Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

816/2021

Reglugerð um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. - Brottfallin

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Reglugerð þessi er um Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Snæfellsbæ, sem stofnaður var 28. júní 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Í þessu felst m.a. að náttúra þjóðgarðsins fái að þróast eftir eigin lögmálum eins og kostur er um leið og almenningi er gert kleift að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Þjóðgarðurinn er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó og hefur þá sérstöðu að geyma minjar frá útræði fyrri alda.

Strönd Snæfellsness er fjölbreytileg þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann. Láglendið innan þjóð­garðsins er að mestu hraun sem runnið hafa frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi. Hraunin eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Lág­lendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.

Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og greinilega má sjá hvernig hraunstraumar og hraunfossar hafa runnið niður eftir hlíðum hans. Undirfjöll hans, svo sem Hreggnasi, Geldingafell og Svörtutindar, eru margbreytileg að lögun. Eysteinsdalur gengur upp frá láglendinu að norðan­verðu en þar er komið í annað landslag, dal girtan fjöllum sem kalla á göngufúsa fætur. Ofar í land­inu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli.

Nokkrir fallegir fossar eru á svæðinu. Klukkufoss er við rætur Hreggnasa og er stuðlaberg allt um kring. Nokkru austar, í Blágili, falla tveir fossar í einn hyl og hafa þeir verið nefndir Þverfossar.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var m.a. höfð hliðsjón af samningnum um líffræðilega fjöl­breytni (Rio de Janeiro 1992, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 11/1995), loftslagssamningi Sameinuðu þjóð­anna, (sbr. Stjórnartíðindi C nr. 14/1993 og nr. 39/1993) og samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 17/1993).

Hið friðlýsta svæði er 183 km² að stærð.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda til framtíðar stórt og lítt snortið svæði sem hefur að geyma sérstætt landslag, lífríki og jarðminjar, þannig að náttúra svæðisins fái eftir föngum að þróast eftir eigin lögmálum.

Friðlýsingin miðar jafnframt að því að vernda heildstæð náttúruleg tegunda- og vistkerfi, gróður­far, jarðmyndanir, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið.

Þá miðar friðlýsingin að því að tryggja almenningi aðgang að svæðinu til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu þess.

Með friðlýsingunni er einnig stuðlað að því að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í nýtingu, stjórnun, framtíðarskipulagningu og rekstri innan þjóðgarðsins.

Áhersla á aðgang almennings og fræðslu um náttúru og sögu svæðisins tengist beint markmiði b-liðar 3. mgr. 1. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá stuðlar friðlýsingin að því að verndar­markmið 2. gr. laganna náist, einkum b-liðar sem og einnig verndarmarkmið a-, b- og d-liðar 3. gr. laganna.

 

3. gr.

Mörk þjóðgarðsins.

Mörk þjóðgarðsins eru sýnd á korti í viðauka I sem er meðfylgjandi reglugerð þessari.

Innan þjóðgarðsins er skilgreint svæði, svæði A, þar sem veiðar á rjúpu eru heimilar, sbr. 16. gr.

 

4. gr.

Stjórn og umsjón þjóðgarðsins.

Umhverfisstofnun fer með stjórn þjóðgarðsins og hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Með Umhverfisstofnun starfar þjóðgarðsráð sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipar og í eiga sæti fulltrúi frá Umhverfisstofnun, hlutaðeigandi sveitarstjórn, Minjastofnun Íslands, ferðaþjón­ustu­samtökum á Snæfellsnesi og fulltrúi frá umhverfisverndarsamtökum og útivistarsamtökum. Hlutverk þjóðgarðsráðs er að fjalla um framkvæmdaáætlun og áherslur fyrir þjóðgarðinn, samvinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn, ásamt endurskoðun og breytingar á henni og önnur stefnumarkandi mál er varða þjóðgarðinn, s.s. um þjónustu og atvinnustefnu í þjóðgarð­inum.

Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar.

Nánar skal fjallað um stjórn og umsjón þjóðgarðsins í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

5. gr.

Þjóðgarðsvörður.

Umhverfisstofnun ræður þjóðgarðsvörð til að fara með daglega umsjón og rekstur þjóðgarðsins. Þjóðgarðsvörður skal hafa reynslu og háskólamenntun sem nýtist í starfi.

Þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að virtar séu þær reglur sem gilda um þjóðgarðinn og annast samskipti við lögreglu og önnur stjórnvöld vegna brota.

Þá annast þjóðgarðsvörður fræðslu og upplýsingagjöf, situr fundi þjóðgarðsráðs, ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins, þar á meðal landverði og skipuleggur starf þess. Einnig tekur þjóðgarðs­vörður þátt í gerð og endurskoðun atvinnustefnu og áætlana fyrir þjóðgarðinn, þ.m.t. stjórnunar- og verndaráætlunar, fræðsluáætlunar og öryggis- og neyðaráætlunar og önnur þau verkefni sem falla undir starf þjóðgarðsvarðar.

 

6. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í samstarfi við þjóðgarðsráð og í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013.

Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjallað um umsjón svæðisins, landvörslu, verndar­aðgerðir, verndun jarðminja, verndun gróðurs og dýralífs, framandi lífverur og aðgerðir í tengslum við þær, landnotkun, framkvæmdir og viðhald mannvirkja, rannsóknir og vöktun, fræðslu og miðlun upplýsinga, umgengni, umferð og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fólks með fötlun, veiði, nýtingu hlunninda og notkun skotvopna.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn er háð staðfestingu ráðherra.

 

7. gr.

Umferð og dvöl.

Almenningi er heimil för um þjóðgarðinn en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem þar gilda. Forðast skal að valda öðrum óþægindum eða truflun með hávaða.

Ávallt skal fara eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum, slóðum eða vegum eftir því sem auðið er.

Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á skilgreindum hjólastígum og vegum.

Fólki sem ferðast fótgangandi eða hjólandi með allan sinn farangur er heimilt að tjalda hefð­bundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á skilgreindum tjaldstæðum, sbr. stjórnunar- og verndar­áætlun. Ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða, skipulagða hópferð eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur þarf leyfi Umhverfisstofnunar.

Lausaganga hrossa er óheimil. Ríðandi umferð er aðeins heimil á skilgreindum leiðum og afmörk­uðum áningarstöðum.

Hefðbundinn réttur bænda til smölunar helst eins og verið hefur.

Hundar og önnur gæludýr skulu höfð í taumi innan marka þjóðgarðsins, að undanskildum leitar- og björgunarhundum, smalahundum við smölun og veiðihundum við veiðar. Hundar og önnur gælu­dýr skulu ávallt vera undir tryggri stjórn og þess gætt í hvívetna að þau valdi ekki truflun á lífríki svæðisins, skemmdum á náttúru og menningarminjum eða valdi gestum ónæði. Skylt er að fjar­lægja úrgang frá gæludýrum á svæðinu.

Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega og merktra slóða, sbr. þó undanþágur 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Óheimilt er að lenda flugvélum, þyrlum og öðrum mönnuðum loftförum utan skilgreindra lend­ingar­staða innan þjóðgarðsins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.

Notkun fjarstýrðra loftfara (dróna/flugmódela) er óheimil á búsvæðum fugla á varptíma innan þjóð­garðsins nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Nánari reglur um notkun fjarstýrðra loftfara skal setja í stjórnunar- og verndaráætlun þar sem m.a. skal skilgreina búsvæði og varptíma. Þrátt fyrir framan­­greint er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunar­aðgerða, landhelgisgæslu og sambærilegra verkefna, vegna náttúrufarsrannsókna Náttúrufræði­stofn­unar Íslands og vegna umsjónar og eftirlits Umhverfisstofnunar. Minjastofnun Íslands hefur sömu heimildir innan friðhelgunarsvæða menningarminja. Að öðru leyti skal farið eftir almennum reglum og stjórnvalds­fyrirmælum um notkun og starfrækslu fjarstýrðra loftfara.

Umhverfisstofnun er heimilt að loka þjóðgarðinum, í heild eða að hluta, í verndarskyni.

Heimilt er að setja reglur um fjöldatakmarkanir og ítölur í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið í heild eða hluta.

Nánar skal fjallað um umferð og dvöl á verndarsvæðinu í stjórnunar- og verndaráætlun, þ.m.t. skil­greiningu á hjóla-, reið- og göngustígum, lendingarstöðum og tjaldsvæði.

 

8. gr.

Umgengni um þjóðgarðinn.

Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan marka þjóðgarðsins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

Gestum þjóðgarðsins er óheimilt kveikja eld á víðavangi þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er gróðri, dýralífi eða mannvirkjum. Skylt er hverjum þeim sem ferðast um að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds og eldunartækja.

Skylt er gestum þjóðgarðsins að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarðar og landvarða hvað snertir umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum.

Þjóðgarðsverði og landvörðum er heimilt að vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim er brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar eða reglum sem um svæðið gilda.

 

9. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun í þjóðgarðinum, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórn­unar- og verndaráætlunar. Skýrslur um niðurstöður vöktunar skulu vera aðgengilegar Umhverf­is­stofnun.

Aðrar náttúrufarsrannsóknir en lögbundnar rannsóknir fagstofnana eru háðar leyfi Umhverfis­stofn­unar. Niðurstöður rannsókna skulu vera aðgengilegar Umhverfisstofnun og Náttúrufræði­stofnun Íslands.

Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum nr. 80/2012 um menn­ingar­minjar.

Nánar skal kveðið á um rannsóknir og vöktun í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

10. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með gerð og framkvæmd fræðsluáætlunar um þjóðgarðinn. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um verndargildi svæðisins, sérstöðu þess og þær umgengis­reglur sem þar gilda.

Nánar skal kveðið á um fræðslu og gerð fræðsluáætlunar í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóð­garðinn.

 

11. gr.

Verndun gróðurs, dýralífs og jarðminja.

Vernda skal lífríki þjóðgarðsins, líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi svæðisins.

Óheimilt er að raska gróðri eða trufla dýralíf í þjóðgarðinum.

Óheimilt er að sleppa, dreifa eða rækta framandi lífverur innan þjóðgarðsins, þ.m.t. að rækta framandi plöntutegundir, sbr. reglugerð nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda og lög nr. 54/1990 um innflutning dýra.

Unnið skal að því að fjarlægja ágengar framandi tegundir sem hafa verið fluttar inn í þjóð­garðinn eða berast inn í hann.

Allt rask á jarðminjum er óheimilt nema með sérstöku leyfi, sbr. 14. gr.

Nánar skal fjallað um verndun gróðurs, dýralífs og jarðminja, framandi og/eða ágengar lífverur og aðgerðir í tengslum við þær í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

12. gr.

Verndun landslags.

Varðveita skal einkenni og sérkenni landslags þjóðgarðsins. Óheimilt er að valda spjöllum á lands­lagi svæðisins. Framkvæmdir, sbr. 14. gr., skulu ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðisins og mann­virki skulu falla sem best að svipmóti lands.

 

13. gr.

Vernd menningarminja.

Um verndun menningarminja fer samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar.

 

14. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Allar athafnir og framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi, innan þjóðgarðsins eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 60/2013 um nátt­úru­vernd og leyfi sveitarfélagsins Snæfellsbæjar sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 160/2010 um mannvirki.

Landnotkun skal vera sjálfbær og miða skal að því eins og kostur er að framkvæmdir séu aftur­kræfar, að þær stuðli að verndun þjóðgarðsins og öryggi gesta. Mannvirki skulu falla vel að lands­lagi.

Heimilt er að halda við mannvirkjum sem þegar eru í notkun án þess að leita þurfi leyfis Umhverfisstofnunar en um þær framkvæmdir gilda skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010. Nánar skal fjallað um viðhald mannvirkja í stjórnunar- og verndaráætlun.

Sauðfjárbeit er heimil innan þjóðgarðsins. Umhverfisstofnun er heimilt, í samráði og samvinnu við Snæfellsbæ, að takmarka sauðfjárbeit þegar hún er talin ógna gróðurþekju svæðisins.

Nánar skal fjallað um landnotkun og mannvirkjagerð í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

15. gr.

Starfsemi og viðburðir í þjóðgarðinum.

Til að stuðla að sjálfbærri starfsemi í þjóðgarðinum er öll starfsemi sem krefst aðstöðu innan þjóðgarðsins háð leyfi og eftirliti Umhverfisstofnunar. Starfsemi innan þjóðgarðsins skal vera í sam­ræmi við gildandi atvinnustefnu þjóðgarðsins hverju sinni.

Við mat á leyfisumsóknum skal Umhverfisstofnun m.a. taka mið af verndarmarkmiðum frið­lýsingar­innar, ástandi svæðisins og innviðum, framlagi viðkomandi starfsemi til sjálfbærrar þróunar og mögu­legum áhrifum starfseminnar á náttúruauðlindir og náttúrugæði þjóðgarðsins, ásýnd svæðis­­ins og upplifun gesta.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja s.s. vegna kvikmyndagerðar, listviðburða eða samkomuhalds.

Nánar skal fjallað um starfsemi innan þjóðgarðsins og skilyrði í atvinnustefnu sem er hluti stjórn­unar- og verndaráætlunar.

 

16. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Veiðar eru óheimilar innan þjóðgarðsins, að undanskildu svæði A, sem sýnt er á meðfylgjandi korti, þar sem rjúpnaveiðar eru heimilaðar samkvæmt almennum reglum þar um.

Stefnt skal að útrýmingu minks. Veiðar á mink skulu stundaðar á vegum sveitarfélagsins og í samráði við Umhverfisstofnun.

Öll önnur meðferð skotvopna er bönnuð innan þjóðgarðsins, að undanskildum veiðum á fram­andi ágengum tegundum í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

 

17. gr.

Viðurlög.

Um brot á reglum þessum fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

18. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð um þjóðgarðinn Snæfellsjökul, nr. 568/2001, með síðari breytingum.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 27. júní 2021.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

 

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica