Fjármálaráðuneyti

310/1992

Reglugerð um tollmeðferð póstsendinga - Brottfallin

Reglugerð

um tollmeðferð póstsendingaI.

KAFLI 

 Almenn ákvæði.

1. gr.

Neðangreind hugtök hafa eftirfarandi merkingu samkvæmt reglugerð þessari:

1. Póstsending merkir: hvers konar sending sem send er til eða frá landinu í samræmi við alþjóðlega samninga um póstmál sem Ísland er aðili að.

Smásending merkir: póstsending sem flutt er til eða frá landinu í einu komu- eða sendingarnúmeri og er að tollverðmæti kr. 10.000 eða minna. Slíkar smásendingar má flokka saman í tollskrárnúmerin 9801.0001 til 9801.0009 þegar um innflutning er að ræða en í tollskrárnúmerin 9901.0001 til 9901.0009 þegar um útflutning er að ræða. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt hver einstakur hlutur í sendingu kunni að flokkast undir fleiri en eitt tollskrárnúmer samkvæmt 1. til 97. kafla tollskrárinnar. Sem smásendingar í skilningi reglugerðar þessarar má þó ekki tollafgreiða póstsendingar sem í eru vörur sem háðar eru innflutnings- eða útflutningstakmörkunum eða -leyfi en þær skulu tollafgreiddar með venjulegum hætti.

Vörur sem teljast smásendingar í skilningi reglugerðar þessarar tollflokkaðar eru saman skal greiða af aðflutningsgjöld samkvæmt fylgiskjali I, enda svari þær í heild sinni til vörulýsingar einhvers eins af þeim tollskrárnúmerum sem þar eru tilgreind.

Fjármálaráðuneytið getur með auglýsingu breytt viðmiðunarfjárhæð samkvæmt þessum tölulið.

2. Viðtakandi merkir innflytjandi, eigandi eða annar sem veitir innfluttri póstsendingu viðtöku.

2. gr.

Póststjórnin annast tollheimtu vegna póstsendinga.

Tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, annast tolleftirlit með póstsendingum.

II. KAFLI

Tollheimta.

Tollmeðferð og flokkun aðflutningspóstsendinga.

3. gr.

Allar póstsendingar sem fluttar eru til landsins skulu þegar fluttar á Póstmiðstöðina í Reykjavík. Þar skulu þær flokkaðar vegna framsendingar til ákvörðunarpósthúss og þær póstsendingar sem taka ber til tollmeðferðar jafnframt aðgreindar frá öðrum póstsendingum.

4. gr.

Póststarfsmenn skulu annast flokkun aðfluttra póstsendinga vegna tollmeðferðar.

Til tollmeðferðar skal taka þessar póstsendingar:

1. Bréfapóstsendingar og verðpóstsendingar með grænum tollmiða (C1).

2. Bréfapóstsendingar og verðpóstsendingar, sem ætla má að í séu tollskyldar vörur, vörur sem bannaður er innflutningur á, eða vörur, sem ekki má flytja hingað til lands, nema fullnægt sé ákveðnum skilyrðum, svo sem með innflutningsleyfi. þegar svo ber undir skulu póststarfsmenn tilkynna viðkomanda komu sendingarinnar og skora á hann að opna sendinguna í viðurvist póststarfsmanns. Öll önnur bréf skulu afhendast viðtakanda án tollmeðferðar.

3. Alla póstböggla, nema böggla sem samkvæmt utanáskrift eiga að fara til aðila sem undanþegnir eru tollskyldu samkvæmt 1. til 3. tölu. 3. gr. tollalaga (m.a. forseti Íslands og sendiráð, sendiræðismannsskrifstofur, sendierindrekar, sendiræðismenn og kjörræðismenn erlendra ríkja, enda liggi fyrir við afhendingu bögglanna skrifleg yfirlýsing viðkomandi um að vörurnar séu undanþegnar tollskyldu samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum.

Greiðslustaður aðflutningsgjalda.

5. gr.

Aðflutningsgjöld af póstsendingum, sem teknar hafa verið til tollmeðferðar, skal greiða á pósthúsi fyrir afhendingu.

Fullnægja skal öllum skilyrðum um innflutning svo og greiða aðflutningsgjöld að fullu áður en póstsending er afhent viðtakanda, nema heimilt sé að veita honum greiðslufrest vegna álagðra aðflutningsgjalda samkvæmt reglum settum af fjármálaráðherra.

Aðflutningsskýrslur og aðflutningsskjöl.

6. gr.

Viðtakandi póstsendingar, sem tekin er til tollmeðferðar, skal afhenda póststarfsmanni á hlutaðeigandi pósthúsi skriflega aðflutningsskýrslu ásamt vörureikningi og öðrum tollskjölum. Í aðflutningsskýrslunni skal hann veita upplýsingar um hvaða vörur séu í sendingunni, verð þeirra, tollskrárnúmer, aðflutningsgjöld og önnur atriði sem tollskýrslueyðublað gerir ráð fyrir að tilgreind séu. Aðflutningsskýrslan skal vera vélrituð og undirrituð af viðtakanda eða öðrum samkvæmt umboði viðtakanda.

Póststjórnin getur ákveðið að póststarfsmenn aðstoði viðtakendur póstsendinga við gerð aðflutningsskýrslu óski þeir eftir því, enda greiði þeir þóknun fyrir samkvæmt auglýstri gjaldskrá hennar. Aðflutningsskýrsla skal eftir sem áður undirrituð af viðtakanda sem ber ábyrgð á upplýsingum þeim sem veittar eru í aðflutningsskýrslu, sbr. m.a. 16. gr. tollalaga. Auk tollskýrslueyðublaðs E1 er póststjórninni heimilt að nota sérstakt tollskýrslueyðublað E3, sem fyllt skal út af póststarfsmönnum og sent viðtakanda til undirritunar. Póststjórnin skal að höfðu samráði við ríkistollstjóra ákveða hvenær nota má tollskýrslueyðublað E3.

Endurskoðun.

7. gr.

Póststarfsmenn annast endurskoðun aðflutningsskýrslu viðtakanda og ganga úr skugga um að upplýsingar þær sem þar eru veittar og meðfylgjandi tollskjöl séu í samræmi við innihald sendingar m.a. að því er varðar verðmæti og tollflokkun vöru.

Hafi viðtakandi ekki lagt fram með aðflutningsskýrslu tilskilin tollskjöl, eins og vörureikning eða flutningsskírteini, skal skora á hann að bæta úr þeim annmarka innan hæfilegs frests. Geti viðtakandi ekki lagt fram vörureikning af ástæðum sem fullnægjandi eru að mati póststarfsmanna skal vörusendingin metin til tolls samkvæmt ákvæðum tollalaga og reglugerðar settri samkvæmt þeim um ákvörðun tollverðs.

Komi í ljós við endurskoðun póststarfsmanna að upplýsingum, sem veittar eru í aðflutningsskýrslu, ber ekki saman við innihald sendingar eða ekki hefur verið gætt lagaákvæða um innflutningsbann eða -takmarkanir skal yfirmaður á viðkomandi pósthúsi þegar tilkynna það tollstjóra í því tollumdæmi sem pósthús er og afhenda honum málið til ákvörðunar um málsmeðferð. Sama gildir rísi ágreiningur um tollflokkun, tollverð eða annað sem um ræðir í 100. gr. tollalaga eða telji yfirmaður pósthússins að ákvæði tollalaga eða annarra laga um innflutning hafi verið brotin eða grunur þykir leika á um slíkt brot. Póststarfsmaður getur þó leiðrétt augljósar reikningsskekkjur, hvort sem þær snerta einstaka liði í aðflutningsskýrslu eða heildarniðurstöðu, svo og einstaka aðra liði í aðflutningsskýrslu, enda séu óyggjandi upplýsingar fyrir hendi.

8. gr.

Komi í ljós við endurskoðun póststjórnarinnar eða endurskoðunardeildar ríkistollsjóraembættisins að aðflutningsgjöld hafa ekki verið að fullu greidd skal póststjórnin gera ráðstafanir til innheimtu þeirra og má stöðva tollafgreiðslu á öðrum vörusendingum til skuldara þar til aðflutningsgjöld eru að fullu greidd.

9. gr.

Af póstsendingum, sem ekki fara úr vörslum póstsins og endursendar eru til útlanda eða frá útlöndum, skal ekki greiða aðflutningsgjöld.

III. KAFLI

Tolleftirlit.

10. gr.

Tolleftirlit með póstsendingum skal miða að því að fyrirbyggja að ákvæði laga um bann við innflutningi á vörum séu brotin, tryggja að lagaákvæði varðandi innflutningstakmarkanir séu virt og tollskyldar vörur séu færðar til tollafgreiðslu.

Tolleftirlit samkvæmt 1. mgr. skal fara fram með úrtaksathugun og vali með tilliti til áhættuþátta.

Tollstjórinn í Reykjavík ákveður fjölda tollstarfsmanna sem starfi á Póstmiðstöðinni. Póststarfsmenn skulu aðstoða tollyfirvöld við tolleftirlit eftir því sem þurfa þykir og veita þeim aðgang að póstskjölum sem varða viðkomandi póstsendingar. Póststjórnin skal leggja tollstjóra til endurgjaldslaust hæfilega aðstöðu fyrir tollstarfsmenn svo og tæki og búnað sem nauðsynleg geta talist vegna tolleftirlits.

Tollstjórar og tollstarfsmenn þeirra skulu hver í sínu tollumdæmi veita póststarfsmönnum og viðtakendum póstsendinga upplýsingar m.a. um tollflokkun póstendinga sé þess óskað.

Óski póststjórnin eftir aðstoð tollstarfsmanna utan almenns afgreiðslutíma hjá tollstjóra skal póststjórnin greiða allan kostnað sem af því leiðir.

IV. KAFLI

Tollmeðferð útflutningspóstsendinga.

11. gr.

þeir sem selja vörur úr landi og senda í póstsendingu skulu afhenda póststarfsmanni á hlutaðeigandi pósthúsi skriflega útflutningsskýrslu ásamt vörureikningi og öðrum tollskjölum sem leggja ber fram vegna tollafgreiðslu á vörum til útflutnings.

Ákvæði reglugerðar þessarar varðandi aðflutningspóstsendingar skulu gilda eftir því sem við getur átt um útflutningspóstsendingar, m.a. um notkun tollskyrslueyðublaðs E3.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

12. gr.

Póststjórnin skal standa ríkissjóði skil á aðflutningsgjöldum, þ.m.t. virðisaukaskattur, eftir þeim fyrirmælum sem fjármálaráðuneytið setur um skil aðflutningsgjalda, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 530/1975, um reikningsskil innheimtumanna ríkissjóðs.

Póststjórnin skal annast vörslu aðflutnings- og útflutningstollskjala yfir tollafgreiddar póstsendingar og varðveita með öðrum póstskjölum á þann hátt að þau séu ætíð aðgengileg vegna tollendurskoðunar.

Ríkistollstjóri skal hafa eftirlit með tollheimtu og tollafgreiðslu sem póstjórninni er falið að sjá um samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og getur sett nánari framkvæmda- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og verklagsreglum ef þurfa þykir. Póststjórnin skal veita starfsmönnum ríkistollstjóra aðgang að aðflutnings- og útflutningstollskjölum sem hún annast vörslu á svo og veita þeim alla nauðsynlega aðstoð vegna eftirlitsstarfa þeirra.

13. gr.

Póststjórnin skal senda Hagstofu Íslands og ríkistollstjóra upplýsingar úr þeim aðflutnings- og útflutningsskýrslum, sem ekki eru skráðar í tölvukerfi ríkistollstóra, í tölvutæku formi samkvæmt fyrirmælum sem ríkistollstjóri setur að höfðu samráði við Hagstofu Íslands.

14. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar getur m.a. varðað við XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Um meðferð mála vegna brota á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.

15. gr.

Fjármálaráðherra ákveður póststjórninni hæfilegt endurgjald fyrir tollheimtustörf samkvæmt reglugerð þessari.

16. gr.

Tollmeðferð póstsendinga samkvæmt reglugerð þessari telst einfaldari tollmeðferð í skilningi 99. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Póststjórninni er heimilt án sérstaks leyfis að annast tollafgreiðslu á hraðsendingum og gilda ákvæði reglugerðar nr. 327/1990, með síðari breytingum, um slíka tollafgreiðsluhætti eftir því sem við getur átt, sbr. 12. gr. þeirrar reglugerðar.

Að því leyti sem ekki er kveðið á um tollmeðferð vara sem fluttar eru til landsins eða úr landinu sem póstsendingar í skilningi reglugerðar þessarar skulu gilda ákvæði tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.

17. gr.

Reglugerð þessi, sem öðlast 1. október 1992, er sett samkvæmt heimild í 107. og 148 gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Frá sama tíma er úr gildi felld reglugerð nr. 124/1938 um tollmeðferð aðfluttra póstsendinga.

Fjármálaráðuneytið, 19. ágúst 1992.

Friðrik Sophusson

Indriði H. Þorláksson

Fylgiskjal:

sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica