Landbúnaðarráðuneyti

20/1952

Reglugerð um varnir gegn gin- og klaufaveiki - Brottfallin

R E G L U G E R Ð

um varnir gegn gin- og klaufaveiki.

1. gr.

Sjúkdómsgreining og bráðabirgðasóttkví.

Komi upp sjúkdómur í búfé og leiki grunur á, að um gin- og klaufaveiki sé að ræða, ber hlutaðeigandi bónda, eiganda eða forsjármanni gripanna að gera héraðsdýralækni eða yfirdýralækni viðvart án tafar og helzt símleiðis. Skal dýralæknir þá tafarlaust rannsaka hina grunuðu gripi. Reynist grunurinn réttur, skal dýralaæknir banna, að frá bænum sé flutt búfé, lifandi eða dautt, enn fremur búsafurðir hvers konar. Búanda skal gert að skyldu að sjá um, að fólk fari ekki af heimilinu, nema lífsnauðsyn beri til, og þá eigi nema að hafa skipt um föt og þvegið og sótthreinsað sig vandlega. Enn fremur skal banna brottflutning allra jarðávaxta, alls kálmetis, poka, alls heys og annars fóðurs, og mykju. Heimilisfólk má ekki hafa neinn samgang við gripi frá öðrum bæjum. Húsbónda skal gert ljóst, að hann er ábyrgur fyrir því, að ákvæðum þessum sé fylgt. Enn fremur skal hann sjá um, að hundarnir á bænum séu lokaðir inni eða bundnir. Ketti, hænsni, endur og dúfur skal og loka inni.

Bannað er að flytja hvers konar dýr heim að bænum, og allan samgang við heimilið skal banna. Dýralæknir skal taka nákvæma skýrslu af búanda, um samgang við heimilið og aðflutninga undanfarið. Skal dýralæknir, um leið og hann fer frá bænum, setja spjöld við bæjarhlið, fjós- og fjárhúsdyr, áletruð: "Gin- og klaufaveiki, aðgangur bannaður".

Strax og dýralæknir hefur staðfest sjúkdóminn, skal hann tilkynna það yfirdýralækni og hlutaðeigandi lögreglustjóra, og þær bráðabirgðaráðstafanir, sem hann hefur gert. Enn fremur hlutaðeigandi mjólkursamlagi og þeim, sem flytur mjólk frá bænum. Yfirdýralæknir skal svo fljótt sem auðið er, ganga úr skugga um, hvort sjúkdómsgreining sé rétt.

2. gr.

Um lögreglueftirlit með sóttkví og grunuð svæði.

Strax og örugg vissa er fengin um að gin- og klaufaveiki sé komin upp, skal hlutaðeigandi lögreglustjóri setja heimilið í sóttkví. Skal allur samgangur manna frá bænum við aðra bæi, sem og gripi frá öðrum bæjum, stranglega bannaður, nema brýnasta nauðsyn beri til. Hlutaðeigandi yfirvald skal í samráði við dýralækni þann, sem kallaður hefur verið, og yfirdýralækni, ákveða sem allra fyrst, hve víðtækt svæði kringum hinn smitaða bæ, skuli teljast "grunað svæði". Skal það tilkynnt tafarlaust í útvarpi og birt í blöðum. Á sýktum bæ, ber heimilisfólki skylda til þess að veita allar upplýsingar um, hvaða samgangur hafi verið frá bænum við fólk frá öðrum bæjum eða við skepnur frá öðrum bæjum, og hvort gripir, fóður eða annað, er smit getur borizt með, hafi verið flutt frá bænum vikuna áður en sjúkdómsins varð vart. Við nánari af-mörkun, grunaðs svæðis, skal taka tillit til samgangna, þéttbýlis og landshátta.

3. gr.

Auglýsingar og umferðabann.

Þegar gin- og klaufaveiki hefur orðið vart, skulu án tafar settar upp auglýsingar um sjúkdóminn á afgreiðslum áætlunarbifreiða, í samkomuhúsum, verzlunum, á mjólkurbúum og öðrum stöðum, er þurfa þykir. Skal í þessum auglýsingum einnig tekið fram, hver helztu einkenni sjúkdómsins eru, og hver ráð séu helzt til þess að forðast smitun. Ef nauðsyn þykir bera til er hlutaðeigandi lögreglustjóra heimilt að banna alla umferð um vegi, sem liggja yfir hið grunaða svæði eða nálægt bæ, þar sem sjúkdómsins hefur orðið vart. Við alla vegi, sem liggja frá grunuðum svæðum, skal festa skýrar auglýsingar um, að brottflutningur búfjár og annara húsdýra sé stranglega bannaður.

4. gr.

Um varúðarráðstafanir fólks á grunuðum svæðum og samkomubann.

Fólk sem býr á grunuðu svæði, má ekki fara burt af svæði þessu, nema það hafi áður skipt um föt, yzt sem innst, svo og sokka og skófatnað, og þvegið hendur og andlit rækilega úr sápuvatni. Fólki á svæðinu er enn fremur bannað að, taka þátt í hvers konar samkomum og mannfundum.

Öllum óviðkomandi er bannaður aðgangur inn á grunað svæði, sérstaklega er öllum bannaður aðgangur að gripahúsum. Skólabörn sem búa á svæðinu, mega ekki sækja skóla, fyrr en sjúkdómurinn er um garð genginn, sótthreinsun verið gerð, og sóttkví er aflétt. Nái gin- og klaufaveikin víðtækari útbreiðslu, er ráðuneytinu heimilt að setja á algert samkomubann í þeim landshluta eða héraði.

5. gr.

Um slátrun og flutning á grunuðum svæðum.

Frá grunuðu svæði má einungis flytja gripi beint til slátrunar og eingöngu að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins, í samráði við yfirdýralækni. Skal við flutning þessara gripa hlýta nákvæmlega reglum, sem um það eru settar. Áður en dýr eru flutt af grunuðu svæði til slátrunar, skulu þau skoðuð af dýralækni. Skulu ekki líða meir en 6 tímar frá skoðun dýralæknis þar til gripirnir eru fluttir burt. Skal dýralæknir auðkenna gripina og skrifa vottorð með þeim, þar sem tekið er fram heilbrigðisástand þeirra, auðkenni dýranna, fjöldi o. s. frv. Vottorði skal skila í hlutaðeigandi sláturhús, og skal sláturhússtjóri eða dýralæknir sá, er annast kjötskoðun, undirrita að móttaka dýranna og slátrun hafi átt sér stað og endursenda síðan vottorðið til hlutaðeigandi dýralæknis. Slátrun búfjár af grunuðu svæði má eingöngu fara fram í viðurkenndum sláturhúsum og undir eftirliti dýralæknis, skal hann og hafa eftirlit með sótthreinsun að lokinni slátrun.

Flutningur búfjár af grunuðum svæðum í sláturhús má eingöngu fara fram á sérstökum vörubílum, sem eru þannig yfirbyggðir og lokaðir, að smithætta geti ekki stafað af flutningnum, og að sótthreinsun bílanna sé sem auðveldust.

Saur búfjár og undirburður á bílpalli, skal vandlega hreinsaður af bílnum í sláturhúsinu, og má ekki fara með bílinn frá sláturhúsinu, fyrr en slík sótthreinsun hefur farið fram. Þeir menn, er flutt hafa fénaðinn, skulu sápu-þvo andlit sitt vandlega, og sótthreinsa hendur með 0,2% natronlut (NaOH), skipta um föt, og föt þeirra skulu síðan sótthreinsuð. Frá grunuðu svæði má ekki flytja mjólk, hey, jarðarávexti, grænmeti, mykju, tað, poka eða annað, sem hætta getur stafað af, og bannaður er með öllu flutningur sláturafurða hvers konar, og sé mjólkin notuð á heimilinu til smjörgerðar, skyrgerðar eða ostagerðar, skal hún fyrst hituð upp í 80°C.

Heilbrigðar skepnur má ekki reka yfir grunað svæði, flutningur þeirra má eingöngu fara fram í lokuðum vögnum undir sérstakri gæzlu og án þess að staðar sé numið á hinu grunaða svæði. Hunda, ketti, hænsni, endur og dúfur á grunuðu svæði, skal hafa í strangri vörzlu. Hundar skulu bundnir eða lokaðir inni, kettir og hænsni, endur og dúfur lokaðar inni. Búfjársýningar, uppboð og annað slíkt er bannað á grunuðu svæði.

6.gr.

Um mjólkurflutninga og sótthreinsun mjólkuríláta.

Mjólkurbúum er bannað að senda til bænda ógerilsneydda mjólk, áfir, undanrennu, sýru eða annað, eftir að gin- og klaufaveiki hefur komið upp á mjólkursvæði þess. Ef gin- og klaufaveiki hefur komið á mjólkursvæði mjólkurbús, er það skylda búsins að skola alla mjólkurbrúsa daglega að utan með natronlút, 0,2%, eða að dýfa þeim ofan í sjóðandi vatn, áður en þeir eru sendir aftur heim til bænda. Allir mjólkurvagnar skulu þvegnir vandlega með natrónlút 0,2% áður en farið er með þá frá búinu. Bílstjórar á mjólkurbílum skulu þvo hendur sínar og skófatnað daglega úr 0,2% natrónlút og skipta um vinnufatnað daglega. Ber mjólkurbúinu að sjá bílstjórum fyrir nægum og hentugum vinnufatnaði til þess. Mjólkurpóstar skulu forðast, eftir því sem unnt er, allan samgang við klaufdýr meða gin- og klaufaveiki geisar. Heimilt er að fyrirskipa sótthreinsun brúsa, bíla o. a. á mjólkurbúum, í varúðarskyni, enda þótt gin- og klaufaveiki hafi enn ekki verið staðfest á mjólkursvæðum þess.

Lögreglustjóra er heimilt að ráða sérstaka menn til þess að hafa eftirlit með því, að sótthreinsun á mjólkurbrúsum og mjólkurbílum fari fram svo sem mælt er fyrir, að samgöngubanni við smitaða bæi sé fylgt o. s. frv.

7. gr.

Um gæslu gripa og afnám sóttkvíar.

Sóttkví má ekki leysa fyrr en 6 vikur eru liðnar frá því, er sótthreinsun fór fram á hinum sýkta bæ. Ákvæði er taka til grunaðs svæðis, skulu gilda í 6 vikur eftir að sótthreinsun hefur verið framkvæmd á sýktum bæ. Á meðan sóttkví stendur, skal dýralæknir eða annar trúnaðarmaður ráðuneytisins, sem til er ráðinn, fylgjast með því, að minnsta kosti vikulega, að settum reglum sé fylgt. Hafi settum reglum verið fylgt og sóttkvíunartímabilið er útrunnið, skal tilkynna lögreglustjóra, að aflétta megi sóttkvínni. Ef ógerlegt er vegna fóðurskorts að halda búfé á grunuðum svæðum í húsi, skal hafa það í afgirtum hólfum undir stöðugu eftirliti. Gæta skal þess, að búféð sé ávallt í 2 km fjarlægð frá búfénaði utan grunaðs svæðis. Þeir, sem eftirlit hafa með skepnunum, skulu fylgjast vel með heilsufari þeirra, sérstaklega skal því veitt eftirtekt, hvort nokkur skepna slefar eða er hölt. Komi slík einkenni í ljós, skal yfirvaldi eða dýralækni gert aðvart á tafar. Komi í ljós að um gin- og klaufaveiki sé að ræða, getur ráðherra fyrirskipað að lóga skuli öllu búfé sem í hólfinu er, og halda því síðan lokuðu fyrir öllum búpeningi og umferð allri í þrjá mánuði.

8. gr.

Um meðferð gripa og sótthreinsun, þar sem gin- og klaufaveiki kemur upp.

Strax og staðfest er að gin- og klaufaveiki sé á bænum, skal gera ráðstafanir til þess, að öllum klaufdýrum á bænum verði tafarlaust slátrað, og öllum þeim húsdýrum, er samgang hafa haft við sjúka gripi, hvort sem klaufdýr eru eða ekki, svo sem fuglar. Gripahús, þar sem sjúkar skepnur eru, skulu vera lokuð, einnig skulu gluggar vera lokaðir eða birgðir til varnar því að fuglar, meindýr og minkar komisr inn. Slátrun má eingöngu fara fram á bænum sjálfum, nema sérstakt leyfi landbúnaðarráðuneytisins komi til. Eftir að slátrun hefur farið fram, skulu allir þeir, er unnið hafa að slátrun, þvo sér vandlega, bæði höfuð, handleggi og hendur, skipta um föt, svo og skófatnað og sokka. Föt þau, sem notuð voru við slátrunina, ásamt öðrum áhöldum skulu sótthreinsuð.

Kjöt og sláturafurðir af búfé, sem drepið hefur verið vegna gin- og klaufaveiki, má ekki flytja frá bænum nema með sérstöku leyfi ráðuneytisins. Húðir og lappir skal brenna eða grafa niður, svo og hausa með tungu, og júgur. Skepnur, sem drepast af gin- og klaufaveiki skal grafa niður sem allra fyrst, þannig að hræin verði hulin að minnsta kosti með eins metra þykku moldarlagi. Skulu skepnurnar grafnar með húð og hári, en áður en moldinni er mokað yfir, skal hella yfir hræin natrónlútupplausn, 2%. Sé óframkvæmanlegt að grafa hræin niður skulu þau brennd á tryggilegan hátt.

Hrossum sem ekki hafa átt samgang við hinar sjúku skepnur og ekki hafa verið tekin í hús, þarf ekki að slátra. Sama máli gegnir um hænsni, sem geymd eru í sérstöku húsi. Þegar slátrun er lokið á bænum, skal fara fram allsherjar sótthreinsun á öllum gripahúsum og fóðurgeymslum og öllum þeim áhöldum, sem verið hafa í nánu sambandi við búpening þann, er felldur var og öllum fötum, sem notuð hafa verið við gegningar og annað. Þá skulu enn fremur sótthreinsuð þau herbergi, sem hin sóttmenguðu áhöld og föt hafa verið geymd í. Allir pokar, sem notaðir hafa verið undir fóðurvörur, skulu brenndir eða látnir liggja í natrónlút 0,2% í 4 - 5 daga. Sótthreinsun undir eftirliti dýralæknis, eða sérstaks trúnaðarmanns ráðuneytisins. Skal verkið vandað svo sem frekast er unnt, svo sótthreinsunin sé tryggileg.

Í safnþró skal hella natrónlút 1% eða kalkvatni 5%. Leifar af drykkjuvatni, sem notuð hefur verið handa sjúkum skepnum, skulu sæta sömu meðferð. Ef unnt er skal mykja, þvag og tað frá sjúkum dýrum, ekki hreyft fyrstu 3 mánuðina. Þurfi að aka því á völl, skal mykjan bleytt með natrónlút. Skal leitast við að nota áburðinn í flög, og plægja hann niður jafnharðan. Frá bæ, sem er í sóttkví, má ekki flytja mjólk, hey, jarðarávexti, kál, hálm, poka, tað eða mykju fyrr en rækileg sótthreinsun hefur farið fram á bænum og hann er leystur úr sóttkví. Bannað er að fara með bíla og önnur farartæki út af sýktum heimilum, sömuleiðis er óleyfilegt að nota hesta utan heimilisins.

9. gr.

Varúðarráðstafanir og samgöngur við sýkt heimili.

Túnhlið við heimreið á sýktum bæjum skal vera vandlega lokað (læst) . Á hliðið skal fest greinileg áletrun : "Gin- og klaufaveiki, aðgangur bannaður". Við hliðið skal standa stampur með 0,2% natrónlút, sem skipt skal daglega. Allir sem nauðsynlega þurfa að fara frá heimilinu, skulu þvo þar skófatnað sinn. Póstkassa skal hengja upp utan túnhliðs, svo póstur þurfi ekki að koma heim að bænum. Húsbóndi skal hafa vakandi auga á því, að enginn komi heim að bænum, nema læknar og aðrir, er þangað eiga erindi, vegna gin- og klaufaveiki. Sé reglur þessar brotnar, ber húsbónda að tilkynna það lögreglustjóra, og skal sá er í hlut á kyrrsettur á heimilinu, þar til nauðsynleg sótthreinsun hefur farið fram á fötum hans og farangri. Aðvífandi skepnur, t. d. flækingshundar eða strokuhestar skulu kyrrsettir á bænum og settir í örugga vörzlu. Sé eigi unnt að handsama gripina, skal húsbóndi sjá um, að þeir séu skotnir og hræin grafin svo fljótt sem unnt er. Skulu slíkar aðgerðir tafarlaust tilkynntar lögreglustjóra.

Öllu heimilisfólki er stranglega bannað að fara burt af bænum áður en slátrun og sótthreinsun hefur farið þar fram, nema lífsnauðsyn beri til. Þurfi einhver af heimilisfólkinu að fara af bæ, skal sá hinn sami fyrst skipta um föt og skófatnað og sokka og sápuþvo andlit og hendur. Skólaganga og þátttaka í hvers konar mannfundum, er stranglega bönnuð. Stundi einhver á sýktum bæ vinnu utan heimilisins, eða þurfi heimilið að fá vinnuhjálp fólks frá öðrum bæjum, verða þær manneskjur, sem um er að ræða, annað hvort að taka fast aðsetur á sýkta heimilinu eða vera fjarvistum frá heimilinu meðan á sóttkví stendur.

10. gr.

Um bætur.

Þegar búfé er slátrað vegna gin- og klaufaveiki skal ríkissjóður bæta það sanngjörnu verði. Enn fremur skal ríkissjóður bæta eiganda búfjársins afurðatjón hæfilegan tíma.

Þeim bændum, er mjólkursölu stunda á "grunuðum svæðum", skal bætt það tjón það, er þeir verða fyrir af völdum flutningsbanns á mjólk. Skulu bætur þessar nema þeim mismun, sem er á verðgildi mjólkur til heimavinnslu og til sölu í mjólkurbú, að frádregnum flutningskostnaði mjólkurinnar í mjólkurbú.

Bætur þær, sem um ræðir í þessari grein, skulu ákveðast með mati þriggja manna, sem hæstiréttur tilnefnir, og verður mati þeirra ekki skotið til yfirmats.

Við ákvörðun bóta þessara ber matsmönnum að taka til greina sýkingu búfjárins eða yfirvofandi sýkingarhættu.

11. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt lögum nr. 11 23. apríl 1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, sbr. lög nr. 16 31. jan. 1952, um breyting á þeim lögum.

Reglugerð .þessi er hér með sett samkvæmt lögum nr. 11 23. apríl 1928, um varnir gegn því að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, sbr. lög nr. 16 31. jan. 1952 um breyting á þeim lögum.

Landbúnaðarráðuneytið, 14. febrúar 1952.

Hermann Jónasson.

________________

Gunnlaugur E. Briem.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica