Landbúnaðarráðuneyti

665/2001

Reglugerð um viðbrögð við smitsjúkdómum.

I. KAFLI
Gildissvið og tilgangur.
1. gr.

Reglugerð þessi gildir um tilkynningaskylda sjúkdóma sem skilgreindir eru í viðauka 1 A og B í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og nýja, áður óþekkta smitsjúkdóma hér á landi.

Undanskildir eru þó sjúkdómar sem fjallað er um í reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.


2. gr.

Tilgangur þessarar reglugerðar er að bregðast við, hindra útbreiðslu og útrýma smitsjúkdómum er kunna að berast til landsins.


II. KAFLI
Orðskýringar.
3. gr.
Bannsvæði

: Ákveðið afmarkað svæði eða íverustaður dýra þar sem rökstuddur grunur er um að eitt eða fleiri dýr séu haldin smitsjúkdómi sem þessi reglugerð nær yfir. Í hesthúsahverfum nær bannsvæði a.m.k. yfir sambyggð hesthús.

Fulltrúi héraðsdýralæknis: Eftirlitsdýralæknir eða vakthafandi dýralæknir.

Eftirlitssvæði: Nær a.m.k. 10 km út frá bannsvæði til allra átta. Þegar ákvörðun er tekin um stærð svæðis skal taka tillit til landfræðilegra þátta og aðstöðu til eftirlits.

Nýir, áður óþekktir sjúkdómar: Alvarlegir smitsjúkdómar sem aldrei hafa komið upp hérlendis. Þeir geta þótt vægir erlendis en alvarlegir hérlendis vegna einangrunar búfjár.

Smitberar: Dýr sem bera með sér og dreifa smitefni ákveðins sjúkdóms. Duldir eða heilbrigðir smitberar veikjast ekki sjálfir.

Smitnæm dýr: Dýr sem geta tekið ákveðinn sjúkdóm.

Verndarsvæði: Nær a.m.k. 3 km út frá bannsvæði til allra átta. Þegar ákvörðun er tekin um stærð svæðis skal taka tillit til landfræðilegra þátta og aðstöðu við eftirlit.

Heimavegur: Vegur innan ákveðins svæðis, eingöngu notaður af umráðamanni tilgreindrar hjarðar á eigin landi.


III. KAFLI
Almenn ákvæði.
4. gr.

Bannað er að bólusetja við smitsjúkdómum í viðauka 1 A og skal þeim útrýmt með niðurskurði. Við smitsjúkdómum í viðauka 1 B skal brugðist við eftir því sem við á hverju sinni, samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis.

Komi upp grunur um smitsjúkdóm sem reglugerð þessi tekur til má koma á eftirfarandi svæðaskiptingu: a) bannsvæði, sbr. 9. gr., b) verndarsvæði, sbr. 10. gr. og c) eftirlitssvæði, sbr. 11. gr.

Sýni vegna sjúkdómsgreiningar skal senda til rannsóknastofu sem viðurkennd er af yfirdýralækni. Niðurstaða rannsóknastofunnar skal staðfest af yfirdýralækni.


IV. KAFLI
Tilkynningar og viðbrögð.
5. gr.

Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi ber án tafar að tilkynna það dýralækni eða lögreglu. Eigendur og umráðamenn dýra bera sérstakar skyldur í þessu tilviki. Dýralæknir eða lögregla skal án tafar tilkynna næsta héraðsdýralækni eða yfirdýralækni um gruninn.


6. gr.

Ef tilkynntur er grunur um smitsjúkdóm skal héraðsdýralæknir eða fulltrúi hans fara strax á staðinn. Hann skal tafarlaust gera ráðstafanir til að fá sjúkdóminn greindan og hindra útbreiðslu hans í samráði við smitsjúkdómanefnd í stjórnstöð. Yfirdýralæknir gefur út viðbragðsáætlun sem héraðsdýralæknar vinna eftir.


V. KAFLI
Stjórnstöð og smitsjúkdómanefnd.
7. gr.

Aðsetur stjórnstöðvar skal vera á þeim stað sem yfirdýralæknir ákveður hverju sinni. Hann skal einnig segja til um hvers konar útbúnaður er nauðsynlegur í stjórnstöð. Yfirdýralæknir stýrir viðbrögðum og útrýmingu smitsjúkdóma á landsvísu.

Ráðherra setur reglur og fyrirmæli, að fenginni tillögu yfirdýralæknis, um hverjar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru hverju sinni.

Yfirdýralæknir skal sjá um öll samskipti við fjölmiðla og útgáfu fréttatilkynninga.


8. gr.

Komi upp grunur um alvarlegan smitsjúkdóm skipar landbúnaðarráðherra þriggja manna smitsjúkdómanefnd sem skal vera yfirdýralækni til ráðgjafar og aðstoðar. Í nefndinni skulu sitja eftirfarandi sérfræðingar: Sérgreinadýralæknir viðkomandi dýrategundar, sérfræðingur á greiningarstöð og sérfræðingur í örverufræði/faraldsfræði.

Þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um smitsjúkdóm skal yfirdýralæknir kalla saman smitsjúkdómanefnd í stjórnstöð. Hún skal stjórna viðbrögðum og aðgerðum samkvæmt viðbragðsáætlun.

Ef um er að ræða alvarlegan smitsjúkdóm í fiskum, skeldýrum og krabbadýrum skal fisksjúkdómanefnd gegna hlutverki smitsjúkdómanefndar, en hún er skipuð skv. lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.


VI. KAFLI
Svæðaskipting.
9. gr.
Bannsvæði:

Um leið og tilkynnt er að grunur leiki á smiti skal landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum yfirdýralæknis ákveða bannsvæði og sjá til þess að það sé undir opinberu eftirliti og sérstaklega krefjast þess að:

1. Talin séu og staðsett öll smitnæm dýr og þau höfð í húsum sínum eða annars staðar þar sem hægt er að einangra þau, samkvæmt mati héraðsdýralæknis eða fulltrúa hans.
2. Engin smitnæm dýr eða hugsanlegir smitberar komi á bannsvæðið eða fari þaðan brott.
3. Engar aðrar dýrategundir komi á bannsvæðið eða fari þaðan án leyfis yfirdýralæknis.
4. Allur brottflutningur á kjöti eða skrokkum smitnæmra dýra eða dýrafóðurs, áhöldum, hlutum eða öðrum efnum eins og ull, sorpi eða öðrum úrgangi, sem geta borið með sér smitefni, verði bannaður án leyfis yfirdýralæknis.
5. Flutningur mjólkur frá bannsvæði verði óheimill án leyfis yfirdýralæknis. Slíkt leyfi skal því aðeins gefa að mjólkin verði flutt frá bannsvæðinu undir eftirliti dýralæknis í mjólkurbú, þar sem vinnsla fer fram, svo hún fái hitameðferð sem tryggir eyðingu smitefnis.
6. Ferðir fólks inn og út af bannsvæði verði háðar leyfi yfirdýralæknis.
7. Koma og brottför ökutækja til og frá bannsvæði verði háð leyfi yfirdýralæknis sem setur nauðsynleg skilyrði til að koma í veg fyrir smitdreifingu.
8. Notaðar verði viðeigandi sótthreinsiaðferðir og viðurkennd sótthreinsiefni við inn- og útgönguleiðir húsa.
9. Dýrafarsóttarfræðileg athugun fari fram á bannsvæðinu.
10. Viðhalda skal þeim varúðarráðstöfunum sem gerðar eru á bannsvæðinu þar til staðfest hefur verið af yfirdýralækni að hætta á smitsjúkdómi sé ekki lengur til staðar.


10. gr.
Verndarsvæði:

Eftirfarandi ráðstafanir skulu gerðar á verndarsvæðinu:

1. Telja skal og staðsetja öll smitnæm dýr á verndarsvæðinu og heilbrigðisskoða þau reglulega, samkvæmt nánari ákvörðun yfirdýralæknis.
2. Banna að flytja smitnæm dýr á þjóðvegum eða einkavegum, að undanskildum heimavegum svæðisins.
3. Banna að flytja smitnæm dýr frá verndarsvæði a.m.k. fyrstu 15 dagana eftir skilgreiningu þess, nema undir opinberu eftirliti beint til neyðarslátrunar í sláturhús sem yfirdýralæknir tilnefnir. Yfirdýralæknir getur einungis heimilað slíka flutninga eftir að opinber dýralæknir hefur skoðað öll smitnæm dýr á svæðinu og gengið úr skugga um að sýkt dýr séu ekki til staðar.
4. Sæðing skal bönnuð a.m.k. fyrstu 15 dagana eftir skilgreiningu svæðisins nema hún sé framkvæmd af bóndanum, hafi hann til þess réttindi, með sæði af svæðinu eða sæði sem kemur beint frá sæðingastöð.
5. Réttir og sýningar með smitnæmum dýrum og aðrar samkomur skulu bannaðar.
6. Viðhalda skal þeim ráðstöfunum sem gerðar eru á verndarsvæðinu í a.m.k. 15 daga eftir að öllum smitnæmum dýrum hefur verið fargað og hreinsun og sótthreinsun á svæðinu hefur farið fram samkvæmt mati yfirdýralæknis.


11. gr.
Eftirlitssvæði:

Eftirfarandi ráðstafanir skulu gerðar á eftirlitssvæðinu:

1. Telja skal og staðsetja öll smitnæm dýr á eftirlitssvæðinu.
2. Banna að flytja smitnæm dýr á þjóðvegum nema þegar farið er með þau í og úr bithaga. Slíkir flutingar skulu háðir leyfi héraðsdýralæknis.
3. Flutningur smitnæmra dýra innan eftirlitssvæðis skal háður leyfi yfirdýralæknis.
4. Banna að flytja dýrin frá eftirlitssvæði fyrstu15 dagana. Frá 15. degi og fram að 30. degi er ekki heimilt að flytja dýrin frá svæðinu nema þau séu flutt undir opinberu eftirliti beint í sláturhús til neyðarslátrunar. Yfirdýralæknir getur aðeins heimilað slíkan flutning eftir að opinber dýralæknir hefur framkvæmt skoðun á öllum hlutaðeigandi dýrum og staðfest að ekki leiki grunur á að neitt þeirra sé sýkt.
5. Réttir og sýningar með smitnæmum dýrum og aðrar samkomur skulu bannaðar.
6. Viðhalda skal þeim ráðstöfunum sem gerðar eru á eftirlitssvæðinu í a.m.k. 30 daga eftir að öllum smitnæmum dýrum hefur verið fargað á bannsvæði og hreinsun og sótthreinsun húsa hefur farið fram samkvæmt mati yfirdýralæknis.


VII. KAFLI
Önnur ákvæði.
12. gr.
Með kostnað og bætur sem hljótast af framkvæmd reglugerðar þessarar fer skv. VI. kafla laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum.


13. gr.
Brot á reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.


14. gr.
Reglugerð þessi sem sett er skv. heimild í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 20/1952 um varnir gegn gin- og klaufaveiki, auglýsing nr. 166/1966 um varnir gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, reglugerð nr. 35/1967 um varnir gegn smitandi hringskyrfi á nautgripum og öðrum húsdýrum af völdum sveppa (dermatomycosis), auglýsing nr. 180/1988 um varúðarráðstafanir og aðgerðir vegna hringskyrfis undir Eyjafjöllum, reglugerð nr. 209/1966 um varnir gegn útbreiðslu hundapestar, auglýsing nr. 384/1984 um varúðarráðstafanir í Vestur-Skaftafellssýslu gegn útbreiðslu smitandi búfjársjúkdóma, reglugerð nr. 125/1986 um hænsnahald í búrum og reglugerð nr. 201/1957 um varnir gegn sullaveiki.


Landúnaðarráðuneytinu, 4. september 2001.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica