Menntamálaráðuneyti

610/1989

Reglugerð um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum - Brottfallin

REGLUGERÐ

um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum.

 

1. gr.

Veita má tímabundin leyfi til útvarps, hljóðvarps eða sjónvarps, fyrir almenning á afmörkuðum svæðum. Leyfi þessi má veita sveitarfélögum, skráðum hlutafélögum, skráðum samvinnufélögum, öðrum skráðum félögum með takmarkaðri ábyrgð, skráðum sameignarfélögum, skráðum samlagsfélögum. sjálfseignarstofnunum sem eru undir opinberu eftirliti, lögráða einstaklingum og öðrum sambærilegum aðilum. Hvorki er heimilt að veita erlendum aðila leyfi til útvarpsrekstrar, né félagi eða stofnun þar sem eignarhlutdeild erlendra aðila er meiri en 10%.

Með útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, er átt við hvers konar dreifingu dagskrárefnis handa almenningi með rafsegulöldum hvort heldur í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust.

Útsending sem aðeins nær til þröngs hóps innan heimilis eða húsakynna fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsi, gistihúsi, skóla eða verksmiðju, telst eigi útvarp í skilningi reglugerðar þessarar.

 

2. gr.

Útvarpsréttarnefnd veitir leyfi til útvarps í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og fylgist með því að laga- og reglugerðarákvæðum um útvarpsrekstur samkvæmt tímabundnum leyfum og skilmálum slíkra Leyfa sé fylgt.

Útvarpsréttarnefnd heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar fundi og stýrir þeim. Skylt er formanni að kveðja til fundar ef tveir nefndarmanna æskja þess.

Fundur í útvarpsréttarnefnd er lögmætur, ef meirihluti nefndarmanna er viðstaddur. Ákvörðun útvarpsréttarnefndar er því aðeins lögmæt að meirihluti útvarpsréttarnefndarmanna taki þátt í atkvæðagreiðslu. Um niðurstöður ræður afl atkvæða.

Halda skal gerðarbók um fundi útvarpsréttarnefndar. Þar skal greina frá þeim málum sem til meðferðar eru á fundum nefndarinnar, niðurstöðum og úrskurðum útvarpsréttarnefndar svo og öðru því sem miklu þykir skipta.

Um vanhæfi einstakra nefndarmanna til meðferðar einstakra mála skulu gilda ákvæði 36. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, eftir því sem við getur átt.

Áður en afgreiddar eru umsóknir um leyfi til útvarps, kærumál skv. 22. gr., afturköllun leyfa eða önnur mál er varða einstaka umsækjendur eða rétthafa samkvæmt útvarpsleyfi, ber að veita þeim aðilum er málið varðar kost á að tjá sig um það, munnlega eða skriflega, þ. á m. með liðsinni lögmanns ef því er að skipta.

Öllum meiriháttar málum skal ráðið til lykta með úrskurði. Úrskurður skal vera skriflegur og rökstuddur. Úrskurð skal tilkynna með ábyrgðarbréfi eða á annan jafn tryggilegan hátt.

Útvarpsréttarnefnd ræður sér starfsmann eða starfsmenn eftir því sem með þarf og fjárveitingar leyfa.

Menntamálaráðherra ákveður útvarpsréttarnefndarmönnum þóknun. Kostnaður við starfsemi útvarpsréttarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

 

3. gr.

Nú óskar einhver að fá leyfi til útvarps og skal hann þá senda umsókn til útvarpsréttarnefndar. Í umsókn skal greina

1. Hvernig fjárhagslegri ábyrgð umsækjanda sé háttað og eignaraðild fyrir komið. 2. Hvort óskað sé leyfis til hljóðvarps, sjónvarps eða hvors tveggja.

3. Hvort útvarpa eigi um þráð eða þráðlaust.

4. Hvert verði heimili og varnarþing útvarpsstöðvar, til hvaða svæðis eða svæða útvarpi er ætlað að ná og hvernig útsendingum verði hagað.

5. Hverjir séu áætlaðir útsendingartímar.

6. Hver sé fyrirhuguð dagskrárstefna, m. a. hvert sé í megindráttum áætlað hlutfall tónlistar og talaðs máls, svo og hlutur fræðslu-, menningar-, frétta- og skemmtiefnis í dagskrá.

7. Hvernig áætlað sé að afla tekna til útvarpsrekstrar.

8. Hvort annarra tilskilinna leyfa hafi verið aflað. sbr. t. d. 15. gr. og 17. gr.

9. Hvenær útvarp eigi að hefjast ef leyfi fæst.

10. Hvert verði auðkenni eða kallmerki viðkomandi útvarpsstöðvar. 11. Til hve langs tíma leyfis sé óskað.

 

4. gr.

Útvarpsréttarnefnd skal, áður en afstaða er tekin til umsóknar um leyfi til útvarps, leita umsagnar Póst- og símamálastofnunarinnar um þau átriði umsóknarinnar er greinir í 4. og 5. lið 3. gr. Að fenginni þeirri umsögn ákveður útvarpsréttarnefnd hvort leyfi til útvarps skuli veitt. Ákvarðanir nefndarinnar þar að lútandi eru endanlegar.

Nú er leyfi veitt og skal þá m. a. tekið fram í skilmálum leyfisins hver sé handhafi útvarpsleyfis, hvort um sé að ræða leyfi til hljóðvarps eða sjónvarps, hvort útvarpað verði um þráð eða þráðlaust, við hvaða svæði og útsendingartíma leyfi afmarkist, hversu lengi leyfi gildi, hvert vera skuli auðkenni eða kallmerki útvarpsstöðvar, og hvert sé leyfisgjald. Í leyfisskilmálum skal ennfremur tekið fram að leyfið sé háð ákvæðum útvarpslaga, ákvæðum reglugerðar þessarar og eftir því sem við á ákvæðum annarra reglugerða sem settar verði á grundvelli útvarpslaga. Þá skal leyfi bundið því skilyrði að aflað verði heimildar rétthafa samkvæmt höfundalögum að því er dagskrárefni varðar.

Nú óskar handhafi útvarpsleyfis að breyting sé gerð á skilmálum leyfisins og skal hann þá sækja um það til útvarpsréttarnefndar.

Póst- og símamálastofnunin gefur út leyfisbréf handa þeim aðilum sem fengið hafa lögmætt leyfi til útvarps. Í leyfisbréfi skal kveðið á um tæknilega eiginleika í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Eingöngu má útvarpa á metra- og desímetrabylgju. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að veita heimild til að útvarpa á miðbylgjum þar sem landfræðilegar aðstæður torvelda útsendingar á metra- og desímetrabylgju.

 

5. gr.

Leyfi til hljóðvarps skal veitt til 3ja ára þegar það er veitt aðila í fyrsta sinn, en eftir það til 5 ára í senn. Leyfi til sjónvarps skal í fyrsta sinn veitt til 5 ára, en eftir það til 7 ára í senn. Veita má leyfi til skemmri tíma, sé um það sótt.

Leyfi til útvarps verða ekki framseld.

Hafi handhafi útvarpsleyfis ekki hafið útvarp innan 8 mánaða frá dagsetningu leyfis útvarpsréttarnefndar fellur leyfið sjálfkrafa niður. Sé útvarpsrekstri hætt og eigi hafinn á ný innan 4 mánaða telst leyfi til útvarpsrekstrar sjálfkrafa niður fallið.

Óski handhafi útvarpsleyfis eftir endurnýjun leyfis skal hann sækja um það til útvarpsréttarnefndar og skal slík umsókn hafa borist útvarpsréttarnefnd a. m. k. einum mánuði áður en gildistími leyfis rennur út. Útvarpsréttarnefnd skal leita umsagnar Póst- og símamálastofnunar áður en afstaða er tekin til endurnýjunar leyfis. Ef ástæða þykir til getur útvarpsréttarnefnd breytt skilmálum við endurnýjun útvarpsleyfis.

Útvarpsréttarnefnd ákveður leyfisgjald, sem handhafa útvarpsleyfis ber að greiða þegar leyfi til útvarps er veitt eða endurnýjað. Leyfisgjald sem rennur í ríkissjóð skal ákveða sérstaklega fyrir hljóðvarp annars vegar og sjónvarp hins vegar en skal í hvoru tilviki fyrir sig vera hið sama fyrir alla.

Leyfisgjald skal endurskoða árlega með tilliti til verðlagsbreytinga.

Þegar leyfi til útvarps er veitt til skemmri tíma en greinir í I. mgr. 5. gr. skal ákvarða leyfisgjald sérstaklega með hliðsjón af markmiðum með útvarpi og gildistíma leyfis.

 

6. gr.

Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpi, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða neðanmálstexti á íslensku, eftir því sem við á hverju sinni. Það skal þó ekki eiga við, þegar í hlut eiga erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni, er sýnir atburði, sem gerast í sömu andrá. Í síðastgreindu tilviki skal að jafnaði fylgja kynning eða endursögn þular.

Allt íslenskt tal og texti í útvarpi skal vera á lýtalausu máli.

 

7. gr.

Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og gæta þess við umfjöllun umdeildra mála að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi stefnum og skoðunum.

 

8. gr.

Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarsmenn hennar tilkynna útvarpsréttar­nefnd hver sé útvarpsstjóri er beri ábyrgð á útvarpsefni samkvæmt 19.-21. gr. Breyting í þeim efnum skal og tilkynnt útvarpsréttarnefnd.

 

9. gr.

Útvarpsstöðvar, er leyfi fá til útvarps, skulu fyrir lok hvers árs gera útvarpsréttarnefnd skriflega grein fyrir því hvort í ráði séu breytingar á þeirri dagskrárstefnu sem áður hefur verið fylgt.

 

10. gr.

Rekstri, bókhaldi og fjárreiðum útvarpsstöðvar skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjárreiðum handhafa útvarpsleyfis. Útvarpsréttarnefnd getur krafist upplýsinga úr bókhaldi og reikningum útvarpsstöðvar ef þess er talin þörf við úrlausn þess hvort laga- eða reglugerðarákvæði eða leyfisskilmálar hafa verið brotin. Skal sérstakur trúnaðarmaður nefndarinnar annast öflun og könnun slíkra gagna í umboði nefndarinnar. Nefndarmenn, starfsmenn og trúnaðarmenn nefndarinnar skulu bundnir þagnarskyldu um allt það sem leynt á að fara.

 

11. gr.

Skylt er útvarpsstöðvum að lesa tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnarfélögum eða hjálparsveitum. Gera skal hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst.

 

12. gr.

Útvarpsstöðvar bera ábyrgð á því efni, sem þær senda út, í samræmi við lög um vernd barna og ungmenna, lög um bann við ofbeldiskvikmyndum, hegningarlög eða önnur lög sem við eiga.

 

13. gr.

Skipulagning og mótun dagskrár og ákvarðanir um útvarp einstakra dagskrárliða skulu vera í höndum stjórnenda útvarpsstöðvar. Sá sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar skal sjálfur bera kostnað af öllum fjárfestingum, rekstri og dagskrá útvarpsstöðvar. Heimilt er þó að kostnaður við gerð eða öflun einstakra dagskrárliða sé borinn af öðrum aðilum, en þá skal þess getið sérstaklega í kynningu við upphaf og lok dagskrárliðar.

 

14. gr.

Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með auglýsingum, afnotagjaldi eða sérstöku gjaldi vegna útsendingar fræðslu- og skýringarefnis sem áskilja má úr hendi þess sem óskar útvarps á slíku efni. Gjaldskrár fyrir auglýsingar skulu háðar samþykki útvarpsréttarnefnd­ar. Um auglýsingar í útvarpi skal að öðru leyti fara samkvæmt sérstakri reglugerð.

 

15. gr.

Leyfi til útvarps um þráð er háð því að sveitarstjórnir heimili lagningu þráðar um lönd í sveitarfélaginu.

Lagning og not þráðar í því skyni eingöngu að dreifa viðstöðulaust útvarpsefni óbreyttu skal fullnægja reglum sem samgönguráðuneytið setur um gerð og notkun slíkra kerfa og eftirlit með þeim. Notkun slíkra kerfa skal háð leyfi Póst- og símamálastofnunar.

 

16. gr.

Sé móttaka í útvarpi um þráð bundin við íbúðasamsteypu, 36 íbúðir eða færri, sem eru innan samfellds svæðis er útvarpsrekstur undanþeginn skilyrðum 6. gr., 9. gr., 13. gr. og 22. gr. reglugerðar þessarar.

Útvarpsstöð, sem einungis dreifir efni sem móttekið er um gervihnött er undanþegin 13. gr. reglugerðar þessarar.

 

17. gr.

Móttaka eða sending útvarpsefnis um gervihnött milli fastra stöðva er háð samningi sendanda og móttakanda og samþykki Póst- og símamálastofnunar. Öðrum aðilum er óheimil móttaka slíkra sendinga.

Dreifing þráðlaust eða um þráð á dagskrá, sem komin er til móttökustöðvar um gervihnött, er óheimil, nema með samningi við viðkomandi útvarpsstöð, er dagskrána sendi, og með samþykki Póst- og símamálastofnunar.

 

18. gr.

Útvarpsstöð er heimilt að reisa sendistöð og endurvarpsstöð; eiga og reka senditæki, viðtæki og önnur slík tæki sem eru sérstaklega framleidd fyrir útvarpssendingar, enda fullnægi tækin reglum sem Póst- og símamálastofnunin setur um öldutíðni, útgeislun og fleira í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir varðandi fjarskipti sem Ísland er aðili að.

 

19. gr.

Hver sá sem leyfi fær til útvarps skal varðveita í a. m. k. 18 mánuði upptöku af öllu frumsömdu útsendu efni. Þó skal heimilt að varðveita fréttir í handriti. Allt annað útsent efni, þ. á m. þular- og dagskrárkynningar, skal varðveita í a. m. k. 3 mánuði.

Skylt er að láta þeim, sem telur misgert við sig í útsendingu, í té afrit af upptöku þeirrar útsendingar, ef hann krefst þess skriflega meðan varðveisluskylda á viðkomandi efni helst, enda greiði hann innkaupsverð mynd- eða hljóðbands þess sem honum er látið í té.

Skylt er að afhenda útvarpsréttarnefnd afrit af upptöku útsendingar ef nefndin krefst þess.

 

20. gr.

Ef útsending á útvarpsefni brýtur í bága við lög fer um refsi- og fébótaábyrgð svo sem hér segir:

Sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni ber ábyrgð á því. Gildir það bæði um efni sem útvarpað er samtímis því að það er flutt og efni sem útvarpað er samkvæmt áður gerðri upptöku. Ákvæði þessarar mgr. taka einnig til samtals í útvarpi, þannig að hver, sem tekur þátt í samtali í eigin nafni, ber ábyrgð á sínu framlagi í því.

Flytjandi ber ábyrgð á efni sem annar maður hefur samið.

Á samsettu dagskrárefni ber sá ábyrgð sem útsendingu stjórnar hverju sinni, enda sé ekki um að ræða flutning eða samtal sem ábyrgðarreglur 2. eða 3. mgr. taka til. jafnan skal skráð fyrirfram í gerðabók hver sé stjórnandi útsendingar.

Auglýsandi ber ábyrgð á auglýsingu. Útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni.

Nú hefur tiltekinn starfsmaður útvarpsstöðvar, sbr. 4. mgr., eða útvarpsstjóri, sbr. 6. mgr., orðið fébótaskyldur og ber handhafi útvarpsleyfis þá ásamt honum ábyrgð á greiðslu bóta.

 

21. gr.

Engan skal dæma til ábyrgðar vegna útsendingar á útvarpsefni né fyrir hlutdeild í útsendingu annan en þann sem ábyrgð ber eftir ákvæðum 20. gr.

Skylt er útvarpsstöð að veita hverjum þeim, sem telur rétti sínum hafa verið hallað með útsendingu á útvarpsefni, fullnægjandi upplýsingar um hver hafi borið ábyrgð á útsendingunni samkvæmt ákvæðum 20. gr.

Um rétt til málssóknar út af brotum í sambandi við útsendingu útvarpsefnis fer eftir almennum reglum laga. Refsiábyrgð og fébótaskylda falla niður ef 6 mánuðir líða frá útsendingu án þess að einkamál sé höfðað, krafa hafi verið borin fram um opinbera málssókn, þegar það á við, eða hafin sé opinber réttarrannsókn út af broti ef það á að s,eta skilyrðislausri opinberri saksókn.

 

22. gr.

Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að útvarpsstöð hafi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. reglugerðar þessarar gagnvart þeim og hún synjar þeim að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dagskrá með þeim hætti sem þeir vilja við una, geta lagt málið fyrir útvarpsréttarnefnd. Nefndin skal þá, eins fljótt og við verður komið, fella úrskurð um kæruefnið. Nú úrskurðar nefndin kæranda í vil og getur hún þá kveðið á um efni og birtingarhætti þeirra athugasemda eða leiðréttinga sem útvarpsstöð ber að birta.

Úrskurður útvarpsréttarnefndar er bindandi fyrir málsaðila.

 

23. gr.

Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu leyfisskilmálar brotnir, enda hafi áður verið búið að vara handhafa útvarpsleyfis við og um alvarleg og ítrekuð brot sé að

ræða. Afturköllun skal standa í 2 mánuði, en séu leyfisskilmálar brotnir á ný getur útvarpsréttarnefnd fellt leyfið niður að fullu og öllu.

24. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar refsingu samkvæmt lögum

 

25. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. og 38. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 og kemur í stað reglugerða nr. 511/1986, nr. 607/1987 og nr. 555/1988. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 22. desember 1989.

 

Svavar Gestsson.

Þórunn J. Hafstein.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica