Leita
Hreinsa Um leit

Fjármálaráðuneyti

56/1961

Reglugerð um tollvörugeymslur. - Brottfallin

I.KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

                Tollvörugeymslur samkvæmt reglugerð þessari eru þrenns konar:

1.        Almennar tollvörugeymslur.

2.        Tollfrjálsar forðageymslur.

3.        Flutningageymslur (Transit-geymslur).

Leyfi ráðherra þarf til að stofna og reka tollvörugeymslu.

Auk þeirra skilyrða, sem lög og reglugerðir setja um rekstur tollvörugeymslna, geur ráðherra bundið leyfi öðrum þeim skilyrðum, sem nauðsynleg kunna að þykja, til að tryggja hagkvæman rekstur geymslu og til að fyrirbyggja, að eftirlit með henni verði óhæfilega erfitt eða kostnaðarsamt.

2. gr.

Sá, sem ætlar að reka tollvörugeymslu, skal áður en geymsla er tekin í notkun, setja ríkissjóði tryggingu, sem ráðherra ákveður í leyfi samkvæmt 1. gr., fyrir opinberum gjöldum, sem hann kann að þurfa að greiða vegna reksturs geymslunnar, þar með talið eftirlitsgjald samkv. 17. gr. og geymslugjald eða leiga, ef geymsla er rekin í húsakynnum tollgæzlunnar.

3. gr.

Tollvörugeymslur má aðeins reka í húsakynnum, sem tollyfirvöld hafa samþykkt til þeirra nota.

Ekki skal samþykkja önnur hús til afnota fyrir tollvörugeymslur en traustar byggingar, sem öruggar mega teljast til geymslu á öllum algengum varningi. Glugga- og dyraumbúnaður skal vera traustur og þannig til hagað, að auðvelt sé að fylgjast með allri umferð um geymsluna og með öllum flutningi á varningi að henni og frá.

Úr tollvörugeymslu má ekki vera innangengt til húsakynna, sem höfð eru til annarra nota.

Óheimilt er að gera breytingar á húsakynnum tollvörugeymslu nema að fengnu leyfi tollyfirvalda.

Leyfishafa er skylt að halda húsum tollvörugeymslu sinnar og útbúnaði vel við og verða við fyrirmælum tollyfirvalda um endurbætur á því, sem gengur úr sér. Heimilt er að svipta leyfishafa leyfi til að reka tollvörugeymslu, ef hann fullnægir ekki þeim skilyrðum, sem sett eru í þessari málsgrein.

4. gr.

Óheimilt er að geyma samtímis í sömu húsakynnum tollgeymsluvörur og annan varning.

Þegar vara, sem liggur í tollvörugeymslu, hefur verið tollafgreidd til brottflutning úr geymslunni, skal hún flutt þaðan án tafar.

5. gr.

Leyfishafa er skylt að láta tollgæzlunni endurgjaldslaust í té innan tollvörugeymslu nægilegt og hæfilega búið athafnapláss til vöruskoðunar og annarra eftirlitsstarfa, svo og tæki og útbúnað, sem nauðsynlegur er til þeirra starfa.

6. gr.

Tollyfirvöld geta kveðið svo á, að vörur í hæstu gjaldaflokkum eða vörur, sem af einhverjum ástæðum eru mjög vandgeymdar, megi aðeins geyma í sérstaklega lokuðum herbergjum innan tollvörugeymslu, eða að hlýtt sé annars sérstökum öryggisráðstöfunum um meðferð þeirra og geymslu.

7. gr.

Tollvörugeymslur skulu jafnan vera bæði undir lás geymsluhafa og lás og innsigli tollgæzlunnar.

8. gr.

Ráðherra ákveður með auglýsingu hverjar vörur megi setja í tollvörugeymslu. óheimilt er þó að setja í almennar tollvörugeymslur eða tollfrjálsar forðageymslur vörur, sem innflutningur er bannaður á vegna sóttvarna, varna gegn alidýrasjúkdómum eða jurtasjúkdómum eða af öðrum öryggisástæðum. Um heimild til geymslu á slíkum vörum í flutningageymslum (transit-geymslum) fer eftir ákvæðum þess ráðuneytis, sem viðkomandi öryggisráðstafanir heyra undir.

Í tollvörugeymslur, sem tollgæzlan rekur, er óheimlt að setja eldfim efni, efni, sem sprengihætta stafar af, sem annars getur stafað hætta af fyrir tollvörugeymsluna eða vörur, sem þar eru geymdar.

9. gr.

Tollgæzlumenn skulu hafa óhindraðan aðgang að tollvörugeymslum, hvenær sem þeir óska, til rannsóknar og eftirlits. Þeir geta hvenær sem er gert birgðatalningu í geymslunum og geymsluhafi og starfsmenn hans skyldir að leggja til þá aðstoð, sem þarf til þess að talning verði framkvæmd.

Aðalbirgðatalning skal framkvæmd eigi sjaldnar en einu sinni á ári í almennum tollvörugeymslum og í flutningageymslum, en ársfjórðungslega í tollfrjálsum forðageymslum.

Áður en aðalbirgðakönnun fer fram samkvæmt næstu málsgrein hér á undan ber geymsluhafa að láta tollstjóra í té birgðaskrá um allt það, sem liggur í geymslunni.

10. gr.

Geymsluhafa ber að halda nákvæmt birgðabókhald um þær vörur, sem hann hefur í tollvörugeymslu og úr henni.

Tollgæzlumenn skulu hafa aðgang að brigðabókhaldi geymsluhafa til rannsóknar og eftirlits, hvenær sem er, svo og að bókahaldi hans að öðru leyti, ef þess gerist þörf til að leita skýringar á atriðum, sem varða vörur, er farið hafa um tollvörugeymsluna.

11. gr.

Geymsluhafa ber að tilkynna viðkomandi tollstjóra, hverjir hafa heimild til að ganga um geymslur hans. Tollgæzlumönnum ber að sjá um, að engum óviðkomandi sé leyfð umferð um tollvörugeymslur. Rétt er þeim, sem hefur heimild til að ganga um tollvörugeymslu að taka þangað með sér þá aðstoðarmenn, sem nauðsyn krefur, vegna starfa í geymslunni.

12. gr.

Tollgæzlumenn hafa heimild til að rannsaka allar vörur og muni, sem eru í tollvörugeymslu, svo og alla muni og allar vörur, sem fluttar eru í tollvörugeymslu eða úr henni. Þeim er heimilt að gera leit í öllum þeim faratækjum, sem um geymslurnar fara eða flytja menn eða muni að þeim eða frá. Enn fremur er tollgæzlumönnum heimilt að leita á mönnum, sem staddir eru í tollvörugeymslu, starfa við vöruflutninga að tollvörugeymslu eða frá, svo og mönnum, sem annars eru á leið úr tollvörugeymslu.

13. gr.

Vöru má aðeins flytja í tollvörugeymslu, að fyrir liggi skriflegt samþykki tollstjóra í því umdæmi, sem tollvörugeymslan er. Þetta á þó ekki við, ef vörur eru fluttar beint úr vistarforða skips eða flugvélar í tollfrjálsa forðageymslu viðkomandi útgerðar- eða flugfélags, né um vörur, sem fluttar eru beint úr farartæki, sem flutti þær til landsins, í flutningageymslur (transit-geymslur), enda séu skilyrði til þess að taka megi vöruna í slíka geymslu.

Um slíkar og önnur gögn varðandi vörur, sem fluttar eru í tollvörugeymslur án undanfarandi samþykkis tollstjóra, samkvæmt því, sem segir hér næst á undan, gilda reglur 34. og 46. gr. reglugerðar þessarar.

14. gr.

Óheimilt er að flytja vörur úr tollvörugeymslu nema fyrir liggi skriftlegt leyfi viðkomandi tollstjóra. Ákvæði þetta gildir ekki um vörur úr tollfrjálsum forðageymslum né vörur, sem seldar eru úr verzlunum, sem heimild hafa til að selja tollfrjálsan varning til farþega í ferðum milli landa.

15. gr.

Aðflutningsgjöld af vörum, sem settar hafa verið í tollvörugeymslu, skulu miðuð við það magn, sem sett var í geymsluna. Nú kemur fram óeðlileg rýrnun eða vöntun á vörum í tollgeymslu og er þá geymsluhafi skyldur að greiða tolla og önnur aðflutningsgjöld af því sem vantar, þótt annar sé eigandi vörunnar.

16. gr.

Þegar aðflutningsgjöld eru greidd af vörum úr tollvörugeymslu skal um greiðslu þeirra fullnægingu innflutningsskilyrða og annarra opinberra fyrirmæla um aðflutta vöru, fara samkvæmt þeim

reglum, sem gilda þegar tollgreiðsla fer fram. Heimilt er þó, þegar krafizt er gjalda af vöru, sem glatazt hefur eða misfarizt í tollvörugeymslu, að krefja hæstu aðflutningsgjöld, sem gilt hafa á tímabilinu frá því að vara var sett í tollvörugeymsluna og þar til gjöldin eru greidd.

17. gr.

Geymsluhafa ber að greiða ríkissjóði gjald fyrir kostnað við tolleftirlit mwð tollvörugeymslum. Gjald þetta skal miða við gildandi tímakaup tollgæzlumannafyrir þann tíma, sem þeir þurfa að vera í geymslunni vegna eftirlits eða annarra starfa. Gjaldið reiknast fyrir hverja byrjaða klukkustund. Í tollvörugeymslum, þar sem tollgæzlumanns er þörf að staðaldri, er ráðherra heimilt að ákveða eftirlitsgjald sem fasta mánaðargreiðslu.

18. gr.

Óheimilt er að neyta varnings, sem er í tollvörugeymslu eða nota hann á annan hátt innan geymslunnar eða annars staðar áður en fullnaðar tollafgreiðsla hans fer fram.Ákvæði þetta á einnig við ef vöru, sem á að flytja í tollavörugeymslu, er neytt eða hún er notuð eða henni skotið undan á annan hátt, áður en hún komst í geymsluna.

Óheimil og refsiverð er hvers konar meðferð á vöru, sem er í eða á að fara í tollvörugeymslu, og er andstæð þeim fyrirmælum, sem tollstjóri hefur gefið um meðferð vörunnar.

19.gr.

Lögverð samkvæmt 28. gr. laga um tollheimtu og tolleftirlit nr. 68 frá 1956 hvílir á vörum, sem eru í tollvörugeymslu.Lögveðið nær til aðflutningsgjalda af vörunni og allra annarra gjalda til ríkissjóðs,sem á að hafa fallið vegna geymslu vörunnar, svo sem eftirlitsgjalds samkvæmt 17. gr. og geymslugjalds eða leigu í þeim geymslum, sem tollgæzlan rekur.

 

II. KAFLI

Almennar tollvörugeymslur.

20. gr.

Ráðherra getur ákveðið, að tollgæzlan reki almennar tollvörugeymslur á höfnum, þar sem húsakostur og aðrar aðstæður til þess eru fyrir hendi.

Með þeim skilyrðum, sem greinir í I. kafla reglugerðar þessarar, getur ráðherra veitt sveitarfélögum, félögum eða einstaklingum, heimild til að stofna og reka almennar tollvörugeymslur.

Leyfi skal að jafnaði veitt þeim einum, sem geta almennt látið þeim aðilum, er í 21. gr., getur, í té afnot þeirrar tollvörugeymslu, sem þeir hyggjast reka. Þó er heimilt að veita leyfi til að reka tollvörugeymslu á takmörkuðum grundvelli, en að jafnaði skal það ekki gert nema um sé að ræða geymslur fyrir sérstaka vöruflokka, sem fluttir eru inn eða úr landi í stórum sendingum og ekki eru margbrotnir í tollmeðferð.

21. gr.

Innflutningsverzlunum, iðnrekendum, útgerðarfyrirtækjum og örðum, sem svipaðra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við innflutning vöru eða útflutningi er heimilt að koma vörum sínum til geymslu í almennum tollvörugeymslum, meðan þess er beðið, að þær verði endanlega tollafgreiddar eða fluttar úr landi.

22. gr.

Áður en vara er færð í tollvörugeymslu samkvæmt þessum kafla, ber að afhenda tollstjóra innflutningsskýrslu um vöruna, er sé greinilega auðkennd um, að hana eigi að leggja í almenna tollvörugeymslu.

Í skýrslunni skal greina:

Eiganda vöru eða umráðamann, innflutningsfarartæki, framskrárnúmer, tölu, tegund og merkingu stykkja í vörusendingunni. Enn fremur öll önnur atriði, sem krafizt er í venjulegri tollinnflutningsskýrslu, um vörumagn, verðmæti vöru og annað, sem máli skiptir um tollflokkun vöru og útreikning aðflutningsgjalda af henni. Skýrslunni skulu fylgja þau gögn til staðfestingar verði, vörutegund og vörumagni, sem eiga að fylgja tollinnflutningsskýrslum við fullnaðartollafgreiðslu. Í skýrslunni eða gögnum þeim, sem henni fylgja, skal koma greinlega fram innihald hvers einstaks stykkis í vörusendingunni.

23. gr.

Vörusendingu, þ. e. þær vörur, sem fluttar eru til landsins í sama farmskráarnúmeri, skal leggja í tollgeymslu í einu lagi, nema áður sé fengið leyfi réttra yfirvalda til að skipta sendingunni til tollafgreiðslu. Ef í vörusendingu eru fleiri en ein vörutegund skal tölumerkja hvern lið á vörureikningi þeim, sem fylgja ber tollskýrslu samkvæmt næstu grein hér á undan. Við síðari tollmeðferð vörusendingarinnar skal jafnan vitna til þessarar tölumerkingar ásamt heiti viðkomandi vörutegundar.

24. gr.

Innflutningsskýrslu samkvæmt 22. gr, skal afhenda tollstjóra í tvíriti ásamt fyrlgiskjölum, auk hagskýrslueintaks. Tollstjóri geymir eintak skýrslunnar unz vörusending hefur öll verið tollafgreidd endanlega, en þá gengur skýrslueintak þetta, ásamt fyrlgiskjölum, til endurskoðunardeildar til tollreikinga. Á annað eintak skýrslunnar ritar tollstjóri leyfi til að vöruna megi flytja í tollvörugeymslu. Skýrslueintak þetta varðveitir tollgæzlan, ásamt fylgiskjölum. Um meðferð skýrslna þessara, þegar vara er flutt ótollafgreidd til annarar tollhafnar, gilda ákvæði 28. gr.

25. gr.

Þegar tollstjóri hefur fengið í hendur innflutningsskýrslu samkvæmt 22. gr., lætur hann framkvæma þá rannsókn á vörusendingu, sem þurfa þykir, og tollflokka vörurnar. Að því loknu gefur hann leyfi til að vörurnar verði fluttar í tollvörugeymslu, enda sé öllum skilyrðum til þess að öðru leyti fullnægt.

26. gr.

Þegar óskað er tollafgreiðslu á vöru, sem er í almennri tollvörugeymslu, skal gerð um hana skýrsla (tollafgreiðsluskýrsla) í því formi, sem sýnt er á fylgiskjali nr. 1 með reglugerð þessari. Í skýrslunni skal greina skip það, er flutt vörunnar til landsins, komudag þess, farmskrárnúmer og tegund, magn, tollflokk og verð þeirra vöru, sem óskast tollafgreidd. Skýrslu þessa skal afhenda tollstjóra í fjórriti og er eitt eintakið tollreikningur, sem vörueigandi fær aftur í hendur kvittaðan, er hann hefur greitt aðflutningsgjöld af vörunni.

Skýrslu þeirri, sem greinir í næstu málsgrein hér á undan, skal skilað til tollstjóra með sundurliðuðum útreikningi þeirra aðflutningsgjalda, sem greiða ber af vörum þeim, sem óskast tolafgreiddar. Sá, sem skýrsluna gefur, ábyrgist réttan útreikning gjaldanna.

Sé beiðst tollafgreiðslu á vöru úr tollvörugeymslu án greiðslu aðflutningsgjalda, t. d. til endurútflutnings, er óþarft að reikna út aðflutningsgjöldin, en þá skal greinilega tekið fram í skýrslunni, hverrar tollmeðferðar er óskað á vörunni.

Sé oskað flutning á vöru á milli tollvörugeymslna ber að nota skýrsluformið, sem sýnt er á fylgiskjali nr. 2 með reglugerð þessari, sbr. 29. gr.

Þegar aðflutningsgjöld hafa verið greidd eða skilyrðum að öðru leyti fullnægt fyrir að afhenda megi vöru úr tollvörugeymslu, ritar tollstjóri til þess samþykki sitt á eitt eintak tollafgreiðsluskýrslunnar. Eintak þetta afhendir vörueigandi starfsmanni þeim, sem eftirlit hefur með geymslunni og varðveitist það með öðrum skjölum tollgæzlunnar varðandi viðkomandi vörusendingu.

27. gr.

Um leið og ráðherra leyfir að setja megi ákveðna vörutegund í tollvörugeymslu, sbr. 8. gr., getur hann ákveðið lágmark þess, sem setja má í geymslu eða taka úr henni hveju sinni af þeirri vörutegund.

28. gr.

Vöru má senda ótollafgreidda úr amennri tollvörugeymslu til annarar tollhafnar, en þó því aðeins, að viðkomandi vörusending sé send í heild. Hafi hluti vörusendingar verið tollafgreiddur er slíkur flutningur því óheimill. Um flutning á tollgeymsluvöru milli tollhafna eða tollumdæma gilda reglurnar um flutning á ótollafgreiddum varningi innanlands.

Þegar tollgeymsluvara er flutt á milli tollumdæma samkvæmt 1. málsgr. þessarar greinar, skal senda tollstjóra í því tollumdæmi, sem vara er send til, þau tollskjöl, sem lögð hafa verið fram um vöruna.

29. gr.

Flytja má vöru úr almennri tollvörugeymslu í tollfrjálsa forðageymslu á sömu höfn, svo og í tollfrjálsar birgðageymslur verzlana þeirra, sem um getur í 1. mgr. 15. gr. laga um tollvörugeymslur nr. 47 frá 1960.

Við flutning á vöru úr almennri tollvörugeymslu í geymslur þær, sem getur í þessari grein ber vörueiganda að leggja fram hjá tollstjóra skýrslu í fjórriti, gerða á eyðublað það, sem sýnt er á fylgiskjali nr. 2 með reglugerð þessari. Tveim eintökum skýrslunnar heldur tollstjóri. Verður annað þeirra fylgiskjal um tollafgreiðslu vörunnar úr almennu tollvörugeymslunni, en hitt eintakið geymist sem gagn um að vörurnar hafi verið lagðar inn í viðkomandi forðageymslu. Sé um að ræða vörur, sem lagðar eru inn í geymslu tollfrjálsrar verzlunar, er síðastgreint skýrslueintak óþarft.

Á tvær af skýrslum þeim, sem getur í næstu málsgrein hér á undan ritar tollstjóri leyfi um að vörurnar megi flytja milli tollvörugeymslanna. Skýrslueintök þessi varðveitir tollgæzlan. Annað sem fylgiskjal um afgreiðslu vörunnar út úr almennu tollvörugeymslunni, en hitt sem skýrslu um vörur fluttar í forðageymsluna. Á síðastnefnda eintakið ber að færa áritun um afgreiðslu varanna út úr forðageymslunni.

30. gr.

Þar sem innlent tollvörugjald eða aðflutningsgjöld af erlendu hráefni eru endurgreidd af innlendri iðnaðarvöru við útflutning, er heimilt að koma slíkri vöru í tollvörugeymslu samkvæmt þessum kafla, meðan þess er beðið, að varan verði flutt úr landi. Heimilt er að endurgreiða gjöld þau, er í þessari málsgrein getur, þegar varan er komin í tollvörugeymslu.

Áður en vara er flutt í tollvörugeymslu samkvæmt þessari grein skal afhenda tollstjóra skýrslu um vöruna ásamt þeim fylgiskjölum, sem nauðsynleg eru til að útreikningur þeirra gjalda, sem endurgreiðast eiga, geti farið fram. Nota ber skýrslur í því formi, sem sýnt er á fylgiskjali nr. 3 með reglugerð þessari.

Þegar fullnægt er þeim skilyrðum, að vöru megi flytja í tollvörugeymslu samkvæmt þessari grein, rita tollstjóri leyfi til þess á tvö eintök skýrslu þeirrar, sem getur í næstu málsgrein hér á undan. Skýrslur þessar afhendir geymsluhafi tollgæzlumanni þeim, sem umsjón hefur með geymslunni, en hann fylgist með því, að varan fari í geymsluna og kannar,að rétt sé frá skýrt um tegund hennar og magn, eftir því sem þurfa þykir.

Þegar varan er komin í geymsluna, rita tollgæzlumaður vottorð um það að eintak skýrslu þeirrar, sem getur um hér að framan, og sendir eintakið tollstjóra, sem aftur sendir það til fjármálaráðuneytisins ásamt þeim gögnum, sem nauðsynleg eru til þess að endurgreiðsla aðflutningsgjalda og/eða innlends tollvörugjalds geti farið fram. Annað eintak skýrslunnar varðveitir tollgæzlan mað öðrum skjölum, sem varða birgðir viðkomandi geymslu, og skal skrá á það, þegar varan er flutt úr geymslunni, mgan þess, sem afgreitt er hverju sinni, ásamt dagsetningu.

31. gr.

Vöru, sem sett hefur verið í almenna tollvörugeymslu, skal tollafgreiða endanlega innan eins árs frá því hún kom til landsins, nema fjármálaráðherra samþykki lengri frest.

Hafi útflutningsvara verið sett í tollvörugeymslu samkv. 30. gr., skal hún flutt úr landi, eða eftir atvikum flutt í tollfrjálsa forðageymslu samkv. III. kafla reglugerðar þessarar, innan eins árs frá því að varan var sett í geymslu, ella ber að greiða að nýju þau gjöld, sem endurgreidd voru, þegar varan var flutt í geymsluna.

III. KAFLI.

Tollfjálsar forðageymslur.

32. gr.

Ráðherra getur leyft skipaútgerðum og flugfélögum, sem eiga farartæki að staðaldri í förum milli Íslands og annarra landa, að geyma vistir, útbúnað og annan forða fyrir þau faratæki í sérstökum geymslum án greiðslu aðflutningsgjalda. Í geymslur þessar má einnig setja innlendar framleiðsluvörur, sem keyptar eru sem forði skipa eða flugvéla og má endurgreiða gjöld samkvæmt 30. gr., þegar þær hafa verið fluttar í geymslur þessar.

Ákvæði 1. málsgr. greinar þessarar eiga ekki við um veiðiskip, enda þótt þau sigli með afla sinn til sölu á erlendan markað.

33. gr.

Í geymslur samkvæmt þessum kafla má setja vörur:

a.        sem fluttar eru inn í því skyni,

b.       innfluttar vörur, sem keyptar eru hérlendis ótollafgreiddar og fluttar eru í geymsluna beint úr afgreiðslu aðkomufarartækis eða úr almennri tollvörugeymslu samkvæmt II. kafla reglugerðar þessarar,

c.        úr birgðum skipa eða flugvéla geymsluhafa,

d.       innlendar framleiðsluvörur.

34. gr.

Þegar óskað er að setja ótollafgreiddar vörur í tollvörugeymslur samkvæmt þessum kafla, skal gera um þær innflutningsskýrslu í því formi, sem sýnt er á fylgiskjali nr. 4 með reglugerð þessari. Skýrsluna skal gera í tvíriri. Varðveitir tollstjóri annað eintakið unz vörusendingin er að fullu tollafgreidd, en á hitt eintakið ritar hann leyfi um, að vöruna megi flytja í birgðageymsluna, og varðveitir tollgæzlan það. Á þetta eintak eða fylgisblað, sem fest er við það, færir tollgæzlumaður sá, sem umsjón hefur með geymslunni það, sem hverju sinni er tekið ú geymslunni af viðkomandi vörusendingu, ásamt dagsetningu.

Ekki þarf að leita fyrirfram samþykkis tollstjóra áður en vara er flutt í tollfrjálsa birgðageymslu úr birgðum skips eða flugvélar geymsluhafa, en þegar svo stendur á getur tollstjóri lagt svo fyrir, að innflutningsskýrslan sé afhent tollgæzlumanni þeim, sem umsjón hefur með geymslunni, í tvíriti, og að hann sendi tollstjóra þegar annað eintakið.

Nota má samrit af brigðaskrá flugvélar í stað innflutningsskýrslu þeirrar, sem ræðir um í næstu málsgrein hér á undan, enda samþykki ráðuneytið form skrárinnar.

Um flutning á vörum úr almennri tollvörugeymslu í birgðageymslu samkvæmt þessum kafla gilda ákvæði 29. gr. reglugerðar þessarar.

Tollstjóri ákveður hverju sinni, hvort krafizt skal gagna um verðmæti vöru, sem lögð er inn í forðageymslu úr birgðum skips eða flugvélar.

35. gr.

Úr tollvörugeymslu samkvæmt þessum kafla má aðeins flytja vörur sem birgðaforða beint í farartæki, sem er í utanlansferðum, enda séu vörunar eingöngu notaðar í því farartæki. Heimilt er tollgæzlumönnum að innsigla vörur þessar um borð í viðkomandi farartæki eða gera aðrar ráðstafnair til að koma í veg fyrir misferli með þær. Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. leyft endurútflutning eða endursendingu á vörum úr forðageymslum samkvæmt þessum kafla og ennfremur heimilað tollafgreiðslu á þeim til neyzlu eða sölu innanlands, ef sérstaklega stendur á, svo sem ef vörur liggja undir skemmdum.

36. gr.

Áður en vörur eru fluttar úr geymslu samkvæmt þessum kafla um borð í skip eða flugvél sem forði, skal afhenda tollgæzlumanni, sem hefur eftirlit með geymslunni, skýrslu um vörurnar. Í skýrslunni skal greina tegund, magn og eftir atvikum verðmæti vöru, svo og úr hvaða vörusendingu varan er. Síðasttöldu upplýsingum má þó sleppa, þegar um er að ræða neyzluvöruforða flugvéla.

Skýrsla þessi skal gerð í því formi, sem sýnt er á fylgiskjali 5 með reglugerð þessari.

Þegar skýrsla samkvæmt 1. málsgr. hefur verið afhent tollgæzlumanni, sem hefur eftirlit með viðkomandi forðageymslu, ber honum að fylgjast með því, að þær vörur, sem fluttar eru úr geymslunni séu í samræmi við það, sem skýrslan greinir. Þegar varningurinn hefur verið fluttur um borð í viðkomnadi farartæki, skal skipstjórnarmaður eða bryti rita móttökuviðurkenningu á skýrsluna, en tollgæzlumaður staðfesta að varan hafi farið um borð í farartækið, og verið sett þar undir innsigli, ef því er að skipta. Skýrslan skal síðan afhent tollgæzlumanni þeim, sem hefur umsjón með birgðageymslunni, með framangreindum áritunum, en hann geymir hana sem fylgiskjal unz allar vörur úr viðkomandi sendingu hafi verið tollafgreiddar, en þá verður skýrslan notuð sem fylgiskjal með lokatollafgreiðslu sendingarinnar.

37. gr.

Senda má vörur úr tollvörugeymslum samkvæmt þessum kafla til annarra tollhafna í veg fyrir skip eða önnur farartæki, enda sé fylgt þeim skilyrðum, sem tollyfirvöld setja hverju sinni um eftirlit og tryggilegan umbúnað við flutninginn. Undanskilja má vissa vöruflokka slíkum flutningi.

38. gr.

Áfengis- og Tóbaksverzlun ríkisins getur heimilað að vörur, sem einkasala hennar nær til, séu settar í tollvörugeymslu samkvæmt þessum kafla.

IV. KAFLI

Tollfrjálsra verzlanir.

39. gr.

Ríkisstjórninni er heimilt að reka verzlanir með tollfrjálsar vörur, þar á meðal áfengi og tóbak, í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli og á Keflavíkurflugvelli. Birgðir þeirra verzlana má geyma í tollfrjálsum brigðageymslum, sem eingöngu eru ætlaðar til þeirra nota.

Ákvæði II. kafla reglugerðar þessarar um almennar tollvörugeymslur gilda eftir því sem við á einnig um tollfrjálsar geymslur samkvæmt þessum kafla. Þó skal vara endanlega tollafgreidd, þegar fyrir liggur vottorð tollgæzlumanns og viðurkenning forstöðumanns verzlunar um, að varan hefi verið flutt í tolllfrjálsa geymslu verzlunarinnar.

40. gr.

Verzlunum samkvæmt 39. gr. er eingöngu heimilt að selja vörur sínar áhöfnum og farþegum millilandaflugvéla, sem eru að leggja af stað til útlanda, þannig að varan sé flutt undir tolleftirliti um borð í flugvélina.

Vörur, sem seldar eru úr verzlunum samkvæmt þessum kafla, skulu afhentar kaupanda, í sérstaklega gerðum lokuðum umbúðum. Á umbúðirnar skal letrað, að óheimilt sé að opna þær, fyrr en komið er út fyrir íslenzka tolllandhelgi. Kaupandi vörunnar ber ábyrgð á því, að viðlagðri refsingu, að fyrirmælum þessum sé hlýtt.

Heimilt er verzlunum þeim, sem hér um ræðir, að senda vörur sínar í pósti til viðtakenda búsettra erlendis samkvæmt nánari reglum, sem ráðherra setur.

41. gr.

Verzlanir þær og vörugeymslur, sem um ræðir í þessum kafla. eru háðar tolleftirliti. Auk daglegs eftirlits tollgæzlunnar, skal brigðakönnun fara fram í þeim eigi sjaldnar en á 3 mánaða fresti og skal þá gengið úr skugga um, að allar vörur, sem látnar hafa verið af hendi úr vörugeymslunni á næstliðnu tímabili, hafi farið lögboðnar leiðir úr landi. Til staðfestu þessu skal leggja fram vottorð tollgæzlumanns, þess, sem hverju sinni hefur haft eftirlit með brottflutningi varanna.

42. gr.

Í birgðabókhaldi verzlana og vörugeymslna, sem um ræðir í þessum kafla, skal færa allar hreyfingar á vörum í geymslurnar og verzlanirnar og úr þeim. heimilt er að færa í einu lagi í birgðabókahaldið allar vörur, sem fluttar eru út í einni og sömu ferð.

Ráðuneytið kveður nánar á um gerð eyðublaða og bóka, sem notaðar eru í sambandi við verzlanir þessar.

43. gr.

Endurgreiðsla aðflutningsgjalda og innlends tollvörugjalds af innlendri iðnaðarvöru, sem sett er í tollvörugeymslu samkvæmt þessum kafla skal vera heimil á sama hátt og segir í 30. gr. um vörur í almennum tollvörugeymslum.

V. KAFLI

Flutningageymslur (transit-geymslur).

44. gr.

Ráðherra getur heimilað skipaútgerðum og flugvélum, sem reka millilandaferðir, að leggja hér á landi vörur og geyma í sérstökum vörugeymslum án greiðslu aðflutningsgjalda, meðan þær bíða hér endurútflutnings.

45. gr.

Vörugeymslur samkvæmt þessum kafla má eingöngu nota til geymslu á vörum, sem settar eru hér á land um stundarsakir, en eiga að flytjast áfram til erlendra hafna. Leyfi fjármálaráðuneytisins þarf til að tollgreiða vöru, sem sett hefur verið í geymslu samkvæmt þessum kafla, á annan hátt en til endurútflutnings beint úr geymslunni.

46. gr.

Flytja má vörur beint úr innflutningsfarartæki í geymslu þær, sem um ræðir í þessum kafla. Ekki er nauðsynlegt að aflað sé leyfis tollstjóra fyrirfram til að setja vörur í þessar geymslur, en um leið og varan er sett í geymslu skal afhenda tollgæzlunni innflutningsskýrslu um hana í tvíriti ásamt samriti af farmskírteini eða fylgibréfi um innflutning vörunnar. Annað eintak þessara skjala afhendir tollgæzlumaður tollstjóra þegar, en hinu eintakinu heldur tollgæzlan og hefur það til leiðbeiningar um eftirlit með vörunni.

47. gr.

Þegar vara er flutt út landi úr flutningageymslu samkvæmt þessum kafla, skal afhenda tollgæzlumanni, sem umsjá geymslunnar, útflutningsskýrslu um vöruna í tvíriti, ásamt farmskírteini eða fylgibréfi um flutning vörunnar úr landi. Tollgæzlumaður, sem fylgist með útflutningi vörunnar, ritar á skjöl þessi vottorð um hvenær og á hvern hátt varan hafi verið flutt úr landi. Að því búnu skal afhenda tollstjóra annað eintak útflutningsskýrslunar ásamt fylgiskjölum, en hitt eintakið leggst með skjölum tollgæzlunnar um innflutning vörunnar.

Ekki er þörf annars birgðabókahalds um geymslur þessar en skjala þeirr, sem talin eru í þessari grein og 46. gr. Tollstjóri eða tollgæzlumenn geta þó, þegar þess þykir þurfa, krafizt gagna til staðfestingar því, sem innflutningsskýrsla og framskírteini greina um vörutegund og vörumagn, svo og gagna um verð viðkomandi vörusendingar.

48. gr.

Tollgæzlumenn gera þær rannsóknir á vörum, sem lagðar eru í tollvörugeymslur samkvæmt þessum kafla, sem þurfa þykir, til að staðreyna að upplýsingar í innflutningsskjölum og útflutningsskjölum séu réttar.

49. gr.

Innflutningsskýrslur þær og útflutningsskýrslur, sem um ræðir í þessum kafla skulu gerðar á þau eyðublöð, sem sýnd eru á fylgiskjölum nr. 6 og 7 með reglugerð þessari.

50. gr.

Brot á reglugerð þessari og reglum, sem settar verða samkvæmt henni, varða sektum, svo og varðhaldi eða fangelsi, ef brot er stórvægilegt eða margítrekað. Fyrir tilraun til brots eða hlutdeild í því, skal refsað fyrir fullkomið brot.

Upptaka vöru eða andvirði hennar, sem farið er með andstætt ákvæðum reglugerðar þessarar er heimil, sbr. 27. gr. laga nr. 47 frá 1960 um tollvörugeymslur o. fl.

51. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 26. gr. laga nr. 47 frá 1960, um tollvörugeymslu o. fl., öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytið, 19. maí 1961.

Gunnar Thoroddsen.

_______________

Sigtr. Klemenzson.

 

(Sjá Fylgiskjöl 1 - 7 í Stjórnartíðindum).

 

 

 

 

 

 

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica