Landbúnaðarráðuneyti

251/1995

Reglugerð um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum. - Brottfallin

I. KAFLI 

 Orðaskýringar og yfirstjórn.

1. gr. 

 Orðaskýringar.

1.1 Merking orða er í reglugerð þessari sem hér segir:

Alifugl: Hænsnfugl, alinn til framleiðslu á kjöti og eggjum, svo og kalkúnar, endur og gæsir.

Alifuglabú: Staður ásamt nauðsynlegum húsakynnum og búnaði, þar sem stunduð er alifuglarækt. Bú með færri en 50 fugla eða ársframleiðslu sem svarar 800 kg af eggjum, eru hér undanskilin.

Dýralæknir alifuglasjúkdóma: Dýralæknir sem hefur aflað sér staðgóðrar sérþekkingar í sjúkdómum og eldi alifugla að loknu dýralæknisprófi.

Foreldrafugl: Stofnfugl af holda- og varpfuglakyni, sem notaður er til framleiðslu á útungunareggjum.

Kjúklingur: Alifugl af holdakyni sem slátrað er yngri en 12 vikna.

Útungunarstöð: Staður, ásamt nauðsynlegum húsakosti og búnaði, þar sem stunduð er útungun á alifuglaeggjum í vélum, hvort heldur ungarnir eru ætlaðir til sölu eða til nota á eigin búi.

Varphænsni: Alifugl sem notaður er til framleiðslu á neyslueggjum.

2. gr.

Yfirstjórn o.fl.

2.1 Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Yfirdýralæknir skal vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis við framkvæmd reglugerðarinnar. Yfirdýralæknir skal hafa undir sinni stjórn dýralækni alifuglasjúkdóma, sem í samvinnu við héraðsdýralækna sinnir vörnum, sjúkdómsgreiningu og reglubundnu eftirliti vegna alifuglasjúkdóma.

2.2 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal með almennri fræðslu og leiðbeiningastarfi leitast við að auka þekkingu á alifuglasjúkdómum, vörnum gegn þeim og því tjóni sem þeir geta valdið.

2.3 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal halda skrá yfir útungunarstöðvar og alifuglabú. Þar skal tilgreind stærð húsa, eldisaðstaða, útbúnaður, fjöldi fugla og framleiðslugeta.

2.4 Dýralæknir alifuglasjúkdóma svo og héraðsdýralæknar eða fulltrúar þeirra skulu hafa frjálsan aðgang að útungunarstöðvum og alifuglabúum. Rekstraraðilum er skylt að veita þessum aðilum allar nauðsynlegar upplýsingar um búreksturinn.

2.5 Héraðsdýralæknar skulu í samvinnu við dýralækni alifuglasjúkdóma hafa vakandi auga með rekstri alifuglabúa hver í sínu umdæmi. Þeir skulu sinna reglubundnu heilbrigðiseftirliti og sýnatöku eins og nánar er mælt fyrir um í reglugerð þessari. Héraðsdýralæknar skulu tilkynna yfirdýralækni og dýralækni alifuglasjúkdóma þegar í stað ef upp kemur grunur um alvarlegan sjúkdóm í alifuglum í umdæmi þeirra.

2.6 Í lok hvers árs skulu héraðsdýralæknar og dýralæknir alifuglasjúkdóma senda yfirdýralækni yfirlit um störf sín er varða alifuglasjúkdóma og ástand alifuglabúa.

II. KAFLI 

 Meðferð sjúkdóma og rannsóknir á sýnum.

3. gr.

Varnir gegn kjúklingasótt og öðrum smitsjúkdómum.

3.1 Á búum sem afhenda útungunaregg eða unga til lífs skulu fara fram blóðprófanir vegna kjúklingasóttar á hænsnum eldri en 6 mánaða. Sýni blóðprófun að í hænsnastofninum leynist smitberar skal stöðva afhendingu útungunareggja eða sölu unga frá búinu, en eiganda skal gefinn kostur á nýrri blóðprófun að þremur mánuðum liðnum. Þau hænsni sem svara jákvætt skulu fjarlægð án tafar úr hænsnabúinu og slátrað. Sýking skal staðfest með sýklarannsókn. Að loknu blóðprófi skal sá sem það framkvæmir gefa eiganda eða umboðsmanni hans vottorð um árangur prófanna. Vottorð eftirlitsmanns gildir í 12 mánuði frá útgáfudegi, en fellur að þeim tíma liðnum úr gildi uns prófað hefur verið að nýju og er útungun óheimil þann tíma.

3.2 Óheimilt er að flytja egg eða fugla frá búi þar sem blóðpróf hafa ekki verið framkvæmd.

3.3 Hafi hænsni á búi sýnt neikvæða útkomu við blóðprófanir tvisvar í röð með eins árs millibili er eftirlitsmanni leyfilegt að gefa út vottorð er gildi í tvö ár frá útgáfudegi. Sýni hænsnastofn búsins framvegis neikvæða útkomu, er eiganda eigi skylt að láta prófa hænsni sín nema annað hvert ár. Er þá nægjanlegt að prófa hluta af hænsnastofni búsins, þó aldrei færri en 100 fugla, og skal þess gætt að sem jöfnust hlutfallstala sé tekin úr hverjum hópi og aldursflokki.

3.4 Þegar kjúklingasótt er staðfest með sýklarannsókn, skulu eldishús, hreiður, búr og útungunarvélar, sótthreinsaðar samkvæmt nánari fyrirmælum dýralæknis alifuglasjúkdóma.

3.5 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal árlega gera úttekt á smitsjúkdómum á alifuglabúum samkvæmt reglum sem samþykktar eru af yfirdýralækni.

3.6 Skylt er eiganda að veita skoðunarmanni nægilega aðstoð við blóðprófun endurgjaldslaust og fullan aðgang að öllum þeim húsum þar sem hænsni eru geymd. Ef skoðunarmaður telur nauðsynlegt, er eiganda skylt að veita fullkomnar upplýsingar hverjum hann hafi afhent unga eða egg til útungunar síðastliðið ár.

4. gr. 

 Meðferð sjúkdóma.

4.1 Forráðamanni alifuglabús er skylt að tilkynna héraðsdýralækni eða dýralækni alifuglasjúkdóma þegar í stað ef vart verður við óeðlileg vanhöld á búinu. Héraðsdýralæknir eða dýralæknir alifuglasjúkdóma skal þá, svo fljótt sem auðið er, kanna hvaða orsakir liggja að baki. Eiganda er skylt að afhenda héraðsdýralækni eða dýralækni alifuglasjúkdóma nauðsynleg sýni til rannsóknar, ásamt ítarlegum upplýsingum um aðdraganda og sjúkdómseinkenni.

4.2 Ef upp kemur grunur um alvarlegan smitsjúkdóm skal héraðsdýralæknir eða dýralæknir alifuglasjúkdóma þegar í stað tilkynna það yfirdýralækni.

4.3 Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm að mati héraðsdýralæknis eða dýralæknis alifuglasjúkdóma er þeim heimilt að banna þegar í stað hvern þann samgang við önnur bú eða staði sem valdið gæti útbreiðslu smits frá búinu. Jafnframt skulu þeir hlutast til um að sjúkdómsgreiningu sé hraðað svo sem kostur er. Yfirdýralæknir skal, í samráði við dýralækni alifuglasjúkdóma, jafnskjótt og við verður komið gera tillögur til landbúnaðarráðherra um nauðsynlegar ráðstafanir til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins.

4.4 Reynist nauðsynlegt að beita lyfjagjöf, ónæmisaðgerðum eða víðtækri hreinsun og sótthreinsun í baráttu við sjúkdóm á alifuglabúi skal héraðsdýralæknir hafa eftirlit með framkvæmd verksins í samráði við dýralækni alifuglasjúkdóma. Forráðamaður búsins skal leggja fram nægjanlega aðstoð svo verkið gangi án ónauðsynlegra tafa. Ef nauðsynlegt reynist að farga alifuglum vegna alvarlegra smitsjúkdóma skulu þeir urðaðir í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.

5. gr. 

 Rannsóknir á sýnum.

5.1 Dýralæknir alifuglasjúkdóma rannsakar í samráði við yfirdýralækni, sýni sem eru tekin við reglubundið eftirlit í útungunarstöðvum og á alifuglabúum, ásamt sýnum sem tekin eru vegna gruns um sjúkdóma.

5.2 Eigendum útungunarstöðva og alifuglabúa ber að greiða þann kostnað, sem leiðir af sýnatöku og rannsóknum vegna reglubundins eftirlits.

III. KAFLI 

 Aðbúnaður og öryggisatriði.

6. gr. 

 Aðbúnaður og viðurkenning alifuglabúa.

6.1 Alifuglabú skal þannig staðsett að ekki berist þaðan ódaunn sem er til óþæginda, né að hætta sé á að þangað berist smit fá öðrum alifuglabúum, útungunarstöðvum eða sláturhúsum. Fjarlægð milli alifuglabúa skal vera minnst einn km. Ennfremur skal við staðsetningu gætt ákvæða heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. Umhverfi húsa skal vera þurrt og þrifalegt, svo að óhreinindi og smit berist ekki inn í húsin. Steypt stétt skal vera við dyr. Athafnasvæði búa skal vera þannig frá gengið að komið sé í veg fyrir óþarfa og óæskilega umferð.

6.2 Fjöldi fugla á hverju búi skal taka mið af hættu á útbreiðslu sjúkdóma. Varúðarskilti skulu hanga uppi við dyr alifuglabúa um varúð vegna smithættu og skal óviðkomandi aðilum bannaður aðgangur. Gestum skulu afhentar yfirhafnir og skóhlífar til notkunar innandyra.

6.3 Fordyri skal skipt í hreint og óhreint svæði. Þar skal vera vaskur, heitt og kalt rennandi vatn, sápugjafi og sérstök geymsla fyrir hlífðarföt og skófatnað, sem notaður er eingöngu í eldishúsinu.

6.4 Öll hús sem alifuglar eru hafðir í, svo og fóðurgeymslur, skulu vera meindýra- og fuglaheld. Ekki má hafa sundfugla og aðra alifugla á sama búi. Hundum og köttum skal ekki hleypt inn á alifuglabú, nema slíkt sé gert til að vinna á meindýrum og þá undir eftirliti og skulu þeir sérstaklega merktir búinu.

6.5 Gólf, veggir og loft í eldishúsum skulu vera vatnsþolin og slétt, svo að auðvelt sé að þrífa og sótthreinsa þau. Frárennsli með vatnslásum skulu vera frá hverju eldishúsi og skal því veitt um rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum heilbrigðisnefndar. Aðeins má nota rotþrær sem Hollustuvernd ríkisins hefur viðurkennt.

6.6 Loftræstiþörf miðast við fóðurnotkun og skal vera að lágmarki 2 m3/sek/tonn fóðurs notað á dag. Þó skal koltvísýringur í andrúmslofti ekki fara yfir 3000 ppm, ammóniak ekki yfir 25 ppm og brennisteinsvetni ekki yfir 0.5 ppm rúmmáls. Jafnframt skal rakastig vera milli 55% og 80%.

6.7 Ljósstyrkur og ljósatími skal ekki vera utan þessara marka: Í upphafi er lágmarksljósstyrkur 20 lux, sem lækkar niður í 10 lux við 2-3 vikna aldur fugla og loks 6 lux seinni hluta vaxtartímans. Þó skal vera ljós a.m.k. 8 klst. á hverjum sólarhring og ljós slökkt í a.m.k. 30 mín. einu sinni á sólarhring. Heimilt er þó að hafa stöðugt ljós fyrstu 10 dagana.

6.8 Á hverju búi skal vera kælir til geymslu sýna, sem senda á til rannsóknar.

6.9 Dauða fugla, sem ekki eru sendir í rannsókn, skal brenna eða grafa jafnóðum á tryggilegan hátt, í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.

6.10 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal árlega veita hverjum framleiðanda sem framleiðir á almennan markað sérstaka viðurkenningu ef hann telur að fullnægt sé þeim skilyrðum um heilbrigði alifugla, húsakost, búnað, umgengni og aðra aðstöðu til alifuglaræktar sem sett eru í reglugerð þessari. Viðurkenning þessi skal hengd upp á áberandi stað.

6.11 Áður en ráðist er í verulegar breytingar á húsnæði eða innréttingum skal leitað álits dýralæknis alifuglasjúkdóma.

6.12 Ef framleiðandi fullnægir ekki skilyrðum, sem sett eru í þessari reglugerð skal héraðsdýralæknir eða dýralæknir alifuglasjúkdóma krefjast úrbóta skriflega þar sem tilgreind eru þau atriði sem lagfæra þarf. Héraðsdýralæknir eða dýralæknir alifuglasjúkdóma skal gefa framleiðanda hæfilegan, tímabundinn frest til nauðsynlegra lagfæringa og endurbóta. Afrit af fyrirmælum þessum skal senda yfirdýralækni.

6.13 Telji héraðsdýralæknir eða dýralæknir alifuglasjúkdóma, eftir að veittur frestur er liðinn, ástand á búinu enn óviðunandi, skal hann veita stuttan lokafrest að höfðu samráði við yfirdýralækni. Ef viðhlítandi úrbætur hafa ekki verið gerðar að lokafresti liðnum skal tafarlaust tilkynna það yfirdýralækni.

7. gr. 

 Búr o.fl.

7.1 Á hverri búrasamstæðu skal vera merki, er sýni hólfastærð (hæð, breidd og dýpt), halla á gólfi, framleiðsluár og framleiðanda.

7.2 Búrasamstæður skulu ekki vera meira en fjórar hæðir og auðvelt að fylgjast með hænsnunum í þeim. Hæð frá gólfi að lægsta punkti á neðstu hæð búranna skal vera minnst 20 cm. Ekki skulu vera fleiri en átta hænur á hvern rúmmetra hússins. Ekki mega vera fleiri en fjórar hænur saman í hólfi.

7.3 Brynning skal vera þannig útbúin að hænurnar fái alltaf nóg ferskt vatn og í þeirri hæð, að hænurnar eigi sem auðveldast með að drekka. Hvort sem um er að ræða nippla eða bolla til brynningar skulu vera minnst tveir í hverju hólfi, einnig í einstaklingsbúrum. Eftirlit með brynningarbúnaðinum skal vera auðvelt. Þegar notuð er vatnsrenna skal hún vera jafnlöng fóðurrennu.

7.4 Óheimilt er að nota hreyfanleg (laus) fóður- og vatnstrog, nema fyrstu daga eftir innsetningu fugla í búr.

7.5 Um rými og útbúnað búra gilda reglur sem tilgreindar eru í viðauka A með reglugerð þessari.

7.6 Sækja skal um leyfi til yfirdýralæknis, sem leitar umsagnar umhverfisráðuneytisins áður en óhefðbundinn búnaður fyrir varpfugla er tekinn í notkun.

8. gr. 

 Fóður, vatn og undirburður.

8.1 Hráefni til fóðurgerðar skal vera laust við salmonellasýkla, og skal það staðfest af viðurkenndri rannsóknastofu. Tilbúið fóður skal ávallt vera hitavögglað. Mölun á vögglum skal framkvæmd á þann veg að mengun eða smit geti ekki átt sér stað. Sótthreinsa skal mylluútbúnað reglulega.

8.2 Forðast ber að nota sekkjað fóður á alifuglabúum og óheimilt er að bera sekkjað fóður milli eldishúsa.

8.3 Fóðurgeymar og fóðurdreifikerfi skulu varin fyrir ágangi meindýra, fugla og annarra dýra. Fóðurgeymar skulu vera þannig frágengnir að auðvelt sé að þrífa þá og sótthreinsa og þannig um búið að ekki myndist í þeim slagi. Sama máli gegnir um sambyggð fóðurmötunarkerfi. Fóðurgeyma, fóðurgeymslur og annað tilheyrandi skal að jafnaði þrífa í hvert sinn sem nýr eldishópur er tekinn inn í húsin, en að lágmarki einu sinni á ári.

8.4 Fóður sem er eftir í fóðurdreifikerfi þegar skipt er um hóp í húsi skal fjarlægt og ekki gefið alifuglum.

8.5 Vatn skal uppfylla kröfur gildandi heilbrigðisreglugerðar um neysluvatn. Sé vatn ekki frá opinberri vatnsveitu skal eftirlitsaðili taka vatnssýni einu sinni á ári til athugunar á gæðum vatnsins.

8.6 Fóður- og vatnsílát skulu þannig úr garði gerð og fyrir komið að auðvelt sé að fullnægja eðlilegum kröfum um hreinlæti.

8.7 Spæni og annan undirburð skal verja mengun í flutningi og geymslu.

9. gr.

Meðhöndlun neyslueggja á alifuglabúum.

9.1 Á alifuglabúum skal aðstaða til hreinsunar, flokkunar og geymslu neyslueggja vera aðskilin annarri starfsemi á búinu. Aðstaða þessi skal vera auðþrifin, vel loftræst, niðurföll fullnægjandi og þvottaaðstaða með heitu og köldu vatni vera fyrir hendi.

9.2 Ef egg eru þvegin skal það gert með þvottaefni viðurkenndu af Hollustuvernd ríkisins. Egg skulu vera þurr og hæfilega köld áður en þau eru sett í umbúðir. Hiti þvottavatns skal vera lægstur 38C en ávallt 15C heitari en eggin.

9.3 Egg skal geyma í kæli við 12C að hámarki. Hitastig í kæli skal aldrei fara undir frostmark. Rakastig í kæli skal vera á bilinu 60 til 80%.

9.4 Egg sem ekki eru hæf í almenna dreifingu er heimilt að dreifa til matvælaiðnaðar sem tryggir hitameðhöndlun fyrir neyslu. Eggjum þessum skal haldið aðgreindum í kæli og þau brotin niður í umbúðir sem hægt er að loka og auðvelt er að þvo og sótthreinsa.

10. gr. 

 Viðvörunarbúnaður.

10.1 Þar sem er vélknúin loftræsting, skal hún vera tengd viðvörunarkerfi sem gerir viðvart þegar rafmagn fer af, ef hitastig verður of hátt eða of lágt og ef viðvörunarbúnaðarinn bilar. Viðvörunarkerfið skal vera þannig upp sett að fari það í gang geri það viðvart ábyrgum aðilum sem vita hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar.

10.2 Á alifuglabúum skal vera vararafstöð og eldsneyti á hana er dugar til að sjá búinu fyrir rafmagni er þarf til eðlilegs rekstrar, í a.m.k. 5 sólarhringa. Undanþágu má gefa frá þessu ákvæði enda sé sýnt fram á fullnægjandi möguleika til loftræstingar, fóðrunar, brynningar og útungunar ef rafmagnstruflanir verða.

10.3 Eigandi skal tryggja að viðvörurnarkerfi sé ávallt í lagi.

IV. KAFLI 

 Um eldi alifugla.

11. gr. 

 Uppeldi foreldrafugla og varphænsna.

11.1 Eldishús og búnaður þess skal vera hreinn og sótthreinsaður og hús skal hafa staðið tómt í a.m.k. einn mánuð áður en stofnfuglaungar eru settir í það.

11.2 Uppeldishús fyrir stofnfugla skal vera í a.m.k. eins km fjarlægð frá öðrum alifuglahúsum.

11.3 Uppeldishús fyrir varphænsni skal vera í a.m.k. 500 m fjarlægð frá öðrum alifuglahúsum.

11.4 Starfsmenn við uppeldi alifugla skulu ávallt klæðast hreinlegum hlífðarfatnaði og ekki nota hann við önnur störf. Sá maður sem sér um hirðingu stofnfugla skal ekki fást við hirðingu á öðrum fuglum.

11.5 Öll varphænsni í sama húsi skulu að jafnaði vera jafngömul en stofnfuglar skulu undantekningarlaust vera jafngamlir.

11.6 Eigi skal hafa fleiri en 12 fullorðna stofnfugla á hvern fermetra gólfflatar eldisaðstöðu.

11.7 Þegar skömmtun á fóðri og vatni er nauðsynleg við uppeldi stofnfugla, skulu fóður- og brynningartæki miðast við að allir fuglar geti komist að samtímis.

11.8 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal hafa eftirlit með stofnfuglum tvisvar sinnum á uppeldistímanum hið minnsta, á 2-4 vikna og 14-16 vikna aldri og varphænsnum árlega. Ef um óeðlileg vanhöld er að ræða skal bústjóri gera dýralækni alifuglasjúkdóma aðvart.

11.9 Senda skal sýni stofnfugla til rannsóknar á viðurkennda rannsóknastofu samkvæmt eftirfarandi reglum:
2 - 4 vikna: 1% fugla, lágmark 20 fuglar;
14 - 16 vikna, eða í síðasta lagi 15 dögum fyrir flutning fugla í stofnhús: 1% fugla, lágmark 10 fuglar .

11.10 Ef sjúkdómar greinast í stofnfuglum skal dýralæknir alifuglasjúkdóma gera tillögur um aðgerðir. Ef um næman smitsjúkdóm er að ræða skal haft samráð við yfirdýralækni um nauðsynlegar ráðstafanir, til að hefta útbreiðslu hans.

11.11 Starfsmaður skal halda nákvæmar skýrslur um aldur, vanhöld, þyngdaraukningu, fóðurnotkun og vatnsnotkun fugla og hita- og rakastig í eldisrými.

11.12 Um aðbúnað hænuunga gilda reglur sem tilgreindar eru í viðauka B og C með reglugerð þessari.

12. gr. 

 Eldi foreldrafugla.

12.1 Eldishús og búnaður þess skal vera hreinn og sótthreinsaður og hús staðið tómt í einn mánuð hið skemmsta áður en stofnfuglar eru settir í það. Fleira en eitt hús með stofnfuglum mega standa saman en þau skulu þó vera í a.m.k. 500 m fjarlægð frá öðrum alifuglahúsum.

12.2 Þeir sem hirða stofnfugla skulu að jafnaði ekki annast hirðingu á öðrum fuglum. Við störf í eldishúsum skal ávallt klæðast hreinlegum hlífðarfatnaði sem nota skal eingöngu innan hvers eldishúss.

12.3 Fuglar í hverju húsi skulu vera jafngamlir, þó má skipta um hana einu sinni á eldistímanum.

12.4 Eigi skal hafa fleiri en sjö fullorðna fugla á hvern fermetra gólfflatar eldiaðstöðu.

12.5 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal hafa eftirlit með stofnfuglum tvisvar á ári. Ef um óeðlileg vanhöld er að ræða, skal bústjóri gera dýralækni alifuglasjúkdóma aðvart.

12.6 Egg skulu tínd a.m.k. tvisvar á sólarhring og þau sótthreinsuð ef þurfa þykir.

12.7 Starfsmaður skal halda nákvæmar skýrslur um aldur, vanhöld, fóðurnotkun, þyngdaraukningu, vatnsnotkun og varp fugla og hita- og rakastig í eldisrými.

12.8 Sýni til rannsóknar skal senda reglulega til dýralæknis alifuglasjúkdóma, eftir nánari reglum sem hann setur í samráði við yfirdýralækni.

13. gr. 

 Eldi varphænsna.

13.1 Eldishús og búnaður þess skal vera hreinn og sótthreinsaður og æskilegt er að hús hafi staðið tómt í a.m.k. hálfan mánuð áður en varphænsni eru sett í það.

13.2 Héraðsdýralæknir skal hafa eftirlit með fuglunum, að lágmarki einu sinni á ári eftir nánari reglum sem dýralæknir alifuglasjúkdóma setur í samráði við yfirdýralækni. Ef um óeðlileg vanhöld er að ræða skal bústjóri gera héraðsdýralækni eða dýralækni alifuglasjúkdóma aðvart, í samræmi við ákvæði 4. gr. reglugerðar þessarar.

13.3 Starfsmaður skal halda nákvæmar skýrslur um aldur, vanhöld, fóðurnotkun og varp fugla og hita- og rakastig í eldisrými.

13.4 Um aðbúnað varphænsna gilda reglur sem tilgreindar eru í viðauka A með reglugerð þessari, svo og ákvæði 7. gr.

14. gr. 

 Eldi kjúklinga.

14.1 Eldishús og búnaður þess skal vera hreinn og sótthreinsaður og hús staðið tómt í a.m.k. hálfan mánuð áður en daggamlir ungar eru settir í það.

14.2 Fuglar í sama eldishúsi skulu vera jafngamlir. Fuglar skulu vera frá sömu útungunarstöð og æskilegt að þeir séu úr eggjum frá sama stofnbúi.

14.3 Lýsing í byrjun eldis skal vera 20 lux, sem lækkar í 6 lux við þriggja vikna aldur fugla. Ljós skulu slökkt í a.m.k. 30 mín. einu sinni á sólarhring eftir fyrstu 10 dagana.

14.4 Héraðsdýralæknir skal hafa reglubundið eftirlit með rekstri kjúklingabúa eftir nánari reglum sem dýralæknir alifuglasjúkdóma setur í samráði við yfirdýralækni. Ef um óeðlileg vanhöld er að ræða skal héraðsdýralækni gert aðvart, í samræmi við ákvæði 4. gr. reglugerðar þessarar.

14.5 Slátra skal kjúklingum 10-14 daga gömlum til gerlafræðilegra athugana, 0,2-1% fugla, lágmark 10 fugla og þeir sendir til rannsóknar á viðurkennda rannsóknastofu, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 260/1980 um útbúnað alifuglasláturhúsa, slátrun alifugla, verkun þeirra og heilbrigðisskoðun.

14.6 Starfsmaður skal halda nákvæmar skýrslur um aldur, vanhöld, fóðurnotkun, hita- og rakastig.

14.7 Ekki skal hafa fleiri en 19 fugla á hvern fermetra gólfflatar eða sem svarar 32 kg lifandi þunga á fermetra, sbr. nánari reglur í viðauka D með reglugerð þessari.

15. gr. 

 Eldi annarra alifugla.

15.1 Um aðstöðu við eldi annarra alifugla gilda reglur sem tilgreindar eru í viðaukum E og F með reglugerð þessari.

15.2 Um reglubundið eftirlit skal fara eftir reglum sem yfirdýralæknir setur að fengnum tillögum dýralæknis alifuglasjúkdóma.

V. KAFLI 

 Aðbúnaður og starfsleyfi útungunarstöðva.

16. gr. 

 Húsakostur og búnaður.

16.1 Útungunarstöð skal standa í a.m.k. eins km fjarlægð frá eldishúsum alifugla.

16.2 Húsnæði það sem útungun fer fram í skal vera rúmgott miðað við þarfir, og ferli eggja/unga sé auðveldlega fyrirkomið og skerist ekki. Húsnæði skal þannig úr garði gert að auðvelt sé að hreinsa það og sótthreinsa. Þar skal vera góð aðstaða til að þrífa eggjabakka og annan búnað og áhöld. Þar skal vera hreinlætisaðstaða og aðstaða til fataskipta. Gólf skulu vera úr steinsteypu, gallalaus, með niðurföllum, sem tengd eru rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum heilbrigðisnefndar. Aðeins má nota rotþrær sem Hollustuvernd ríkisins hefur viðurkennt. Húsnæði, búnaði og áhöldum skal halda hreinum og þrifalegum og þar má ekki geyma hluti sem eru starfseminni óviðkomandi. Útungunarstöðvar skulu vera lausar við meindýr og fugla.

16.3 Starfsfólk útungunarstöðvar skal ekki sjá um hirðingu á öðrum fuglum né starfa í alifuglasláturhúsi. Við störf skal ávallt klæðast hreinlegum hlífðarfatnaði, sem nota skal eingöngu í útungunarstöðinni. Óviðkomandi er bannaður aðgangur að útungarstöðvum nema gætt sé sérstakra varúðarráðstafana. Óheimilt er að hafa heimilisdýr, búrfugla eða dúfur á útungunarstöðvum.

16.4 Aðeins má taka við útungunareggjum frá stofnbúum sem hafa leyfi landbúnaðarráðuneytisins.

16.5 Útungunaregg skal sótthreinsa, þegar komið er með þau í stöðina og eins þegar þau eru sett í vélar, samkvæmt reglum sem dýralæknir alifuglasjúkdóma setur í samráði við yfirdýralækni.

16.6 Fúlegg úr útungunarvélum, eggjaskurn, sjálfdauða unga eða unga sem eru deyddir skal hirða jafnóðum og brenna eða grafa á tryggilegan hátt, í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd. Eggjabakka, búnað og áhöld skal hreinsa og sótthreinsa eftir hverja notkun og útungunarvélar og klekjara í hvert sinn sem útungun hefst á ný. Fylgja skal reglum um sótthreinsun sem dýralæknir alifuglasjúkdóma setur. Þess skal gætt að hún skaði hvorki egg eða unga. Öll sótthreinsiefni skal geyma á öruggum stað þar sem óviðkomandi ná ekki til.

16.7 Kyngreining á ungum skal fara fram í sérherbergi. Þeir sem kyngreina unga skulu halda áhöldum sínum vel hreinum og sótthreinsa þau að loknu starfi í útungunarstöðinni. Þeir skulu hafa sérstök hlífðarföt og skófatnað við vinnu sína, sem auðvelt er að þvo og sótthreinsa og í öllu starfi skulu þeir gæta þess að bera ekki smitefni milli stöðva. Unga, sem deyða þarf að lokinni kyngreiningu skal aflífa með jafn skjótum og sársaukalitlum hætti og kostur er og brenna eða grafa í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.

16.8 Til flutnings á daggömlum ungum skal nota hreinar, ónotaðar umbúðir. Umbúðir skulu greinilega merktar "Lifandi ungar" og þess gætt að sem best fari um ungana meðan á flutningi stendur og leitast við að flutningar á ungunum séu eins beinir og greiðir og kostur er.

16.9 Starfsmaður skal halda nákvæmar skýrslur um móttöku eggja, fjölda, árangur útungunar og dreifingu unga. Auðkenna skal egg úr hverju eldishúsi.

16.10 Verði vart óeðlilegra vanhalda í útungunarstöð eða í ungum seldum frá útungunarstöð skal umráðamaður stöðvarinnar gera dýralækni alifuglasjúkdóma aðvart.

16.11 Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm að mati héraðsdýralæknis eða dýralæknis alifuglasjúkdóma í fuglum í útungunarstöð eða á búi sem afhendir útungunaregg, skal héraðsdýralæknir eða dýralæknir alifuglasjúkdóma hlutast til um að nauðsynleg sýni séu send til rannsóknar án tafar. Er honum heimilt í samráði við yfirdýralækni, að stöðva sölu á ungum frá stöðinni fyrirvaralaust uns nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir smitdreifingu. Eiganda eða umráðamanni er skylt að veita nauðsynlega aðstoð við sýnatöku og láta sýni af hendi endurgjaldslaust.

17. gr. 

 Eftirlit.

17.1 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal eftir nánari fyrirmælum yfirdýralæknis hafa reglubundið eftirlit með rekstri útungunarstöðva.

17.2 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal halda skýrslu um eftirlitsferðir sínar, á þar til gerðum eyðublöðum.

17.3 Ef útungunarstöð fullnægir ekki skilyrðum, sem sett eru í þessari reglugerð skal dýralæknir alifuglasjúkdóma krefjast úrbóta skriflega. Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal gefa hæfilegan tímabundinn frest til nauðsynlegra lagfæringa og endurbóta. Afrit af fyrirmælum þessum skal senda yfirdýralækni.

17.4 Nú telur dýralæknir alifuglasjúkdóma að ítrekuðum kröfum um úrbætur hafi ekki verið sinnt á viðunandi hátt eftir að veittur frestur er liðinn og skal hann þá veita stuttan lokafrest í samráði við yfirdýralækni. Ef viðhlítandi úrbætur hafa ekki verið gerðar að lokafresti liðnum skal tafarlaust tilkynna það yfirdýralækni.

18. gr.

Leyfisveiting.

18.1 Allir þeir sem stunda útungun á alifuglaeggjum með vélum, skulu hafa til þess skriflegt leyfi landbúnaðarráðuneytisins.

18.2 Umsókn um leyfi til þess að reka útungunarstöð, skal senda landbúnaðarráðuneytinu, ásamt umsögn dýralæknis alifuglasjúkdóma og vottorði um heilsufar fugla á búi eða búum þeim sem láta af hendi útungunaregg til stöðvarinnar. Ennfremur skal fylgja umsókninni lýsing á stærð og gerð húsnæðis stöðvarinnar, útungunarvélum og afkastagetu þeirra, sem og öðrum búnaði.

18.3 Landbúnaðarráðuneytið veitir leyfi til starfrækslu útungunarstöðva, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Samþykki dýralæknis alifuglasjúkdóma þarf fyrir öllum meiri háttar breytingum á húsnæði, búnaði og vinnutilhögun. Leyfi má afturkalla án fyrirvara ef ástæða þykir til t.d. vegna sjúkdóma eða brota á settum reglum, án þess að bætur komi fyrir.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

19. gr. 

 Refsiákvæði.

19.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi ef miklar sakir eru. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

20. gr. 

 Gildistaka.

20.1 Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum um dýralækna nr. 77/1981, lögum um búfjárhald nr. 46/1991 og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 428/1990 um alifuglarækt og ráðstafanir gegn kjúklingasótt og öðrum sjúkdómum alifugla.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Óheimilt er að taka í notkun búr sem ekki uppfylla ákvæði 7.2 um fjölda fugla í sama hólfi. Slík búr sem nú eru í notkun má þó lengst nýta í 5 ár frá gildistöku þessarar reglugerðar, ef héraðsdýralæknir, í samráði við dýralækni alifuglasjúkdóma, gefur til þess undanþágu. Flatarmál má ekki vera minna en 600 cm2 pr. varphænu. Óheimilt er að endurnýja búr sem ekki uppfylla skilyrði þessarar reglugerðar.

II.

Famleiðendum sem ekki uppfylla skilyrði greina 11.2, 11.3, 12.1 og 16.1 um fjarlægðarmörk skal gefinn frestur til 1. janúar 1996 til að fullnægja ákvæðum þeirra málsgreina.

Landbúnaðarráðuneytið, 6. apríl 1995.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica