Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

892/1999

Reglugerð fyrir talnagetraunir Íslenkrar getspár - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

1. Leyfishafi.

1.1 Íslensk getspá er félag í eigu Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), sem stofnað er til að starfrækja talnagetraunir og/eða bókstafagetraunir í þeim tilgangi að afla fjár til eflingar íþróttum á vegum áhugamanna um íþróttir í landinu í félögum innan ÍSÍ og UMFÍ og til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum ÖBÍ eða til að standa undir annarri starfsemi þess í þágu öryrkja.

Heimili félagsins, aðalskrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.

2. Tegundir talnagetrauna.

2.1 Félagið starfrækir talnagetraunir (lottó) undir heitunum Lottó 5/38, Jóker og Víkingalottó (Lottó 6/48), en hina síðastnefndu talnagetraun starfrækir það í samvinnu við eftirgreind talnagetraunafyrirtæki: AB Svenska Spel, Svíþjóð, Norsk Tipping A/S, Noregi, OY Veikkaus ab, Finnlandi, og Dansk Tipstjeneste AS, Danmörku. Um getraunastarfsemina gilda eftirfarandi reglur:

3. Leikspjöld, útfylling þeirra og greiðsla.

3.1 Íslensk getspá gefur út og dreifir leikspjöldum til þátttöku í talnagetraununum. Leikspjöld má einnig nálgast með rafrænum hætti í gegnum tölvu, síma eða gagnvirkt sjónvarp. Á hverju leikspjaldi Lottó 5/38 eru 10 leikir (raðir), sem merktir eru bókstöfunum A, B, C, D, E, F, G, H, I og J, og er hver leikur með tölunum 1-38. Getur hver þátttakandi tekið þátt í einum til tíu leikjum á hverju leikspjaldi. Á leikspjöldum fyrir Lottó 5/38 er sérstakur reitur sem þátttakendur merkja í ef þeir vilja taka þátt í Jóker en þátttaka í Jóker er bundin þátttöku í Lottó 5/38. Þátttakendur geta valið 5 tölur úr tölunum 0-9 til að mynda Jókertölur sínar.

Á hverju leikspjaldi Víkingalottós eru 10 leikir (raðir), sem merktir eru bókstöfunum A, B, C, D, E, F, G, H, I og J, og er hver leikur með tölunum 1-48. Getur hver þátttakandi tekið þátt í einum til 10 leikjum á hverju leikspjaldi.

Á sölustöðum skulu vera leiðbeiningar um þátttöku í viðkomandi talnagetraun. Þar skal og vera hvatning til þátttakenda að rita nafn sitt á þátttökukvittun í öryggisskyni.

3.2 Leikir í talnagetraununum fara að jafnaði fram einu sinni í viku samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar Íslenskrar getspár.

3.3 Leikirnir felast í því að þátttakandi strikar lóðrétt með blýanti eða dökkum penna (ekki rauðum lit) í reiti fimm mismunandi talna í Lottó 5/38 en í reiti sex mismunandi talna í Víkingalottói, sem hann velur af þeim tölum sem tilgreindar eru í hverri röð. Ef þátttaka fer fram með rafrænum hætti, í gegnum tölvu, síma eða gagnvirkt sjónvarp, velur þátttakandi tölur á tilheyrandi skjá. Geri þátttakandi villu skal hann ógilda þá röð með því að strika lóðrétt yfir, eða velja með því að ýta (smella) á ef um rafrænt leikspjald er að ræða, þar til gerðan ógildingarreit viðkomandi raðar, og gildir þá ekki sú röð. Þátttakandi í Jóker ritar, eða velur með því að ýta (smella) á ef um rafrænt leikspjald er að ræða, þær fimm tölur sem hann velur úr tölunum 0-9 í þar til gerða reiti á leikspjaldinu.

3.4 Að loknu vali á tölum samkvæmt lið 3.3 er leikspjaldið afhent söluaðila sem rennir því í sölukassa sem tengdur er tölvukerfi Íslenskrar getspár og skráir sjálfvirkt valdar Lottótölur. Jókertölur sem valdar eru á leikspjaldinu skráir söluaðili þó inn í tölvukerfið. Þátttakandi getur einnig tilkynnt þátttöku sína með því að skýra söluaðila munnlega frá vali sínu á tölum og þá sér söluaðili um skráningu þeirra talna í tölvukerfi Íslenskrar getspár. Þá getur þátttakandi óskað eftir að tölur hans verði valdar af handahófi í sölukassa. Þegar um rafræna þátttöku er að ræða staðfestir þátttakandi val sitt með því að ýta (smella) á „staðfesta“ eða sambærilegan lykil og fara upplýsingarnar þá með rafrænum hætti til Íslenskrar getspár.

3.5 Söluaðili skal síðan afhenda þátttakanda þátttökukvittun ásamt viðkomandi leikspjaldi gegn greiðslu. Á kvittun skal koma fram bókstafur þeirrar eða þeirra raða sem þátttaka er bundin við og þær tölur, er þátttakandi hefur valið í hverri röð, svo og Jókertölur ef þær eru valdar. Þá skal koma fram heildartala þeirrar fjárhæðar, sem greidd hefur verið, dagsetning útdráttar eða gildistími, ef tekið er þátt í fleiri en einni leikviku, og öryggisnúmer, sem auðkennir viðkomandi afgreiðslu.

Þátttakandi skal ganga úr skugga um að samræmi sé milli kvittunar og merkja á leikspjaldi, eða að hún sé í samræmi við munnleg fyrirmæli hans, hafi hann gefið tölur sínar upp munnlega. Þá ber þátttakanda að ganga úr skugga um að þátttökukvittun greini útdráttardag(a) eða gildistíma sem þátttaka er bundin við.

Þegar greiðsla er innt af hendi með rafrænum hætti leitar móðurtölva Íslenskrar getspár heimildar hjá viðkomandi kortafyrirtæki eða banka og fær staðfestingu á að viðkomandi greiðslukort/bankareikningur sé í gildi og heimild sé fyrir úttekt. Þegar greiðsla hefur verið staðfest getur þátttakandi prentað út eigin kvittun eða óskað eftir því að fá hana senda í pósti eða tölvupósti. Upplýsingar um greiðslu eru færðar á kvittunina.

Stjórn Íslenskrar getspár er heimilt að ákveða að þátttakanda, sem keypt hefur þátttökukvittun sem á eru 10 raðir eða fleiri, sé látin í té án greiðslu, sem kaupauki, þátttökukvittun sem á er 1-ein-röð.

3.6 Þátttakandi getur gert skriflegan samning um kaup á leikjum Íslenskrar getspár með því að gerast áskrifandi og greiða með greiðslukorti. Gildir sá samningur þar til honum er sagt upp eða ef samningur viðkomandi við greiðslukortafyrirtækið fellur úr gildi. Áskriftarsamningi fylgir kaupauki, þannig að þátttakandi greiðir einungis fyrir fjóra útdrætti mánaðarlega, þó svo að útdrættir séu fimm í einstökum mánuðum.

3.7 Leikspjald fyrir Lottó 5/38, Jóker og Víkingalottó gildir aldrei sem kvittun, en þátttakandi getur notað það aftur eða látið það gilda í 2, 5 eða 10 leikvikur, að eigin vali, ef hann óskar eftir óbreyttu talnavali, með því að strika lóðrétt yfir viðkomandi reit á leikspjaldi um fjölda vikna.

3.8 Þátttaka í talnagetraunum fer fram í samræmi við það er þátttökukvittun greinir. Telji þátttakandi að þátttökukvittun sé ekki í samræmi við leikspjald eða þær munnlegu upplýsingar, er hann gaf, skal hann bera fram kvörtun sína þegar í stað. Að öðrum kosti verður litið svo á að hann hafi með móttöku þátttökukvittunar samþykkt þátttöku í samræmi við þær tölur, er kvittunin greinir. Þátttakandi ber einn ábyrgð á þátttökukvittun sinni og á enga kröfu til vinnings nema gegn framvísun hennar. Íslensk getspá ber ekki ábyrgð á villu í prentun kvittunar og ábyrgð félagsins á rangri kvittun er takmörkuð við ógildingarverðmæti hennar samkvæmt lið 3.9. Félagið ber ekki ábyrgð á stolnum eða glötuðum kvittunum.

3.9       Þátttökukvittun má ógilda með því að skila henni aftur til söluaðila, enda sé það gert samdægurs og sala fór fram og það tímanlega að unnt sé að ljúka ógildingu á innfærslu hennar í tölvukerfi Íslenskrar getspár, áður en útdráttur fer fram. Sé þátttökukvittun ógilt, á greiðandi rétt á endurgreiðslu á sömu fjárhæð og hann greiddi. Þeir sem taka þátt með rafrænum hætti geta einnig óskað eftir því að fá endurgreiðslu og leggst þá fjárhæðin á sama reikning og notaður var til þess að greiða fyrir þátttöku í leiknum.

3.10 Verð fyrir hvern leik (röð) í Lottó 5/38 er kr. 50,- Jóker kr. 80,- og í Víkingalottói kr. 25,-. Aðeins er unnt að gerast þátttakandi hjá söluaðilum Íslenskrar getspár.

3.11 Öll vinnsla í tölvukerfi Íslenskrar getspár hvað varðar Lottó 5/38 og Jóker skal falla niður frá því 15 mínútum áður en útdráttur á að fara fram þar til útdrætti er að fullu lokið. Að því er varðar Víkingalottó skal vinnsla í tölvukerfinu falla niður 1 klukkustund áður en útdráttur á að fara fram.

4. Kerfisleikspjöld.

4.1 Heimilt er að gera sérstök leikspjöld fyrir þá, sem óska þess að nota kerfi við talnagetraunir. Í Lottó 5/38 skulu leikspjöld þessi vera fyrir 6, 7, 8, 9 eða 10 talnamöguleika og samsvara tölur þessar, 6, 21, 56, 126 eða 252 mismunandi fimm stafa töluröðum (leikjum) þeirra talna sem valdar eru. Kerfisleikspjald skal þátttakandi fylla út á þann veg að hann strikar lóðrétt í reiti þeirra talna, er hann velur úr tölunum 1-38 og staðfestir fjölda þeirra (6, 7, 8, 9 eða 10) með því að merkja aftan við viðkomandi tölur á leikspjaldinu.

4.2 Í Víkingalottói skulu leikspjöld þessi vera fyrir 7, 8, 9 eða 10 talnamöguleika og samsvara tölur þessar 7, 28, 84 eða 210 mismunandi 6 stafa talnaröðum þeirra talna sem valdar eru. Kerfisleikspjald skal þátttakandi fylla út á þann veg að hann strikar lóðrétt í reiti þeirra talna, er hann velur úr tölunum 1-48 og staðfestir fjölda þeirra (7, 8, 9 eða 10) með því að merkja aftan við viðkomandi tölur á spjaldinu.

4.3 Í framangreindum kerfum ákvarðast verð af fjölda raða og verði fyrir hvern leik (röð) sbr. lið 3.10.

5. Útdráttur vinninga.

5.1.1 Útdráttur vinninga í Lottó 5/38 fer fram opinberlega á laugardegi, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar Íslenskrar getspár að viðstöddum fulltrúa hennar og skipuðum eftirlitsmanni samkvæmt lið 10.1. Útdráttur vinninga fer þannig fram að í þar til gerðum stokki eru valdar fimm vinningstölur, aðaltölur, af tölunum 1- 38. Því næst er valin bónustala af þeim tölum sem þá eru eftir. Verði bilun í þar til gerðum stokki, sem velur vinningstölur og síðan bónustölu, skal dregið úr þar til gerðum spjaldastokki með 38 spjöldum með tölunum 1-38, fyrst fimm vinningstölur og síðan bónustölu, af þeim tölum sem þá eru eftir. Áður en slíkur útdráttur fer fram skal gengið úr skugga um að í spjaldastokknum séu spjöldin merkt tölunum frá 1-38.

Niðurstöður útdráttar og aðrar upplýsingar um framkvæmd hans skal færa í sérstaka gerðabók og undirrita af fulltrúa stjórnarinnar og eftirlitsmanninum.

5.1.2 Samtímis útdrætti sbr. 5.1.1. fer fram útdráttur í Jóker. Útdráttur fer þannig fram að fimm hjól, hvert með tölunum 0-9, eru sett í gang og við stöðvun hjólanna koma fram hinar fimm útdregnu tölur. Tölurnar, í þeirri röð sem þær birtast, mynda Jókertölur vikunnar. Verði bilun í einu eða fleirum af hinum fimm hjólum með tölunum 0-9, skal dregið úr einum eða allt að fimm, eftir því sem við á, þar til gerðum spjaldastokkum þar sem spjöldin eru merkt tölunum 0-9. Áður en slíkur útdráttur fer fram skal gengið úr skugga um að í spjaldastokkunum séu spjöldin merkt tölunum 0-9.

5.2 Útdráttur í Víkingalottói fer fram á hverjum miðvikudegi í heimalandi einhvers samstarfsaðila, undir eftirliti þarlendra yfirvalda, samkvæmt reglum sem samþykktar eru af opinberum eftirlitsaðilum samstarfsaðilanna, hér á landi af dómsmálaráðuneytinu. Þegar dráttur fer fram hér á landi fer um eftirlitið í samræmi við lið 5.1.1.

Útdrátturinn fer fram með þeim hætti að valdar eru sex aðaltölur af tölunum 1-48 og því næst eru valdar 2 bónustölur af þeim tölum sem þá eru eftir.

5.3 Beri útdráttardag upp á hátíðisdag er heimilt að framkvæma útdrátt næsta virkan dag á undan, eða á öðrum degi sem dómsmálaráðuneytið samþykkir. Vinningstölur fyrir Lottó 5/38, Jóker og Víkingalottó skulu birtar í fjölmiðlum.

5.4 Þeir sem hafa þátttökukvittun með tölum þeim, sem valdar hafa verið, annað hvort allar eða hluta þeirra í sama leik (röð), án tillits til röðunar þeirra sbr. þó 5.5.2., fá vinning í samræmi við ákvæði liða 5.5 - 5.8.

5.5 Til vinninga skal verja 40% af heildarsöluverði þátttökukvittana hverrar leikviku, þar með talið andvirði þátttökukvittana sem látnar eru þátttakendum í té sem kaupauki án endurgjalds. Vinningsfjárhæðin skiptist þannig:

5.5.1 Lottó 5/38:

a) 46% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa allar 5 aðaltölur réttar. Með vísan til 5. gr., lokamálsliðar 5.6, skal, ef 46% af heildarvinningsfjárhæð nær ekki 2 milljónum króna, bæta við fyrsta vinningsflokk fjárhæð, sem þarf til að vinningsfjárhæðin fari yfir 2 milljónir króna. Viðbót þessi skal hlaupa á 50.000 krónum.

b) 5% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar og auk þess rétta bónustölu. Með vísan til liðar 5.6., 3. mgr., er heimilt, ef 5% af heildarvinningsfjárhæð nær ekki 300.000 krónum, að bæta við þennan vinningsflokk fjárhæð sem þarf til að vinningsfjárhæðin fari yfir 300.000 krónur. Viðbót þessi skal hlaupa á 10.000 krónum.

c) 11% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar.

d) 26% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 3 aðaltölur réttar.

e) 12% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 2 aðaltölur réttar og auk þess rétta bónustölu.

5.5.2 Jóker:

Vinningar ráðast af því hve margar útdregnar tölur þátttakandi fær miðað við rétta röð útdreginna talna þannig að,

fyrir 5 tölur réttar greiðast kr. 1.000.000,-

fyrir 4 síðustu tölur réttar greiðast kr. 100.000,-

fyrir 3 síðustu tölur réttar greiðast kr. 10.000,-

fyrir 2 síðustu tölur réttar greiðast kr. 1.000,-

5.5.3 Víkingalottó:

a) Fyrsti vinningur er sameiginlegur hjá þátttökuaðilum sbr. 2. grein. Greiðir hvert talnagetraunafyrirtæki 0,035 ECU (European Currency Unit) af andvirði hvers selds leiks til þessa vinnings. Verðmæti hans í íslenskum krónum ákvarðast af kaupgengi ECU á útdráttardegi og skiptist jafnt á milli þeirra sem hafa allar 6 tölurnar réttar.

b) Til annarra vinninga renna 40% af heildarsölu hverrar leikviku hér á landi að frádreginni greiðslu Íslenskrar getspár til fyrsta vinnings sbr. a) lið og skiptast í vinningsflokka í eftirgreindum hlutföllum:

1. 28% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina af tveim bónustölum.

2. 22% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 5 aðaltölur réttar.

3. 35% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 4 aðaltölur réttar.

4. 15% skiptast jafnt á milli þeirra sem hafa 3 aðaltölur réttar og auk þess rétta eina af tveim bónustölum.

5.6 Þátttakendur hljóta eingöngu vinning í samræmi við hæsta fjölda talna í hverri röð, þ.e. sá sem hlýtur vinning samkvæmt a) lið hlýtur ekki vinning samkvæmt öðrum liðum, o.s.frv.

Vinningar í Lottó 5/38 og Víkingalottó skulu færðir niður í næsta heilan tug króna. Mismunur sem myndast með því skal yfirfærður til 1. vinnings einu sinni til tvisvar á ári, eftir nánari ákvörðun stjórnar.

Stjórn Íslenskrar getspár er heimilt að leggja viðbótarfé frá fyrirtækinu til vinninga í báðum leikjunum í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og við sérstök tækifæri þar sem lagt er fram fé frá fyrirtækinu til vinninga. Stjórnin skal leita samþykkis dómsmálaráðuneytisins fyrir slíkum framlögum og fyrirkomulagi útdráttar.

5.7 Komi í ljós við útdrátt í Lottó 5/38 að:

a) enginn þátttakandi hafi allar 5 aðaltölur réttar, skal vinningsfjárhæð þess flokks, án viðbótar samkvæmt lið 5.5.1.a, yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá allar fimm aðaltölur réttar í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með allar aðaltölur réttar í þeirri viku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.

b) enginn þátttakandi hafi 4 aðaltölur réttar auk bónustölu skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 4 aðaltölur réttar auk bónustölu í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með 4 aðaltölur réttar auk bónustölu í þeirri leikviku flyst vinningsupphæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.

c) enginn þátttakandi hafi fengið 4 aðaltölur réttar yfirfærist vinningur þess flokks til þeirra er fá vinning fyrir þrjár aðaltölur réttar.

5.8 Komi í ljós við útdrátt í Víkingalottói að:

a) enginn þátttakandi hafi allar 6 aðaltölur réttar, skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá allar sex aðaltölur réttar í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með allar aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.

b) enginn þátttakandi hafi 5 aðaltölur réttar auk bónustölu skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 5 aðaltölur réttar auk bónustölu í þeirri leikviku. Verði heldur ekki neinn þátttakandi með 5 aðaltölur réttar auk bónustölu í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.

c) enginn þátttakandi hafi 5 aðaltölur réttar skal vinningsfjárhæð þess flokks yfirfærast til næstu leikviku og koma í hlut þeirra er fá 5 aðaltölur réttar í þeirri leikviku. Verði enginn þátttakandi með 5 aðaltölur réttar í þeirri leikviku flyst vinningsfjárhæðin áfram til þar næstu viku o.s.frv.

d) enginn þátttakandi hafi 4 aðaltölur réttar yfirfærist vinningur þess flokks til þeirra er fá vinning fyrir 3 aðaltölur réttar auk bónustölu.

6. Vinningstölur.

Tölfræðilegar vinningslíkur í talnagetraununum eru sem hér segir:

Lottó 5/38:

 

Fimm aðaltölur

1:501.942

Fjórar aðaltölur og bónustala

1:100.388

Fjórar aðaltölur

1:3.137

Þrjár aðaltölur

1:95

Tvær aðaltölur og bónustala

1:101

Jóker:

 

Fimm réttar tölur

1:100.000

Fjórar réttar tölur

1:10.000

Þrjár réttar tölur

1:1.000

Tvær réttar tölur

1:100

Heildarupphæð vinninga er 46,25% að meðaltali.

 

Víkingalottó:

 

Sex réttar aðaltölur

1:12.271.512

Fimm réttar aðaltölur og bónustala

1:1.022.626

Fimm réttar aðaltölur

1:52.442

Fjórar réttar aðaltölur

1:950

Þrjár réttar aðaltölur og bónustala

1:393

7. Greiðsla vinninga.

7.1 Þátttökukvittunum með þremur eða fleiri vinningstölum ber að framvísa til söluaðila. Þar til nafnritun á sér stað aftan á þátttökukvittun er litið á handhafa hennar sem eiganda. Þegar nafnritun hefur átt sér stað skal litið á þann er ritað hefur nafn sitt sem réttan eiganda og rétthafa til vinnings. Hafi fleiri en einn skráð nafn sitt sem eigandi á bakhlið þátttökukvittunar, þurfa þeir að kvitta fyrir vinningi eða gefa umboð til móttöku hans.

7.2 Vinningar, sem ekki nema kr. 15.000,- skulu greiddir út hjá söluaðila frá fyrsta virkum degi eftir útdrátt.

Vinningar, sem nema kr. 15.000,- eða meira, skulu greiddir frá aðalskrifstofu Íslenskrar getspár innan tveggja vikna frá því að þátttökukvittun er framvísað til söluaðila eða aðalskrifstofu. Heimilt er að draga greiðslu vinninga, sem nema kr. 50.000,- eða meira, til þess tíma að kærufrestur samkvæmt lið 9.1 er liðinn eða kærur hafa verið úrskurðaðar, hafi kæra borist. Þegar um vinning að fjárhæð kr. 15.000,- eða meira er að ræða, skal vinningshafi framvísa þátttökukvittun sinni ásamt útfylltu útborgunareyðublaði, sem söluaðili lætur honum í té, til einhvers söluaðila eða aðalskrifstofu. Skal hann fá í hendur kvittað eintak útborgunareyðublaðsins til staðfestingar á afhendingu greiðslu vinningsins um leið og gengið hefur verið úr skugga um að leikreglum hafi verið fylgt. Vextir reiknast ekki á vinninga.

7.3 Vinninga skal vitja innan eins árs frá útdráttardegi ella fellur niður réttur vinningshafa til hans.

8. Form þátttökukvittunar.

8.1 Þátttökukvittun er því aðeins gild, að notað sé þar til gert eyðublað, sem gefið er út af Íslenskri getspá, og að hún hafi verið gefin út af söluaðila viðurkenndum af stjórn félagsins með áritun úr sölukassa tengdum tölvukerfi þess. Þátttökukvittun má ekki vera árituð á framhlið, brotin eða skemmd með einhverjum hætti, þannig að hætta sé á að hún verði ekki læsileg fyrir tölvukerfi félagsins, eða fullnægi ekki kröfum þess á annan hátt. Þegar þannig er ástatt getur félagið hafnað þátttökukvittuninni. Þegar um rafræna þátttöku er að ræða eru kvittanir geymdar miðlægt í móðurtölvu Íslenskrar getspár. Þátttakendur sem taka þátt með rafrænum hætti geta prentað út eigin kvittun eða óskað eftir því að fá hana senda í pósti eða tölvupósti. Ef mismunur er á þátttökukvittun í móðurtölvu og prentaðri kvittun þá gildir sú í móðurtölvunni.

9. Kærur.

9.1 Rísi ágreiningur varðandi framkvæmd þessara talnagetrauna, skal viðkomandi þátttakandi senda skriflega kæru, sem skal hafa borist aðalskrifstofu Íslenskrar getspár fyrir kl. 16 á tuttugasta og fyrsta degi frá og með útdráttardegi að telja. Úrskurðaraðili skipaður af dómsmálaráðuneytinu samkvæmt lið 10.2 úrskurðar um kæruna innan 15 daga frá því að kærufrestur rann út. Kærur vegna 1. vinnings í Víkingalottói sem nema 200.000 ECU eða meiru skulu þó úrskurðaðar af aðalstjórn Víkingalottós samkvæmt lið 3.4 í starfsreglum fyrir Víkingalottó.

10. Eftirlit.

10.1 Dómsmálaráðuneytið skipar eftirlitsmenn til þriggja ára í senn til að annast eftirlit með allri framkvæmd talnagetrauna Íslenskrar getspár.

10.2 Til að úrskurða kærur samkvæmt lið 9.1 skipar dómsmálaráðuneytið til þriggja ára í senn mann sem fullnægir skilyrðum til að vera dómari og einnig varamann sem fullnægir sömu skilyrðum.

10.3 Eftirlit með tölvukerfi Íslenskrar getspár skal vera í höndum endurskoðunarskrifstofu sem ráðuneytið samþykkir.

10.4 Kostnaður við almennt eftirlit með getraunastarfseminni, eftirlit með útdrætti vinninga og meðferð kæra greiðist af Íslenskri getspá samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytisins.

11. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum um talnagetraunir nr. 26 2. maí 1986, öðlast gildi 3. janúar 2000. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 105 frá 18. febrúar 1998 ásamt síðari breytingu.

Dóms- og kirkjumálaráðneytinu, 10. desember 1999.

Sólveig Pétursdóttir.

Björn Friðfinnsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica