Menntamálaráðuneyti

278/1977

Reglugerð um Tækniskóla Íslands - Brottfallin

I. KAFLI.

Skýrgreiningar.

 

1. gr.

       Frumgreinadeild: Deild þar sem veitt er almenn menntun.

       Sérgreinadeild: Deild þar sem veitt er sérhæfð menntun.

       Námsgráða: Fullnægjandi lokapróf á námsbraut.

       Námsbraut: Skipulögð heild skólastarfs sem lýkur með námsgráðu.

       Námsgrein: Einn eða fleiri náskyldir námsáfangar.

       Námsáfangi: Ein eða fleiri námseiningar sem skipað er saman.

       Námseining: Skipulagt námsefni sem svarar til einnar viku námsvinnu eða 2ja kennslustunda á viku í eina önn.

       Kjarni: Námsefni sem allir nemendur námsbrautar verða að nema.

       Val: Námsefni sem nema verður umfram kjarna til að hljóta námsgráðu.

       Lokaverkefni: Hluti af vali.

       Undanfari: Áfangi sem ljúka verður áður en hafið er nám í öðrum tilteknum áfanga.

       Eftirfari: Áfangi sem á sér undanfara.

 

II. KAFLI

Markmið skólans og skipulag.

 

2. gr.

       Meginmarkmið Tækniskóla Íslands skal vera að veita nemendum bæði almenna menntun og sérmenntun sem gerir þá hæfa til að talkast sjálfstætt á hendur tæknileg störf og ábyrgðarstöður í þágu atvinnuvega þjóðarinnar. Skal jafnan tekið mið af innlendum þörfum og þróun tæknimenntunar meðal nágrannaþjóða.

 

3. gr.

       Upphaf náms í Tækniskóla Íslands er eðlilegt framhald af iðnnámi og öðru verknámi eftir því sem við getur átt.

 

4. gr.

       Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.

 

5. gr.

       Meginverkefni skólans skulu vera eftirfarandi:

1.        Almenn menntun, einkum til undirbúnings sérhæfðu námi fyrir tækna, tæknifræðinga, verkfræðinga, búfræðikandidata o. fl.

2.        Framhaldsmenntun iðnaðarmanna til tæknaprófs.

3.        Menntun til tæknaprófs, svo sem fyrir meinatækna og útgerðartækna, þótt ekki sé framhald löggiltra iðngreina.

4.        Menntun til tæknifræðiprófs eftir nánari ákvörðun menntamálaráðuneytisins. Skólinn skal og leggja sérstaka áherslu á að halda námskeið fyrir starfandi tæknimenn. Námskeið þessi eiga að treysta tengsl skólans við atvinnulífið og stuðla að símenntun.

 

6. gr.

       Deildir skólans eru frumgreinadeild og sérgreinadeildir.

       Í frumgreinadeild skulu kenndar bæði huggreinar og raungreinar, einkum eftir því sem þörf gerist til undirbúnings sérnámi.

       Sérstakri námsbraut í frumgreinadeild lýkur með "raungreinadeildarprófi" sem fullnægir kröfum um almenna menntun til inngöngu í tæknifræðinám. Sérgreinadeildir eru byggingadeild, rafmagnsdeild, véladeild, meinatæknadeild og útgerðardeild.

       Heimilt er að stofna fleiri deildir með samþykki menntamálaráðuneytisins.

 

7. gr.

       Námsefni er skipað í námsbrautir sem hver um sig er safn námsáfanga.

       Í hverri deild skal vera a.m.k. ein námsbraut og lýkur henni með námsgráðu sem að jafnaði veitir réttindi til starfs eða framhaldsnáms.

       Hver námsáfangi er yfirleitt hluti af a.m.k. einni námsbraut. Skólinn getur heimilað þátttöku í ýmsum áföngum þótt nemandinn stefni ekki að námsgráðu sem námsbrautir veita. Þó skal starfræksla námsbrauta njóta forgangs ef ekki reynist unnt að fullnægja óskum allra umsækjenda.

 

III. KAFLI.

Inngönguskilyrði.

 

8. gr.

       Fyrstu áfangar eiga sér undanfara sem fást annars staðar í menntakerfinu og/eða í atvinnulífinu. Þegar um framhaldsmenntun iðnaðarmanna er að ræða fást þessir undanfarar í iðnnámi, bæði í almennum greinum og í sérgreinum. Undanfara skal miða við það að nemandinn hafi nægilegan grundvöll til að njóta kennslu í þeim námsáfanga sem um er að ræða.

       Skólanefnd getur falið iðnskóla, sveinprófsnefnd eða öðrum hæfum aðila að prófa verkkunnáttu umsækjanda.

       Fyrir námsbrautir í byggingum, rafmagni og vélum er fullnægjandi að hafa lokið:

a)       sveinsprófi í samræmi við skrá sem menntamálaráðuneytið samþykkir um þær tegundir sveinsprófa sem gilda fyrir hverja námsbraut eða

b)       tveggja ára viðeigandi verkskólun á vegum iðnskóla eða

c)       viðeigandi starfsreynslu sem að mati skólanefndar svarar a.m. . til þess sem rætt er um í b-lið. Hér er einkum átt við greinar þar sem skipulagðri verkskólun hefur ekki verið komið á fót en einnig þau tilvik þegar umsækjandi er orðinn 24 ára.

       Áður en nemandi er brautskráður getur skólanefnd krafist þess að hann ljúki sveinsprófi í tiltekinni iðngrein eða afli sér ákveðinnar viðbótarstarfsreynslu ef fyrri verkmenntun hans telst ekki að öllu leyti viðeigandi.

       Um bókleg og verkleg inngönguskilyrði í aðrar námsbrautir fer eftir námsskrá eða öðrum sérstökum reglum sem menntamálaráðuneytið staðfestir að fengnum tillögum skólanefndar.

 

9. gr.

       Innritun nemenda er í höndum rektors skólans og forstöðumanna tækniskólanáms utan Reykjavíkur.

       Skólinn skal auglýsa innritun með a.m.k. þriggja vikna umsóknarfresti. Sækja skal um innritun í skólann á þar til gerðum eyðublöðum.

 

IV. KAFLI.

Námaefni og kennsla.

 

10. gr.

       Með skólastarfinu skal miða að því að auka nemendum víðsýni í skoðunum og sanngirni í dómum og búa þá þannig undir að bregðast af raunsæi við nýjungum í síbreytilegu þjóðfélagi. Leggja skal áherslu á að þjálfa nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum jafnframt því sem þeim skal kennt að vinna saman í hópum að afmörkuðum verkefnum.

 

11. gr.

       Skipulagsgrundvöllur kennslunnar er skólaárið. Það skiptist í haustönn og vorönn. Jólaleyfi er frá 21. desember til 3. janúar. Sumartími frá 1. júní til 31. ágúst er ætlaður til orlofs og verklegrar þjálfunar í samráði við einstakar deildir skólans. Heimilt er skólanum að efna til verklegra æfinga, viðbótarnámsheiða og upprifjunarnámskeiða á þessu tímabili.

 

12. gr.

       Minnsta magn af skipulögðu námsefni nefnist námseining og svarar til u.þ.b. einnar viku námsvinnu eða 2ja kennslustunda á viku í eina önn.

       Ein námseining eða fleiri, sem skipað er saman, mynda námsáfanga. Fyrir hvern áfanga er gefin einkunn.

 

13. gr.

       Um námsefni og kennslu fer á hverjum tíma eftir námsvísi viðkomandi deildar. Þar er lýst námsbrautum (kjarna og vali), námsáföngum og námseiningum, ástundunarreglum deildarinnar og veittar aðrar gagnlegar upplýsingar.

 

14. gr.

       Áður en nemandi fær að stunda tiltekinn námsáfanga má krefjast þess að hann hafi tileinkað sér nauðsynlega undirbúningsmenntun og/eða hafi starfsreynslu. Nemanda er að öðru leyti í sjálfsvald sett hvaða námsáfanga hann velur sér eða hvort hann gerir í samráði við stjórnendur skólans hlé á námi.

 

V. KAFLI.

Próf.

 

15. gr.

       Einkunn er gefin fyrir hvern námsáfanga, venjulega fyrir frammistöðu á skriflegu og/eða munnlegu prófi. Þó er heimilt að gefa einkunn að nokkru eða öllu leyti fyrir námsvinnu í stað prófs. Reglulegur próftími er í desember og maí en halda má próf á öðrum árstímum vegna sérstakra ástæðna.

       Nú er námsáfangi kenndur víðar en í Reykjavík og skal þá venjulega nota sama prófverkefnið samtímis alls staðar.

 

16. gr.

       Deildarstjórn (sbr. 28. gr.) setur sérstakar ástundunarreglur sem skólastjórn samþykkir. Próf hvers áfanga má nemandi þreyta tvísvar sinum enda hafi hann við fyrri tilraun hlotið einkunina D eða E. Skólanefnd getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.

 

17. gr.

       Einkunnir skal gefa eins og hér segir:

A.      Kröfum skólans fullnægt með mjög góðum árangri.

B.      Kröfum skólans fullnægt með góðum árangri.

C.      Kröfum skólans fullnægt með viðunandi árangri.

D.      Aðeins lágmarkskröfum fullnægt. Einingar fyrir þannig áfanga teljast ekki með þegar saman er talið námsmagn sem nemandinn hefur lokið. Ef einkunn fyrir eftirfara er A eða B má þó telja þessar einingar með.

E.       Kröfum skólans ekki fullnægt.

 

18. gr.

       Kennari og prófdómari gefa einkunn. Venjulega er jafnræði með þeim. Ef deildarstjórn mælir með því þá getur mat kennara haft þyngra vægi en mat prófdómara, enda sé mat kennarans þá að nokkru leyti byggt á atriðum sem ekki er aðgengilegt fyrir prófdómara að meta (sbr. 15. gr.).

 

19. gr.

       Halda skal prófbók og skrá í hana einkunn hvers námsáfanga. Kennarar og prófdómarar staðfesta einkunnagjöf með undirskrift sinni. Við lok námsbrautar gefur skólin út prófskírteini (sbr. þó 24. gr.). Rektor og hlutaðeigandi deildarstjóri undirrita prófskírteini. Auk þeirra undirrita forstöðumenn námsbrauta utan Reykjavíkur prófskírteini sinna nemenda.

 

VI. KAFLI.

Stjórnun og starfslið skólans.

 

20. gr.

       Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólans. Menntamálaráðherra skipar skólastjóra er ber starfsheitið rektor, svo og fasta kennara og annað fastráðið starfsfólk, einnig skólanefnd og formann kennslunefndar.

 

21. gr.

       Rektor hefur yfirumsjón með kennslu, prófum og annarri starfsemi skólans. Hann er æðsti fulltrúi skólans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan. Hann annast daglegan rekstur skólans og ber ábyrgð á því að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerð og námsskrár. Hann er ábyrgur um samskipti við yfirvöld skólans og aðra opinbera aðila, þ. á. m. um fjárreiður og reikningshald, svo og skipulag og áætlanagerð vegna rekstrar og framkvæmda í skólanum. Hann hefur yfirumsjón með eignum skólans, lausum og föstum. Rektor tekur ákvarðanir í málum er varða stjórnun skólans ef þau eru ekki falin öðrum aðilum í lögum eða reglugerð. Rektor ræður, með samþykki ráðuneytisins, lausráðið starfsfólk skólans.

 

22. gr.

       Þeir einir geta orðið fastir kennarar skólans sem lokið hafa tæknifræðiprófi frá viðurkenndum tækniskóla eða háskólaprófi í aðalkennslugrein sinni. Heimilt er að ráða aðstoðarmenn við kennslu. Ráðherra setur rektor og kennurum erindisbréf.

 

23. gr.

       Kennarar skulu starfa með nemendum utan kennslustunda í samráði við rektor og vinna önnur störf í þágu skólans eftir því sem ástæður leyfa. Má þá fækka skyldustundum kennara, svo og vegna mikillar heimavinnu eða annarra nauðsynlegra aukastarfa að fengnu samþykki menntamála-ráðuneytisins.

 

24. gr.

       Við skólann starfar 5 manna skólanefnd, skipuð af menntamálaráðuneytinu til fjögurra ára í senn. Alþýðusamband Íslands, Landssamband iðnaðarmanna, Félag íslenskra iðnrekenda og Tæknifræðingafélag Íslands tilnefna hvert um sig einn mann í nefndina og annan til vara en ráðuneytið skipar formann og varaformann nefndarinnar án tilnefningar. Rektor situr fundi skólanefndar. Hlutverk skólanefndar er að vera rektor til ráðuneytis um mikilvæg atriði varðandi stjórnun skólans, fylgjast með erlendri reynslu og þróun á sviði tæknimenntunar, gera tillögur um stefnumörkun í málefnum skólans og stuðla að sem nánustum tengslum hans við atvinnulífið. Hún gerir tillögur um sérstök inngönguskilyrði fyrir ákveðnar námsbrautir og kveður á um brautskráningu (sbr. 8.gr.) og skal þá taka mið af lögum og reglugerðum um starfsréttindi. Heimilt er skólanefnd að fela iðnskóla, sveinsprófsnefnd eða öðrum hæfum aðila að prófa verkkunnáttu umsækjenda. Loks gerir nefndin tillögur um breytingar á reglugerð skólans.

       Formaður skal kveðja skólanefnd til fundar eigi sjaldnar en tvisvar á ári með þriggja daga fyrirvara. Auk þess skal skólanefnd sitja a.m.k. einn fund á ári með skólastjórn. Formaður skal einnig boða til fundar í nefndinni ef 2 nefndarmenn æskja þess. Ályktun fundar er því aðeins gild að 4 nefndarmenn eða varamenn þeirra sæki fund.

       Rektor leggur skrá um námsefni fyrir skólanefnd sem gengur úr skugga um að það sé í samræmi við almenna þróun á sviði tæknimenntunar. Skólanefnd skal stuðla að nánum tengslum tækniskólans við aðra skóla sem veita verk- og tæknimenntun.

 

25. gr.

       Við skólann starfar skólastjórn. Í henni eiga sæti rektor, sem er formaður, fastráðnir kennarar og einn fulltrúi nemenda fyrir hverja þrjá aðra skólastjórnarmenn. Skólastjórn er rektor til ráðuneytis um starfsemi skólans. Rektor kveður skólastjórn til fundar eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Til fundar skal boða með þriggja daga fyrirvara. Auk þess skal rektor boða til fundar ef þriðjungur skólastjórnarmanna æskir þess. Rektor eða sá sem hann skipar er í forsæti á fundum skólastjórnar. Rektor skipar ritara. Ályktun skólastjórnar er því aðeins gild að 2/3 hlutar atkvæðisbærra manna sæki fund. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr. Rísi ágreiningur milli rektors og meirihluta skólastjórnar geta aðilar leitað úrskurðar menntamálaráðherra.

 

26. gr.

       Við skólann starfar þriggja manna kennslunefnd. Þar eiga sæti rektor skólans, einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðuneyti og einn deildarstjóri eða annar fulltrúi kennara. Skipta skal um þann fulltrúa eftir þeim umfangsefnum sem um er fjallað. Kennslunefnd skal meta vinnu kennara við kennslu og önnur störf í þágu skólans til vinnustunda.

 

27. gr.

       Rektor ræður, að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins, deildarstjóra til allt að fjögurra ára í senn úr hópi kennara hlutaðeigandi deildar.

       Deildarstjóri hefur á hendi faglega stjórnun deildarinnar. Hann sér um gerð stundaskrár og próftöflu, gerir skrár um námsbækur, handbækur og önnur kennslugögn og hefur eftirlit með útvegun þeirra. Hann skráir vinnu kennara, leiðbeinenda og gestafyrirlesara og hefur umsjón með þátttöku kennara í stjórnun deildarinnar. Hann skráir úrlausnir og námsvinnu nemenda, fylgist með fjarvistaskrá þeirra og skipuleggur námsferðir. Hann hefur á hendi samræmingu og endurskoðun námsefnis í deild sinni og gerð námsvísa (sbr. 13. gr.). Hann leggur drög að fjárhagsáætlun deildar sinnar fyrir rektor. Deildarstjóri á sæti í skólastjórn og er rektor til ráðuneytis um almenna stjórnun skólans og samræmingu í starfi innan stofnunarinnar. Deildarstjóri frumgreinadeildar hefur einnig faglega umsjón með slíkum deildum utan Reykjavíkur. Sama á við um aðra deildarstjóra ef námsbrautum eða einstökum námsáföngum sérgreinadeilda verður komið á fót utan Reykjavíkur nema menntamála-ráðuneytið mæli öðruvísi fyrir.

 

28. gr.

       Deildarstjórn er deildarstjóra til ráðuneytis. Þar eiga sæti allir flokksstjórar deildarinnar og einn fulltrúi nemenda fyrir hverja tvo aðra deildarstjórnarmenn; þó eru ekki færri en tveir nemendur í deildarstjórn. Deildarstjóri er formaður á fundum deildarstjórnar. Deildarstjórn fjallar um samræmingu námsefnis og kennslu, nýjar aðferðir og kennslugögn, námsferðir nemenda, kaup á tímaritum, handbókum og kennslutækjum og þátttöku kennara í sérhæfingarnámskeiðum. Deildarstjóri gerir rektor grein fyrir samþykktum deildarstjórnar og leitar samþykkis hans eftir því sem við á.

 

29. gr.

       Heimilt er að mynda flokk úr hópi þeirra kennara er kenna skyldar námsgreinar. Rektor felur, að tillögu deildarstjóra, kennara að annast starf flokksstjóra. Flokksstjóri er formaður kennara í viðkomandi flokki og á sæti í deildarstjórn. Flokksstjóri heldur flokksfund við upphaf námsáfanga og á öðrum tímum eftir því sem nauðsyn krefur. Flokksstjóri stjórnar flokksfundi og skráir ályktanir hans, gengur frá tillögum til deildarstjóra um námsefni og aðferðir, hefur umsjón með samningu prófverkefna og afhendir þau deildarstjóra eftir að prófdómari hefur samþykkt þau. Skylt er kennurum að sækja eðlilega boðaðan flokksfund. Deildarstjóri situr og hefur atkvæðisrétt á flokksfundum. Flokksstjórar hafa umsjón með valgreinum og lokaverkefnum hver í sínum flokki. Heimilt er að undanskilja afmarkaðan hluta af störfum flokksstjóra (sbr. hér að framan) og annast þá deildarstjóri þau störf eftir því sem við á. Venjulega er aðeins einn flokksstjóri í hverri námsgrein eða námsgreinaflokki þótt kennsla fari fram víðar en í Reykjavík. Flokksstjóri heldur eftir þörfum flokksfundi í öðrum skólum sem þessa menntun annast.

       Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 66/1972 um Tækniskóla Íslands og öðlast gildi 15. júní 1977. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 215/1973 um Tækniskóla Íslands.

 

Menntamálaráðuneytið, 15. .júní 1977.

 

Vilhjálmur Hjálmarsson.

Birgir Thorlacius.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica