Landbúnaðarráðuneyti

820/2007

Reglugerð um meðferð og nýtingu á slátur- og dýraleifum. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangurinn með reglugerðinni er sá að tryggja að smitefnum í slátur- og dýraleifum sé eytt eða þau gerð óskaðleg svo að afurðir, sem framleiddar eru úr slíkum leifum, séu lausar við smitefni.

Reglugerð þessi gildir um söfnun, flutning, geymslu, meðferð, vinnslu og nýtingu á slátur- og dýraleifum. Einnig gildir hún um brennslu og urðun á slíkum leifum.

Reglugerðin nær ekki til jarðgerðarstöðva sem vinna eingöngu afurðir úr plöntuúrgangi.

2. gr.

Orðskýringar.

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju eða jarðgerðarstöð: Nytja- eða söluvara, fullunnin eða að nokkru leyti unnin.

Áhættuflokkur 1: Sjá 3. gr.

Áhættuflokkur 2: Sjá 4. gr.

Áhættuflokkur 3: Sjá 5. gr.

Áhættuvefir: Hauskúpa með heila, augum og hálskirtlum og mæna úr sauð- og geitfé eldra en 12 mánaða, og heili, milta og aftasti hluti af mjógörn úr sauð- og geitfé á öllum aldri.

Brennsluofn: Ofn sem starfsleyfi er fyrir samkvæmt reglugerð fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar er slátur- og dýraleifum eytt með brennslu við háan hita.

Búfé: Alifuglar, geitur, hross, kanínur, loðdýr, nautgripir, sauðfé, svín og önnur dýr sem haldin verða til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.

Dýr: Búfé, eldisfiskar, villt spendýr og fuglar.

Dýraleifar: Heil hræ, skrokkar, skrokkhlutar, líffæri eða aðrar afurðir af dýrum sem ekki eru hæfar eða ætlaðar til manneldis.

Kjötmjölsverksmiðja: Verksmiðja þar sem nytja- eða söluvara er unnin úr slátur- og/eða dýraleifum.

Jarðgerðarstöð: Stöð þar sem líffræðilegt niðurbrot afurða úr dýraríkinu er látið fara fram við loftháð skilyrði.

Rekstrarleyfi: Er ákvörðun Landbúnaðarstofnunar í formi skriflegs leyfis þar sem til­teknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskildu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og rekstrarleyfisins.

Sláturafurðir: Kjöt og slátur af öllum sláturdýrum.

Sláturdýr: Búfé, sem slátrað er í löggiltum sláturhúsum til manneldis.

Sláturleifar: Leifar sem falla til við slátrun dýra og ekki eru nýttar til manneldis.

Urðunarstaður: Staður þar sem tekið er við úrgangi til förgunar á eða í landi, þar á meðal urðunarstaður fyrir eigin úrgang og varanlegur staður þar sem úrgangur er geymdur til lengri tíma.

Úrgangur: Sjá lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

3. gr.

1. Áhættuflokkur.

Eftirfarandi telst til 1. áhættuflokks:

a)

Áhættuvefir og allar slátur- og dýraleifar úr sauðfé og geitfé þar sem áhættuvefir hafa ekki verið fjarlægðir.

b)

Hræ af sjálfdauðu sauðfé, geitfé og nautgripum, þar með talin dauðfædd dýr og fóstur slíkra dýra.

c)

Sauðfé, geitfé og nautgripir sem hafa drepist í flutningi.

d)

Slátur- og dýraleifar með riðusmitefni, grun um riðu eða annan heilahrörnunar­sjúkdóm, einnig dýr sem lógað hefur verið til útrýmingar á riðu, þar með er talið skinn, húðir, blóð og saur úr slíkum dýrum.

e)

Úrgangur sem inniheldur dýraleifar frá flutningatækjum í alþjóðlegri umferð.

f)

Blöndur sem innihalda efni úr 1. flokki og annaðhvort efni úr 2. eða 3. áhættuflokki eða báðum þessara áhættuflokka.

Leifum og úrgangi sem talin eru upp í 1. mgr. skal safna og flytja án tafar til eyðingar í brennsluofni sé hann til staðar. Þar sem ekki er völ á brennsluofni skal úrgangi safnað saman og hann fluttur án tafar á urðunarstað og hann urðaður þannig að jarðlag sé a.m.k. einn metri.

4. gr.

2. Áhættuflokkur.

Eftirfarandi telst til 2. áhættuflokks:

a)

Hræ af búfé, öðru en sauðfé, geitfé og nautgripum, sem er sjálfdautt eða hefur verið lógað og ekki er ætlað til manneldis, þar með talin dauðfædd dýr og fóstur slíkra dýra.

b)

Hræ og leifar frá öðrum dýrum sem Landbúnaðarstofnun telur að meðhöndla skuli sem 2. áhættuflokk.

c)

Dýr sem felld eru vegna sóttvarna samkvæmt opinberum fyrirmælum, sbr. þó 3. gr.

d)

Allir hlutar sláturdýra sem dæmast óhæfir til manneldis og eru með merki um alvarlega sjúkdóma sem geta borist í fólk eða dýr.

e)

Sláturafurðir sem hafa spillst og geta verið hættulegar til manneldis.

f)

Sláturafurðir, sem hafnað er við innflutningseftirlit.

g)

Dýr, önnur en sauðfé, geitfé og nautgripir, sem hafa drepist í flutningi.

h)

Sláturafurðir með aðskotaefni og lyfjaleifar umfram þau mörk sem sett hafa verið.

i)

Eldisfiskur með einkenni smitsjúkdóma.

j)

Innihald meltingarvegar og sláturleifar sem smitaðar eru af innihaldi meltingar­vegar.

k)

Aðrar slátur- og dýraleifar sem falla í 2. áhættuflokk að mati Landbúnaðarstofnunar.


5. gr.

3. Áhættuflokkur.

Eftirfarandi telst til 3. áhættuflokks:

a)

Allir hlutar heilbrigðra sláturdýra, þar með talið blóð og fóstur, sem ekki eru ætlaðir til neyslu af viðskiptaástæðum.

b)

Allir hlutar sláturdýra, sem dæmast óhæfir til manneldis, en eru ekki með merki um alvarlega sjúkdóma sem borist geta í fólk eða dýr.

c)

Klaufir, horn, svínaburstir og fiður af heilbrigðum dýrum sem slátrað er í sláturhúsi.

d)

Bein og aðrar dýraleifar frá kjötvinnslum, mötuneytum og aðrar dýraleifar sem falla til sem almennur rekstrarúrgangur, sem og eldhúsúrgangur.

e)

Aðrar dýraleifar sem falla í 3. áhættuflokk að mati Landbúnaðarstofnunar.


6. gr.

Meðferð og vinnsla slátur- og dýraleifa.

Meðhöndlun og vinnsla slátur- og dýraleifa skal vera í samræmi við ákvæði reglugerða er varða úrgang og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Auk þess skulu þeir sem meðhöndla, geyma eða flytja hræ og slátur- og dýraleifar til brennslu eða urðunar eða ætla að nýta það til fóðurgerðar eða moltugerðar afla sér heimildar Landbúnaðarstofnunar áður en starfsemin hefst í samræmi við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Við slátrun er sláturleyfishöfum skylt að fjarlægja áhættuvefi úr sauðfé og geitfé.

Sláturleifum skal sláturleyfishafi safna saman og dýraleifum skal eigandi safna saman og flytja hann eins fljótt og kostur er á vinnslustað. Þar sem ekki er völ á slíku skal úrgangurinn fluttur án tafar til brennslu í brennsluofni eða til urðunar á urðunarstað.

Slátur- og dýraleifar skal flytja í gámum eða flutningatækjum, sem samþykkt hafa verið af Landbúnaðarstofnun, og eru lagarheld og lokuð eða með yfirbreiðslu.

Flutningatæki, yfirbreiðslur og gáma skal þvo vandlega með heitu vatni og sótthreinsa að lokinni hverri ferð.

Jarðgerðarstöðvar sem framleiða hluta afurða sinna eingöngu úr plöntuúrgangi, skulu tryggja að slík vinnsla sé aðskilin frá vinnslu þar sem framleiddar eru afurðir úr slátur- og dýraleifum.

7. gr.

Rekstrarleyfi.

Sá sem hyggst starfrækja eða byggja kjötmjölsverksmiðju eða jarðgerðarstöð skal sækja um rekstrarleyfi til Landbúnaðarstofnunar áður en starfsemin hefst, svo og vegna allra meiriháttar breytinga á fyrirkomulagi, búnaði og rekstri eða þegar eigendaskipti verða. Leggja skal fram teikningar af byggingum ásamt lýsingu á búnaði, fyrirhuguðum afköstum og öðru sem stofnunin telur nauðsynlegt. Áður en sótt er um rekstrarleyfi til Landbúnaðarstofnunar skal liggja fyrir starfsleyfi heilbrigðisnefndar samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

8. gr.

Nýting afurða úr kjötmjölsverksmiðjum og jarðgerðarstöðvum.

Afurðir sem unnar eru úr slátur- og dýraleifum úr 1. áhættuflokki skal urða eða brenna.

Kjötmjöl úr kjötmjölsverksmiðju þar sem unnið er eingöngu úr slátur- og dýraleifum úr 3. áhættuflokki má nota í fóður fyrir gæludýr og loðdýr en ekki fyrir dýr sem gefa af sér afurðir til manneldis. Umbúðir þeirra afurða skal greinilega merkja með eftirfarandi áletrun: "Þetta fóður inniheldur dýraafurðir - óheimilt er að gefa það dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis." Fóðurblöndunarstöðvar sem framleiða fóður fyrir jórturdýr mega ekki taka við eða vinna úr afurðum úr kjötmjölsverksmiðjum.

Tólg sem unnið er úr slátur- og dýraleifum úr 3. áhættuflokki má nota í fóður fyrir einmaga dýr. Umbúðir þeirra afurða skal merkja greinilegri áletrun um að bannað sé að nota þær fyrir jórturdýr.

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju, sem notaðar eru í fóður, verða að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri, ásamt síðari breytingum, en ákvæði reglugerðar nr. 398/1995 um áburð og jarðvegsbætandi efni, ásamt síðari breytingum, ef nota á þær sem áburð.

Kjötmjöl og molta sem framleidd er úr slátur- og dýraleifum, sbr. 4. og 5. gr. má nota sem áburð eða á annan hátt á beitilönd eða lönd þar sem fóðurs er aflað, enda líði a.m.k. 21 dagur frá notkun þessara afurða á landinu, þar til beit er leyfð eða fóðurs er aflað.

Kjötmjöl og molta sem framleidd eru úr slátur- og dýraleifum, sbr. 4. og 5. gr., má ekki nota sem áburð eða á annan hátt á:

a) land eða í gróðurhúsum þar sem ræktuð eru matvæli eða hráefni fyrir matvælaiðnað;
b) vatnsverndarsvæðum.

Umbúðir áburðar úr kjötmjöli og moltu sem innihalda slátur- og dýraleifar skulu merktar með eftirfarandi áletrun: "Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni / Má ekki nota til að rækta matvæli eða á vatnsverndarsvæðum - A.m.k. 21 dagur skal líða frá notkun þar til heimilt er að leyfa beit búfjár eða afla fóðurs á landi sem kjötmjölið/moltan er borin á".

9. gr.

Reglur um notkun og skráningu á beitilönd eða lönd sem notuð eru til fóðurgerðar.

Á landi þar sem búfé er á beit eða á landi þar sem fóðurs er aflað og notað hefur verið kjötmjöl eða molta er umráðamanni lands skylt að geyma í a.m.k. tvö ár skráningar um:

a)

magn kjötmjöls eða moltu sem notað er á landinu;

b)

upplýsingum hvar á landinu afurðirnar voru notaðar og hvenær;

c)

hvenær beit var leyfð á landinu og/eða hvenær fóðurs var aflað á landinu.

Til að fylgjast með að ákvæðum þessum sé fylgt er Landbúnaðarstofnun heimilt að skoða skráningar skv. 1. mgr. hvenær sem þess er óskað.

10. gr.

Eftirlit.

Landbúnaðarstofnun annast eftirlit með kjötmjölsverksmiðjum og jarðgerðarstöðvum sem lúta reglum er birtast í viðauka með reglugerð þessari. Uppfylli kjötmjölsverksmiðja eða jarðgerðarstöð ekki lengur þær kröfur skal Landbúnaðarstofnun, eins fljótt og verða má, skýra forráðamönnum fyrirtækisins skriflega frá því og gera kröfur um úrbætur og setja hæfilegan frest. Landbúnaðarstofnun getur stöðvað starfsemina tímabundið ef um alvarlega ágalla er að ræða. Hægt er að kæra ákvörðun Landbúnaðarstofnunar til land­búnaðar­ráðherra. Rekstrarleyfið fellur niður hafi eigi verið bætt úr göllum að loknum fresti.

Heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á mengunarvarnaeftirliti með kjötmjölsverksmiðjum og jarðgerðarstöðvum og framkvæmd þess í samræmi við ákvæði reglugerðar um mengunar­varnaeftirlit.

11. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar og fyrirmælum settum samkvæmt henni varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar.

Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

12. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og að höfðu samráði við umhverfisstofnun hvað varðar meðferð úrgangs. Reglugerðin er sett með hliðsjón af reglugerðum nr. 999/2001/EB og nr. 1774/2002/EB og öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 660/2000 um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraúrgangi, ásamt síðari breytingum.

Landbúnaðarráðuneytinu, 13. september 2007.

Einar K. Guðfinnsson.

Arnór Snæbjörnsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica