Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

233/2011

Reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2011. - Brottfallin

1. gr.

Öllum fiskiskipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands, er heimilt að stunda veiðar á makríl í fiskveiðilandhelgi Íslands og á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar NEAFC, utan lögsögu ríkja, að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.

Makríl í færeyskri lögsögu er einungis heimilt að veiða sem meðafla við veiðar á norsk-íslenskri síld. Heildarmakrílafli íslenskra skipa í færeyskri lögsögu skal ekki fara yfir 1.300 lestir. Fiskistofa fylgist með afla þessum og tilkynnir ráðherra hvenær líklegt megi telja að aflanum verði náð og tilkynnir þá ráðherra frá hvaða tíma óheimilt er að veiða makríl sem meðafla innan færeyskrar lögsögu.

Útgerðir skipa sem falla undir 1.-4. tl. 1. mgr. 2. gr. og ætla að stunda veiðar á makríl skulu sækja um leyfi til Fiskistofu. Leyfi til makrílveiða skulu gefin út fyrir almanaksár en ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til makrílveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

Fari leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2011 yfir 154.825 lestir þar með talið 20.000 lestir á samningssvæði NEAFC, utan lögsögu ríkja, ákveður ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar.

2. gr.

Viðmiðun leyfilegs heildarafla skal ráðstafað með eftirfarandi hætti enda hafi viðkomandi skip stundað veiðar á makríl á árunum 2007, 2008 eða 2009 eða fyrirhugað er að það stundi veiðar skv 1., 2. eða 3. tl. 1. mgr. þessarar greinar og voru skráð miðað við gildistöku þessarar reglugerðar, á íslenska skipaskrá:

1.

2.000 lestum skal ráðstafað til skipa sem stunda makrílveiðar með línu eða handfærum.

2.

6.000 lestum skal ráðstafað til skipa sem ekki frysta afla um borð, enda hafi útgerðir þeirra sýnt fram á að aflinn verði unninn í landi í samræmi við ákvæði 3. gr. Við útgáfu veiðileyfis skal viðkomandi útgerð sýna fram á að til staðar sé gildandi samningur um vinnslu í landi eða jafngilda yfirlýsingu þegar um eigin vinnslu er að ræða.

Aflaheimildum þessum skal skipt á milli eftirfarandi stærðarflokka skipa:

a.

Skip 200 BT og yfir.

b.

Skip undir 200 BT.

Hvert skip sem fellur undir a. lið skal fá í sinn hlut X lestir af makríl. Hvert skip sem fellur undir b. lið skal fá í sinn hlut 0,20 sinnum X lestir af makríl. X skal fundið með eftirfarandi jöfnu:

aX + 0,20bX = 6.000 lestir (a er fjöldi skipa sem fellur undir tl. a., b er fjöldi skipa sem fellur undir tl. b). X skal þó aldrei vera hærra en 1.000 lestir.

3.

34.825 lestum skal ráðstafað til vinnsluskipa í hlutfalli við heildarafkastavísitölu skipa. Við úthlutun skal miða við að vinnsluskip sem hefur heildarafkastavísitölu yfir 85 tonn á sólarhring fái úthlutað tvöfalt meira magni af makríl, en skip sem eru undir þeirri heildarafkastavísitölu.

Heildarafkastavísitala skal mæld með eftirfarandi hætti:

A.

Fyrir plötufrysta:

Afkastavísitala (Vpi) hvers frystis skal metin samkvæmt, Vpi = 0,46 * L * B * n * k, Þar sem L og B eru lengd og breidd kæliplatna og n er fjöldi "stöðva" í frystinum, k er stuðull sem skal hafa gildið 1,0 fyrir lárétta frysta og 1,2 fyrir lóðrétta frysta.

B.

Fyrir blástursfrysta:

Afkastavísitala (Vbj) hvers blástursfrystis skal metin samkvæmt: Vbj = Staðfest afköst frá framleiðanda frystis í tonnum á sólarhring við heilfrystingu á makríl. Miða skal við -35°C eimingarhitastig kælimiðils í eimum frystisins,

Sé skip búið sjálfvirkum frystum eða búnaði til forkælingar afla með kældum sjó eða krapa má margfalda heildarafkastavísitöluna með 1,1.

Heildarafkastavísitala skipsins er samtala afkastavísitalna einstakra frysta.

Til viðmiðunar skal miða við að afköst kælipressu sé a.m.k. 3,7 kW á hvert tonn á sólarhring miðað við heildarafkastatölu frysta.

Telji útgerð að skip í hennar eigu hafi heildarafkastavísitölu yfir 85 tonn á sólarhring skal hún skila inn gögnum þar að lútandi til Fiskistofu. Umsókn um úthlutun samkvæmt þessari málsgrein skal fylgja staðfesting skipstjóra og yfirvélstjóra viðkomandi skips um að það uppfylli þessi skilyrði um búnað til frystingar, sbr. eyðublað í viðauka 1. Fiskistofa skal fara yfir upplýsingar um heildarafkastavísitölu einstakra skipa og meta hvert skip miðað við þær upplýsingar og ráðstafa magni í samræmi við það.

4.

112.000 lestum skal ráðstafað til skipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009 og skal skipt hlutfallslega miðað við aflareynslu þeirra á árunum 2007, 2008 til og með 11. júlí 2009, miðað við landaðan afla, að undanskildum sérstökum heimildum til veiða í lögsögu Færeyja. Hafi skip skv. þessum tl., sem aflareynslan er bundin við horfið úr rekstri er síðasta eiganda skipsins áður en það hvarf úr rekstri heimilt að ákveða á hvaða skip í hans eigu aflaheimildum er ráðstafað.Veiðileyfi skipa, skv. 1. tl. 1. mgr. þessarar greinar falla úr gildi þegar viðmiðunarafla hefur verið náð en þó eigi síðar en 1. september 2011. Veiðileyfi skipa skv. 2.-4. tl. 1. mgr. þessarar greinar fellur úr gildi þann 5. ágúst 2011 hafi skip ekki veitt a.m.k 20% af leyfilegum hámarksafla sínum. Sama gildir ef skip sem leyfi hefur til makrílveiða, hefur ekki landað a.m.k 50% af leyfilegum makrílafla sínum þann 20. ágúst 2011. Ónýttum heimildum skipa skal ráðstafa til annarra skipa í sama flokki. Þó er ráðherra heimilt að ráðstafa ónýttum heimildum milli flokka, megi ætla að skip í viðkomandi flokki muni ekki geta veitt það aflamagn sem tilgreint er í hverjum flokki. Fiskistofa skal fresta niðurfellingu leyfis til 20. ágúst 2011 í þeim tilvikum sem skip hefur með sannanlegum hætti ekki getað hafið veiðar vegna bilana. Beiðni um frestun skal hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 1. ágúst 2011.

3. gr.

Skylt er að ráðstafa mánaðarlega 70% af makrílafla einstakra skipa til vinnslu.

Fiskistofa skal fylgjast með að skilyrði um vinnsluskyldu sé uppfyllt hið minnsta einu sinni í mánuði eftir að skip hefur veiðar.

4. gr.

Framsal aflaheimilda er óheimilt.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er eftirfarandi flutningur aflaheimilda á milli skipa heimill:

  1. Aflaheimildir sem úthlutað hefur verið á grundvelli 2. og 3. tl. 1. mgr. 2. gr., er heimilt að flytja á milli skipa í eigu sömu útgerðar en þó ekki fyrr en skip hefur náð að afla 40% af aflaheimildum sínum í makríl.
  2. Heimilt er að flytja aflaheimildir milli skipa sem falla undir 4. tl. 1. mgr. 2. gr. enda eru þau í eigu sömu útgerðar.
  3. Vegna óhjákvæmilegs meðafla er útgerðum skipa skv. 2.-4. t1. 1. mgr. 2. gr. heimilt að skipta á aflaheimildum í makríl og aflaheimildum í öðrum uppsjávartegundum, þó aldrei meira en 15% af aflaheimildum skips í makríl.
  4. Þá er heimilt að flytja allt að 10% af ónýttum heimildum fiskiskips frá árinu 2011 til ársins 2012. Hverju skipi er heimilt að veiða allt að 10% umfram aflaheimildir í makríl á árinu 2011 og dregst sá umframafli frá aflaheimildum þess á árinu 2012.

Útgerðum er óheimilt að flytja aflaheimildir á milli skipa í mismunandi flokkum sbr. 2.-4. tl. 1. mgr. 2. gr.

5. gr.

Makrílveiðar í flottroll eru eingöngu heimilar utan 200 m dýptarlínu en þó hvergi nær landi en 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu. Þá eru makrílveiðar í flottroll bannaðar á milli 65°30´N og 68°30´N milli 27°V og 17°V. Sé makríll veiddur í flottroll eða nót, skulu tekin sýni úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð og skal skrá sýnatökuna í afladagbók skipsins. Í hverju sýni skulu vera a.m.k. 50 stk. af makríl, sem valin eru af handahófi. Gæta skal þess að sýni sé tekið í öllum tilkynningaskyldureitum þar sem skipið stundar veiðar. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnuninni, þegar að lokinni veiðiferð. Þá er heimilt að áskilja að flotvörpuveiðar á makríl skuli aðeins heimilaðar á tilteknu svæði ef varpan er búin meðaflaskilju. Makrílveiðar í net eru óheimilar.

6. gr.

Aðeins er þeim íslenskum fiskiskipum heimilt að stunda makrílveiðar sem búin eru fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti. Óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

7. gr.

Um tilkynningar varðandi makrílveiðar á alþjóðlegu hafsvæði gilda ákvæði reglugerðar nr. 1221/2008, um veiðieftirlit á samningssvæði Norð­austur­atlants­hafs­fisk­veiði­nefndar­innar (NEAFC) og taka þær tilkynningar einnig til veiða innan íslensku lögsögunnar. Ákvæði þessarar greinar á þó ekki við sé makríll veiddur á línu eða handfæri innan íslenskrar lögsögu. Auk þess skal senda aflatilkynningu daglega til eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, stundi skip veiðar í færeyskri lögsögu.

8. gr.

Makrílafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa makrílafla og makrílafurðum í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Jafnframt er heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtuðum makríl um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé tryggt að skráning og vigtun afla sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar makríls utan íslenskra hafna til Fiskistofu, enda skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og áætlað magn makríls. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda makrílsins eða staðfest afrit af vigtarnótu, liggi það fyrir.

Um vigtun á makríl gilda ákvæði reglugerðar nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum og ákvæði reglugerðar nr. 246/2008, um vigtun og skráningu meðafla á uppsjávarfiski, með síðari breytingum. Sé makríll veiddur á línu eða handfæri skal afla haldið aðgreindum um borð í veiðiskipi eftir tegundum. Verði slíku ekki við komið vegna smæðar báts skal afli aðgreindur eftir tegundum við löndun.

Landi skip frystum afurðum utan Íslands skal tilkynna um það í samræmi við ákvæði 5. kafla reglna Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) um fiskveiðieftirlit og framkvæmd þess.

Þegar makríll er reiknaður til þorskígilda skal miðað við verðmætastuðulinn 0,14.

9. gr.

Fiskistofa skal hafa eftirlit með því að ákvæði þessarar reglugerðar séu uppfyllt á hverjum tíma.

10. gr.

Brot á reglugerð þessari og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út með stoð í henni varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151, 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

Jafnframt er Fiskistofu heimilt að svipta skip leyfi til makrílveiða vegna brota á reglugerð þessari.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 987, 17. desember 2010, um sama efni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. mars 2011.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Jóhann Guðmundsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica