Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

213/1991

Reglugerð um greiðslur vasapeninga sjúkratryggðra. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til greiðslu vasapeninga skv. reglugerð þessari eiga allir elli- og örorkulífeyrisþegar, sem sjúkratryggðir eru hér á landi og dveljast á sjúkrastofnun í skilningi laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, enda hafi lífeyrir þeirra fallið niður sökum þess að dvölin hefur verið lengri en 4 mánuðir undanfarna 24 mánuði.

2. gr.

Hlutaðeigandi stofnanir, sbr. 1. gr. og/eða rétthafi eftir atvikum skulu sækja um vasapeninga á eyðublöðum, sem Tryggingastofnun ríkisins lætur gera. Skulu stofnanirnar gera vistmönnum ítarlega grein fyrir þessum réttindum.

Hlutaðeigandi stofnanir skulu gera sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins grein fyrir öllum breytingum á vistun, sem haft geta áhrif á framkvæmd reglugerðarinnar tímanlega, verði því við komið, og alls ekki seinna en þegar þær eiga sér stað.

3. gr.

Upphæð vasapeninga er kr. 10 000,00 á mánuði. Tekjur að kr. 3 000,00 á mánuði (3 000,00 x 12 = 36 000,00 á ári) skerða ekki þessa upphæð. Tekjur umfram kr. 3 000,00 skerða vasapeninga um 65% þeirra tekna, sem umfram eru. Vasapeningar falla þó alveg niður við 15 000,00 kr. tekjur á mánuði (15 000,00 x 12 = 180 000,00).

4. gr.

Launatekjur vegna starfa á vegum hlutaðeigandi stofnunar, sem eru þáttur í endurhæfingu eða starfslegri hæfingu, t.d. föndur, skerða ekki vasapeninga svo fremi þær fara ekki yfir fjárhæðir frítekjumarks tekjutryggingar, kr. 14 800,00 á mánuði (12 x 14 800,00 = 177 600,00 á ári). Laun í formi annarra greiðslna en peninga, svo og hlunnindi teljast jafngild.

Tekjur umfram frítekjumark skerða vasapeninga í samræmi við 3. gr.

Launatekjur skv. þessari grein hafa ekki áhrif á skerðingarmörk og hlutfall skv. 3. gr.

5. gr.

Heimilt er að greiða vasapeninga sem nemur tvöföldum sjúkradagpeningum kr. 1 008,80 fyrir hvern dag sem sjúklingur dvelst tímabundið utan stofnunar, án þess að útskrifast. Í slíkum tilvikum skal liggja fyrir umsókn sjúklings og vottorð sjúkrastofnunar. Greiðslur fara fram mánaðarlega eftir á.

6. gr.

Reglugerð þessi gildir einnig um greiðslu vasapeninga til þeirra sem dveljast á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 19. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, með síðari breytingum.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 67/1971 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júlí 1991.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 29. apríl 1991.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica