Samgönguráðuneyti

680/2004

Reglugerð um vinnu- og hvíldartíma skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum.

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Tilgangur.

Tilgangur reglugerðarinnar er að bæta öryggi til sjós, vinnuskilyrði og heilbrigði og öryggi skipverja á íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum og erlendum farþegaskipum og flutningaskipum sem fara um íslenskar hafnir.


2. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum sem skráð eru á íslenska skipaskrá. Skip sem er skráð í tveimur ríkjum telst skráð í fánaríkinu. Siglingastofnun sker úr ef ágreiningur er um hvort skip falli undir reglugerð þessa að fenginni umsögn samtaka útgerða og sjómanna.

Ákvæði þessarar reglugerðar taka til erlendra farþegaskipa og flutningaskipa þegar þau fara um íslenskar hafnir.


3. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkja eftirfarandi hugtök:

a) Vinnutími: Sá tími sem skipverja er skylt að vinna um borð.
b) Hvíldartími: Tími sem telst ekki til vinnutíma. Það telst ekki til hvíldartíma þegar stutt hlé er gert á vinnu.
c) Farþegaskip: Hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem getur flutt fleiri en 12 farþega til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
d) Flutningaskip: hvert það skip, skrásett sem flutningaskip, er siglir með varning til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
e) Skipverji: Sá einstaklingur sem ráðinn er til starfa á skipi sem reglugerð þessi tekur til.
f) Kvörtun: Allar upplýsingar eða skýrsla frá meðlimi áhafnar, fagfélagi, eða samtökum, stéttarfélagi eða almennt hverjum þeim einstaklingi sem hefur áhuga á öryggi skipsins, einkum því sem lýtur að öryggi eða heilsu áhafnarinnar.
g) Skipverji sem vinnur næturvinnu: Skipverji sem vinnur að lágmarki 3 klukkustundir af sínum daglega vinnutíma í næturvinnu eða sem ætlast er til að vinni að lágmarki 25% af sínum árlega vinnutíma í næturvinnu.
h) Útgerðarmaður: Eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri eða miðlari þurrleiguskipa (skipa án áhafna), er hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins fyrir hönd eiganda skipsins, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem því fylgir.
i) Skoðunarmaður: Starfsmaður Siglingastofnunar sem annast eftirlit með ákvæðum reglugerðar þessarar.


II. KAFLI
Íslensk farþegaskip og flutningaskip.
4. gr.
Lágmarksaldur.

Enginn undir 16 ára aldri skal vinna um borð í skipi sem fellur undir reglugerð þessa.


5. gr.
Vinnu- og hvíldartími.

Venjulegur vinnutími skipverja skal, að meginreglu til, ekki vera lengri en 48 klst. á viku, einn frídagur í viku og frí á lögboðnum frídögum, nema annað sé ákveðið í kjarasamningum.

Mörk vinnu- og hvíldartíma skulu vera annaðhvort:

* hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 72 klst. á hverju 7 daga tímabili eða
* lágmarkshvíldartími sem skal að lágmarki vera 10 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 77 klst. á hverju 7 daga tímabili.

Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri en tvö tímabil og skal annað vara að lágmarki í 6 klst. Tímabilið milli tveggja hvíldartíma má ekki vera lengra en 14 klst.

Með kjarasamningum er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. og 3. mgr. vegna hlutlægra og tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna og tekið er mið af örari eða lengri fríum eða veitt uppbótarfrí fyrir skipverja sem vinna á vöktum eða um borð í skipum sem eru í stuttum ferðum.

Nafnakall, eldvarnar- og björgunaræfingar, sem mælt er fyrir um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum, skulu fara fram með þeim hætti að hvíldartími raskist eins lítið og hægt er og þannig að þær valdi ekki þreytu.

Þegar skipverji er á bakvakt, t.d. þegar vélarúm er ómannað, skal hann ef venjulegum hvíldartíma er raskað með útkalli fá samfellda viðbótarhvíld í staðinn.


6. gr.
Neyðartilvik.

Skipstjóri á skipi getur krafist þess að skipverji vinni þá tíma sem nauðsynlegir eru vegna öryggis skipsins á þeirri stundu, skipverja um borð, farms, annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að veita aðstoð öðrum skipum eða skipverjum í nauð á hafi úti.

Í slíkum tilvikum getur skipstjóri vikið frá skipulagi vinnu- eða hvíldartíma og krafist þess að skipverji vinni þann tíma sem nauðsynlegur er þar til ástandið er orðið eðlilegt aftur.

Skipstjóri skal tryggja eins fljótt og auðið er eftir að ástandið er orðið eðlilegt aftur að skipverji, sem hefur sinnt störfum í fyrirfram ákveðnum hvíldartíma sínum, fái næga hvíld.


7. gr.
Árlegt orlof.

Allir skipverjar skulu eiga rétt á að minnsta kosti fjögurra vikna árlegu orlofi á launum, eða hlutfalli þar af fyrir starfstíma sem er skemmri en ár, í samræmi við viðmiðunarreglur um rétt til, og veitingu slíks orlofs sem mælt er fyrir um í lögum.

Greiðsla má ekki koma í stað árlegs lágmarksorlofs á launum, nema þegar um starfslok er að ræða.


8. gr.
Næturvinna.

Enginn skipverji undir 18 ára aldri skal vinna að nóttu til. Með nótt er átt við tímabil sem varir í a.m.k. níu samfelldar klukkustundir, þar með talið tímabilið frá miðnætti til klukkan fimm að morgni. Ekki er nauðsynlegt að beita þessu ákvæði ef það hindrar menntun og þjálfun ungra sjómanna frá 16 til 18 ára að því er varðar fyrirfram ákveðin verkefni og áætlanir.


9. gr.
Skoðun.

Siglingastofnun Íslands skal hafa eftirlit með að fylgt sé ákvæðum þessarar reglugerðar í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum og getur skoðunarmaður hvenær sem er farið um borð og krafist nauðsynlegra upplýsinga til að hafa slíkt eftirlit. Stofnunin getur falið öðrum viðurkenndum aðilum framkvæmd eftirlitsins. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga um eftirlit með skipum og reglum settum skv. þeim.


10. gr.
Tafla yfir vinnutíma.

Á aðgengilegum stað um borð skal vera tafla, á því tungumáli eða þeim tungumálum sem notað/notuð eru við vinnu um borð og á ensku, sbr. fyrirmynd í I. viðauka með reglugerð þessari, sem hefur að geyma upplýsingar um skipulag vinnutíma um borð og þar sem birt er að minnsta kosti fyrir hverja stöðu:

a) áætlun um vinnuskyldu á sjó og í höfnum, og
b) hámarksvinnutími eða lágmarkshvíldartími sem krafist er í lögum, reglum eða kjarasamningum sem í gildi eru í fánaríki skipsins.


Í töfluna skal færa upplýsingar um daglegan vinnutíma eða daglegan hvíldartíma hvers og eins skipverja til að hægt sé að fylgjast með hvort gætt sé ákvæða 5. gr. reglugerðar þessarar. Skipverji á rétt á að fá afrit af þeim skráningum sem varða hann og skulu þær áritaðar af skipstjóranum eigi sjaldnar en mánaðarlega, eða öðrum þeim sem skipstjórinn hefur veitt til þess umboð auk skipverjans sjálfs.

Afrit töflunnar skal varðveitt um borð í íslenskum skipum skv. reglugerð þessari í 6 mánuði frá því starfi var sinnt og útgerðarmaður skal varðveita skrána í 3 ár þaðan í frá. Útgerðarmanni er skylt að senda Siglingastofnun afrit skrárinnar óski hún eftir því. Siglingastofnun getur samþykkt að skrárnar séu varðveittar á rafrænan hátt og að upplýsingar til hennar séu sendar á rafrænan hátt.

Afrit af ákvæðum laga og reglugerða um vinnutíma skipverja og af viðeigandi kjarasamningum skulu geymd um borð og skal áhöfnin hafa greiðan aðgang að þeim.



11. gr.
Ábyrgð útgerðarmanns og skipstjóra.

Útgerðarmaður skipsins skal útvega skipstjóranum nauðsynleg gögn til að fullnægja þeim skyldum sem þessi reglugerð hefur í för með sér, þar með talin gögn um rétta mönnun skipsins. Skipstjórinn skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé að kröfum þessarar reglugerðar um vinnutíma og hvíldartíma skipverja.


12. gr.
Læknisvottorð.

Allir skipverjar skulu hafa læknisvottorð um að þeir séu færir um að inna af hendi það starf sem þeir munu gegna á sjó.

Ákveða skal, að höfðu samráði við útgerðarmenn skipsins sem um ræðir og viðkomandi samtök skipverja, hvernig heilbrigðiseftirliti skuli hagað og hvaða upplýsingar skuli koma fram á læknisvottorðinu, sbr. 4. gr. og I. viðauka reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 416/2003.

Allir skipverjar skulu fara reglulega í læknisskoðun. Vaktmenn, sem eiga við heilsuvandamál að stríða og læknir hefur staðfest að séu til komin vegna næturvinnu, skulu, alltaf þegar þess er nokkur kostur, færðir til í starfi þannig að þeir stundi dagvinnu sem hentar þeim.

Skipverjar skulu njóta öryggis og heilsuverndar í samræmi við starf sitt. Samsvarandi verndar- og forvarnarþjónusta eða aðstaða sem þjónar slíkum tilgangi skal vera til staðar vegna öryggis og heilsu sjómanna sem vinna dag- eða næturvinnu.



III. KAFLI
Erlend farþegaskip og flutningaskip sem fara um íslenskar hafnir.
13. gr.
Skoðun.

Siglingastofnun Íslands skal hafa eftirlit með að fylgt sé ákvæðum þessarar reglugerðar og tilskipana skv. 17. gr. í erlendum farþegaskipum og flutningaskipum sem fara um íslenskar hafnir og getur hvenær sem er krafist nauðsynlegra upplýsinga til að hafa slíkt eftirlit. Þegar skoðun er framkvæmd skal skoðunarmaður ákvarða hvort:

a) tafla með upplýsingum um vinnutilhögun um borð hafi verið útbúin á vinnutungumáli eða tungumálum skipsins og á ensku samkvæmt fyrirmynd í I. viðauka, eða á öðru sambærilegu formi og hafi verið sett upp á aðgengilegum stað um borð;
b) gögn um vinnutíma eða hvíldartíma skipverja hafi verið tekin saman á vinnutungumáli eða tungumálum skipsins og á ensku samkvæmt fyrirmynd í II. viðauka, eða á öðru sambærilegu formi og séu geymd um borð og að sannað sé að gögnin hafi verið árituð af lögbæru yfirvaldi í skráningarríki skipsins.

Ef kvörtun hefur borist eða ef skoðunarmaður telur, eftir athuganir um borð, að skipverjar séu of þreyttir skal skoðunarmaðurinn framkvæma nákvæmari skoðun, í samræmi við 1. mgr., til að ákvarða hvort vinnutími eða hvíldartími sem skráður hefur verið sé í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og hvort þeim hefur verið framfylgt með tilliti til annarra gagna um rekstur skipsins.


14. gr.
Framkvæmd skoðunar.

Siglingastofnun er heimilt að framkvæma skoðun um borð í erlendum skipum sem fara um íslenskar hafnir til að ganga úr skugga um fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma og skipulag vakta um borð. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga og reglna um hafnarríkiseftirlit.

Gera skal allt sem hægt er til að forðast að skip sé tafið á ótilhlýðilegan hátt. Ef skip er tafið á ótilhlýðilegan hátt á eigandi þess eða útgerðarmaður rétt á bótum fyrir tap eða tjón sem hann hefur orðið fyrir. Í hvert skipti sem meint ótilhlýðileg töf á sér stað skal sönnunarbyrði þess efnis hvíla á herðum eiganda eða útgerðarmanni skipsins.

Siglingastofnun skal, ef kvörtun berst sem augljóslega er ekki tilefnislaus að hennar mati eða ef hún fær sannanir fyrir því að ástand skips og að fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma um borð er ekki í samræmi við reglugerð þessa, tilkynna skráningarríki skipsins um niðurstöðu skoðunar sem gerð hefur verið og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að aðbúnaður um borð, sem sannanlega stofnar öryggi eða heilsu áhafnarinnar í hættu, sé lagfærður.

Siglingastofnun Íslands er óheimilt að veita skipstjóra eða útgerðarmanni skipsins neinar upplýsingar um þann sem bar fram kvörtun.

Við skoðun á skipi sem skráð er í eða siglir undir fána ríkis sem ekki hefur skrifað undir ILO-samþykkt nr. 180 eða bókun við ILO-samþykkt nr. 147 skal Siglingastofnun tryggja að slík skip og áhöfn þeirra hljóti ekki hagstæðari meðferð en þá sem skip hlýtur sem siglir undir fána ríkis sem er aðili annað hvort að ILO-samþykkt nr. 180 eða bókun við ILO-samþykkt nr. 147 eða að hvoru tveggja.


15. gr.
Úrbætur og farbann.

Ef skoðun eða nákvæm skoðun gefur til kynna að ástand skipsins fullnægi ekki kröfum reglugerðar þessarar skal Siglingastofnun gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrbætur séu gerðar á aðbúnaði sem sannanlega stofnar öryggi og heilsu skipverja í hættu, t.d. með því að leggja farbann á skipið meðan úrbætur hafa ekki verið gerðar og meðan skipverjar hafa ekki fengið nægilega hvíld.

Ef augljósar sannanir eru fyrir því að vaktmenn á fyrstu vakt eða á síðari afleysingavöktum séu of þreyttir skal Siglingastofnun tryggja að skipið leggi ekki úr höfn fyrr en það sem er í ólagi hefur verið lagfært eða skipverjarnir fengið nægilega hvíld.

Ef svo ber undir að farbann sé lagt á skip skal Siglingastofnun tilkynna skipstjóranum, útgerðarmanni, stjórnvaldi fánaríkis eða skráningarríkis skipsins eða ræðismanni, eða í fjarveru hans næsta fulltrúa utanríkisþjónustu ríkisins, um niðurstöður skoðana skv. 13. gr. og þegar það á við, um þær aðgerðir til úrbóta sem krafist er.

Útgerðarmaður skipsins eða umboðsmaður hans á Íslandi getur kært farbann til farbannsnefndar sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með skipum og frestar kæra ekki áhrifum farbannsákvörðunar. Siglingastofnun skal veita skipstjóra upplýsingar um kærurétt vegna farbanns.


16. gr.
Refsingar.

Um brot gegn reglugerð þessari vegna íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa fer eftir ákvæðum 15. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum.


17. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 4. mgr. 7. gr. og 17. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum og 8. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun ráðsins 1999/63/EB frá 21. júní 1999 um samning um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum milli Samtaka skipaeigenda í Evrópubandalaginu (ECSA) og Samtaka félaga flutningaverkamanna í Evrópusambandinu (FST), sem birtist í Stjórnartíðindum EB L 244, 16. september 1999, bls. 64 og ákvörðun EES-nefndar nr. 97/2000, sem birtist í EES-viðbæti 2/2001, bls. 14, sbr. þingsályktun Alþingis frá 27. mars 2001 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2000, um breytingar á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Jafnframt er með þessari reglugerð innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/95/EB frá 13. desember 1999 um framkvæmd ákvæða um vinnutíma sjómanna á skipum sem fara um hafnir í bandalaginu, sem birtist í Stjórnartíðindum EB L 14, 20. janúar 2000, bls. 29 og ákvörðun EES-nefndar nr. 94/2000 frá 27. október 2000, sem birtist í EES-viðbæti 2/2001, bls. 11, sbr. og þingsályktun Alþingis frá 23. apríl 2001 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2000, um breytingar á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.


Samgönguráðuneytinu, 30. júlí 2004.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica