Sjávarútvegsráðuneyti

601/2003

Reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða. - Brottfallin

1. gr.

Skylt er að hirða og landa öllum afla sem í veiðarfæri kemur. Þó er þeim aðilum sem stunda netaveiðar, aðrar en grásleppuveiðar skv. sérstöku leyfi Fiskistofu, skylt að sleppa allri grásleppu, sem er lifandi í netum þegar þau eru dregin.


2. gr.

Heimilt er að varpa fyrir borð verðlausum fiski, innyflum, hausum og öðru því sem fellur til við verkun og vinnslu afla um borð í veiðiskipum, enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skylt að hirða og koma með að landi öll þorsk- og ufsahrogn. Þá er og skylt að hirða og koma með að landi allan afskurð, sem fellur til við snyrtingu á þorsk-, ýsu- og ufsaflökum um borð í fullvinnsluskipum.


3. gr.

Komi afli í veiðarfæri fiskiskips sem er selbitinn eða skemmdur á annan hátt, sem ekki er unnt að komast hjá við tilteknar veiðar, skal ekki reikna þann afla til aflamarks skipsins. Þessum afla skal haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins, hann veginn og skráður sérstaklega. Afla þennan er eingöngu heimilt að nýta til bræðslu.


4. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar með síðari breytingum.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 2. gr. laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. september 2003 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 605, 9. ágúst 2002, um nýtingu afla og aukaafurða.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 8. ágúst 2003.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica