Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

78/1997

Reglugerð um skráningu ökutækja. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um skráningu ökutækja.

 

Skilgreiningar.

1. gr.

                Ökutækjaskrá: Opinber skrá yfir ökutæki sem skráð hafa verið hér á landi.

                Skráning ökutækis: Ákvörðun skráningarstofu um að skrá ökutæki til notkunar hér á landi.

                Forskrá: Skrá tengd ökutækjaskrá yfir ökutæki sem bíða þess að verða skráð.

                Afskráning: Ákvörðun um að ökutæki hafi verið tekið úr notkun, sé ónothæft eða hafi verið flutt úr landi.

                Endurskráning: Skráning ökutækis sem áður hefur verið afskráð.

                Skráningarstofa: Skráningarstofa ökutækja sem annast skráningu ökutækja samkvæmt umferðarlögum.

                Skoðunarstofa: Faggilt skoðunarstofa fyrir ökutæki.

                Skráningarflokkur: Flokkur ökutækja sem hefur sömu litasamsetningu á skráningarmerki.

 

Skráningarskylda.

2. gr.

                Skráningarskyld ökutæki eru:

a.             bifreiðir,

b.             bifhjól,

c.             torfærutæki,

d.             dráttarvélar,

e.             eftirvagnar bifreiða og dráttarvéla sem gerðir eru fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, þó ekki eftirvagnar bifreiða á beltum eða dráttarvéla sem nær eingöngu eru notaðir utan opinberra vega,

f.              hjólhýsi og tjaldvagnar.

                Sérreglur gilda um:

a.             notkun erlendra ökutækja,

b.             notkun ökutækja um stundarsakir og

c.             ökutæki varnarliðs Bandaríkjanna.

 

3. gr.

                Eigandi ökutækis eða sá sem á vegum eigandans hefur umráð þess, t.d. innflytjandi eða framleiðandi, ber ábyrgð á því að ökutæki sé skráð.

 

Ökutækjaskrá.

4. gr.

                Skráningarstofa annast skráningu ökutækja og heldur ökutækjaskrá.

 

5. gr.

                Í ökutækjaskrá skal færa upplýsingar um ökutækið sjálft og um eiganda þess, svo og um umráðamann ökutækis, t.d. samkvæmt eignarleigu- eða afnotasamningi, sem veitir umráðamanni rétt í tiltekinn tíma, a.m.k. eitt ár.

                Ökutæki skulu skráð í fastnúmerakerfi, með tveim bókstöfum og þrem tölustöfum, samkvæmt nánari reglum sem skráningarstofa setur.

                Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um ökutækjaskrá, þar sem fram kemur hvaða upplýsingar skuli færðar í skrána.

 

6. gr.

                Þegar skráningarskylt ökutæki er flutt til landsins skal innflytjandi þess afhenda skráningarstofu eða aðila í umboði hennar gögn um ökutækið þannig að færa megi það í forskrá. Ökutæki skal því aðeins fært í forskrá að líkur séu á, samkvæmt mati skráningarstofu, að það uppfylli settar reglur um gerð og búnað.

                Innflytjandi ökutækis skal í forskrá tilgreindur sem umráðamaður þess. Skráningarstofu er heimilt að tilgreina eiganda ökutækis í forskrá áður en ökutækið verður skráð.

 

Skilyrði skráningar.

7. gr.

                Áður en ökutæki er tekið í notkun skal það hafa verið skráð á eiganda (umráðamann), skráningarskírteini gefið út og skráningarmerki fest á það.

                Skráningarskylt ökutæki má þó, án þess að það hafi verið skráð, nota til að flytja það milli staða, til reynsluaksturs eða kynningarstarfsemi eða í sambandi við skráningu. Skal ökutækið þá búið reynslumerki sem skráningarstofa lætur í té. Notkun reynslumerkis í öðrum tilgangi er óheimil.

 

8. gr.

                Beiðni um skráningu ökutækis skal senda skráningarstofu eða aðila í umboði hennar á eyðublaði sem skráningarstofa lætur í té.

                Áður en ökutæki er skráð skal það hafa hlotið skráningarviðurkenningu, nema því fylgi yfirlýsing um að það sé í samræmi við íslenska gerðarviðurkenningu eða samræmingarvottorð um EBE heildargerðarviðurkenningu. Frá 1. janúar 1998 er óheimilt að skrá fólksbifreið á grundvelli íslenskrar gerðarviðurkenningar.

                Um viðurkenningu skráningarskyldra ökutækja fer að öðru leyti samkvæmt viðauka.

 

9. gr.

                Ef bifreið eða eftirvagn uppfyllir ákvæði EBE tilskipunar nr. 70/156 er varða heildargerðarviðurkenningu, með breytingum í tilskipun nr. 92/53 og síðari breytingum, skal ökutækið fá skráningu hér á landi gegn framvísun samræmingarvottorðs og án þess að krafist sé frekari vottorða um ástand þess eða búnað.

 

10. gr.

                Áður en ökutæki er skráð skal eigandi þess, eða sá sem á vegum hans hefur umráð yfir því, leggja fram gögn um að greidd hafi verið af ökutækinu tilskilin opinber gjöld og það tryggt lögmæltri vátryggingu.

 

Skráningarskírteini.

11. gr.

                Skráningarstofa gefur út skráningarskírteini sem gert skal samkvæmt fyrirmælum dómsmálaráðuneytisins. Eitt skráningarskírteini skal ávallt fylgja hverju ökutæki.

                Skráningarskírteinið skal vera í samræmi við þær upplýsingar sem skráðar eru í ökutækjaskrá. Öðrum en skráningarstofu er óheimilt að breyta skráningarskírteini eða færa á það viðbótarupplýsingar.

 

Almenn skráningarmerki.

12. gr.

                Skráð ökutæki skal búið skráningarmerki/skráningarmerkjum sem skráningarstofa lætur í té.

                Stafir á skráningarmerkjum skulu vera hinir sömu og eru í fastnúmeri hvers ökutækis, sbr. þó skv. 19. - 21. gr. og 34. og 35. gr.

                Ökutæki, önnur en þau sem undanþegin eru því að bera stafi á skráningarmerki og eru í fastnúmeri, skulu bera sama skráningarmerki meðan þau eru í sama skráningarflokki í ökutækjaskrá. Ef forsendur skráningar breytast, þannig að ökutæki er flutt milli skráningarflokka, skal skipta um skráningarmerki á því.

 

13. gr.

                Skráningarmerki skulu vera úr 1,0-1,5 mm þykku áli. Grunnur skal vera með endurskini. Stafir, rönd á brúnum og flötur fyrir skoðunarmiða skulu vera upplyftir. Skráningarmerki af gerð A, B og D skulu hafa upplyftan flöt fyrir skjaldarmerki sveitarfélags eða sýslu, þó ekki skráningarmerki skv. 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. sem þess í stað skulu hafa upplyftan tígullaga flöt.

                Gerð skráningarmerkja skal vera sem hér segir:

A.            Stærð 520 x 110 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.

B.            Stærð 280 x 200 mm, hæð stafa 70 mm og breidd stafleggja 11 mm.

C.            Stærð 240 x 130 mm, hæð stafa 49 mm og breidd stafleggja 7 mm.

D.            Stærð 305 x 155 mm, hæð stafa 61 mm og breidd stafleggja 9 mm.

E.             Stærð 140 x 116 mm, hæð stafa 42 mm og breidd stafleggja 6 mm.

                Skráningarmerki af gerð A skulu hafa áletrun í einni röð. Önnur skráningarmerki skulu hafa áletrun í tveim röðum, bókstafir í þeirri efri og tölustafir í þeirri neðri. Flötur fyrir skjaldarmerki skal vera framan við bókstafi en flötur fyrir skoðunarmiða aftan við þá.

                Skráningarmerki skal nota á ökutæki samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Skráningarstofa ákveður nánar hvaða gerð skráningarmerkis skal nota á hvert einstakt ökutæki, innan hvers ökutækjaflokks.

 

14. gr.

                Á bifreið skulu vera tvö skráningarmerki, að framan og að aftan. Grunnur skráningarmerkis skal vera með hvítu endurskini með stöfunum ÍS í vatnsmerki, en rönd á brúnum blá og stafir bláir. Á bifreið, sem lýtur reglum um innskatt vegna virðisaukaskatts, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð um innskatt, skal litur á brúnum og stöfum, svo og á tígullaga fletinum, þó vera rauður, og á námubifreið skal litur á brúnum, stöfum og á tígullaga fletinum vera grænn.

                Nota skal skráningarmerki af gerð A skv. 13. gr. Þó skal nota skráningarmerki af gerð B að aftan ef merki af gerð A hentar þar ekki. Ef bifreið er hönnuð þannig að merkjum af gerð A og B verði ekki með góðu móti komið fyrir samkvæmt því sem að framan greinir skal nota merki af gerð D að framan og að aftan.

 

15. gr.

                Á bifhjóli skal vera skráningarmerki að aftan. Grunnur skráningarmerkis skal vera með hvítu endurskini með stöfunum ÍS í vatnsmerki, en rönd á brúnum blá og stafir bláir.

                Á bifhjólum skal skráningarmerkið vera eins og tilgreint er í 13. gr. og af gerð C. Á léttum bifhjólum skal merkið þó vera af gerð E.

 

16. gr.

                Á dráttarvél skal vera skráningarmerki að aftan. Heimilt er að hafa skráningarmerkið að framan ef því verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan. Skráningarmerkið skal vera eins og kveðið er á um í 13. gr. og af gerð C. Grunnur skráningarmerkis skal vera með hvítu endurskini með stöfunum ÍS í vatnsmerki, en rönd á brúnum blá og stafir bláir.

 

17. gr.

                Á torfærutæki skal vera skráningarmerki að aftan. Heimilt er að hafa skráningarmerkið að framan ef því verður ekki með góðu móti komið fyrir að aftan. Skráningarmerkið skal vera eins og kveðið er á um í 13. gr. og af gerð E. Grunnur skráningarmerkis skal vera með hvítu endurskini með stöfunum ÍS í vatnsmerki, en rönd á brúnum blá og stafir bláir.

 

18. gr.

                Á skráðum eftirvagni og skráðu tengitæki skal vera skráningarmerki að aftan. Skráningarmerkið skal vera eins og á bifreiðum og af gerð A. Verði því ekki við komið skal nota skráningarmerki af gerð B eða D.

                Eigandi bifreiðar sem er með samþykktan tengibúnað fyrir eftirvagn eða tengitæki getur fengið skráningarmerki sem ætlað er á hið óskráða ökutæki sem bifreiðin dregur. Á slíku ökutæki skal vera eitt skráningarmerki að aftan. Skráningarmerkið skal vera með sömu stöfum og skráningarmerki bifreiðarinnar en án litaðra, upplyftra brúna. Skráningarmerkið skal vera af gerð A, verði því með góðu móti komið fyrir, annars af gerð B eða D. Upplyfti flöturinn fyrir skoðunarmiða skal vera blár.

 

Sérstök skráningarmerki.

19. gr.

                Ökutæki embættis forseta Íslands skulu í stað skráningarmerkis auðkennd með merki forseta Íslands á hvítum fleti, auk númers.

 

20. gr.

                Skráningarmerki á ökutækjum erlendra sendiráða og erlendra sendiráðsmanna, svo og maka þeirra og barna, sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar og eiga ekki lögheimili hér á landi, skulu vera eins og kveðið er á um í 13. gr. Endurskinsflötur skal vera grænn en stafir hvítir og rönd á brúnum hvít. Bókstafirnir skulu vera CD og í stað þriggja tölustafa í almennri skráningu skal vera einn bókstafur og tveir tölustafir samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðuneytið setur.

 

21. gr.

                Að ósk eiganda bifreiðar eða bifhjóls er heimilt að láta í té sérstök skráningarmerki (einkamerki) er komi í stað skráningarmerkis skv. 13. - 15. gr., þó ekki á bifreið sem lýtur reglum um innskatt vegna virðisaukaskatts né á námubifreið.

                Áletrun á einkamerki skal vera 2 - 6 bókstafir og/eða tölustafir að vali eiganda ökutækisins. Einkamerki má þó hvorki bera áletrun sem er tveir bókstafir og þrír tölustafir né sömu áletrun og skráningarmerki ökutækis af eldri gerð sem er í notkun. Áletrun á einkamerki má hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera fallin til að valda hneykslun eða geta haft í för með sér óþægindi fyrir aðra. Skráningarstofa setur nánari reglur um áletrun á einkamerkjum.

                Umsókn um einkamerki skal leggja fram á þar til gerðu eyðublaði. Við úthlutun einkamerkja skal farið eftir röð, þannig að sá sem fyrst sækir skriflega um ákveðna áletrun, hlýtur réttinn. Ákvörðun skráningarstofu verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

                Einkamerki skulu vera af gerð A, B, C eða D, eftir því sem við á, sbr. 14. og 15. gr. Þau skulu þó vera án upplyfts flatar fyrir skjaldarmerki og flötur fyrir skoðunarmiða skal vera framan við áletrunina.

                Réttur til að nota einkamerki er háður því að kaupandi réttarins sé skráður eigandi að hlutaðeigandi bifreið eða bifhjóli og að eldri skráningarmerki ökutækisins verði afhent skráningarstofu eða aðila í umboði hennar um leið og einkamerkin eru látin í té. Réttur til að hafa einkamerki á ökutæki gildir í átta ár. Réttinn má ekki framselja. Réttinn má framlengja enda sé sótt um það áður en gildistíminn rennur út, en þó ekki fyrr en þrem mánuðum áður en hann rennur út. Heimilt er að ósk eiganda að flytja einkamerki yfir á annað ökutæki í hans eigu.

 

22. gr.

                Þegar eigendaskipti verða að ökutæki með einkamerki, eða bifreið með einkamerki er tekin í notkun sem virðisaukaskattsbifreið, skal það þegar tilkynnt skráningarstofu eða aðila í umboði hennar. Skal rétthafi merkjanna þá afhenda þau skráningarstofu eða aðila í umboði hennar til varðveislu og fellur réttur hans til þeirra niður þegar ár er liðið frá innlagnardegi.

                Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. eru eigendaskipti ökutækja með einkamerki heimil án þess að skipt sé um skráningarmerki:

a.             við eigendaskipti milli hjóna,

b.             þegar maki við andlát hins makans eða við lögskilnað eða skilnað að borði og sæng yfirtekur ökutæki sem skráð er á nafn hins makans,

c.             þegar einstaklingur yfirtekur ökutæki sem er skráð á nafn sambúðarmanns eða -konu, enda hafi sambúð þeirra verið skráð síðustu fimm árin,

d.             þegar einstaklingur við andlát yfirtekur ökutæki sem er skráð á nafn hins látna, enda hafi hlutaðeigandi haldið saman heimili síðustu tvö árin fyrir andlátið, eða

e.             þegar einstaklingur við slit á skráðri sambúð yfirtekur ökutæki sem skráð er á nafn sambúðarmanns eða -konu, enda hafi sambúðin varað síðustu fimm árin áður en sambúðarslit urðu.

 

23. gr.

                Reynslumerki ökutækja skal vera eins og kveðið er á um í 13. gr. og af gerð A, en má þó vera styttra. Endurskinsgrunnur skal vera rauður en rönd á brúnum svört og stafir svartir.

 

Önnur merki.

24. gr.

                Heimilt er að auðkenna skráð ökutæki með skjaldarmerki sveitarfélags eða sýslu á reit sem til þess er ætlaður á skráningarmerki og skal stærð merkis miðast við stærð reitsins. Skráningarstofa ákveður gerð merkjanna.

 

25. gr.

                Heimilt er að auðkenna ökutæki að aftan íslensku þjóðernismerki. Ökutæki sem skráð er hér á landi og ekið erlendis skal búið þjóðernismerki að aftan.

                Þjóðernismerki skal vera sporöskjulagað, 175 mm á breidd og 115 mm á hæð, með bókstöfunum ÍS. Grunnur merkisins skal vera hvítur og stafir svartir, 80 mm á hæð.

 

Notkun skráningarmerkja.

26. gr.

                Skráningarmerkjum skal komið fyrir á þar til gerðum stað þar sem þau sjást vel og þau tryggilega fest. Eigi má hylja þau eða hluta þeirra. Heimilt er þó að hafa skráningarmerki í þar til gerðum ramma. Ramminn skal hafa sama lit og stafir skráningarmerkisins.

                Skráningarmerki skulu ávallt vera sýnileg og vel læsileg. Skylt er að endurnýja skráningarmerki ef það verður ógreinilegt eða ónothæft. Þegar nýtt skráningarmerki er afhent í stað annars skal skila hinu eldra merki til skráningarstofu eða aðila í umboði hennar, nema það hafi glatast.

                Nú glatast skráningarmerki og skal það þegar tilkynnt skriflega til skráningarstofu eða aðila í umboði hennar og nýtt skráningarmerki pantað. Finnist skráningarmerki sem hefur glatast skal því komið til skráningarstofu eða aðila í umboði hennar svo fljótt sem við verður komið.

 

27. gr.

                Skráningarmerki og önnur merki sem ætluð eru á ökutæki má eigi nota með öðrum hætti en fyrir er mælt.

                Óheimilt er að festa á ökutæki merki, áletranir eða önnur auðkenni ef hætta er á að villst verði á þeim og heimiluðum merkjum.

                Óheimilt er að festa á skráningarmerki annað en skoðunarmiða, sbr. 1. mgr. 13. gr., og merki skv. 24. gr.

 

Eigendaskipti.

28. gr.

                Nú verða eigendaskipti að ökutæki og skal þá bæði hinn fyrri og hinn nýi eigandi innan 7 daga senda skráningarstofu skriflega tilkynningu um eigendaskiptin. Sama á við um breytingu á skráningarskyldum umráðum ökutækis.

                Eigendaskipti skal tilkynna á eyðublaði sem gert er samkvæmt fyrirmælum dómsmálaráðuneytisins og skráningarstofa lætur í té.

                Skráningarstofa gefur út nýtt skráningarskírteini fyrir ökutækið að fenginni tilkynningu um eigendaskiptin.

 

Breyting á ökutæki.

29. gr.

                Ef búnaður ökutækis er ekki lengur í samræmi við skráðan ökutækisflokk, ökutækinu eða notkun þess hefur verið breytt frá því sem tilgreint er í skráningarskírteini eða á eða við ökutækið hefur verið festur búnaður sem kallar á breytta skráningu, skal ökutækið fært til skoðunar hjá skoðunarstofu innan 7 daga.

                Skráningarstofa gefur út nýtt skráningarskírteini fyrir ökutækið að fenginni viðurkenningu skoðunarstofu á breytingunum.

 

Tímabundin stöðvun á notkun ökutækis.

30. gr.

                Lögreglan skal taka skráningarmerki af ökutæki ef lögmælt vátrygging ökutækisins er fallin úr gildi, sbr. reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar.

                Lögreglan getur einnig tekið skráningarmerki af ökutæki ef:

a.             vanrækt hefur verið að tilkynna eigendaskipti að ökutæki,

b.             ökutæki er ekki fært til skoðunar þegar krafist er,

c.             ökutæki er til hættu fyrir umferðaröryggi,

d.             vanrækt er að greiða þungaskatt af ökutæki eða bifreiðagjald samkvæmt reglum þar um.

                Lögreglan skal samdægurs tilkynna skráningarstofu um bann við notkun ökutækis.

                Skráningarmerki sem tekið er af ökutæki skal afhent skráningarstofu eða aðila í umboði hennar sem varðveita skal merkið í a.m.k. eitt ár.

 

31. gr.

                Óski eigandi ökutækis eftir að taka ökutækið tímabundið úr notkun getur hann lagt skráningarmerki þess inn til vörslu hjá skráningarstofu eða aðila í umboði hennar sem varðveitir merkin í a.m.k. eitt ár.

 

Afskráning.

32. gr.

                Nú vill eigandi skráðs ökutækis fá það afskráð og skal það því aðeins gert að ólíklegt megi telja að ökutækið verði tekið í notkun á ný.

                Skráningarstofu eða aðila í umboði hennar er heimilt að afskrá ökutæki án samþykkis eiganda þess ef það uppfyllir ekki settar reglur um öryggisbúnað og vart er talið mögulegt að koma ökutækinu í lögmælt ástand. Tilkynna skal skráðum eiganda um fyrirhugaða afskráningu.

                Þegar ökutæki er afskráð skal eigandi þess afhenda skráningarstofu eða aðila í umboði hennar skráningarmerkin, og skal þeim fargað.

                Skráningarstofa skal halda sérstaka skrá, tengda ökutækjaskrá, yfir ökutæki sem hafa verið afskráð.

 

Endurskráning.

33. gr.

                Nú hefur ökutæki verið afskráð en eigandi þess vill fá það skráð að nýju. Skal hann þá senda skráningarstofu eða aðila í umboði hennar skriflega umsókn um það áður en hann færir ökutækið til skráningarskoðunar fyrir endurskráningu. Ef í ljós kemur að það uppfyllir, samkvæmt skoðunarskýrslu frá skoðunarstofu, allar kröfur sem gerðar eru um gerð og búnað ökutækja frá þeim tíma þegar ökutækið var skráð í fyrsta sinn að viðbættum þeim afturvirku kröfum um búnað ökutækja sem settar hafa verið síðan og eiga við þá gerð ökutækja og gögn hafa verið lögð fram um að greidd hafi verið af ökutækinu tilskilin opinber gjöld og að það hafi verið tryggt lögmæltri vátryggingu, og skal skráningarstofa skrá ökutækið að nýju og gefa út nýtt skráningarskírteini. Ef í ljós kemur að um er að ræða endurbyggt ökutæki, sem að mati skráningarstofu jafngildir nýju ökutæki, ber að skrá það sem nýtt ökutæki. Áður en ökutækið er tekið í notkun skal festa á það skráningarmerki.

 

Notkun eldri skráningarmerkja.

34. gr.

                Ökutæki sem skráð voru fyrir 1. janúar 1989 mega áfram bera skráningarmerki af eldri gerð, enda séu merkin heil og vel læsileg. Bifhjól og eftirvagnar mega þó ekki bera skráningarmerki af eldri gerð lengur en til 31. desember 1997 og önnur ökutæki ekki lengur en til 31. desember 1998.

                Ef eigandi ökutækis, sem ber skráningarmerki af eldri gerð, óskar að fá á ökutæki sitt skráningarmerki skv. 12. -18. gr. skal láta honum þannig merki í té enda ber honum að skila hinu eldra merki til skráningarstofu eða aðila í umboði hennar, nema það hafi glatast.

 

35. gr.

                Skráningarstofa getur heimilað að bifreið beri, í stað skráningarmerkja skv. 12. -14. gr., skráningarmerki af gerð sem notuð var fram til 1937 og á tímabilinu 1938-1949. Til þess að bifreið megi bera þessi merki skal hún vera af árgerð 1949 eða eldri og skal gerð merkja vera í samræmi við árgerð bifreiðarinnar. Skráningarstofa kveður nánar á um gerð skráningarmerkjanna og áletrun þeirra með hliðsjón af reglum er giltu um hinar eldri gerðir skráningarmerkja.

 

Gildistaka.

36. gr.

                Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 60., 64., 64. gr. a og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum, svo og með hliðsjón af 1. og 45.f tölul. I. hluta og 1. tölul. II. hluta II. viðauka við EES samninginn, öðlast gildi 4. febrúar 1997.

                EB gerðir sem vísað er til eru birtar í sérritunum EES gerðir S4, bls. 1-30 og S5, bls. 1-21, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, og í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 2, bls. 297-387.

                Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um skráningu ökutækja, nr. 523 15. desember 1988, með síðari breytingum, svo og 3. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, nr. 411 11. nóvember 1993.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 30. janúar 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W. Stefánsson.

 

 

 

 

VIÐAUKI

 

Um viðurkenningu skráningarskyldra ökutækja.

 

Almenn ákvæði.

1. gr.

                Við gerðarviðurkenningu eða skráningarviðurkenningu ökutækis skal gengið úr skugga um að búnaður þess sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða.

 

Skilgreiningar.

2. gr.

                Framleiðandi:

                Aðili sem framleiðir ökutæki.

 

                Fulltrúi:

                Aðili sem ábyrgist innflytjanda/framleiðanda gagnvart skráningarstofu varðandi gerðarviðurkenningar og skráningu ökutækja.

 

                Gerð:

                Framleiðsluflokkur ökutækja frá sama framleiðanda með svipaða eiginleika að því er varðar burðarvirki, undirvagn og aflrás og eru innan sama ökutækjaflokks.

 

                Gerðarviðurkenning:

                Almenn viðurkenning, bundin tiltekinni gerð ökutækis, á því að heimilt sé að skrá ökutæki af viðkomandi gerð. Þar sem orðið gerðarviðurkenning kemur fyrir í þessum viðauka er átt við íslenska þjóðargerðarviðurkenningu, nema annað sé tekið fram.

 

                Heildargerðarviðurkenning:

                Gerðarviðurkenning á ökutækjum, byggð á tilskipun EBE nr. 70/156, með síðari breytingum, sem gildir í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

 

                Samræmingarvottorð:

                Staðfesting á samræmi á milli ökutækis og tiltekinnar heildargerðarviðurkenningar.

 

                Skráningarviðurkenning:

                Viðurkenning, bundin við eitt ökutæki, á því að heimilt sé að skrá viðkomandi ökutæki.

 

                Söluumboð:

                Aðili sem rekur viðskipti með ökutæki í umboði innflytjanda eða innlends framleiðanda.

 

                Tegund:

                Nafn ökutækis, ákvarðað af framleiðanda.

 

                Undirtegund:

                Orð, bókstafir eða tölur sem eru fest utan á ökutækið eða fram koma í upplýsingum framleiðanda, og eru ekki tegund þess.

 

                Viðbótarviðurkenning:

                Viðurkenning á búnaði sem ekki er í gerð ökutækis sem hlotið hefur gerðarviðurkenningu.

 

                Þjóðargerðarviðurkenning:

                Gerðarviðurkenning sem bundin er við eitt aðildarríki EES.

 

Heildargerðarviðurkenning ökutækja.

3. gr.

                Heildargerðarviðurkenning skal aðeins veitt raðsmíðaðri nýrri fólksbifreið. Umsókn um slíka viðurkenningu skal skilað til skráningarstofu. Um umsókn um heildargerðarviðurkenningu fer að öllu öðru leyti samkvæmt 3. gr. EBE tilskipunar nr. 70/156, með breytingum í tilskipun nr. 92/53.

                Frá 1. janúar 1998 er óheimilt að veita gerð fólksbifreiðar annarskonar gerðarviðurkenningu en EBE heildargerðarviðurkenningu.

 

4. gr.

                Um framkvæmd heildargerðarviðurkenningar fer að öllu leyti samkvæmt 4. gr. EBE tilskipunar nr. 70/156, með breytingum í tilskipun nr. 92/53.

 

5. gr.

                Um framkvæmd breytingar á heildargerðarviðurkenningu fer að öllu leyti samkvæmt 5. gr. EBE tilskipunar nr. 70/156, með breytingum í tilskipun nr. 92/53.

 

6. gr.

                Um útgáfu samræmingarvottorðs fer að öllu leyti samkvæmt 6. gr. EBE tilskipunar nr. 70/156, með breytingum í tilskipun nr. 92/53.

 

7. gr.

                Sækja skal um skráningu á grundvelli heildargerðarviðurkenningar til skráningarstofu. Með umsókn skal fylgja samræmingarvottorð, svo og heildargerðarviðurkenning, liggi hún ekki fyrir hjá skráningarstofu. Ökutækið skal fært til skráningarstofu, eða aðila í umboði hennar, þar sem viðeigandi skoðunarmiði er límdur á skráningarmerki þess. Jafnframt því skal gengið úr skugga um samræmi milli skráningarmerkja, skráningar og verksmiðjunúmers ökutækisins. Varðandi nánari framkvæmd skráningarinnar, vísast til 7. gr. EBE tilskipunar nr. 70/156, með breytingum í tilskipun nr. 92/53.

 

Gerðarviðurkenning ökutækja.

8. gr.

                Gerðarviðurkenning skal aðeins veitt raðsmíðuðum nýjum ökutækjum. Sækja má um gerðarviðurkenningu á:

                -               bifreið, að undanskilinni fólksbifreið, sbr. þó ákvæði 3. gr.,

                -               bifhjóli,

                -               torfærutæki,

                -               dráttarvél,

                -               skráningarskyldum eftirvagni,

                -               skráningarskyldu tengitæki.

                Heimilt er að samþykkja þjóðargerðarviðurkenningu frá öðru aðildarríki EES, þar sem gerðarviðurkenningin er framkvæmd á fullnægjandi hátt að mati skráningarstofu, sem íslenska gerðarviðurkenningu fyrir ökutæki í einum af ofangreindum ökutækisflokkum.

                Þjóðargerðarviðurkenning dráttarvélar sem framkvæmd er á grundvelli EBE tilskipunar nr. 74/150 með síðari breytingum, og þjóðargerðarviðurkenning bifhjóls sem framkvæmd er á grundvelli EBE tilskipunar nr. 92/61, skal samþykkt sem íslensk gerðarviðurkenning.

 

9. gr.

                Um umsókn um gerðarviðurkenningu gildir:

                a.             Sækja skal um gerðarviðurkenningu til skráningarstofu. Aðili sem sækir um gerðarviðurkenningu, umsækjandi, skal senda tilkynningu til skráningarstofu um það hver eða hverjir séu fulltrúar hans og hafi umboð til að skuldbinda hann.

                b.             Fulltrúi skal hljóta viðurkenningu skráningarstofu. Hann skal hafa góða þekkingu á lögum og reglum er varða skráningu ökutækja og skal ennfremur vera vel að sér um þá ábyrgð og þær skyldur sem gerðarviðurkenning hefur í för með sér.

                c.             Umsókn um gerðarviðurkenningu skal senda á þar til gerðu eyðublaði sem er undirrituð af fulltrúa. Umsóknin skal vera vélrituð, nákvæmlega og fullkomlega útfyllt og henni skulu fylgja tilskilin gögn.

                d.             Við fyrstu umsókn um gerðarviðurkenningu skal fylgja skrá yfir söluumboð umsækjanda, nafn fyrirtækis og heimilisfang ásamt nafni og kennitölu þeirra aðila sem fulltrúi heimilar að afgreiði ökutæki í sínu nafni. Breytingar skal þegar tilkynna skráningarstofu.

 

10. gr.

                Skráningarstofa metur hvort gögn varðandi gerðarviðurkenningu eru fullnægjandi. Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn um gerðarviðurkenningu:

                a.             Teikning með öllum aðalmálum. Ef um hópbifreið er að ræða, skal teikningin vera málsett og í mælikvarðanum 1:20 eða 1:25, í hliðar- og ofanvarpi, og sýna skipan farþegasvæðis, stærð og staðsetningu farangursgeymslna, ásamt fyrirkomulagi og stærð útganga, sbr. 8. og 11. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja.

                b.             Myndir sem sýna ökutækið annarsvegar á ská framan frá og aðra hliðina, og hinsvegar á ská aftan frá og hina hliðina.

                c.             Leiðbeiningabók eða sambærilegar upplýsingar.

                d.             Upplýsingar um merkingu hvers tákns eða samstöðu tákna í verksmiðjunúmeri og gerðarnúmeri.

                e.             Kerfismynd af hemlakerfi ásamt nægjanlega ítarlegri lýsingu á vinnsluferli þess. Sé ökutækið búið hleðslustýrðum hemlajöfnunarloka skulu fylgja upplýsingar um þrýsting hemlalofts eða hemlavökva frá hemlajöfnunarloka miðað við hleðslu.

                f.              Staðfestingar eða vottorð frá framleiðanda ökutækisins um

                                -               að viðkomandi gerð ökutækisins uppfylli þau skilyrði í reglugerð um gerð og búnað ökutækja sem þarfnast skriflegra staðfestinga og talin eru upp í viðauka II við þá reglugerð,

                                -               burðargetu einstakra ása og leyfða heildarþyngd,

                                -               mestu leyfðu heildarþyngd eftirvagns/tengitækis, með og án hemla, sem tengja má við ökutækið,

                                -               slagrými og afköst hreyfils ökutækisins.

 

11. gr.

                Krefjast má viðgerðarbókar, teikninga, útreikninga og annarra upplýsinga, svo sem staðfestinga eða vottorða umfram það sem tilgreint er í 10. gr. í þeim mæli sem skráningarstofa telur hagkvæmt að leggja til grundvallar fyrir gerðarviðurkenningu í stað þess að prófa sjálft ökutækið. Framleiðandi eða óháður rannsóknaraðili skal gefa út slíka staðfestingu eða vottorð.

 

12. gr.

                Staðfestingu, vottorð og önnur gögn frá framleiðanda/innflytjanda skal fulltrúi undirrita og stimpla með nafni umsækjanda.

 

13. gr.

                Um ökutæki sem fært er til skoðunar fyrir þjóðargerðarviðurkenningu í skoðunarstofu gildir:

                a.             Fulltrúi skal færa til skoðunar ökutæki af þeirri gerð sem sótt er um viðurkenningu á.

                b.             Ökutæki það sem fært er til skoðunar skal vera í eftirfarandi ásigkomulagi:

                                -               hreint að utan sem innan. Límmiðar og áletranir á rúðum eða annars staðar á ökutækinu skulu vera fjarlægðir,

                                -               frágengið á sama hátt og viðskiptavinur fær það í hendur en án ryðvarnar hérlendis. Ástand þess og búnaður skal vera í samræmi við ákvæði í lögum og reglugerðum að því marki sem umsækjandi getur metið slíkt,

                                -               eldsneytisgeymir skal vera fullur og önnur vökvaforðabúr með rétt vökvamagn,

                                -               hreyfill, aflrás, stýrisbúnaður, hjólaupphengjur, hjól o.fl. skulu vera stillt eftir fyrirmælum framleiðanda. Ljós skulu vera stillt samkvæmt gildandi reglum.

                c.             Ökutækið skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

 

14. gr.

                Gerðarviðurkenning skal gefin út af skráningarstofu til umsækjanda og gildir fyrir ökutæki af sömu gerð og það sem fært var til skoðunar. Aðili sem gerðarviðurkenningin er gefin út á ábyrgist að skyldur sem hana varða verði haldnar.

 

15. gr.

                Gerðarviðurkenning gildir á meðan þau ökutæki sem viðurkenningin á við taka engum breytingum sem kalla á nýja gerðarviðurkenningu eða viðbótarviðurkenningu. Sá sem gerðarviðurkenningin er gefin út á skal tilkynna skráningarstofu skriflega um breytingar. Skráningarstofa ákveður hvort þá verður krafist nýrrar gerðarviðurkenningar eða viðbótarviðurkenningar.

                Ekki skal gefa út viðbótarviðurkenningu ef fimm ár eða meira eru liðin frá upphaflegum útgáfudegi gerðarviðurkenningar.

 

16. gr.

                Þegar fulltrúi óskar eftir að fá ökutæki skráð á grundvelli gerðarviðurkenningar skal hann senda skráningarstofu beiðni um það ásamt eftirfarandi yfirlýsingu:

                "Ökutækið er í samræmi við gerðarviðurkenningu nr. ........ að því er varðar hönnun, innréttingu og búnað. Ökutækið hefur verið skoðað og prófað og er í lögmæltu ástandi. Þetta á einnig við um ljósastillingu. Verksmiðjunúmer ökutækisins og aðrar upplýsingar eru í samræmi við skráningarbeiðni."

                Fulltrúi ber ábyrgð á að ökutæki sé í lögmæltu ástandi þegar hann óskar eftir að fá ökutækið skráð.

 

17. gr.

                Skráningarstofa hefur eftirlit með að ökutæki sem skrá skal samkvæmt gerðarviðurkenningu sé í samræmi við lýsingu viðkomandi gerðarviðurkenningar.

                Að auki gildir:

                a.             Skráningarstofa getur lagt fyrir óháðan rannsóknaraðila að prófa einstaka hluti eða búnað á gerðarviðurkenndu ökutæki.

                b.             Umsækjandi skal færa þann fjölda ökutækja til skoðunar hjá óháðum rannsóknaraðila sem skráningarstofa fer fram á.

                c.             Ökutæki sem færa skal til prófunar skal vera nýtt frá verksmiðju og í samræmi við viðkomandi gerðarviðurkenningu.

                d.             Skráningarstofa metur niðurstöður rannsóknar frá rannsóknaraðila og ber saman við staðfestingar eða vottorð sem framleiðandi/innflytjandi leggur fram vegna gerðarviðurkenningar.

 

18. gr.

                Skráningarstofa getur afturkallað gerðarviðurkenningu ökutækis í tiltekinn tíma, hafi við skráningu og/eða athugun eftirfarandi komið í ljós:

                -               hönnun, innrétting eða búnaður ökutækisins víkur frá því sem fram kom við umsókn um gerðarviðurkenningu

                -               mörg ökutæki sömu gerðarviðurkenningar reynast gölluð eða í ófullnægjandi ástandi.

                Skráningarstofa getur krafist þess að öll ökutæki sem tilheyra tiltekinni gerðarviðurkenningu skuli innan tiltekins tíma færð til skoðunar hjá skoðunarstofu eða óháðum rannsóknaraðila ef í ljós kemur að eitt þeirra er ekki í samræmi við gerðarviðurkenninguna.

                Ef ástæða er til að ætla að mörg ökutæki sömu gerðarviðurkenningar séu gölluð eða í ófullnægjandi ástandi, getur skráningarstofa krafið framleiðanda/innflytjanda um að endurbæta öll skráð ökutæki þessarar gerðarviðurkenningar þannig að þau verði í lögmæltu ástandi.

 

19. gr.

                Skráningarstofu er óheimilt án samþykkis hlutaðeigandi að nota fylgigögn með gerðarviðurkenningu fyrir aðra en þann sem gerðarviðurkenningin var gefin út á.

 

Skráningarviðurkenning ökutækja.

20. gr.

                Skráningarviðurkenningu er heimilt að veita öllum skráningarskyldum ökutækjum.

 

21. gr.

                Sækja skal um skráningarviðurkenningu til skráningarstofu eða aðila í umboði hennar. Skráningarástand ökutækis skiptist í eftirfarandi flokka:

                1.             Nýtt ökutæki. Ökutæki telst vera nýtt hafi það ekki verið skráð almennri skráningu eða ef því hefur verið ekið minna en 1000 km.

                2.             Notað ökutæki sem skráð hefur verið almennri skráningu í ríki þar sem ökutæki eru ekki skráð á fullnægjandi hátt að mati skráningarstofu. Einnig þau ökutæki sem ekki falla undir aðra flokka þessarar greinar.

                3.             Notað ökutæki, annað en fólksbifreið, sem skráð hefur verið almennri skráningu í öðru aðildarríki EES. Notað ökutæki sem skráð hefur verið almennri skráningu í ríki utan EES, þar sem ökutæki eru skráð á fullnægjandi hátt að mati skráningarstofu, og er ekki eldra en 10 ára miðað við almanaksárið.

                4.             Notað ökutæki með leyfða heildarþyngd 5000 kg eða minna sem skráð hefur verið almennri skráningu erlendis í eigu hlutaðeiganda og flutt til landsins sem hluti af búslóð hans.

                5.             Notað ökutæki með leyfða heildarþyngd 5000 kg eða minna sem orðið er a.m.k. 25 ára, annað en eftirvagn.

                6.             Notuð fólksbifreið sem skráð hefur verið almennri skráningu í öðru aðildarríki EES.

 

22. gr.

                Skráningarstofa metur hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu eru fullnægjandi. Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn um skráningarviðurkenningu, eftir skráningarástandi:

                1.             a.             Staðfesting eða vottorð frá framleiðanda ökutækisins um

                                                I               að viðkomandi gerð ökutækisins uppfylli þau skilyrði í reglugerð um gerð og búnað ökutækja sem þarfnast skriflegra staðfestinga og talin eru upp í viðauka II við þá reglugerð,

                                                II             burðargetu einstakra ása og leyfða heildarþyngd,

                                                III            slagrými og afköst hreyfils ökutækisins,

                                                IV            framleiðsluár ökutækisins.

                                b.             Upplýsingar um merkingu hvers tákns eða samstöðu tákna í verksmiðjunúmeri og gerðarnúmeri (model code).

                                c.             Með hópbifreið skal fylgja málsett teikning í mælikvarðanum 1:20 eða 1:25, í hliðar- og ofanvarpi, sem sýnir skipan farþegasvæðis, stærð og staðsetningu farangursgeymslna, ásamt fyrirkomulagi og stærð útganga, sbr. 8. og 11. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja.

                                d.             Með eftirvagni sem er yfir 5000 kg að leyfðri heildarþyngd, og skráningarskyldu tengitæki, skal fylgja teikning af ökutækinu með öllum aðalmálum.

                                e.             Með eftirvagni sem er yfir 5000 kg að leyfðri heildarþyngd skal fylgja kerfismynd af hemlakerfi.

                2.             a.             Erlent skráningarskírteini ökutækisins, eða gögn sem skráningarstofa telur sambærileg, sem staðfestir erlenda skráningu ökutækisins.

                                b.             Sömu gögn og í lið 1. Fullnægjandi er ef áskilið atriði í lið 1a kemur fram á gögnum í a-lið.

                3.             a.             Erlent skráningarskírteini ökutækisins, eða gögn sem skráningarstofa telur sambærileg, sem staðfestir erlenda skráningu ökutækisins.

                                b.             Sömu gögn og í liðum 1a II-IV, 1c og 1d. Fullnægjandi er ef áskilið atriði í lið 1a kemur fram á gögnum í a-lið.

                4.             a.             Erlent skráningarskírteini ökutækisins, eða samsvarandi fylgiskjal að mati skráningarstofu.

                                b.             Sömu gögn og í liðum 1a II-IV, 1c og 1d. Fullnægjandi er ef áskilið atriði í lið 1a kemur fram á gögnum í a-lið.

                5.             a.             Erlent skráningarskírteini, eða gögn um aldur og lögmætan eiganda ökutækisins.

                                b.             Sömu gögn og í liðum 1a II-IV, 1c og 1d. Fullnægjandi er ef áskilið atriði í lið 1a kemur fram á gögnum í a-lið.

                6.             a.             Erlent skráningarskírteini ökutækisins, eða samsvarandi fylgiskjal að mati skráningarstofu.

                                b.             Sömu gögn og í liðum 1a II-IV. Fullnægjandi er ef áskilið atriði kemur fram á gögnum í a-lið.

 

23. gr.

                Með umsókn um skráningu ökutækis á grundvelli skráningarviðurkenningar eru eftirfarandi kröfur gerðar, miðað við skráningarástand, til gerðar og búnaðar ökutækisins. Framvísa skal skoðunarvottorði frá skoðunarstofu, nema annað sé tekið fram:

                1.             Ökutækið skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Þessar kröfur teljast uppfylltar standist ökutækið skráningarskoðun samkvæmt Skoðunarhandbók og nánari reglum skráningarstofu.

                2.             Sömu kröfur og í lið 1.

                3.             Ökutækið skal fullnægja öllum kröfum sem gerðar voru til slíks ökutækis hér á landi þegar það var fyrst skráð erlendis, að viðbættum afturvirkum kröfum um gerð og búnað ökutækja. Þessar kröfur teljast uppfylltar standist ökutækið skráningarskoðun samkvæmt Skoðunarhandbók og nánari reglum skráningarstofu.

                4.             Sömu kröfur og í lið 3.

                5.             Sömu kröfur og í lið 3.

                6.             Ekki skal skráningarskoða ökutækið, heldur er límdur á skráningarmerki þess viðeigandi skoðunarmiði að teknu tilliti til stöðu almennrar skoðunar ökutækisins í því aðildarríki EES þar sem ökutækið var síðast skráð. Jafnframt skal gengið úr skugga um samræmi milli skráningarmerkja, skráningar og verksmiðjunúmers ökutækisins.

 

24. gr.

                Við viðurkenningu til skráningar á beltabifreið skal ekki gera kröfur um staðfestingu eða vottorð skv. 22. gr. Framvísa skal upplýsingum um merkingu tákna í verksmiðjunúmeri. Kröfur um búnað skulu uppfylltar samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja, eftir því sem við á.

 

25. gr.

                Við viðurkenningu til skráningar á námubifreið skal ekki gera kröfur um staðfestingu eða vottorð skv. 22. gr. Framvísa skal upplýsingum um merkingu tákna í verksmiðjunúmeri. Kröfur um búnað skulu uppfylltar samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja, eftir því sem við á.

 

26. gr.

                Skráningarstofu er óheimilt án samþykkis hlutaðeigandi að nota fylgigögn með skráningarviðurkenningu fyrir aðra en þann sem skráningarviðurkenningin er gefin út á.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica