Landbúnaðarráðuneyti

660/2000

Reglugerð um meðferð og nýtingu á sláturúrgangi og dýraúrgangi - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangurinn með reglugerðinni er sá að tryggja að smitefnum í sláturúrgangi og dýraúrgangi verði eytt eða þau gerð óskaðleg svo að afurðir sem framleiddar eru úr slíkum úrgangi séu lausar við smitefni.

Reglugerð þessi fjallar um söfnun, flutning, geymslu, meðferð, vinnslu og nýtingu á sláturúrgangi og dýraúrgangi.  Einnig fjallar reglugerðin um brennslu og urðun á slíkum úrgangi.

 

2. gr.

Orðskýringar.

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju: Nytja- eða söluvara, fullunnin eða að nokkru leyti unnin.

Brennsluofn: Ofn sem starfsleyfi er fyrir samkvæmt reglugerð fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Þar er dýraúrgangi eða sláturúrgangi eytt með brennslu við háan hita.

Búfé: Alifuglar, geitur, hross, kanínur, loðdýr, nautgripir, sauðfé, svín og önnur dýr sem haldin verða til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.

Dýr: Búfé, eldisfiskar, villt spendýr og fuglar.

Dýraúrgangur: Heil hræ, skrokkar, skrokkhlutar, líffæri eða aðrar afurðir af dýrum sem ekki eru hæfar eða ætlaðar til manneldis. 

Hættulegur úrgangur: Sjá 4. gr.

Hættulítill úrgangur: Sjá 5. gr.

Kjötmjölsverksmiðja: Verksmiðja þar sem nytja- eða söluvara er unnin úr sláturúrgangi og/eða dýraúrgangi.

Sérlega hættulegur úrgangur: Sjá 3. gr.

Sláturafurðir: Kjöt og slátur af öllum sláturdýrum.

Sláturdýr: Búfé, sem slátrað er í löggiltum sláturhúsum til manneldis.

Sláturúrgangur: Afurðir sem falla til við slátrun dýra og ekki eru nýttar til manneldis.

Söfnunarstaður: Afmarkað svæði, samþykkt af héraðsdýralækni og með starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd, þar sem úrgangi er safnað saman og hann geymdur við smitgát skamman tíma fyrir vinnslu eða aðra meðferð.

Urðunarstaður: Staður sem hefur starfsleyfi samkvæmt reglugerð fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og fengið hefur samþykki héraðsdýralæknis.

Úrgangur:  Dýraúrgangur og sláturúrgangur.

 

3. gr.

Sérlega hættulegur úrgangur.

Úrgangur úr sauðfé, geitfé og nautgripum sem kemur frá svæði þar sem riða hefur greinst eða grunur hefur leikið á riðu síðastliðin tíu ár.

Úrgangur með riðusmitefni, grun um riðu eða annan heilahrörnunarsjúkdóm, einnig dýr sem lógað hefur verið til útrýmingar á riðu, þar með er talið skinn, húðir, blóð og saur úr slíkum dýrum.

Úrgangi sem talinn er upp í 1.-2. mgr. skal safna og flytja án tafar til eyðingar í brennsluofni sé hann til staðar.  Nota skal gáma eða flutningatæki sem samþykkt hafa verið af heilbrigðisnefnd og héraðsdýralækni og eru lagarheld og lokuð eða með yfirbreiðslu.  Þar sem ekki er völ á brennsluofni skal úrgangi safnað saman og hann fluttur án tafar á urðunarstað og hann urðaður þannig að jarðlag sé a.m.k. einn metri.  Tryggja skal að mengun berist ekki í umhverfið.  Áður en slíkur úrgangur er urðaður skal úða hann með viðeigandi sótthreinsi.

Flutningatæki, yfirbreiðslur og gáma skal þvo vandlega með heitu vatni og sótthreinsa að lokinni hverri ferð.

 

4. gr.

Hættulegur úrgangur.

a)    Hræ af búfé sem er sjálfdautt eða hefur verið lógað og ekki ætlað til manneldis, þar með talin dauðfædd dýr og fóstur slíkra dýra.

b)   Hræ og úrgangur frá öðrum dýrum sem yfirdýralæknir telur að meðhöndla skuli sem hættulegan úrgang.

c)    Dýr sem felld eru vegna sóttvarna samkvæmt opinberum fyrirmælum, sbr. þó 3. gr.

d)   Allir hlutar sláturdýra sem dæmast óhæfir til manneldis og eru með merki um alvarlega sjúkdóma sem geta borist í fólk eða dýr.

e)    Sláturafurðir sem hafa spillst og geta verið hættulegar til manneldis.

f)    Sláturafurðir erlendar og innlendar sem hafnað er við innflutningseftirlit.

g)    Dýr sem hafa drepist í flutningi.

h)    Sláturafurðir með aðskotaefni og lyfjaleifar.

i)     Eldisfiskur með einkenni smitsjúkdóma.

j)    Annar hættulegur úrgangur að mati héraðsdýralæknis.

 

5. gr.

Hættulítill úrgangur.

a)    Allir hlutar heilbrigðra sláturdýra, þar með talið blóð og fóstur, en eru ekki ætlaðir til neyslu af viðskiptaástæðum.

b)   Allir hlutar sláturdýra sem dæmast óhæfir til manneldis, en eru ekki með merki um alvarlega sjúkdóma sem borist geta í fólk eða dýr.

c)    Klaufir, horn, svínaburstir og fiður af heilbrigðum dýrum sem slátrað er í sláturhúsi.

d)   Matarleifar og matarúrgangur, þar með talin bein og annar úrgangur frá kjötvinnslum.

e)    Annar hættulítill úrgangur að mati héraðsdýralæknis.

 

6. gr.

Meðferð og vinnsla úrgangs.

Meðhöndlun og vinnsla úrgangs skal vera í samræmi við ákvæði reglugerða er varða úrgang og reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Auk þess skulu þeir sem meðhöndla, geyma eða flytja hræ og sláturúrgang til brennslu eða urðunar eða ætla að nýta það til fóðurgerðar afla sér heimildar yfirdýralæknis áður en starfsemin hefst í samræmi við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Sláturúrgangi skal sláturleyfishafi safna saman og dýraúrgangi skal eigandi safna saman og flytja hann eins fljótt og kostur er á söfnunarstað.  Þar sem ekki er völ á slíku skal úrgangurinn fluttur án tafar til brennslu í brennsluofni eða til urðunar á urðunarstað.  Leiki vafi á því hver eigandi úrgangs er ber að tilkynna það heilbrigðiseftirliti sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Úrgang skal flytja í gámum eða flutningatækjum sem samþykkt hafa verið af heilbrigðisnefnd og héraðsdýralækni, eru lagarheld og lokuð eða með yfirbreiðslu.

Flutningatæki, yfirbreiðslur og gáma skal þvo vandlega með heitu vatni að lokinni hverri ferð og sótthreinsa reglulega.

 

7. gr.

Rekstrarleyfi.

Sá sem hyggst starfrækja eða byggja kjötmjölsverksmiðju skal sækja um rekstrarleyfi til landbúnaðarráðuneytisins áður en starfsemin hefst, svo og vegna allra meiriháttar breytinga á fyrirkomulagi, búnaði og rekstri eða þegar eigendaskipti verða. Leggja skal fram teikningar af byggingum ásamt lýsingu á búnaði, fyrirhuguðum afköstum og öðru sem ráðuneytið telur nauðsynlegt.  Áður en sótt er um rekstrarleyfi til landbúnaðarráðuneytis skal liggja fyrir starfsleyfi heilbrigðisnefndar samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Landbúnaðarráðherra veitir rekstrarleyfi fyrir kjötmjölsverksmiðjur að fenginni umsögn yfirdýralæknis.

Endurmeta skal rekstrarleyfi kjötmjölsverksmiðju á fimm ára fresti.

 

8. gr.

Nýting afurða.

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju þar sem unnið er bæði úr hættulegum og hættulitlum úrgangi má aldrei nota í fóður fyrir dýr sem ætluð eru til manneldis. Umbúðir þeirra afurða skal merkja greinilegri áletrun um að bannað sé að nota kjötmjölið fyrir dýr sem ætluð eru til manneldis eða gefa af sér afurðir til manneldis.

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju þar sem unnið er eingöngu úr hættulitlum úrgangi má nota í fóður fyrir einmaga dýr en aldrei fyrir jórturdýr.  Umbúðir þeirra afurða skal merkja greinilegri áletrun um að bannað sé að nota kjötmjölið fyrir jórturdýr.  

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju sem unnar eru úr hættulitlum úrgangi má einnig nota í áburð.

Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju sem notaðar eru í fóður verða að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 650/1994 um eftirlit með fóðri en ákvæði reglugerðar nr. 398/1995 um áburð og jarðvegsbætandi efni ef nota á þær sem áburð.

Kjötmjölsverksmiðja sem vinnur bæði úr hættulegum og hættulitlum úrgangi en vill skipta yfir í það að framleiða nytja- eða söluvörur einungis úr hættulitlum úrgangi verður að fá vottorð viðkomandi héraðsdýralæknis þess efnis að sótthreinsun tækjabúnaðar og húsnæðis kjötmjölsverksmiðjunnar hafi farið fram áður en hægt er að hefja vinnslu að nýju.

 

9. gr.

Eftirlit.

Héraðsdýralæknir annast eftirlit með kjötmjölsverksmiðjum sem lúta reglum er birtast í viðauka með reglugerð þessari.  Uppfylli kjötmjölsverksmiðja ekki lengur þær kröfur skal héraðsdýralæknir, eins fljótt og verða má, skýra forráðamönnum fyrirtækisins skriflega frá því og jafnframt skal hann tilkynna það yfirdýralækni sem gerir skriflega kröfur um úrbætur og setur hæfilegan frest.  Yfirdýralæknir getur stöðvað starfsemina tímabundið ef um alvarlega ágalla er að ræða.  Hann tilkynnir þá jafnframt ráðherra að reksturinn hafi verið stöðvaður tímabundið eða leggur til að reksturinn verði stöðvaður uns úr hefur verið bætt.  Verði ágreiningur um ákvörðun yfirdýralæknis sker landbúnaðarráðherra úr honum.  Rekstrarleyfið fellur niður hafi eigi verið bætt úr göllum að loknum fresti.  

Heilbrigðisnefnd ber ábyrgð á mengunarvarnaeftirliti með kjötmjölsverksmiðjum og framkvæmd þess í samræmi við ákvæði reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit.

 

10. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar og fyrirmælum settum samkvæmt henni varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar. 

Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

 

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, og að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið hvað varðar meðferð úrgangs, útgáfu starfsleyfa og eftirlit heilbrigðisnefnda og Hollustuverndar ríkisins. Reglugerðin er sett með hliðsjón af tilskipun 90/667/ EBE.

 

I.

Bráðabirgðaákvæði.

Endurskoða skal reglugerð þessa fyrir árslok 2002.

 

Landbúnaðarráðuneytinu, 23. ágúst 2000.

 

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

 

 

VIÐAUKI I

 

I. KAFLI

Reglur um kjötmjölsverksmiðjur.

 

1.    Byggingar og búnaður skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

a.    Kjötmjölsverksmiðjur skulu staðsettar utan þéttbýlis. Næsta umhverfi skal vera þurrt og aðkeyrslubrautir með varanlegu slitlagi. Kjötmjölsverksmiðjulóð skal stöðugt haldið þurri og þrifalegri.  Aldrei skal neitt skilið eftir utandyra, sem ætilegt er fyrir hunda, ketti eða önnur dýr.  Lóðin skal girt gripheldri girðingu og svo um búið að auðvelt sé að fylgjast með allri umferð að og frá verksmiðjunni.  Öllu óviðkomandi fólki skal banna aðgang að lóðinni eða byggingum.  Búfé, hundum og köttum skal haldið frá lóðinni og byggingar skulu varðar fyrir hvers kyns meindýrum og skordýrum.

b.    Kjötmjölsverksmiðju skal vera skipt í óhreina og hreina deild.  Deildirnar skulu vera tryggilega aðskildar. Í óhreinu deildinni skal vera yfirbyggð aðstaða til móttöku á úrgangi. Móttakan skal vera þannig gerð að fullkomin þrif og sótthreinsun sé sem auðveldust. Gólf skulu halla að niðurföllum, þar sem það á við, svo hvergi safnist fyrir eða standi uppi vökvi.

c.    Í kjötmjölsverksmiðju skal vera viðeigandi búnaður til að framleiða heitt vatn og gufu eins og þörf er á til starfseminnar.

d.    Í óhreinu deildinni skal vera vélbúnaður til að smækka hráefni og búnaður til að flytja hráefnið yfir í framleiðsludeildina.

e.    Móttakan fyrir hráefni skal vera tryggilega aðskilin frá þeim hluta kjötmjölsverksmiðju, þar sem vinnsla á hitameðhöndluðum afurðum fer fram og þar sem fullunnar afurðir eru geymdar.  Afurðir úr kjötmjölsverksmiðju skulu geymdar í sérstöku rými sem er aðskilið frá vinnslusvæði og frá móttökusvæði fyrir úrgang.

2.    Við hitun á hráefni skal vera:

a.    Búnaður til að mæla hitastig í hráefni og þrýsting á mikilvægum eftirlitsstöðum.

b.    Sjálfvirkur búnaður til skráningar á mælingum.

c.    Öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir ónóga hitun.

3.    Tiltækur skal vera viðeigandi búnaður sem nota skal til að sótthreinsa hjólbarða á flutningatækjum sem flytja úrgang áður en þau fara frá kjötmjölsverksmiðju.

4.    Frárennsli frá kjötmjölsverksmiðju skal vera þannig frágengið að það uppfylli kröfur í starfsleyfi og í reglugerð um fráveitur og skólp og frárennslisvatn skal meðhöndla þannig að smitefni berist ekki út í umhverfið.

5.    Kjötmjölsverksmiðja skal hafa rannsóknastofu eða samning við rannsóknastofu sem getur gert allar nauðsynlegar mælingar, samkvæmt V. kafla þessa viðauka.

6.    Í kjötmjölsverksmiðju skal vera hæfilegur fjöldi salerna, búningsherbergja og hreinlætisaðstaða fyrir starfsfólk.

 

II. KAFLI

Hreinlætis- og umgengnisreglur í kjötmjölsverksmiðju.

 

1.    Starfsfólk skal bera sérstök hlífðarföt og skófatnað sem geymdur er í kjötmjölsverksmiðju. Starfsfólk má ekki fara á milli óhreinna og hreinna deilda nema skipta um hlífðarföt og skófatnað.  Tæki og verkfæri sem notuð eru við framleiðsluna og þrif má ekki fara með úr óhreinu deildinni yfir í hreinu deildina.  Hengja skal upp skriflegar umgengnisreglur á áberandi stöðum.

2.    Hráefni skal vinna eins fljótt og unnt er eftir móttöku og geyma á söfnunarstað uns allt hefur verið tekið til vinnslu.

3.    Gáma, ílát og flutningatæki á að hreinsa, þvo, strax eftir hverja losun á til þess ætluðum stað í kjötmjölsverksmiðju eða lóð hennar og sótthreinsa reglulega og skal tryggt að fullunnar afurðir mengist ekki.

4.    Frárennslisvatn frá óhreinu deildinni skal meðhöndla þannig að tryggt sé að smitefni berist ekki út í umhverfið.

5.    Við vinnslu í kjötmjölsverksmiðju skal uppfylla eftirfarandi atriði:

a.    Hita skal dýraúrgang í 133°C í 20 mínútur og skal þrýstingur vera þrjú bör/CM2.  Hráefni skal smækka fyrir hitameðhöndlun þannig að bitastærð sé mest 50 mm.

b.    Sjálfritandi hitamælir skal vera fyrir hendi til að fylgjast með hitameðhöndlun hráefnisins.

6.    Skrifleg áætlun um þrif og hreinlæti í kjötmjölsverksmiðju skal ávallt vera tiltæk.

7.    Kjötmjölsverksmiðju, byggingum, búnaði og umhverfi skal að staðaldri haldið hreinu og öllum tækjum og búnaði skal haldið í fullkomnu lagi. Mælitæki skulu sannreynd með reglulegu millibili.

8.    Meðferð og geymsla fullunninna afurða úr kjötmjölsverksmiðju skal vera þannig að tryggt sé að þær mengist ekki.

 

III. KAFLI

Innra eftirlit fyrirtækisins.

 

1.    Koma skal á og viðhalda innra eftirliti í kjötmjölsverksmiðju í samráði við embætti yfirdýralæknis samkvæmt aðferðafræði GÁMES-eftirlitskerfisins og skal í innra eftirlitinu a.m.k. tekið á eftirtöldum þáttum:

a.    Mati á aðfluttu hráefni sem skal m.a. taka til flokkunar á hráefni, geymsluhitastigs og ferskleika þess.

b.    Uppsetningu flæðirits fyrir vinnslurásir.

c.    Ákvörðun mikilvægra eftirlitsstaða.

d.    Tilgreiningu viðmiðunargilda, skilyrða eða staðla sem þarf að uppfylla á viðkomandi eftirlitsstað.

e.    Eftirliti á mikilvægum eftirlitsstöðum.

f.     Ákveðið verði til hvaða úrbóta skuli gripið þegar niðurstöður eftirlits sýna frávik frá settum mörkum.

g.    Smækkun hráefnis, hitastigi, þrýstingi og vinnslutíma.

h.    Framkvæmd reglna um kjötmjölsverksmiðjuna.

i.     Kerfi til að ætíð sé hægt að rekja hvenær afurðir kjötmjölsverksmiðju voru hitameðhöndlaðar.

j.     Meindýravörnum samkvæmt skriflegri áætlun.

k.    Skrá skal halda og láta liggja frammi yfir aðflutt magn hráefnis og flokkun þess í hættulegan og hættulítinn úrgang.  Einnig skrá yfir afurðir og flokkun þeirra og afrit af sölu afurða úr hættulegum úrgangi.

2.    Við öll meiriháttar frávik í mælingum skal:

a.    Tilkynna það tafarlaust til héraðsdýralæknis.

b.    Kanna orsakir þess sem úrskeiðis hefur farið.

3.    Tryggja skal að vafasamar afurðir úr kjötmjölsverksmiðju eða mengaðar fari ekki frá kjötmjölsverksmiðju fyrr en þær hafa verið endurunnar og rannsakaðar að því loknu.  Sé það ekki unnt þarf sérstakt leyfi til notkunar afurðanna.  Þær má þó aldrei nota til fóðrunar dýra.

 

IV. KAFLI

Eftirlit héraðsdýralækna.

 

1.    Héraðsdýralæknir hefur reglulegt eftirlit með kjötmjölsverksmiðjum.  Um innheimtu eftirlitsgjalds fer eftir gjaldskrá um eftirlits- og þjónustuverkefni dýralækna sem annast opinber eftirlitsstörf.  Héraðsdýralæknir hlutast til um að ákvæði þessarar reglugerðar séu uppfyllt.  Hann skal taka sýni til rannsóknar reglulega og fyrirvaralaust.  Auk þess skal hann gera aðrar athuganir sem hann telur nauðsynlegar.  Hann skal hvenær sem er eiga greiðan aðgang að öllum hlutum kjötmjölsverksmiðju, skráningum og niðurstöðum úr innra eftirliti kjötmjölsverksmiðju og fylgjast sérstaklega með:

a.    Almennu hreinlætisástandi í kjötmjölsverksmiðju, tækjabúnaði og vinnubrögðum og búnaði starfsfólks.

b.    Skilvirkni innra eftirlits kjötmjölsverksmiðju.

c.    Örveruástandi afurðanna eftir að vinnslu er lokið.

d.    Geymslu, flutningi og merkingu afurðanna.

 

V. KAFLI

Gæðaeftirlit með afurðum úr kjötmjölsverksmiðju.

 

1.    Strax eftir hitameðhöndlun skulu tekin sýni úr afurð úr kjötmjölsverksmiðju sem unnin hefur verið úr hættulegum úrgangi og skulu þau vera laus við hitaþolin dvalargró sjúkdómsframkallandi baktería (Clostridium perfringens á ekki að finnast í 1 g).

2.    Sýni tekin úr afurð kjötmjölsverksmiðju og í afurðageymslu hennar skulu uppfylla eftirfarandi lágmarksstaðla:

      Salmonella: Ekki til staðar í 25 g: n = 5, c = 0, m = 0, M = 0

      Enterobacteriaceae: n = 5, c = 2, m = 10, M = 3 x 102 í 1 g

þar sem:

n = fjöldi sýna,

m = viðmiðunarmörk varðandi fjölda baktería. Niðurstaða er viðunandi ef fjöldi baktería er m eða lægri í öllum sýnum,

M = efri mörk fyrir heildarfjölda baktería. Niðurstaða er ófullnægjandi ef fjöldi baktería í einu sýni eða fleirum er hærri eða jafnt og M,

c = fjöldi sýna með heildarbakteríufjölda á milli m og M.  Niðurstaðan telst viðunandi ef  fjöldi baktería er m eða lægri í öðrum sýnum.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica