Viðskiptaráðuneyti

593/1993

Reglugerð um málsmeðferð og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Breytingareglugerðir:

1. gr.

Ákvæði bókunar 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni, skulu ásamt viðbætum 1-10 öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Samningurinn ásamt bókunum er birtur í C-deild Stjórnartíðinda sem fylgiskjal nr. 1 við auglýsingu nr. 32/1993.

Sama gildir um ákvæði bókunar 21-24 og 4.-7. gr. bókunar 25 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sem birtur er ásamt bókunum og viðaukum í C-deild Stjórnartíðinda sem fylgiskjal nr. 1 við auglýsingu nr. 31/1993.

2. gr.

Samkeppnisstofnun kemur fram fyrir Íslands hönd í umboði viðskiptaráðuneytis gagnvart eftirlitsstofnun EFTA að því er varðar samkeppnismál á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem nánar er kveðið á um í bókun 4 við samninginn milli EFTA- ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, og bókun 21-25 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samkeppnisstofnun er því hið lögbæra yfirvald, sem vísað er til í fyrrgreindum bókunum, að því er Ísland varðar.

3. gr.

Um upplýsingaskyldu til eftirlitsstofnunar EFTA og dómstóls EFTA eða Samkeppnisstofnunar, vettvangsskoðun eftirlitsstofnunar EFTA eða Samkeppnisstofnunar, þagnarskyldu íslenskra yfirvalda, álagningu sekta og aðfararhæfi þeirra fer samkvæmt ákvæðum XI. kafla samkeppnislaga, reglugerðar þessarar og bókana sem hún vísar til.

4. gr.

Nú neitar fyrirtæki að gangast undir rannsókn sem á að framkvæma á grundvelli 1. mgr. 42. gr. samkeppnislaga, reglugerðar þessarar eða bókana sem hún vísar til, og ber þá Samkeppnisstofnun að veita starfsmönnum með umboð frá eftirlitsstofnun EFTA aðstoð til að fá aðfarargerð framkvæmda, þannig að þeim sé unnt að inna skyldur sínar af hendi, sbr. einnig 3. mgr. 42. gr. samkeppnislaga.

Ákvarðanir um sektir eða févíti sem teknar eru á grundvelli XI. kafla samkeppnislaga, reglugerðar þessarar eða bókana sem hún vísar til eru aðfararhæfar, sbr. einnig 3. mgr. 44. gr. samkeppnislaga.

Um framkvæmd aðfarar samkvæmt 1. og 2. mgr. fer samkvæmt lögum um aðför.

5. gr.

Viðskiptaráðherra skipar einn fulltrúa í ráðgjafarnefnd um samkeppnismál, sem kveðið er á um í 10. gr. II. kafla bókunar 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þá skipar viðskiptaráðherra tvo fulltrúa, þar af annan eftir tilnefningu samgönguráðherra, í ráðgjafarnefndir um samkeppni í flutningastarfsemi. Þetta eru í fyrsta lagi ráðgjafarnefnd um samkeppnismál á sviði flutninga sbr. 3. mgr. 16. gr. VI. kafla, ráðgjafarnefnd um samkeppni í sjóflutningum, sbr. 3. mgr. 15. gr. IX. kafla og í þriðja lagi ráðgjafarnefnd um samkeppni í flutningum í lofti, sbr. 3. mgr. 8. gr. XI. kafla. Loks skipar viðskiptaráðherra einn fulltrúa í ráðgjafarnefnd um samfylkingar sem kveðið er á um í 19. gr. XIII. kafla bókunar 4.

Jafnmargir fulltrúar skulu skipaðir til vara í ráðgjafarnefndir samkvæmt 1. mgr.

Um störf ráðgjafarnefnda í samkeppnismálum fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum bókunar 4 við samninginn milli EFTA- ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og ákvæðum bókana 21-24 og 4.- 7. gr. bókunar 25 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eftir því sem við getur átt.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 48. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Viðskiptaráðuneytið, 31. desember 1993.

Sighvatur Björgvinsson.

þorkell Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica