Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

72/2013

Reglugerð um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vöktun og skýrslugjöf rekstraraðila staðbundinnar starfsemi og flugrekenda vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Reglu­gerðin gildir einnig um vöktun og skýrslugjöf flugrekenda vegna tonnkílómetra í starfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfisins.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Flugrekandi: Aðili sem rekur loftfar og notar það til að stunda flugstarfsemi sem tilgreind er í II. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál eða, ef aðilinn er óþekktur eða ekki tilgreindur af eiganda loftfars, eigandi loftfarsins. Flugrekandi er einnig nefndur umráðandi loftfars.

Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem tilgreindar eru í III. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af manna­­völdum.

Losunarleyfi: Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda sem rekstraraðila ber að hafa til þess að geta stundað starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og sótt um og fengið úthlutað losunarheimildum, sbr. reglugerð um losunarleyfi rekstraraðila í viðskipta­kerfi ESB með losunarheimildir.

Rekstraraðili: Aðili sem starfrækir eða stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar þar sem fram fer starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Smálosandi: Flugrekandi sem annast færri en 243 flugferðir á hverju tímabili í þrjú samfelld fjögurra mánaða tímabil og flugrekandi sem annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 25.000 tonn koldíoxíðs.

Tonnkílómetrar: Flugvegalengd margfölduð með þyngd farms. Með flugvegalengd er átt við stórbaugslengd milli brottfararflugvallar og komuflugvallar auk 95 km staðlaðrar viðbótar. Með þyngd farms er átt við samanlagða þyngd þess sem flutt er af farmi, pósti og farþegum.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahags­svæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, með síðari breytingum, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Viðskiptatímabil: Tímabil, mælt í almanaksárum, sem notað er sem viðmiðun við ákvörðun á heildarfjölda losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

3. gr.

Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Stofnunin tekur ákvarðanir sem varða vöktun og skýrslugjöf eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

Ákvarðanir Umhverfisstofnunar skv. reglugerð þessari eru kæranlegar til ráðherra.

4. gr.

Samræmdar reglur um vöktun og skýrslugjöf á Evrópska efnahagssvæðinu.

Til fyllingar ákvæðum reglugerðar þessarar skulu gilda samræmdar reglur um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

5. gr.

Skylda til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda.

Rekstraraðilum og flugrekendum ber skylda til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Vöktunin skal byggjast á samþykktri vöktunaráætlun skv. 6. og 7. gr. reglugerðar þessarar og vera í samræmi við meginreglur og aðferðafræði sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskipta­kerfi ESB með los­unar­heimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

6. gr.

Vöktunaráætlun rekstraraðila vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Rekstraraðilar skulu senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna losunar gróðurhúsa­lofttegunda frá starfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunar­heimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Vöktunaráætlun skal fylgja umsókn um losunarleyfi sem send skal Umhverfisstofnun skv. reglugerð um losunarleyfi rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Form og efni vöktunaráætlunar skal uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Um málsmeðferð Umhverfisstofnunar vegna yfirferðar og samþykkis vöktunaráætlunar gilda eftir því sem við á ákvæði reglugerðar um losunarleyfi rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Ef breytingar verða á starfsemi, eldsneytisnotkun, hráefnanotkun eða vöktunaraðferðum rekstraraðila, ef breytingar verða á reglum sem um vöktunaráætlun gilda eða ef vökt­unar­áætlun uppfyllir af öðrum ástæðum ekki lengur skilyrði reglugerðar þessarar skal rekstrar­aðili, að eigin frumkvæði eða að kröfu Umhverfisstofnunar, gera viðeigandi breytingar á áætluninni. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers konar breytingar á vöktunar­áætlun og eru verulegar breytingar háðar samþykki stofnunarinnar. Rekstraraðilum er heimilt að uppfæra vöktunaráætlun án þess að gefa þurfi út nýtt losunarleyfi.

7. gr.

Vöktunaráætlun flugrekenda vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.

Flugrekendur skulu senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna losunar gróðurhúsa­loftteg­unda frá flugstarfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Vöktunaráætlun skal berast Umhverfisstofnun a.m.k. fjórum mánuðum áður en flugrekandi hefur flugstarfsemi sem getið er í II. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál. Ef ekki var unnt að sjá fyrir með fjögurra mánaða fyrirvara að flugstarfsemi félli undir II. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skal flugrekandi senda vöktunaráætlun án tafar frá því að það verður ljóst, en ekki síðar en sex vikum eftir að flugstarfsemin fer fram. Ef ljóst verður, í kjölfar óvissu um hvaða ríki er umsjónarríki flugrekanda, að hann heyrir undir umsjón Ísland skv. reglugerð um hvaða flugrekendur heyra undir umsjón Íslands í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skal flugrekandi senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun án tafar frá því að það verður ljóst.

Form og efni vöktunaráætlunar skal uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Ef Umhverfisstofnun telur formgalla á vöktunaráætlun skal hún gera flugrekanda grein fyrir því sem fyrst og gefa honum hæfilegan frest til að bæta úr. Vöktunaráætlun telst hafa borist Umhverfisstofnun á þeim degi þegar flugrekandi hefur bætt úr viðkomandi annmörkum.

Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um hvort vöktunaráætlun er samþykkt eins fljótt og verða má eftir að hún berst. Ef Umhverfisstofnun telur skilyrði ekki uppfyllt fyrir samþykki vöktunaráætlunar skal stofnunin tilkynna flugrekanda um að fyrirhugað sé að hafna vöktunaráætlun og upplýsa um ástæður þess. Flugrekanda skal veittur tveggja vikna frestur til að gera nauðsynlegar úrbætur eða andmæla afstöðu Umhverfisstofnunar. Ef Umhverfis­stofnun telur skilyrði enn ekki uppfyllt fyrir samþykki vöktunaráætlunar að frestinum liðnum skal hún hafna vöktunaráætlun.

Ef breytingar verða á starfsemi, eldsneytisnotkun eða vöktunaraðferðum flugrekanda, ef breytingar verða á reglum sem um vöktunaráætlanir gilda eða ef vöktunaráætlun uppfyllir af öðrum ástæðum ekki lengur skilyrði reglugerðar þessarar skal flugrekandi, að eigin frumkvæði eða að kröfu Umhverfisstofnunar, gera viðeigandi breytingar á áætluninni. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers konar breytingar á vöktunaráætlun og eru veru­legar breytingar háðar samþykki stofnunarinnar.

8. gr.

Vöktunaráætlun flugrekenda vegna tonnkílómetra.

Flugrekendur sem hyggjast sækja um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skv. 18. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skulu senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna tonnkílómetra í starfsemi sinni. Þeir skulu vakta tonnkílómetra í starfsemi sinni á vöktunarári í samræmi við slíka áætlun. Vöktunarár skv. þessari málsgrein er það almanaksár sem lýkur 24 mánuðum fyrir upphaf viðkomandi viðskiptatímabils.

Flugrekendur sem hyggjast sækja um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skv. 19. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skulu senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna tonnkílómetra í starfsemi sinni. Þeir skulu vakta tonnkílómetra í starfsemi sinni á vöktunarári í samræmi við slíka áætlun. Vöktunarár skv. þessari málsgrein er annað almanaksár yfir­standandi viðskiptatímabils.

Vöktunaráætlun skv. 1. og 2. mgr. skal berast Umhverfisstofnun a.m.k. fjórum mánuðum fyrir upphaf viðkomandi vöktunarárs.

Form og efni vöktunaráætlunar skal uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Ef Umhverfisstofnun telur formgalla á vöktunaráætlun skal hún gera flugrekanda grein fyrir því sem fyrst og gefa honum hæfilegan frest til að bæta úr. Vöktunaráætlun telst hafa borist Umhverfisstofnun á þeim degi þegar flugrekandi hefur bætt úr viðkomandi annmörkum.

Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um hvort vöktunaráætlun er samþykkt eins fljótt og verða má eftir að hún berst. Ef Umhverfisstofnun telur skilyrði ekki uppfyllt fyrir samþykki vöktunaráætlunar skal stofnunin tilkynna flugrekanda um að fyrirhugað sé að hafna vöktunaráætlun og upplýsa um ástæður þess. Flugrekanda skal veittur tveggja vikna frestur til að gera nauðsynlegar úrbætur eða andmæla afstöðu Umhverfisstofnunar. Ef Umhverfis­stofnun telur skilyrði enn ekki uppfyllt fyrir samþykki vöktunaráætlunar að frestinum liðnum skal hún hafna vöktunaráætlun.

Ef breytingar verða á starfsemi, eldsneytisnotkun eða vöktunaraðferðum flugrekanda, ef breytingar verða á reglum sem um vöktunaráætlanir gilda eða ef vöktunaráætlun uppfyllir af öðrum ástæðum ekki lengur skilyrði reglugerðar þessarar skal flugrekandi, að eigin frum­kvæði eða að kröfu Umhverfisstofnunar, gera viðeigandi breytingar á áætluninni. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers konar breytingar á vöktunaráætlun og eru veru­legar breytingar háðar samþykki stofnunarinnar.

9. gr.

Skýrslugjöf um losun gróðurhúsalofttegunda.

Rekstraraðilar og flugrekendur skulu árlega skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda á undangengnu almanaksári frá starfsemi sem heyrir undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Skýrslan skal berast Umhverfisstofnun í síðasta lagi 31. mars ár hvert. Umhverfisstofnun er þó heimilt að krefjast þess að skýrslunni sé skilað fyrr, þó ekki fyrr en 28. febrúar. Umhverfisstofnun skal í slíkum tilvikum tilkynna rekstraraðila eða flugrekanda um kröfu sína í síðasta lagi 30. nóvember árið á undan og tilgreina ástæður þess að heimildin er nýtt. Ákvörðun um breyttan skilafrest skal ná til allra rekstraraðila eða allra flugrekenda sem senda Umhverfisstofnun skýrslu á viðkomandi ári. Skilafrestur þarf þó ekki að vera sá sami fyrir rekstraraðila og flugrekendur.

Form og efni skýrslunnar skal uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Skýrslan skal vottuð af óháðum vottunaraðila í samræmi við ákvæði reglugerðar um vottun og viðurkenningu vottunaraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Umhverfisstofnun er heimilt að fara fram á að skýrslunni í heild eða einstökum gögnum sé skilað á rafrænu formi sem stofnunin ákveður.

10. gr.

Skýrslugjöf um tonnkílómetra.

Flugrekendur sem hyggjast sækja um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skv. 18. eða 19. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skulu skila skýrslu til Umhverfisstofnunar um fjölda tonnkílómetra í starfsemi sinni á vöktunarári.

Skýrslan skal berast Umhverfisstofnun í síðasta lagi 31. mars á því ári sem kemur á eftir viðkomandi vöktunarári.

Form og efni skýrslunnar skal uppfylla kröfur sem kveðið er á um í samræmdum reglum um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Skýrslan skal vottuð af óháðum vottunaraðila í samræmi við ákvæði reglugerðar um vottun og viðurkenningu vottunaraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Umhverfisstofnun er heimilt að fara fram á að skýrslunni í heild eða einstökum gögnum sé skilað á rafrænu formi sem stofnunin ákveður.

11. gr.

Heimild smálosenda til að áætla eldsneytisnotkun.

Flugrekendum sem teljast smálosendur er heimilt að áætla eldsneytisnotkun með aðstoð sérhæfðra reiknivéla sem þróaðar hafa verið til að einfalda skýrslugjöf í viðskiptakerfinu. Skilyrði þess er að Umhverfisstofnun hafi veitt samþykki sitt fyrir notkun viðkomandi reikni­vélar.

12. gr.

Heimild Umhverfisstofnunar til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda.

Ef skýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda hefur ekki borist frá rekstraraðila eða flug­rekanda fyrir þann frest sem tilgreindur er í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar þessarar, eða ef skýrslan er ófullnægjandi eða hefur ekki verið vottuð, skal Umhverfisstofnun áætla losun viðkomandi rekstraraðila eða flugrekanda á undangengnu almanaksári miðað við mestu mögulegu losun í viðkomandi starfsemi. Slík áætlun skal gerð þrátt fyrir að rekstraraðili eða flugrekandi hafi staðið skil á losunarheimildum í samræmi við skýrslu sem síðar reynist ófullnægjandi, þó ekki lengra aftur í tímann en sem nemur yfirstandandi viðskiptatímabili.

Umhverfisstofnun skal tilkynna rekstraraðila eða flugrekanda um fyrirhugaða áætlun með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og gefa honum kost á að bæta úr annmörkum eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun um áætlun er tekin. Kærufrestur vegna ákvörðunar um áætlun er tvær vikur frá því að hún er tekin.

13. gr.

Almenn upplýsingaskylda.

Umhverfisstofnun er heimilt að krefja rekstraraðila og flugrekendur um allar upplýsingar sem stofnunin þarf á að halda til að meta hvort skyldur laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og reglugerðar þessarar hafi verið efndar á fullnægjandi hátt.

Umhverfisstofnun skal veita rekstraraðila eða flugrekanda hæfilegan frest til að afhenda upplýsingar skv. 1. mgr. og skal tilgreina ástæður þess að upplýsinganna er krafist.

14. gr.

Þagnarskylda starfsmanna.

Starfsfólk Umhverfisstofnunar sem sinnir verkefnum skv. reglugerð þessari er bundið trúnaði um allar trúnaðarupplýsingar sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara. Undir trúnaðarupplýsingar heyra m.a. upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni rekstraraðila eða flugrekanda. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Rekstraraðilar og flugrekendur geta óskað eftir því að litið verði á tilteknar upplýsingar sem sendar eru Umhverfisstofnun skv. reglugerð þessari sem trúnaðarupplýsingar. Ef ósk berst um afhendingu slíkra upplýsinga er Umhverfisstofnun óheimilt að afhenda þær nema rekstraraðila eða flugrekanda hafi verið veittur a.m.k. sjö daga frestur til að tjá sig um framkomna beiðni.

15. gr.

Innleiðing EES-gerða.

Eftirfarandi EES-gerðir skulu öðlast gildi hér á landi:

a)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 601/2012 frá 21. júní 2012 um vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölulið 21apg, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 235/2012, frá 31. desember 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í fylgiskjali 1 við reglugerð þessa.

b)

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 606/2010 frá 9. júlí 2010 um samþykki á einfölduðu tæki sem Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu (Euro­control) hefur þróað til að áætla eldsneytisnotkun tiltekinna umráðenda loftfara sem losa lítið, sem vísað er til í tölulið 21ape, III. kafla, XX. viðauka samnings­ins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2012, frá 28. september 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 29. nóvember 2012, 2012/EES/67/55, bls. 520-521.16. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 13. gr., 6. mgr. 18. gr., 9. mgr. 19. gr. og 7. mgr. 21. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 4. janúar 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica