Landbúnaðarráðuneyti

701/2002

Regugerð um breytingu á reglugerð nr. 251/1995, ásamt síðari breytingum, um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum. - Brottfallin

1. gr.

Grein 2.3 breytist svo:
Fyrir aftan orðið "útungunarstöðvar" og fyrir framan orðin "og alifuglabú" í 1. mgr. greinarinnar bætist inn orðið sóttvarnarstöðvar.


2. gr.

Grein 2.4 breytist svo:
Fyrir aftan orðið "útungunarstöðvum" og fyrir framan orðin "og alifuglabúum" bætist inn orðið sóttvarnarstöðvum.


3. gr.

Við IV. kafla bætist ný grein, 16. gr., síðari greinar breyta um númer eftir því sem við á, núverandi 16. gr. verður 17. gr. o.s.frv. Ný 16. gr. orðist svo:


16. gr.
Leyfisveiting.
16.1 Allir þeir sem starfrækja alifuglabú skulu hafa til þess skriflegt leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
16.2 Umsókn um leyfi til þess að reka alifuglabú, skal senda landbúnaðarráðuneytinu, sem aflar umsagnar yfirdýralæknis. Ennfremur skal fylgja umsókn lýsing á stærð og gerð húsnæðis, auk upplýsinga um fyrirhugaða afkastagetu búsins.
16.3 Landbúnaðarráðuneytið veitir leyfi til starfrækslu búsins, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Samþykki dýralæknis alifuglasjúkdóma þarf fyrir öllum meiri háttar breytingum á húsnæði. Leyfi má afturkalla án fyrirvara ef ástæða þykir til t.d. vegna sjúkdóma eða brota á settum reglum, án þess að bætur komi fyrir.


4. gr.

Núverandi VI. kafli fær nýtt númer og verður VII. kafli. Greinarnúmer kaflans breytist í samræmi við þetta. Núverandi 19. gr. verður 23. gr. o.s.frv.
Nýr VI. kafli orðist svo:


VI. KAFLI
Aðbúnaður og starfsleyfi sóttvarnarstöðva fyrir alifugla.
20. gr.
Húsakostur og búnaður.
20.1 Alifuglasóttvarnarstöð skal standa í a.m.k. 5 km fjarlægð frá öðrum alifuglabúum og öðrum alifuglasóttvarnarstöðvum. Nánasta svæðið umhverfis sóttvarnarstöð skal afgirt, þannig að dýr komist þar ekki að.
20.2 Húsnæði það sem útungun og eldi fugla fer fram í skal vera rúmgott miðað við þarfir og vera þannig úr garði gert að auðvelt sé að þrífa það og sótthreinsa. Þar skal vera góð aðstaða til að þrífa búnað og áhöld. Í húsnæði skal vera tvískipt forstofa þar sem farið er í sturtu áður en farið er á milli hreins og óhreins svæðis. Gólf skulu vera úr steinsteypu, gallalaus, með niðurföllum, sem tengd eru rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum heilbrigðisnefndar. Aðeins má nota rotþrær sem Hollustuvernd ríkisins hefur viðurkennt. Húsnæði, búnaði og áhöldum skal halda hreinum og þrifalegum. Í húsnæði má ekki geyma hluti sem eru starfseminni óviðkomandi. Húsnæði skal vera laust við meindýr og skal þar halda uppi reglubundnu eftirliti með meindýrum.
20.3 Starfsfólk sóttvarnarstöðva má eingöngu starfa við einn innfluttan alifuglahóp í einu. Starfsfólki er ekki heimilt að sjá um hirðingu á öðrum fuglum né starfa í alifuglasláturhúsi eða annarri sóttvarnarstöð. Starfsfólk skal ávallt fara í sturtu bæði þegar komið er í sóttvarnarstöð og áður en farið er frá henni. Allir sem í sóttvarnarstöð koma skulu klæðast hreinlegum hlífðarfatnaði, sem nota skal eingöngu á staðnum. Óviðkomandi er bannaður aðgangur að sóttvarnarstöðvum nema dýralæknir alifuglasjúkdóma hafi áður veitt skriflegt leyfi.
20.4 Sóttvarnarstöð má aðeins taka við frjóeggjum og fuglum skv. einu innflutningsleyfi í einu.
20.5 Innflutt frjóegg skal flytja strax í viðurkennda sóttvarnarstöð þar sem þau skulu sótthreinsuð og sett í vélar, samkvæmt reglum sem yfirdýralæknir setur í samráði við dýralækni alifuglasjúkdóma.
20.6 Fúlegg úr útungunarvélum, eggjaskurn, sjálfdauða unga eða unga sem eru deyddir skal hirða jafnóðum og brenna eða grafa á tryggilegan hátt, í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd. Útungunarvélar, húsnæði, búnað og áhöld skal þrífa og sótthreinsa eftir hvern innflutning. Fylgja skal reglum um sótthreinsun sem yfirdýralæknir setur í samráði við dýralækni alifuglasjúkdóma. Eldishús skal hvíla a.m.k. þrjár vikur eftir hreinsun, áður en nýr fuglahópur er settur í hús. Leyfilegt er að hafa útungunarstöð og eldishús í sama sóttvarnarhúsnæði, en skal þá útungunarstöð og eldi vera í aðskildum rýmum. Í sóttvarnarhúsnæði þar sem bæði er eldishús og útungunarstöð skulu hvíldartímar einnig reiknast frá því fuglar fara út úr sóttvarnarstöð og þar til ný egg koma.
20.7 Til flutnings á eins dags gömlum ungum úr sóttvarnarútungunarstöð í sóttvarnareldishús, skal nota hreinar, ónotaðar umbúðir og farartæki samþykkt af dýralækni alifuglasjúkdóma. Gæta skal að því að sem best fari um ungana meðan á flutningi stendur og leitast við að flutningar á ungunum séu eins beinir og greiðir og kostur er.
20.8 Starfsmaður sóttvarnarstöðvar skal halda nákvæmar skýrslur um fjölda móttekinna eggja, árangur útungunar og dreifingu unga. Einnig skal daglega halda skýrslur um eldi fuglanna.
20.9 Verði vart óeðlilegra vanhalda í útungun eða í eldi skal starfsmaður sóttvarnarstöðvar gera dýralækni alifuglasjúkdóma viðvart.
20.10 Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm í fuglum í sóttvarnarstöð, að mati dýralæknis alifuglasjúkdóma, skal hann hlutast til um að nauðsynleg sýni séu send til rannsóknar án tafar. Ef talið er nauðsynlegt að grípa til aðgerða, skal það gert í samráði við yfirdýralækni. Innflutningsaðila er skylt að veita nauðsynlega aðstoð við sýnatöku og láta sýni af hendi endurgjaldslaust. Innflutningsaðili ber allan kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.


21. gr.
Eftirlit.
21.1 Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal eftir nánari fyrirmælum yfirdýralæknis hafa reglubundið eftirlit með rekstri sóttvarnarstöðva.
21.2 Ef sóttvarnarstöð fullnægir ekki skilyrðum, sem sett eru í þessari reglugerð skal dýralæknir alifuglasjúkdóma krefjast úrbóta skriflega. Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal gefa hæfilegan tímabundinn frest til nauðsynlegra lagfæringa og endurbóta. Afrit af fyrirmælum þessum skal senda yfirdýralækni.
21.3 Nú telur dýralæknir alifuglasjúkdóma að ítrekuðum kröfum um úrbætur hafi ekki verið sinnt á viðunandi hátt eftir að veittur frestur er liðinn og skal hann þá veita stuttan lokafrest í samráði við yfirdýralækni. Ef viðhlítandi úrbætur hafa ekki verið gerðar að lokafresti liðnum skal tafarlaust tilkynna það yfirdýralækni.


22. gr.
Leyfisveiting.
22.1 Allir þeir sem reka sóttvarnarstöð fyrir alifugla, skulu hafa til þess skriflegt leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
22.2 Umsókn um leyfi til þess að reka sóttvarnarstöð, skal senda landbúnaðarráðuneytinu, sem aflar umsagnar yfirdýralæknis. Ennfremur skal fylgja umsókn lýsing á stærð og gerð húsnæðis stöðvarinnar, útungunarvélum og afkastagetu þeirra, sem og öðrum búnaði. Leyfi til reksturs sóttvarnarstöðvar má afturkalla án fyrirvara, ef ástæða þykir til t.d. vegna sjúkdóma eða brota á settum reglum, án þess að bætur komi fyrir.


5. gr.
Bráðabirgðaákvæði.

Þau alifuglabú og alifuglasóttvarnarstöðvar sem starfandi eru við gildistöku reglugerðar þessarar skulu sækja um leyfi eftir ákvæðum reglugerðarinnar sem fram koma í 3. og 4. gr. hennar, sbr. gr. 16.1 og 22.1, fyrir 1. desember 2002.


6. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998, lögum um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002 og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og öðlast þegar gildi.


Landbúnaðarráðuneytinu, 15. október 2002.

F. h. r.
Guðmundur B. Helgason.
Atli Már Ingólfsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica