Samgönguráðuneyti

752/2007

Reglugerð um úttektir á öryggi loftfara. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að koma á samræmdum reglum og verklagi við hlaðskoðanir loftfara frá þriðju ríkjum í því skyni að viðhalda flugöryggi.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til allra loftfara. Undanskilin gildissviði eru:

a. ríkisloftför; loftför hers, tolls og lögreglu og

b. loftför með hámarksflugtaksþyngd undir 5.700 kg sem ekki eru notuð í flutningaflugi.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð þá merkingu sem hér segir:

Alþjóðlegir öryggisstaðlar (international safety standards): Öryggisstaðlar í Chicago-samningnum og viðaukum hans sem eru í gildi þegar skoðun fer fram.

Flugbann (grounding): Formlegt bann við því að loftfar yfirgefi flugvöll og nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra för þess.

Kerfi Bandalagsins um öryggisskoðanir erlendra loftfara (SAFA): Kerfi sem sett er fram í tilskipun 2004/34/EB og í þessari reglugerð til að safna, skiptast á og greina upplýsingar um flugöryggi loftfara og flugrekendur.

Skoðun á hlaði (ramp inspection): Rannsókn á loftfari frá þriðja ríki í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Loftfar frá þriðja ríki (third-country aircraft): Loftfar sem ekki er notað eða starfrækt undir eftirliti flugmálayfirvalda á Evrópska efnahagssvæðinu.

II. KAFLI

Skoðanir.

4. gr.

Skoðun á hlaði.

Ef grunur vaknar um að loftfar frá þriðja ríki sem lendir á alþjóðlegum flugvelli á Íslandi uppfylli ekki alþjóðlega öryggisstaðla skal Flugmálastjórn Íslands taka til athugunar hvort ástæða sé til að framkvæmd verði skoðun á loftfarinu á hlaði ef:

a. upplýsingar hafa borist um lélegt viðhald eða augljósar skemmdir eða galla,

b. tilkynnt hefur verið að loftfar hagi flugi með óeðlilegum hætti eftir að það kom inn í loftrými Íslands sem gefur til kynna að um sé að ræða alvarlegan öryggisvanda,

c. annmarkar koma í ljós við fyrri skoðun á hlaði sem benda sterklega til þess að loftfarið uppfylli ekki alþjóðlega öryggisstaðla og Flugmálastjórn Íslands hefur efasemdir um að annmarkarnir hafi verið lagfærðir,

d. vísbendingar eru um að viðkomandi eftirlitsyfirvald skráningarríkis loftfarsins annist ekki viðeigandi öryggiseftirlit eða

e. upplýsingar, sem safnað er skv. 6. gr., gefa tilefni til efasemda um flugrekanda eða ef við fyrri skoðun loftfars á hlaði, sem sami flugrekandi notar, hafa komið í ljós annmarkar.

Þrátt fyrir 1. mgr. skal Flugmálastjórn Íslands heimilt að framkvæma skoðanir á hlaði án þess að fyrir liggi grunsemdir um að viðhaldi eða öðru í starfrækslu loftfars sé ábótavant að því tilskildu að slíkar skoðanir séu framkvæmdar án mismununar og í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

5. gr.

Framkvæmd skoðunar.

Skoðun á hlaði skal fara fram í samræmi við verklagsreglur Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA. Skrá skal tafalaust upplýsingar um framkvæmd skoðunar á þar til gerð eyðublöð sem færa skal í miðlægan gagnagrunn Flugöryggisstofnunar Evrópu.

Þegar skoðun á hlaði er lokið skal flugstjóra eða fulltrúa flugrekanda loftfarsins tilkynnt um niðurstöður skoðunarinnar. Ef umtalsverðir annmarkar koma í ljós skal senda skýrsluna til flugrekanda og til viðkomandi eftirlitsyfirvalds skráningarríkis loftfarsins og eftirlitsyfirvalds flugrekanda, sé það annað en skráningarríki loftfarsins.

Þegar skoðun á hlaði fer fram samkvæmt reglugerð þessari skal Flugmálastjórn Íslands gera það sem í hennar valdi stendur til að komast hjá því að loftfar, sem er til skoðunar, verði fyrir óeðlilegum töfum.

III. KAFLI

Söfnun, miðlun og vernd upplýsinga.

6. gr.

Söfnun upplýsinga.

Flugmálastjórn Íslands skal koma á kerfi til að safna hvers kyns upplýsingum sem teljast gagnlegar til að ná markmiðinu skv. 1. gr.; þ.m.t.:

a. Mikilvægum öryggisupplýsingum sem eru aðgengilegar:

í skýrslum flugmanna,

í skýrslum frá viðhaldsfyrirtækjum,

í skýrslum um flugatvik,

hjá öðrum fyrirtækjum sem eru óháð flugmálayfirvöldum

berast með kvörtunum.

b. Upplýsingum um aðgerðir sem gripið er til að lokinni skoðun á hlaði t.d. þegar:

loftfar er sett í flugbann,

loftfari eða flugrekanda er bannað að koma til Íslands,

krafist er úrbóta,

komið er á sambandi við viðkomandi eftirlitsyfirvald loft­fars/flug­rekanda.

c. Framhaldsupplýsingar um flugrekanda, svo sem:

hvaða úrbætur eru gerðar,

endurtekið ósamræmi.

Þessum upplýsingum skal haldið til haga með þeim hætti sem Flugöryggisstofnun Evrópu ákvarðar.

Flugmálastjórn Íslands skal senda Flugöryggisstofnun Evrópu upplýsingar sem gagnlegar eru við beitingu þessarar reglugerðar, þannig að hún geti sinnt þeim verkefnum sem henni eru falin samkvæmt reglugerð þessari, þ.m.t. um söfnun upplýsinga.

7. gr.

Upplýsingaskipti.

Flugmálastjórn Íslands skal taka þátt í gagnkvæmum upplýsingaskiptum við eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Slíkar upplýsingar skulu, að beiðni annarra eftirlitsyfirvalda, fela í sér skrá yfir flugvelli í viðkomandi ríki sem annast alþjóðlega flugumferð þar sem tilgreindur er fyrir hvert almanaksár fjöldi skoðana sem þar fara fram á hlaði ásamt fjölda flugtaka og lendinga loftfara frá þriðja ríki á hverjum flugvelli.

Skýrslur skv. 5. og. 6. gr. skulu tafarlaust látnar viðkomandi eftirlitsyfirvöldum í aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu í té og Flugöryggisstofnun Evrópu ef beiðni berst um slíkt.

Ef fram kemur í skýrslu að mögulega sé um að ræða ógnun við öryggi eða skoðun á hlaði sýnir fram á að loftfar uppfylli ekki alþjóðlega öryggisstaðla og ógni hugsanlega öryggi skal senda skýrsluna án tafar til viðeigandi eftirlitsyfirvalda í aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og til Eftirlitsstofnunar EFTA.

8. gr.

Úrvinnsla upplýsinga.

Flugöryggisstofnun Evrópu stjórnar og leggur til nauðsynlegan búnað og verklagsreglur til að safna og miðla:

a. Upplýsingum skv. 5., 6. og 7. gr. reglugerðar þessarar.

b. Upplýsingum sem veittar eru af þriðju ríkjum eða alþjóðlegum stofnunum sem viðeigandi samningar hafa verið gerðir við eða stofnanir sem Flugöryggisstofnun Evrópu hefur gert viðeigandi samninga við samkvæmt 2. mgr. 18. gr. í fylgiskjali I. við reglugerð um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, nr. 612/2005.

Til stjórnunar samkvæmt 1. mgr. teljast eftirfarandi verkefni:

a. Að safna upplýsingum frá aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins er varða öryggi loftfara sem nota flugvelli innan svæðisins;

b. Að byggja upp, viðhalda og sjá um samfellda uppfærslu á miðlægum gagnagrunni sem inniheldur:

1. upplýsingar sem aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins er skylt að safna og miðla sbr. 5., 6. og 7. gr. þessarar reglugerðar,

2. aðrar upplýsingar er skipta máli varðandi flugöryggi loftfara og flugrekenda;

c. Að gera nauðsynlegar breytingar á hugbúnaði gagnagrunnsins og stækka hann.

d. Að greina upplýsingar í miðlæga gagnagrunninum og aðrar upplýsingar sem skipta máli fyrir öryggi loftfara og flugrekenda, og á grundvelli þess:

1. veita þess til bærum eftirlitsyfirvöldum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins ráðgjöf um tafarlausar aðgerðir eða eftirfylgni;

2. tilkynna hugsanleg öryggisvandkvæði til eftirlitsyfirvalda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins;

3. leggja til samstilltar aðgerðir við eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þegar nauðsynlegt er á grundvelli öryggis og til að tryggja tæknilega samhæfingu.

9. gr.

Vernd og miðlun upplýsinga.

Skýrslur um skoðun loftfara á hlaði skal fara með sem trúnaðarmál og má ekki afhenda óviðkomandi aðilum, sbr. þó 7. gr. Þó er heimilt að afhenda eftirlitsaðilum á vegum viðurkenndra alþjóðasamtaka og stofnana, sem Ísland er aðili að, upplýsingar sé það liður í samstarfi ríkja um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja eftirlitinu.

Þegar upplýsingar um annmarka á loftförum eru gefnar af fúsum og frjálsum vilja skulu skýrslur Flugmálastjórnar Íslands sem um getur í 1. mgr. 5. gr. vera órekjanlegar að því er varðar uppruna upplýsinganna.

IV. KAFLI

Flugbann o.fl.

10. gr.

Flugbann.

Þegar loftfar uppfyllir ekki alþjóðlega öryggisstaðla og ljóst er að öryggi þess er stefnt í hættu, skal flugrekandi loftfarsins gera ráðstafanir til að lagfæra annmarkana fyrir brottför þess. Ef Flugmálastjórn Íslands, sem annast skoðun á hlaði, hefur ekki vissu um að úrbætur hafi verið gerðar fyrir brottför loftfarsins skal það setja á loftfarið flugbann þar til úr hefur verið bætt og skal þá án tafar tilkynna viðkomandi eftirlitsyfirvaldi flugrekanda og skráningarríki loftfarsins ákvörðun sína. Samhliða skal Flugmálastjórn tilkynna flugleiðsöguþjónustu og viðkomandi rekstraraðila flugvallar um bannið.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að kalla til lögreglu til að halda uppi flugbanni.

11. gr.

Aflétting flugbanns.

Þegar Flugmálastjórn Íslands hefur fulla vissu um að nægjanlegar úrbætur hafi verið gerðar til þess að loftfarinu verði flogið án þess að flugöryggi verði stefnt í hættu getur stofnunin fellt úr gildi flugbannið. Tilkynna skal um afléttingu flugbanns með sama hætti og þegar því er komið á skv. 10. gr.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt, í samvinnu við eftirlitsyfirvöld þess ríkis, sem er ábyrgt fyrir starfsrækslu viðkomandi loftfars, eða skráningarríki loftfarsins, að ákveða með hvaða skilyrðum loftfari er heimilað að fljúga til flugvallar þar sem vinna má að lagfæringu annmarka. Ef annmarkinn hefur áhrif á gildistíma lofthæfisvottorðs loftfars má einungis aflétta flugbanninu ef flugrekandinn fær til þess heimild frá því ríki eða ríkjum sem flogið verður yfir í því flugi.

12. gr.

Ráðstafanir til að bæta öryggi.

Flugmálastjórn Íslands skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA um ráðstafanir, sem gerðar eru til að hrinda í framkvæmd kröfum skv. 4.-7. gr.

13. gr.

Tilkynning um bann eða skilyrta starfrækslu.

Ef Flugmálastjórn Íslands tekur ákvörðun um að banna flug loftfara sem skrásett eru eða starfrækt eru frá tilteknum ríkjum og eða flugrekendum, eða setur skilyrði fyrir starfrækslu þeirra þar til eftirlitsyfirvöld í því ríki hafa samþykkt fullnægjandi ráðstafanir til að lagfæra annmarka, skal stofnunin tilkynna þær ráðstafanir til Eftirlitsstofnunar EFTA.

V. KAFLI

Innleiðing og gildistaka.

14. gr.

Viðurlög.

Brot gegn flugbanni eða fyrirmælum Flugmálastjórnar Íslands um starfrækslu loftfars samkvæmt 10. gr. varðar refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

15. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

a. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/36/EB frá 21. apríl 2004 um öryggi loftfara frá þriðju löndum sem nota flugvelli Bandalagsins, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2005 sem birtist í EES viðbæti nr. 10, 23. febrúar 2006, bls. 24.

b. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 768/2006 frá 19. maí 2006 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/36/EB að því er varðar söfnun og skipti á upplýsingum um öryggi loftfara sem nota flugvelli Bandalagsins og stjórnun upplýsingakerfisins, og birtist í viðauka II við reglugerð þessa, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2007 og birtist í viðauka I. við reglugerð þessa.

Tekið var mið af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2111/2005 frá 14. desember 2005 um að stofna skrá Bandalagsins yfir flugrekendur sem bannað er að stunda flugrekstur innan þess og um upplýsingar til flugfarþega um hvaða flugrekendur annast flutning.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. gr., 27. gr., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og 2. tl. 4. gr., 5. gr., 7. gr. og 12. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 30. júlí 2007.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica