Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

952/2003

Reglugerð um skotelda. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

Með skoteldum í reglugerð þessari er átt við búnað eða tæki sem innihalda efni eða efnasambönd sem með íkveikju eða á annan hátt er ætlað að framkalla áhrif í formi ljóss, hljóðs, hita, lofttegunda eða reyks og eru tilkomin vegna efnafræðilegra breytinga.

Undir hugtakið skoteldar falla m.a. flugeldar, blys, reyk-, lita-, lyktar- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrauteldar.

Í viðauka reglugerðarinnar er nánar fjallað um flokkun skotelda og leyfilega notkun hvers flokks fyrir sig, sem í aðalatriðum skiptast þannig:

1. flokkur: Skoteldar sem skapa litla hættu og eru án aldurstakmarkana notenda.
2. flokkur: Skoteldar sem henta til notkunar utanhúss í húsagörðum eða á minni svæðum.
3. flokkur: Skoteldar sem henta til notkunar á stórum opnum svæðum.
4. flokkur: Skoteldar sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda ekki um sérbúna skotelda svo sem neyðarblys og skotelda hernaðarlegs eðlis. Um slíka skotelda er vísað til reglugerðar um sérbúna skotelda.


Almenn ákvæði.
2. gr.

Almenn notkun og sala á skoteldum til almennings er óheimil, nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum nema á skoteldum í flokki 1 sem má nota allt árið. Smásala annarra skotelda er aðeins heimil á viðurkenndum sölustöðum.

Undanþegnir hinu almenna banni um notkun skotelda utan tímamarka, sbr. 1. mgr., eru framleiðendur og innflytjendur vegna prófunar á skoteldum, þeir sem hafa fengið leyfi fyrir skoteldasýningum og þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi lögreglustjóra til að nota skotelda við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar.

Á því tímabili sem almenn notkun skotelda er leyfð er meðferð þeirra þó alltaf bönnuð frá miðnætti til kl. 9.00 að undanskilinni nýársnótt.


3. gr.

Bannað er að selja eða afhenda skotelda barni yngra en 16 ára sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum. Nánar er fjallað um aldursmörkin í viðauka.

Öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil og öll meðferð barna á þeim skal vera undir eftirliti fullorðinna.


4. gr.

Skoteldar skulu vera með álímdum eða áprentuðum leiðbeiningum á íslensku þar sem fram kemur stutt lýsing á eiginleikum þeirra og hvernig beri að nota þá þannig að sem minnst hætta stafi af. Heimilt er að víkja frá þessari reglu þegar um smáa og hættulitla skotelda er að ræða, enda séu þeir seldir nokkrir saman í merktri pakkningu.

Innlendum framleiðendum og innflytjendum er skylt að útbúa, til dreifingar á sölustöðum, almennar leiðbeiningar um notkun skotelda og til hvaða varúðarráðstafana skuli grípa ef skoteldur reynist gallaður eða springur ekki eftir tendrun.


5. gr.

Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hann hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til.


6. gr.

Við meðferð og vörslu skotelda skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum.


7. gr.

Við brennu og í næsta nágrenni við hana er öll meðferð flugelda og annarra skotelda sem hætta stafar af vegna ferils þeirra eftir tendrun bönnuð. Þar er aðeins leyfilegt að nota stjörnuljós og blys, þó ekki skotblys.


8. gr.

Notkun skotelda er bönnuð við staði þar sem þeim er pakkað, þeir seldir eða geymdir og í nálægð við aðra staði þar sem eldfim efni er að finna.

Flugelda má ekki nota innan þeirra fjarlægðamarka sem hér greinir:

a) 100 metra frá mannvirkjum sem gerð eru úr sérstaklega eldfimum efnum, stöðum þar sem eldfim efni eru geymd, timburgeymslum, brennanlegum umbúðum og þess háttar, geymslustöðum eldfimra vökva og gaskútum.
b) 200 metra frá skóglendi, lynggrónu landi eða öðrum viðkvæmum gróðri.

Notkun stærri skotelda en þeirra sem falla undir 2. flokk, annarra en flugelda, er bönnuð innan eftirgreindra marka:

a) 50 metra frá mannvirkjum sem gerð eru úr sérstaklega eldfimum efnum, stöðum þar sem eldfim efni eru geymd, timburgeymslum, brennanlegum umbúðum og þess háttar geymslustöðum eldfimra vökva og gaskútum.
b) 100 metra frá skóglendi, lynggrónu landi eða öðrum viðkvæmum gróðri.

Almenn notkun skotelda á lóðum elliheimila og sjúkrahúsa er bönnuð.

Undanskildir ofangreindum fjarlægðamörkum eru smærri skoteldar, svo sem stjörnuljós, handblys og þess háttar sem hægt er að hafa fulla stjórn á, en við notkun þeirra skal hafa sérstaka gát í nánd við eldfimt umhverfi.

Sérstakt tillit til dýra skal viðhaft við meðferð skotelda og við gripahús er notkun þeirra bönnuð.


9. gr.

Tilkynna ber lögreglu um öll alvarleg slys sem verða af völdum skotelda. Þá ber að tilkynna lögreglunni í Reykjavík, sem samkvæmt 22. gr. annast gerðarviðurkenningu á skoteldum, um gallaða skotelda í umferð.


10. gr.

Lögreglustjórar geta bannað notkun skotelda á tilteknu svæði eða bundið notkun þeirra tilteknum skilyrðum um ákveðinn tíma, teljist slíkar aðgerðir nauðsynlegar til að draga úr ónæði eða hættu sem talin er vera fyrir hendi.


II. KAFLI
Skoteldasýningar.
11. gr.
Almenn skilyrði.

Lögreglustjórum er heimilt að veita sérstök leyfi til skoteldasýninga. Útgáfa leyfis til sýningar er bundin því skilyrði að ákveðinn aðili hafi umsjón með sýningunni og að sérstakur skotstjóri annist framkvæmd hennar. Umsjónaraðili skal hafa ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns af völdum skoteldanna. Skotstjóri skal vera fullra 18 ára og hafa víðtæka þekkingu á skoteldum og reynslutil að annast skoteldasýningar. Ríkislögreglustjórinn getur sett sérstakar reglur um hæfnismat skotstjóra.

Umsóknum um leyfi til skoteldasýninga skal beina til lögreglustjóra í því umdæmi sem sýning er fyrirhuguð. Í leyfisumsókn skal tilgreina nafn skotstjóra, fyrirhugaðan sýningarstað, hvenær sýning hefst og hvenær henni lýkur. Tilgreina skal heildarmagn skotelda sem nota á, hvernig það skiptist eftir tegundaheitum og frá hvað framleiðanda og/eða innflytjanda þeir eru.

Lögreglunni ber að tilkynna slökkviliði, tilkynningarskyldunni, hafnar- og flugstjórnaryfirvöldum um skoteldasýningar. Jafnframt skal senda lögreglustjóranum í Reykjavík afrit af þeim leyfum sem gefin eru fyrir skoteldasýningum.

Skilyrði til að veita leyfi fyrir skoteldasýningu eru að fyrir liggi samþykki heilbrigðisnefndar fyrir sýningunni, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Einnig skal fylgja umsögn sveitarstjórnar og slökkviliðsstjóra.

Lögreglustjóri getur takmarkað leyfi til sýninga við ákveðið magn og gerðir skotelda, afturkallað leyfi til sýninga hvenær sem er, eða gefið fyrirmæli um að sýningu skuli frestað.


12. gr.
Öryggisreglur.

Við framkvæmd skoteldasýninga gilda eftirfarandi reglur:

1. Leyfishafi skal, ef þess er krafist af lögreglustjóra, auglýsa fyrirhugaða sýningu með sólarhrings fyrirvara í fjölmiðlum samkvæmt nánari fyrirmælum hans. Leyfishafa ber að tilkynna lögreglu og flugstjórnaryfirvöldum að minnsta kosti 15 mínútum áður en skoteldasýning hefst.
2. Skoteldasýningar skulu ekki haldnar eftir kl. 23.00 virka daga og ekki eftir kl. 24.00 um helgar.
3. Aldrei skulu færri en tveir menn sjá um framkvæmd sýninga.
4. Áður en undirbúningur skoteldasýningar hefst skal afmarka öryggissvæði með áberandi hætti, t.d. plastrenningum í a.m.k. 18 metra fjarlægð.
5. Á meðan skotið er skal afmarka öryggissvæðið frá áhorfendum með eftirfarandi hætti:
a. 30 metrar ef notaðar eru "skotkökur og gos"
b. 100 metrar ef notaðar eru "bombur" 150 mm (6 tommur) eða minni að þvermáli.
c. A.m.k.130 metrar ef notaðir eru stærri skoteldar en um getur í lið b.
6. Leyfishafa er skylt að vakta öryggissvæði á tryggan hátt samkvæmt fyrirmælum lögreglu.
7. Innan afmarkaðs öryggissvæðis skulu ekki vera byggingar eða starfsemi þar sem eldhætta er mikil eða hætta á skemmdum, sbr. ákvæði 8. gr.
8. Skothólkar skulu vera úr pappa, plasti, trefjaplasti, eða öðrum sambærilegum efnum og þannig gerðir að ekki stafi hætta af hlutum þeirra ef þeir springa. Aðeins skal nota skothólka sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur viðurkennt. Endurhleðsla í skothólka og notkun járnhólka er bönnuð.
9. Skothólka skal skorða vandlega.
10. Á skotstað skal vera fullnægjandi slökkvibúnaður, minnst 2 slökkvitæki fyrir A-elda, til dæmis 9 lítra vatnsslökkvitæki með slökkvimátt 13A samkvæmt staðlinum ÍST EN3.
11. Allir sem starfa á skotsvæði skulu vera búnir hjálmi með andlitshlíf og fatnaði úr tregtendranlegum efnum.
12. Reykingar eru bannaðar á skotstað.
13. Sýningu má ekki hefja fyrr en skotstjóri hefur yfirfarið öryggisþætti og gefið leyfi fyrir skotum.
14. Að sýningu lokinni skal gengið úr skugga um að engir ósprungnir skoteldar séu eftir á svæðinu. Ósprungnum skoteldum skal eytt, sbr. 31. gr. Leyfishafa ber jafnframt að sjá um hreinsun þess svæðis þar sem skoteldasýning hefur farið fram.


III. KAFLI
Framleiðsla, innflutningur og verslun.
13. gr.
Leyfi til framleiðslu.

Enginn má framleiða skotelda í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjórans. Framleiðsluleyfi felur í sér rétt til heildsölu og innflutnings á hráefni til vinnslunnar að því tilskyldu að sala og innflutningur viðkomandi efna sé ekki takmarkaður samkvæmt öðrum reglugerðum.

Leyfi til að framleiða skotelda í atvinnuskyni verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé skráð fyrirtæki með virðisaukaskattsnúmer og tilgreindan ábyrgðarmann, sem hefur sérþekkingu á skoteldum og hefur náð 18 ára aldri. Jafnframt að fyrirtækið hafi gilt starfsleyfi, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og að húsnæði til framleiðslunnar standist kröfur Brunamálastofnunar að mati slökkviliðsstjóra.


14. gr.
Skyldur framleiðanda.

Leyfishafa ber að fylgja fyrirmælum lögreglu um framleiðsluna, sem skal standast sömu gæðakröfur og áskilið er um innflutta skotelda, sbr. 22. gr.

Framleiðanda er aðeins heimilt að ráðstafa skoteldum til þeirra sem hafa leyfi til verslunar með skotelda og til þeirra sem hafa fengið sérstakt leyfi lögreglustjóra til að nota skotelda utan sölutímabils, sbr. 2. gr., enda framvísi kaupandi gildu leyfi.

Framleiðandi skal geyma skotelda og hráefni til framleiðslunnar við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra að því er varðar öryggi svo sem gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða og svo framvegis. Heimilt er að takmarka magn skotelda sem má geyma á sama stað og sýningavörur í flokki 4 skal geyma aðskildar frá öðrum skoteldum. Þar sem ekki er sólarhringsvöktun skal framleiðslustaður og birgðageymsla tengd vaktstöð. Um varðveislu og flutning á sprengjanlegum efnum, svo sem púðri, fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.


15. gr.
Umsókn um framleiðsluleyfi.

Umsókn til ríkislögreglustjórans um framleiðsluleyfi skal undirrituð af forráðamanni fyrirtækis og árituð af ábyrgðarmanni ef hann er annar en forráðamaður. Í umsókn skal greina frá eftirfarandi:

1. Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi fyrirtækis.
2. Staðsetningu framleiðslu og birgðastöðvar.
3. Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi ábyrgðarmanns framleiðslunnar.
4. Nöfnum og kennitölum stjórnarmanna fyrirtækis.
5. Hvað fyrirhugað er að framleiða.
6. Hvaða faglegu þekkingu ábyrgðarmaður býr yfir vegna fyrirhugaðrar framleiðslu.

Umsókn skal fylgja staðfesting Hagstofu Íslands um skráningu fyrirtækisins, staðfesting frá skattstjóra um virðisaukaskattsnúmer og vottorð frá vátryggingafélagi um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki eða tjóns á munum vegna framleiðslunnar.


16. gr.

Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar lögreglustjóra, Vinnueftirlits ríkisins og slökkviliðsstjóra.

Um gjald fyrir framleiðsluleyfi og endurnýjun þess fer skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Gildistími leyfis skal ekki vera lengri en 5 ár.


17. gr.
Leyfi til innflutnings.

Enginn má flytja inn skotelda í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjórans að undanskildum skoteldum í flokki 1. Innflutningsleyfi felur jafnframt í sér leyfi til heildsölu á skoteldum, en vilji innflytjandi koma upp smásölustað skal sækja um slíkt leyfi til lögreglustjóra ár hvert, sbr. 24. gr. Innflutningur einstaklinga á skoteldum til eigin nota er bannaður.

Leyfi til að flytja inn skotelda í atvinnuskyni verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer og tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur sérþekkingu á skoteldum og hefur náð 18 ára aldri.


18. gr.
Tollafgreiðsla.

Óheimilt er að tollafgreiða skotelda í flokkum 1-4 nema innflytjandi leggi fram við tollafgreiðslu vörureikning, sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur samþykkt til innflutnings. Sækja skal um áritun vörureiknings fyrir hverri sendingu.

Í umsókn um áritun vörureiknings skal tilgreina tegundir skotelda, magn einstakra tegunda, stærð og samsetningu. Sérstaklega skal tilgreina þá skotelda sem eingöngu er leyft að nota til skoteldasýninga, sbr. viðauka reglugerðarinnar og skotelda sem eingöngu eru notaðir við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar.


19. gr.
Skyldur innflytjanda.

Innflytjandi skal geyma skotelda við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra að því er varðar öryggi s.s. gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða o.s.frv. Heimilt er að takmarka magn skotelda sem geymt er á sama stað og sýningavörur í flokki 4 skal geyma aðskildar frá öðrum skoteldum. Þar sem ekki er sólarhringsvöktun skal birgðageymsla tengd eftirlitsmiðstöð. Um varðveislu og flutning á sprengjanlegum efnum, svo sem púðri, fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.

Innflytjanda er óheimilt, utan eigin smásölu skv. 17. gr., að selja skotelda öðrum en þeim sem hafa leyfi til heildsölu eða smásölu.

Óheimilt er að selja skotelda sem eingöngu eru leyfðir til skoteldasýninga (flokkur 4) öðrum en þeim sem hafa fengið leyfi lögreglustjóra fyrir sýningu og ber seljanda að krefjast framvísunar á slíku leyfi áður en sala fer fram. Hið sama gildir um skotelda sem ætlaðir eru til nota við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar, sbr. 30. gr.


20. gr.
Umsókn um innflutningsleyfi.

Umsókn til ríkislögreglustjórans um leyfi til að flytja inn skotelda skal undirrituð af forráðamanni fyrirtækis/félagasamtaka og árituð af ábyrgðarmanni ef hann er annar en forráðamaður. Í umsókn skal greina frá eftirfarandi:

1. Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi félags.
2. Staðsetningu birgðastöðvar.
3. Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi ábyrgðarmanns.
4. Nöfnum og kennitölum stjórnarmanna félags.
5. Hvaða faglegu þekkingu ábyrgðarmaður býr yfir.

Umsókn skal fylgja staðfesting Hagstofu Íslands um skráningu félagsins, staðfesting frá skattstjóra um virðisaukaskattsnúmer og vottorð frá vátryggingafélagi um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki eða tjóns á munum af völdum skotelda vegna starfseminnar.


21. gr.

Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar lögreglustjóra, vinnueftirlits og slökkviliðsstjóra.

Um gjald fyrir leyfi til að flytja inn skotelda og endurnýjun þess fer skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Gildistími leyfis skal ekki vera lengri en 5 ár.


22. gr.
Gerðarviðurkenning.

Lögreglustjóranum í Reykjavík er falið að annast eftirlit með að skoteldar standist gæðakröfur, að árita vörureikninga vegna innflutnings og meta hvort merkingar á þeim séu fullnægjandi. Hann gefur jafnframt út leiðbeiningar um lágmarksmerkingar á skoteldum. Við matið skal lögreglustjóri hafa hliðsjón af viðauka sem fylgir reglugerð þessari.

Lögreglustjórinn í Reykjavík getur krafist þess, áður en hann tekur afstöðu til merkinga og gæða skotelda, að innflytjandi og/eða innlendur framleiðandi láti honum í té sýnishorn af fyrirhugaðri söluvöru, sem lögreglustjóri rannsakar eða lætur rannsaka á kostnað þeirra. Ef um er að ræða nýjar tegundir skotelda sem ekki hafa verið fluttar inn áður skulu þær sérstaklega tilgreindar á innflutningsskjölum.

Óheimilt er að flytja inn eða selja eldri skotelda en tveggja ára.


23. gr.
Sérstakar takmarkanir.

Lögreglustjórinn í Reykjavík skal marka reglur um leyfða skotelda hverju sinni og skal þá tekið mið af reynslu fyrri ára um öryggi þeirra. Þær reglur skal hann endurskoða árlega og halda fund með innflytjendum um breytingar á reglum.

Dómsmálaráðuneytinu er heimilt, með umburðarbréfi til allra lögreglustjóra, að takmarka og/eða banna innflutning og sölu á tilteknum tegundum skotelda.


24. gr.
Leyfi til smásölu.

Enginn má selja skotelda í smásölu nema með leyfi lögreglustjóra, enda fullnægi sölustaðir öryggiskröfum skv. 25. gr. Um geymslu á birgðum skal farið samkvæmt 1. mgr. 19. gr. Á sölustöðum er aðeins heimilt að selja skotelda frá þeim sem hafa leyfi til framleiðslu og innflutnings skotelda í atvinnuskyni. Undanskildir eru skoteldar í flokki 1.

Leyfi til smásölu skotelda verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer og tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur sérþekkingu á skoteldum og hefur náð 18 ára aldri. Þeir sem starfa við skoteldasölu skulu hafa náð 18 ára aldri.

Smásöluleyfi má aðeins veita fyrir tímabilið 28. desember til 6. janúar ár hvert og skulu umsóknir um slík leyfi berast lögreglustjóra a.m.k. 4 vikum fyrir áætlað sölutímabil.


25. gr.
Öryggisreglur á sölustöðum.

Um sölustaði skotelda aðra en í flokki 1 gilda eftirfarandi reglur:

1. Sé sölustaður hluti af stærri byggingu skal hann vera sérstakt brunahólf með EI60 veggjum og klæðningu í flokki 1. Hurðir frá sölustað að öðrum hluta byggingar skulu vera EICS60. Staðurinn skal liggja að útvegg með hurð og gluggum á a.m.k. einni hlið. Stærð brunahólfs skal vera af eðlilegri stærð miðað við umfang sölunnar og þar skal ekkert vera sem ekki tilheyrir sölustarfseminni. Sölustaður skal vera á jarðhæð byggingar.
2. Heimilt er að leyfa sölu úr stakstæðum timburskúrum eða stálgámum, ef stærð þeirra er a.m.k. 25 fermetrar og þar séu að jafnaði óverulegar birgðir. Þeir mega þó ekki vera nær næstu byggingu en 15 metra.
3. Sé birgðageymsla tengd sölustað skal hún vera aðskilin frá honum með vegg EI60 og allar klæðningar skulu vera í flokki 1. Hurðir í slíkum vegg skulu vera EICS30.
4. Sölustaðir skulu hafa dyr sem liggja beint út undir bert loft. Hurðir skulu opnast út, vera með pumpum og opnast án þess að snúa þurfi hurðahúnum, þ.e. að nóg sé að ýta á þær innan frá eða toga í handfang utan frá.
5. Ekki er heimilt að vera með laustengd ljós ("hunda") á sölustöðum. Um raflagnir vísast að öðru leyti til úttektar slökkviliðsstjóra.
6. Öll meðferð með opinn eld og reykingar eru bannaðar á sölustöðum og skulu varnaðarskilti þar um vera áberandi bæði innan sem utan dyra.
7. Ganga skal frá stórum skoteldum á sölustað þannig að þykkt plast sé fyrir framan hillur og magni stillt í hóf.
8. Á sölustöðum skulu vera handslökkvitæki og annar slökkvibúnaður, sem slökkviliðsstjóri mælir fyrir um.
9. Öll sala skotelda er óheimil utan þeirra sölustaða sem slökkviliðsstjóri hefur skoðað og lögreglustjóri samþykkt.
10. Sölustaðir skulu tengdir vaktstöð, vaktaðir allan sólarhringinn eða öryggi tryggt með öðrum fullnægjandi hætti að mati lögreglustjóra.
11. Lögreglustjóri getur hafnað umsókn um sölustað ef staðsetning skapar hættu fyrir umferð eða af öðrum sérstökum aðstæðum.


26. gr.
Umsókn um smásöluleyfi.

Umsókn um smásöluleyfi skv. 24. gr. skal beina til lögreglustjóra undirritaðri af forráðamanni fyrirtækis eða félagasamtaka og áritaðri af ábyrgðarmanni ef hann er annar en forráðamaður. Í umsókn skal greina frá eftirfarandi:

1. Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi félags.
2. Staðsetningu sölustaðar.
3. Fullu nafni, kennitölu og heimilisfangi ábyrgðarmanns.

Umsókn skal fylgja vottorð vátryggingafélags um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns á munum vegna skotelda á sölustað og vottorð slökkviliðsstjóra um sölustaðinn.


27. gr.
Leyfi til útflutnings.

Að undanskildum skoteldum í flokki 1 má enginn flytja skotelda úr landi nema með leyfi ríkislögreglustjórans. Aðeins má flytja út skotelda, sem lögreglustjórinn í Reykjavík hefur samþykkt til notkunar hér á landi.


28. gr.
Umsókn um útflutningsleyfi.

Í umsókn um leyfi til útflutnings skal greina eftirfarandi:

1. Nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda.
2. Staðsetningu birgðastöðvar.
3. Nafn og heimili kaupanda eða viðtakanda.
4. Tegund, gerð og magn þess sem fyrirhugað er að flytja út.
5. Flutningsmáta og brottfarardag.

Umsókn skal fylgja vottorð vátryggingafélags um ábyrgðartryggingu vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns á munum vegna skotelda sem flytja á út og vottorð slökkviliðsstjóra um birgðastöð.


29. gr.
Skyldur útflytjanda.

Útflytjandi skal geyma skotelda við fullnægjandi aðstæður að mati lögreglustjóra að því er varðar öryggi svo sem gegn þjófnaði, innbrotum, eldsvoða og svo framvegis. Þar sem ekki er sólarhringsvakt skal birgðageymsla tengd eftirlitsmiðstöð. Um varðveislu og flutning á sprengjanlegum efnum, svo sem púðri fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um sprengiefni og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.

Framvísa skal útflutningsleyfi til tollayfirvalda.


30. gr.
Sérstök notkun skotelda.

Þeir sem nota skotelda við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar skulu sækja um sérstakt leyfi til lögreglustjóra fyrir slíkri notkun. Öðrum en þeim sem hafa þannig leyfi er óheimilt að nota skotelda, að undanskildum skoteldum í flokki 1, til slíkrar starfsemi.

Um skotelda sem ætlaðir eru til framangreindra nota gilda ákvæði reglugerðarinnar eftir því sem við á.


31. gr.
Eyðing skotelda.

Öllum skoteldum, sem vegna galla, aldurs, eða af öðrum ástæðum teljast hættulegir skal eytt. Söluaðilum skotelda er skylt að taka á móti skoteldum til eyðingar, sem þeir hafa sannanlega selt, ef kaupandi óskar þess. Framleiðandi og/eða innflytjandi skal bera kostnað af eyðingu skotelda.

Tilkynna skal lögreglustjóra um fyrirhugaða eyðingu, sem eftir atvikum ákveður hvar og hvenær hún fer fram að höfðu samráði við heilbrigðisnefnd og slökkviliðsstjóra. Kunnáttumaður sem lögreglustjóri viðurkennir skal annast eyðingu skotelda.


IV. KAFLI
Skráning, eftirlit og refsingar.
32. gr.
Skráning.

Ríkislögreglustjórinn skal halda skrá um þau félög sem hafa leyfi til að framleiða og flytja inn skotelda í atvinnuskyni og lögreglustjórar um þau fyrirtæki og félagasamtök sem hafa fengið leyfi til smásölu á skoteldum og um fjölda sölustaða. Lögreglustjórar skulu senda ríkislögreglustjóranum afrit af öllum leyfum sem gefin eru fyrir skoteldasýningum og smásölu skotelda.

Leyfishafar skulu halda birgðabókhald yfir vörur sínar og ráðstöfun þeirra og skal sérstaklega aðgreina sölu á skoteldum í flokki 4.


33. gr.
Eftirlit.

Lögreglustjórar, vinnueftirlit og slökkviliðsstjórar hver í sínu umdæmi, annast eftirlit með framleiðslu og verslun með skotelda. Þeir geta hvenær sem er og án sérstakrar heimildar skoðað húsnæði þar sem skoteldar eru framleiddir og seldir eða þar sem birgðir eru geymdar, meðal annars til að kanna ráðstöfun á skoteldum sem eingöngu eru ætlaðir til skoteldasýninga.

Komi í ljós, að mati lögreglustjóra, að húsnæði eða vörslu skotelda sé ábótavant getur hann til bráðabirgða lagt hald á þá, enda geri hann ríkislögreglustjóranum tafarlaust viðvart um þá framkvæmd.

Ef í ljós kemur að einhver tegund skotelda reynist gölluð eða sérstaklega hættuleg, eftir að sala á henni hefur verið leyfð, getur ríkislögreglustjórinn bannað frekari sölu og krafist þess að birgðum verði eytt.


34. gr.
Synjun umsókna.

Komi til greina að synja umsókn samkvæmt reglugerð þessari skal gefa umsækjanda kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sé umsókn samkvæmt reglugerð þessari synjað skal það gert skriflega og skal synjunin rökstudd. Gera skal grein fyrir því að kæra megi synjun til æðra stjórnvalds innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Viðkomandi skal tilkynnt í hverju tilviki hvert æðra stjórnvald er.


35. gr.
Afturköllun leyfa.

Leyfi samkvæmt reglugerð þessari getur leyfisveitandi afturkallað ef ekki teljast lengur fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, leyfishafi hefur ekki farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni eða tæki sem leyfið tekur til.

Leyfisveitanda er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án þess að með mál sé farið samkvæmt reglum stjórnsýslulaga, enda sé hætta á tjóni fyrir menn eða muni.

Um afturköllun leyfis gilda ákvæði 35. gr. vopnalaga nr. 16/1998.


36. gr.
Refsingar.

Brot á reglum varðar sektum eða fangelsi allt að fjórum árum, sbr. VII. kafla vopnalaga nr. 16 frá 25. mars 1998, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.


37. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í vopnalögum nr. 16 frá 25. mars 1998 með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu.

Með reglugerð þessari er felld úr gildi reglugerð um sölu og meðferð skotelda nr. 536 frá 19. desember 1988.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 15. desember 2003.

Björn Bjarnason.
Björn Friðfinnsson.VIÐAUKI

Almenn ákvæði.
Umfang.

Í þessum viðauka reglugerðar um skotelda eru skilgreindar kröfur til þeirra sem mega meðhöndla og nota skotelda, ásamt tilhögun við geymslu þeirra. Viðaukinn fjallar um skotelda til notkunar fyrir almenning, skotelda sem notaðir eru við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar, og skotelda sem notaðir eru í skoteldasýningar.

Gagnkvæmar viðurkenningar.

Þegar sótt er um leyfi til innflutnings á skoteldum skal þess getið ef skoteldar eru framleiddir í samræmi við evrópsk staðladrög eða endanlega evrópska staðla. Sé svo er gert ráð fyrir að þeir uppfylli þær kröfur sem koma fram í reglugerð um skotelda og í viðaukanum.

Skilgreiningar.

Hugtakið skoteldur:
Búnaður eða tæki sem innihalda efni eða efnasambönd sem með íkveikju eða á annan hátt er ætlað að framkalla áhrif í formi ljóss, hljóðs, lofttegunda eða reyks og eru tilkomin vegna efnafræðilegra breytinga. Um er að ræða búnað ætlaðan til skemmtunar, sem inniheldur sprengiefni sem unnt er að brenna og/eða láta springa þannig að slíkt sé sýnilegt og/eða heyranlegt.


Undantekningar:
Undir hugtakið falla ekki sérbúnir skoteldar svo sem neyðarblys og skoteldar hernaðarlegs eðlis. Með því er átt við sérstakan tæknilegan búnað, svo sem merkjablys, annan björgunarbúnað og hernaðartæki, sem eingöngu má nota við æfingar og í neyðartilvikum.

Flokkunarkerfi skotelda.

Skoteldar skulu merktir með flokkanúmeri eftir því sem við verður komið. Þeim er skipt í flokka 1-3 sem seldir eru til almennings og flokk 4 sem eingöngu sérfræðingum er heimilt að meðhöndla.

Skoteldar í flokki 1:

Skoteldar sem skapa litla hættu og eru án aldurstakmarkana notenda og notaðir eru á afmörkuðum svæðum, þ.m.t. skoteldar sem ætlaðir eru til nota innanhúss og má nota allan ársins hring.

Þegar þessir skoteldar eru notaðir samkvæmt leiðbeiningum ættu þeir ekki að valda meiðslum á fólki sem stendur í 1 m fjarlægð eða meira frá þeim, né valda skemmdum á eignum. Gerðir 1F, 1G og 1I má einungis selja á viðurkenndum sölustöðum.

Tafla 1. Skoteldar í 1. flokki
Gerð
Heiti Lýsing Meginverkun Sérstakar athugasemdir
1A
"Knalletta" Bóla af höggnæmu púðri inni í hylki sem er ekki úr málmi Hvellur Gjarnan notað í "leikfangabyssur"
1B
Reykbomba Inniheldur sprengiefni sem myndar mikinn reyk við bruna Reykmyndun Sala bönnuð til almennings
1C
Innisprengja Má halda á, springur við að toga í spotta Hvellur, og bréfræmur geta skotist út Til notkunar innandyra
1D
Borðsprengja Pappahylki með smádóti, springur við að tendra kveik Hvellur, bréfræmur og / eða smáhlutir skjótast út Til notkunar innandyra
1E
Hvellkúla Kúla [úr pappír] með höggnæmu púðri Hvellur heyrist þegar kúlunni er fleygt [á harðan flöt] Innflutningur bannaður
1F
Skrauteldspýta Smáspýta (flís) húðuð sprengiefni að hluta, haldið á og kveikt í með stroku Neistar og/eða áberandi logi
1G
Stjörnuljós Vír, húðaður sprengiefni að hluta, haldið í óhúðaðan enda Neistaflug Lengd vírs 40 cm eða styttri. Innflutningur fosfórstjörnuljósa bannaður
1H
Knall Tvær samtengdar ræmur úr pappa eða pappír, inni í pappírshólki. Springur ef togað er í ræmurnar Hvellur, og smáhlutir koma út úr hólkinum Til notkunar innandyra
1I
Snákur Inniheldur sprengiefni sem blæs út við bruna Púðurleifar þenjast út líkt og blásið sé í blöðru

Skoteldar í flokki 2:

Skoteldar sem henta til notkunar utanhúss í húsagörðum eða á minni svæðum. Um er að ræða skotelda sem skapa litla hættu og ætlaðir eru til nota utandyra á afmörkuðum svæðum. Ekki er heimilt er að selja 12-16 ára gerðir 2D, 2E og 2J.

Þegar þessir skoteldar eru notaðir samkvæmt leiðbeiningum ættu þeir ekki að valda meiðslum á fólki sem stendur í 5 m fjarlægð eða meira frá þeim og þeir ættu ekki að valda skemmdum á eignum.

Slokkna skal í hvers konar brennandi eða rauðglóandi efni, sem fellur í meira en 3 m fjarlægð frá notkunarstað, áður en það hefur fallið niður í 3 m hæð yfir jörðu.

Hvers konar leifar, að undanteknum pappír, pappa og frauðplasti, sem skjótast meira en 3 m til hliðar frá skoteldi, mega ekki vera þyngri en 1,0 g, ef prik frá flugeldum eru undanskilin.

Tafla 2. Skoteldar í 2. flokki
Gerð
Heiti Lýsing Meginverkun Sérstakar athugasemdir
2A
Púðurkerling Einföld pípa með púðri skipt í nokkur hólf, eða samtengdar smápípur (mest 1½" x ¼") Nokkrir litlir hvellir, stundum brak eða ljós með Sala bönnuð á púðurkerlingum með stærri pípum
2B
Gos Einfaldur hólkur sem inniheldur sprengiefni Samfelldur logi, neistaflug og/eða eldglæringar með eða án hávaða
2C
Skotblys Einfaldur hólkur (utanmál að hámarki ½") sem inniheldur skoteldseiningu/ar og knýhleðslu/r Ein eða fleiri skoteldseiningar skjótast í röð út úr hólkinum og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða fjarri skothólkinum
2D
Skotkaka Samtengdir hólkar sem kveikt er í á jörðu. Hver hólkur inniheldur eina eða fleiri knýhleðslur og skoteldseiningar Skoteldseiningarnar skjótast upp, dreifast mikið, og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða Ekki heimilt að selja til 12-16 ára. Bannað er að selja skotkökur sem hafa enga aðra virkni en sprengingar
2E
Snúningssól Inniheldur sprengiefni og er ætlað að snúast um fastan punkt Neglt á flöt. Snúningur, neistaflug og eldglæringar með eða án hávaða Ekki heimilt að selja til 12-16 ára. Sala er bönnuð til almennings á snúningssólum stærri en 20 cm
2F
Flugeldur Sjálfknúinn, með priki/-um (eða stýrivængjum) til að stýra flugi Flýgur upp, þá getur heyrst hvellur og/eða skoteldseiningar skjótast út og mynda eldglæringar og/eða hávaða
2G
Þyrla/Snælda Sjálfknúið, lyftir sér til flugs eða skoppar á jörðu Snúningur og flug/skopp, eldglæringar með eða án hávaða
2H
Garðstjörnuljós Vír húðaður sprengiefni að hluta, ætlaður til að stingast í jörðu eða hengjast upp Neistaflug
2I
Stjörnuljós Vír húðaður sprengiefni að hluta, haldið í óhúðaðan enda Neistaflug Innflutningur fosfórstjörnuljósa bannaður
2J
Handblys Einfaldur hólkur með sprengiefni eða skoteldseiningum. Tréskaft á öðrum enda, og er haldið um það Neistaflug, bjartur logi eða nokkrar fljúgandi eldkúlur Ekki heimilt að selja til 12-16 ára
2X
Samsettur skoteldur Samstæða gerð úr mörgum einingum sem tilgreindar eru undir 2B, 2C, 2E og 2G með einum kveik Eins og getið er varðandi einstakar einingar Eins og getið er varðandi einstakar einingar

Skoteldar í flokki 3:

Skoteldar sem henta til notkunar á stórum opnum svæðum. Um er að ræða skotelda sem skapa nokkra hættu og má eingöngu nota utandyra á vel opnum svæðum. Þá er óheimilt að selja yngri en 16 ára.

Þegar þessir skoteldar eru notaðir samkvæmt leiðbeiningum ættu þeir ekki að valda meiðslum á fólki sem stendur í 25 m fjarlægð eða meira. Þeir sem nota slíka skotelda ættu að klæðast viðeigandi hlífðarbúnaði.

Slokkna skal í hvers konar brennandi eða rauðglóandi efni, sem fellur í meira en 20 m fjarlægð frá notkunarstað, áður en það hefur fallið niður í 3 m hæð yfir jörðu.

Hvers konar leifar, að undanteknum pappír, pappa og frauðplasti, sem skjótast meira en 20 m til hliðar frá skoteldi, mega ekki vera þyngri en 1,0 g, ef prik frá flugeldum eru undanskilin.

Tafla 3. Skoteldar í 3. flokki
Gerð
Heiti Lýsing Meginverkun Sérstakar athugasemdir
3A
Kínverji Einföld pípa sem inniheldur [byssu]púður Einn hvellur Allur innflutningur bannaður
3B
Gos Einfaldur hólkur sem inniheldur sprengiefni Samfelldur logi, neistaflug og/eða eldglæringar með eða án hávaða
3C
Skotblys Einfaldur hólkur sem inniheldur skoteldseiningu/ar og knýhleðslu/r Ein eða fleiri skotelds-einingar skjótast í röð út úr hólkinum og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða fjarri skothólkinum Sala bönnuð til almennings á skotblysum með hólkvídd meiri en 1,5" að innanmáli
3D
Skotkaka Samtengdir hólkar sem kveikt er í á jörðu. Hver hólkur inniheldur eina eða fleiri knýhleðslur og skoteldseiningar Skoteldseiningarnar skjótast upp, dreifast mikið, og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða Sala bönnuð til almennings á skotkökum með hólkvídd meiri en 2" að innanmáli, og yfir 25 kg að þyngd. Bannað er að selja skotkökur sem hafa enga aðra virkni en sprengingar, eða hafa tvo eða fleiri kveikjuþræði
3E
Snúningssól Inniheldur sprengiefni og er ætlað að snúast um fastan punkt Neglt á flöt. Snúningur, neistaflug og eldglæringar með eða án hávaða Sala er bönnuð til almennings á snúningssólum með þvermál stærra en 20 cm
3F
Flugeldur Sjálfknúinn hólkur, með priki/-um (eða stýri-vængjum) til að stýra flugi Flýgur upp, þá getur heyrst hvellur og/eða skoteldseiningar skjótast út og mynda eldglæringar og/eða hávaða Sala bönnuð til almennings á flugeldum með meira þvermál (hólkur/ kúla) en 80 mm að utanmáli
3G
Tívolíbomba Kúla eða sívalningur sem ætlað er til að skjóta upp úr hólki (innanmál 4" eða minna) og inniheldur knýhleðslu, sprengiþráð með töf, sprengjara og skoteldseiningar. Kúla og hólkur getur verið samstæða Bomban skýst upp úr hólkinum, springur og skoteldseining/ar skýst/skjótast út og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða Innflutningur á bombum sem skotið er upp úr minni hólkum en 3" er bannaður. Öll sala til almennings er bönnuð
3X
Samsettur skoteldur Samstæða með mörgum þeim einingum sem tilgreindar eru undir 3B til 3F með einum kveik Eins og getið er varðandi hinar einstöku einingar

Skoteldar í flokki 4:

Skoteldar sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings. Um er að ræða skotelda sem geta skapað mikla hættu, eru eingöngu til notkunar á flugeldasýningum og ætlaðir eru til nota í umsjá sérfræðinga á sviði skotelda sem hlotið hafa viðurkenningu sem skotstjórar, eða skoteldar sem henta ekki af öðrum ástæðum til almenningsnota.

Tafla 4. Skoteldar í 4. flokki
Gerð
Heiti Lýsing Meginverkun Sérstakar athugasemdir
4A
Kínverji Einföld pípa sem inniheldur byssupúður Hvellur Allur innflutningur bannaður
4B
Gos Einfaldur hólkur sem inniheldur sprengiefni Samfelldur logi, neistaflug og/eða eldglæringar með eða án hávaða
4C
Skotblys Einfaldur hólkur sem inniheldur skoteldseiningu/ar og knýhleðslu/r Ein eða fleiri skotelds-einingar skjótast í röð út úr hólkinum og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða fjarri skothólkinum Hólkvídd meiri en 1,5" að innanmáli
4D
Skotkaka Samtengdir hólkar sem kveikt er í á jörðu. Hver hólkur inniheldur eina eða fleiri knýhleðslur og skoteldseiningar Skoteldseiningarnar skjótast upp, dreifast mikið, og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða Hólkvídd meiri en 2" að innanmáli, eða þyngd yfir 25 kg eða tveir eða fleiri kveikiþræðir
4E
Snúningssól Búnaður með sprengiefni sem ætlað er að snúast um fastan punkt Neglt á flöt. Snúningur, neistaflug og eldglæringar með eða án hávaða Meiri en 20 cm að þvermáli
4F
Flugeldur Sjálfknúinn hólkur, með priki /-um (eða stýrivængjum) til að stýra flugi Flýgur upp, þá getur heyrst hvellur og/eða skoteldseiningar skjótast út og mynda eldglæringar og/eða hávaða Sala bönnuð til almennings á flugeldum með meira þvermál (hólkur/kúla) en 80 mm að utanmáli
4G
Tívolíbomba Kúla eða sívalningur sem ætlað er til að skjóta upp úr hólki og inniheldur knýhleðslu, sprengiþráð með töf, sprengjara og skoteldseiningar. Kúla og hólkur getur verið samstæða Bomban skýst upp úr hólkinum, springur og skoteldseining/ar skýst/ skjótast út og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða
4H
Kínverjabelti Margar samtengdar pípur (stærri en 1½" x ¼") sem innihalda púður Margir hvellir, jafnvel tugir þúsunda
4I
Kveikibúnaður Rafkveikihetta, tefjari, kveikiþráður, kveikiblys o.fl. Til tenginga í flugeldasýningum o.fl.
4X
Samsettur skoteldur Samstæða með mörgum þeim einingum sem tilgreindar eru undir 4B til 4F með einum kveik Eins og getið er varðandi hinar einstöku einingar

Merkingar á skoteldum og umbúðum.

Á umbúðum skotelda skulu koma fram ítarlegar upplýsingar um framleiðanda, innflytjanda eða söluaðila, svo sem þekkt vörumerki eða nafn, heimilisfang og símanúmer. Ef framleiðandi er utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu koma fram upplýsingar um innflytjanda skotelda á svæðið.

Skoteldar og sölupakkningar skulu merktar með viðeigandi upplýsingum, annars vegar viðvörunum vegna hættu sem getur stafað af skoteldi svo sem að ekki skuli haldið á hlutnum og svo framvegis. Hins vegar leiðbeiningum um notkunina svo sem að haldið skuli á hlut með útréttum handlegg og svo framvegis.

Viðvaranir og leiðbeiningar skulu vera skýrar og læsilegar og á einlitum grunni. Þær skulu vera í sama ramma á merkimiða eða sýnilegar saman. Gætt skal samræmis við merkingar á mismunandi umbúðum skotelda.

Merkingar á skoteldum og umbúðum skulu vera á íslensku máli.

Merkingar eftir flokkum.
Flokkur 1

Allir skoteldar og sölueiningar sem innihalda aðeins skotelda í flokki 1, skulu merkt með eftirfarandi texta: "SKOTELDAR SEM VALDA LÍTILLI HÆTTU".

Flokkur 2

Allir skoteldar og sölueiningar sem innihalda aðeins skotelda í flokki 2 skulu merkt með eftirfarandi texta: "SKOTELDAR TIL NOTKUNAR UTANHÚSS" og "Bannað að selja til yngri en 16 ára" (fyrir 2D, 2E, 2J).

Flokkur 3

Allir skoteldar og sölueiningar sem innihalda aðeins skotelda í flokki 3 skulu merkt með eftirfarandi texta: "ÖFLUGIR SKOTELDAR". Á skoteldum í flokki 3 skal vera eftirfarandi viðvörun: "Hætta – eingöngu til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum", "Bannað að selja til yngri en 16 ára".

Flokkur 4

Á skoteldum í flokki 4 og á pakkningum sem innihalda þannig skotelda skal vera eftirfarandi viðvörun: "EKKI HEIMILT AÐ SELJA ALMENNINGI OG ALMENNINGI EKKI HEIMILT AÐ NOTA". Einnig skal merkja með viðeigandi innihaldslýsingu, viðvörunum og leiðbeiningum um notkun.

Aðrar merkingar á skoteldum.

Tafla 5
Merking Heiti gerðar Gerðir skotelda
Aðvörun – Innisprengja
Haldið með útréttri hendi, beinið frá líkamanum og togið í spottann með hinni hendinni.
Innisprengja 1C
Aðvörun – Borðsprengja
Látið borðsprengjuna standa upprétta á diski. Tendrið kveikinn og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Borðsprengja 1D
Aðvörun – Stjörnuljós
Notist utandyra. Kveikið í endanum með eldspýtu. Haldið í útréttri hendi, fjarri fötum og eldfimum efnum
Stjörnuljós 1G, 2I
Aðvörun – Púðurkerling
Notist aðeins utandyra á opnu svæði. Tendrið kveikinn með útréttri hendi og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Púðurkerling 2A
Aðvörun – Gos
Notist aðeins utandyra. Látið standa á sléttum fleti. Tendrið kveikin og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Gos 2B, 3B
Aðvörun – Handblys
Notist aðeins utandyra. Haldið hér (um skaftið) með útréttri hendi, tendrið kveikinn og beinið frá líkamanum. Geymist á öruggum stað.
Handblys 2J
Aðvörun – Skotkaka
Notist aðeins utandyra. Skýtur eldkúlum og neistaregni. Standi á þurrum og sléttum fleti á opnu svæði. Tendrið kveikinn og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Skotkaka 2D, 3D, 3X
Aðvörun – Skotkassi / Risaskotkaka
Kassinn standi utandyra á þurrum og sléttum fleti á rúmgóðu opnu svæði. Öryggisfjarlægð 25 metrar. Tendrið kveikinn og víkið strax frá áður en eldkúlur og neistaregn skjótast upp. Aðeins fyrir fullorðna, 18 ára og eldri. Geymist á öruggum stað.
Skotkaka 3D, 3X
Aðvörun – Skotblys / Standblys
Notist aðeins utandyra. Skýtur eldkúlum og neistaregni. Festið örugglega eða stingið kveiklausa endanum vel í jörðu. Tendrið kveikinn og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Skotblys 2C, 3C
Aðvörun – Sól
Notist aðeins utandyra. Festið alls ekki á eldnæmt efni. Tendrið kveikinn með útréttri hendi og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Sól 2E, 3E
Aðvörun – Flugeldur
Skjótið flugeldinum utandyra úr stöðugri undirstöðu. Tendrið kveikinn með útréttri hendi og víkið strax frá. Geymist á öruggum stað.
Flugeldur 2F, 3F
Aðvörun – Þyrla / Smáflugeldur
Notist aðeins utandyra. Leggið þyrluna á þurran flöt á opnu svæði. Tendrið kveikinn og víkið frá áður en þyrlan flýgur upp í loftið. Geymist á öruggum stað.
Þyrla 2G
Aðvörun – Snælda / Smáflugeldur
Notist aðeins utandyra. Leggið snælduna á þurran flöt á opnu svæði. Tendrið kveikinn og víkið frá áður en snældan skoppar af stað eftir jörðinni. Geymist á öruggum stað.
Flugeldur 2G

Skoðun á skoteldum.

Lögreglustjóra er heimilt að taka skotelda á markaði til skoðunar/prófunar og meta öryggi þeirra við gerðar kröfur. Ekki þarf að vera rökstuddur grunur um frávik frá gerðum kröfum svo að slík skoðun/prófun verði framkvæmd.

Bannlisti.

Eftirfarandi tafla sýnir gerðir skotelda á bannlista og er óheimilt að flytja inn, framleiða eða eiga þær nema með sérstöku leyfi lögreglustjórans í Reykjavík. Hann skal marka reglur um leyfða skotelda hverju sinni og skal þá tekið mið af reynslu fyrri ára um öryggi þeirra. Auk eftirtalinna gerða heldur hann bannlista yfir einstakar framleiðslueiningar sem sérstök ástæða hefur þótt til að takmarka eða banna sölu á. Þessar reglur skal endurskoða árlega og getur lögreglustjórinn í Reykjavík bætt gerðum og framleiðslueiningum á bannlista, eða fellt út.

Gerð Heiti Athugasemdir
1B Reykbomba Sala bönnuð til almennings
1E Hvellkúla Allur innflutningur bannaður
1G, 2I Stjörnuljós Innflutningur bannaður á fosfórstjörnuljósum
2K Handblys Innflutningur á handblysum skal ávallt sæta gerðarprófun
3A, 4A Kínverji Allur innflutningur bannaður
3G, 4G Tívolíbomba Allur innflutningur á minni en 3" bombum bannaður


Geymsla skotelda.

Geymslustaðir skotelda eru háðir úttekt og samþykki, eftir því sem við á, lögreglustjóra, vinnueftirlits og slökkviliðsstjóra.

Geymslur skotelda skulu þannig gerðar, innréttaðar og staðsettar að ekki skapist sérstök hætta á bruna eða sprengingu og að tryggt sé að skoteldar komist ekki í hendur óviðkomandi.

Gerð er sú krafa að húsnæði eða aðstaða þar sem skoteldar eru geymdir uppfylli viðunandi skilyrði um öryggi. Við mat á öryggi og nauðsynlegum öryggisfjarlægðum skulu eftirlitsaðilar, sbr. 1. mgr., taka mið af magni og vöruflokkum sem ætlunin er að hafa í viðkomandi geymslu. Við úttekt skal tekið mið af viðurkenndum stöðlum eða leiðbeiningum frá Brunamálastofnun um eldvarnir.

Óheimilt er að umpakka skoteldum á geymslustað eða stunda þar aðra starfsemi. Bannað er að geyma skotelda í flokki 4 með öðrum skoteldum.

Ekki þarf sérstakt leyfi fyrir geymslu óverulegs magns skotelda í heimahúsum dagana 28. desember til 6. janúar enda heimil sala og notkun skotelda til almennings.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica