1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um vasapeninga skv. 8. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar og 24. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Einnig gildir reglugerðin um dagpeninga skv. 9. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
2. gr.
Dvöl á sjúkrastofnun og dvalarheimili.
Heimilt er að greiða vasapeninga samkvæmt reglugerð þessari til lífeyrisþega, sem á lögheimili hér á landi og dvelst á sjúkrastofnun í skilningi laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, enda hafi lífeyrir hans fallið niður sökum þess að dvölin hefur verið lengri en sex mánuðir undanfarna tólf mánuði. Einnig er heimilt að greiða vasapeninga til heimilismanns ef lífeyrir hans hefur fallið niður vegna dvalar á stofnun fyrir aldraða.
3. gr.
Fangelsisvist.
Ef lífeyrisþegi er dæmdur til fangelsisvistar eða á annan hátt úrskurðaður til dvalar á stofnun og lífeyrisgreiðslur til hans hafa verið felldar niður af þeim sökum er heimilt að greiða honum vasapeninga þegar sérstaklega stendur á. Skal í því sambandi litið til kostnaðar vegna sérstakra aðstæðna fanga, svo sem sjúkdóms, skertrar starfsgetu, náms eða endurhæfingar. Með umsókn skal fylgja rökstuðningur fyrir þörf á greiðslu vasapeninga og eftir atvikum gögn sem staðfesta kostnað viðkomandi.
4. gr.
Umsóknir.
Hlutaðeigandi stofnanir eða viðkomandi einstaklingar sækja um vasapeninga til Tryggingastofnunar ríkisins á til þess gerðum eyðublöðum.
Tryggingastofnun ríkisins og hlutaðeigandi stofnanir skulu gera heimilismönnum ítarlega grein fyrir heimild til greiðslu vasapeninga.
Hlutaðeigandi stofnanir skulu gera Tryggingastofnun ríkisins þegar í stað grein fyrir öllum breytingum á dvöl sem haft geta áhrif á framkvæmd reglugerðarinnar.
5. gr.
Fjárhæð vasapenginga.
Fjárhæð vasapeninga er 50.000 kr. á mánuði. 65% af tekjum viðkomandi dragast frá fjárhæð vasapeninga og falla greiðslur alveg niður við tekjur sem nema 923.076 kr. á ári.
Með tekjum er átt við tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og um tekjuútreikning fer samkvæmt sömu grein.
Ef tekjur hlutaðeigandi eru af vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu eða starfsendurhæfingu, er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki áhrif til lækkunar vasapeninga svo framarlega sem þær fara ekki yfir 812.774 kr. á ári og sama gildir um tekjur í formi hlunninda og annarra greiðslna en peninga. Tekjur skv. 1. málsl. sem fara umfram 812.774 kr. á ári lækka vasapeninga um 65%.
6. gr.
Dvöl utan stofnunar.
Dveljist einstaklingur sem fær greidda vasapeninga samkvæmt reglugerð þessari utan stofnunar nokkra daga í senn, en útskrifast samt ekki, er heimilt að greiða honum dagpeninga sem séu ekki lægri en 2.650 kr. á dag þann tíma sem hann er utan stofnunar, þó að hámarki átta daga í mánuði.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 70. gr., sbr. 10. mgr. 48. gr., laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 213/1991, um greiðslur vasapeninga sjúkratryggðra, með síðari breytingum.
Velferðarráðuneytinu, 23. apríl 2013.
Guðbjartur Hannesson.
Ágúst Þór Sigurðsson.