Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

595/1997

Reglugerð um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. - Brottfallin

Almenn ákvæði.

1. gr.

                Heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur skv. 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða skv. umsókn þeim sem eru búsettir hér á landi og eiga lögheimili hér enda uppfylli þeir önnur skilyrði fyrir greiðslu þessara bóta.

 

2. gr.

                Umsækjendum er skylt að gefa allar nauðsynlegar upplýsingar og skýringar og skila inn umbeðnum gögnum til þess að hægt sé að ákvarða bætur eða endurskoða bótarétt.

                Um meðferð umsóknar og afgreiðslu gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

 

3. gr.

                Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins skipar þriggja manna samráðsnefnd sem lífeyrisdeild stofnunarinnar getur leitað álits hjá áður en úrskurðað er um umsókn um uppbætur skv. reglugerð þessari.

 

Heimilisuppbót.

4. gr.

                Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar skv. lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögun við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað heimilisuppbót að fjárhæð kr. 12.792 á mánuði.

                Eigi einhleypingur rétt á skertri tekjutryggingu skv. lögum um almannatryggingar er heimilt að greiða honum skerta heimilisuppbótina í sama hlutfalli og eftir sömu reglum og gilda um skerðingu tekjutryggingar vegna tekna.

 

5. gr.

                Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

1.             Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis, vegna sambýlis við aðra óskylda aðila, skyldmenni eða venslafólk.

2.             Ef umsækjandi hefur sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3.             Ef umsækjandi leigir herbergi/húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.

 

6. gr.

                Nú vistast maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á stofnun og er þá heimilt, skv. umsókn að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu slíkrar uppbótar skv. 4. og 5. gr.

 

Sérstök heimilisuppbót.

7. gr.

                Heimilt er að greiða einhleypingi, sem hefur eingöngu tekjur úr lífeyristryggingum almannatrygginga eða nýtur félagslegrar aðstoðar sveitarfélaga, til viðbótar heimilisuppbót sérstaka heimilisuppbót að fjárhæð kr. 6.257 á mánuði enda uppfylli hann að öðru leyti öll skilyrði til greiðslu óskertrar heimilisuppbótar skv. 4. og 5. gr.

                Aðrar tekjur einhleypingsins skerða sérstöku heimilisuppbótina krónu fyrir krónu uns hún fellur niður við mánaðartekjur að fjárhæð kr. 6.257.

 

Frekari uppbætur.

8. gr.

                Heimilt er að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér skal taka tillit til eigna og tekna bótaþega, þar á meðal bóta almannatrygginga og kostnaðar sbr. 2. mgr. Frekari uppbætur skulu þó aldrei greiddar til lífeyrisþega sem á eignir í peningum eða verðbréfum yfir 2.500.000 kr., eða hefur heildartekjur, að meðtöldum bótum almannatrygginga yfir 88.970 kr. á mánuði.

                Frekari uppbætur er heimilt að greiða vegna:

1.             Mikils umönnunarkostnaðar, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki.

2.             Verulegs sjúkra- eða lyfjakostnaðar, sem sjúkratryggingar greiða ekki.

3.             Húsaleigu, sem fellur utan húsaleigubóta.

4.             Vistunarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum, sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti.

 

9. gr.

                Hámark uppbótar skal vera sem hér segir:

1.             Lífeyrisþegi, sem er í hjúskap eða óvígðri sambúð: 90%.

2.             Lífeyrisþegi, sem býr einn og er á eigin vegum og nýtur heimilisuppbótar: 70%.

3.             Lífeyrisþegi, sem er einhleypur og nýtur umönnunar: 120%.

4.             Lífeyrisþegi, sem nýtur sérstakrar heimilisuppbótar: 35%.

                Ef einhleypur lífeyrisþegi, sem nýtur umönnunar, getur sýnt fram á verulegan umönnunar-, sjúkra- eða lyfjakostnað sem sjúkratryggingar greiða ekki, og/eða greiðir húsaleigu, er þó heimilt að greiða honum allt að 140% uppbót. Heimilt er að greiða lífeyrisþega, sem nýtur sérstakrar heimilisuppbótar og frekari uppbótar skv. 2. og 3. tl. 8. gr. allt að 50% uppbót.

 

10. gr.

                Ákvarðanir um greiðslu frekari uppbóta skulu að jafnaði vera tímabundnar. Séu gögn ekki tiltæk Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að fara þess á leit við þann sem nýtur frekari uppbótar að hann skili gögnum til staðfestingar því að skilyrði til áframhaldandi greiðslu frekari uppbótar séu fyrir hendi.

                Tryggingastofnun semur drög að vinnureglum um ákvarðanir og mat á greiðslu frekari uppbóta. Reglurnar skulu sendast Tryggingaráði og öðlast þær gildi við staðfestingu þess.

 

Gildistaka o.fl.

11. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt 13. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð og öðlast gildi 1. nóvember 1997. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð nr. 59/1996 ásamt síðari breytingum.

                Fjárhæð tekjumarks skv. 8. gr. í reglugerð þessari tekur breytingum í réttu hlutfalli við hækkun bóta lífeyristrygginga.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 16. október 1997.

 

Ingibjörg Pálmadóttir.

Jón Sæmundur Sigurjónsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica