, sem útvarpsstöðvar framleiða sjálfar eða kaupa af innlendum framleiðendum.

Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð eftir því sem kostur er láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

Handhafar útvarpsleyfa sem stunda sjónvarpsrekstur skulu við lok hvers árs gera útvarpsréttarnefnd og Íslenskri málnefnd grein fyrir þróun innlends dagskrárefnis á stöðvum sínum og þeirri stefnu sem þær hyggjast fylgja á komandi ári. Mun málnefndin þá gera menntamálaráðuneytinu grein fyrir niðurstöðum sínum með skýrslu um íslenskt mál í fjölmiðlum þeim sem starfa eftir útvarpslögum. Skýrslan birtist einu sinni á ári í febrúarmánuði.

2. gr. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 17. janúar 1991.

Svavar Gestsson.

Þórunn J. Hafstein.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica