Samgönguráðuneyti

122/2004

Reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd.

1. gr.
Tilgangur.

Tilgangur með þessari reglugerð er að mæla fyrir um öryggisviðmiðanir fyrir fiskiskip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, bæði ný og gömul.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:
"Fiskiskip" eða "skip" hvert það skip sem er búið eða notað í atvinnuskyni til að veiða fisk, hval, sel, rostung eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.

"Torremolinos-bókunin" Torremolinos-bókunina frá 1993 við Torremolinos-alþjóðasamþykktina um öryggi fiskiskipa, 1977 ásamt breytingum við hana.

"Mesta lengd" er heildarlengd skips eins og hún er skilgreind í reglugerð um mælingu skipa með lengd allt að 24 metrum, nr. 527/1997.

"Tilskipunin" tilskipun ráðsins nr. 97/70/EB um að koma á samræmdum reglum um öryggi fiskiskipa sem eru 24 m að lengd eða meira með áorðnum breytingum.[1]

Auk framangreindra skilgreininga gilda skilgreiningarnar í 2. reglu í I. kafla í viðauka I við þessa reglugerð.


[1]Tilskipun ráðsins nr. 97/70/EB hefur verið breytt með tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 1999/19/EB og 2002/35/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/84/EB.

3. gr.
Gildissvið.

Nema annað sé sérstaklega tekið fram í viðauka I við þessa reglugerð, ná ákvæði reglugerðarinnar til nýrra og gamalla fiskiskipa með mestu lengd 15 m eða meira, þar með talið skipa sem vinna eigin afla um borð.

Reglugerð þessi gildir jafnframt, eftir því sem við á, um skip, sem eingöngu eru notuð til vinnslu fisks eða annarra lífrænna auðlinda hafsins og/eða til rannsókna og þjálfunar.

Reglugerð þessi gildir ekki um skemmtibáta, sem stunda veiðar, að því tilskildu að veiðarnar séu ekki í atvinnuskyni eða um skip, sem eru eingöngu notuð til fiskflutninga.

Í viðauka I við þessa reglugerð eru ákvæði Torremolinos-bókunarinnar ásamt íslenskum sérákvæðum og viðbótarákvæðum tilskipunar ráðsins nr. 97/70/EB um að koma á samræmdum reglum um öryggi fiskiskipa sem eru 24 m að lengd eða meira og tilskipun ráðsins nr. 93/103/EBE um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum, sem höfð er hliðsjón af og vísað er til í 8. gr., en þau eru merkt í viðaukanum sem evrópsk sérákvæði.

Viðaukarnir við þessa reglugerð skulu vera óaðskiljanlegur hluti reglugerðarinnar og tilvísun í þessa reglugerð skal um leið vera tilvísun í viðauka hennar.

Um borð í sérhverju skipi, sem þessi reglugerð gildir um, skal vera eintak af reglugerðinni.


4. gr.
Skipsbúnaður.

Nema annað sé sérstaklega tekið fram skal skipsbúnaður, sem er skráður í viðauka A.1 við reglugerð nr. 988/2000, með áorðnum breytingum, og uppfyllir ákvæði þeirrar reglugerðar, teljast sjálfkrafa vera í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar þegar honum er komið fyrir um borð í fiskiskipi. Þetta á jafnt við um ákvæði, þar sem krafist er að búnaðurinn sé samþykktur og að hann sé háður prófunum sem taldar eru fullnægjandi að mati stjórnvalda, og ákvæði þar sem slíkar kröfur eru ekki gerðar. Þetta ákvæði á þó ekki við um skipsbúnað, sem krafist er ef gerðar eru íslenskar sérkröfur til hans í viðauka I við þessa reglugerð.

Viðurkenningarskírteini skulu fylgja öllum búnaði, sem er skráður í viðauka A.1 við reglugerð nr. 988/2000 og gerð er krafa um að sé um borð samkvæmt viðauka I við þessa reglugerð. Ef gerðar eru íslenskar sérkröfur til búnaðarins skal það koma fram í viðkomandi viðurkenningarskírteini.


5. gr.
Framkvæmd.

Siglingastofnun Íslands annast framkvæmd þessarar reglugerðar.


6. gr.
Nánari útfærsla á ákvæðum í viðaukum við þessa reglugerð.

Þar sem í viðaukum við þessa reglugerð er vísað til reglna viðurkenndrar stofnunar ber að líta svo á að heimilt sé að nota aðrar reglur sem teljast sambærilegar að mati Siglingastofnunar Íslands.

Þar sem stjórnvöldum er falið, í viðaukum við þessa reglugerð, að meta eða er gefin heimild til nánari útfærslu á ákvæðum um smíði eða búnað fiskiskipa eða annað það sem þessi reglugerð tekur til, getur ráðherra að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands sett nánari reglur um þau ákvæði.


7. gr.
Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða refsingum samkvæmt VII. kafla laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.


8. gr.
Gildistaka.

Þessi reglugerð er sett samkvæmt lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003. Höfð var hliðsjón af eftirfarandi tilskipunum:

1. Tilskipun ráðsins 97/70/EB frá 11. desember 1997 um að setja samræmdar reglur um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 147/1999 frá 5. nóvember 1999 og birt var í EES viðbæti 3/99, 18. janúar 2001.
2. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 1999/19/EB frá 18. mars 1999 um breytingu á tilskipun ráðsins 97/70/EB um að setja samræmdar reglur um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 180/1999 frá 17. desember 1999 og birt var í EES viðbæti 14/125, 15. mars 2001.
3. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2002/35/EB frá 25. apríl 2002 um breytingu á tilskipun ráðsins 97/70/EB um að setja samræmdar reglur um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 36/2003 frá 14. mars 2003 og birt var í EES viðbæti 29/2003, 5. júni 2003.
4. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/84/EB frá 5. nóvember 2002 um breytingu á tilskipunum um öryggi í siglingum og varnir gegn mengun sjávar frá skipum, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 178/2003 frá 5. desember 2003.
5. Tilskipun ráðsins 93/103/EB frá 23. nóvember 1993 um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum (þrettánda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sbr. ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 7/94 og birt var í EES viðbæti nr. 17/01, 28. júní 1994.

Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna.

Reglugerðin öðlast þegar gildi og frá sama tíma falla eftirgreindar reglur úr gildi:

Reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri, nr. 26/2000, sbr. 190/2003.
Reglur um stöðugleika og öryggi fiskiskipa, nr. 553/1975, sbr. 124/1988, 275/1989, 54/1998 og 189/2003.
Reglur um hleðslu síldveiðiskipa á vetrarsíldveiðum, nr. 242/1963.
Reglur um vinnuöryggi á fiskiskipum 15 metrar og lengri, nr. 414/1995.
Reglur um vistarverur, öryggi og aðbúnað í vinnu- og vinnslurými fiskiskipa, nr. 185/1995.
Reglugerð um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum, nr. 785/1998.
Reglur um eftirlit með skipum og öryggi þeirra, nr. 11/1953, sbr. 553/1975, 327/1977 og 521/1984.
Reglur um öryggi íslenskra skipa í Barentshafi (Smugunni) (bréf samgönguráðherra dags. 26. október 1994).

Jafnframt falla úr gildi þau ákvæði eftirgreindra reglna sem varða ný og gömul fiskiskip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd:

Reglugerð um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 53/2000.
Reglur um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, sbr. augl. nr. 14/1995, 714/1995, 18/1996, 395/1996, 705/1996, 337/1997, 530/1997, 2/1998, 314/1998, 744/1998, 522/1999, 891/1999, 147/2000 og 667/2001.
Reglur um hávaðamörk í íslenskum skipum, nr. 179/1985.


Samgönguráðuneytinu, 10. febrúar 2004.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica