Hverjum þeim sem á hús, húshluta, lóð, jörð eða aðra fasteign á Austur-Héraði eða leigir slíka eign sem holræsi hefur verið lagt í og tengt er fráveitu í eigu sveitarfélagsins ber að greiða árlegt holræsagjald til sveitarsjóðs.
Upphæð holræsagjalds skal vera 0,15% af fasteignamati allra húsa og lóða samkvæmt lögum um fasteignamat og fasteignaskráningu nr. 94/1976, með síðari breytingum.
Sé ekkert mannvirki á lóðinni eða mannvirki eru ekki tengd fráveitu í eigu sveitarfélagsins greiðist ekkert holræsagjald. Holræsagjald skal fyrst greiða fyrsta heila almanaksárið eftir að byggingafulltrúi hefur staðfest fokheldi mannvirkis.
Holræsagjald greiðist af hús- og íbúðareiganda, lóðareiganda ef um eignarlóð eða eignarland er að ræða, en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða, og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Gjaldið hefur lögtaksrétt og er tryggt með veði í lóð og mannvirkjum næstu 2 ár eftir gjalddaga þess með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði án tillits til eigendaskipta.
Um gjalddaga og innheimtu holræsagjalds fer með sama hætti og um fasteignaskatt, enda skulu gjöld þessi innheimt sameiginlega.
Reglugerð þessi, sem er samþykkt af bæjarstjórn Austur-Héraðs, staðfestist hér með samkvæmt X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 og öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um holræsagjöld í Egilsstaðabæ nr. 469/1977, sbr. reglugerð nr. 372/1994.