Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

348/1976

Reglugerð um happdrætti Háskóla Íslands - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

1. gr.

       Happdrætti Háskóla Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu Háskóla Íslands. Heimili þess, aðalskrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr.

       Ágóða af rekstri happdrættis háskólans skal varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands. Enn fremur er heimilt að verja honum til greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabygginganna, til fegrunar á háskólalóðinni, til þess að koma á fót og efla rannsóknarstofur við hinar ýmsu deildir háskólans, svo og til að greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja, sem háskólinn telur sér nauðsyn að eignast.

       Af nettó ársarði happdrættisins greiðast í ríkissjóð 20% í einkaleyfisgjald. Rennur féð í byggingasjóð rannsóknastarfseminnar, sbr. 60, gr. laga nr. 64/1965.

 

3. gr.

       Stjórn happdrættis háskólans er í höndum þriggja manna, sem háskólaráð kýs til þess í lok hvers árs fyrir næsta ár á eftir. Stjórnin kýs sjálf formann sinn og skiptir á annan hátt störfum sín á milli. Stjórnin heldur fundi, eftir því, sem þörf krefur, og eru þeir lögmætir, ef meiri hluti hennar er á fundi. Ályktanir stjórnarinnar eru lögmætar, ef meiri hluti stjórnar er þeim samþykkur. Bókfæra skal gerðir funda, og gerðabók skal lesin og undirrituð í lok hvers fundar. Þóknun stjórnarmanna ákveður háskólaráð.

 

4. gr.

       Stjórn happdrættis háskólans ræður sér til aðstoðar framkvæmdastjóra og annað starfslið, eftir því sem þörf er á.

 

5. gr.

       Til þess að skuldbinda happdrætti háskólans þarf undirskrift formanns stjórnar og framkvæmdastjóra.

 

6. gr.

       Háskólaráð kýs árlega 2 endurskoðendur til þess að endurskoða reikninga happdrættisins. Þóknun þeirra er ákveðin af háskólaráði. Reikningsár happdrættis háskólans er almanaksárið.

 

7. gr.

       Dómsmálaráðherra skipar árlega happdrættisráð, og skulu í því sitja fimm menn og tveir til vara, og skulu a. m. k. tveir nefndarmenn vera lögfræðingar. Ráðherra skipar formann happdrættisráðsins, en ritara kýs það sjálft. Fundi heldur það eftir því sem þörf krefur, og eru þeir lögmætir, ef meiri hluti ráðsmanna er viðstaddur, enda sé a. m, k. tveir lögfræðingar á fundi. ef úrskurða á samkvæmt 21. gr. Ályktanir happdrættisráðsins eru lögmætar, ef meiri hluti þess er þeim samþykkur. Bókfæra skal gerðir funda og gerðabók skal lesin og undirskrifuð í lok hvers fundar. Dómsmálaráðuneytið ákveður þóknun happdrættisráðs. Þóknun og annar kostnaður vegna happdrættisráðs greiðist af happdrættinu.

 

8. gr.

       Stjórn happdrættisins skal, þegar ársreikningar eru tilbúnir og endurskoðaðir, senda happdrættisráði þá til athugunar, og skal jafnframt gefa því skýrslu um starfsemi happdrættisins á síðastliðnu reikningsári. Happdrættisráð hefur, hvenær sem er. aðgang að bókum og skjölum happdrættisins, og eru stjórn og starfsmenn skyldir að veita því þá vitneskju um starfsemina, er þeir geta veitt og það óskar að fá. Verði happdrættisráð þess vart, að ákvæði laga um happdrættið eða reglugerðar þessarar séu brotin, skal það þegar í stað tilkynna það dómsmálaráðuneytinu. Happdrættisráð hefur eftirlit með og úrskurðarvald um drætti, svo sem síðar segir.

 

9. gr.

       Happdrættið gefur út 60 000 hlutamiða, er skiptast í 12 flokka á ári hverju. Af hverjum hlutamiða eru gefnar út fjórar raðir, sem greinast að með bókstöfunum E, F, G og H, og að auki er gefin út sérstök röð, merkt bókstafnum B, sem hefur fimmfalt gildi á við hinar raðirnar, bæði að því er varðar endurnýjunarverð og fjárhæð vinninga.

 

10. qr.

       Hver hlutamiði ber áprentað númer, frá 1 til 60 000, auk auðkenna raðarinnar, svo og verð miðans, dráttardag. síðasta endurnýjunardag og innlausnarfrest vinninga. Á hvern miða skal prenta nafn og merki happdrættisins, svo og nöfn stjórnarformanns og framkvæmdast,jóra. Á miðanum skal einnig vera undirskrift eða eiginhandarstimpill þess umboðsmanns happdrættisins, sem selt hefur miðann, svo og heimilisfang hans. Ef menn kaupa hlutamiða, sem gildir fyrir alla drætti á sama ári (ársmiða), skal prenta aftan á miðann athugasemd þess efnis, og skal hún undirrituð með sama hætti. Enginn miði er gildur fyrr en umboðsmaður happdrættisins hefur ritað á hann nafn sitt, eins og áður segir.

 

11. gr.

       Verð hlutamiða er 500 kr. í hverjum flokki. Fyrir ársmiða skal greiða 6 000 kr. Ef eigandi miða vill gera hann að ársmiða, eftir að drættir, einn eða fleiri, hafa farið fram, skal hann greiða fyrirfram fyrir þá drætti, sem eftir eru. Ef menn vilja kaupa hlutamiða eftir að drættir eru byrjaðir á árinu, skal greiða fyrir hann, auk verðs hans í flokki þeim, sem næst á að draga í, samanlagt verð hlutarins í öllum þeim flokkum, sem dregið hefur verið í á árinu.

       Umboðsmenn happdrættisins mega ekki selja hluti þessa öðru verði en hér er sagt. né heldur taka við ágóðahluta, né annarri þóknun, af vinningum, sem falla á þá hluti, sem þeir hafa selt.

 

12. gr.

       Enginn má selja hlutamiða happdrættisins, nema umboðsmenn þess, er fá miðana beint frá aðalskrifstofu happdrættisins. og er öll önnur verslun með miðana bönnuð. Þó er happdrættinu heimilt að taka í sínar hendur útsölu hlutamiða í Reykjavík.

 

13. gr.

       Endurnýjun hlutamiða til næsta dráttar skal fara fram hjá þeim umboðsmanni, sem hefur ritað nafn sitt á miðann, og innan þess frests, sem greinir á miðanum. Um leið skal afhenda umboðsmanninum hlutamiða næsta flokks á undan.

       Ef hlutamiði næsta flokks á undan hefur glatast, getur eigandi hans sótt skriflega um það til stjórnar happdrættisins að fá miðann endurnýjaðan, þó því aðeins, að umboðsmaður happdrættisins votti samkvæmt hlutabók sinni, að hann hafi átt miðann og enginn annar hafi beiðst endurnýjunar á honum, áður en fresturinn var liðinn.

       Í upphafi hvers árs eiga menn kost á því að kaupa hlutamiða með sama númeri, sem þeir hafa haft næsta ár á undan, ef þeir snúa sér til umboðsmanns happdrættisins á þeim tíma, sem greinir á hlutamiðum 12. flokks, og afhenda honum þann miða, þó því aðeins, að umboðsmaður hafi fengið það númer aftur frá skrifstofu happdrættisins.

       Ef viðskiptamaður beiðist endurnýjunar á hlutamiða, hvort sem er milli flokka eða milli 12. flokks og 1. flokks næsta árs, áður en endurnýjunarfrestur er liðinn, en umboðsmaður hefur glatað miðanum eða afhendir hann ekki af öðrum ástæðum, er hann skyldur til að afhenda viðskiptamanni án endurgjalds og á eigin kostnað nýjan miða og standa happdrættinu skil á andvirði þess miða í öllum flokkum, sem þegar hefur verið dregið í. Ef umboðsmaður hefur ekki fleiri miða, skal hann endurgreiða viðskiptamanni á sinn kostnað verð miðans í öllum flokkum á undan.

 

14. gr.

       Vinningar í happdrættinu skulu eigi vera færri en svo, að að minnsta kosti fjórði hver miði hljóti vinning árlega að meðaltali, og skal fjárhæð vinninga nema að minnsta kosti 70% af iðgjöldum samantöldum í öllum 12 flokkum.

       Stjórn happdrættisins ákveður, að fengnu samþykki happdrættisráðs, vinningatölu og verðmæti vinninga í hverjum flokki. Skal vinningaskrá samin fyrirfram fyrir ár hvert.

 

15. gr.

       Um vinninga í 1. flokki skal dregið 15. janúar ár hvert og síðan í hverjum flokki 10. hvers mánaðar. Ekki skal þó dregið á laugardögum, helgidögum eða öðrum almennum frídögum, né heldur fyrsta virkan dag eftir almennan frídag. Fer dráttur þá fram næsta virkan dag þar á eftir. Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá þessari grein, ef því þykir ástæða til.

 

16. gr.

       Útdráttur vinninga fer fram opinberlega hjá Reiknistofnun Háskólans undir eftirliti happdrættisráðs og að viðstöddum fulltrúum happdrættisins og Reiknistofnunar.

 

17. gr.

Við úrdrátt vinninga skal nota eftirfarandi gögn og tæki:

a)    Tölvu Reiknistofnunar Háskólans. Heimilt er þó með samþykki happdrættisráðs að nota aðra tölvu, ef nauðsyn krefur.

b)    Dráttarforrit og annan hugbúnað, sem stýrir tölvunni við útdráttinn. Þessi hugbúnaður skal varðveittur á sérstökum seguldiski, segulbandi eða gataspjaldastokki.

c)         Stokk til útdráttar á lykiltölu fyrir dráttarforritið. Stokkurinn skal vera með 8 hólfum og í hverju hólfi skal vera reglulegur tvítugflötungur, en á hvern flöt hans skal skráð ein talnanna frá 0 til 9, þannig að sérhver tala er á tveimur flötum.

d)    Nauðsynlegan tölvupappír, segulbönd og gataspjöld í samræmi við þarfir dráttarforritsins.

 

18. gr.

       Dráttarforrit skal gert samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Dráttarforrit skal þannig gert, að fyrst er dreginn út hæsti (hæstu) vinningur, síðan næsthæsti (næsthæstu) o. s. frv. Happdrættisráð fær tvo sérfróða menn til að yfirfara dráttarforritið í upphafi, svo og í hvert sinn, sem breytingar eru gerðar á því. Skulu hinir sérfróðu menn leggja skriflega greinargerð um gerð forritsins fyrir happdrættisráðið, sem síðan staðfestir það.

       Dráttarforritið og annar hugbúnaður skal varðveittur milli drátta með öruggum hætti og undir innsigli happdrættisráðs.

 

19. gr.

       Útdráttur vinninga í happdrættinu fer fram með eftirfarandi hætti:

a)    Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með þeim hætti, að stokknum er snúið, en að því búnu er skráð sú 8 stafa tala, sem fram kemur. Er þetta síðan endurtekið, þar til fyrir liggur 48 stafa tala.

b)    Tölvan er hreinsuð og færð í upphafsstöðu.

c)    Dráttarforritið og annar hugbúnaður er tekinn undan innsigli og búnaðurinn settur í tölvuna.

d)    Lykiltalan og upplýsingar varðandi útdráttinn, svo sem fjöldi númera og vinninga og vinningsupphæðir, eru færðar á gataspjöld, sem sett eru í tölvuna.

e)    Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá, sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni.

f)    Sé óskað eftir afriti vinningaskrár á segulbandi eða gataspjöldum er það nú gert.

g)    Dráttarforritið og annar hugbúnaður er tekinn til varðveislu af happdrættisráði. Happdrættisráð færir í gerðabók skýrslu um framkvæmd útdráttarins.

 

20. gr.

       Bili tölvan eða útdráttur stöðvast af öðrum óviðráðanlegum ástæðum, tekur happdrættisráð öll gögn vegna útdráttarins til varðveislu. Þessi sömu gögn, þ.á.m. lykiltalan, skulu notuð við endurtekningu útdráttarins.

 

21. gr.

       Ef ágreiningur rís um lögmæti eða gildi dráttar meðan dráttur fer fram eða eftir að honum er lokið, skal skjóta honum til happdrættisráðs, sem leggur fullnaðarúrskurð á ágreininginn.

 

22. gr.

       Að loknum drætti lætur happdrættið prenta skýrslu um vinninga, hvaða hlutamiðar hafa hlotið vinninga og hve háa. Skal skýrslan send öllum umboðsmönnum happdrættisins og vera þar til sýnis viðskiptamönnum.

 

23. gr.

       Vinningar verða greiddir á þeim tíma, sem auglýstur er í vinningaskránni, á skrifstofu happdrættisins í Reykjavík, eða þar sem auglýst kann að verða í vinningaskránni.

       Sá, sem vinning hefur hlotið, skal snúa sér til þess umboðsmanns happdrættisins, sem hefur ritað undir miðann, og skal umboðsmaðurinn rita aftan á miðann vottorð um, að hann hafi hlotið vinning og hve háan. Vinningurinn verður síðan greiddur gegn afhendingu hlutamiðans, og losnar happdrættið með því undan frekari greiðsluskyldu, þó að aðrir kynnu síðar að sanna betri rétt til vinningsins.

Ef mótmæli koma fram gegn greiðslu vinnings til handhafa hlutamiðans, áður en greiðsla vinninganna hefst samkvæmt vinningaskránni, skal happdrættið leggja vinninginn í sparisjóð og afhenda síðan með áföllnum vöxtum þeim, sem með dómi eða á annan hátt sannar eignarrétt sinn á vinningnum. Ef aðilar hafa ekki innan þriggja mánaða frá því að mótmæli komu fram, komið sér saman um greiðslu vinningsins, greiðir happdrættið handhafa miðans vinninginn með áföllnum vöxtum, nema sannað sé fyrir stjórn happdrættisins, að mál sé þingfest um eignarrétt vinningsins.

       Ef miði glatast, sem hlotið hefur vinning, getur eigandi hans snúið sér til happdrættisstjórnar með beiðni um, að fá vinninginn greiddan, enda votti umboðsmaður sá, sem seldi miðann, samkvæmt hlutabók sinni, að umsækjandi hafi keypt af honum miðann. Ekki verður slíkri beiðni sinnt, ef hún er ekki komin í hendur happdrættisstjórnar innan 6 mánaða frá því að dregið var, enda hafi vinningurinn ekki verið greiddur gegn afhendingu miðans áður en beiðnin kom fram.

 

24. gr.

       Allir vinningar verða greiddir án nokkurs frádráttar, þó þannig, að sá, sem vinning hlýtur, er skyldur til þess að kaupa hlut, jafnstóran, í öllum þeim flokkum, sem eftir eru á árinu, og verður andvirði hlutarins dregið frá vinningnum og gefinn út ársmiði fyrir. Ef vinningur fellur á ársmiða, verður ekki um neinn frádrátt að ræða.

 

25. gr.

       Umboðsmönnum er óheimilt að svara fyrirspurnum, hvort heldur er frá almannastofnun eða öðrum, um eigendur vinninga í happdrættinu og skal beina öllum slíkum fyrirspurnum til stjórnar happdrættisins.

 

26. gr.

       Ef vinnings er ekki vitjað áður en eitt ár er liðið frá drætti þess flokks, sem vinningurinn féll í, verður hann eign happdrættisins.

 

27. gr.

       Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 13 13. apríl 1973, um happdrætti Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 96 24. desember 1974 og lög nr. 55 25. maí 1976, öðlast gildi 1. janúar 1977, þó þannig að ákvæði reglugerðarinnar um tölvudrátt koma til framkvæmda fyrr eftir ákvörðun happdrættisráðs. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 8 21. janúar 1946, um happdrætti Háskóla Íslands, sbr. reglugerð nr. 234 7. nóvember 1950.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 8. október 1976.

 

Ólafur Jóhannesson.

Ólafur W. Stefánsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica