Sjávarútvegsráðuneyti

849/1999

Reglugerð um eftirlit með innflutningi sjávarafurða - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

I. kafli

Almenn ákvæði.

1. gr.

Reglugerðin gildir um eftirlit með innflutningi sjávarafurða og eftirlit með sjávarafurðum sem koma til landsins á leið til þriðja ríkis.

2. gr.

Samkvæmt reglugerð þessari telst:

Sjávarafli: Öll sjávardýr önnur en spendýr, þar með talin skrápdýr, liðdýr og lindýr.

Fiskafurðir: Matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla.

Sjávarafurðir: Sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan, svo og fóðurvörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.

Vörur: Sjávarafurðir sem ætlaðar eru til innflutnings.

Vörusending: Magn afurða af sömu tegund, sem eru á sama heilbrigðisvottorði eða öðrum skjölum, sem fluttar eru með sama flutningstækinu og koma frá einu og sama ríki eða hluta þess.

Landamærastöð: Eftirlitsstöð á landamærum Evrópska efnahagssvæðisins, tilnefnd og samþykkt til að þar megi fara fram eftirlit með vörum frá þriðja ríki.

Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir komu sendingar til landsins.

Innflutningur: Sú aðgerð eða sú ætlun að koma vörum í frjálst flæði á Evrópska efnahagssvæðinu.

Innflutningsskilyrði: Heilbrigðiskröfur samkvæmt gildandi lögum og reglum sem vörur verða að uppfylla til að þær megi flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið.

Eftirlitsaðili: Fiskistofa eða annar eftirlitsaðili sem á vegum hennar er falið eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

Eftirlitsmaður: Opinber eftirlitsmaður sem á vegum Fiskistofu annast eftirlit á landamærastöð og er ábyrgur fyrir því eftirliti sem þar fer fram.

Vinnsluskip: Skip þar sem sjávarafli er unninn um borð, honum pakkað og hann hefur verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður, frystur eða verkaður á annan hátt. Fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting um borð á heilum eða hausskornum fiski, heilfrysting rækju eða suða á rækju og skelfiski teljast ekki vinnsluskip.

Vinnsluleyfishafi: Aðili sem fengið hefur tölusett leyfi frá lögbæru yfirvaldi til vinnslu, meðferðar, pökkunar eða geymslu sjávarafurða til staðfestingar því að settum skilyrðum laga og reglugerða sé fullnægt.

Þriðja ríki: Ríki sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Viðauka-B-skjal: Vottorð til staðfestingar heilbrigðiseftirliti með vörum sem fluttar eru inn á Evrópska efnahagssvæðið frá þriðja ríki, sbr. viðauki B með reglugerð þessari.

Animo netkerfið: Samræmt tölvukerfi til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu.

3. gr.

Fiskistofa eða annar eftirlitsaðili sem á vegum hennar er falið eftirlit annast eftirlit samkvæmt reglugerð þessari.

Eftirlitsmaður á hverri landamærastöð er ábyrgur fyrir því eftirliti sem þar fer fram.

II. KAFLI

Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

4. gr.

Innflytjandi skal tilkynna Fiskistofu um komu sendingar með 24 klst. fyrirvara.

Tilkynningin skal vera skrifleg og í henni skal koma fram áætlaður komutími, innflutningsstaður, magn, tegund, lýsing á vöru og ákvörðunarstaður, nafn flutningatækis, og eftir því sem við á, skipaskrárnúmer eða flugnúmer.

5. gr.

Vinnsluleyfishafi eða annar viðtakandi sendingar frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins skal halda dagbók yfir mótteknar vörur og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala áður en þær fara til vinnslu eða dreifingar. Komi fram misræmi skal tilkynna það Fiskistofu án tafar.

Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu eftirlitsaðila.

6. gr.

Eftirlitsaðila er heimil, án mismununar, skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna úr vörum, sem fluttar eru inn frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Fiskistofa skal gera áætlun um fjölda skyndiskoðana og nánari tilhögun þeirra og senda til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi ef hún óskar eftir að skoða vöruna eða taka sýni úr henni til rannsókna. Berist viðtakanda ekki slík tilkynning áður en losun hefst er honum heimilt að ráðstafa sendingunni.

7. gr.

Komist eftirlitsaðili að því að um sé að ræða fisksjúkdóm, eða að fyrir hendi sé eitthvert það ástand sem stofnað geti dýrum eða mönnum í hættu eða að vörur komi frá svæði sem smitað sé af fisksjúkdómi skal Fiskistofa þegar í stað óska þess að fisksjúkdómanefnd ákveði viðeigandi ráðstafanir.

Fiskistofa skal þegar í stað tilkynna skriflega lögbærum yfirvöldum annarra EES-ríkja og Eftirlitsstofnun EFTA með viðeigandi hætti um þær upplýsingar sem fyrir liggja, ákvarðanir sem teknar hafa verið og rökstuðning fyrir þeim.

8. gr.

Komist eftirlitsaðili að því að vörusending fullnægi ekki skilyrðum sem sett eru í lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða eða reglugerðum, settum samkvæmt þeim, getur Fiskistofa leyft sendanda eða fulltrúa hans að velja á milli þess að eyða vörum eða nota þær í öðrum tilgangi, þar með talið að endursenda þær með leyfi lögbærs yfirvalds framleiðslulands.

Reynist vottorð eða skýrslur ekki vera í samræmi við settar reglur skal veita sendanda hæfilegan frest til að koma skjölum í lag áður en gripið er til framangreindra úrræða.

Fiskistofa skal þegar í stað senda lögbærum yfirvöldum þess ríkis sem sending kemur frá tilkynningu um ákvarðanir skv. 1. mgr., rökstuðning fyrir þeim og um ráðstafanir sem gerðar hafa verið.

Komi ítrekað í ljós að vörur frá sama aðila fullnægi ekki skilyrðum skv. 1. mgr. skal Fiskistofa tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA og viðkomandi yfirvöldum annarra EES-ríkja. Þar til Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir Fiskistofu um ráðstafanir gagnvart viðkomandi starfstöð er Fiskistofu heimilt að auka tíðni skoðana á vörum frá henni.

9. gr

Fiskistofa skal tilkynna sendanda eða fulltrúa hans skriflega um ákvarðanir sem teknar eru skv. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. og rökstuðning fyrir þeim.

Fiskistofa skal að ósk sendanda eða fulltrúa hans veita honum nákvæmar upplýsingar um réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, um málsmeðferðarreglur og tímafresti.

III. KAFLI

Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heimill frá þeim framleiðendum og vinnsluskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með vörum uppfylli kröfur sem gilda á því svæði.

Sjávarútvegsráðuneytið heldur skrá yfir ríki, svæði og starfstöðvar sem innflutningur er heimill frá og birtir auglýsingu um hana og breytingar á henni í Stjórnartíðindum.

11. gr.

Skylt er að tilkynna Fiskistofu með 24 klst. fyrirvara um komu sendingar til landsins. Tilkynningin skal send á formi sem fram kemur í viðauka B. Skjalið skal vera í fjórum eintökum, eitt frumrit og þrjú afrit, og skal innflytjandi eða fulltrúi hans fylla út 1. lið á öllum fjórum eintökunum. Hann skal senda eitt eintak til viðkomandi tollyfirvalda, og senda frumritið og hin afritin tvö til Fiskistofu.

Í stað tilkynningar á því formi sem kemur fram í 1. mgr. er heimilt að senda tilkynningu skriflega eða á tölvutæku formi með upplýsingum í samræmi við það sem skal koma fram á viðauka-B-skjali.

Eigi að afferma vörur á einhvern hátt skal það tilkynnt Fiskistofu.

Öllum sendingum skal fylgja frumrit heilbrigðisvottorðs og annarra skjala sem krafist er.

12. gr.

Innflutningur skal fara um landamærastöðvar, sbr. 1. mgr. 13. gr.

Heimilt er að landa ferskum afla fiskiskipa utan landamærastöðva og skal skoða hann á sama hátt og afla íslenskra skipa.

13. gr.

Landamærastöðvar skulu staðsettar á Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Keflavíkurflugvelli, í Hafnarfirði og í Reykjavík. Fiskmjöl má aðeins fara um landamærastöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Lifandi sjávardýr mega aðeins fara um landamærastöð á Keflavíkurflugvelli.

Landamærastöðvar skulu uppfylla þau skilyrði er fram koma í viðauka E við reglugerð þessa.

Heimilt er að setja upp útibú frá landamærastöðvum, þ.e. skoðunarstöðvar, er heyri undir tiltekna landamærastöð, sbr. 2. tl. 2. mgr. viðauka E og skulu þær uppfylla þau skilyrði er þar koma fram.

14. gr.

Eftirlit á landamærastöðvum er þríþætt og skal fara fram þegar við komu sendingar til landsins:

1. Eftirlit með skjölum. Með því er átt við eftirlit með heilbrigðisvottorðum, vinnsluleyfisnúmerum og öðrum skjölum sem fylgja sendingu.

2. Eftirlit með auðkenningu. Með því er átt við að fram fari samanburður á skjölum og sendingu og sannreynt sé að samræmi sé þar á milli.

3. Eftirlit með heilnæmi. Skoðun á vörunni sjálfri sem getur m.a. falist í athugun á umbúðum og hitastigi, ásamt sýnatöku og rannsóknastofuprófunum. Frekari reglur um eftirlit samkvæmt 1., 2., og 3. lið eru í viðauka A, C, og D við reglugerð þessa.

15. gr.

Eftirlit skal fara fram samkvæmt 1., 2. og 3. lið 14. gr.:

1. Þegar flytja á vörur inn til landsins.

2. Þegar geyma á vörur í vörugeymslu farmflytjanda, almennri tollvörugeymslu, á frísvæði eða í tollfrjálsri forðageymslu.

3. Þegar vörur eiga að fara til ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda eða innflutningur hefur verið leyfður í sérstökum tilgangi og þær á að flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið.

Eftirlit skal fara fram samkvæmt 1. og 2. lið 14. gr.:

1. Þegar um tímabundna affermingu vara er að ræða og þær á að flytja til þriðja ríkis.

2. Þegar vörur koma inn til landsins á grundvelli 26. gr. reglugerðar þessarar.

3. Þegar vörur eru fluttar milli flutningstækja og þær á að flytja áfram til þriðja ríkis. Þó er heimilt að víkja frá þessu ef vara er flutt innan tollsvæðis.

Eftirlit skal fara fram samkvæmt 1. lið 14. gr. þegar vörur eru fluttar milli flutningstækja eða um tímabundna affermingu er að ræða og þær á að flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið. Fari flutningur fram innan tollsvæðis er slíkt eftirlit þó ekki skylt en má fara fram ef grunur leikur á að heilbrigði manna eða dýra sé stofnað í hættu.

Vakni grunur um að heilbrigði manna eða dýra sé stofnað í hættu eða að um sé að ræða brot á lögum eða reglum skal framkvæma ríkara eftirlit, þ. á m. heilnæmisskoðun.

16. gr.

Leiði eftirlit í ljós að vörusending sé líkleg til að stofna heilbrigði manna eða dýra í hættu skal eftirlitsaðili sjá til þess að vörunum verði eytt eins fljótt og kostur er. Fiskistofa skal upplýsa aðrar landamærastöðvar og Eftirlitsstofnun EFTA um fundinn og uppruna varanna í gegnum viðeigandi tölvukerfi samkvæmt kröfum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

17. gr.

Að loknu eftirliti skal eftirlitsmaður gefa út viðauka-B-skjal og staðfesta það með undirritun sinni. Frumritið skal síðan afhent viðkomandi tollyfirvöldum áður en tollafgreiðsla fer fram. Frumrit skjalsins skal fylgja vörunum á meðan þær eru undir tolleftirliti eða þar til þær komast til ákvörðunarstaðar. Innflytjanda skal afhent afrit af skjalinu og skal annað afrit varðveitt á landamærastöð í þrjú ár hið minnsta.

Innflutningur skal aðeins leyfður að fram komi á viðauka-B-skjali að vörurnar hafi staðist eftirlit og aðeins í samræmi við þær kröfur sem koma fram á viðauka-B-skjali.

Eftirlitsmaður skal afhenda innflytjanda afrit af heilbrigiðisvottorði og öðrum skjölum er vörunni fylgja. Skulu frumritin varðveitt á landamærastöð í þrjú ár hið minnsta.

18. gr.

Áður en tollafgreiðsla fer fram verður að inna greiðslu vegna eftirlitsins af hendi og, ef við á, leggja fram bankatryggingu fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.

19. gr.

Við flutning vara til og frá vörugeymslu farmflytjanda, almennri tollvörugeymslu, frísvæði eða tollfrjálsri forðageymslu og við flutning milli geymslna skulu vörur vera undir tolleftirliti og skulu flutningstæki vera innsigluð.

Vörunum skal fylgja viðauka-B-skjal ásamt afriti af upprunalegu heilbrigðisvottorði eða öðrum skjölum sem vörunni fylgja. Ef um er að ræða flutning frá einni geymslu til annarrar skal gefið út viðauka-B-skjal á grundvelli þeirra skjala sem fylgdu vörusendingunni og þess eftirlits sem fram hefur farið meðan á geymslunni stóð.

20. gr.

Sé sendingu skipt í fleiri en einn hluta skal gefa út nýtt viðauka-B-skjal fyrir hvern hluta fyrir sig. Skjalið skal fylgja viðkomandi hluta meðan hann er undir tolleftirliti eða þar til hann kemst til ákvörðunarstaðar.

21. gr.

Komi sending frá þriðja ríki og áfangastaður hennar er annað þriðja ríki, skal eftirlitsaðili heimila slíkan flutning að því tilskildu að vörurnar komi ekki frá þriðja ríki sem innflutningur hefur verið bannaður frá.

Víkja má frá skilyrði 1. mgr. ef um er að ræða flutning úr einu flutningstæki í annað í þeim tilgangi að senda þær áfram án frekari viðkomu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Flutningur skv. 1. mgr. þarf að hafa verið heimilaður af yfirvöldum þess ríkis sem vörurnar komu fyrst inn á á Evrópska efnahagssvæðinu. Innflytjandi skal skuldbinda sig til þess að taka vörurnar aftur ef þeim er hafnað og skal láta farga þeim í samræmi við 30. gr.

Eftirlitsmaður skal senda tilkynningu um flutninginn í gegnum Animo netkerfið. Skal hann auk þess votta á viðauka-B-skjalið að vörurnar hafi yfirgefið Evrópska efnahagssvæðið og skal hann senda afrit af skjalinu með viðeigandi hætti.

22. gr.

Leiði eftirlit skv. 14. og 15. gr. í ljós að vörur uppfylla ekki innflutningsskilyrði, má aðeins flytja þær til vörugeymslu farmflytjanda, almennrar tollvörugeymslu eða frísvæðis að uppfylltum skilyrðum 2.-6. mgr. þessarar greinar.

Innflutningur má ekki hafa verið bannaður frá viðkomandi ríki.

Viðkomandi geymsla skal hafa verið viðurkennd af eftirlitsaðila. Geymslan skal vera aflokuð og inn- og útkeyrslur undir stöðugu eftirliti. Geymslan skal uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíks húsnæðis.

Halda skal skrá um daglega komu og brottför vörusendinga til og frá geymslunni. Þar skal koma fram vörutegund, magn og nafn og heimilisfang móttakanda. Skrárnar skal varðveita í a.m.k. 3 ár.

Vörurnar þarf að vera hægt að geyma í geymslurýmum aðskildar frá öðrum vörum. Þegar um er að ræða geymslur sem eru til staðar við gildistöku þessarar reglugerðar nægir að unnt sé að skilja vörurnar að, enda sé rýmið læsanlegt.

Til staðar skal vera aðstaða fyrir eftirlitsaðila.

Vörur sem ekki uppfylla innflutningsskilyrði má aðeins flytja frá geymslu ef þær á að flytja til þriðja ríkis og skal þá flutningur fara fram í samræmi við 21. gr., til tollfrjálsrar forðageymslu sbr. 23. gr. eða þær á að flytja til förgunar og skulu þær þá áður gerðar óhæfar til neyslu.

Leiði eftirlit í ljós að innflytjandi hafi gefið rangar upplýsingar um vöru eða ákvörðunarstað hennar skal honum gert að farga vörunum í samræmi við 25. gr.

Vörur skal flytja í vatnsþéttu, innsigluðu flutningstæki undir eftirliti eftirlitsaðila. Óheimilt er að flytja vörurnar úr einu flutningstæki í annað eða að flytja þær milli geymslna.

23. gr.

Birgðahaldarar sem geyma vörur, sem vísað er til í 1. mgr. 22. gr., í tollfrjálsum forðageymslum og ætlaðar eru til neyslu fyrir áhöfn og farþega um borð í farartækjum í millilandaflutningum skulu hafa fengið sérstakt leyfi Fiskistofu.

Slíkar vörur má ekki vinna nema þær séu í samræmi við heilbrigðiskröfur er gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Vörurnar mega ekki koma frá ríkjum sem innflutningur hefur verið bannaður frá. Birgðahaldari er ábyrgur fyrir því að vörurnar fari ekki til neyslu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þar til vörurnar eru fluttar um borð í viðkomandi farartæki skulu þær geymdar í lokuðum forðageymslum sem uppfylla kröfur til slíks húsnæðis og vera undir stöðugu eftirliti. Vörur sem ekki uppfylla heilbrigðiskröfur skal vera hægt að geyma aðskildar frá öðrum vörum. Fiskistofu skal þegar í stað tilkynnt um komu sendingar til birgðageymslu. Birgðahaldari skal halda skrá yfir komu og brottför vörusendinga í a.m.k. 3 ár þannig að hægt sé að fylgjast með þeim vörum sem eru í forðageymslu hverju sinni.

Fiskistofu skal tilkynnt fyrirfram um flutning vöru úr forðageymslu ásamt upplýsingum um endanlegan ákvörðunarstað. Vörurnar skulu fluttar beint frá landamærastöð um borð í viðkomandi farartæki eða í sérstaklega samþykkta forðageymslu á hafnar- eða flugvallarsvæði. Tryggt skal að vörurnar geti ekki farið af svæðinu á annan áfangastað en þeim er ætlaður. Birgðahaldari skal færa fram sönnur á að vörurnar hafi náð endanlegum ákvörðunarstað.

Fiskistofa skal tilkynna lögbærum yfirvöldum þess aðildarríkis, sem varan á að fara um, um flutninginn og ákvörðunarstað vörunnar í gegnum Animo netkerfið.

Brjóti birgðahaldari gegn ákvæði þessu skal Fiskistofa fella leyfi hans úr gildi og tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum yfirvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu.

24. gr.

Heimilt er að banna flutning vara til vörugeymslu farmflytjanda, almennrar tollvörugeymslu, frísvæðis eða tollfrjálsrar forðageymslu ef eftirlitsmaður telur heilbrigðiskröfum ekki fullnægt.

25. gr.

Ef vörur eiga að fara til ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda, sýni hafa verið tekin en niðurstöður liggja ekki fyrir þegar vara fer frá viðkomandi landamærastöð eða innflutningur er leyfður í sérstökum tilgangi, skal eftirlitsaðili senda upplýsingar um það til viðkomandi landamærastöðvar í móttökuríki í gegnum Animo netkerfið.

Þegar um er að ræða vörur sem eiga að fara til ríkis eða svæðis þar sem sérstakar kröfur gilda eða innflutningur hefur verið leyfður í sérstökum tilgangi skal gengið úr skugga um hvort vörurnar uppfylli þær sérstöku kröfur sem gilda í því ríki eða svæði sem vörurnar eiga að fara til. Eftirlitsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að vörurnar komist á áfangastað.

26. gr.

Vörur sem upprunnar eru í einhverju af aðildarrríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og hafnað er af þriðja ríki skal vera heimilt að flytja inn til landsins að því tilskildu að þeim fylgi upprunalegt heilbrigðisvottorð eða afrit staðfest af eftirlitsaððila sem skoðað hefur vottorðið. Þar skal koma fram ástæða höfnunarinnar og að ábyrgst sé að skilyrði við geymslu og flutning hafi verið fullnægjandi og að vörurnar hafi ekki verið meðhöndlaðar. Ef um innsiglaða gáma er að ræða þarf að fylgja vottorð flutningsaðila um að innihaldið hafi ekki verið affermt eða meðhöndlað á nokkurn hátt.

Fiskistofa getur ekki hafnað innflutningi í slíkum tilvikum ef lögbært yfirvald í upprunaríki hefur samþykkt að taka vörurnar til baka og að uppfylltum skilyrðum 1. mgr.

Vörurnar skulu fluttar í vatnsþéttum flutningstækjum, auðkenndum og innsigluðum af eftirlitsaðila.

Fiskistofa skal gera lögbæru yfirvaldi þess ríkis sem vörurnar eiga að fara til viðvart í gegnum Animo netkerfið.

27. gr.

Ákvæði þessa kafla gilda ekki um vörur:

1. Sem eru hluti af persónulegum farangri ferðamanna og ætlaðar til einkaneyslu þeirra, að því tilskildu að magnið sé innan leyfilegra marka og að vörurnar komi frá þriðja ríki eða svæði sem er að finna á skrá sjávarútvegsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 10. gr., og að innflutningur sé ekki bannaður frá viðkomandi ríki eða svæði.

2. Sem eru sendar til einstaklinga, að því tilskildu að innflutningur þessara vara sé ekki viðskiptalegs eðlis, að magnið sé innan leyfilegra marka, að vörurnar komi frá þriðja ríki eða svæði sem er að finna á skrá sjávarútvegsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 10. gr. og að innflutningur frá viðkomandi ríki eða svæði sé ekki bannaður.

3. Sem eru ætlaðar áhöfn og farþegum til neyslu um borð í flutningatækjum í millilandaflutningum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Slíkum vörum eða matarúrgangi skal fargað þar sem afferming fer fram. Ekki er þó nauðsynlegt að farga vörum ef þær eru fluttar beint og undir tolleftirliti úr einu flutningstæki í annað innan tollsvæðis.

4. Sem hafa fengið hitameðhöndlun í loftþéttum ílátum með Fo-gildi 3,00 eða meira, ef magnið er innan leyfilegra marka og eru hluti af persónulegum farangri ferðamanna og ætlaðar til einkaneyslu þeirra eða eru sendar í litlum pakkningum til einstaklinga, að því tilskildu að innflutningur þessara vara sé ekki viðskiptalegs eðlis.

5. Sem eru sendar sem sýnishorn vöru eða eru ætlaðar til sýningar, að því tilskildu að þær séu ekki ætlaðar til markaðssetningar og innflutningur hafi verið leyfður í þessum tilgangi af eftirlitsaðila.

6. Sem ætlaðar eru til ákveðinna rannsókna eða efnagreininga.

Undantekningar þær sem kveðið er á um í 5. og 6. tölul. eiga við að því leyti sem mögulegt er að ákvarða út frá eftirliti að slíkar vörur séu ekki ætlaðar til manneldis.

Í þeim tilvikum sem um ræðir í 5. og 6. tölul. þessarar greinar skal tryggt að þær vörur sem um ræðir geti ekki verið notaðar í öðrum tilgangi en innflutningur þeirra er leyfður fyrir. Að lokinni notkun skal þessum vörum eytt eða þær endursendar með þeim skilyrðum er eftirlitsaðili setur.

28. gr.

Komi vörur til landsins án þess að hafa fyrst sætt eftirliti á landamærastöð skal eftirlitsaðili ákvarða hvort þær skuli endursendar í samræmi við 2. mgr. eða þeim fargað í samræmi við 3. mgr.

Leiði eftirlit skv. 14. og 15 gr. þessarar reglugerðar í ljós að vörur uppfylla ekki kröfur sem settar eru í lögum eða reglum eða að slíkt eftirlit kemur upp um ólögmætt atferli skal eftirlitsaðili, í samráði við innflytjanda, fyrirskipa endursendingu vörunnar til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem samþykktur er af innflytjanda, með sama flutningsmáta, innan 60 daga, komi niðurstöður úr eftirliti eða heilbrigðiskröfur ekki í veg fyrir slíkt. Eftirlitsmaður skal gera heilbrigðisvottorðið er fylgdi vörunum ógilt með viðeigandi hætti svo ekki sé mögulegt að flytja sömu vörur inn í gegnum aðra landamærastöð.

Sé endursending óframkvæmanleg, 60 daga tímamarkið liðið eða innflytjandi samþykkir að slíkt sé framkvæmt þegar í stað, skal farga vörunni í samræmi við 30. gr.

Eftirlitsmaður skal koma upplýsingum um framangreindar aðgerðir áfram um viðeigandi tölvukerfi samkvæmt kröfum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þar til endursending fer fram eða staðfesting fæst á ástæðum höfnunar skulu viðkomandi vörur geymdar undir eftirliti Fiskistofu á kostnað innflytjanda

Unnt er að veita undanþágu frá ákvæðum 2. og 3. mgr., meðal annars til þess að heimila að vörur séu notaðar í öðrum tilgangi en til manneldis.

29. gr.

Leiki grunur á að ekki hafi verið farið eftir heilbrigðislöggjöf eða vafi leikur á um auðkenningu vöru, endanlegan ákvörðunarstað hennar, hvort varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar í lögum og reglum, eða að hún sé í samræmi við þær heilbrigðiskröfur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu skal Fiskistofa eða eftirlitsmaður framkvæma það eftirlit sem talið er nauðsynlegt til að staðfesta eða afsanna slíkan grun. Vörurnar skulu vera undir eftirliti Fiskistofu þar til niðurstöður eftirlits liggja fyrir. Reynist slíkur grunur á rökum reistur skal fara fram aukið eftirlit á vörum af sama uppruna.

30. gr.

Ef ákveðið er að farga vörum skal eftirlitsaðili gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að vörurnar og förgun á þeim sé undir stöðugu opinberu eftirliti. Förgun skal fara fram á landamærastöð eða á viðeigandi stað eins nálægt viðkomandi landamærastöð og kostur er.

Heimili Fiskistofa að vörur séu notaðar í öðrum tilgangi en til manneldis, sbr. 5. mgr. 28. gr., skal eftirlitsaðili fylgjast með meðhöndlun og flutningi þeirra, sem fram skal fara í samræmi við kröfur reglugerðar um framleiðslu á fiskmjöli og lýsi.

31. gr.

Innflytjandi er ábyrgur fyrir öllum kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.

32. gr.

Ef Fiskistofa telur, á grundvelli eftirlits á vörum sem markaðssettar skulu hér á landi, að brotið sé í bága við ákvæði þessarar reglugerðar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins skal Fiskistofa þegar í stað gera lögbærum yfirvöldum þess ríkis viðvart. Ef Fiskistofa telur skýringar eða ráðstafanir ófullnægjandi skal hún ásamt lögbæru yfirvaldi hlutaðeigandi ríkis leita leiða til að bæta ástandið.

Leiði eftirlit sem um getur í 1. mgr. í ljós ítrekað brot á ákvæðum þessarar reglugerðar skal Fiskistofa tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA. Þar til tilkynning berst frá Eftirlitsstofnun EFTA um aðgerðir sem grípa á til er Fiskistofu heimilt að efla eftirlit með vörum sem koma frá viðkomandi eftirlitsstað.

33. gr.

Fiskistofa skal tilkynna hlutaðeigandi aðilum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þessarar reglugerðar og um rökstuðning fyrir þeim.

Óski viðkomandi aðili þess, skulu upplýsingar skv. 1. mgr. afhentar honum skriflega, ásamt upplýsingum um þau réttarúrræði sem hann hefur samkvæmt íslenskum lögum, málsmeðferðarreglur og tímafresti.

IV. KAFLI

Öryggisákvæði.

34. gr.

Í þeim tilfellum sem sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði manna og dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna eða dýra réttlætir slíkt getur sjávarútvegsráðuneytið, án fyrirvara, stöðvað innflutning frá viðkomandi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

35. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

36. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

Við gerð þessarar reglugerðar var höfð hliðsjón af tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 89/662, með síðari breytingum, tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 90/425, með síðari breytingum, tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 97/78, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 92/525, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 93/13, með síðari breytingum, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 93/14, ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 93/352, og ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 94/360 með síðari breytingum

37. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 784 frá 22. desember 1998 ásamt síðari breytingum.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 14. desember 1999.

Árni M. Mathiesen.

Þorsteinn Geirsson.

 

VIÐAUKI A

Reglur um sannprófun skjala og auðkenna vara frá ríkjum

utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Skjalaskoðun.

Skoða skal hvert heilbrigðisvottorð og önnur skjöl, sem fylgja vörusendingu frá þriðja ríki, til þess að ganga úr skugga um eftirfarandi:

 1. Að það sé frumrit vottorðs eða skjals.

 2. Að það eigi við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða svæði slíks ríkis sem hefur heimild fyrir útflutningi til Evrópska efnahagssvæðisins.

 3. Að framsetning og efni sé í samræmi við fyrirmynd vottorðs sem samþykkt hefur verið fyrir viðkomandi vörur og hlutaðeigandi ríki.

 4. Að það sé ein pappírsörk.

 5. Að það sé fullfrágengið.

 6. Að útgáfudagur vottorðs sé sá hinn sami og þegar vörur voru fermdar til flutnings til Evrópska efnahagssvæðisins.

 7. Að þar komi fram hvar tollafgreiðsla vörunnar skuli fara fram og hver sé endanlegur móttakandi hennar.

 8. Að það varði starfstöð sem hefur heimild til útflutnings til Evrópska efnahagssvæðisins.

 9. Að það sé á íslensku eða ensku.

10. Að það sé undirritað af opinberum eftirlitsmanni (lögbæru yfirvaldi) og að nafn hans og staða sé skráð með læsilegum hástöfum og enn fremur að opinber heilbrigðisstimpill viðkomandi ríkis sé í öðrum lit en annar texti vottorðsins.

11. Að upplýsingarnar á vottorðinu séu í samræmi við upplýsingarnar á viðauka-B-skjali.

Auðkennaskoðun.

Auðkennaeftirlit með vörum, öðrum en vörum í lausri vigt, skal m.a. fela í sér eftirfarandi:

1. Sannprófun á innsigli flutningstækis í þeim tilvikum sem krafa er gerð um slíkt;

2. Að því er allar tegundir varðar; athugun á því hvort opinber stimpill eða heilbrigðismerkingar sem gefa upprunalandið og upprunastarfstöðina til kynna séu til staðar og séu í samræmi við vottorðið eða skjalið;

3. Enn fremur, að því er varðar vörur í umbúðum; skoðun á merkingum sem krafist er í lögum og reglum.

 

VIÐAUKI B

Vottorð til staðfestingar heilbrigðiseftirliti með vörum

sem fluttar eru inn til EES frá þriðja ríki.

Certificate for veterinary checks on products introduced into the EEA

from Non-Member Countries.

Allar leiðréttingar eða útstrikanir sem ekki eru staðfestar af réttu lögmætu yfirvaldi gera þetta skjal ógilt.

Any alteration or erasure on this document by an unauthorized person makes it invalid.

 

VIÐAUKI C

Reglur um eftirlit með heilnæmi vara sem koma frá ríkjum

utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Tilgangur eftirlits með heilnæmi er að tryggja að varan sé hæf til þeirra nota sem fram kemur á heilbrigðisvottorði. Í þessum tilgangi skal fara fram annars vegar skynmat, með athugun á lykt, lit, þéttleika og bragði, eftir atvikum að undangengnum skurði, þíðingu og suðu og hins vegar, handahófskennt eða að gefnu tilefni, rannsóknastofupróf til að kanna hvort í vörunni finnist aðskotaefni, sýklar, mengunarvaldandi efni, eða skemmdareinkenni.

Skoða skal 20% sendinga með ferskum og frystum fiski og þurrkuðum og/eða söltuðum fiskafurðum og afurðum í loftþéttum lokuðum ílátum. Sendingar með öðrum afurðum svo sem samlokum skal skoða í 50% tilvika.

Heilnæmisskoðun skal m.a. fela í sér eftirfarandi:

 1. Athugun á því hvort flutningsskilyrði og flutningstæki séu þannig að vörurnar haldist í tilskildu ástandi.

 2. Sannprófun á því að þyngd vörusendingarinnar sé í samræmi við það sem fram kemur á heilbrigðisvottorði eða öðrum skjölum. Ef nauðsynlegt þykir skal sending í heild sinni vigtuð.

 3. Sannprófun á því að ytri og innri umbúðir standist kröfur um efni, ástand og merkingar.

 4. Athugun á því hvort hitaskilyrði séu í samræmi við kröfur vegna viðkomandi vara sem mælt er fyrir um í reglum þar um, m.a. til að ganga úr skugga um að engin frávik hafi átt sér stað meðan á flutningi stóð.

 5. Hver samstæða af pökkum, eða sýnishornum ef um vörur í lausavigt er að ræða, skal skoðuð áður en hún gengst undir skoðun með skynmati eða rannsóknastofupróf. Prófunin skal gerð á heilli röð sýnishorna sem tekin eru úr allri vörusendingunni, sem heimilt er að afferma að hluta ef slíkt er nauðsynlegt til að tryggja að sýnin komi úr allri sendingunni.

 6. Heilnæmisskoðun skal að meginreglu gerð á 1% stykkja eða pakka úr vörusendingu, minnst tveimur og mest tíu stykkjum eða pökkum. Skoðun á vörum í lausri vigt skal framkvæmd á fimm sýnum hið minnsta og skulu þau tekin úr sendingunni á mismunandi stöðum. Auk þessa er eftirlitsmanni heimilt að fara fram á frekari skoðun og rannsókn telji hann þörf á slíku með tilliti til þeirrar vöru sem um ræðir og kringumstæðna að öðru leyti.

 7. Þegar um er að ræða handahófskenndar rannsóknastofuprófanir, sem niðurstöður fást ekki úr um leið og ekki er um að ræða ógnun við heilbrigði dýra og manna, er heimilt að afhenda vörusendingu.

 8. Sé hins vegar um það að ræða að rannsóknastofupróf hafi verið framkvæmt vegna gruns um að lög og reglur hafi verið brotnar eða að fyrri próf hafi leitt til jákvæðrar niðurstöðu skal ekki afhenda sendingu fyrr en prófanir sýna neikvæða niðurstöðu.

 9. Flutningstæki þarf einungis að afferma að fullu þegar ekki er hægt að komast öðruvísi að allri sendingunni, þegar prófanir leiða í ljós að lög og reglur hafi verið brotnar, eða grunur leikur á um slíkt, eða fyrri sendingar hafa leitt í ljós brot á lögum og reglum.

10. Að lokinni heilnæmisskoðun skal eftirlitsmaður gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að staðfesta að opinber athugun á heilnæmi vörusendingar hafi farið fram, einkum með því að innsigla að nýju alla gáma sem hafa verið opnaðir og tilgreina innsiglisnúmerið á viðauka-B-skjali og á vottorðum og skjölum er fylgja vörusendingunni.

 

VIÐAUKI D

Rannsóknastofuprófanir.

Fiskistofa skal útbúa eftirlitsáætlun vegna prófana á viðurkenndri rannsóknastofu til að sannprófa að farið sé að heilbrigðisreglum. Í áætluninni skal koma fram hvernig staðið skuli að sýnatöku, meðferð og geymslu sýna og tilkynningum til annarra eftirlitsaðila og Eftirlitsstofnunar EFTA. Tillit skal tekið til þess hvers eðlis afurðirnar eru og þeirrar hættu er kann að stafa af þeim.

Opinber eftirlitsmaður á þeirri landamærastöð, þar sem prófanir eru gerðar samkvæmt eftirlitsáætlun Fiskistofu, skal senda upplýsingar til lögbærs yfirvalds á viðtökustað í gegnum viðeigandi tölvukerfi samkvæmt kröfum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og tilgreina prófin í viðauka-B-skjali sem gefið er út til staðfestingar á því eftirliti sem farið hefur fram. Varði prófin efni eða smitvalda sem dýrum eða mönnum getur stafað hætta af getur opinberi eftirlitsmaðurinn á þeirri landamærastöð sem prófin gerði frestað afhendingu sendingar þar til niðurstöður úr rannsóknastofuprófi liggja fyrir.

Ákveði Fiskistofa, einkum að lokinni rannsókn á vörusendingu eða á grundvelli upplýsinga frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Eftirlitsstofnun EFTA, eða á grundvelli óhagstæðra niðurstaðna úr rannsókn á fyrri vörusendingu, að láta fara fram rannsóknastofupróf er einungis heimilt að senda vöruna á viðtökustað með því skilyrði að niðurstöður úr rannsóknarprófinu séu fullnægjandi. Fram að þeim tíma er vörusendingin undir eftirliti opinbers eftirlitsmanns á viðkomandi landamærastöð þar sem eftirlit fór fram.

 

VIÐAUKI E

Landamærastöðvar skulu starfræktar undir stjórn Fiskistofu. Skal eftirlit á landamærastöðvum fara fram á vegum eftirlitsmanns sem tilnefndur er af Fiskistofu og er hann ábyrgur fyrir framkvæmd eftirlitsins.

Landamærastöðvar skulu:

1. Hafa á að skipa nauðsynlegum fjölda hæfra starfsmanna til að annast eftirlit skv. 14. gr. þessarar reglugerðar.

2. Hafa til umráða nægilega rúmgott húsnæði fyrir starfsfólk til að annast eftirlit.

3. Hafa til umráða nægilega hreinláta aðstöðu til sýnatöku og úrvinnslu sýna.

4. Hafa til umráða frysti- og/eða kæligeymslu, þar sem unnt er að geyma hluta sendinga sem eru teknar til prófunar og vörur sem eftirlitsmaður hefur ekki gefið leyfi til að settar verði í frjálsa dreifingu.

5. Hafa viðeigandi tölvukerfi samkvæmt kröfum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu til þess að skiptast á upplýsingum við aðrar landamærastöðvar.

Þá skulu landamærastöðvar vera útbúnar og starfræktar í samræmi við eftirfarandi kröfur:

1. Fullnægjandi varúðarráðstafanir skulu gerðar til að koma í veg fyrir víxlmengun milli vara. Á hverri stöð skal vera búnaður til að þrífa og sótthreinsa vinnusvæði.

2. Á þeim stöðum þar sem magn og fjölbreytileiki sendinga er lítill skal Fiskistofu heimilt að skipta landamærastöð upp í skoðunarstöðvar er hver um sig hafi á að skipa þeim fjölda starfsmanna, búnaði og skoðunar- og geymsluhúsnæði sem hentar fyrir það magn og þær tegundir sem þar eru skoðaðar. Skoðunarstöðvar skulu uppfylla þau skilyrði er fram koma í 1. tölul. Eftirlitsmaður á hverri landamærastöð er ábyrgur fyrir þeim skoðunarstöðvum er henni tilheyra.

3. Við sannprófun auðkenna, eftirlit með heilnæmi og sýnatöku skal forðast að vörur verði fyrir mengun og, ef þurfa þykir, taka tillit til stýrðra hitaskilyrða við flutning varanna. Allt eftirlit með vörum til manneldis sem eru án umbúða skal fara fram í skjóli frá veðri og gera skal ráðstafanir um hreinlæti við meðhöndlun og vernd slíkra afurða við affermingu og fermingu. Þrátt fyrir framangreint skal löndun afla fara fram í samræmi við kröfur sem settar eru í reglugerð um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

4. Hreinlæti starfsfólks, húsnæði og búnaður skal vera þannig að það geti ekki haft áhrif á niðurstöður eftirlits.

5. Eftirlitsaðili skal hafa aðgang að sérhæfðri rannsóknastofu þar sem unnt er að gera sérstök próf á þeim sýnum sem tekin eru.

6. Þar til samræmt tölvukerfi hefur verið tekið í notkun á Evrópska efnhagssvæðinu skal eftirlitsmaður að minnsta kosti hafa aðgang að:

a) Uppfærðri skrá yfir þriðju ríki eða svæði sem hafa heimild til að senda vörur til Evrópska efnahagssvæðisins eða, ef við á, til tiltekinna ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.

b) Afriti af þeim ákvörðunum sem banna eða takmarka innflutning vara til Evrópska efnahagssvæðisins.

c) Afriti af ýmsum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar eða aðildarríkjanna um fyrirmynd að heilbrigðissvottorði eða öðru skjali sem á að fylgja með afurðum frá þriðju ríkjum sem eru sendar til Evrópska efnhagssvæðisins eða, ef við á, til tiltekinna ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.

d) Uppfærðri skrá yfir landamærastöðvar fyrir innflutning afurða frá þriðju ríkjum, með upplýsingum um stöðvarnar, einkum samskiptabúnað þeirra.

e) Uppfærðri skrá yfir starfsstöðvar í þriðju ríkjum sem hafa heimild til að senda afurðir til bandalagsins, ef slík skrá er til að því er varðar tilteknar vörur.

f) Uppfærðum upplýsingum um vörusendingar sem bannað hefur verið að koma með eða flytja inn á Evrópska efnahagssvæðið og hafa verið endursendar. Fiskistofa skal senda lögbærum yfirvöldum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og Eftirlitsstofnun EFTA allar upplýsingar um endursendar vörur.

g) Yfirliti yfir það eftirlit sem fram hefur farið á Evrópska efnhagssvæðinu með vörum frá einstökum þriðju ríkjum og hefur leitt til þess að þær hafa verið endursendar.

h) Uppfærðri skrá yfir vörusendingar sem hafa verið endursendar, eyðilagðar eða heimilaðar til annarra nota en manneldis.

i) Skrá yfir öll sýni sem eru tekin á stöðinni og sett í rannsóknastofupróf, ásamt niðurstöðum úr slíkum prófum.

j) Skrá yfir niðurstöður úr eftirliti á vörum sem eru ætlaðar áhöfn og farþegum til neyslu um borð í flutningatækjum í millilandaflutningum, og úrgangi slíkra afurða.

k) Nægilegu skjalageymslurými fyrir varðveislu upplýsinga í tengslum við skoðun vara frá þriðju ríkjum.

7. Fiskistofa skal hafa í sinni vörslu a.m.k þær upplýsingar sem um getur í a.-, b.-, c.-, e.-, og f.-liðum 6. tölul. hér að framan.

8. Fiskistofa skal tryggja hámarkssamræmingu á starfsemi þeirra aðila sem eiga þátt í eftirliti með afurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Fiskistofa skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og lögbærum yfirvöldum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins um allar breytingar á skipulagi og starfsemi landamærastöðva sem að einhverju leyti varða viðurkenningu þeirra.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica