Sjávarútvegsráðuneyti

391/2002

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 849, 14. desember 1999, um eftirlit með innflutningi sjávarafurða. - Brottfallin

1. gr.

1. gr. orðist svo: Reglugerðin gildir um eftirlit með innflutningi sjávarafurða.


2. gr.

Í 2. gr. verður skilgreining á orðinu innflutningur svo: Koma vörusendingar til landsins hvort heldur ætlunin er að koma vörunum í frjálst flæði á Evrópska efnahagssvæðinu eða flytja þær áfram til þriðja ríkis.


3. gr.

1. mgr. 13. gr. orðist svo: Landamærastöðvar skulu staðsettar á eftirtöldum stöðum: Akureyri, Eskifirði, Hafnarfirði, Húsavík, Ísafirði, Keflavíkurflugvelli, Njarðvík, Reykjavík, Siglufirði og Þorlákshöfn. Fiskimjöl má aðeins fara um landamærastöðvar á Akureyri, í Hafnarfirði, Njarðvík og Reykjavík. Lifandi sjávardýr mega aðeins fara um landamærastöð á Keflavíkurflugvelli.


4. gr.

18. gr. orðist svo: Fiskistofa skal innheimta gjald til að bera uppi kostnað af eftirliti með innflutningi sjávarafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Fyrir hvert tonn af fyrstu 100 tonnum af innfluttum sjávarafurðum úr sömu vörusendingu skal greiða 426 kr. Fyrir hvert tonn þar umfram skal lækka gjaldið í 213 kr. Þó skal gjald af heilfrystum fiski sem aðeins hefur verið slægður lækka í 127 kr. fyrir hvert tonn. Fyrir hverja sendingu skal þó aldrei greiða minna en 2.556 kr. Fyrir heilan farm af sömu vöru, í sama flutningsfari og á vegum sama innflytjanda skal gjaldið aldrei nema hærri upphæð en 150.000 kr. enda þótt farmurinn samanstandi af mörgum vörusendingum. Þessar fjárhæðir miðast við gengi evru í maí 2002, eða 85,2 kr.

Gjaldið greiðist af innflytjanda afurðanna og greiðist þar sem eftirlitið fer fram eða í landamærastöð. Fiskistofu er heimilt að fela innheimtu gjaldsins tollyfirvöldum þar sem eftirlitið fer fram. Gjaldið skal ávallt innt af hendi áður en tollafgreiðsla fer fram nema ef gild bankatrygging fyrir greiðslu þess hefur verið lögð fram áður.

Innflytjanda sjávarafurða eða öðrum aðila sem óskar eftir aðgangi að tollvörugeymslu ber að greiða fyrir eftirlit þar. Heimilt er að innheimta gjaldið áður en afurðir eru fluttar í tollvörugeymslu.

Ef við á ber innflytjanda að leggja fram bankatryggingu fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 28. maí 2002.

Árni M. Mathiesen.
Arndís Á. Steinþórsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica