Samgönguráðuneyti

528/2002

Reglugerð um fólksflutninga á landi. - Brottfallin

528/2002

REGLUGERÐ
um fólksflutninga á landi.

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr

Reglugerð þessi gildir um fólksflutninga á landi í atvinnuskyni með bifreiðum sem rúma níu farþega eða fleiri. Reglugerðin gildir einnig um akstur sérleyfisbifreiða og skólabifreiða, sbr. 8. gr. laga nr. 73/2001, þegar notaðar eru bifreiðar sem rúma þrjá til átta farþega og um akstur sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu, sbr. 4. mgr. 6. gr. og 10. gr.. laga nr. 73/2001.

Reglugerð þessi gildir ekki um akstur í eigin þágu. Bifreið, sem notuð er til fólksflutninga samkvæmt reglugerð þessari, skal uppfylla gæða- og tæknikröfur Vegagerðarinnar.


2. gr.
Markmið

Markmið reglugerðar þessarar er að skapa almenn skilyrði fyrir starfsgrein fólksflutninga á landi þar sem m.a. er tekið mið af reglum sem innleiddar hafa verið vegna aðildar Íslands að samningnum um hið evrópska efnahagssvæði.

Reglugerð þessi setur einnig fram skilyrði við veitingu styrkja til reksturs sérleyfa til þess að unnt sé að uppfylla markmið laga nr. 73/2001, um almenningssamgöngur í landinu. Taka skal mið af þörfum notenda þjónustunnar, m.a. fyrir gæði, verð, öryggi og ferðatíðni.


II. KAFLI
Orðskýringar.
3. gr.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

a. Almennt rekstrarleyfi: Leyfi skv. 4. gr. sem allir sem stunda fólksflutninga, vöruflutninga og/eða efnisflutninga gegn endurgjaldi þurfa að hafa.
b. Sérleyfi: Leyfi sem veitt er til reglubundinna fólksflutninga og er aðgangur annarra takmarkaður á sérleyfisleið.
c. Einkaleyfi: Sérleyfi sveitarfélags til reglubundinna fólksflutninga innan lögsagnarumdæmis þess.
d. Reglubundnir fólksflutningar: Fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram birtri áætlun þar sem farþegar eru teknir upp og settir af á leiðinni. Þjónustan er öllum opin, þ.e. almenningssamgöngur.
e. Sérstakir reglubundnir fólksflutningar: Reglubundnir flutningar á ákveðnum hópi farþega og aðrir farþegar eru útilokaðir.
f. Óreglubundnir fólksflutningar: Aðrir fólksflutningar en þeir sem tilgreindir eru í d- og e-lið. Með óreglubundnum flutningum er að jafnaði átt við flutning á hópi fólks sem orðið hefur til fyrir frumkvæði viðskiptavinar eða leyfishafans sjálfs. Slíkar ferðir geta verið farnar með reglulegu millibili án þess að teljast reglubundnir flutningar.
g. Fólksflutningar í atvinnuskyni: Flutningur fólks gegn endurgjaldi þar sem farþeginn er ekki tengdur rekstri fyrirtækisins sem sér um flutninginn.
h. Fólksflutningar í eigin þágu: Flutningur fólks sem ekki er innheimt gjald fyrir. Sem dæmi má nefna flutning starfsfólks til og frá vinnustað eða á milli vinnustaða ef fólksflutningabifreiðin er í eigu vinnuveitanda og ökumaður er starfsmaður hans. Einnig flutningur sjúklinga og vistmanna heilbrigðisstofnana, enda sé bifreiðin í eigu stofnunarinnar og ökumaður starfsmaður hennar.
Ekki þarf annað leyfi til sérstakra reglubundinna flutninga en um getur í 4. gr. laga nr. 73/2001.


III. KAFLI
Leyfisveitingar.
4. gr.
Útgáfa leyfa.

Vegagerðin hefur með höndum útgáfu leyfa og umsjón með eftirliti samkvæmt reglugerð þessari. Við útgáfu leyfa er henni heimilt að leita umsagnar fulltrúa hagsmunaaðila er að greininni standa.

Leyfi Vegagerðarinnar þarf til að hafa með höndum þá fólksflutninga sem þessi reglugerð nær til. Leyfið skal gilda í allt að fimm ár og vera óframseljanlegt og nýting þess aðeins heimil einum rekstraraðila. Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma óski umsækjandi eftir því.

Ákvarðanir Vegagerðarinnar eru kæranlegar til samgönguráðuneytisins samkvæmt stjórnsýslulögum. Kærufrestur er 3 mánuðir.


5. gr.
Skilyrði.

Þeir einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði geta fengið rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga á landi:

1. Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Fullnægjandi fjárhagsstaða merkir að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Fyrirtæki verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 850.000 fyrir fyrsta ökutæki og kr. 450.000 á hvert ökutæki umfram það. Til að meta fjárhagsstöðu skal Vegagerðin taka mið af þeim gögnum sem tilgreind eru í 6. gr. reglugerðar þessarar.
2. Hafa fullnægjandi starfshæfni. Til að uppfylla skilyrði um starfshæfni skal umsækjandi hafa lokið námskeiðum á vegum Vegagerðarinnar, sbr. 7. gr. Prófuð skal þekking umsækjanda á þeim sviðum sem greinina varðar. Vegna þessa skal Vegagerðin útbúa námsskrá að höfðu samráði við hagsmunaaðila sem að greininni standa og í samræmi við 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar. Þátttökugjald skal tilgreint í námsskránni. Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði ef umsækjandi getur sýnt fram á að hafa lokið prófi í einhverri þeirra greina sem um getur í námskrá.
3. Hafa ekki verið dæmdur til refsivistar né framið alvarleg eða ítrekuð brot á reglum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.

Framangreindum skilyrðum verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum.

Þrátt fyrir ákvæði 2. tl. 1. mgr. getur Vegagerðin heimilað umsækjanda að starfa sem flutningsaðili á landi að því tilskildu að hann tilkynni um tilnefningu annars aðila sem fullnægir kröfum 2. og 3. tl. 1. mgr. enda sjái hinn síðarnefndi um daglegan rekstur fyrirtækisins.


6. gr.
Framlagning gagna.

Þegar sótt er um rekstrarleyfi skal umsækjandi leggja fram eftirtalin gögn:

a) Áritaðan ársreikning eða staðfest skattframtal,
b) rekstraráætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár. Vegagerðin getur óskað eftir staðfestingu endurskoðanda um að hún sé raunhæf miðað við gefnar forsendur,
c) skriflega yfirlýsingu frá innheimtuaðila ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að umsækjandi sé í skilum með opinber gjöld,
d) staðfestingu á starfshæfni,
e) sakavottorð,
f) ljósrit af skráningarskírteini bifreiða,
g) afrit af síðustu leyfisskoðun bifreiða.

Vegagerðin leggur mat á forsendur áætlunarinnar og þau gögn sem umsókn fylgja og er henni heimilt að óska eftir frekari gögnum gerist þess þörf og vísa frá þeim umsóknum sem ekki hafa fullnægjandi gögn til stuðnings þeim.


7. gr.
Námskeið.

Námskeið í umsjón Vegagerðarinnar verða eftirfarandi:

a. Grunnnámskeið fyrir alla þá sem sækja um rekstrarleyfi í fyrsta sinn skv. reglugerð þessari.
b. Námskeið ætlað leyfishöfum eða forsvarsmönnum fyrirtækja í fólksflutningum, sem þeim er skylt að sækja til viðbótar við námskeið skv. a-lið, fari velta fyrirtækisins að jafnaði yfir 20 milljónir á ári.

Námskeið samkvæmt ákvæði þessu eru í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 462/1998, sbr. tilskipun nr. 96/26/EB og tilskipun nr. 98/76/EB (Stj.tíð EB, 14.10.98), um aðgang að starfsgrein farmflytjanda á vegum og starfsgrein aðila sem stunda farþegaflutninga á vegum og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem á að auðvelda þessum aðilum að neyta staðfesturéttarins í innanlands- og millilandaflutningum.


8. gr.
Upplýsingar um leyfishafa.

Vegagerðinni er heimilt að birta lista á heimasíðu sinni yfir leyfishafa og þær bifreiðar sem leyfishafar nota og uppfylla gæða- og tæknikröfur, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, til upplýsinga fyrir neytendur.


IV. KAFLI
Reglubundnir fólksflutningar.
9. gr.
Sérleyfi.

Vegagerðin getur takmarkað fjölda aðila í reglubundnum fólksflutningum á einstökum leiðum með því að veita sérleyfi á þeim leiðum. Við veitingu sérleyfa skal gerður sérstakur þjónustusamningur. Sérleyfi er leyfi til reglubundinna fólksflutninga og er það veitt samkvæmt 6. gr. laga nr. 73/2001 enda hafi umsækjandi þegar leyfi samkvæmt 4. gr. sömu laga. Veita má fólksflutningafyrirtæki fleiri en eitt sérleyfi. Öðrum en sérleyfishafa er óheimilt að skipuleggja reglubundna flutninga fólks á sömu leið.


10. gr.
Endurúthlutun sérleyfa.

Handhafar sérleyfa samkvæmt eldri lögum skulu að jafnaði sitja fyrir um endurúthlutun sérleyfa á viðkomandi sérleyfisleið fram til 1. ágúst 2005, en endurúthlutuð leyfi skulu ekki gilda lengur en til þess tíma. Skal eftir það eingöngu úthlutað sérleyfi að undangengnu opinberu útboði. Útboð vegna nýrrar úthlutunar sérleyfa skal fara fram með a.m.k. fimm mánaða fyrirvara. Vegagerðin skal leggja fram tillögu um gildandi sérleyfi hverju sinni til staðfestingar ráðherra.


11. gr.
Þjónustusamningar.

Gera skal þjónustusamninga við þau fólksflutningafyrirtæki sem ætlunin er að veita sérleyfi. Markmið þeirra er að tryggja almenningssamgöngur, sbr. 2. gr. Við samningsgerð skal tryggja gegnsæi, réttlæti og jafnræði. Í þjónustusamningi skal kveðið á um réttindi og skyldur aðila sem tilgreind eru í 12. gr. Greiðslur styrkja skv. samningum taka mið af áætluðum kostnaði við rekstur þjónustunnar, sem gerð er krafa um í samningi, að frátöldum áætluðum tekjum sem af þjónustunni leiðir.

Heimilt er að taka mið af eftirtöldum atriðum við útreikning á kostnaði þjónustuaðila:

- beinum rekstrarkostnaði við að uppfylla kvaðir þjónustusamnings,
- hlutfallslegri þátttöku í föstum kostnaði þ.m.t. afskriftum og fjármagnskostnaði fyrirtækisins vegna þjónustunnar að teknu tilliti til eðlilegs eiginfjárhlutfalls,
- eðlilegum hagnaði eigin fjár,
- tekjumissi vegna kvaða samnings.

Þá skal taka tillit til eftirfarandi atriða við útreikning á tekjum þjónustuaðila:

- tekna vegna far- og farmgjalda og vegna starfsemi sem tengist beint þjónustunni, t.d. af auglýsingum og veitingasölu,
- lækkunar á kostnaði sem kemur til vegna þjónustunnar, t.d. vegna afslátta og annarra styrkja.

Þegar um er að ræða bætur vegna kvaða um gjaldskrá sem hefur áhrif á flestar eða allar ferðir, skulu bætur greiddar fyrir hverja ferð og jafnframt greiddar öllum sérleyfishöfum sem bjóða sambærilega þjónustu. Við útreikning bóta skal taka mið af meðaltalsáhrifum á þá þjónustuaðila sem verða fyrir fjárhagstjóni.

Samningsfjárhæð skal taka mið af því að hagkvæmni sé gætt í rekstri, skilvirk stjórnun sé fyrir hendi með fullnægjandi þjónustu. Heimilt er að hafa ákvæði um útreikning bóta vegna sérstakra aðstæðna sem upp kunna að koma og þarf að tilgreina sérstaklega í samningi. Upphæð bóta skal vera ákveðin fyrir allt tímabilið.

Einungis má styrkja þjónustu ef viðkomandi þjónustuaðili, út frá viðskiptahagsmunum, myndi ekki uppfylla kvaðir samnings án bóta.

Við samningsgerð skulu aðilar leggja fram öll þau gögn sem nauðsynleg eru til að tryggja gegnsæi og sanngjarna samningsupphæð, þ.m.t. staðfestar upplýsingar um rekstur, farþegafjölda og aðra flutninga.

Takist slíkur samningur ekki milli aðila skal Vegagerðin efna til útboðs, eftir atvikum í samstarfi við aðra aðila sem stunda fólksflutninga, svo sem skólaakstur. Vegagerðin getur, séu fyrir því veigamikil rök, efnt til útboðs án undangenginnar tilraunar til þjónustusamnings fyrir 1. ágúst 2005.


12. gr.
Réttindi og skyldur.

Í þjónustusamningi er heimilt að kveða á um eftirfarandi atriði:

- Ferðatíðni á sérleyfisleið; áreiðanleika þjónustu.
- Ferðaleið þ.m.t. ákvæði um miðstöðvar.
- Viðkomustaði.
- Gjaldskrá og farmiðakerfi.
- Stærðarkröfur til bifreiða sem skal nota við aksturinn.
- Gildistíma samnings.
- Uppsagnarákvæði samnings.
- Greiðslur.
- Upplýsingaskyldu.
- Umhverfisstuðla, t.d. orkunýtingu, lágmörkun mengunar og gróðurhúsalofttegunda.
- Öryggiskröfur.
- Réttindi farþega.
- Skyldu til að leggja til aukabifreiðar til aksturs ef nauðsyn krefur.
- Aðgengi fatlaðra.
- Aðgengi notenda og þarfir notenda í dreifbýli.
- Tengingar við aðrar samgöngur (flug, skip, aðrar áætlunarbifreiðir) þ.m.t. samgöngumiðstöðvar.
- Eftirlitsákvæði um framkvæmd samnings.
- Vanefndarákvæði og úrræði stjórnvalda til þess að halda uppi almenningssamgöngum á landi.
- Ákvæði um endurskoðun samnings.


13. gr.
Upplýsingaskylda.

Sérleyfishafi skal veita yfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar ef þörf krefur vegna eftirlits og mats á frammistöðu hans samkvæmt þjónustusamningi. Upplýsingarnar geta verið t.d. um gjaldtöku, fjölda farþega, kvartanir og vandamál eða atvik tengd öryggi þjónustunnar.


14. gr.
Aðskilin starfsemi.

Gert skal að skilyrði fyrir þjónustusamningi að fólksflutningafyrirtækið reki starfsemina samkvæmt þjónustusamningnum bókhaldslega aðskilda frá annarri starfsemi, þannig að styrkur samkvæmt samningnum greiði ekki niður aðra starfsemi sérleyfishafans.


15. gr.
Farangur og farmiðar.

Í þjónustusamningi skal kveðið á um heimild farþega til að hafa með sér, án sérstakrar greiðslu, farangur allt að 20 kg að þyngd.

Sérleyfishafi skal afhenda farþega löglega kvittun fyrir greiddu fargjaldi. Vegagerðinni er heimilt að skylda sérleyfishafa til að nota sérstakar farmiðavélar, þ.e. tölvubúnað sem heldur utan um sölu farmiða, prentar út farmiðakvittanir og geymir upplýsingar sem eru aðgengilegar Vegagerðinni.


16. gr.
Útboð.

Við gerð útboðs skal miða við lög um framkvæmd útboða hjá ríkinu. Útboðsskilmálar skulu efnislega taka mið af sömu skilyrðum og þjónustusamningar sbr. 11.-15. gr. Útboðstími skal vera sex ár með möguleika á framlengingu um tvö ár. Vegagerðin getur, séu fyrir því veigamikil rök, haft þennan útboðstíma styttri.


17. gr.
Einkaleyfi.

Vegagerðin getur veitt sveitarfélögum eða byggðasamlögum einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum innan sveitarfélags. Slík leyfi eru ótímabundin.

Einkaleyfishafi getur, að undangengnu útboði, falið öðrum tímabundið að annast almenningssamgöngur með bifreiðum samkvæmt einkaleyfi.


V. KAFLI
Almenn ákvæði.
18. gr.
Leyfishafar.

Leyfi má veita einstaklingum, hlutafélögum, einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða byggðasamlögum enda uppfylli þau skilyrði um fullnægjandi fjárhagsstöðu. Hjá lögaðila skal starfa forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum og uppfylla skilyrði 2. og 3. tl. 1. mgr. 5. gr.

Látist leyfishafi eða forsvarsmaður leyfishafa eða verði svo líkamlega eða andlega vanhæfur að hann geti ekki lengur gegnt starfi sínu er heimilt að reka fólksflutningafyrirtækið tímabundið, að hámarki í eitt ár. Tilnefna skal forsvarsmann í slíku tilviki og tilkynna til Vegagerðarinnar.


19. gr.
Réttindi, umgengni og merking.

Leyfishafar skulu gæta þess að bifreiðarstjórar þeirra hafi tilskilin ökuréttindi og séu að öðru leyti til þess fallnir að starfa við fólksflutninga. Bifreiðarstjóri skal bera auðkenni frá leyfishafa sem sýna að hann sé starfsmaður hans.

Leyfishafar, bifreiðastjórar þeirra og afgreiðslumenn skulu gæta þess að sýna farþegum lipurð og kurteisi í afgreiðslu og allri umgengni. Halda skal bifreiðum þrifalegum að utan sem innan eftir því sem við verður komið.

Við leyfisskoðun hópferðabifreiðar fá leyfishafar rúðumerki í framrúðu bifreiðar. Leyfishafi skal hafa afrit leyfis í fólksflutningabifreiðum sínum.


20. gr.
Akstur sérútbúinna bifreiða.

Vegagerðin skal veita leyfi til notkunar sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé eingöngu notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn og að umsækjandi hafi leyfi skv. lögum nr. 73/2001. Leyfi samkvæmt þessari grein er ekki veitt á hverja einstaka bifreið heldur einungis á rekstraraðila. Hann skal þó merkja þær bifreiðar sem hann notar til akstursins. Leyfi þetta skal í fyrsta sinn gilda í eitt ár en síðan í fimm ár í senn og vera óframseljanlegt.


21. gr.
Eftirlit og leyfisgjöld.

Greiða skal fyrir útgáfu leyfa:

1. Fyrir almennt rekstrarleyfi til að stunda fólksflutninga skal greiða 3.000 kr. árlegt gjald. Enn fremur skal árlega greiða 1.400 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar.
2. Fyrir leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, sem uppfylla þurfa gæða- og tæknikröfur, skal greiða 4.000 kr. árlegt gjald fyrir rekstrarleyfi. Enn fremur skulu eigendur þessara sérútbúnu bifreiða greiða árlega 1.400 kr. vegna hverrar bifreiðar og skal það gjald greitt þegar bifreið er færð til árlegrar skoðunar.
3. Fyrir sérleyfi og einkaleyfi skal greiða 20.000 kr. árlegt gjald.

Halda skal tekjum og gjöldum vegna framangreindra leyfa aðskildum í bókhaldi. Framangreind gjöld skulu renna til Vegagerðarinnar og standa undir eftirliti og leyfisveitingum. Vegagerðinni er heimilt að fela þriðja aðila þetta eftirlit.


VI. KAFLI
Viðurlög.
22. gr.
Stöðvun starfsemi.

Verði aðili uppvís að því að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt reglugerð þessari án þess að hafa til þess tilskilin leyfi er Vegagerðinni skylt að fela lögreglu að stöðva starfsemina og viðkomandi ökutæki þegar í stað þar til leyfi hefur verið fengið.


23. gr.
Viðurlög.

Brot gegn lögum nr. 73/2001 og reglugerð þessari geta varðað sektum og/eða leyfissviptingu sbr. 15. gr. laga nr. 73/2001, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála.


24. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 73/2001, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum nr. 389/1999.


Samgönguráðuneytinu, 4. júlí 2002.

Sturla Böðvarsson.
Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica