Fjármálaráðuneyti

445/1997

Reglugerð um tollafgreiðslu hraðsendinga. - Brottfallin

1. gr.

                Reglugerð þessi skal gilda um tollafgreiðslu á hraðsendingum (express consignments) sem fluttar eru til landsins í flugi, fyrir milligöngu flutningsmiðlara, í samvinnu við erlend hraðflutningafyrirtæki.

 

2. gr.

                Flutningsmiðlari sem óskar eftir heimild til að annast tollafgreiðslu á hraðsendingum samkvæmt reglugerð þessari skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

1.                             Stunda atvinnurekstur og hafa tilkynnt Hagstofu Íslands um atvinnustarfsemi sína og verið færður á fyrirtækjaskrá, sbr. lög nr. 62/1969.

2.                             Hafa tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

3.                             Hafa að mati tollstjóra sýnt fram á við gerð og frágang aðflutningsskjala að hann hafi til að bera fullnægjandi þekkingu á þeim lögum og reglum sem gilda um tollmeðferð innfluttra vara.

 

3. gr.

                Flutningsmiðlari sem um ræðir í 2. gr. skal í skriflegu erindi til tollstjóra í því umdæmi þar sem hann er heimilisfastur sækja um heimild til að annast tollafgreiðslu á hraðsendingum. Í umsókn skal tilgreina eftirtalin atriði:

1.             Nafn, kennitölu og heimili.

2.             Virðisaukaskattsnúmer.

3.             Hverjir hafi umboð til að skuldbinda flutningsmiðlara, t.a.m. með undirritun aðflutningsskýrslu. Rithandarsýnishorn skulu fylgja umsókn.

                Flutningsmiðlari skal þegar tilkynna tollstjóra allar breytingar sem verða á framangreindum atriðum.

 

4. gr.

                Flutningsmiðlari skal skila með umsókn sinni yfirlýsingu bankastofnunar um að tekin sé skilyrðislaus sjálfskuldarábyrgð á tiltekinni fjárhæð aðflutningsgjalda, þ.m.t. virðisaukaskatti. Ábyrgðin skal auk þess taka til dráttarvaxta og annars kostnaðar sem leiða kann af vanefndum.

                Flutningsmiðlari ákveður fjárhæð ábyrgðar sem jafnframt er hámark þeirrar fjárhæðar aðflutningsgjalda sem heimilað verður að skuldfæra á flutningsmiðlara vegna tollafgreiðslu. Ábyrgðaraðila skal heimilt að segja upp ábyrgðinni með skriflegum hætti og öðlast uppsögnin gildi með skriflegri staðfestingu tollstjóra á móttöku hennar. Tollstjóri skal afturkalla heimild flutningsmiðlara þegar í stað við uppsögn ábyrgðar.

 

5. gr.

                Áður en hraðsendingar eru tollafgreiddar eða afhentar skal flutningsmiðlari láta tollstjóra í té upplýsingar um verðmæti, tegund og þyngd vöru. Heimilt er að veita upplýsingarnar á tölvutæku formi. Ríkistollstjóri setur nánari fyrirmæli um framkvæmd þessa ákvæðis.

                Heimilt er að afhenda hraðsendingar beint frá farmflytjanda án fullnaðartollafgreiðslu.

                Ef innflutningur vöru er háður sérstökum innflutningsskilyrðum, skal sýnt fram á að þeim skilyrðum sé fullnægt, t.d. með framvísun innflutningsleyfis eða heilbrigðisvottorðs.

 

6. gr.

                Hraðsendingar skulu við ákvörðun aðflutningsgjalda flokkaðar sem hér segir:

1.             Eftirfarandi sendingar, enda beri flutningsskjöl eða fylgiskjöl með sér að um slíkar sendingar sé að ræða:

                a.             verðlaus sýnishorn sem ekki hafa neitt viðskiptalegt gildi

b.             hugbúnaðargögn sem send eru án endurgjalds og ætluð eru til þróunar eða hönnunar hugbúnaðar, prófunar, leiðréttingar, uppfærslu eða eru eingöngu nothæf til kynningar og

                c.             verðlaus bréf, bæklingar og prentuð gögn sem ekki hafa neitt viðskiptalegt gildi

                d.             ritað mál sem undanþegið er virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

2.             Sendingar sem eru að fob-verðmæti undir 1.500 kr., en geta ekki fallið undir 1. tölul., enda sé innflytjandi skráður skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

3.             Sendingar sem eru að fob-verðmæti undir 1.500 kr., en geta ekki fallið undir 1. tölul., enda sé innflytjandi ekki skráður skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

4.             Aðrar sendingar.

 

7. gr.

                Um útreikning aðflutningsgjalda og skil á aðflutningsskýrslum vegna hraðsendinga skal fara sem hér segir:

1.             Ekki skal reikna aðflutningsgjöld af vörum sem falla undir 1. tölul. 6. gr. Heimilt skal við fullnaðartollafgreiðslu að skila aðeins einni aðflutningsskýrslu í nafni flutningsmiðlara vegna allra sendinga sem þar falla undir.

2.             Reikna skal 100 kr. í áætluð aðflutningsgjöld af vörum sem falla undir 2. tölul. 6. gr. Heimilt skal við fullnaðartollafgreiðslu að skila aðeins einni aðflutningsskýrslu í nafni flutningsmiðlara vegna allra sendinga sem þar falla undir.

3.             Reikna skal 570 kr. í áætluð aðflutningsgjöld af vörum sem falla undir 3. tölul. 6. gr. Heimilt skal við fullnaðartollafgreiðslu að skila aðeins einni aðflutningsskýrslu í nafni flutningsmiðlara vegna allra sendinga sem þar falla undir.

4.             Af öðrum sendingum skal reikna aðflutningsgjöld með venjulegum hætti. Skila skal aðflutningsskýrslu fyrir hverja sendingu í nafni viðkomandi innflytjanda.

 

8. gr.

                Hafi vara verið afhent án fullnaðartollafgreiðslu skal fullnaðartollafgreiðsla fara fram eigi síðar en sjö dögum eftir afhendingu vörunnar. Aðflutningsgjöld skulu greidd eigi síðar en við fullnaðartollafgreiðslu, hafi þau ekki verið skuldfærð á flutningsmiðlara eða innflytjanda.

                Liggi fullnægjandi tollskjöl yfir einhverja vöru í hraðsendingu ekki fyrir skv. 1. mgr. skal hún tollafgreidd til bráðabirgða.

 

9. gr.

                Verði vanskil af hálfu flutningsmiðlara skal tollstjóri synja miðlara um frekari fyrirgreiðslu vegna hraðsendinga meðan vanskil vara.

                Um innheimtu vangreiddra aðflutningsgjalda fer eftir ákvæðum reglugerðar nr. 61/1989, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum, með síðari breytingum.

 

10. gr.

                Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. september 1997. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 327/1990, um tollafgreiðslu hraðsendinga.

                Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ákvæði 6. og 7. gr. reglugerðarinnar öðlast gildi 1. ágúst 1997.

 

Fjármálaráðuneytinu, 11. júlí 1997.

 

F. h. r.

Bergþór Magnússon.

Hermann Jónasson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica