Samgönguráðuneyti

291/2009

Reglugerð um breytingu á reglugerð um úttektir á öryggi loftfara nr. 752/2007. - Brottfallin

1. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar orðskýringar, sem hafa þá merkingu sem hér greinir:

Forgangsröðun skoðana á hlaði (prioritisation of ramp inspections): Sérstök ráðstöfun á viðeigandi hluta af heildarfjölda skoðana á hlaði sem framkvæmdar eru af hálfu aðildarríkis ár hvert, eins og kveðið er á um í 4. gr. a.

Viðfang (subject): Flugrekandi og/eða allir flugrekendur frá tilteknu ríki og/eða gerð loftfars og/eða tiltekið loftfar.

2. gr.

Ný grein, 4. gr. a, bætist við á eftir 4. gr., sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

4. gr. a

Viðmiðanir við forgangsröðun.

Flugmálastjórn Íslands skal forgangsraða hlaðskoðunum eftirtalinna viðfanga, lendi þau á alþjóðlegum flugvelli á Íslandi, að teknu tilliti til 4. gr.:

  1. Viðföng, sem á grundvelli reglubundinnar greiningar Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), eru talin geta ógnað öryggi.
  2. Viðföng sem flugöryggisnefndin hefur bent á, í áliti sínu á grundvelli reglugerðar um aðgerðir til að tryggja flugöryggi og skrá yfir flugrekendur sem ekki uppfylla viðeigandi öryggiskröfur, að þurfi á frekari kerfisbundnum hlaðskoðunum að halda, til að þau geti sýnt fram á að þau uppfylli viðkomandi öryggisstaðla. Þetta getur tekið til viðfanga sem hafa verið tekin af skránni yfir flugrekendur sem bannað hefur verið flug inn til Evrópska efnahagssvæðisins.
  3. Viðföng sem auðkennd hafa verið eftir ábendingar frá aðildarríkjunum eða Flugöryggisstofnun Evrópu, á grundvelli reglugerðar um aðgerðir til að tryggja flugöryggi og skrá yfir flugrekendur sem ekki uppfylla viðeigandi öryggiskröfur.
  4. Loftför sem eru starfrækt í flugi til landa innan Evrópska efnahagssvæðisins af flugrekendum sem tilgreindir eru í viðauka B við skrá yfir flugrekendur sem ekki uppfylla viðeigandi öryggiskröfur.
  5. Loftför sem starfrækt eru af öðrum flugrekendum sem hafa fengið útgefið flugrekstrarleyfi frá sama ríki og flugrekandi sem á sama tíma er tilgreindur á skrá yfir flugrekendur sem ekki uppfylla viðeigandi öryggiskröfur.

3. gr.

1. mgr. 5. gr. orðist svo:

Skoðun á hlaði skal fara fram í samræmi við verklagsreglur Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA, sem og verklagsreglur sem lýst er í III. viðauka við reglugerð þessa. Skrá skal tafarlaust upplýsingar um framkvæmd skoðunar á þar til gerð eyðublöð sem í gildi eru hverju sinni samkvæmt framangreindum verklagsreglum. Upplýsingarnar skulu færðar í miðlægan gagnagrunn Flugöryggisstofnunar Evrópu.

4. gr.

Við 7. gr. bætast tvær nýjar málsgreinar, 4. og 5. mgr., sem orðast svo:

Flugöryggisstofnun Evrópu sendir lista yfir þau viðföng sem nefnd eru í 4. gr. a með rafrænum hætti til aðildarríkjanna, a.m.k. á fjögurra mánaða fresti.

Flugöryggisstofnun Evrópu hefur eftirlit með forgangsröðunarferlinu og veitir aðildar­ríkjunum nauðsynlegar upplýsingar til að gera þeim kleift að fylgjast með framþróun í Bandalaginu að því er varðar forgangsröðun skoðana á viðföngum sem um getur í 4. gr. a, þar á meðal tölfræðileg gögn um flugumferð sem máli skipta. Upplýsinga­gjöf er veitt í samvinnu við þar til bærar alþjóðastofnanir á sviði flugmála.

5. gr.

Innleiðing.

Við 1. mgr. 15. gr. bætist nýr stafliður, sem orðast svo:

c. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 351/2008 frá 16. apríl 2008 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/36/EB að því er varðar forgangsröðun skoðana á hlaði á loftförum sem nota flugvelli Bandalagsins, sem birtist í viðauka IV við reglugerð þessa, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 14/2009 frá 30. janúar 2009.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5. gr., 27. gr., sbr. 145. gr. og 146. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og 2. mgr. 4. gr., 5. gr., 7. gr. og 12. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 26. febrúar 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica