Viðskiptaráðuneyti

646/1995

Reglugerð um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld vátryggingafélaga. - Brottfallin

Almenn ákvæði.

1. gr.

Með vátryggingaskuld vátryggingafélags er átt við óuppgerðar heildarskuldbindingar þess vegna gerðra vátryggingasamninga eins og hún er metin sem liður skuldamegin í efnahagsreikningi félagsins. Í líftryggingafélagi er vátryggingaskuldin einnig nefnd líftryggingaskuld.

Með vátryggingafélagi er átt við félag eða stofnun með starfsleyfi sem gefið hefur verið út hér á landi og útibú erlendra vátryggingafélaga með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem leyfi hafa fengið til vátryggingastarfsemi hér á landi, sbr. lög nr. 60/1994.

2. gr.

Vátryggingafélag skal sjá til þess að fyrir hendi séu eignir sérstaklega tilgreindar á móti vátryggingaskuldinni til að tryggja að félagið geti staðið við vátryggingaskuldbindingar sínar. Í því skyni skulu eignir valdar með tilliti til samsetningar vátryggingaskuldarinnar, uppgjörshraða skuldbindinganna, virði eignanna og ávöxtunar þeirra til skemmri og lengri tíma.

Félagið skal tryggja fjölbreytni og dreifingu eignanna. Taka skal tillit til þeirrar áhættu sem felst í fjárfestingu af tiltekinni tegund og velja eignir á móti vátryggingaskuldinni í samræmi við það.

Miða skal fjárhæðir og dreifingu eigna við heildarupphæð vátryggingaskuldar. Tekið skal tillit til breytinga á vátryggingaskuld og eignum sem eiga að mæta henni innan reikningsársins nema um tímabundnar sveiflur innan þess sé að ræða.

Tegundir eigna.

3. gr.

Vátryggingafélag má ekki nota aðrar tegundir eigna á móti vátryggingaskuld en þær sem að neðan greinir, auk þeirra sem getið er í 4. og 5. gr.:

1. Verðbréf með ábyrgð ríkis og kröfur á ríki á svæði A.

2. Innstæður hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum á svæði A undir opinberu eftirliti.

3. Útlán með veði í líftryggingum hjá félaginu allt að endurkaupsverði.

4. Verðbréf með ábyrgð sveitarfélags og kröfur á sveitarfélag á svæði A.

5. Verðbréf skráð á reglulegum markaði á svæði A. Verðbréf útgefin af viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum undir opinberu eftirliti á svæði A og útlán með ábyrgð þeirra. Hlutdeild í verðbréfasjóðum, sbr. lög nr. 10/1993.

6. Fasteignir, lönd og lóðir. Eignarhlutir í félögum sem hafa að megintilgangi að fjárfesta í slíkum eignum. Aðrir varanlegir rekstrarfjármunir. Verðbréf með veði í varanlegum rekstrarfjármunum.

7. Hlutabréf ekki skráð á reglulegum markaði.

8. Verðbréf og kröfur með annarri tryggingu en í 6. tölul.

9. Verðbréf og kröfur án sérstakrar tryggingar.

10. Reiðufé.

Um skilgreiningu á svæði A fer samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, eins og þær eru á hverjum tíma. Með reglulegum markaði er átt við markað samkvæmt skilgreiningu í 7. gr. laga um vátryggingastarfsemi, hér á landi Verðbréfaþing Íslands.

4. gr.

Tilgreina má hlut endurtryggjenda í vátryggingaskuld sem eign á móti vátryggingaskuld sé endurtryggt hjá vátryggingafélagi með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Geymslufé og iðgjaldakröfur vegna endurtrygginga má tilgreina á móti vátryggingaskuld hafi ekki liðið meira en þrír mánuðir frá gjalddaga.

Hafi endurtryggjandi staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins má heimila að hlutur endurtryggjenda sé tilgreindur sem eign á móti vátryggingaskuld, enda sé endurtryggjandinn undir opinberu eftirliti og uppfylli kröfur um fjárhagslegan styrk sem Vátryggingaeftirlitið metur fullnægjandi.

5. gr.

Þegar vátryggingaskuldin er með beinum hætti háð vaxtaákvæðum eða tengist ávöxtun í tiltekinni tegund eigna svo sem í bréfum með hlutaréttindum, eða þegar lofað er tiltekinni ávöxtun í vátryggingasamningi, skal gætt samræmis milli vátryggingaskuldarinnar og þeirra eigna sem eiga að mæta henni.

Eignfærðan kostnað við öflun líftrygginga má nota á móti vátryggingaskuld að því marki er samsvarar sama lið í tæknigrundvelli líftrygginga. Í öðrum greinum vátrygginga má nota slíkan öflunarkostnað að sama marki og ráð er fyrir gert í iðgjaldaskuldinni.

Mat á eignum.

6. gr.

Meta skal í hverju tilviki fyrir sig þá áhættu sem felst í þeim eignum sem ætlað er að mæta vátryggingaskuldinni og sérstaklega með tilliti til dreifingar þannig að vægi einstakra tegunda og eigna á einni hendi verði takmarkað.

Varanlega rekstrarfjármuni má því aðeins nota sem eign á móti vátryggingaskuld að þeir hafi verið nægilega afskrifaðir og færðir niður í verð sem ætla má að fyrir þá fáist.

Verðbréf og kröfur má ekki nota sem eign á móti vátryggingaskuld nema eignin teljist trygg og hafi verið nægilega færð niður.

Framseljanleg verðbréf sem ekki eru skráð á reglulegum markaði má því aðeins nota á móti vátryggingaskuld að þeim verði komið í verð með skömmum fyrirvara eða að um sé að ræða eignarhald í fjármálastofnun undir opinberu eftirliti. Fjárfestingar í afleiðusamningum geta því aðeins komið á móti vátryggingaskuld að þær stuðli að því að draga úr fjárfestingaráhættu og séu liður í að auka almennt öryggi eigna sem mæta eiga vátryggingaskuldinni.

Útistandandi iðgjöld og kröfur á miðlara sem rekja má til vátrygginga (frum- eða endurtrygginga) má því aðeins nota að eigi hafi liðið meira en þrír mánuðir frá gjalddaga.

Frá hverri eign skal draga áhvílandi lán og taka tillit til ábyrgða. Frá kröfum á einstaka skuldunauta skal draga skuldir félagsins við þá.

Dreifing eigna.

7. gr.

Hámark einstakra tegunda eigna samanlagt sem hlutfall af vátryggingaskuld, sbr. töluliði 3. greinar og töflu í viðauka, er í 1. tl. 100%, í 2. tl. 100%, í 3. tl. 100%, í 4. tl. 50%, í 5. tl. 40%, í 6. tl. 40%, í 7. tl. 10%, í 8. tl. 8%, í 9. tl. 5% og í 10. tl. 3%.

8. gr.

Hámarkshlutfall eigna á einni hendi á móti vátryggingaskuld, þ.e. eign útistandandi hjá sama einstaklingi eða lögaðila, hjá sama lántakanda eða útgefanda, sbr. töluliði 3. greinar og töflu í viðauka er:
1. tl. 100%.
2. tl. 5%. Þó má hámarkið á einni hendi hækka í 10% svo fremi að slíkar eignir nemi samanlagt ekki yfir 40% heildarvátryggingaskuldar.
3. tl. 100%.
4. tl. 10%.
5. tl. 5%. Þó má hámarkið á einni hendi hækka í 10% svo fremi að slíkar eignir nemi samanlagt ekki yfir 40% heildarvátryggingaskuldar.
6. tl. 5%. Sama gildir um fleiri eignir á sama stað eða í nálægð hverrar annarrar þannig að þær teljist ein fjárfesting.
7. tl. 1%.
8. tl. 1%.
9. tl. 1%.

Kröfur á einn aðila af fleiri en einni tegund samkvæmt 2., og 4. - 9. töluliðum 3. gr. mega samanlagt mest nema þeirri hlutfallstölu sem tilgreind er fyrir þann tölulið þar sem hlutfallstala hlutaðeigandi eigna er hæst.

9. gr.

Vátryggingafélag má því aðeins nota hlutdeild í dótturfélagi á móti vátryggingaskuld að dótturfélagið hafi það hlutverk eitt að ávaxta eignir vátryggingafélagsins að öllu leyti eða að hluta og að því marki er svarar til eignarhlutar þess í dótturfélaginu. Takmarkanir í 7. og 8. gr. á eignum á móti vátryggingaskuld gilda um útistandandi eignir slíkra dótturfélaga vátryggingafélags.

Gengisáhætta.

10. gr.

Velja skal eignir á móti vátryggingaskuld með tilliti til gengisáhættu þannig að dregið sé úr vægi hennar svo sem kostur er. Eignirnar skulu ávaxtaðar í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins nema Vátryggingaeftirlitið veiti undanþágu frá því skilyrði sérstaklega.

Eignir á móti vátryggingaskuld skulu að meginreglu vera í sama gjaldmiðli og skuldbindingin sem þeim er ætlað að mæta. Víkja má frá þeirri reglu nemi eignir sem jafna ætti í tilteknum gjaldmiðli 7% eða minna af eignum samanlagt í öðrum gjaldmiðlum.

Vátryggingafélag má ekki ávaxta meira en sem svarar 20% vátryggingaskuldbindinga sem eru í tilteknum gjaldmiðli, í eignum sem eru í öðrum gjaldmiðli.

11. gr.

Þegar tilgreint er í vátryggingasamningi að vátryggingavernd skuli veitt í tilteknum gjaldmiðli skal litið svo á að skuldbinding vátryggingafélags sé í sama gjaldmiðli eða, komi það ekki fram í samningnum, að skuldbindingin sé í gjaldmiðli þess ríkis þar sem vátryggingaáhættan er eða skuldbindingin komst á, sbr. 8. gr. laga nr. 60/1994.

Ekki skal gerð krafa um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld vegna gengisáhættu í tilteknum gjaldmiðli þegar hindranir varðandi fjármagnsflutninga eru í gildi eða af öðrum ytri ástæðum þegar talið yrði að markmiði um takmörkun á vægi gengisáhættu yrði ekki náð með slíkri jöfnun eigna á móti skuldbindingum.

Skrá yfir eignir.

12. gr.

Vátryggingafélag skal halda skrá yfir þær eignir sem mæta eiga vátryggingaskuld á hverjum tíma og sjá til þess að nýjar eignir verði skráðar á reikningsárinu þegar breytingar eiga sér stað á eignaskránni og mati vátryggingaskuldar. Samantekt úr skránni ásamt fullnægjandi skýringum á vali á eignum á móti vátryggingaskuld skal fylgja ársreikningi og öðrum gögnum vegna ársuppgjörs til Vátryggingaeftirlitsins, staðfest af endurskoðanda félagsins og þegar við á tryggingastærðfræðingi. Samantekt úr skránni skal send Vátryggingaeftirlitinu á öðrum tíma telji það ástæðu til.

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Vátryggingaeftirlitinu er heimilt að fenginni rökstuddri umsókn frá vátryggingafélagi að veita tímabundna og takmarkaða undanþágu frá ákvæðum 3., 7. og 8. gr. um samsetningu og dreifingu eigna og eignir á einni hendi sem mæta eiga vátryggingaskuld að teknu tilliti til nauðsynlegra varfærnissjónarmiða, sbr. 2. og 6. gr.

14. gr.

Reglugerð þessi er sett í samræmi við 3. mgr. 34. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994 og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Vátryggingafélög sem hafa starfsleyfi útgefið hér á landi við gildistöku reglugerðar þessarar skulu innan tveggja mánaða frá gildistöku hennar gera Vátryggingaeftirlitinu grein fyrir þeim eignum sem eiga að mæta vátryggingaskuldinni og láta því í té yfirlit yfir þessar eignir. Telji félag að það uppfylli ekki ákvæði reglugerðarinnar skal það leggja fram áætlun með yfirlitinu um það hvernig og hvenær það hyggst ná því marki. Vátryggingaeftirlitið getur þá veitt félaginu aðlögunartíma, sbr. 13. gr.

Viðskiptaráðuneytið, 15. desember 1995.
Finnur Ingólfsson.
Þorkell Helgason.


Viðauki.

Tafla til skýringar á reglum 3., 7. og 8. gr. um tegundir og dreifingu eigna samanlagt og að hámarki á einni hendi.

Hámark eigna sem hlutfall vátr.skuldar, %

Tegundir eigna

Hámark eigna á einni hendi sem hlutfall vátr.skuldar, %

100

1. Verðbréf með ábyrgð ríkis og kröfur á ríki á svæði A.

100

2. Innstæður hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum á svæði A undir opinberu eftirliti.

5 - 10 *

3. Útlán með veði í líftryggingum hjá félaginu allt að endurkaupsverði.

100

50

4. Verðbréf með ábyrgð sveitarfélags og kröfur á sveitarfélag á svæði A.

10

40

5. Verðbréf skráð á reglulegum markaði á svæði A.Verðbréf útgefin af viðskipta- bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum undir opinberu eftirliti á svæði A og útlán með ábyrgð þeirra. Hlutdeild í verbréfasjóðum, sbr. lög nr. 10/1993.

5 - 10 *

40

6. Fasteignir, lönd og lóðir. Eignarhlutir í félögum sem hafa að megintilgangi að fjárfesta í slíkum eignum. Aðrir varanlegir rekstrarfjármunir. Verðbréf með veði í varanlegum rekstrarfjármunum.

5

10

7. Hlutabréf ekki skráð á reglulegum markaði.

1

8

8. Verðbréf og kröfur með annarri tryggingu en í 6. tölul.

1

5

9. Verðbréf og kröfur án sérstakrar tryggingar.

1

3

10. Reiðufé.

 

* Sbr. 8. gr.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica