Menntamálaráðuneyti

481/1997

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 278/1977 um Tækniskóla Íslands, með áorðnum breytingum. - Brottfallin

1. gr.

5. gr. orðist svo:

"Meginverkefni skólans skulu vera eftirfarandi:

1.             Almenn menntun, einkum til undirbúnings sérhæfðu námi fyrir iðnfræðinga,

                tæknifræðinga, verkfræðinga, búfræðikandidata o.fl.

2.             Framhaldsmenntun iðnaðarmanna til iðnfræðiprófs.

3.             Menntun til sérstakra starfa á heilbrigðissviði, svo sem meinatækna og

                röntgentækna eftir nánari ákvörðun menntamálaráðuneytisins.

4.             Menntun í rekstrarfræðum samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðuneytisins.

5.             Menntun til tæknifræðiprófs eftir nánari ákvörðun menntamálaráðuneytisins.

Skólinn skal og leggja sérstaka áherslu á að halda námskeið fyrir starfandi tæknimenn og aðra sem lokið hafa námi á námssviðum skólans."

2. gr.

3. mgr. 9. gr. falli brott.

Ný mgr. svohljóðandi, bætist aftan við 9. gr:

"Að fengnum rökstuddum tillögum deildar getur rektor, með samþykki skólanefndar eða námsbrautarnefndar eftir því sem við á, ákveðið að takmarka fjölda nemenda á einstökum námsbrautum þegar séð er að ekki er unnt að veita öllum sem uppfylla inntökuskilyrði inngöngu eða þess er ekki kostur að veita nema takmörkuðum fjölda þá kennslu sem nauðsynleg er."

3. gr.

13. gr. orðist svo:

Gefin skal út kennsluskrá fyrir komandi skólaár, ekki síðar en í apríl ár hvert. Skal kennsluskráin samþykkt af skólanefnd og staðfest af menntamálaráðuneytinu.

Í kennsluskránni skulu vera skráð númer og nöfn allra námskeiða og stutt lýsing á hverju námskeiði fyrir sig. Tilgreina ber öll skilyrði um undanfara einstakra námskeiða þegar það á við. Í námskeiðslýsingum skulu koma fram upplýsingar um kennara, markmið námskeiðsins, námsmat og lesefni. Jafnframt skal í kennsluskrá greina hvernig námskeiðum er skipt eftir kennslumisserum, hver sé áætlaður meðalnámstími og hámarksnámstími hverrar námsbrautar. Ennfremur skal lýsa þar kennsluháttum og öðru, eftir því sem þörf þykir.

4. gr.

17. gr. orðist svo:

"Einkunnir skal gefa í heilum og hálfum tölum á bilinu 0-10.

Í frumgreinadeild þarf einkunn í hverjum áfanga að vera 5,0 eða hærri til að standast próf.

Í sérgreinadeildum gildir: Til að standast próf í áfanga þarf einkunn að vera 5,5 eða hærri. Þó getur nemandi útskrifast með einkunnina 5 í einum áfanga.

Einkunn undir 4 þýðir að nemanda er skylt að stunda nám í áfanganum að nýju eins og um fyrstu tilraun væri að ræða áður en heimilt er að endurtaka próf."

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum, nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 10. júlí 1997.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica