Sjávarútvegsráðuneyti

785/1998

Reglugerð um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum. - Brottfallin

Reglugerð

um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti

og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum.

1. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Fiskiskip er hvert það skip sem notað er í atvinnuskyni annað hvort til fiskveiða eða til að veiða og vinna fisk eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.

Nýtt fiskiskip er hvert það fiskiskip sem er 15 metrar eða lengra milli lóðlína og um er gerður 23. nóvember 1995 eða síðar:

 a)            samningur um smíði eða meiri háttar breytingu; eða

 b)           samningur um smíði eða meiri háttar breytingu sem gerður er fyrir 23. nóvember 1995 og er afhent þremur eða fleiri árum eftir þann dag; eða

 c)            ef smíðasamningur er ekki fyrir hendi:

-               kjölur er lagður, eða

-               smíði sem tengja má beint við tiltekið skip hefst, eða

-               samsetning hefur hafist þar sem notuð eru að minnsta kosti 50 tonn eða 1% af áætluðum massa alls smíðaefnis, hvort sem minna er.

Eldra fiskiskip er hvert það fiskiskip sem er 18 metrar eða lengra milli lóðlína og er ekki nýtt fiskiskip.

Fiskiskip er nýtt fiskiskip eða fiskiskip í notkun.

Starfsmaður er einstaklingur sem gegnir starfi um borð í skipi, þar með taldir viðvaningar og lærlingar en að undanskildum landmönnum sem gegna starfi um borð í skipum sem liggja við bryggju og hafnsögumönnum.

Eigandi er skráður eigandi skips, nema skipið hafi verið leigt samkvæmt samningi, eða sé annaðhvort að fullu eða að hluta undir stjórn einstaklings eða lögaðila annars en skráðs eiganda samkvæmt skilmálum stjórnunarsamnings; í slíkum tilvikum skal eigandi vera tilgreindur, eftir því sem við á, sem samningsleigutaki eða einstaklingur eða lögaðili með skipið undir stjórn.

Skipstjóri er sá sem fer með æðsta vald á skipi.

2. gr.

Almenn ákvæði.

Eigendur skulu tryggja að skip þeirra séu notuð þannig að öryggi og heilsu starfsmanna verði ekki stofnað í hættu, einkum ef horfur eru á tvísýnum veðurskilyrðum, með fyrirvara um ábyrgð skipstjóra.

Taka verður tillit til hættu sem aðrir starfsmenn eru í þegar 4. mgr. 8. gr. reglugerðar um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum, er beitt.

Öllum atvikum á sjó sem hafa eða geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna um borð skal lýst í nákvæmri skýrslu sem senda skal Siglingastofnun Íslands og þau skráð gaumgæfilega og nákvæmlega í dagbók skipsins.

Siglingastofnun Íslands skal með reglulegu millibili hafa eftirlit með því hvort reglugerð þessari er framfylgt. Slík skoðun má fara fram á sjó.

3. gr.

Ný fiskiskip.

Ný fiskiskip skulu uppfylla lágmarkskröfur um öryggi og hollustu sem mælt er fyrir um í I. viðauka eigi síðar en 15. desember 1999.

4. gr.

Eldri fiskiskip.

Eldri fiskiskip skulu uppfylla lágmarkskröfur sem mælt er fyrir um í II. viðauka eigi síðar en 23. nóvember 2002.

5. gr.

Viðamiklar viðgerðir og breytingar.

Séu framkvæmdar viðamiklar viðgerðir eða breytingar á skipum skulu viðgerðir eða breytingar þessar uppfylla viðeigandi lágmarkskröfur sem mælt er fyrir um í I. viðauka.

6. gr.

Búnaður og viðhald.

Að teknu tilliti til ábyrgðar skipstjóra skulu eigendur til að gæta öryggis og heilsu starfsmanna tryggja:

 a)            að skipunum ásamt útbúnaði og tækjum, einkum þeim sem um getur í I. og II. viðauka, sé tæknilega við haldið og komi í ljós gallar í þeim sem geta haft áhrif á öryggi og/eða heilsu starfsmanna verði þeir lagfærðir eins fljótt og auðið er;

 b)           að gerðar séu þær ráðstafanir að tryggt sé að skipið og allur útbúnaður og tæki þess séu hreinsuð reglulega til þess að viðhalda nægilegu hreinlæti;

 c)            að um borð í skipi sé nægilega mikið af öryggis- og björgunarbúnaði í góðu ásigkomulagi;

 d)           að hafðar séu til hliðsjónar lágmarkskröfur um öryggi og heilbrigði í tengslum við öryggis- og björgunarbúnað sem um getur í III. viðauka;

 e)            að teknu tilliti til ákvæða reglna nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa, að höfð sé hliðsjón af tækniforskriftum fyrir persónuhlífar sem um getur í IV. viðauka.

7. gr.

Upplýsingar fyrir starfsmenn.

Að teknu tilliti til 10. gr. reglugerðar um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum, skal upplýsa starfsmenn og/eða fulltrúa þeirra um allar þær ráðstafanir sem gerðar eru vegna öryggis og hollustu um borð í skipum.

Upplýsingarnar skulu vera settar fram með þeim hætti að þeir starfsmenn sem þeim er beint til geti með auðveldum hætti skilið þær.

8. gr.

Þjálfun starfsmanna.

Að teknu tilliti til 12. gr. reglugerðar um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum, skulu starfsmenn hljóta viðeigandi þjálfun, einkum í formi nákvæmra og skiljanlegra leiðbeininga um öryggi og hollustu um borð í skipum og sérstaklega um slysavarnir.

Þjálfunin sem um getur í 1. mgr. skal einkum taka til slökkvistarfa, notkunar öryggis- og björgunarbúnaðar fyrir starfsmennina sem í hlut eiga, notkunar veiðarfæra og lyftibúnaðar ásamt notkun ýmissa tegunda merkja, að handmerkjum meðtöldum.

Slík þjálfun skal eftir þörfum aðlöguð breytingum á starfsháttum um borð.

9. gr.

Umfangsmikil þjálfun einstaklinga

sem vænta má að hafi með höndum stjórn á skipum.

Að teknu tilliti til 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 365/1998 um heilbrigðisþjónustu, lyf og læknisáhöld um borð í íslenskum skipum, skulu einstaklingar sem vænta má að hafi með hendi stjórn á skipum fá umfangsmikla þjálfun í:

 a)            að koma í veg fyrir veikindi af völdum vinnu, slysa um borð í skipum og viðbrögð við slysum sem kunna verða;

 b)           stöðugleika og viðhaldi skips við allar fyrirsjánlegar hleðsluaðstæður þess við fiskveiðar;

 c)            siglingu með hjálp radíómerkja og fjarskiptum, þ.m.t. aðferðum þar að lútandi.

10. gr.

Samráð við starfsmenn.

Samráð starfsmanna og/eða fulltrúa þeirra og þátttaka í viðræðum um mál sem falla undir reglugerð þessa eða viðauka hennar skulu fara samkvæmt 11. gr. reglugerðar um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum.

11. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 29. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum.

12. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, með áorðnum breytingum og með hliðsjón af tilskipun ráðsins 93/103/EBE frá 23. nóvember 1993 um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum (þrettánda sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 14. desember 1998.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

 

I. VIÐAUKI

Lágmarkskröfur um öryggi og hollustuhætti um borð í nýjum fiskiskipum.

(3., 5. gr. og a-liður 1. mgr. 6. gr.)

Almenn athugasemd.

Þær kröfur sem mælt er fyrir um í viðauka þessum eiga ávallt við þegar þess er krafist vegna aðstæðna á vinnustað, vegna þeirrar starfsemi sem stunduð er, umhverfis eða aðsteðjandi hættu um borð í nýju fiskiskipi.

1.             Haffæri og stöðugleiki.

1.1.          Skipinu skal haldið í haffæru ástandi og um borð í því skal vera viðeigandi búnaður sem hentar tilgangi þess og notkun.

1.2.          Upplýsingar um stöðugleika skipsins skulu vera fyrir hendi um borð og vera aðgengilegur mönnum sem ganga vaktir.

2.             Vél- og rafbúnaður.

2.1.          Rafbúnaður skal þannig hannaður og útfærður að engin hætta fylgi og að tryggt sé:

-               að skip og skipshöfn sé varin gegn hættu af völdum rafmagns,

-               að allur búnaður sem nauðsynlegur er til að viðhalda eðlilegri starfsemi og lífsskilyrðum virki með eðlilegum hætti án þess að neyðarorkubirgðir séu nýttar,

-               að raftæki sem eru nauðsynleg vegna öryggis í öllum neyðartilvikum starfi rétt.

2.2.          Séð skal fyrir neyðarorkuveitu.

                Neyðarorkuveitan skal staðsett utan vélarrúms, nema ef um er að ræða opið skip, og skal í öllum tilvikum þannig komið fyrir að þótt eldsvoði eða bilun verði í aðalraforkuveitu skuli í minnst þrjár klukkustundir vera hægt að starfrækja:

-               innanhússboðskiptakerfi, eldskynjara og neyðarmerkjagjafa,

-               siglingaljós,

-               rafknúna neyðarslökkvidælu, ef hún er fyrir hendi.

                Ef neyðarorkuveita er rafgeymir og aðalorkuveitan bregst skal rafgeymirinn tengjast sjálfvirkt við skiptiborð fyrir neyðarraforku og veita orku óslitið í þrjár klukkustundir til kerfanna sem um getur í fyrsta, öðrum og þriðja undirlið annarrar undirgreinar. Aðalraforkuskiptiborð og neyðarskiptiborð skulu eftir fremsta megni vera sett þannig upp að þau verði ekki samtímis fyrir vatns- eða eldskemmdum.

2.3.          Skiptiborð skulu greinilega merkt; útsláttaröryggiskassar og -hylki skulu reglulega skoðuð til að tryggja að rétt stærð vartappa sé notuð.

2.4.          Rafeindasiglingatæki skulu prófuð oft og þeim haldið vel við.

2.5.          Allur spil- og lyftibúnaður skal prófaður og skoðaður reglulega.

2.6.          Öllum hlutum spil- og lyftibúnaðar og tengds búnaðar skal haldið vel við og vera í góðu lagi.

2.7.          Ef kæli- og þrýstiloftskerfi eru um borð skal þeim haldið vel við og þau skoðuð reglulega.

2.8.          Eldunar- og heimilistæki sem brenna þungu gasi skulu eingöngu notuð þar sem loftræsting er fullnægjandi og þess skal gætt að ekki myndist hættulegar lofttegundir við notkun þeirra. Þrýstihylki sem innihalda eldfimar og aðrar hættulegar lofttegundir skulu merkt með innihaldi þeirra og varðveitt á opnum þilförum. Allir lokar, þrýstijafnarar og leiðslur frá þrýstihylkjunum skulu varin fyrir skemmdum.

3.             Undankomuleiðir og neyðarútgangar.

3.1.          Auðkenna skal sérstakar undankomuleiðir og neyðarútganga með skiltum í samræmi við reglur nr. 707/1995, um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum.

3.2.          Þar sem lýsingar er þörf í neyðarútgöngum og á undankomuleiðum skal vera fullnægjandi neyðarlýsing ef straumlaust verður.

4.             Eldvarnir og slökkvistarf.

4.1.          Ávallt skal ganga úr skugga um að slökkvitæki og annar færanlegur slökkvibúnaður sé á sínum stað áður en skip lætur úr höfn.

4.2.          Handvirkur slökkvibúnaður skal vera innan seilingar og auðveldur í notkun auk þess sem hann skal auðkenndur með skiltum í samræmi við reglur nr. 707/1995, um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum. Skiltunum skal komið fyrir á viðeigandi stöðum og skulu þau vera endingargóð.

5.             Loftræsting á lokuðum vinnustöðum.

                Ef útblástursviftur eru notaðar til loftræstingar skal þeim haldið í nothæfu ástandi.

6.             Lýsing.

                Neyðarlýsingu skal haldið í starfhæfu ástandi auk þess sem hún skal prófuð reglulega.

7.             Hurðir.

7.1.          Hurðir skulu ávallt vera opnanlegar innan frá hvenær sem er án sérstakrar aðstoðar.

7.2.          Hurðir skal vera hægt að opna bæði innan frá og utan meðan starfsmenn eru á vinnustað.

7.3.          Hurðir, sérstaklega rennihurðir ef nauðsynlegt er að nota þær, skulu virka eins örugglega og unnt er fyrir starfsmenn, einkum við slæm veðurskilyrði og í sjógangi.

8.             Umferðarleiðir - hættusvæði.

8.1.          Gangar, lokaðir gangar, hlutar af þilfarsyfirbyggingu sem eru utanhúss og almennt allar umferðarleiðir skal útbúa með handriðum, rekkverkum og líflínum eða með öðrum útbúnaði til að tryggja öryggi starfsmanna við vinnu um borð í skipi.

8.2.          Ef hætta er á að starfsmenn falli niður um op á þilfari eða frá einu þilfari til annars skal sjá fyrir fullnægjandi vörn þar sem því verður við komið. Ef slík vörn er veitt með handriðum skulu þau vera að minnsta kosti 1m há.

8.3.          Aðgangur að starfsstöðvum ofan þilfars þar sem vinna og viðhald fer fram skal vera þannig gerður að öryggi starfsmanna sé tryggt. Séð skal fyrir handriðum eða varnarbúnaði af svipaðri gerð sem er nægilega hár til að koma í veg fyrir fall.

8.4.          Borðstokkum og öðrum búnaði til að koma í veg fyrir að menn falli fyrir borð skal haldið í góðu ásigkomulagi.

8.5.          Borðstokkar skulu búnir lensiopum eða öðrum álíka búnaði svo sjór og vatn renni burt með skjótum hætti.

9.             Skipulag verkstöðva.

9.1.          Vinnusvæðum skal haldið hreinum og þau skulu eftir fremsta megni vera varin fyrir sjógangi og þau skulu þannig búin að starfsmenn séu nægilega vel varðir gegn falli og gegn því að falla fyrir borð. Fiskvinnslusvæði skulu vera nægilega rúmgóð, bæði með tilliti til hæðar og svigrúms.

9.2.          Sé skipsvélum stjórnað frá vélarrúmi skal þeim stjórnað frá aðskildu rými, hljóð- og hitaeinangruðu frá vélarrúminu sjálfu og aðgengilegu án þess að ganga um vélarrúmið. Stjórnpallurinn telst vera svæði sem uppfyllir skilyrði gr. 9.1.

9.3.          Stjórntækjum lyftibúnaðar skal komið fyrir á svæði sem er nægilega rúmgott svo stjórnendur þeirra geti unnið þar hindrunarlaust. Lyftibúnaðurinn skal einnig búinn viðeigandi öryggistækjum ef um neyðartilvik er að ræða, þar með töldum búnaði til neyðarstöðvunar.

9.4.          Stjórnandi lyftibúnaðar skal hafa nægilega góða yfirsýn yfir lyftibúnaðinn og þá starfsmenn sem eru að störfum. Sé lyftibúnaðinum stjórnað frá stjórnpalli ætti stjórnandi hans einnig að hafa óhindrað útsýni til starfsmanna sem eru að störfum, annað hvort beint eða með öðrum miðlum sem henta til þess.

9.5.          Nota skal ábyggilegt samskiptakerfi til boðskipta milli stjórnpalls og vinnuþilfars.

9.6.          Ábyggileg vaktstaða skal ætíð viðhöfð á stjórnpalli og áhöfnin vöruð við aðsteðjandi hættu vegna brotsjóa meðan á fiskveiðum stendur eða meðan önnur vinna fer fram á þilfari.

9.7.          Með hjálp hlífðarbúnaðar skal eftir fremsta megni reynt að koma í veg fyrir snertingu við óvarin reipi og víra sem og hreyfanlega hluta búnaðar.

9.8.          Koma skal fyrir búnaði til að festa hreyfanlega hluta, einkum á togskipum:

-               búnaði til að sjóbúa toghlera,

-               búnaði til að koma í veg fyrir að trollpokinn sveiflist.

10.          Vistarverur.

10.1.        Staðsetning, bygging, hljóðeinangrun, hitaeinangrun og fyrirkomulag vistarvera starfsmanna og annarrar aðstöðu, ef hún er fyrir hendi, og aðgengi þar að ætti að vera með þeim hætti að nægileg vernd sé til staðar gegn veðri og sjógangi, titringi, hávaða og óþægilegri lykt frá öðrum hlutum skipsins sem kynni að trufla starfsmenn meðan hvíldartími þeirra stendur yfir.

10.2.        Ef byggingarlag skips, stærð og hlutverk þess leyfir skulu vistarverur starfsmanna staðsettar þar sem áhrif hreyfingar og hraðabreytinga eru sem minnst.

11.          Landgöngustigar og -brýr.

11.1.        Landgöngustigi, landgöngubrú eða álíka búnaður til að komast með öruggum hætti um borð í skipið skal vera fyrir hendi.

II. VIÐAUKI

Lágmarkskröfur um öryggi og hollustuhætti um borð í eldri fiskiskipum.

(4. gr. og a-liður 1. mgr. 6. gr.)

Almenn athugasemd.

Þær kröfur sem mælt er fyrir um í viðauka þessum eiga ávallt við, eftir því sem gerð og ástand eldra fiskiskips leyfir, þegar þess er krafist vegna aðstæðna á vinnustað, vegna þeirrar starfsemi sem þar er stunduð, umhverfis eða aðsteðjandi hættu um borð í eldra fiskiskipi.

1.             Haffæri og stöðugleiki.

1.1.          Skipinu skal haldið í haffæru ástandi og vera búið viðeigandi búnaði sem hentar tilgangi þess og notkun.

1.2.          Upplýsingar um stöðugleika skipsins skulu vera fyrir hendi um borð og vera aðgengilegar vakthafandi mönnum.

2.             Vél- og rafbúnaður.

2.1.          Rafbúnaður skal þannig hannaður og útfærður að engin hætta fylgi og að tryggt sé:

-               að skip og skipshöfn sé varin gegn hættu af völdum rafmagns,

-               að allur búnaður sem nauðsynlegur er til að viðhalda eðlilegri starfsemi og lífsskilyrðum virki með eðlilegum hætti án þess að neyðarorkubirgðir séu nýttar,

-               að raftæki sem eru nauðsynleg vegna öryggis í öllum neyðartilvikum starfi rétt.

2.2.          Séð skal fyrir neyðarorkuveitu. Neyðarorkuveita skal staðsett utan vélarrúms, nema ef um er að ræða opið skip, og skal í öllum tilvikum þannig komið fyrir að þótt eldsvoði eða bilun verði í aðalraforkuveitu skal í minnst þrjár klukkustundir vera hægt að starfrækja:

-               innanhússboðskiptakerfi, eldskynjara og neyðarmerki,

-               siglingarljós,

-               rafknúna neyðarslökkvidælu, ef hún er fyrir hendi.

Ef neyðarorkuveita er rafgeymir og aðalorkuveitan bregst skal rafgeymirinn tengjast sjálfvirkt við skiptiborð fyrir neyðarraforku og veita orku óslitið í þrjár klukkustundir til kerfanna sem um getur í fyrsta og öðrum lið upptalningarinnar hér að ofan. Aðalraforkuskiptiborð og neyðarskiptiborð skulu eftir fremsta megni vera sett þannig upp að þau verði ekki samtímis fyrir vatns- eða eldskemmdum.

2.3.          Skiptiborð skulu greinilega merkt; útsláttaröryggiskassar og -hylki skulu reglulega skoðuð til að tryggja að rétt stærð vartappa sé notuð.

2.4.          Rafeindaleiðsögutæki skulu prófuð oft og þeim haldið vel við.

2.5.          Allur spil- og lyftibúnaður skal prófaður og skoðaður reglulega.

2.6.          Öllum hlutum lyfti-, spilbúnaðar og tengds búnaðar skal haldið við og þeir skulu vera í góðu lagi.

2.7.          Ef kælibúnaður og þrýstiloftskerfi eru um borð skal þeim haldið vel við og þau skoðuð reglulega.

2.8.          Eldunar- og heimilistæki sem brenna þungu gasi skulu eingöngu notuð þar sem loftræsting er fullnægjandi og þess skal gætt að ekki myndist hættulegar lofttegundir við notkun þeirra. Þrýstihylki sem innihalda eldfimar og aðrar hættulegar lofttegundir skulu merkt með innihaldi þeirra og varðveitt á opnum þilförum. Allir lokar, þrýstijafnarar og leiðslur frá þrýstihylkjunum skulu varin fyrir skemmdum.

3.             Undankomuleiðir og neyðarútgangar.

3.1.          Auðkenna skal sérstakar undankomuleiðir og neyðarútganga með skiltum í samræmi við reglur nr. 707/1995, um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum.

3.2.          Þar sem lýsingar er þörf í neyðarútgöngum og á undankomuleiðum skal vera fullnægjandi neyðarlýsing ef straumlaust verður.

4.             Eldvarnir og slökkvistarf.

4.1.          Ávallt skal ganga úr skugga um að slökkvitæki og annar færanlegur slökkvibúnaður sé á sínum stað áður en skip lætur úr höfn.

4.2.          Handvirkur slökkvibúnaður skal vera innan seilingar og auðveldur í notkun auk þess sem hann skal auðkenndur með skiltum í samræmi við reglur nr. 707/1995, um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum. Skiltunum skal komið fyrir á viðeigandi stöðum og skulu þau vera endingargóð.

5.             Loftræsting á lokuðum vinnustöðum.

5.1.          Ef útblástursviftur eru notaðar til loftræstingar skal þeim haldið í nothæfu ástandi.

6.             Lýsing.

6.1.          Neyðarlýsingu skal haldið í starfhæfu ástandi auk þess sem hún skal prófuð reglulega.

7.             Hurðir.

7.1.          Hurðir skulu ávallt vera opnanlegar innan frá hvenær sem er án sérstakrar aðstoðar. Hurðir skal vera hægt að opna á báða vegu meðan starfsmenn eru á vinnustað.

7.2.          Hurðir, sérstaklega rennihurðir ef nauðsynlegt er að nota þær, skulu virka eins örugglega og unnt er fyrir starfsmenn, einkum við slæm veðurskilyrði og í sjógangi.

8.             Umferðarleiðir - hættusvæði.

8.1.          Gangar, lokaðir gangar, hlutar af þilfarsyfirbyggingu sem eru utanhúss og almennt allar umferðarleiðir skal útbúa með handriðum, rekkverkum og líflínum eða með öðrum útbúnaði til að tryggja öryggi starfsmanna við vinnu um borð í skipi.

8.2.          Ef hætta er á að starfsmenn falli niður um op á þilfari eða frá einu þilfari til annars skal sjá fyrir fullnægjandi vörn þar sem því verður við komið. Ef slík vörn er veitt með handriðum skulu þau vera að minnsta kosti eins metra há.

8.3.          Aðgangur að starfsstöðvum ofan þilfars þar sem vinna og viðhald fer fram skal vera þannig gerður að öryggi starfsmanna sé tryggt. Séð skal fyrir handriðum eða varnarbúnaði af svipaðri gerð sem er nægilega hár til að koma í veg fyrir fall.

8.4.          Borðstokkum og öðrum búnaði til að koma í veg fyrir að menn falli fyrir borð skal haldið í góðu ásigkomulagi. Borðstokkar skulu búnir lensiopum eða öðrum álíka búnaði svo sjór og vatn renni burt með skjótum hætti.

9.             Skipulag verkstöðva.

9.1.          Vinnusvæðum skal haldið hreinum og þau skulu eftir fremsta megni vera varin fyrir sjógangi og þau skulu þannig búin að starfsmenn séu nægilega vel varðir gegn falli og gegn því að falla fyrir borð. Fiskvinnslusvæði skulu vera nægilega rúmgóð, bæði með tilliti til hæðar og svigrúms.

9.2.          Sé skipsvélum stjórnað frá vélarrúmi skal þeim stjórnað frá aðskildu rými, hljóð- og hitaeinangruðu frá vélarrúminu sjálfu og aðgengilegu án þess að ganga um vélarrúmið. Stjórnpallurinn telst vera svæði sem uppfyllir skilyrði gr. 9.1.

9.3.          Stjórntækjum lyftibúnaðar skal komið fyrir á svæði sem er nægilega rúmgott svo stjórnendur þeirra geti unnið þar hindrunarlaust. Lyftibúnaðurinn skal einnig búinn viðeigandi öryggistækjum ef um neyðartilvik er að ræða, þar með töldum búnaði til neyðarstöðvunar.

9.4.          Stjórnandi lyfitbúnaðar skal hafa nægilega góða yfirsýn yfir lyftibúnaðinn og þá starfsmenn sem eru að störfum. Sé lyftibúnaðinum stjórnað frá stjórnpalli ætti stjórnandi hans einnig að hafa óhindrað útsýni til starfsmanna sem eru að störfum, annað hvort beint eða með öðrum miðlum sem henta til þess.

9.5.          Nota skal ábyggilegt samskiptakerfi til boðskipta milli stjórnpalls og vinnuþilfars.

9.6.          Ábyggileg vaktstaða skal ætíð viðhöfð á stjórnpalli og áhöfnin vöruð við aðsteðjandi hættu vegna brotsjóa meðan á fiskveiðum stendur eða meðan önnur vinna fer fram á þilfari.

9.7.          Með hjálp hlífðarbúnaðar skal eftir fremsta megni reynt að koma í veg fyrir snertingu við óvarin reipi og víra sem og hreyfanlega hluta búnaðar.

9.8.          Koma skal fyrir búnaði til að festa hreyfanlega hluta, einkum á togskipum:

-               búnaði til að sjóbúa toghlera,

-               búnaði til að koma í veg fyrir að trollpokinn sveiflist.

10.          Vistarverur.

10.1.        Vistarverur starfsmanna, ef þær eru fyrir hendi, skulu vera með þeim hætti að hávaði, titringur og áhrif hreyfingar og hraðabreytinga auk óþægilegrar lyktar frá öðrum hlutum skipsins séu sem minnst. Sjá skal fyrir nægilega sterkri lýsingu í vistarverum.

11.          Landgönguleiðir og -brýr.

11.1.        Landgöngustigi, landgöngubrú eða álíka búnaður til að komast með öruggum hætti um borð í skipið skal vera fyrir hendi.

III. VIÐAUKI

Lágmarkskröfur um öryggi og hollustuhætti

í tengslum við öryggis- og björgunarbúnað.

(d-liður 1. mgr. 6 gr.)

Almenn athugasemd.

Þær kröfur sem mælt er fyrir um í þessum viðauka eiga ávallt við þegar þess er krafist vegna aðstæðna á vinnustað, vegna þeirrar starfsemi sem stunduð er, umhverfis eða aðsteðjandi hættu um borð í skipi.

 1.            Um borð í skipinu skal vera fullnægjandi öryggis- og björgunarbúnaður, þar með talinn fullnægjandi búnaður til að bjarga starfsmönnum úr sjó eða vatni og radíóbjörgunarbúnaður, einkum baujur með neyðarútvarpsvita til staðsetningar, búnar vatnsþrýstingsvirkum sleppibúnaði, að teknu tilliti til fjölda einstaklinga um borð og staðsetningar skipsins.

 2.            Allir hlutar öryggis- og björgunarbúnaðar skulu varðveittir á þar til gerðum stöðum, þeim skal viðhaldið í góðu ásigkomulagi og vera tiltækir til tafarlausrar notkunar. Starfsmenn skulu yfirfara búnaðinn áður en skip lætur úr höfn og meðan á sjóferð stendur.

 3.            Öryggis- og björgunarbúnaður skal skoðaður reglulega.

 4.            Allir starfsmenn skulu hljóta viðeigandi þjálfun og leiðbeiningar í slysavörnum.

 5.            Sé skip lengra en 45 metrar eða starfsmenn fimm eða fleiri skal séð fyrir nafnaskrá til útkalls með skýrum fyrirmælum handa hverjum starfsmanni sem hann skal fara eftir í neyðartilviki.

 6.            Útkall starfsmanna til björgunaræfingar skal fara fram mánaðarlega í höfn og á sjó. Þessar æfingar skulu tryggja að starfsmenn séu færir um að gegna þeim skyldum sem þeim eru faldar vegna meðhöndlunar og notkunar alls öryggis- og björgunarbúnaðar. Starfsmenn skulu hljóta þjálfun í að setja upp og nota færanlegan fjarskiptabúnað ef hann er fyrir hendi um borð.

 

IV. VIÐAUKI

Lágmarkskröfur um öryggi og hollustuhætti í tengslum við persónuhlífar.

(e-liður 1. mgr. 6. gr.)

Almenn athugasemd.

Þær kröfur sem mælt er fyrir um í þessum viðauka eiga ávallt við þegar þess er krafist vegna aðstæðna á vinnustað, þeirrar starfsemi sem stunduð er, umhverfis eða aðsteðjandi hættu um borð í skipi.

 1.            Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir að hætta steðji að starfsmönnum eða draga nægilega úr henni með sameiginlegum eða tæknilegum varnarráðstöfunum skal þeim séð fyrir persónuhlífum.

 2.            Persónuhlífar í formi fatnaðar eða yfirhafna skulu vera í skærum andstæðulitum miðað við sjávarumhverfið auk þess sem þær skulu vera vel sýnilegar.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica