Samgönguráðuneyti

781/2006

Reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd, nr. 122/2004. - Brottfallin

1. gr.

Við II. kafla um smíði, vatnsþéttleika og ýmsan búnað í I. viðauka bætist ný regla sem verður 20. regla, svohljóðandi:

20. regla

Varnir gegn flæði.

(1) Setja skal í austurbrunna við afturþil í fiskilestum eða á afturþilið sjálft um það bil 20 cm frá lestarbotni vökvaborðsviðvörunarbúnað, sem skynjar samsöfnun vökva við venjulegan hliðar- og stafnhalla. Skynjunarkerfið skal gefa viðvörun á heyranlegan og sýnilegan hátt á þeim stöðum, þar sem stöðug vöktun er höfð. Þetta ákvæði tekur þó ekki til fiskiskipa sem búin eru farmtönkum, s.s. loðnu- og síldveiðiskip.

(2) Setja skal í kjalsogið í vélarúmum fremst og aftast vökvaborðsviðvörunarbúnað, sem skynjar samsöfnun vökva við venjulegan hliðar- og stafnhalla. Skynjunarkerfið skal gefa viðvörun á heyranlegan og sýnilegan hátt á þeim stöðum, þar sem stöðug vöktun er höfð.

(3) Stjórnbúnaður allra loka fyrir sjóinntök, frárennsli fyrir neðan sjólínu eða austurs­sogs­kerfi, skal vera aðgengilegur.

(4) Við reglubundið árlegt eftirlit með virkni vökvaborðsviðvörunarbúnaðar skal sýnt fram á virkni hans.

2. gr.

Við 8. gr. bætist ný málsgrein, sem verður 4. málsgrein, eftirfarandi:

Ákvæði reglugerðar þessarar um eiturefnabúninga, neyðaröndunartæki og vinnuöryggis­handbók taka þegar gildi og skulu ákvæði um eiturefnabúninga og neyðaröndunartæki uppfyllt eigi síðar en við fyrstu búnaðarskoðun árið 2005 og ákvæði um vinnuöryggis­handbók skulu uppfyllt eigi síðar en við fyrstu búnaðarskoðun árið 2006.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003, öðlast þegar gildi. Ákvæði reglugerðar þessarar skulu uppfyllt eigi síðar en við fyrstu búnaðarskoðun árið 2005.

Samgönguráðuneytinu, 25. júlí 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica